Liverpool 4 Arshavin 4

Svona eiga knattspyrnuleikir að vera.  Mörk og spenna.   Merkilega við þessi úrslit er að pressan verður minni á Manchester United í Úrvalsdeildinni, og því geta þeir einbeitt sér betur að Meistaradeildinni.  En Arsenal á tvo leiki framundan við þá á næstu tveim vikum.  En menn eiga alltaf að gera sitt besta, annað er svindl.

Nú er að bæta vörnina hjá Arsenal, líst ekki vel á að hafa Manchester-jálkin hann Silvestreí hjarta varnarinnar á móti  United.

Fjögur mörk Arsenal-leikmanns eru ekki orðin óalgeng á Anfield. Man vel eftir fernu Julio Baptistaí byrjun janúar 2007 í Carling Cup. Leikar fóru 3-6 fyrir Arsenal.


mbl.is Benítez: United með undirtökin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jómfrúræða Ólafs Thors

Það er merkilegt að skoða söguna. Hún virðist endurtaka sig í sífellu. Hinn mikli leiðtogi Íhaldsflokksins og síðar Sjálfstæðisflokksins, Ólafur Thor komst á þing árið 1926 í aukakosningum.  Hann hafði sig ekki mikið frammi fyrsta árið en jómfrúræða hans fjallaði um gengismál. Það er kunnugt málefni.

Fannst honum íslenska krónan of hátt metin. En þá var ekki Seðlabanki og forsætisráðherra ákvað gengið.  Vildi Ólafur fella gengi krónunnar svo útflytjendur fengu meira fyrir sinn snúð á kostnað innflutnings.

Það er merkilegt að nú, 83 árum síðar skulu við Íslendingar enn vera fangar gengis íslensku krónunnar. Verðum við ekki að skipta henni út fyrir stöðugan gjaldmiðil svo komandi kynslóðir þurfi ekki að hlusta á sömu ræðurnar.

Ég er þessa stundina að lesa bókina Thorsararnir, auður - völd - örlög efir Guðmund Magnússon og er merkilegt að lesa bókina nú eftir bankahrun. Margt líkt með skyldum, 70 árum síðar.  Mútur, fjármagn tekið úr rekstri útgerðarfélaga, gjaldeyrishöft og grimm pólitík.

Í kvikmyndinni Draumalandið er minnst á skörungsskap Ólafs Thors er hann hafnaði því að  Bandaríkjamenn reistu hér á landi 5 herstöðvar og leigðu landið til 99 ára. Það var djörf ákvörðun en rétt. Peningar hefðu streymt inn í landið en við orðið feitt leiguþý. Nú vilja flokksmenn Ólafs Thors selja erlendum auðhringum orku okkar á "lægsta verði í heimi". Væri Ólafur Thors sammála?


Eboue leysti Sagna af, ekki Gibbs

Emmanuel Eboue leysti Bacary Sagna af í hægri bakverðinum með sóma á móti Villarreal í vikunni. Þarna er staðreyndarvilla hjá íþróttafréttaritara mbl.is.  Kieran Gibbs kom í stað Gael Clichy í vinstri bakvarðarstöðuna. Þessi óreynda vörn hélt hreinu á móti spænsku snillingunum.

Vörnin var svona í leiknum við Villarreal og verður líklega áfram á móti Chelsea.

Eboue - Toure - Silvestre - Gibbs

Nú er trikkið að skora einu marki meira á móti Chel$ky á laugardaginn á Wembley og fara í úrslitaleikinn á sama stað.


mbl.is Sagna ekki með Arsenal á Wembley
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Draumalandið

draumalandid.pngPáskadagurinn fór í  Draumalandið. Heimildarmynd um álvæðingu landsins og möguleika okkar í framtíðinni.  Ég tók Særúnu með en hún og bekkjarsystkini hennar munu erfa landið.

Myndin fer hægt af stað. Farið er yfir hugtök. Hagvöxtur er skilgreindur og hvað liggur á bak við hann.  Síðari hluti myndarinnar er stórgóður, mikill stígandi og stutt í tilfinningarnar. Nokkrum sinnum greip maður um hausinn yfir einfaldleika stjórnmálamanna okkar sem við völdum.

Bandaríkjamaðurinn John Perkins, fyrrverandi efnahagsböðull kemur nokkrum sinnum með fróðleg innlegg og lýsir vel hvernig hann og efnahagsböðlar sem hann vann fyrir fóru með vanþróuð ríki. Í einni innkomu segir hann frá því hvernig stórfyrirtækin ná þingmönnum og bæjarstjórnarmönnum á sitt band. Þeir lofi þeim góðum stöðum þegar stjórnmálaferlinum lýkur. Í næsta skoti kemur Guðmundur Bjarnason fv. bæjarstjóri í Fjarðarbyggð í rammann. Hann segir stoltur frá 15 ára bæjarstjórnarferli, nú sé hann verkefnastjóri hjá ALCOA. Hann fellur alveg í spillingarformúluna, verkefnastjóri þjóðarinnar.

Valgerður Sverrisdóttir, álfrú, kemur einnig illa út úr þessari mynd og brandararnir sem hún segir er henni ekki til framdráttar.

Hvet alla sanna Íslendinga til að fara á draumamyndina, Draumalandið.


Botnlaus djúp er bágt að kanna

Þennan málshátt var ég rétt búinn að borða úr páskaeggi mínu. En í dag eru akkúrat 30 ár síðan ég fermdist í Hafnarkirkju. Ég man vel eftir þeim degi. En margt hefur gerst í trúmálum á þeim tíma.

En þegar ég las yfir málsháttinn, þá rifjaðist upp baráttumál frá 2003 um hvatning til að kanna betur hafsbotninn við Ísland. Ég tel að það sé vel hægt með nýjustu tækni. Það er dýrmætt að þekkja hafsbotninn. Nákvæm botnkort og upplýsingar um botngerð geta varpað ljósi á hugsanlegar auðlindir á hafsbotni (Drekasvæðið), styrkt stöðu Íslands í alþjóðlegum samskiptum  og nýst í ýmsum verkefnum, meðal annars við rannsóknir á friðuðum veiðisvæðum, mikilvægum veiðislóðum eða á búsvæðum kóralla.

Greinin eftir mig birtist í Morgunblaðinu 21. mars 2003 og fékk nafnið Hafsbotnsrannsóknir. Skömmu eftir að hún birtist hringdi síminn hjá mér. Þar var hinn mikli vinjettusmiður Ármann Reynisson Reynisson og hrósaði mér fyrir áhugaverða byrjun en um leið var hann að benda mér á góðar bókmenntir. Mér þótt vænt um þetta símtal.

Ég læt greinina í Morgunblaðinu fyrir rúmum sex árum fylgja hér með: 

http://www.mbl.is/mm/gagnasafn/grein.html?grein_id=720835

 

Hafsbotnsrannsóknir

"Til að byggja aftur upp fiskistofna þarf að taka rannsóknir á erfðum og atferli fiska, lífríki og fiskistofnum til rækilegrar endurskoðunar."


HVORT höfum við Íslendingar meiri tekjur af tunglinu eða sjónum í kringum okkur? Allir Íslendingar vita svarið við þessari spurningu. Hins vegar vitum við meira um yfirborð tunglsins en hafsbotninn við landið. Flestir þekkja Regnhafið og Skýjahafið á tunglinu og hægt er að fara á vef NASA og fá upplýsingar um allt yfirborð tunglsins. Hafið er okkur að mestu ókunnugt, fyrir utan skipstjórana sem vita hvar einstaka hólar og rennur eru en það eru þeirra fiskileyndarmál. Íslendingar eru eftirbátar annarra þjóða í hafbotnsrannsóknum þó að við byggjum allt okkar á fiskveiðum. Þó er búið að kortleggja hinn fagra Arnarfjörð ásamt hlutum af Tjörnesbeltinu, Kolbeinseyjarhrygg og Kötluhryggjunum. Með nýju hafrannsóknarskipi opnast nýir möguleikar á rannsóknum á hafsbotninum okkar með fjölgeislatæki en hægt gengur að kortleggja landgrunnið og hanna botngerðarkort sem gefa upplýsingar um botngerð sjávar vegna fjárskorts. Hafrannsóknastofnunin hefur ekki fengið neinar aukafjárveitingar til fjölgeislamælinga. Því hefur ekki verið hægt að nýta tækið eins og æskilegt hefði verið til almennrar kortlagningar. Æskilegt er að allir leggist á árarnar svo nýta megi þetta afkastamikla mælitæki til kortlagningar og könnunar hafsbotnsins.

Við fiskveiðiþjóðin mikla höfum ekki fyrr fjárfest í svo merkilegu tæki, ekki frekar en neðansjávarmyndavélum sem geta fylgst með veiðarfærum og sýnt virkni þeirra.

Í leiðangri sem farinn var í sumar 2002 opnuðust nýjar víddir í hafsbotnsrannsóknum og var stórkostlegt að hlýða á Bryndísi Brandsdóttur jarðeðlisfræðing hjá Raunvísindastofnun háskólans og Guðrúnu Helgadóttur frá Hafrannsóknastofnuninni, kynna niðurstöður úr nýlegum rannsóknum á landgrunni Norðurlands, Hafsbotninn á Tjörnesbeltinu, á fræðsluerindi fyrir stuttu. Magnað að sjá fjöll sem minntu á Herðubreið og Keili en flestum óþekkt. Misgengi eins og á Þingvöllum, setlög og gasmyndanir, gígaraðir og landslag sem er sláandi líkt og á landi. Rákir eftir hafísinn frá Ísöld og rákir eftir botnvörpur togara.

Til að byggja aftur upp fiskistofna þarf að taka rannsóknir á erfðum og atferli fiska, lífríki og fiskistofnum til rækilegrar endurskoðunar. Stórefla þarf rannsóknir, byggja upp meiri þekkingu og setja landgrunnið í umhverfismat og skilgreina alveg upp á nýtt með hvaða veiðarfærum fiskurinn er veiddur og á hvaða svæðum. Fara eftir niðurstöðum þó kvalafullar kunni að verða. Stefna að því að bera af á þessu sviði og selja svo rannsóknarþekkingu út um allan heim. Vísindin efla alla dáð.

Frjálslyndir standa fyrir rannsóknir og réttlæti!

Eftir Sigurpál Ingibergsson

Höfundur er tölvunarfræðingur og skipar 14. sæti á lista Frjálslynda flokksins í Suðurkjördæmi.


Eitt prómill af fjárlagagati næsta árs.

Það fer að birta aðeins til. Fyrstu 55 milljónirnar af illa fengnu fé komnar í hús. Eignir útrásarsökudólganna eiga að fara upp í skuldir á undan eignum almennings.  Þá eru búið að stoppa upp í eitt prómill af 50 milljarða fjárlagagatinu sem brúa þarf á næsta ári.

Nú þarf bara að velta við fleiri steinum og styðja vel við bakið á Evu Joly.


mbl.is Skilað til lögaðila
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Páskabjór frá Skjálfta

13950.pngPáskabjórinn frá Skjálfta er tímamótaframleiðsla. Fyrsti íslenski hveitibjórinn. Ölvisholt brugghús sem framleiðir Skjálfta er eitt af skemmtilegum örbrugghúsum "micro-brugghúsum" hér á landi og með þjóðlegar nýjungar.  Framleiðslan er gæðaframleiðsla og ástríða hjá framleiðandanum.

Valgeir Valgeirsson, bruggmeistari og félagar hjá Skjálfta eru  að gera góða hluti og uppfylla vel væntingar bjórunnandans.  Ég smakkaði Páskabjór frá Skjálfta og er hann kraftmikill. Páskabjórinn er sterkur, 6.2% og súkkulaðikeimur kemur fram eftir stutt ferðalag á tungunni. Smellpassar með páskaegginu. Bjórinn er rafgullinn á litinn enda  mjöðurinn grófsíaður, því er hann skýjaður.  Liturinn kemur af ristuðu korni sem notað er við bruggunina.

Ég hvet bjórunnendur til að prófa páskabjórana sem eru til sölu, frá Skjálfta, Kalda og Víking. 

Á vefnum RateBeer.com fær Páskabjór frá Skjálfta ágætis dóma


Sama frétt um Frjálslynda í apríl 2007

Mikið hljóta könnuðir Capacent Gallup að verða ánægðir þegar Frjálslyndi flokkurinn hættir að bjóða fram í kosningum.  Sama niðurstaða var hjá þeim í lok apríl 2007.

Innlent | mbl.is | 28.4.2007 | 19:03

Frjálslyndir ná ekki manni inn í Norðvesturkjördæmi samkvæmt könnun

Frjálslyndi flokkurinn kemur ekki manni inn á þing í Norðvesturkjördæmi ef marka má skoðanakönnun, sem Capacent Gallup hefur gert fyrir Ríkisútvarpið en flokkurinn fékk tvo menn í kjördæminu í síðustu kosningum, þar af var annar jöfnunarþingmaður.

 

http://www.mbl.is/mm/frettir/kosningar/2007/04/28/frjalslyndir_na_ekki_manni_inn_i_nordvesturkjordaem/

Þetta eru þá eflaust öfug Bradley-áhrif!

Engum spáð inn en Guðjón Arnar Kristjánsson og Kristinn H. Gunnarsson uppskáru tvö sæti.


mbl.is Vinstri græn stærst í NV-kjördæmi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Spilum 4-5-1 með Adebayor á toppnum

Þá verður spilað leikkerfið 4-5-1 með Adebayor einan á toppnum á Estadio El Madrígal, gegn leikmönnum Gula kafbátsins.  Það verður gaman að sjá  Robert Pires og kannski fær Pascal Cygan tækifæri.

Gott að það verða ekki fleiri landsleikjahelgar á næstunni, nóg langur er hnjasklistinn eftir þær.

Það stefnir því í 0-0 leik á morgun.


mbl.is Van Persie ekki með Arsenal
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Netbankinn er tómur

Þeim hefur hríðfækkað netbönkunum eftir bankahrunið.  Tveir netbankar sem ég hef notað hafa lokað. Ég fór því niður í KB-banka í niðri í Smára í morgun en hann er staddur á jarðhæð turnsins. 

Eftir að hafa slegið inn PIN númer og valið upphæð, þá kom melding,  Netbankinn er tómur.  Síðan var mér boðið að halda áfram. Ég fór aðra umferð og bað um minni upphæð, en sama svar. Netbankinn var tómur. Ég gat fundið takka, Hætta við og þá kom kortið.

Ég gafst ekki upp, fór upp í fjármálahverfið í Hamraborg og þar fann ég Netbanka sem ekki var tómur. Ég á því lausafé.

Icesave


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sigurpáll Ingibergsson

Höfundur

Sigurpáll Ingibergsson
Sigurpáll Ingibergsson
Hornfirðingur búsettur í Kópavogi. Árgerð 1965.
Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • IMG 4410
  • IMG 4385
  • IMG 4421
  • Á afskekktum stað
  • Tíminn051071

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (14.7.): 20
  • Sl. sólarhring: 26
  • Sl. viku: 96
  • Frá upphafi: 236902

Annað

  • Innlit í dag: 17
  • Innlit sl. viku: 86
  • Gestir í dag: 14
  • IP-tölur í dag: 14

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband