Plastrusl í hafinu

Ábyrgð á plastrusli

Sá færslu frá SÞ Ísland um plastrusl í hafinu á samfélagsmiðli. Aðeins er minnst á plastrusl frá almenning, rör, plastflöskur og matarumbúðir en í nýlegri rannsókn á hafsvæði Íslands þá er 94% af úrgangi í hafinu veiðarfæri sem með tímanum breytist í örplast.

"Alls var 94,1% af rusl­inu sem fannst veiðarfæri, megnið fiskilína eða 80,5%. Al­mennt rusl eins og til að mynda plast­pok­ar, plast­film­ur og áldós­ir var aðeins 5,9% af því sem fannst."


Hér er verið að varpa ábyrgðinni á almenning en freki karlinn, sjávarútvegurinn sleppur algerlega.


Stjórnvöld og hagsmunasamtök verða að ráðast á garðinn þar sem hann er hæstur.
Það þarf að fjarlægja plastruslið og þeir eiga að borga sem menga. 

Ég gekk um Hornstrandir í byrjun mánaðar og það var sorglegt að sjá netakúlur og fleira frá sjávarútveginum innan um náttúlegan rekaviðinn.

 

SÞ - plastrusl í hafinu


Vörðufell (391 m) á Skeiðum

Vörðufell á Skeiðum er allmikið þríhyrningslaga fjall, um sjö km á lengd en tæpir fjórir km á breidd þar sem það er breiðast, en mjókkar mikið til norðurs. Hvítá rennur vestan við fjallið. Allmörg gil ganga niður fellinu.

Fellið er úr móbergi og grágrýti og hvassasta horn þess er nyrst og var gengið þar upp og beygt hjá skilti sem á stóð Vörðufell. Bílastæði er fyrir göngufólk.

Gangan er nokkuð greið og slóða fylgt upp á fellið um misgróna mela. Sauðfé á beit og mófuglar skemmtu okkur með söng sínum og lóan söng dirrindí og fannst okkur vera þó nokkurt vit í því.

Margar vörður eru á leiðinni á fellinu og eru landamerki jarða sem eiga hlut í fellinu en líklega hefur Vörðufell sjálft verið varða í umhverfinu fyrir ferðamenn fyrr á öldum er þeir áttu leið í hið merka Skálholt og nágrenni.

Nokkrar hæðir eru á Vörðufelli og bera þau nöfn. Birnustaðaskyggnir (378 m) er einn áberandi ás en smáfell eru dreifð um sléttuna. Jarðskjálftar hafa markað fellið.

Fyrir okkur varð fallegt stöðuvatn, sem Úlfsvatn heitir, greinilega gamall eldgígur og vatnsforðabúr sveitarinnar. Úlfsvatn var ekki hringað. Rennur smálækur suður úr því niður í Úlfsgil sem er mikið hamragil. Reynt var að rækta silung í vatninu og gekk það ekki.

Rádýrt útsýni allan hringinn.  Nær var Skálholt og Laugarás með  brúna yfir Iðu, Mosfell, Hestfjall og Hestvatn. Síðan jöklarnir glæsilegu Langjökull, Hofsjökull, Tindfjallajökull Mýrdalsjökull og Eyjafjallajökull.  Vestmannaeyjar tignarlega úti í hafi. Hekla, Ingólfsfjall og Hrútfell svo einhver þekkt fjöll séu nefnd.

Áhugavert er að sjá Tungufljót og Stóru Laxá falla í Hvítá fyrir ofan Iðu og Brúará þar sem hún fellur í Hvítá örskammt vestan Vörðufells og þá átta menn sig á því að það eru árnar sem með framburði sínum hafa skapað þetta fagra gróðurlendi

Vörðufell á Skeiðum

Ágætur staður til að hefja göngu á Vörðufell. Landeigendur ekki sáttir við að gengið sé um þeirra land.

Dagsetning: 11. júlí 2023
Vörðufell: 391 m 
Göngubyrjun: Norður undir Vörðufelli
Erfiðleikastig: 1 skór
Veður: lék við okkur, bjart og hlýtt. NNA 6 m/s, 18 stiga hiti og 44% raki.
GSM samband: Já

Gönguleiðalýsing: Létt og þægileg ganga á gott útsýnisfjall með útsýni yfir Suðurland

 

Heimildir

Fjöll á Fróni, Pétur Þorleifsson, 2010

Nafnid.is - Örnefnaskrá


Kolefnislosun og hagnaður

Þorskstofninn í hættu vegna loftslagsbreytinga en möguleg tækifæri í sardínum og makríl er frétt á forsíðu Fréttablaðsins 9. desember 2022.  Ráðast þarf að rót vandamálsins, stoppa losun GHL.

Slæmu fréttirnar þegar mælingar á losun í virðiskeðju fyrirtækja eru að risarnir í losun eru ekki að vinna neitt í losunarsviði 3, nema orkufyrirtækin tvö, LV or OR. Hlutfallið í losunarsviði 3 er 5% en viðmið MSCI vísitölunnar er 88%.

Mælingar í virðiskeðjunni eru nauðsynlegar til að fyrirtæki skilji rekstur sinn og ábyrgð. Lykilatriði til að ná kolefnishlutleysi (Net Zero emissions).  Staðan eða kortlagning  hjá fyrirtækjunum minnir mig á landakort sem Christopher Columbus hafði árið 1492 þegar hann ætlaði að sigla til Asíu en endaði í Ameríku!

Enginn losun reiknuð við flutning hráefnis og vöru hjá álverum. Einnig hvernig hráefnis er aflað. Það vantar fallega framtíðarsýn eins og CarbFix hefur um að fanga CO2 úr andrúmslofti og farga neðanjarðar sé flutt  í skipum með vistvænu eldsneyti.

Sobril taflan

Í töflunni eru stærstu kolefnislosunarvaldar Íslands og raðað eftir beinni losun (grái dálkurinn).  Fyrsti dálkurinn er hagnaður fyrir skatta 2021 og fengin úr bókinni 300 stærstu. Síðan koma losunarsviðin og mótvægisaðgerðin, kolefnisbinding.  Athygli vekur að hagnaður gráu fyrirtækjanna 18 er 136 milljarðar fyrir skatta og ef þau væru skylduð skv. mengunarbótareglunni til að kolefnisjafna losun í dag og greiða þrjú þúsund krónur (20 EUR) fyrir tonnið af CO2 væri kostnaður um 10 milljarðar eða rúm 7% af hagnaði fyrir skatta.   Sorglegt að sjá að fyrirtækin fjárfesti ekki meira í grænum fjárfestingum, orkuskiptum, hringrásarhugsun, þekkingaröflun og nýsköpun í loftslagsmálum í góðærinu.

Heildarlosun gráu fyrirtækjanna er 3,3 milljón tonn CO2 eða rúmlega 73% af losun landsins fyrir utan landnotkun. Almenningur, sveitarfélög og hin 20.000 fyrirtækin eiga 27%! Til samanburðar er losun gróðurhúsalofttegunda sem er á beinni ábyrgð Íslands 2,7 milljón tonn.

Orkufyrirtækin með yfirburði í kolefnisbindingu en margt spennandi í farvatninu á komandi árum ef staðið verður við farmtíðarsýn fyrirtækjanna í sjálfbærniskýrslum. En aðeins rúmlega 1% af losun er kolefnisjöfnuð.

Aðeins Landsvirkjun nær að uppfylla kröfur um kolefnishlutleysi en búið að að lögfesta að Ísland ætlar að ná markmiði um kolefnishlutleysi eigi síðar en 2040.

Einnig er í hættu að Ísland ná markmiði Parísarsamkomulagsins 2030 með þessu aðgerðaleysi.

Stóru losunarfyrirtækin eru ekki að standa sig og sýna litla ábyrgð, stjórnvöld þurfa að taka frumkvæðið með réttlátum umskiptum í loftslagsmálum, setja þarf neyðarlög og skylda fyrirtækin til að gera metnaðarfulla neyðaráætlun.

ETS – Viðskiptakerfi ESB heldur um iðnað, flug og sjóflutninga. Um kerfið gilda sérstakar reglur en þrátt fyrir það þá öndum við að okkur sama loftinu og við þurfum að gera strangar kröfur til risanna í losun. Mögulegt er að að losunartölurnar sem álverin birta í sjálfbærniskýrslum eru mun lægri en losunin er í raun og veru.

Nú er að hefjast nýtt uppgjörsár og vonandi verða þessar upplýsingar til þess að fyrirtæki setji meiri metnað í mælingar á virðiskeðjunni. Það skiptir miklu máli að finna hvaða losunarþáttur og hvar mest ábyrgðin liggur. Forgangsraða og setja mestan tíma í stærstu loftslagsvænu aðgerðina.

Íslensk fyrirtæki þurfa að spýta í lófana og vera góð fyrirmynd, til að sviðmyndin - þorskstofninn hverfur úr lögsögunni - raungerist ekki.

          Greinin birtist fyrst í dálknum Skoðun í Fréttablaðinu 12. febrúar 2023


Lærum snjóruðning af Týrolbúum - Brenner-skarð

Það fyrsta sem þarf að gera er að breyta lögum og leyfa Vegagerðinni og/eða Björgunarsveitum að fjarlægja yfirgefna bíla sem stoppa hreinsunarstarf. Það næsta er að læra af Týrolbúum.

Brenner-skarð - Brenner Pass "Bridge of Europe"

Ég átti leið um Brenner-skarð í júli og þegar ég áttaði mig á mannvirkinu, hraðbrautinni sem er 49,1 km brú þá fannst mér stærstu brúarmannvirki á Íslandi agnarsmá í samanburði. Brenner-skarð er fjallvegur milli Ítalíu og Austurríkis í Ölpunum í gegnum Norður og Suður Týrol.

Á einum stað var farið yfir lítið fjallaþorp í dal einum og tæpir 200 metrar niður. Þá fannst mér Brennerbrúin mikilfengleg. Þar er brúarhandriðið svo hátt uppi að sundlar alla fugla er á setjast.

Framkvæmdir hófust árið 1959 og lauk 1963. Lest gengur einnig yfir skarðið og mannvirkið þekkt fyrir að vera hátt upp án jarðgangna.

Það snjóar í 1.370 metrum. Snjóruðningur er vel þróaður og koma fjórir snjóplógar og taka alla brautina. Þegar þeir koma í næsta svæði, þá taka næstu við og svo koll af kolli.
Getum við eitthvað lært af Týrolbúum við snjóruðning á Reykjanesbraut og Hellisheiði?

Brúin var ekki hönnuð fyrir þungaflutninga sem eru í dag. Ef það verður óhapp og umferð stoppar, þá er löng röð af trukkum sem bíða á brúnni. Það er helsta ógnin í dag,
að brúin hrynji. Því er verið að leggja leið fyrir flutninga- og farþegalestir. Jarðgöngin verða 64 km. Brenner Base Tunnel (BBT) sem opna 2032.

Það þriðja: Þegar upplýsingar um Brenner-skarð eru skoðaðar þá er það fyrsta sem kemur er sektir ef bílar eru ekki á vetrardekkjum eða keðjum. Það eru allt of léttvægar sektir ef fólk er á sumardekkjum í snjóstormi hér á landi.

Brenno

Þrír snjóplógar sem hreinsa hraðbrautina. Þeir skipta hraðbrautinni niður í hólf. Þannig að þessir sjá um hluta af leiðinni.


mbl.is „Hvernig ætlum við að bregðast við“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kláfar á Íslandi

Allir íslensku kláfarnir sem til eru, eru yfir fljót. Engir eru til að ferja ferðamenn upp á fjöll. Íslendingar hafa meira talað um að byggja kláfa heldur en að framkvæma. En áhugaverðar hugmyndir eru á prjónum.
 
Þegar ég heimsótti Dólómíta og Gardavatn í júlí mánuði þá upplifði ég þróað samgöngukerfi með kláfum og voru þeir vel nýttir til að koma ferðamönnum á "erfiða" staði og þroskuð skálamenning tók við. Allt mjög snyrtilegt og mikil fagmennska.
Ég ferðaðist með kláfum til: Mt. Baldo við Gardavatn, hækkun: einn Eyjafjallajökull. Efra Breiðholt Bolzano, hluti af Borgarlínu bæjarins. Seizer Alm hásléttan og um Rósagarðinn í Dólómítunum. Sjá myndir á þræðinum Brýr og kláfar á Íslandi og víðar.
 
Skoðaði þróun á Íslandi. Í fjölmiðlum er fyrst minnst á kláf 1874 yfir vestari Jökulsá í Skagafirði. Næst er hugmynd um kláf á Skálafellsjökli 1990. Síðan upp í Klif í Vestmannaeyjum 1996. Kláfur í Hlíðarfjall 1998 og kláfur upp í Bolafjalli 2006.
Fjórar hugmyndir sem unnið hefur verið með hafa birst sótt um byggingarleyfi. En svo kom heimsfaraldur og allt stopp eða hvað?
2022 - Esjuferja - Hugmyndir lagaðar fram á ný
2021 - Eyrarfjall á Ísafirði - 45 manns í kláf
2017 - Kláfur á topp Hlíðarfjalls - Hlíðarhryggur ehf.
2015 - Esjuferja ehf sótti um að setja upp kláf á Esjuna, tekur 80 manns í ferð. Kostnaður 3 milljarðar þá. Hafnað af Hverfisráði Kjalarness
2014 - Rannsóknir - Vindmælir á Esju 
2012 - Kláfur á Kistufell 2012, draumur
 
Persónulega tel ég að kláfur og fjallahótel á Skálafelli og Hlíðarfjalli gæti gengið því hægt að nýta allt árið. Ísafjörður og Esjan eru erfiðari nema rekstraraðilar eigi ás í erminni. 
 
Fjallaskáli eða fjallahótel þarf að vera á endastöðinni og þá geta ferðamenn notið útsýnis, farið í gönguferðir, gengið, hlaupið, hjólað eða skíðað niður fjallið. Einnig getur áhugafólk um hverskonar svifflug nýtt kláfferjuna. Norðurljósa- og stjörnuskoðun er möguleg og í góðum veitingasal er hægt að halda allskonar veislur á stórbrotnum stað. Hér er komin stórgóð viðbót við ferðaþjónustu.
 
Ég hvet til umræðu um byggingu kláfferja upp á fjöll. Þær hafa umtalsverð umhverfisáhrif og starfsemin sem upp sprettur í kringum samgöngubótina þarf að vera sjálfbær. Virðist vera fyrirstaða hjá yfirvöldum en raflínur eru ofanjarðar og skapa mikla sjónmengun. Kláfferjur eru afturkræfar framkvæmdir. 
Björgunarþyrla þarf að æfa björgun úr kláf því kláfferja getur bilað eða stoppað. Íslenskt stormveður lokar fyrir samgöngur og þoka getur dregið úr ferðaáhuga. Því þarf að gera áætlanir með þetta í huga.
 
Suður-Týrol var eitt fátækasta ríki Evrópu fyrir stríð, svipað og Ísland. Eftir stríð þá breyttist allt. Kláfar voru notaðar þegar verja þurfti fjallaskörð og þegar stríðinu lauk, þá var hægt að nýta þá til að ferja ferðamenn upp á hæstu sléttur og tinda til að skíða eða njóta fegurðarinnar.
Við eigum að geta lært helling af Týról- og Alpabúum.
 
Samgöngukerfi
 
Mynd af samgöngum og gönguleiðum í Rósagarðinum sem er á Heimsminjaskrá UNESCO. Samanstendur af kláfferjum og skíðalyftum.

mbl.is Hugmyndir um ferju á Esjuna lagðar fram á ný
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fjallganga frá Suður-Týrol til Laugavegs

Eftir að hafa gengið með Villiöndunum í Dólómítunum urðum við að ganga helsta djásnið á Íslandi, Laugaveginn til að fá samanburð.
 
Niðurstaðan er sú að báðar gönguleiðir eru ægifagrar enda önnur á Heimsminjaskrá UNESCO og hin á skilið að vera þar. Tindótt fjöllin og skörðótt efst með djúpa skógi vaxna dali í Dólómítunum eru í öðru veldi en Laugavegurinn liggur um óviðjafnanlega fagurt landslag, hefur fjölbreytnina þar sem öllum svipsterkustu og glæsilegustu þáttum íslenskrar náttúru er brugðið saman í eina öfluga heild. Nýtt landslag eða sviðmyndir á bakvið hverja hæð. Týról vann þó fjallaskálakeppnina enda í heimsklassa þar.
 
Litadýrð tignarlegra fjalla, rjúkandi leirhverir, öskrandi gufuhverir, soðpönnur, fagurgrænn mosi, sægræn fjallavötn, heitar laugar, íshellar, jöklar og eyðisandar. Allt þetta blasti við augum Villiandanna sem lögðu leið sína um Laugaveginn.
 
Mikil upplifun í ekta íslensku veðri sem breyttist á fimmtá mínútna fresti, að ganga yfir óbrúaðar ár, finna sterka ammoníakslykt á kömrum og upplifa stemmingu í fjallaskálum með öðru göngufólki en 90% fjöldans eru uppnumdir erlendir göngumenn. Sjá ósnert víðerni, þar eru mikil verðmæti.
 
Á heimleiðinni sáum við krafta Krossár en hún tók glænýjan Land Rover Defender með fimm erlendum ferðamönnum. Sem betur fer fór sluppu þeir vel frá hrömmum jökulárinnar.
 
Við snertum landið og landið snertir okkur. Litlu tærnar á fótunum eru lúnar eftir nudd fjallgöngunnar en það lagast.
 
LM
Tveir þjarkar úr Villiöndunum við Brennisteinsöldu. Áhugavert að sjá fjöllin tvö speglast í hvort öðru.
 
Heimild
Gönguleiðir, Landmannalaugar - Þórsmörk, Páll Ásgeir Ásgeirsson. 1994.

Stríð og Rauði krossinn

Það var áhrifaríkt að sjá hauskúpurnar 2.500 og bein í San Martino beinakapellunni. Þarna eru bein hermannanna sem létu lífið í blóðugu orrustunni við Solferno 24. júní 1859.
Brotin hauskúpa eftir byssukúlu vakti hughrif um unga menn sem áttu drauma en enduðu sem safngripur. Virðing fyrir lífum kom upp í hugann. Stríð í Evrópu. Hefur mannkyninu ekkert farið fram?


Stríðið leiddi til þess að Ítalía sameinaðist í eitt ríki 1861, Rauð krossinn var stofnaður 1863 og Genfarsáttmálinn 1864.


Maður hugsaði til hræðilegs stríðs í Úkraínu og tilgangsleysi mannfórna þar fyrir einhvern hégóma.

"Make Love, Not War" eftir John Lennon og Friðarsúlan hjá Yoko er fallegri boðskapur.

Sagan á bakvið stofnun Rauð krossinn er áhrifarík. Hinn vellauðugi Genfarkaupmaður Jean Henri Dunant ætlaði að ná fundi við Napóleon III, Frakkakeisara. Erindi hans var að fá heimild hjá keisaranum til þess að byggja kornmyllur í Alsír. En í þessu stríði tóku þjóðhöfðingjar sjálfir þátt í stríðnu. Frakkar með Napoleon III og Victor Emanuel III með Sardínu-Piedmont herinn gegn Austurríkis-Ungverjalands mönnum leiddir áfram af keisaranum Francis Joseph.

Rauði krossinn

Henri Dunant kom að blóðvellinum kvöldið eftir hina miklu orrustu við Solferini, þar sem 300 þúsund hermenn höfðu háð grimmilega orrustu og um 40 þúsund manns lágu í valnum. Svona var þá styrjöld! Henri Dunant varð skelfingu lostinn. Í fyrstu vissi hann varla hvert halda skyldi. Hvarvetna ómuðu angistaróp og stunur særðra og deyjandi manna. Dunant gleymir öllu um tilgang ferðarinnar.

Hann fer þegar að líkna særðum og þjáðum með aðstoð sjálfboðaliða og liðsinnir Austurríkismönnum, Frökkum og Ítölum á þrem dögum og gerir ekki upp á milli vina og óvina, - þegar haft er orð á því við hann er svarið: "Við erum allir bræður"

Þessi dagur varð honum örlagaríkur um alla framtíð. Þegar hann kom heim til Genfar tók hann að starfa af kappi fyrir glæsilega, fagra hugsjón: Stofnun alþjóðlegs félagsskapar til hjálpar særðum hermönnum. Henri gaf út bók "Endurminningar frá Solferino". Úr þessu spratt Rauði krossinn og Genfarsáttmálinn.

Genfarsáttmáinn hefur verið margbrotinn í stríði Rússa við Úkraínu og óhuggulegt að heyra fréttir. Nú síðast af árás á fangelsi þar sem stríðsfangar voru í haldi. En Rauði krossinn hefur unnið þarft verk í heimsmálum, ekki bara á stríðstímum.

Jean Henri Dunant varð fyrstur að fá friðarverðlaun Nóbels 1901 ásamt Frakkanum Frédéric Passy.

Safn sem geymir hergögn frá stríðinu er í San Martino og hægt að ganga upp í 64 metra turn og sjá yfir svæðið þar sem hildarleikurinn var háður. Frábært útsýni yfir vel ræktað land, mest vínekrur og í norðri sér til Gardavatns.

Beinakirkjan

Afleiðing stríðs. Áhrifarík sýn.

Heimildir

Morgunblaðið - Solferino 1859 og stofnun Rauða krossins
Rauði krossinn - Henri Dunant (1828-1910)  

 


Sældarhyggja við Gardavatn

Hið ljúfa líf, “la dolce vita”, við Gardavatn hjá Villiöndunum, göngu og sælkeraklúbb fyrr í mánuðinum var endurnærandi í hitanum og gott til að upplifa sæluhyggjuna. Það er einhver galdur við orðið Garda og ferðafólk hrífst með.

Gardavatn og Meðalfellsvatn í Kjós eiga margt sameiginlegt. Þau eru bæði jökulsorfin og svo er fjölbreytt mannlíf á bökkum vatnanna.

Gardavatnið er stærsta vatn Ítalíu , um 370 km2 og í einungis 65 m hæð yfir sjávarmáli. Norðurhluti vatnsins teygir sig upp í Alpana. Vegna góðrar landfræðilegrar staðsetningar vatnsins og lítillar hæðar yfir sjávarmáli er loftslagið þar ákaflega hagstætt og minnir einna helst á miðjarðarhafsloftslag.  Vatnið er notað sem áveita fyrir frjósamt ræktarland og er vatnsstaðan núna um metri lægri en í meðalári vegna þurrka.

Sirmione er tangi sem skagar út í Gardavatnið sunnanvert. Þar kemur heitt vatn úr jörðu og nutu Rómverjar lífsins í heitum pottum eins og Snorri Sturluson forðum.  Söngdívan Maria Callas bjó þarna á sínum bestu árum.

Tveir dagar fóru í hjólaferð á rafhjólum sem var vel skipulögð af Eldhúsferðum. Hjólað var í gegnum vínekrurnar austan við Gardavatnið og eftir sveitastígum í gegnum lítil falleg sveitaþorp.  Komið var við hjá vínframleiðendum og veitingamönnum með framleiðslu beint frá býli og töfruðu fram ítalskan sælkeramat. Sérstaklega gaman að hjóla um Bardolino vínræktarhéraðið með Corvina þrúguna á aðra hönd og Rondinella og Molinara þrúgurnar á hina. Kræklótt ólífutrén tóku sig líka vel út. Hjólaferðin endaði með sundsprett í heitu Gardavatni.

Við dvölum í smáþorpi sem heitir Garda en þar var varðstöð Rómverja fyrr á öldum. Lítið þorp með mikið af veitingastöðum á vatnsbakkanum þar sem við gátum notið þess að horfa á vatnið í kvöldsólinni og snæða ekta ítalskan mat og drekka gott rauðvín frá svæðinu.

Nokkrar Villiendur heimsóttu Mt. Baldo hæsta fjallið við Gardavatn. Tókum borgarlínu vatnsins en góðar samgöngur eru á vatninu með ferjum. Sigldum til bæjarins Malcesine en athygli vakti hve mikið af sumarhúsum var í kringum allt vatnið.  Ferðuðumst með kláf upp í 1.730 metra hæð, einn Eyjafjallajökull á 17 mínútum. Það var ægifagurt landslag sem blasti við en mesta breytingin var að fara úr 32 gráðu hita í 22 gráður en í þeim hita leið mér vel.

Að lokum var sigling á sægrænu Gardavatni frá Sirmione. Það var gaman að sjá hvernig ferðamenn slökuðu á og upplifðu hið ljúfa líf sem Gardavatnið og bæirnir þar í kring færa manni, það er sem tíminn stöðvist um stund.

Mæli með ferð til Gardavatns en hitinn í byrjun júlí var full mikill fyrir minn smekk.

Kastali

Kastalamynd frá stærstu eyju Gardavatns, Isola del Garda. Í eigu Conti Cavazza fjölskyldunnar frá Bologna Þar var fyrsta sítrónan ræktuð í Evrópu. Þar stofnaði Frans frá Assisí klaustur árið 1220.


Ísmaðurinn Ötzi – ferðalangur frá koparöld

Það var áhrifarík stund að sjá endurgerð af Ísmanninum Ötzi í Fornminjasafninu í Bolzano höfuðborg Suður-Týrol á dögunum.  Manni fannst orðið vænt um Ísmanninn með dökku augun eftir ferðalag um safnið og harmaði sorgleg örlög hans en líklega vissu ættingjar hans og vinir ekkert um endalok Ötzi. Hann skilaði sér ekki heim fyrr en 53 öldum síðar eftir að hafa horfið í jökulinn og var hvalreki fyrir vísindamenn nútímans en múmían og 70 hlutir sem hann hafði meðferðis gefa ómetanlegar upplýsingar um samtíð hans. Ötzi er ein elsta múmía sem fundist hefur og var uppi á koparöld. Múmían fannst í 3.200 metra hæð í Ölpunum við landamæri Austurríkis og Ítalíu. Kostaði líkfundurinn milliríkjadeilur og eftir leiðinda þvarg í nokkur ár komust menn að þeirri niðurstöðu að Ötzi væri Ítali þó hann talaði ekki ítölsku.

Safnið er á fimm hæðum og á neðstu hæðum eru gripir sem Ötzi var með í ferð og klæðnaður. Góðar útskýringar á þrem tungumálum en mikið af ferðamönnum truflaði einbeitningu við lestur. Hópur af fornleifafræðingum hefur endurgert allan hans útbúnað alveg niður í smæstu einingar: bogann, bakpokann, öxina sem hann bar við beltið, lendarskýlu og höfuðfat. Ötzi var einnig með skyndihjálparbúnað með sér, svo vel voru menn búnir.

Á annarri hæð er hægt að sjá múmíuna en hún er geymd í frysti sem er við 6 gráðu frost og 99% raka. Lítil birta er í salnum og þegar maður kíkir inn um lítinn glugga þá sér maður litla nakta glansandi mannveru, brúna á lit með vinstri höndina yfir bringuna og ekki laust við að glott sé á vör.  

Á þriðju hæð er endurgerðin og þá smellur allt saman. Stæltur Ísmaðurinn, lágvaxinn með liðað dökkbrúnt hár,  skeggjaður og lífsreyndur næstum ljóslifandi mættur og glottir til manns íklæddur helstu fötum og áhöldum. Merkileg upplifun.   Þessi endurgerð minnti mig á einleikara vestur á fjörðum, Elvar Loga Hannesson!

Heilsufar Ötzi - Elsti þekkt hjartasjúklingurinn

Það sem mér finnst merkilegt eftir að hafa kynnt mér sögu Ötzi er heilsufarið en það eru svipaðir sjúkdómar og við eigum við að glíma í dag. Engin persónuvernd er fyrir múmíur!   

Ötzi var 46 ára þegar hann var myrtur og það er hár aldur fyrir fólk á koparöld. Hann átti við hjarta- og æðasjúkdóm að glíma, kölkun í kransæðum og víðar. Helstu áhættuþættir fyrir sjúkdóminum í dag eru ofþyngd og hreyfingarleysi en það átti ekki við Ötzi sem var 50 kíló og 160 cm á hæð og nokkuð stæltur. Hjarta- og æðasjúkdómar eru því ekki tengdir siðmenningunni heldur eru þeir geymdir í erfðaefni okkar.

Ötzi átti einnig við liðagigt að glíma og hefur hún ollið honum miklum kvölum. Hann var í nálastungumeðferð við kvillanum og til að lina þjáningar og staðsetja sárustu staðina voru sett húðflúr, 61 strik. Einnig fundust ör á skrokknum og merki um að lækningarjurtum hafi verið komið fyrir undir húðinni til að minnka þjáningar. Allt er þetta stórmerkilegt og telst til óhefðbundinna lækninga í dag. Það hafa því orðið litar framfarir við lækningu liðagigtar á 5.300 árum. Alltaf sami sársaukinn og orsakir enn óþekktar en erfðir og umhverfi skipta máli.

Í erfðamengi Ötzi fundust ummerki borrelia, ætt baktería sem smitast af mítlum sem valda smitsjúkdómi sem kallast Lyme borreliosis. Þessi uppgötvun, fyrir utan að vera elsta dæmið um sjúkdóminn, skjalfestir hversu hættulegir mítlar voru mönnum jafnvel fyrir 5.000 árum.

Ekki er sjúkralistinn tæmdur. Ötzi átti við laktósaóþol að glíma en einnig fannst svipuormur í meltingarvegi en það er algengur sjúkdómur í dag. Lungun voru óhrein, voru eins og í reykingarmanni, sótagnir hafa sest í lungum vegna setu við opinn eld.

Tennur voru slitnar og neglur geyma sögu um langvarandi veikindi. Andlega hliðin er ekki eins auðlesin.

 

Hvað gerði Ötzi?

Ötzi var hirðir frá koparöld eða kannski ferðamaður, seiðkarl, stríðsmaður, kaupmaður, veiðimaður,  að leita að málmi, eða … kenningar um hann eru alltaf að breytast.

En á þessum árum þurftu men að ganga í öll störf til að komast af og því erfitt að skilgreina starfsheiti sem tengist nútímanum en starfið þúsundþjalasmiður kemur í hugann.  Ljóst er að vopn sem hann bar sýna að hann var í hátt settur í samfélaginu en kenningar hafa komið upp um að hann hafi verið kominn á jaðar samfélagsins. Utangarðsmaður.

Dauði Ötsi

Það tók nokkur ár að finna út að Ötzi hafði verið myrtur. Ummerki eftir ör fundust ofarlega á bakinu. Hann hafði verið drepinn uppi á fjöllum af óþekktum ástæðum af einhverjum sem enginn veit hver var. Guðmundar- og Geirfinnsmál koma í hugann.

En líklega var þetta ekki ránmorð, því verðmæt öxi og fleiri vopn og hlutir voru látin í friði. Mögulega var hjörðinni hans rænt. En það fundust áverkar á múmíunni eftir átök nokkru áður og mögulegt að eitthvað uppgjör hafi átt sér stað hátt upp í fjöllum.  Ötzi hafi helsærður eftir árásina komist undan, náð að brjóta örina frá oddinum og fundið góðan stað í gili innan um stór björg. Þar hefur áhugavert líf hans endað, líklega út af áverkum eftir örina frekar en ofkælingu. Gilið sem geymdi líkið varð hin fullkomna frystikista og roföflin komust ekki að. Jökullinn varðveitti hann helfrosinn og gripi hans og skilaði honum til baka með aðstoð loftslagsbreytinga úr faðmlagi sínu um haustið 1991 er Þýsk fjallgönguhjón fundu hann utan alfaraleiðar.

En stórmerkilegur fundur múmíunnar hefur svarað mörgum spurningum en einnig vakið fjölmargar aðrar spurningar og sífellt bætist við þekkinguna enda enginn mannvera verið rannsökuð jafn mikið. Sumum spurningum verður aldrei svarað.

Ötzi

Stæltur Ísmaðurinn, lágvaxinn, 160 cm, 50 kg og skónúmer 38. Lífsreyndur og glottir til manns íklæddur helstu fötum og áhöldum. Merkileg upplifun. Þessi endurgerð minnti mig á einleikara vestur á fjörðum, Elvar Loga Hannesson!

Heimildir


Landeigendur léleg landkynning

"Reynslan hefir sýnt það og sannað, að atvinnurekstur einstaklinga þolir engan samanburð við ríkisrekstur." - Þórbergur Þórðarson

Landeigendur ekki að standa sig við Seljalandsfoss og léleg landkynning fyrir Ísland.

Var að koma frá Suður-Týrol og ferðaðist um Dólómítana. Það var áberandi hvað allt er snyrtilegt í Suður-Týrol. Ekkert fyrir plokkara að gera.
Svæðið er að stórum hluta á Heimsminjaskrá UNESCO, rétt eins og Vatnajökulsþjóðgarður, Þingvellir og Surtsey.

Greinilegt að íbúar svæðisins eru snyrtilegir og góðir innviðir fyrir úrgangslosun. Virðing fyrir náttúrunni í menningu Suður-Týrol. Hún smitast í ferðamenn. Einstaklingar, fyrirtæki og stjórnvöld geta lært af þeim.


Mikið er af kláfum og fjallaskálum sem þjóna ferðamönnum og gott aðgengi fyrir úrgang og úrgang frá fólki öðru nafni saur. Eplasafinn var afgreiddur í margnota glösum, ekkert plast.

Stór hluti af vandamálinu er umbúðaþjóðfélagið hér á landi. Flest allt umvafið plasti og einnota það má gera miklu betur þar.

Þurfum að hugsa þetta út frá úrgangspíramídanum, forvarnir,  lágmörkun úrgangs, endurnotkun, endurvinnsla, endurnýting og förgun.
 

Selva

Snyrtilegt svæði. Enginn úrgangur fljótandi innan um náttúruperlurnar. Hér sést St. Ulrich Ortisei í 1.226 m. og Selva fyrir ofan. Val Gardena þekk fyrir skíði. Mynt tekin af Seiser Alm hásléttunni í 2.130 metra hæð í 24 stiga hita.

 


mbl.is Harmar upplifun gesta Seljalandsfoss
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sigurpáll Ingibergsson

Höfundur

Sigurpáll Ingibergsson
Sigurpáll Ingibergsson
Hornfirðingur búsettur í Kópavogi. Árgerð 1965.
Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • IMG 4410
  • IMG 4385
  • IMG 4421
  • Á afskekktum stað
  • Tíminn051071

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (13.7.): 0
  • Sl. sólarhring: 14
  • Sl. viku: 85
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 74
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband