30.11.2007 | 11:20
Hvítanesjól - 20 ár frá strandi Hvítanes í Hornafjarðarósi
Brátt verða 20 ár síðan Hvítanesið strandaði í Hornafjarðarósi og hélt þar til yfir jólahátíðina. Strandið rifjaðist upp fyrir mér eftir óhapp flutningaskipsins Axels við Borgeyjarboða í vikunni. En Hornafjarðarós hefur orft verið erfiður í samskiptum manns og náttúru.
Hvítanesið strandaði þann 22. desember 1987 og komst á flot á nýjársdag. Mér eru þessi jól eftirminnileg út af því að það fyrsta sem ég gerði þegar ég vaknaði um hádegið var að gá að Hvítanesi til að sjá hvernig það hefði það í Ósnum. En útsýni yfir Ósinn er fínt af Fiskhólnum. Fyrst var farið út í glugga og vetvangurinn skoðaður síðan var ekið út í Ósland og frétta aflað. Það voru fleiri en ég sem fylgdust með björgunaraðgerðum. Ég hitti mikið af skemmtilegu fólki í Óslandi. Björn Lóðs og skipverjar fóru margar ferðir á milli bryggju og skips en á því stóð stórum stöfum BACALAO ISLANDIA. Síðan kom Ljósafoss milli hátíða og tók þátt í affermingu á saltfisk. Brennan varð einnig minnisstæð en skipið var í bakgrunni en þá var stutt í frelsið. Man að veður var hagstætt, rauð jól. Þetta var sannkallað jólastrand og í minningunni eru þetta Hvítanesjólin, þó rauð væru!
Í Morgunblaðinu, 5. janúar 1988 segir þetta um strandið:
TAP Nesskipa vegna strands Hvítaness við Höfn í Hornafirði nemur um 6-7 milljónum, að sögn Guðmundar Ásgeirssonar forstjóra. Er þetta aðallega vegna rekstrartaps en skipið var á strandstað frá 22 desember til 1. janúar. Kostnaður viðað losa skipið af strandstað fellur á tryggingafélög skipsins og sagðist Guðmundur ekki vita hve mikill sá kostnaður yrði en það yrðu einhverjar milljónir.
Hvítanesið losnaði af strandstað á nýársdag og sagði Guðmundur að skipið hefði ekki verið mikið skemmt. Gert var við skipið til bráðabirgða og átti það síðan að fara áleiðis til Portúgal og Spánar í gærkvöldi eða nótt. Skipið fer síðan í viðgerð. Hvítanes var með 1100 tonn af saltfiski innanborðs þegar það strandaði og var stórum hluta farmsins skipað upp í Ljósafoss. Einnig komst vatn í neðstu saltfisklög á 87 brettum og verður sá saltfiskur endurunninn.
Sjópróf vegna strandsins fóru fram í gær á Höfn. Guðmundur sagði að aðalorsök strandsins hefði verið talsvert innfall eftir að háflæði var samkvæmt almanaki. Þegar skipinu var siglt inn í Hornafjarðarós og því beygt fyrir svokallaðan Arnarfjörutanga, hafi aðfallið lent á skipinu og hrakið það upp á grynningar áður en það komst í innsiglingarrennuna. Guðmundur sagði að hafnsögumaður hefði verið um borð.
Björn Lóðs í einni ferðinni á milli bryggju og Hvítanes.
Útsýni frá Fiskhól. Gróðurhúsaáhrifin komin til Hornafjarðar. Ekki snjókorn að sjá.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 12:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.11.2007 | 21:09
Fjölnismót, 6. flokkur
Stór hluti af helginni fór í handboltamót hjá Fjölni, 6. flokkur kvenna. Leikið var í íþróttahúsi Rimaskóla. Það voru leiknir 5 leikir yfir daginn. HK mætti með tvö líð, HK Digranesi og HK Lind.
Hjartað sló með HK Digranesi enda Særún min í því liði. Þeim gekk bærilega. Eyjastúlkur voru yfirburðalið og gaman að sjá hvað vel er staðið að málum á Eyjunni. ÍR var einnig með mjög sterkt lið. Fram og Fylkir skoruðu aðeins færri mörk en þau lið.
Farið yfir málin í hálfleik. ÍBV liðið búið að ná góðu forskoti og nú varð að stöðva lekann.
Leikkerfi í smíðum. Í 6. flokki er spilað í 2x10 mínútur og línumaður kominn í spilið.
22.11.2007 | 23:30
Minni eyðsla, minni mengun og betri aksturseiginleikar!
Í dag var fallegt veður, kalt og stillt. Í fréttum um hádegisbil kom fram að fólk með öndunarerfiðleika ætti að halda sig frá helztu umferðaæðum vegna svifryksmengunar.
Ég keypti í haust hjá Betra grip ný dekk undir Ravinn minn. Þeir hafa umboð fyrir hin góðu BLIZAKK Bridgestone loftbóludekk sem standa sig feikivel í vetrarfræðinni.
Ekkert er fegurra en vorkvöld í Reykjavík segir í ljóðinu. Síðustu ár hefur svifryk frá götunum skemmt vorkvöldin í Reykjavík. Ég ákvað því í haust að gera mitt til að endurvekja vorkvöldin. Svarið var Bridgestone loftbóludekk frá Betra grip. Þegar ég ók frá dekkjaverkstæðinu með góðu og persónulegu þjónustuna fann ég strax mun á betri askturshæfni RAV4 bílsins. En loftbóludekk eru mikið skorin, mjúk og hafa stóran snertiflöt. Fyrir vikið hafa þau meira veggrip. Nokkrum dögum síðar fór ég í langferð og mældi bensíneyðsluna. Það kom mér þægilega á óvart að hún minnkaði um 10% með nýju dekkjunum. Því mæli ég hiklaust með Bridgestone-loftbóludekkjunum við vini mína. Minni eyðsla, minni mengun og betri aksturseiginleikar.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 23:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.11.2007 | 19:14
Íslendingar beita bolabrögðum, og áhorfendur hlutdrægir
Fyrsti landsleikur Íslands og Danmerkur var háður 17. júlí 1946. Hann fór 0-3 fyrir Dani. Fann viðtal í Mogganum frá 1. ágúst 1946 við tvo leikmenn danska landsliðsins. Þá Harald Lygnsaa og Jörgen W. Hansen. Viðtalið er þýtt úr Berlingske Tidende.
Flott fyrirsögn. Hvenær eru áhorfendur ekki hlutdrægir?
Spilaðir voru þrír leikir í ferðinni. Fyrsti landsleikurinn fór 0-3. Annar leikurinn hjá D.B.U var við Fram og sá síðasti við úrvalsliðið er endaði með sigri Íslendinga 4-1. Danska liðið hafði lagt Svía 6-0 nokkru áður.
Í greininni er greint frá ferð danska liðsins AB en Ísland vann þann leik og útreiðaferð á Þingvelli fyrir leikinn.
Fólk hefur áhyggur af íslenskunni í dag en íslenskan í þessu viðtali er slæm.
![]() |
Íslendingar sáu aldrei til sólar í 3:0-tapleik gegn Dönum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
20.11.2007 | 12:05
"Ó blessuð Suðursveit! Aldrei hefðir þú gert svona!"
Það verður gaman að lesa bókina eftir Pétur Gunnarsson, ÞÞ í fátæktarlandi: Þroskasaga Þórbergs Þórðarsonar um jólin. Ég hlakka til að kynnast Þórbergi betur. Er nýbúinn að lesa bókina Við Þórbergur eftir Gylfa Gröndal en þar segir Margrét Jónsdóttir ekkja Þórbergs Þórðarsonar frá. Það er létt og skemmtileg bók.
![]() |
Þórbergur ekki við eina fjölina felldur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bækur | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.11.2007 | 18:55
Binnamenn
Hún var skelfileg byrjunin hjá HK á móti svartstökkunum í FCK. Binnamenn stóðu sig mjög vel á pöllunum og það var gaman sjá kraftinn í þeim þegar leikar voru jafnaðir. Þá voru sungnir baráttusöngvar og HK-fánum flaggað. Útileikurinn verður erfiður en nokkrir Binnamenn fara með til Kaupmannahafnar. Þeir eru hressustu stuðningsmenn á Íslandi.
![]() |
FCK marði tveggja marka sigur á HK |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Íþróttir | Breytt 26.11.2007 kl. 23:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.11.2007 | 12:31
Jólahlaðborð Stika á Hótel Loftleiðum
Jólahlaðborð eru ómissandi þáttur í undirbúningi jólanna. Veðrið kom skemmtilega inn í stemminguna í gær, kalt og snjáföl.
Það var densilegt jólahlaðborðið í Víkingasalnum á Loftleiðum, fyrir utan gluggan voru einkaþotur auðmanna í brúðkaupi aldarinnar. Fyrst var farið í síldarforréttina. Boðið var upp á hátt í tuttugu útfærslur á síld og var hver annari betri. En danski síldarrétturinn með rauðrófum og Álaborgarákavíti skoruðu hátt. Marentza Poulsen smurbrauðsdama leiddi okkur í gegnum hlaðborðið sem er að danskri fyrirmynd. Hún staldraði sérstaklega vel við síldarréttina. Fínt að upplifa danska stemmingu fyrir leik HK og FCK á eftir í Evrópukeppninni.
Næst var farið í laxinn, grafinn, ógrafinn og heilreykur. Hann klikkar aldrei. Heilreykti laxinn skapaði heilmiklar umræður en hann hefur lítið sésti í verslunum undanfarið en ekki var laust við að nostalgía gripi um menn.
Síðan var farið í aðalréttina og var boðið upp á íslenskt fjallalamb sem klikkar aldrei. Einnig purusteik og reykt öld. Í síðari ferðinni hitti ég á góðan andarbita og var hann stórmagnaður, bráðnaði í munninum. Með þessu var drukkið Portúgalskt rauðvin, vel eikað og passaði vel við. Ávallt eru einhverjar tilraunir. Ég smakkaði á eplum í lauksósu. Áttaði mig ekki á því hvað stóð þarna á bakvið en mér finnst rautt epli betra óbrasað. Ég saknaði sviðasultunnar.
Að lokum voru eftirréttir heimsóttir. Þarna var hægt að búa til kúluís en hrísgrjórnaréttur með sultu endaði þetta frábærlega.
Undir borðum spiluðu og sungu tónlistarmennirnir Helga Möller og Magnús Kjartansson þekkta slagara.
Fínt kvöld.
Mynd fengin að láni frá nonniblogg.blog.is
Matur og drykkur | Breytt s.d. kl. 12:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.11.2007 | 00:00
Sagrantino frá Umbria
Í vikunni tók ég þátt í Master Class námskeiði hjá Vínskólanum. Það nafn hljóta vínnámskeið þar sem framleiðandinn sjálfur eða víngerðamaður framleiðandans leiða smökkun á vínunum sínum. Kennarinn var hin glæsilega Roberta frá Arnaldo CAPRAI sem er margverðlaunaður framleiðandi frá Umbriu. Héraðið er í miðri Ítalíu og kallað hið græna hjarta Ítalíu.
Það er ávallt gaman á námskeiðum. Þetta er einstakt tækifæri til að komast í snertingu við víngerð, heimspekina á bakvið vínin, einstaka persónuleika sem hafa frá mörgu að segja og nánast alltaf með einstakri alúð og ástríðu.
Roberta sagði okkur frá víngerð Arnaldo Caprai. Ungur Ítali sem leggur áherzlu á gleymda vínþrúgu, Sagrantino sem hefur það bezt í Umbriu. Arnaldo er nýjungagjarn og hefur fjárfest mikið í rannsóknum.
Fyrst voru smökkuð tvö hvítvín. Grecante sem fæst hér á landi og kostar 1.790,- og Belvedere sem eingöngur er selt innanlands. Mér líkaði betur við síðara vínið en Grecante er úr Grechetto þrúgunni. Þykkt vín og ferskt, einhver smjörkeimur. Fann fyrir sýrubragði sem mér líkar illa. Hentar vel með fisk og hvítu kjöti.
Síðan var farið í rauðu vínin. Fyrst var borið fram Poggio Belvedere árgerð 2005. Dökkkirsuberjarautt. Meðalfylling, þurrt, ferskt, þroskuð tannín. Þéttur berjakjarni, útihús, tóbak. Dæmigert ítalskt vín sem kostar 1.590,-.
Síðan var smakkað á Montefalco Rosso. Það er eikað vín og tannínríkt. Krydd- og vanilluilmur. Þetta vín er helzta framleiðsla Arnaldo Caprai og eru framleiddar um 300 þúsund flöskur af 750 þúsund. Þetta vín er á leið í reynslusölu hér á landi og hægt að mæla með því með jólamatnum.
Loks kom að Sagrantino þrúgunni. Collepiano árgerð 2004 sem er hægt að fá fyrir 4.500 krónur eftir krókaleiðum. Fann góða lykt af vanillu, langt og "bloody". Vínið er stórt og tannínríkt enda hefur það líftíma upp á 10-15 ár.
Að lokum var afmælisárgangurinn, 25 Anni frá 2003 rannsakaður. Þetta er stórt vín, tannín, leður og krydd. Búið að vera í eikartunnu í ár og 8 mánuði í flösku. Dökkrautt á litinn. Endist í 20 ár. Sagrantino vínin tvö höfðu "elegans", þykk og eldhvöss. Þrúgan er tínd síðar en aðrar, þær eru oftast tíndar í 2. viku október og vísindamenn frá Háskólanum í Mílanó ákveða dagsetninguna eftir að hafa flett híðinu á góðu úrtaki. Vínin úr þrúgunni sem kennd er við sakramentið eru sterkari en flest vín, 14,5% og bera áfengismagnið vel. Mögulegt að finna flösku af þessu hér á landi á veitingastöðum fyrir sjöþúsundkall. Sagrantino vín eru vel rík af polyphenol sem er eflaust mjög hollt fyrir líkamann. Það sem er skemmtilegt hjá Caprai er að þau gera það í þágu þrúgunnar, til að fá hana til að gefa sitt allra besta. Þau fara aldrei eins langt og Ástralar eða Kalíforníubúar í þeim efnum. Málið þar er að vínið verður að vera eins ár frá ári fyrir markaðinn og þá er öll tækniaðstoð notuð. Og leyfileg aukaefni til hins ýtrasta til að "leiðrétta" vínið - eplasýra ef það vantar ferskleika í hvítvínunum, mjólkurduft ef vantar mýkt og svo framvegis.
Að lokum var rúsínan í pylsuendanum dregin upp. Grappa Di Vinacce. Þetta vín er unið úr hratinu af Sagrantio og er 45%, glært og lyktaði eins og þurrt hey. Minnti örlítið á íslenskt brennivín. Samkvæmt ítölskum víngerðarstöðlum verða framleiðendur að nýta hratið en mega ekki brugga sjálfir. Því eru afgangar sendir á annan stað og framleitt vín úr dreggjunum. Þetta kom mér mjög á óvart.
Það var einnig gaman að heyra í Robertu er hún sagði frá því hvernig þau glíma við hækkandi hitastig jarðar en hærri hiti gefur minni sprettu. Þau nota spegla til að dreifa birtunni og einnig hlífar til að hindra heita sólargeisla.
Árið 2002 var mjög slæmt fyrir Ítalíu, sérstaklega í Umbríu, það var svo votviðrasamt. Síðustu ár hafa sloppið þrátt fyrir aheimshlýnun.
Grecante, vínið sem til er í vínbúðunum. Einnig er hægt að fá þær í litlum flöskum hjá Icelandair. Nú er stefnan sett á Ítalíu, ekki spurning. Þegar komið verður við í Umbríu verður fjárfest í nokkrum 25 Anni flöskum.
Matur og drykkur | Breytt s.d. kl. 13:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
15.11.2007 | 23:57
Skaftfellingameistarinn í HornafjarðarMANNA
Skaftfellingafélagið í Reykjavík hélt í kvöld átthagamót í HornafjarðarMANNA í Skaftfellingabúð. Keppt var um nafnbótina, Skaftfellingameistarinn. Albert Eymundsson, útbreiðslustjóri, driffjöður og tákngerfingur spilsins komst ekki frá Snæfellsjökli og því fékk ég, keppnisstjórinn í brids að spreyta mig í mótsstjórn.
Spilað var á fimm borðum, 15 skemmtilegir spilarar og voru spilaðar fjórar umferðir í undanúrslitum. Eftir glæsilegt kaffihlé hófst úrslitakeppnin en níu efstur spilarar unnu sér keppnisrétt.
Úrslitakeppnin gekk vel fyrir sig og kepptu Sædís Vigfúsdóttir, Ása Sæmundardóttir og Svavar M. Sigurjónsson úrslitaglímuna. Það var hörku rimma sem endaði með sigri Sædísar, eitt prik í plús. Ása var á núlli og Svavar minnsta mínus. Áhorfendur fylgdust vel með og lifðu sig vel inn í spilið og tóku andköf er menn vörðust eða sóttu vel.
Veitt voru góð bókarverðlaun. Jöklaveröld, listmálarabók og tvö bindi af Félagsvininum frá Öræfum fyrir það þriðja.
Eftirminnilegt og skemmtielgt kvöld í Skaftfellingabúð og vonandi verður spilaður HornafjarðarMANNI að ári. Útbreiðslan gengur vel og spilinu vex fiskur um hrygg. Það er gaman að heyra frá skólum sem taka upp spilakvöld í Manna. Þetta er einfalt spil með flott og einfalt keppniskerfi fyrir stóran hóp keppenda. Einnig er spilið fjölskylduvænt og tengir kynslóðir auðveldlega saman.
Valdís frá Þórhamri, dómari, Svavar, Ása og sigurvegarinn Sædís í úrslitakeppninni. Leví Konráðsson fylgist vel með.
Spil og leikir | Breytt 16.11.2007 kl. 00:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.11.2007 | 21:43
Pabbi, leikurinn fór sex-sex
Ari litli var að koma af annari fótboltaæfingu sinni hjá 8. flokki Breiðabiks.
Þegar hann stakk litla ljósa kollinum inn um útidyrnar var það fyrsta sem heyrðist:
"Pabbi, leikurinn fór sex, sex"
Það er mikið skorað á æfingunum og markmiðið um að börnunum líði vel og séu ánægð að lokinni æfingu hafa greinilega náðst.
Ari kom með blað heim í kvöld. Ég spurði hann hvort hann væri strax kominn með samning!
Nei, þetta voru æfingagjöldin.
Um bloggið
Sigurpáll Ingibergsson
Færsluflokkar
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Enski boltinn
- Evrópumál
- Ferðalög
- Fjármál
- Fjölmiðlar
- Heilbrigðismál
- Heimspeki
- Íþróttir
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Lífstíll
- Ljóð
- Löggæsla
- Mannréttindi
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Pepsi-deildin
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Sveitarstjórnarkosningar
- Tónlist
- Trúmál
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (30.4.): 0
- Sl. sólarhring: 11
- Sl. viku: 425
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 350
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar