Færsluflokkur: Bloggar

Guggan verður alltaf gul og gerð út frá Ísafirði

"Guggan verður alltaf gul og gerð út frá Ísafirði." - Í þessari setningu kristallast heilieindin á bak við kvótakerfið okkar Íslendinga. Ofan á allt þetta kefi bætast mannréttindabrot og nauðungarflutningar.

Einn Íslendingur, Ásmundur Jóhannsson,  einn af fáum sjáfstæðum Íslendingum hefur skorið upp herör gegn óréttlætinu. Hann er að "sprengja" sig að samningaborðinu með því að róa kvótalaus frá 18. júní.

Á netinu er hafin undirskriftasöfnun til stuðnings Ásmundar.

 

Sælt veri fólkið,

Hér ber að líta undirskriftarsöfnun til stuðnings við verk Ásmunds Jóhannssonar. Um er að ræða mótmæli við mannréttindabrotum sem kvótakerfið stendur fyrir. Ásmundur gengur hreint til verks og gengur gegn þeim ólögum sem stjórnvöld standa fyrir. Sýnum þessum góða manni stuðning og mun þessi undirskriftarlisti verða afhent stjórnvöldum.

Undirskriftalistinn er hér: http://www.petitiononline.com/asmundur/petition.html

Hvet alla til að skrifa sig á listann og einnig að lesa góða grein í Fréttablaðinu í dag á bls. 27, eftir sjómannsekkjuna Urði Ólafsdóttur, "Hvar eru þið, sjómenn og sjómannskonur?"  Þar lýsir hún eftir sjálfstæðum og stoltum Íslendinum.


Lifi ísbjörninn

Nú vantar alveg almennilegan dýragarð hér á Íslandi.  Auðvitað á að reyna allt til að ná dýrinu lifandi. Ef við getum ekki hýst það, þá á bara einfaldlega að senda það heim til sín aftur. Þó það kosti eina ríkustu þjóð veraldar nokkrar krónur, þá er fordæmið gott. Bera virðingu fyrir náttúrinni.

Þessi atburður leiðir hugann að hugarflugi sem ég átti eitt sinn en ég var undir miklum áhrifum af gróillum í Loro Park á  Tenerife. Þar voru fimm karlgórillur í góðu búri en þær eru í útrýmingarhættu. Aðeins til um 700 stykki í þessum hættulega heimi. Því kom hugmyndin upp um ísbjarnarbúgarð í ríki Vatnajökuls. Ein pælingin var að senda birnina á jökul á veturna. Þessi ísbjarnadýragarður gæti trekkt að ferðamenn og ekki yrði hann óvinsæll ef nýr húnn kæmi undir. Knútur litli dró að sér milljónir manna í Þýskalandi.


mbl.is Lögregla á slóðum ísbjarnarins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

365 bloggdagar

fiskholl.blog.is heldur í dag upp á fyrsta bloggárið. Í framahaldi af veisluhöldum var tekin sú stefnumótandi ákvörðun að halda áfram næstu 366 daga. Þá skal haldinn rýnifundur og marka stefnu fyrir næstu blogg.

Í tilefni að tímamótunum birtist hér afmælismynd eftir Steve Winter. Hún var tekin í Skaftafelli af torf húsum (sod house) og birtist í hinu vandaða riti National Geography ári 1997 í kjölfar Grímsvatnagossins.

Skaftafell

 

Mæli einnig með grein, Europe's Land of Fire, Ice, and Tourists frá 2004 um helstu náttúrufyrirbrigði Íslands eftir flokkun Alþjóðlegu landfræðinganna. 

Blogg tölfræði:

Á árinu voru framleidd 217 blogg. Heimsóknir voru 27.734 eða 75 heimsóknir að jafnaði á dag. 


Fílarnir trömpuðu á íkornunum

Afríkukeppnin í knattspyrnu stendur nú sem hæst. Sextán lið keppa um Afríkutitilinn. Sigurstranglegasta liðið er lið Fílabeinsstrandarinnar. Þeir eru þegar búnir að tryggja sig áfram í átta liða úrslitum með 1-0 sigri á Nígeríu og góðum 4-1 sigri á Benin.  Gælunafn Benín er íkornarnir (The Squirrels).  Því má segja að Fílarnir hafi trampað á íkornunum!

Þessi leikur minnir mig á fíla-og músabrandarana.

Fíll og mús voru á leið yfir brú.
Fíllinn: Mikið svakalega brakar í brúnni. Ég held hún sé hreinlega að detta í sundur.
Músin: Það er nú engin furða þegar við erum bæði á henni í einu.

Fíll og mús fóru einu sinni í bíó og fíllinn settist fyrir framan músina... og músin varð geðveikt pirruð því hún sá ekkert fyrir fílnum og settist því fyrir framan hann og öskraði: Nú veistu hvernig þetta er!! 


Baggalútur fer á kostum um framsókn

Þeir Baggalútsmenn fara á kostum yfir vandræðum framsóknarmanna. Nýjasta fréttina á vefnum þeirra, www.baggalutur.is segir allt sem segja þarf um vandræði flokksins.

Hér er fréttin magnaða:

Óvenju fjölmennur hópur framsóknarmanna gerði snemma í morgun húsleit á heimili Björns Inga Hrafnssonar, borgarfulltrúa með það fyrir augum að endurheimta ýmsan klæðnað og varning sem Björn mun hafa sankað að sér á kostnað Framsóknarflokksins um árabil.

Gerði hópurinn upptæk 12 pör af ullarsokkum, tvennar gammósíur, þrjú pör af vettlingum og um tylft lopahúfna og lambhússettna. Einnig fannst forláta skautbúningur í yfirstærð og litrík náttföt skreytt myndum af fráfarandi formönnum flokksins.

Þá fannst töluvert magn borðbúnaðar merktum Bændahöllinni, en eftirtekt vakti að í það vantaði allnokkuð af hnífum.

Björn Ingi kaus að tjá sig við fjölmiðla á MSN, og sagði málið „mannlegan harmleik“.


Snara um hálsinn

"Karlmenn eru eina dýrið sem byrjar daginn á því að hengja snöru um háls sér."

Mælti einhver gáfaður heimspekingur eflaust með slaufu.

Fínt að fá þessa frétt frá Bretlandi. Mér líður ávallt illa með hálstau um hálsinn og nota þau aðeins þegar  nauðsyn krefur.  Ég verð svo stífur í hálsinum og mér líður illa þegar þrengt er að hnútnum.  Því notaði ég setninguna hér fyrir ofan  ef einhver gerir athugasemd við hálsbindisleysi mitt.  Nú get ég borið fyrir mig rökunum um að þau séu örveruhreiður. Ég get tekið undir það að bindi séu smitberar, ég hef verið mjög heilsuhraustur.

Bindi eru því stórhættulegt stöðutákn. 


mbl.is Hálsbindi bönnuð á breskum sjúkrahúsum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

7 mannvirkjaundur á Vestfjörðum

Þetta er bráðsnjöll hugmynd hjá Vestfirðingum. Sniðug markaðssetning. Ég fór aldamótaárið 2000 á Vestfjarðakjálkan og þótti landslagið tilkomumikið, eins og að koma í annan heim. Fyrra skiptið var í jeppaferð á Dragngajökul um páska og um sumarið var keyrður hefðbundinn Vestfjarðarhringur. Þessi ferðalög höfðu góð áhrif á mig.  Ég ætla að setja saman lista en hef því miður ekki séð öll mannvirkin. En hér er listinn minn.

Húsaþyrpingin í Flatey á Breiðafirði
Vitinn í Æðey
Síldarverksmiðjan í Djúpavík
Mannvirki Samúels Jónssonar í Selárdal
Jarðgöngin í Arnarneshamri
Gamla sjúkrahúsið (Safnahúsið) á Ísafirði
Hvalstöðin á Hesteyri


Kleifakarlinn á Kleifaheiði er mezti húmorinn, Vestfirskur húmor.

 


mbl.is Fjölmargar tilnefningar á sjö undrum Vestfjarða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þórbergsleikar

Tíunda Unglingalandsmót UMFÍ verður haldið á Hornafirði um verzlunarmannahelgina. Þetta er frábært framtak hjá hreyfingunni og nauðsynlegt til að halda æskunni frá drykkjumenningu landans um þessa blautu helgi.  

Þegar ég las frétt í Eystrahorni fyrir tveim árum um að landsmótið yrði á Hornafirði þá skrifaði ég pistil á horn.is um nýja íþrótt, Þórbergsleika.  Ég sé mér til mikillar ánægju að Þórbergleikar verða á dagskránni.

Þórbergur Þórðarson frá Hala í Suðursveit er merkilegur maður. Allt héraðið er sögusvið bóka hans og honum tókst betur en nokkrum öðrum að kalla fram sérkenni íslenskrar alþýðumenningar með verkum sínum. Áskorun Þórbergsleika er að svara ákallinu í verkum hans og halda  áfram að draga fram sérkenni heimabyggðar, að bjarga menningarverðmætum frá glötun, að færa þekkingu fortíðar inn í framtíðina, að lifa með landinu.

Ég birti hér fyrir neðan pistilinn sem skrifaður var 13. marz 2005.  - Hittumst á Hornafirði á Þórbergsleikum.

 

Best er að hefja skrifin með því að óska Hornfirðingum til hamingju með að hafa fengið Unglingalandsmót UMFÍ 2007.

Forsíðufréttin í Eystrahorni þann 4. ágúst greinir frá niðurstöðunni og rætt er við bæjarstjóra okkar Albert Eymundsson. Bæjarstjórinn er eðlilega ánægður og þegar ég las þessa málsgrein í fréttinni kviknaði hugmynd í kolli mínum.

“Hann segir mótshaldara ráða hvaða greinar verði í boði og hvatt sé til þess að bjóða upp á nýjar keppnisgreinar og draga fram sérkenni svæðanna.”

Hvarflaði hugurinn til meistara Þórbergs Þórðarsonar. En ég var enn undir áhrifum af skrifum hans eftir að hafa lesið Ofvitann á sama tíma og  Unglingalandsmótið var haldið í Vík.

Rifjaðist þá upp frábært erindi, Hvað vildi Þórbergur? sem Guðmundur Andri Thorsson flutti í Norræna húsinu á afmælisdegi Þórbergs Þórðarsonar 12. mars 2004.  Það lagði hann út frá skoðunum Þórberg á íþróttum sem kom fram í samtalsbók þeirra Þórbergs Þórðarsonar og Matthíasar Johannesen, Í kompaníi við allífið. Þórbergur er stríðinn í samtalinu og gerir gys að þrístökki en þjóðin var þá nýbúin að eignast sinn fyrsta verðlaunagrip á Ólympíuleikum.

Draumsýn Þórbergs:

Fótboltinn mun blómstra í nýjum tilbrigðum og ferðast til kappleikja um allan jarðarhnöttinn. Mikil hástökk munu og reisa um jarðir, sömuleiðis hækkandi grindarhlaup, gaddavírshlaup, æ markvísari spjótköst, lengri og hraðari Maraþonhlaup, fimmstökk, sjöstökk og nístökk. (Kompaníið bls. 250).

Heimurinn er enn ekki kominn lengra á þróunarbrautinni en svo að stökkin eru ekki nema þrjú.

Draumur Guðmundar Andra Thorssyni var að sjá íþróttamót sem kennt væri við Þórberg. Þar sem keppt væri í hækkandi grindarhlaupi, gaddavírshlaupi, hoppi á einum fæti og nístökki. 

Því væri gaman að keppt væri í einni af þessari nýstárlegu  keppnisgrein á Unglingalandsmóti UMFÍ á Hornafirði 2007.  Þá myndum við einnig sjá nýtt heimsmet.  Ekki væri verra að halda eitt densilegt Þórbergsmót með nokkrum greinum.

Það er varla hægt að finna betri tengingu fyrir sérkenni Sveitarfélagsins og að minnast ofvitans Þórbergs um leið.

 

P.s.

Erindi Guðmundar Andra Thorssonar.

http://www.thorbergur.is/files/hvad_vildi_thorbergur.pdf


Þórbergur Þórðarson, lýsir borgarmenningunni.

Fyrr í mánuðinum heimsótti ég Þórbergssetur á Hala í Suðursveit. Það var skemmtileg og fróðleg heimsókn. Svo vel vildi til að lesið var úr verkum Þórbergs á safninu. Þorbjörg Arnórsdóttir sá um lesturinn og gerði vel.

Ég hlustaði á lesturinn um baðstofuna í Bergshúsi við eftir gerð af Bergshúsi. Þórbergur var nákvæmur meður og lýsti hlutum vel og skemmtilega. Hann kunni að lesa hús. Það var gaman að sjá safngripinn umvafinn sögunni. 

Þorbjörg Arnórsdóttir benti á að bókmenntafræðingar hefðu fundið út að Þórbergur væri fyrsti sem skrifaði um lífið í borginni á 20. öldinni. Það á eflaust eftir að gera Þórberg merkilegri í framtíðinni. Þórbergur var því bloggari á undan sinni samtíð.

Í gærkveldi keyrði ég frá Keflavík í borgina sem Þórbergur lýsti svo vel fyrir öld. Snæfellsjökull og Snæfellsnes var glæsilegt að sjá í sólsetrinu. Skýin voru mögnuð, mynduðu flott mynstur í ákveðinni hæð eftir ósýnilegri beinni línu. Bezt að enda blogg dagsins á lýsingu á glugga í Bergshúsi.

"Og þegar við litum út um hann, blasti Faxaflóinn við augum okkar, en handan við flóann reis Snæfellsjökull yzt við sjóndeildarhringinn eins og risavaxinn tólgarskjöldur með gömlum myglufeyrum.
Það þótti fögur sjón, þegar maður gat borgað fyrir sig um næstu mánaðarmót. En hve heimurinn yrði fagur, ef allir gætu borgað fyrir sig!"

Ofvitinn, Þórbergur Þórðarson. Kaflinn um baðstofuna.


37 ár eftir

Nú þarf ég að fara í stefnumótunarvinnu og skipuleggja næstu 37 ár. Ég stefni samt að því að hækka meðalaldur íslenskra karlmanna og halda toppsætinu með þeim.

- Athuga vel hvern bita sem fer ofna í maga, tyggja matinn vel. Fylgja ráðum Þórberg Þórðarsonar og tyggja hvern bita 50 sinnum.

- Drekka  léttvín reglulega, eitt rauðvínsglas á dag. 

- Taka lýsi reglulega. 

- Ganga í vinnuna og á flest fjöll og landsins.  Einnig heimsæka jökla landsins. Huga að útrás í fjallamennsku.

- Halda félagslegum tengslum í hámarki.

- Brosa


mbl.is Japanskar konur og íslenskir karlmenn lifa að meðaltali lengst
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sigurpáll Ingibergsson

Höfundur

Sigurpáll Ingibergsson
Sigurpáll Ingibergsson
Hornfirðingur búsettur í Kópavogi. Árgerð 1965.
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • IMG 4410
  • IMG 4385
  • IMG 4421
  • Á afskekktum stað
  • Tíminn051071

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (1.5.): 5
  • Sl. sólarhring: 19
  • Sl. viku: 113
  • Frá upphafi: 226440

Annað

  • Innlit í dag: 5
  • Innlit sl. viku: 104
  • Gestir í dag: 5
  • IP-tölur í dag: 5

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband