UT-dagurinn

Það var fallegur dagur í dag. Það var einnig UT-dagurinn í dag.  Verkefni mitt í dag var hins vegar að sitja fyrir svörum í úttekt vegna ISO/IEC 27001 öryggisvottunar og ISO 9001 gæðavottunar hjá BSI. Það gekk mjög vel.

Eftir öll svörin, var haldið á fund hjá faghópi um upplýsingaöryggi hjá Stjórnvísi. Nýjar ógnir Internetsins og þær árásir sem mest eru notaðar í dag og varnir gegn þeim. 

Joakin Sandström frá nSensa fræddi okkur um breytingar á árásum, eCrime. Þær eru að verða sífellt þróaðri og hugbúnaður sem sóttur er á Netið er orðin helsta öryggisvandamálið. Hefðbundnar vírusvarnir ráð ekki við nýjustu útgáfur af vírusunum og það sé engin einföld lausn til.

Að lokum er best að enda þetta ut-spjall á því að segja frá hremmingum BBC og Click verkefni þeirra í mars síðastliðnum.

 


Hengill (803 m)

Hengill kominn í fjallasafnið. Fjallið er (803 m) móbergs- og grágrýtisfjall. Fór með hörku göngugengi, Dóru systur, Dóra, Mána og Guðmundi óhefðbundna vetrarleið á Vörðu-Skeggja frá Dyradal og inn eftir Skeggjadal. Við vorum klukkutíma upp og hlupum á hælnum beint niður. Ævintýraferð í ágætis veðri. Gott skyggni en vindur í bakið á uppleið.

Meðal sérkenna þessa svæðis eru óvenjulegir aflokaðir og stundum afrennslislausir dalir sem eru rennisléttir í botninn; - svona eru t.d. Innstidalur, Marardalur, Dyradalur og Sporhelludalur. Þeir eru taldir vera myndaðir milli móbergsfjalla, eiginlega stíflaðir uppi, en hafa fyllst í botninn af seti. Í Marardal voru naut geymd fyrrum með því að hlaða fyrir þröngt einstigi sem er eina færa leiðin inn í dalinn.

Útsýni af Heglinum var ágætt. Tignalegur Eyjafjallajökull í austri, Tindfjallajökull og fannhvít Hekla. Síðan kom Þingvallafjallgarðurinn með sínum frægu fjöllum, fellum, tindum og súlum. Augað endaði á Esjunni en á bakvið sást drifhvít Skarðsheiðin. 

Það var athyglisvert að sjá eyjarar í Þingvallavatni, Nesey og Sandey, voru í beinu framhaldi af dölunum sem nefndir eru hér fyrir ofan. Þær eru líklega á sprungu sem liggur í norðaustur.

Mynd tekin í Skeggjadal sem sýnir leiðna upp. Rætur fjallsins eru í 400 metra hæð og hækkun svipuð.

Hengill


Plan B

Ég gerði áætlun um stuðning við lið í Meistaradeildinni. En þær eiga það til að breytast.

Upphaflega áætlunin, A, var að styðja Arsenal til sigurs í keppninni.  Það gekk ekki eftir.  Þá var gripið til áætlunar B, að styðja Barcelona og vona að liðið færi alla leið.    Það leit hins vegar lengi út fyrir að þriðja áætlun, C, að Chelsea færi í úrslitaleikinn gengi eftir. En það breyttist á 93. mínútu. Áætlun M er nefnilega ekki inni í myndinni!


mbl.is Iniesta skaut Barcelona í úrslitaleikinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Öryggissvítur - vírusvarnir

Í lok næsta mánaðar er ætlun Microsoft að gefa út Morro, ókeypis vírusvörn á Netinu. Þegar eru ágætis fríar vírusvarnir á Netinu, AVG og Avast

Í mars hefti PCWorld er farið yfir helstu vírusvarnir sem til eru á markaðnum og þeim gefnar einkunnir á skalanum 1 til 100.  Vírusvarnirnar kosta frá $40 til $80 eða frá ISK 5.000 upp í 10.000. Hæsta skorið fær svítan frá Symantec Norton,  89 stig.

Þegar ég keypti fartölvu mína, fylgdi með vírusvörn frá Norton sem gilti í 3 mánuði. Ég ákvað að kaupa áframhaldandi þjónustu. Ég greiddi uppsett verð og fékk lykil. Eftir nokkrar vikur fór vörnin að neita að gera ákveðna hluti nema keypt væri meiri þjónusta eða hún endurnýjuð. Þetta tiltæki Norton-manna fór illa í mig svo ég tók vörnina út og fékk mér  ókeypis vírusvörn, AVG.

Því gef ég Norton ekki mín bestu meðmæli þó hátt skori.  Ég er hrifnastur af Rússunum á þessum lista. Kaspersky er þeirra vopn.

Svítan frá Norton stóð sig vel í öllum flokkum prófananna og fann 98.9% af spilliforritum og náði 80% árangri í því að hreinsa ófögnuðinn upp. Í leit að óværubúnaði (adware) náðu Norton 96.8% árangri.

Hér er listinn frá PCWorld yfir vírusvarnir semgreiða þarf fyrir.

1. Symantech Norton Internet Security 2009   89

2. BitDefender Internet Security 2009              87

3. Panda Internet Security 2009                      84

4. McAffe Internet Security Suite 2009             82

5. Avira Preminum Security Suite 8.2                82

6. Kaspersky Internet Security 2009                81

7. F-Secure Internet Security 2009                  78

8. Webroot Internet Security Essentials          77

9. Trend Micro Internet Security Pro 2009       74

Það er gaman að sjá fulltrúa frá Íslandi á þessum lista en F-Secure er byggt á vírusforriti frá FRISK Software International  en þau runnu saman árið 1990. Höfuðstöðvar F-Secure eru í Finnlandi.  Púki er ein af afurðum FRISK og er notaður til að finna stafsetningarvillur á blogginu.


El Clássico

El Clássico var klassa leikur.  Barcelona sundurspilaði hið sterka lið Real Madrid.  Það hlýtur að hafa farið um stuðningsmenn Chelsea þegar þeir horfðu á leikinn. En það sýnir líka hversu mikið afrek Chelsea vann með því að halda hreinu í síðustu viku á Nou Camp í Barcelona.

Ég hef trú á því að Barcelona skori mark eða mörk á Brúnni á miðvikudaginn og fari í úrslitaleikinn i Meistaradeildinni. Spænski meistaratitillinn er komin í hús eftir þessi stórmögnuðu úrslit. Það vantaði bara innkomu Eiðs Smára í þennan leik.

Mynd tekin í október 2000 á  El Clássico leik á Nou Camp af hermönnum Barcelona, en "Catalonia is a nation and FC Barcelona its army".

DX-21A

 


mbl.is Barcelona gjörsigraði Real Madríd
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ruslpóstur kemur í ruslpósts stað

Vöxtur ruslpósts eykst enn á Netinu og aðferðirnar taka á sig sífellt nýja mynd. Kínverjar hafa leitt síðustu bylgju og er notkun mynda nýjasta bragðið.  Orsökin fyrir sókn Kínverja er talin vera sú að um miðjan nóvember á síðasta ári var McColo ruslpóstveitan upprætt. Við það datt ruslpóstur tímabundið niður um 75%. Þá kom tækifæri fyrir nýsköpun.

 Ruslpóstur

Á vef MessageLabs er haldið um þróunina í ruslpósts og vírusmálum. Það er fróðleg lesning. Bretland er hrjáðasta land hvað ruslpóst varðar en þar er hlutfallið 94%. Á eftir þeim koma Kína með 90% og Hong Kong með 89%. Ísland mælist ekki.

Einnig kemur fram að  meðaltali eru settar upp 3.561 vefsíður sem innihalda spillihugbúnað á dag. Förum því varlega og sérstaklega á Facebook en þar hafa þrjótarnir hreiðrað um sig.  En bragðið þar er að viðtakandi fær skeyti frá einum vina sinna með efnisinnihaldi, "hello" og innihaldið er tengill. Ef smellt er á tengilinn er viðtakandi sendur á síðu sem líkist innskráningu Facebook-síðu.  En með því að rýna slóðina, þá er uppruninn allt annar. Þannig ná árásaraðilar aðgangi að Facebook síðu þinni.


33% líkur á úrslitaleik hjá Arsenal

Lið sem vinnur 1-0 á heimavelli í Meistaradeildinni er með um 70% möguleika farseðli í næstu umferð. Því er staða United mun betri en Arsenal á að komast í úrslitaleikinn. Markvarsla Almunia jók líkurnar mikið. En það eru þrjár kúlur af tíu í pokanum og alltaf möguleiki á að Arsenal-kúla verði dregin.

Komi United kúla úr pokanum, þá verður Arsenal með númerið hans Fabregas enn einni keppninni.  Fjórða sætið í deild, bikar og Meistaradeild Evrópu er ekki nógu metnaðarfullt.

Því þarf að brjótast áfram. Lykill að því er að fá Robin van Persie í gang fyrir leikinn á þriðjudag en hann getur gert óvænta hluti. Einnig þarf að ná Silvestre úr vörninni.


mbl.is Sanngjarn sigur Evrópumeistaranna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gömlu gildin í morgunverði

Á vinnustað mínum hefur sú hefð myndast hefð að einn starfsmaður heldur morgunmat fyrir aðra starfsmenn á föstudagsmorgnum. Það er búin að vera skemmtileg þróun í morgunverðnum. Sumir eru duglegir að baka tertur og leggja mikið á sig. Uppistaðan er samt rúnstykki. Í morgun var röðin komin að mér. 

Ég ákvað að snúa klukkunni til baka, horfa 18 ár aftur í tímann. Rifja upp gömlu gildin áður en nýfrjálshyggjan náði tökum á okkur.  Ég mætti með hafragraut, lýsi og síld. Með þessu hafði ég rúnstykki og ost. Einnig var boðið upp á rækju- og túnfisksalat.  Allt er er þetta meinholt nema salötin.  Vinnufélögum fannst ég frumlegur að koma með þennan gildishlaðna morgunmat.

Hluti af vinnufélögunum tekur inn lýsi en hafragrauturinn er ekki í miklu uppáhaldi hjá þeim. Ég er eini síldarspekúlantinn.


HK sumardagurinn mikli

Hann byrjaði vel HK sumardagurinn mikli.  Við Ari fórum í Kórinn um nónbil og fylgdumst með knattspyrnuleik HK og Stjörnunnar í 8-liða úrslitum Lengjubikarsins.  HK hóf leikinn af miklum krafti en þurfti aðstoð við fyrsta markið. Síðan kom gullfallegt HK-mark.  Í síðari hálfleik var Stjörnuvörnin illa á verði og fær hún fáar stjörnur fyrir tilburði. Sóknarmenn HK léku hvað eftir annað í gegnum hana og endaði leikurinn 6-1.  HK er því komið í undanúrslit í Lengjubikarnum og glímir við nágrannana í Breiðablik en þeir unnu Þrótt í framlengdum leik, 1-0.  Fer leikurinn fram á  mánudag.

Við fylltumst mikilli bjartsýni á leiðinni í Digranes en þar hélt HK sumarhátíð og síðan var stefnan sett í hópferð upp í Hlíðarenda. Fyrir dyrum stóð úrslitaleikur í handknattleik milli Vals og HK.  Það var mikil stemming í höllinni hjá Val. Voru Binnamenn, hinir hörðu stuðningsmenn HK feikna öflugir og yfirgnæfðu Valsmenn. Minnti framkoma þeirra á enska stuðningsmenn.  Valsmenn hófu leikinn af krafti. Voru harðir í vörn með Fúsa í broddi fylkingar. Þeir nýttu hraðaupphlaup vel og voru snöggir að taka miðju. En varnarmenn HK voru rétt mættir inná völlinn þegar stórsóknin hófst.  HK náð því ekki að brúa bilið og datt úr leik. Valur fer í úrslitaleikinn á móti Haukum.  Svona er lífið.

Við Ari sáum því 31 HK mark gegn 30 mörkum Vals og Stjörnunnar. Því kom dagurinn út í plús.

Hefði HK náð að komast áfram í handboltanum, þá hefði þetta verið fullkominn HK sumardagur.


Gleðilegt sumar

Vetur og sumar frusu saman í nótt. Það veit á gott samkvæmt þjóðtrúnni. Það var fyrirboði um að nytin úr ánum yrði kostgóð og fitumikil.

Í fyrra, ári hrunsins kom krían á sumardaginn fyrsta en fyrstu kríurnar sjást yfirleitt á bilinu 20.-22. apríl en megin þorri fuglana kemur svo um mánaðarmótin apríl/maí.   Hornfirðingar sáu fyrstu kríuna fyrir fjórum dögum þannig að krían heldur ágætlega áætlun.

Þótt það stefni í gott sumar veðurfarslega, þá verður brekka efnahagslega. Næsta sumar verður einnig uppimóti. En vonandi verður sumarið 2011 gott sumar.  Lykilinn að því er að halda Sjálfstæðismönnum frá völdum í nokkur kjörtímabil, taka upp Evru og innkalla kvótann okkar.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sigurpáll Ingibergsson

Höfundur

Sigurpáll Ingibergsson
Sigurpáll Ingibergsson
Hornfirðingur búsettur í Kópavogi. Árgerð 1965.
Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • IMG 4410
  • IMG 4385
  • IMG 4421
  • Á afskekktum stað
  • Tíminn051071

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (14.7.): 18
  • Sl. sólarhring: 26
  • Sl. viku: 94
  • Frá upphafi: 236900

Annað

  • Innlit í dag: 15
  • Innlit sl. viku: 84
  • Gestir í dag: 13
  • IP-tölur í dag: 13

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband