Hvanneyrarskál

Þegar maður er staddur á Siglufirði, þá verður maður að ganga í Hvanneyrarskál. Hvanneyrarskál er stór skál í Hafnarfjall fyrir ofan Siglufjörð. Hún varð fræg á síldarárunum sem sérstakur unaðsstaður elskenda sem ekki áttu í neitt hús að venda. 

Þegar slóðinn er fundinn við snjóflóðavarnargarðana er gengið eftir vegslóða upp bratt Hafnarfjall sem gnæfir yfir bænum.  Húsin minnka og skipulag bæjarins og varnargarða opnast eins og opin bók.  Lúpína er að nema land í fjallshlíðum og á eftir kemur fínlegri gróður. Á leiðinni upp sáust einnig betur og betur stoðviki í Gróuskarðshnúk.

Strengisgil sjást einnig en þar voru fyrstu snjóflóðavarnargarðarnir byggðir. Garðarnir eru kallaðir Stóri og Litli Boli eftir gömlum skíðastökkpöllum sem þar voru en eru nú horfnir.  

Þegar í skálina var komið sá til göngufólks við Gjár en þar var fjallvegur yfir í Engidal á Úlfsdölum, snarbrött leið.

Ef göngumenn taka gönguferðina skrefi lengra, þá eru nokkrir góðir toppar. Nyrsti og hæsti hluti Hafnarfjalls er Hafnarhyrna (687 m) auðgeng. Skráma var tröllkerling sem bjó í helli þarna í grennd og er Skrámhyrna nokkru utar kennd við hana. Norðan skálarinnar er Hvanneyrarhyrna (640 m).

Hvanneyrarskál varð fræg á síldarárunum sem sérstakur unaðsstaður elskenda sem ekki áttu í neitt hús að venda. Norðan skálarinnar er Hvanneyrarhyrna (640 m).

Að lokum má geta þess að á veitingastaðnum Höllinni á Ólafsfirði eru pizzurnar kenndar við fjallstinda í nágrenningu. Það er betra að panta Miðdegishyrnu heldur en Napólí pizzu.

Ekki fannst gestabók í Hvanneyrarskál en þetta er fín heilsurækt að ganga upp að Hvanneyrarskál.

Dagsetning: 13. Júlí 2012 - Hundadagur
Hæð Hvanneyrarskálar: 250-300 m      
Erfiðleikastig: 1 skór
Þátttakendur: Fjölskylduferð, tveir meðlimir
Veðurlýsing Sauðanesviti kl. 15:00: VSV 10 m/s skýjað, 12,3 °C hiti, raki 65 %, skyggni 65 km, sjólítið.

Gönguleiðalýsing: Lagt af stað frá snjóflóðavarnargarði fyrir miðjum bæ.  Gengið eftir vegslóða upp Hafnarfjall að endurvarpsstöð. Glæsilegt útsýni yfir sögufrægan síldarbæ og mikil snjóflóðamannvirki.

Hvanneyrarskál

Hluti af Hvanneyrarskál. Gjár eru norðvestur úr Hvanneyrarskál og Gróuskarðshnúkur lokar skálinni til austurs.

Gróuskarðshnjúkur

Stoðvirki í Gróuskarðshnúk hafa áhrif á umhverfið. Mestar framkvæmdir á árinu 2004 og 2005.

Snjóflóðavarnargarðar á Siglufirði

Snjóflóðavarnargarðarnir eru mikil mannvirki og leyna á sér. Heildarkostnaður 2.000 milljónir á verðlagi ársins 2002.

Heimildir:
Árbók Ferðafélags Íslands, 2000, Í strandbyggðum norðan lands og vestan.
Framkvæmdasýsla ríkisins, Snjóflóðavarnir Siglufirði
Snokur.is
Ferðafélag Siglfirðinga  


Flugöryggismál

Það var mikið áfall að heyra fréttina um flóttamennina sem komust yfir öryggishliðið og læstu sig inn á klósetti flugvélar. Þetta atvik er mjög alvarlegur öryggisbrestur og svar ISAVIA sem er ábyrgt fyrir öryggismálum er ekki mjög traustvekjandi.

Þegar ég var í upplýsingaöryggismálum las ég helling af efni um öryggismál og fékk reglulega póst frá Bruce Schneier en hann er virtur ráðgjafi og fyrirlesari í öryggismálum. Ég get tekið undir margt af því sem hann hefur lagt til málanna.

Hann hefur deilt á tröllaukið öryggi á flugvöllum og telur hann að ávinningurinn af öryggisráðstöfunum svari ekki kostnaði. Hann hefur einnig verið duglegur að benda á vandamál sem eru "bakdyrameginn" á flugvöllum. Rétt eins og atvikið á Keflavíkurflugvelli.

Vonum að þetta atvik verið til þess að tekið verði til "bakdyrameginn" og öryggið eflist á Keflavíkurflugvelli, nóg er af kröfum á flugfarþega í dag.


Esjan á páskadag

"Auðveldara er að segja "fjall" en klífa það," - Þannig hljóðaði málshátturinn í páskaeggi Ara.

Því varð að taka áskorun og ganga á fjall um páskana. Fyrst Ari var með í för þá er vel viðeigandi að rifja upp barnavísuna sem oft er sungin í leikskólum landsins.

Upp, upp, upp á fjall,
upp á fjallsins brún.
Niður, niður, niður, niður
alveg niður’ á tún.

Eitt af markmiðum mínum er að ganga amk einu sinni á Esjuna á ári. Þetta var því kærkomin ganga en næst verður Þverfellshornið toppað. Þær eru margar gönguleiðirnar á Esjuna en sú vinsælasta var valin. Að Stein undir Þverfellshorni. Einnig er Kerhólakambur vinsæl og góð ganga.

Gestabókin við Stein var mjög blaut og illa farin. 

Dagsetning: 8. apríl 2012 - Páskadagur
Hæð Steins: 597 m      
GPS Steinn: N: 64.13.515  W: 21.43.280
Erfiðleikastig: 1 skór
Þátttakendur: Fjölskylduferð, þrír meðlimir

Gönguleiðalýsing: Lagt af stað frá bílastæðinu við Mógilsá. Gengið eftir góðum göngustíg og skilti vísa leið. Gengið eftir Skógarstíg, um Þvergil, yfir Vaðið og endað við Stein efst á Langahrygg.  Haldið niður blauta Einarsmýri.  Margir halda áfram á Þverfellshorn, er varðan í um 780 m hæð og vegalengd á Þverfellshorn er um 3 km. Klettar efst eru ekki fyrir lofthrædda. 

Esja

Þverfellshornið og Langihryggur. Handan hálsins er Steinn en þangað var ferðinni heitið á páskadag.  Það var slydda í 500 m hæð en hún fóðrar snjóskaflana sem vel er fylgst með úr höfuðborginni á sumrin.

Ari að lesa málshátt

"Auðveldara er að segja "fjall" en klífa það"

 Vegvísir

Góðar merkingar varða leiðina.


Lífið er saltfiskur

Um síðustu helgi var ég staddur á Shellmóti í Vestmannaeyjum í einstöku veðri. Nælonblíða var í Eyjum og logn á Stórhöfða. Gerist það ekki oft.

Þegar í bæinn var komið vakti Fiskiðjan mikla athygli. Búið var að setja myndir af bónusdrottningum í gengum tíðna. Það var mjög vel viðeignadi. Forvitni ferðamannsins var vakin, mann langaði til að vita meira um þessar duglegu konur.

Eins vakti skeytingin á Strandvegi mikla athygli. Sérstaklega göngustígurinn yfir götuna en í stað breiðra hvítra lína var kominn saltfiskur.  Einnig var hringtorg sem byggt var upp af fiskum. Tær snilld.

Síðar komst ég að því að skreytingar þettar tengjast þættinum Flikk flakk sem frumsýndur var í Sjónvarpinu í gær.  Þetta er flott framtak hjá Sjónvarpinu og himamönnum.

Ég hlakka til að sjá þáttinn um Hornafjörð en þar var svipuðum hönnunaraðferðum beitt. Ég tel að þetta eigi bara eftir að bæta bæjarmenninguna, íbúum og  ferðamönnum til upplyftingar.

Eitt geta Eyjamenn bætt en það er viðhald á einbýlishúsum. Sum hver voru sjúskuð og garðar illa hirtir.  Eflaust er vindálag meira en annars staðar á Íslandi. Maður finnur samt kraftinn í Eyjamönnum og það er uppgangur í Eyjum þátt fyrir að útgerðamenn þurfi að greiða sanngjörn veiðigjöld til samfélagsins.

Gangbraut

Lífið er saltfiskur. Frumlegur gangstígur á Strandvegi.

Vinnslustöðin

Vel skreytt Fiskiðjan sem tilheyrir Vinnslustöð Vestmannaeyja. Daginn sem myndin var tekin var haldinn stjórnarfundur hjá VSV. Niðurstaðan var sú að eigendur fengu milljónir eftir fjöldauppsögn á fiskverkafólki. Arður Vinnslustöðvarinnar 850 milljónir — Eykst um 75 prósent á milli ára.


Helgafell í Vestmannaeyjum (227 m)

Helgafell á Heimaey er 227 metrar á hæð og hefur myndast í eldsumbrotum fyrir um fimm þúsund árum. Þetta var mikið gos, sem byrjaði sennilega í sjó en hlóð upp mikla hraundyngju. Fyrir gosið voru hér tvær eyjar. Þegar því lauk hafði hraunbreiðan tengt saman norðurkletta og suðurkletta í Eyjum, og myndað þannig hina stóru Heimaey.

Ganga Helgafell er auðveld og ekki mikil mannraun. Nokkrar gönguleiðir eru mögulegar hér verður þeirri einföldustu lýst.

Keyrt upp að Helgafellsvelli og haldið upp með Helgafellsbænum. Fylgt er slóða í grasi vaxinni hraunöxl sem heitir Flagtir. Af Flögrum er afar víðsýnt. Þægileg ganga í grasbrekkunni nema síðustu metrana efst upp á Helgafell þar sem gengið er eftir stígum í grófri gjallskriðu.

Hinn gamli gígur í Helgafelli er vaxinn lyngi og mosa. Mjög fallegt útsýni er af Helgafellsfjalli og víðsýnt yfir alla Heimaey og allar eyjarnar umhverfis. Til landsins er fögur fjallasýn og Eyjafjallajökull áberandi en hann dregur nafn sitt af Eyjunum. Hekla og Þríhyrningur eru einnig áberandi.

Á gígbarminum eru margar vörður eða leifar af vörðum sem eru sumar frá þeim tíma eftir Tyrkjaráðnið 1627 þegar skylt var að hafa vörð á Helgafelli og gæta að grunsamlegum skipum sem nálguðust Eyjarnar. Halda skyldi vakt hverja nótt frá krossmessu á vori til krossmessu á hausti. Ættu Eyjamenn að gera eitthvað úr þessu. T.d. standa eina vakt yfir nóttina. Vakan í Helgafelli hefur sennilega haldist fram um 1700.

Nafngift Helgafells er sögð vera sú að írskur þræll að nafni Helgi, sem hafði flúið eftir vígið á Hjörleifi, hafi verið drepinn þar af Ingólfi Arnarsyni og hans mönnum. Það er algengur misskilningur að eitthvað sé heilagt við Helgafell.

Litlafell stendur úr Helgafelli og hægt að sjá litla hraunhóla sem kallaðir eru Litlufell og í framhaldi af þeim litla gíga sem mynduðust í gosinu 1973.

Hringsjá er á toppi fellsins en engin gestabók. 

Helgafellin á landinu eru alla vega 8 og hægt að safna þeim. Ég er búinn að ná helmingnum.

Þótti mér betur farið en heima setið. Lýkur þar að segja frá Helgafellsgöngu.

Dagsetning: 1. júlí 2012
Hæð Helgafells: 227 m       
Uppgöngutími: 25 mínútur
Heildargöngutími: 50 mínútur
Erfiðleikastig: 1 skór
Þátttakendur: Fjölskylduferð

Gönguleiðalýsing: Fróðleg og skemmtileg ganga á þekkt fell. Fyrst eftir grasi grónni brekku en endar á göngu í gjallskriðu. Falleg sýn yfir sögufrægt umhverfi í verðlaun. 

Helgafell

Bústaðurinn Helgafell, og fellið Helgafell. Ægisstallur er stallur sem gengur norður úr fellinu og áberandi frá Eldfelli séð.

 

 

Heimildir:
Haraldur Sigurðsson - http://vulkan.blog.is/blog/vulkan/entry/1030391
Heimaslóð - http://www.heimaslod.is/index.php/Helgafell
Árbók FÍ 2009, Vestmannaeyjar 

Alan Turing dagurinn

Í dag, laugardaginn 23. júní, er Alan Turing dagurinn. Fyrir öld fæddist Alan Turing (23. júní 1912 – 7. júní 1954) enskur stærðfræðingur og rökfræðingur. Hann er þekktastur fyrir að finna upp svokallaða Turing-vél, sem er hugsuð vél, sem talin er geta reiknað allt sem reiknirit er til fyrir. Turing vélar hafa reynst mikilvægar fyrir framþróun tölva og tölvunarfræði.

Ef Alan hefði ekki fundið upp Turing-vélina, þá væri saga tölvunarfræðinnar öðruvísi en í dag. Internetið ekki til og því þessi færsla ekki skráð.

Lífshlaup Alan Turings var merkilegt og hann ákærður fyrir samkynhneigð. Leiddi það til þess að hann varð þunglyndur og tók eigið líf á besta aldri.

Alan Turing


Hvalhnúkur (522 m)

Ekki grunaði mig að ég myndi hitta gamlan félaga þegar ég lagði af stað í ferð með Útivistarræktinni,  þeirri fyrstu á árinu hjá  mér. Ég hafði fyrir nokkrum árum gengið Selvogsgötu og mundi eftir fjalli og skarði kennt við hval.  Þetta var því óvænt ánægja.

Til að flækja málin, þá eru til Eystri Hvalhnúkur og Vestari Hvalhnúkur. Við gengum á þann vestari.

Hvalhnúkur er áberandi þegar að er komið, mjór og allhár (46 m). En hvað er Hvalnhúkur að gera uppi í miðju landi?

Þjóðsagan kveður á um nafngiftina að tröllkona norðan af fjalli hafi farið til fanga í Selvog og komið þar á hvalfjöru og haft þaðan með sér það, sem hún treysti sér til að komast með, en til hennar sást og hún elt. Varð henni allerfið undankoman, og náðist hún í skarði því, sem síðan er nefnt Hvalskarð og hnúkurinn þar suður af Hvalhnúkur.

Ágætis útsýni frá Heiðinni háu og Hvalhnúk yfir á Vörðufell, Brennisteinsfjöll, með Eldborg, Kistufell og Hvirfil. Fallegir Bollarnir sem geyma Grindarskörð og í bjarmanum á bak við þá sá í Snæfellsjökul og Snæfellsnesið. Þríhnúkagígar og Stóra Kóngsfell eru áberandi og Bláfjöll í norðri.

Dagsetning: 20. júní 2012 - sumarsólstöður
Hæð Hvalnhúks: 522 m  (477 m rætur hnúks, 45 m hækkun)
GPS hnit Hvalhnúks: (N:63.56.511 - W:21.42.237)
Hæsta gönguhæð: 545 m, hryggur á miðri leið (N:63.58.456 - W:21.39.552)
Hæð í göngubyrjun:  506 metrar við efsta bílastæði í Bláfjöllum, (N:63.58.810 - W:21.39.163)
Hækkun: 16 metrar         
Uppgöngutími: 120 mín (19:05 - 21:05) - 5,25 km
Heildargöngutími: 210 mínútur (19:05 - 22:35)
Erfiðleikastig: 1 skór
Vegalengd:  10,5 km
Veður kl. 21 Bláfjallaskáli: Skýjað, SSA 4 m/s, 5,8 °C. Raki 92% - Skúrir nýafstaðnar
Þátttakendur: Útivistarræktin, 40 þátttakendur
GSM samband:  Já, nokkrar hringingar

Gönguleiðalýsing: Létt ganga yfir mosavaxið helluhraun yfir Heiðina háu. Haldið frá bílastæði, framhjá Strompum og þaðan eftir heiðarhrygg sem hækkar og lækkar lítillega í suðurátt. Gróðursælli leið neðan hrygg um Stóra-Leirdal á bakaleið.

 Hvalhnúkur

Útivistarræktin með Hvalhnúk í sigtinu. Hann var sveipaður þoku mínútu áður en myndin var tekin. Selvogur er handan hnúksins. Hvalnhúkatagl er í nágrenni. Myndin er tekin hjá Eystri-Hvalhnúk.

Heimildir:
Ferlir - Selvogsgata - Kristjánsdalir - tóftir - Hlíðarvatn
Rammaáætlun - kort


Tékkland og gullni pilsner-bjórinn

Tékkland og Portúgal leika í 8-liða úrslitum EM 2012 í dag. Það er því góð tenging að fjalla um Tékkland og bjór í dag.

Tékkland er mesta bjórþjóð veraldar og er bjórneysla á mann 159 lítrar á ári. Slá þeir út frændur okkar Íra með 131 lítra og Þjóðverja með 110 lítra.  En þessi lið er öll í úrslitakeppni EM.

Fyrst Tékkland, land lagersins er í beinni í kvöld, þá verður maður að rifja upp og upplifa bjórsöguna og láta hugann leita til Pilsen, musteri bruggmenningarinnar.  Þar er merkilegt brugghús, musteri brugglistarinnar, Pilsner Urquell Brewery.  Þar var fyrsti gullni bjórinn með botngerjun eða kaldri gerjun bruggaður árið 1842. Tími pilsnersins  var þá runninn upp og markaði upphaf lagerbjórsins. Tærleiki hans er í glasið kom var aðlaðandi og samsetning ilms og bragðs, sem var maltkennd en með indælum humla og bitterkeim, heillaði alla er á honum smökkuðu.  Svo vel hefur gullni bjórinn frá Bæheimi (Bohemia) lagst í Íslendinga að 98% af seldum bjór í Vínbúðunum er lagerbjór.

Bjór má skipta gróft upp í tvo flokka, öl (ale) og lager.   Öl er bruggað með gertegund sem vinnur mest við yfirborðið en í lager er notaður ger sem vinnur mest við botninn við kaldara hitastig. Síðan tekur við langt geymsluferli, „lagering“.

Það er gaman að fara í skoðunarferð um bruggverksmiðjuna sem framleiðir Pilsner Urquell  og anda að sér bjórsögunni. En eikartunnur frá frystu lögn, fyrir 170 árum, eru til sýnis fyrir ferðamenn. Einnig er gengið um kaldan kjallarann og hápunkturinn er sopi af  ósíuðum og ógerilsneyddum pilsner bruggaður í eikartunnu. Þreföld humlun er lykilinn. Bjórinn er gjöf náttúrunnar til mannsins.

 Hlidid1024

Inngangurinn í elsta Pilsner-brugghúsið (Burgher's brugghúsið) minnir meira á sigurboga en hlið. Vatnsturninn, 46 metra hár sést í gegnum hliðið og minnir á mínarettu á mosku. Háir reykháfar standa upp úr brugghúsinu, musteri brugglistarinnar og smekklegar vöruskemmur sjást. Á bakvið strætóinn sem keyrir gesti um bruggþorpið er Pilsen bjórlestin sem flutti vörur á hverjum morgni til Vínar.


Hlíðarendi hinn eldri

Í tilefni af þjóðhátíðardegi okkar þá ætla ég að láta hugann aftur í tímann og beini sjónum mínum að málverki eftir Höskuld Björnsson, listmálara og sögunni á bak við konuna á myndinni en þegar ég heyrði hana þá varð myndin miklu stærri og meiri. 

Hlíðarendi 1933 (31. hús Hafnar). Í þeirri merku bók, Saga Hafnar í Hornafirði eftir Arnþór Gunnarsson segir:

Árið 1933 byggði Guðríður Hreiðarsdóttir (1862-1945) íbúðarhúsið Hlíðarenda með aðstoð vina sinna og tilstyrk Nesjahrepps.

Guðríður þótti dálítið sérkennileg í háttum en hún hugsaði ætið vel um heimilið og gætti þess að eiga einhverjar góðgerðir að bjóða þegar gesti bar að garði. Þetta vissu börnin í þorpinu og þegar þau áttu leið inn Hafnarveginn komu þau ósjaldan við hjá Guðríði gömlu undir því yfirskyni að fá vatn að drekka. Af einskærri gestrisni bauð Guðríður krökkunum upp á kleinu eða ástarpung en til þess var leikurinn einmitt gerður.

Hlíðarendi var 20 fermetra lágreist timburhús í hlaðinu tóft með einu herbergi og eldhúskompu.

Sá þetta glæsilega málverk eftir Höskuld Björnsson í heimsókn í maí og smellti af mynd. Litirnir eru svo tærir og flottir. Brautarholt stendur ofar. Densilegt Ketillaugarfjall í skýjum fyrir ofan Guðríði sem var iðin að eðlisfari.

Hlidarendi

Glæsilegt olíumálverk eftir Höskuld Björnsson. Höskuldur hefur verið staðsettur með trönur sínar á Fiskhól.


Gæðastjórinn Václav Klaus

Þeir hafa skemmtilega hefð á Bjórsafninu í Pilsen í Tékklandi. En í þeirri borg var ljósi lagerbjórinn fundinn upp árið 1842 og hélt sigurför um heiminn. Lykilinn af velgengninni var öflugt gæðastarf hjá Pilsner bjórverksmiðjunni.

Hefðin er sú að skipta um gæðastjóra þegar nýr forseti tekur við embætti og er Václav Klaus nú gæðastjóri í Bjórsafninu. Hausinn er ávallt uppfærður við forsetaskipti.

Ekki hef ég séð Ólaf Ragnar Grímsson í neinu íslensku safni en einstaka sinnum á mynd.

Václav Klaus

Hér er Václav Klaus mættur til vinnu.


mbl.is Forsetar hittast í Tékklandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sigurpáll Ingibergsson

Höfundur

Sigurpáll Ingibergsson
Sigurpáll Ingibergsson
Hornfirðingur búsettur í Kópavogi. Árgerð 1965.
Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • IMG 4410
  • IMG 4385
  • IMG 4421
  • Á afskekktum stað
  • Tíminn051071

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (9.7.): 1
  • Sl. sólarhring: 12
  • Sl. viku: 292
  • Frá upphafi: 236818

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 239
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband