Pub Quiz

Skellti mér í vikulokin á spurnigakeppnina - Drekktu betur.  Hann var vel skipaður bjórbekkurinn á Galleri-Bar 46.  Spyrill dagsins var blaðamaðurinn Kolbeinn Óttarsson Proppé. Var hann með mikla breidd í spurningaflórunni. Allt frá nýliðnum atburðum sem gerðust í morgun og langt fram í aldir.

Meðal keppenda voru þekktir Gettu betur, Útsvarsmenn og ofvitar. Einnig krimma- og spurningahöfundar og áhugafólk um bjór og spurningar.

Okkur Stefáni gekk bærilega, vorum með gott meðalskor og gátum bjórspurninguna, þá átjándu. Hún var um sterkasta bjór í heimi. Spurt var hversu sterkur hann væri? Við félagarnir hittum á laukrétta tölu en skekkjumörk voru gefin og þau rúm.

Kolbeinn spurði 30 spurninga og skrifa keppendur svörin á blað. Tveir keppendur eru í liði. Þegar spurningum lýkur, þá skiptast lið á svarblöðum og gefa fyrir.  Hæsta skor var 24 rétt svör og er það stórkostlegur árangur.

Þetta er stórskemmtilegt efni og mikil menning. Ég á örugglega eftir að kíkja þarna oftar í framtíðinni.


Jarðskjálfi í Hornafirði

Það er eitthvað undarlegt í gangi neðanjarðar hér á landi. Á jarðskjálftavef Veðurstofunnar eru skráðir skjálftar í Hornafirði. Skjálftarnir riðu yfir fyrir rúmum sólarhring, í hádeginu á fimmtudag. Stærri jarðskjálftinn er upp á tvö stig og gæti verið í Ketillaugarfjallinu.  Eða er gullketillinn hennar Ketillaugar fundinn?

Jardskjalfti-Hornafj

Úti á Skarðsfirði er Skeggey. Hún dregur nafn af manni einum sem þar lét grafa sig ásamt gulli sínu og hvolfa bát yfir. Nokkrir menn úr Nesjum ætluðu einhverju sinni að ná þar í skjótfenginn gróða, en um leið og þeir byrjuðu að grafa eftir gullinu sýndist þeim bærinn í Þinganesi standa í björtu báli. Kona Skeggja hét Ketillaug. Sagt er að eftir dauða hans hafi hún horfið upp í fjallið sem síðan heitir Ketillaugarfjall, með ketil fullan af gulli og lét hún svo ummælt áður en hún hvarf að þegar búið yrði að vinna Skeggja yrði hún auðfundin. Aðrar sagnir herma að til að finna ketilinn þurfi að ganga aftur á bak og berfættur upp fjallið sem er að miklu leyti brattar skriður. Ekki má líta aftur á leiðinni því að þá hverfur ketillinn og allt er unnið fyrir gýg.

Heimild: www.rikivatnajokuls.is


Fyrsta þjóðaratkvæðagreiðslan

Sögulegur dagur að renna upp.  Fyrsta þjóðaratkvæðagreiðslan. Ég ætla að nýta mér kosningarétt minn.  Það hafa svo margir dáið svo ég geti kosið. Málefnið hefði mátt vera skemmtilegra og markvissara. Ég verð alveg tómur í kjörklefanum í Smáranum rétt á eftir.  Spái að kjörsókn verði samt undir 50% þó ég mæti.

Nú bíð ég spenntur eftir að fá að kjósa burtu kvótakerfið.

 


Stóra upplestrarkeppnin

Hún Særún mín stóð sig vel í Stóru upplestrarkeppninni í Hjallaskóla. Lokahátíðin var haldin í sal skólans í dag. Gerði stúlkan sér lítið fyrir og vann keppnina. Fékk hún að launum fallega rós og bókina Sagan af brauðinu dýra eftir Nóbelskáldið Halldór. Einnig verður hún fulltrúi Hjallaskóla í aðalkeppninní í Salnum í Kópavogi, þann 17. marz.

Særún

Særún í jógaæfingu á Eyjabökkum með Snæfell í bak í júlí 2005.  


Hollenskur gálgahúmor

Þeir hafa húmor Hollendingar. Á vefsvæðinu thedutchiceland.com er búið að skipta Íslandi upp í tvö svæði rétt eins og Berlín forðum.  Skuldugu landinu er skipt á milli nýlenduþjóðanna Hollands og Stóra-Bretlands. Hollendingar eru frekari á landrými.

Á vefnum er holl ráð fyrir skuldara og einnig er hægt að eignast part af landinu. 

En þessi vefur er ekki alslæmur fyrir ferðaþjónustu hér á landi og fín landkynning.

TheDutchIceland

Nú er spurning hvort orðatiltækið, Betra er illt umtal en ekkert umtal, eigi hér við.


Stók er ekki djók

Þessi leikur gegn Stoke á eftir verður að vinnast hjá Arsenal. Úrslitin í dag eru liðinu hagstæð. Chelsea tapaði. En Stoke er ekki neitt djók. Taplausir á árinu. Kraftur gegn tækni. Vonandi verður búið að finna lausn á innköstum Delap. En bikarnum var fórnað hjá fyrrum Íslendingalaliði á Britannia Stadium.

Gallas, Arshavin og Diaby verða fjarri góðu gamni en Sol, Ramsey og Eduardo koma í þeirra stað.

Chel$ea liðið er að brotna innanfrá. Það verður að nýta stórt tap þeirra gegn City. Bridge sigraði Terry.

Úrvalsdeildin er spennandi í ár, þrjú lið að berjast á toppnum. Fjögur lið um fjórða sætið mikilvæga. Svo er þéttur pakki í fallbaráttunni.

Vinni Arsenal leikinn ekki þá geta þeir gleymt öllu titlatali.   Spáin, erfiður 0-1 útivallarsigur.


rafbarbari

Það er húmor í nýja slangurorðinu rafbarbari.

Skilgreiningin á slangurorðinu er á www.slangur.is 
tölvuþrjótur, hakkari (e. hacker)
sá sem níðir fólk á netinu
Dæmi: Þessi horngrýtis rafbarbari skildi eftir leiðinda ummæli um skrif mín á netinu.
En nýjustu fréttir af rafbarbörum eru að nýtt Kneber laumunet var að uppgötvast og hefur sýkt 75.000 kerfi. Hefur uppgangur rafbarbarana vakið miklar áhyggjur í kjötheimum.  Þrjótarnir hafa einbeitt sér að bönkum og hafa komist yfir fjöldann af persónuskilríkjum, flestum gegnum Facebook.
Laumunet:
Rafbarbarar hafa náð að planta spilliforriti, svokölluðu "Bot" laumuforriti (dregið af Robot) í allstóran hóp heimilistölva grunlausra eigenda og bæta þeim inn í sitt laumunet (Botnet). Þannig búa þeir til net tölva sem þeir geta virkjað allar í einu og notað til illra verka. Með þessar tækni er t.d. stærstur hluti alls ruslpósts sendur út á Netið. Ennfremur eru laumunetin notuð til að safna einkaupplýsingum, svo sem aðgangsupplýsingum að netbönkum og trufla virkni og umferð á Netinu.

Lokum Straumsvík

Það var gaman að heyra í Gísla Hjálmtýssyni í Silfri Egils í hádeginu. Þar fór hann yfir athyglisverða grein sem hann skrifaði í Fréttablaðið í byrjun febrúar, Virkjum ódýrt - lokum Straumsvík.

Þetta er djarft en þarft útspil hjá Gísla svona rétt fyrir fyrirhugaða stækkunarkosningu hjá Alcan. Rökin er góð. Skelfilegt að fá aðeins 2 sent fyrir kílóvattstundina í stað 6-7 senta sem gætu fengist með því að breyta álverinu í miðstöð nýsköpunar fyrir orkutengda starfsemi. 

Það er laukrétt sem kom fram í viðtalinu í Silfrinu að virkjun og bygging álvers fyrir nær hálfri öld var nauðsynleg og góð ákvörðun fyrir Ísland en í dag eru stórvirkjanir fyrir álbræðslur stórkostleg tímaskekkja. Það er margt sem álverið í Straumsvík hefur gert gott. Til dæmis frumherjar í gæðamálum og verið í forystu í þeim málum hér á landi.

Ef áform um álver standa. Nýtt álver í Helguvík. Nýtt álver á Bakka og stækkun í Hafnarfirði, þá verður næsta kreppa sem við göngum í gengum álkreppa!


Maybe I Should Have ****

Það voru sorglega fáir á góðri og skemmtilegri heimildarmynd, Maybe I Should Have, í Kringlubíó í gærkveldi. Setti það að mér ákveðin ugg um að landsmenn séu farnir að gefast upp í baráttnni um Nýja Ísland. Það má ekki sofna aftur á verðinum.

MISHÍ byrjun myndar er farið yfir sviðið og saga hrunsins sögð fram að stjórnarslitum fyrir rúmu ári. Það þekkja allir þá sögu en hún hefur komið í öðrum heimildarmyndum, bókum og ánnálum.  Eftir þennan inngang fer Gunnar Sigurðsson, leikstjóri í leit að peningunum sem hurfu. Notar hann sömu aðferð og Michael Moore. Hann ferðast til London og Luxemburgar, skoðar bankabyggingar og fyrirtæki. Einnig ræðir við fólk. Það liggur leiðin til Guernsey og Tortola. Ekki finnur hann neina peninga en hefur ákveðinn grun hvar þá gæti verið að finna.

Einnig er rætt við þekkta erlenda aðila, m.a. fjármálaeftirlitsmanninn William Black, Evu Joly og Robert Wade en þau hafa komið með góð ráð í Silfri Egils.

Niðurstaða er að ekkert hefur breyst á þessu rúma ári frá hruni. Það er eflaust mikið til í því, sérstaklega í ljósi síðustu fregna. Jón Ásgeir og Jóhannes Jónsson eru jafnvel að eignast Baug aftur og Ólafur Ólafsson að eignast Samskip. Allt stefnir í sama farið.

Myndin endar á tveim öflugum lögum, Fjalabræður flytja áhrifamikið lag, Freyja, á Þingvöllum. Eflir það þjóðerniskenndina. Hjálmar eiga síðustu raggítónana.

Létt og skemmtileg heimildarmynd um hrunið og verður verðmætari er frá líður.


Þorrablót Hornfirðinga

Þorrablót Horfirðinga á höfuðborgarsvæðinu tókst vel í gærkveldi. Yfir 200 manns mættu og var þemað í skemmtiatriðum þorrablótsnendarinnar í anda Michael Jacksons.

Heiðurshjónin Sigurður Hannesson og Guðbjörg Sigurðardóttir stigu á stokk og sögðu skemmtilega frá gömlu góðu dögunum á Hornafirði. Minni karla og kvenna komu vel út hjá Gunnhildi Stefánsdóttur og Borgþóri Egilssyni. Veislan sá um þorramatinn og var hann að venju góður en þau hefðu mætt bæta sig í harðfisknum. Hann var nær uppseldur er ég mætti á svæðið og með roði.

Hljómsveit Hauks sá um ballið og var vel mætt á dansgólfið.

Hilmir Steinþórsson, Stefán Rósar Esjarsson og Jón Ingi Ingibergsson í Thriller klæðnaði. Auk þeirra voru Anna Vilborg Sölmundadóttir, Halldóra Eymundsdóttir  og Jóhanna Arnbjörnsdóttir í nefndinni.

Blot2010


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sigurpáll Ingibergsson

Höfundur

Sigurpáll Ingibergsson
Sigurpáll Ingibergsson
Hornfirðingur búsettur í Kópavogi. Árgerð 1965.
Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • IMG 4410
  • IMG 4385
  • IMG 4421
  • Á afskekktum stað
  • Tíminn051071

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (12.7.): 3
  • Sl. sólarhring: 15
  • Sl. viku: 115
  • Frá upphafi: 236856

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 83
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband