20.8.2022 | 12:19
Fjallganga frá Suður-Týrol til Laugavegs
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.8.2022 | 11:00
Stríð og Rauði krossinn
Það var áhrifaríkt að sjá hauskúpurnar 2.500 og bein í San Martino beinakapellunni. Þarna eru bein hermannanna sem létu lífið í blóðugu orrustunni við Solferno 24. júní 1859.
Brotin hauskúpa eftir byssukúlu vakti hughrif um unga menn sem áttu drauma en enduðu sem safngripur. Virðing fyrir lífum kom upp í hugann. Stríð í Evrópu. Hefur mannkyninu ekkert farið fram?
Stríðið leiddi til þess að Ítalía sameinaðist í eitt ríki 1861, Rauð krossinn var stofnaður 1863 og Genfarsáttmálinn 1864.
Maður hugsaði til hræðilegs stríðs í Úkraínu og tilgangsleysi mannfórna þar fyrir einhvern hégóma.
"Make Love, Not War" eftir John Lennon og Friðarsúlan hjá Yoko er fallegri boðskapur.
Sagan á bakvið stofnun Rauð krossinn er áhrifarík. Hinn vellauðugi Genfarkaupmaður Jean Henri Dunant ætlaði að ná fundi við Napóleon III, Frakkakeisara. Erindi hans var að fá heimild hjá keisaranum til þess að byggja kornmyllur í Alsír. En í þessu stríði tóku þjóðhöfðingjar sjálfir þátt í stríðnu. Frakkar með Napoleon III og Victor Emanuel III með Sardínu-Piedmont herinn gegn Austurríkis-Ungverjalands mönnum leiddir áfram af keisaranum Francis Joseph.
Rauði krossinn
Henri Dunant kom að blóðvellinum kvöldið eftir hina miklu orrustu við Solferini, þar sem 300 þúsund hermenn höfðu háð grimmilega orrustu og um 40 þúsund manns lágu í valnum. Svona var þá styrjöld! Henri Dunant varð skelfingu lostinn. Í fyrstu vissi hann varla hvert halda skyldi. Hvarvetna ómuðu angistaróp og stunur særðra og deyjandi manna. Dunant gleymir öllu um tilgang ferðarinnar.
Hann fer þegar að líkna særðum og þjáðum með aðstoð sjálfboðaliða og liðsinnir Austurríkismönnum, Frökkum og Ítölum á þrem dögum og gerir ekki upp á milli vina og óvina, - þegar haft er orð á því við hann er svarið: "Við erum allir bræður"
Þessi dagur varð honum örlagaríkur um alla framtíð. Þegar hann kom heim til Genfar tók hann að starfa af kappi fyrir glæsilega, fagra hugsjón: Stofnun alþjóðlegs félagsskapar til hjálpar særðum hermönnum. Henri gaf út bók "Endurminningar frá Solferino". Úr þessu spratt Rauði krossinn og Genfarsáttmálinn.
Genfarsáttmáinn hefur verið margbrotinn í stríði Rússa við Úkraínu og óhuggulegt að heyra fréttir. Nú síðast af árás á fangelsi þar sem stríðsfangar voru í haldi. En Rauði krossinn hefur unnið þarft verk í heimsmálum, ekki bara á stríðstímum.
Jean Henri Dunant varð fyrstur að fá friðarverðlaun Nóbels 1901 ásamt Frakkanum Frédéric Passy.
Safn sem geymir hergögn frá stríðinu er í San Martino og hægt að ganga upp í 64 metra turn og sjá yfir svæðið þar sem hildarleikurinn var háður. Frábært útsýni yfir vel ræktað land, mest vínekrur og í norðri sér til Gardavatns.
Afleiðing stríðs. Áhrifarík sýn.
Heimildir
Morgunblaðið - Solferino 1859 og stofnun Rauða krossins
Rauði krossinn - Henri Dunant (1828-1910)
Mannréttindi | Breytt s.d. kl. 11:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.7.2022 | 13:14
Sældarhyggja við Gardavatn
Hið ljúfa líf, la dolce vita, við Gardavatn hjá Villiöndunum, göngu og sælkeraklúbb fyrr í mánuðinum var endurnærandi í hitanum og gott til að upplifa sæluhyggjuna. Það er einhver galdur við orðið Garda og ferðafólk hrífst með.
Gardavatn og Meðalfellsvatn í Kjós eiga margt sameiginlegt. Þau eru bæði jökulsorfin og svo er fjölbreytt mannlíf á bökkum vatnanna.
Gardavatnið er stærsta vatn Ítalíu , um 370 km2 og í einungis 65 m hæð yfir sjávarmáli. Norðurhluti vatnsins teygir sig upp í Alpana. Vegna góðrar landfræðilegrar staðsetningar vatnsins og lítillar hæðar yfir sjávarmáli er loftslagið þar ákaflega hagstætt og minnir einna helst á miðjarðarhafsloftslag. Vatnið er notað sem áveita fyrir frjósamt ræktarland og er vatnsstaðan núna um metri lægri en í meðalári vegna þurrka.
Sirmione er tangi sem skagar út í Gardavatnið sunnanvert. Þar kemur heitt vatn úr jörðu og nutu Rómverjar lífsins í heitum pottum eins og Snorri Sturluson forðum. Söngdívan Maria Callas bjó þarna á sínum bestu árum.
Tveir dagar fóru í hjólaferð á rafhjólum sem var vel skipulögð af Eldhúsferðum. Hjólað var í gegnum vínekrurnar austan við Gardavatnið og eftir sveitastígum í gegnum lítil falleg sveitaþorp. Komið var við hjá vínframleiðendum og veitingamönnum með framleiðslu beint frá býli og töfruðu fram ítalskan sælkeramat. Sérstaklega gaman að hjóla um Bardolino vínræktarhéraðið með Corvina þrúguna á aðra hönd og Rondinella og Molinara þrúgurnar á hina. Kræklótt ólífutrén tóku sig líka vel út. Hjólaferðin endaði með sundsprett í heitu Gardavatni.
Við dvölum í smáþorpi sem heitir Garda en þar var varðstöð Rómverja fyrr á öldum. Lítið þorp með mikið af veitingastöðum á vatnsbakkanum þar sem við gátum notið þess að horfa á vatnið í kvöldsólinni og snæða ekta ítalskan mat og drekka gott rauðvín frá svæðinu.
Nokkrar Villiendur heimsóttu Mt. Baldo hæsta fjallið við Gardavatn. Tókum borgarlínu vatnsins en góðar samgöngur eru á vatninu með ferjum. Sigldum til bæjarins Malcesine en athygli vakti hve mikið af sumarhúsum var í kringum allt vatnið. Ferðuðumst með kláf upp í 1.730 metra hæð, einn Eyjafjallajökull á 17 mínútum. Það var ægifagurt landslag sem blasti við en mesta breytingin var að fara úr 32 gráðu hita í 22 gráður en í þeim hita leið mér vel.
Að lokum var sigling á sægrænu Gardavatni frá Sirmione. Það var gaman að sjá hvernig ferðamenn slökuðu á og upplifðu hið ljúfa líf sem Gardavatnið og bæirnir þar í kring færa manni, það er sem tíminn stöðvist um stund.
Mæli með ferð til Gardavatns en hitinn í byrjun júlí var full mikill fyrir minn smekk.
Kastalamynd frá stærstu eyju Gardavatns, Isola del Garda. Í eigu Conti Cavazza fjölskyldunnar frá Bologna Þar var fyrsta sítrónan ræktuð í Evrópu. Þar stofnaði Frans frá Assisí klaustur árið 1220.
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 13:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.7.2022 | 11:10
Ísmaðurinn Ötzi ferðalangur frá koparöld
Það var áhrifarík stund að sjá endurgerð af Ísmanninum Ötzi í Fornminjasafninu í Bolzano höfuðborg Suður-Týrol á dögunum. Manni fannst orðið vænt um Ísmanninn með dökku augun eftir ferðalag um safnið og harmaði sorgleg örlög hans en líklega vissu ættingjar hans og vinir ekkert um endalok Ötzi. Hann skilaði sér ekki heim fyrr en 53 öldum síðar eftir að hafa horfið í jökulinn og var hvalreki fyrir vísindamenn nútímans en múmían og 70 hlutir sem hann hafði meðferðis gefa ómetanlegar upplýsingar um samtíð hans. Ötzi er ein elsta múmía sem fundist hefur og var uppi á koparöld. Múmían fannst í 3.200 metra hæð í Ölpunum við landamæri Austurríkis og Ítalíu. Kostaði líkfundurinn milliríkjadeilur og eftir leiðinda þvarg í nokkur ár komust menn að þeirri niðurstöðu að Ötzi væri Ítali þó hann talaði ekki ítölsku.
Safnið er á fimm hæðum og á neðstu hæðum eru gripir sem Ötzi var með í ferð og klæðnaður. Góðar útskýringar á þrem tungumálum en mikið af ferðamönnum truflaði einbeitningu við lestur. Hópur af fornleifafræðingum hefur endurgert allan hans útbúnað alveg niður í smæstu einingar: bogann, bakpokann, öxina sem hann bar við beltið, lendarskýlu og höfuðfat. Ötzi var einnig með skyndihjálparbúnað með sér, svo vel voru menn búnir.
Á annarri hæð er hægt að sjá múmíuna en hún er geymd í frysti sem er við 6 gráðu frost og 99% raka. Lítil birta er í salnum og þegar maður kíkir inn um lítinn glugga þá sér maður litla nakta glansandi mannveru, brúna á lit með vinstri höndina yfir bringuna og ekki laust við að glott sé á vör.
Á þriðju hæð er endurgerðin og þá smellur allt saman. Stæltur Ísmaðurinn, lágvaxinn með liðað dökkbrúnt hár, skeggjaður og lífsreyndur næstum ljóslifandi mættur og glottir til manns íklæddur helstu fötum og áhöldum. Merkileg upplifun. Þessi endurgerð minnti mig á einleikara vestur á fjörðum, Elvar Loga Hannesson!
Heilsufar Ötzi - Elsti þekkt hjartasjúklingurinn
Það sem mér finnst merkilegt eftir að hafa kynnt mér sögu Ötzi er heilsufarið en það eru svipaðir sjúkdómar og við eigum við að glíma í dag. Engin persónuvernd er fyrir múmíur!
Ötzi var 46 ára þegar hann var myrtur og það er hár aldur fyrir fólk á koparöld. Hann átti við hjarta- og æðasjúkdóm að glíma, kölkun í kransæðum og víðar. Helstu áhættuþættir fyrir sjúkdóminum í dag eru ofþyngd og hreyfingarleysi en það átti ekki við Ötzi sem var 50 kíló og 160 cm á hæð og nokkuð stæltur. Hjarta- og æðasjúkdómar eru því ekki tengdir siðmenningunni heldur eru þeir geymdir í erfðaefni okkar.
Ötzi átti einnig við liðagigt að glíma og hefur hún ollið honum miklum kvölum. Hann var í nálastungumeðferð við kvillanum og til að lina þjáningar og staðsetja sárustu staðina voru sett húðflúr, 61 strik. Einnig fundust ör á skrokknum og merki um að lækningarjurtum hafi verið komið fyrir undir húðinni til að minnka þjáningar. Allt er þetta stórmerkilegt og telst til óhefðbundinna lækninga í dag. Það hafa því orðið litar framfarir við lækningu liðagigtar á 5.300 árum. Alltaf sami sársaukinn og orsakir enn óþekktar en erfðir og umhverfi skipta máli.
Í erfðamengi Ötzi fundust ummerki borrelia, ætt baktería sem smitast af mítlum sem valda smitsjúkdómi sem kallast Lyme borreliosis. Þessi uppgötvun, fyrir utan að vera elsta dæmið um sjúkdóminn, skjalfestir hversu hættulegir mítlar voru mönnum jafnvel fyrir 5.000 árum.
Ekki er sjúkralistinn tæmdur. Ötzi átti við laktósaóþol að glíma en einnig fannst svipuormur í meltingarvegi en það er algengur sjúkdómur í dag. Lungun voru óhrein, voru eins og í reykingarmanni, sótagnir hafa sest í lungum vegna setu við opinn eld.
Tennur voru slitnar og neglur geyma sögu um langvarandi veikindi. Andlega hliðin er ekki eins auðlesin.
Hvað gerði Ötzi?
Ötzi var hirðir frá koparöld eða kannski ferðamaður, seiðkarl, stríðsmaður, kaupmaður, veiðimaður, að leita að málmi, eða kenningar um hann eru alltaf að breytast.
En á þessum árum þurftu men að ganga í öll störf til að komast af og því erfitt að skilgreina starfsheiti sem tengist nútímanum en starfið þúsundþjalasmiður kemur í hugann. Ljóst er að vopn sem hann bar sýna að hann var í hátt settur í samfélaginu en kenningar hafa komið upp um að hann hafi verið kominn á jaðar samfélagsins. Utangarðsmaður.
Dauði Ötsi
Það tók nokkur ár að finna út að Ötzi hafði verið myrtur. Ummerki eftir ör fundust ofarlega á bakinu. Hann hafði verið drepinn uppi á fjöllum af óþekktum ástæðum af einhverjum sem enginn veit hver var. Guðmundar- og Geirfinnsmál koma í hugann.
En líklega var þetta ekki ránmorð, því verðmæt öxi og fleiri vopn og hlutir voru látin í friði. Mögulega var hjörðinni hans rænt. En það fundust áverkar á múmíunni eftir átök nokkru áður og mögulegt að eitthvað uppgjör hafi átt sér stað hátt upp í fjöllum. Ötzi hafi helsærður eftir árásina komist undan, náð að brjóta örina frá oddinum og fundið góðan stað í gili innan um stór björg. Þar hefur áhugavert líf hans endað, líklega út af áverkum eftir örina frekar en ofkælingu. Gilið sem geymdi líkið varð hin fullkomna frystikista og roföflin komust ekki að. Jökullinn varðveitti hann helfrosinn og gripi hans og skilaði honum til baka með aðstoð loftslagsbreytinga úr faðmlagi sínu um haustið 1991 er Þýsk fjallgönguhjón fundu hann utan alfaraleiðar.
En stórmerkilegur fundur múmíunnar hefur svarað mörgum spurningum en einnig vakið fjölmargar aðrar spurningar og sífellt bætist við þekkinguna enda enginn mannvera verið rannsökuð jafn mikið. Sumum spurningum verður aldrei svarað.
Stæltur Ísmaðurinn, lágvaxinn, 160 cm, 50 kg og skónúmer 38. Lífsreyndur og glottir til manns íklæddur helstu fötum og áhöldum. Merkileg upplifun. Þessi endurgerð minnti mig á einleikara vestur á fjörðum, Elvar Loga Hannesson!
Heimildir
- Fleckinger, Angelika, Ötzi, the Iceman. The Full Facts at a Glance, 6. útgáfa, Bolzano 2020
- Hvað getið þið sagt mér um ísmanninn Ötzi? - Vísindavefurinn
- The Iceman Opinber vefsíða um Ísmanninn Ötzi
- Ötzi the Iceman: What we know 30 years after his discovery - National Geography
22.7.2022 | 10:59
Landeigendur léleg landkynning
"Reynslan hefir sýnt það og sannað, að atvinnurekstur einstaklinga þolir engan samanburð við ríkisrekstur." - Þórbergur Þórðarson
Landeigendur ekki að standa sig við Seljalandsfoss og léleg landkynning fyrir Ísland.
Var að koma frá Suður-Týrol og ferðaðist um Dólómítana. Það var áberandi hvað allt er snyrtilegt í Suður-Týrol. Ekkert fyrir plokkara að gera.
Svæðið er að stórum hluta á Heimsminjaskrá UNESCO, rétt eins og Vatnajökulsþjóðgarður, Þingvellir og Surtsey.
Greinilegt að íbúar svæðisins eru snyrtilegir og góðir innviðir fyrir úrgangslosun. Virðing fyrir náttúrunni í menningu Suður-Týrol. Hún smitast í ferðamenn. Einstaklingar, fyrirtæki og stjórnvöld geta lært af þeim.
Mikið er af kláfum og fjallaskálum sem þjóna ferðamönnum og gott aðgengi fyrir úrgang og úrgang frá fólki öðru nafni saur. Eplasafinn var afgreiddur í margnota glösum, ekkert plast.
Stór hluti af vandamálinu er umbúðaþjóðfélagið hér á landi. Flest allt umvafið plasti og einnota það má gera miklu betur þar.
Þurfum að hugsa þetta út frá úrgangspíramídanum, forvarnir, lágmörkun úrgangs, endurnotkun, endurvinnsla, endurnýting og förgun.
Snyrtilegt svæði. Enginn úrgangur fljótandi innan um náttúruperlurnar. Hér sést St. Ulrich Ortisei í 1.226 m. og Selva fyrir ofan. Val Gardena þekk fyrir skíði. Mynt tekin af Seiser Alm hásléttunni í 2.130 metra hæð í 24 stiga hita.
Harmar upplifun gesta Seljalandsfoss | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.7.2022 | 10:42
Rósagarðurinn
Þegar ég var á skuttogaranum Þórhalli Daníelssyni SF-71 þá heimsóttum við stundum Rósagarðinn og mokuðum upp karfa. Rósagarðurinn er víðáttumikil fiskimið langt úti í hafi á milli Íslands og Færeyja. Þýskir togarasjómenn gáfu bleyðunni nafn og nefndu Rosengarten. Tvennum sögum fer af nafngiftinni. Annað hvort er hún eftir rauðum kóral sem hefur komið upp með trollinu eða rauðum karfa sem veiddist þar.
Verkefni dags tvö hjá Villiöndum var að kanna annan Rósagarð, fjallaklasa í Dólómítunum í Suður-Týrol. Í Rósagarðinum bjó Lárin dvergakonungur sem lét fjöllin leiftra, tindra og glitra og segir ekki meira af honum. Fjöllin í Ölpunum hafa tinda sem benda til himins og standast samanburðinn við fjöllin í Suðursveit!
Fjallgangan byrjaði hjá Laurins Lounge við fjallaskálann Kölner Hutter (2.337 m) og gengið var meðfram vesturhlið Rósagarðsins og austur fyrir hann að fjallaskálanum Rode di Vale. Snúið til baka og tekin skíðalyfta niður við Paoline fjallaskálann og gengið niður að Lake Carezza, stöðuvatni sem hefur alla liti regnbogans og tengist þjóðsögu.
Dólómítarnir eru hluti Ítölsku Alpanna og taka nafn sitt frá steintegundinni í þeim, dólómít. Þetta eru gömul kóralrif og marmarahvít gnæfa þau upp úr fjallgarðinum og þegar sólin sest slær á þau purpurarauðum bjarma. Hæsta fjall Dólómítanna er Marmolada sem rís hæst í 3.343m yfir sjávarmáli og þekktir fjallaklasar eru m.a. Rósagarðurinn (3.004 m) sem sést vel frá borginni Bolzano, Sella, Latemar og Langkofel-klasinn í Val Gardena. Dólómitarnir eru á Heimsminjaskrá UNESCO. Svæðið er í sama flokki og Surtsey, Þingvellir og Vatnajökulsþjóðgarður. Hefur einstakt gildi á heimsvísu.
Lagt var frá Bolzano og keyrt upp í fjöllin í gengum fjölda jarðganga. Beygjurnar á leiðinni slaga upp í fjölda eyjanna í Breiðafirði. Stórbrotið landaslag, vínviður víðast hvar og fjöllin skógi vaxin og byggð á ótrúlegustu stöðum.
Eftir rútuferð tókum kláf í 1.748 metra hæð og ferjaði hann okkur upp í 2.314 metra hæð og byrjuðum við á því að fá okkur kaffi í Laurins Lounge veitingaskálanum. Þetta eru auðveldasta 500 metra hækkun sem ég hef lent í á mínum fjallgönguferli. Frá skálanum var síðan gengið meðfram Rósagarðinum sem er glæsilegur fjallshryggur með Latemar á hægri hönd.
Á leiðinni sáum við berghlaup sem minnti á Stórurð og skömmu síðar var gil sem sendi mann til Grand Canyon í Arizona. Mikið af göngufólki kom á móti okkur og áberandi hvað það var í eldri kantinum en hvað er betra en að anda að sér fjallaloftinu á eftirlaunaaldri.
Smá hækkun var frá Paloma fjallaskálanum, 70 metrar að stórri styttu af erni og minnismerki um Theodor Christomannos (1854-1911) stjórnmálamann og frumkvöðul ferðaþjónustu í Suður Týrol. Einskonar Ari Trausti okkar Íslendinga!
Þegar við vorum komin fyrir horn Rósagarðsins sáust rigningarský á himni og í kjölfarði fylgdu eldingar og þrumur í kjölfarið. Dropar tóku að falla. Þegar styttist í fjallaskálann, þá opnuðust himnarnir er eldingar færðust nær. Fjölmenni göngufólks var í alpaskálanum og biðum við eftir að gjörningaveðrið gengi yfir. Skyndilega kom ein elding stutt frá okkur sem lýsti upp himininn og miklar drunur fylgdu í kjölfarið. Það bergmálaði í fjöllunum. Allt í einu var maður kominn til Maríupol í Úkraínu.
Fínasta gúllassúpa var í boði í skálanum en ekki var hægt að kaupa annað vegna vatnsleysi en vatnsdælan hafði bilað daginn áður. Meðan þrumuveðrið gekk yfir skoðaði maður fjallaskálann. Á veggjum héngu myndir af miklum klifurhetjum enda Suður-Týrólar aldir upp við fjallaklifur. Fann mynd af Reinhold Messner og varð starstruck, hér höfðu klifurhetjur dvalið. Messner vann það sér til afreka að fara fyrstur án aukasúrefins á Everest ásamt félaga sínum Peter Habeler og gekk á alla 14 tinda yfir 8.000 metra að hæð. Þeir innleiddu alpastílinn í háfjallamennsku. Einnig var glæsileg mynd af Gino Pisoni (1913-1995) sem var brautryðjandi í fjallaklifri í Ölpunum og lagði margar gönguleiðir. Ægifögur Dólómítafjöll voru þeirra leikvöllur. Messner sagði að hann væri búinn að ganga á 3.500 fjöll víðast hvar í heiminum en Dólómítafjöllin bæru af hvað varðar fallega byggingu.
Þolinmæði er dyggð. Tveggja tíma biðin borgaði sig, þegar við lögðum af stað til baka, þá létti þokunni að það var ævintýralegt að sjá Rósagarðinn birtast og önnur fjöll í Dólómítunum og Ölpunum. Djúpir fjalladalirnir óðu í hvítum skýjum og litir voru svo tærir.
Lake Carresa er lítið fjallavatn sem ljómar í þúsund tónum af grænu, bláu og grænbláum litum, umlukið þéttum skógi og handan glæsilegum tindum Dólómítanna og speglast þeir í vatninu.
Minnti mig á blágræna vatnið í Stórurð eða sprengigígurinn Grænavatni í Krýsuvík en það vantar tignarleg trén.
Betur af stað farið en heima setið. Ógleymanlegur dagur, ægifegurð og stórbrotin upplifun með Villiöndum og Eldhúsferðum.
Þó Alparnir með Dólómítanna hafi það orð á sér að vera eitt mesta sköpunarverk veraldar og bjóða upp á eitthvert fallegasta fjallalandslag sem til er, með lóðréttum veggjum, stórum klettum og miklum fjölda af þröngum, djúpum og löngum dölum, þá er margt líkt og á Íslandi en á stærri skala. Það má finna ljós líparítfjöll, jökla, Hraundranga, Dyrfjöll, Stórurð, Morinsheiði, Humarkló, tindótt Suðursveitafjöll og Fjaðrárgljúfur í Ölpunum en það sem okkur vantar eru tré, kláfar og þróaðri fjallaskálamenning.
Hér eru skógivaxnir dalir í þokunni og berir fjallstindar blasa við, hrjóstrug fjallaskörðin tengja dal við dal. Tindar sem benda til himins.
Dagsetning: 3. júlí 2022
Þátttakendur: Villiendur göngu og sælkeraklúbbur, 15 fjallgöngumenn og fararstjóri
Heimildir:
UNESCO heimsmynjaskrá - Dólómitarnir (2009)
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.6.2022 | 17:33
Stóri-Hrútur (352 m)
Stóri-Hrútur er fallega formað fjall utan í austanverðu Fagradalsfjalli. Vestar er nýtt fjall og nýtt hraun, en norðar sér niður í hraunaða Meradali, Litla-Hrút (312 m) og Keili.
Stóri-Hrútur er eitt fjölfarnasta fjall landsins í dag og kom skyndileg frægð hans til vegna eldgosins í Geldingadölum. Fjallið er hæsta fjallið í Fagradalsfjalla-klasanum og tilkomumesta þó kollótt sé.
Þegar á Stóra-Hrút er komið sér vel yfir hraunið í Meradölum og nýtt litskrúðugt fjall sem ætlaði að verða dyngja en vantaði efni úr neðra. Fjallið er vel vaktað og teygir net jarðskjálftamæla sig þangað. Greina má sprungur í móbergsfjallinu.
Lagt var við bílastæði við Langahrygg. Beygt var upp af Suðurstrandaveg á milli Skála-Mælifells og Slögu. Þar voru margir erlendir ferðamenn. Líklega er búið að loka svæðinu núna.
Stefnan var tekin á móbergshrygginn Langahrygg (311 m.) og þaðan gengið á Stóra-Hrút (352 m) en á milli þeirra liggur nýja hraunið, Fagradalshraun. Gengið var stutt út á hraunið.
Mest spennandi var gígurinn sem skóp Fagradalshraun. Þarna var dyngja í mótun en skyndilega stoppaði hraunrennslið. Skrautlegar litaútfellingar eru vegna gas sem kemur enn úr gígnum. Áhugavert var að finna hitann á litskrúðugu sprungunum í hrauninu.
Ekki sást brak úr flugvélinni,sem fór í Langahrygg. Í henni voru 11 menn og allir látist. Flugvélin var tveggja hreyfla flugbátur Bandaríkjaflota af gerðinni PBM-1 Mariner (flugsveit: VP-74) og var að koma aftur til Skerjafjarðar eftir fylgd með skipalest SV af landinu. Vélin flaug á fjallið í dimmviðri þann 02. nóvember 1941. Tvær aðrar flugvélar fórust í Fagradalsfjalli í heimsstyrjöldinni.
Mæli með að ganga á Stóra-Hrút ef fólk ætlar að sjá nýjasta djásnið í náttúru Íslands.
Föruneyti hringsins á leið á Stóra-Hrút (352 m) en kollóttur er hann. Það blés hressilega nyrst á hrútnum.
Dagsetning: 22. maí 2022
Stóri-Hrútur: 352 m (N:63.52.999 - V:22.14.992)
Göngubyrjun: Geldingadalir Volcano Parking 2, lokað núna
Uppsöfnuð hækkun: 462 m
Uppgöngutími: 120 mín (12:00 - 14:00)
Heildargöngutími: 200 mín (12:00 - 15:20)
Erfiðleikastig: 1 skór
Langihryggur: 311 m (N:63.52.440 - V:22.15.737)
Vegalengd: 8,4 km
Veður: lék við okkur, bjart og hlýtt og vindur að mestu mildur, það blés þó aðeins uppi á Stóra Hrút
Þátttakendur: Fjallafélag Vínbúðanna, 7 manns
GSM samband: Já
Gönguleiðalýsing: Létt og þægileg hringleið. Byrjar á móbergi upp Langahrygg og þaðan á Stóra-Hrút. Gengið á grónu landi austan við Langahrygg niður Hrútadal á bakaleið.
Facebook-staða: Takk fyrir skemmtilega samveru kæra samferðarfólk
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.7.2021 | 15:53
Hringun 35 stærstu vatna höfuðborgarsvæðisins í heimsfaraldri
20.6.2021 | 10:39
Nátthagavatn - Nátthagi
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.6.2021 | 18:15
Hringuð vötn - Brunntjörn
Það eru töfrar í vatninu. Ég hef undanfarið unnið gengið hring í kringum stöðuvötn á höfuðborgarsvæðinu. Fyrst voru þekktustu vötn og tjarnir hringaðar en svo fannst listi yfir 35 vötn í skýrslu um Vötn og vatnasvið á höfuðborgarsvæðinu ástand og horfur.
Það styttist í að hringnum verði lokað og þetta hefur verið stöðugur lærdómur en áhugaverðasta vatnið er Brunntjörn hjá Straumi. Ég komst að því eftir smá grúsk að Brunntjörn og tjarnir í Hvassahrauni eru stórmerkilegar og á heimsmælikvarða. Stutt og skemmtileg ganga sem minnir á Þingvallagöngu og dvergbleikja lifir þar sem hraun og lindir koma saman.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Sigurpáll Ingibergsson
Færsluflokkar
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Enski boltinn
- Evrópumál
- Ferðalög
- Fjármál
- Fjölmiðlar
- Heilbrigðismál
- Heimspeki
- Íþróttir
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Lífstíll
- Ljóð
- Löggæsla
- Mannréttindi
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Pepsi-deildin
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Sveitarstjórnarkosningar
- Tónlist
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 2
- Sl. sólarhring: 4
- Sl. viku: 56
- Frá upphafi: 233594
Annað
- Innlit í dag: 2
- Innlit sl. viku: 47
- Gestir í dag: 2
- IP-tölur í dag: 2
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar