Færsluflokkur: Bloggar

St. Totteringham's day gæti runnið upp í dag

St. Totteringham's day gæti runnið upp í dag eða morgun. En það verður ljóst þegar flautað verður til leiksloka í leik Sprus og Blackpool síðdegis.

En St. Totteringham's dagurinn er  dagurinn þegar Tottenham getur ekki náð Arsenal að stigum í Úrvalsdeildinni. Munurinn á liðunum er 12 stig og sami stigafjöldi í pottinum hjá Spurs. Vinni Spurs ekki sigur eða Arsenal nái stigi þá hefst hátíðin.

Fyrir marga Arsenal menn er St. Totteringham's day stærri dagur en jóladagur. Sérstaklega fyrir þá sem búa nálægt stuðningsmönnum Spurs.

St. Totteringham's dagurinn getur því verð breytilegur og rennur hann upp frekar seint á þessu ári. Í fyrra var St. Totteringhamsdagurinn í lokaumferðinni.

Fyrir þá sem hafa áhuga á meiri tölfræði um St. Totteringham's daginn, þá er hér ágætis yfirlit frá 1971.

Einnig er hægt að njóta dagsins með félögum á Facebook.


mbl.is Jafntefli á White Hart Lane
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eyjafjallajökull - 21.300.000 leitarstrengir á Google - 304% aukning milli mánaða

Á morgun verða haldnir útitónleikar við Hamragarða hjá Seljalandsfossi undir Eyjafjöllum. InspiredbyIceland átakið stendur á bakvið tónleikana og marka þeir hápunkt kynningar á Íslandi vegna eldgosins í Eyjafjallajökli.

Veðurspá er óhagstæð en vonandi mæta menn vel búnir á svæðið og svo verða tónleikarnir sendir út um allan heim í gegnum Netið.

Ég hef fylgst með vinsældum Eyjafjallajökuls á Google með því að ská fjölda leitarstrengja sem koma upp þegar nafnið er slegið inn, en það er góður mælikvaðir á vinsælir.

Í dag koma 21.300.000 leitarstrengir á google. Í síðasta mánuði, þegar goshlé varð voru þeir 6.970.000 og 5.6 milljónir í lok apríl.  Vinsældir Eyjafjallajökuls hafa því aukist gríðarlega síðasta mánuð, um 304%.

Aukninguna má eflaust skrifa á átakið jákvæða, einnig hafa verið að koma inn blogg  um jökulinn vísindagreinar og ferðasögur.

Næsti jökull hvað vinsældir varðar er Vatnajökull, með 254.00 atkvæði.  Ísland er með 38.5 milljónir og Iceland er með 97.6 milljónir til samanburðar.


Ímynd Íslands

"stunning, scenic, volcanic"
Er ekki eftirsóknarvert að búa í svona landi?

Svona er dæmigert svar frá tilvonandi ferðamönnum sem heimsækja vefinn vatnajokull.com

Á vefnum vatnajokull.com eru upplýsingar um afþreyingu á Vatnajökli, stærsta jökli Evrópu. Hægt er að panta bæklinga með því að fylla út form á síðunni. Til gamans er spurt nokkura aukaspurninga. Þeim hefur verið safnað frá árinu 2001. Þriðja spurningin er á þessa leið:
Which three words come to mind first when you think of Iceland?

Niðurstaðan, Topp-10 orða listinn fyrir árið 2008.

   1. Glacier(s)
   2. Nature
   3. Vulcano
   4. Cold
   5. Ice
   6. Beautiful
   7. Adventure
   8. Geysir(s)
   9. Reykjavík
 10. Waterfall

 

Úrtakið dreifist um alla jörðina og er ekki hægt að greina mikinn mun á svörum frá Evrópu og Asíu.

Það þarf kannski ekki að koma á óvart að ferðamenn (markhópur) sem heimsækja vefinn vatnajokull.com hafi þessa ímynd en hún kemur vel saman við niðurstöðu ABC sjónvarpsstöðvarinnar sem tilnefndi íslensku jöklana og eldfjöllin undir þeim til sjö undra veraldar fyrir vel rúmu ári síðan.

Björk marði Eið Smára í einstaklingskeppninni. Reykjavík hefur yfirburði yfir örnefnin. Mörg lýsingarorð yfir fegurð landsins, ef þau væru flokkuð saman þá yrði sá  flokkur stærstur. "Beautilful" skorar hæst en lýsingarorð eins og: scenic, rugged, dramatic, solitary, remote, exciting, breathtaking, stunning, amazing, unique, magic og sensational komu upp í hugann.

Aldrei var minnst á fjármál þegar fjármálasnilli landsins reis sem hæst árið 2007. 


Náttúran er að rúlla þessu upp eins og fram kemur í grein þinni og gaman að velta því fyrir sér.  Við eigum klárlega sóknarfæri. Á föstudagskvöldið 5. júní sl. var athyglisverð frönsk heimildarmynd eftir Yann Arthus-Bertrand, Heimkynni (HOME) frumsýnd víða um heim og fjallar um framtíð jarðarinnar. Með sjálfbærni að leiðarljósi getum við orðið góð fyrirmynd. Hætt að eltast við að standa fyrir hluti sem við kunnum ekki, eins og nefnd um ímynd Íslands komst fyrir nokkru. 

Því má taka undir orð Roger Boyes um að Ísland hafi sérstöðu sem skýri hvers vegna allar þessar stjörnur komi til Íslands og það sé eitthvað sem landið eigi að halda á lofti og skapa sér sérstöðu í stað þess að setja upp útlend álver.


mbl.is Boyes: Of mikil áhersla á ál
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Engin jafntefli - athyglisvert

Það er athyglisvert hversu fá jafntefli hafa orðið í ensku Úrvalsdeildinni það sem af er. Ekkert jafntefli hefur litið ljós í dag þegar sjö leikjum er lokið.  Jafnteflin eru aðeins fjögur yfir allar umferðirnar sjö.

Tipparar ættu að hafa þetta í huga og setja merkin 1 og 2 í útgangsmerki á getraunaseðlum. Þó þarf að vara sig á Stoke City.

Mórallinn í ár er að leggja allt í sölurnar, jafntefli er sama og tap. Þrjú stig eru betri en eitt.


mbl.is Fyrsta tap Chelsea - Keane með fernu fyrir Tottenham
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nautagil

Sumarið 2006 kynntist ég Nautagili í Dyngjufjöllum.  Rifjast þá þetta upp.

Geimfarar NASA sem unnu að Appolo geimferðaáætluninni komu tvisvar til Íslands til æfinga fyrir fyrstu tunglferðina en þeir töldu aðstæður í Öskju líkjast mjög aðstæðum á tunglinu. Þeir komu fyrst í Öskju árið 1965 og tveim árum síðar með minni hóp. Kíkjum á frásögn Óla Tynes í Morgunblaðinu 4. júlí 1967.

"Frá skálanum [Þorsteinsskála] var haldið inn að Öskju og fyrst farið í eitthvert nafnlaust gil sunnan megin við Drekagilið og þar héldu þeir Sigurður Þórarinsson og Guðmundur Sigvaldson jarðfræðifyrirlestur, sem fór fyrir ofan garð og neðan hjá fréttamönnum. Geimfararnir hinsvegar voru fullir af áhuga og hjuggu steina lausa úr berginu til nánari rannsókna. "

Hér er átt við Nautagil og er nafngiftin komin frá jarðfræðihúmoristunum Sigurði og Guðmundi. Geimfari er astroNAUT á ensku og framhaldið er augljóst.

Nafngiftin er ekkert nema gargandi snilld. Eftir að hafa heyrt sögu þessa jókst virðing mín mikið fyrir Nautagili mikið en ég hef haft mikinn áhuga á geimferðakapphlaupinu á Kaldastríðsárunum.


Nautagil

Nautagil átti eftir að heilla enn meira. Hvert sem litið var, mátti sjá eitthvert nýtt jarðfræðilegt fyrirbrigði. Fyrst var boðið upp á innskot, bólstraberg og sandstein, síðan móbergsveislu. Mikilfenglegur móbergsveggur sem sorfinn var í toppinn og stóðu kollar uppúr sem minnti á tanngarð eða höggmyndir í Rushmore-fjalli af forsetum Bandaríkjanna. Maður lét hugann reika, þarna er George Washington, síðan Thomas Jefferson, Theodore Roosvelt og Abraham Lincoln. Þarna er vindill, það hlýtur að vera Clinton, en hvar er Bush? Svo kom pælingin, hvar eru styttur af forsetum Íslands? Svar: Hvergi, bara til styttur af athafnaskáldum.

Fleira bar við augu. Lítill lækur spratt undan hrauninu og dökk hraunspýja sem talið er minnsta hraun á Íslandi var næst. Rósin í hnappagatinu var svo vel falin bergrós ofarlega í mynni gilsins. Þetta var óvænt ánægja og Nautagil kom mér mest á óvart í meðferðinni. Það var augljóst að fáir hafa komið í gilið í sumar en með öflugri markaðssetningu væri hægt að dæla fólki í Nautagil. Lækur rennur fyrir framan gilið vel skreyttur breiðum af eyrarrós og hægt væri að hafa speisaða brú yfir hann. Nota geimfarana og NASA-þema sem umgjörð og hafa eftirlíkingu af Appolo 11 í gilinu. Þá væri hægt að bjóða upp á tunglferðir til Öskju!


mbl.is Tunglfararnir vilja stefna á Mars
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gömlu gildin í morgunverði

Á vinnustað mínum hefur sú hefð myndast hefð að einn starfsmaður heldur morgunmat fyrir aðra starfsmenn á föstudagsmorgnum. Það er búin að vera skemmtileg þróun í morgunverðnum. Sumir eru duglegir að baka tertur og leggja mikið á sig. Uppistaðan er samt rúnstykki. Í morgun var röðin komin að mér. 

Ég ákvað að snúa klukkunni til baka, horfa 18 ár aftur í tímann. Rifja upp gömlu gildin áður en nýfrjálshyggjan náði tökum á okkur.  Ég mætti með hafragraut, lýsi og síld. Með þessu hafði ég rúnstykki og ost. Einnig var boðið upp á rækju- og túnfisksalat.  Allt er er þetta meinholt nema salötin.  Vinnufélögum fannst ég frumlegur að koma með þennan gildishlaðna morgunmat.

Hluti af vinnufélögunum tekur inn lýsi en hafragrauturinn er ekki í miklu uppáhaldi hjá þeim. Ég er eini síldarspekúlantinn.


Botnlaus djúp er bágt að kanna

Þennan málshátt var ég rétt búinn að borða úr páskaeggi mínu. En í dag eru akkúrat 30 ár síðan ég fermdist í Hafnarkirkju. Ég man vel eftir þeim degi. En margt hefur gerst í trúmálum á þeim tíma.

En þegar ég las yfir málsháttinn, þá rifjaðist upp baráttumál frá 2003 um hvatning til að kanna betur hafsbotninn við Ísland. Ég tel að það sé vel hægt með nýjustu tækni. Það er dýrmætt að þekkja hafsbotninn. Nákvæm botnkort og upplýsingar um botngerð geta varpað ljósi á hugsanlegar auðlindir á hafsbotni (Drekasvæðið), styrkt stöðu Íslands í alþjóðlegum samskiptum  og nýst í ýmsum verkefnum, meðal annars við rannsóknir á friðuðum veiðisvæðum, mikilvægum veiðislóðum eða á búsvæðum kóralla.

Greinin eftir mig birtist í Morgunblaðinu 21. mars 2003 og fékk nafnið Hafsbotnsrannsóknir. Skömmu eftir að hún birtist hringdi síminn hjá mér. Þar var hinn mikli vinjettusmiður Ármann Reynisson Reynisson og hrósaði mér fyrir áhugaverða byrjun en um leið var hann að benda mér á góðar bókmenntir. Mér þótt vænt um þetta símtal.

Ég læt greinina í Morgunblaðinu fyrir rúmum sex árum fylgja hér með: 

http://www.mbl.is/mm/gagnasafn/grein.html?grein_id=720835

 

Hafsbotnsrannsóknir

"Til að byggja aftur upp fiskistofna þarf að taka rannsóknir á erfðum og atferli fiska, lífríki og fiskistofnum til rækilegrar endurskoðunar."


HVORT höfum við Íslendingar meiri tekjur af tunglinu eða sjónum í kringum okkur? Allir Íslendingar vita svarið við þessari spurningu. Hins vegar vitum við meira um yfirborð tunglsins en hafsbotninn við landið. Flestir þekkja Regnhafið og Skýjahafið á tunglinu og hægt er að fara á vef NASA og fá upplýsingar um allt yfirborð tunglsins. Hafið er okkur að mestu ókunnugt, fyrir utan skipstjórana sem vita hvar einstaka hólar og rennur eru en það eru þeirra fiskileyndarmál. Íslendingar eru eftirbátar annarra þjóða í hafbotnsrannsóknum þó að við byggjum allt okkar á fiskveiðum. Þó er búið að kortleggja hinn fagra Arnarfjörð ásamt hlutum af Tjörnesbeltinu, Kolbeinseyjarhrygg og Kötluhryggjunum. Með nýju hafrannsóknarskipi opnast nýir möguleikar á rannsóknum á hafsbotninum okkar með fjölgeislatæki en hægt gengur að kortleggja landgrunnið og hanna botngerðarkort sem gefa upplýsingar um botngerð sjávar vegna fjárskorts. Hafrannsóknastofnunin hefur ekki fengið neinar aukafjárveitingar til fjölgeislamælinga. Því hefur ekki verið hægt að nýta tækið eins og æskilegt hefði verið til almennrar kortlagningar. Æskilegt er að allir leggist á árarnar svo nýta megi þetta afkastamikla mælitæki til kortlagningar og könnunar hafsbotnsins.

Við fiskveiðiþjóðin mikla höfum ekki fyrr fjárfest í svo merkilegu tæki, ekki frekar en neðansjávarmyndavélum sem geta fylgst með veiðarfærum og sýnt virkni þeirra.

Í leiðangri sem farinn var í sumar 2002 opnuðust nýjar víddir í hafsbotnsrannsóknum og var stórkostlegt að hlýða á Bryndísi Brandsdóttur jarðeðlisfræðing hjá Raunvísindastofnun háskólans og Guðrúnu Helgadóttur frá Hafrannsóknastofnuninni, kynna niðurstöður úr nýlegum rannsóknum á landgrunni Norðurlands, Hafsbotninn á Tjörnesbeltinu, á fræðsluerindi fyrir stuttu. Magnað að sjá fjöll sem minntu á Herðubreið og Keili en flestum óþekkt. Misgengi eins og á Þingvöllum, setlög og gasmyndanir, gígaraðir og landslag sem er sláandi líkt og á landi. Rákir eftir hafísinn frá Ísöld og rákir eftir botnvörpur togara.

Til að byggja aftur upp fiskistofna þarf að taka rannsóknir á erfðum og atferli fiska, lífríki og fiskistofnum til rækilegrar endurskoðunar. Stórefla þarf rannsóknir, byggja upp meiri þekkingu og setja landgrunnið í umhverfismat og skilgreina alveg upp á nýtt með hvaða veiðarfærum fiskurinn er veiddur og á hvaða svæðum. Fara eftir niðurstöðum þó kvalafullar kunni að verða. Stefna að því að bera af á þessu sviði og selja svo rannsóknarþekkingu út um allan heim. Vísindin efla alla dáð.

Frjálslyndir standa fyrir rannsóknir og réttlæti!

Eftir Sigurpál Ingibergsson

Höfundur er tölvunarfræðingur og skipar 14. sæti á lista Frjálslynda flokksins í Suðurkjördæmi.


Sama frétt um Frjálslynda í apríl 2007

Mikið hljóta könnuðir Capacent Gallup að verða ánægðir þegar Frjálslyndi flokkurinn hættir að bjóða fram í kosningum.  Sama niðurstaða var hjá þeim í lok apríl 2007.

Innlent | mbl.is | 28.4.2007 | 19:03

Frjálslyndir ná ekki manni inn í Norðvesturkjördæmi samkvæmt könnun

Frjálslyndi flokkurinn kemur ekki manni inn á þing í Norðvesturkjördæmi ef marka má skoðanakönnun, sem Capacent Gallup hefur gert fyrir Ríkisútvarpið en flokkurinn fékk tvo menn í kjördæminu í síðustu kosningum, þar af var annar jöfnunarþingmaður.

 

http://www.mbl.is/mm/frettir/kosningar/2007/04/28/frjalslyndir_na_ekki_manni_inn_i_nordvesturkjordaem/

Þetta eru þá eflaust öfug Bradley-áhrif!

Engum spáð inn en Guðjón Arnar Kristjánsson og Kristinn H. Gunnarsson uppskáru tvö sæti.


mbl.is Vinstri græn stærst í NV-kjördæmi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þjóðfundur á Arnarhóli

 

 

 

Ég átti leið um Arnarhól rétt fyrir kl. 15 í dag. Þangað lá leið margra á þjóðfund en yfir þúsund Íslendingar minntust Fullveldisdagsins fyrir 90 árum. Kröfðust fundarmenn breytinga í ríkisstjórn og eftirlitsstofnunum. Það var kalt í veðri. Ég var á hraðferð og stoppaði ekki lengi á hólnum. Ekki varð ég var við Vargastefnu við Stjórnarráðið en margar löggur voru á ferli. Það lá eitthvað í loftinu. Þegar Þjóðfundinum var lokið, tóku um 100 manns strikið niður í Seðlabanka og föluðust eftir upplýsingum um hvar Davíð keypti ölið. Ekki fengust neinar upplýsingar þar um mjöðinn. Urðu sumir mótmælendur snakillir er þeir fengu ekki svör og máluðu bankann rauðann.

 


Forsíður dagblaðanna

Það var gaman að fara yfir forsíður dagblaðanna í morgun. Handboltahetjur okkar áttu sviðið eftir frækilegan sigur á Spánverjum. Á forsíðu Moggans var stór mynd af Guðjóni Val Sigurðssyni. 24 Stundir fyglja athyglisverðu viðtali við móður Björgvins Páls Gústafssonar með forsíðumynd og Fréttablaðið bitir risa mynd af þeim félögum, Sigfúsi Sigurðssyni og Ólafi Stefánssyni í spennufalli.

Val á forsíðumynd er erfitt, þær eru svo margar hetjurnar í Peking og endurspeglar breiddina í liðinu. Ekki má heldur gleyma þeim sem starfa á bakvið tjöldin. Má þar meðal nefna fimmtánda manninn, Bjarna Fritzson, læknaliðið, þjálfarateymið og stjórnarmenn.

Nú er undirbúningur hafinn af morgunverði á morgun eftir hátíð dagsins í gær og dag. Það var gaman að sjá norsku stúlkurnar vinna gullið í handbolta í morgun. Vonandi verða okkar menn ekki saddir og verða í sömu sporum.

Það er gaman að heyra þetta markmið hjá Ólafi Stefánssyni um gullið og þjóðsönginn. Það sama gerðu íslensku bridsspilararnir í Yokohama er þeir unnu Bermúdaskálina 1991. Með því urðu þeim fyrstu heimsmeistarar Íslendinga í flokkaíþrótt.


mbl.is „Ég vil fá gullið og þjóðsönginn“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sigurpáll Ingibergsson

Höfundur

Sigurpáll Ingibergsson
Sigurpáll Ingibergsson
Hornfirðingur búsettur í Kópavogi. Árgerð 1965.
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • IMG 4410
  • IMG 4385
  • IMG 4421
  • Á afskekktum stað
  • Tíminn051071

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.4.): 11
  • Sl. sólarhring: 11
  • Sl. viku: 89
  • Frá upphafi: 226251

Annað

  • Innlit í dag: 10
  • Innlit sl. viku: 81
  • Gestir í dag: 10
  • IP-tölur í dag: 10

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband