22.7.2020 | 13:36
Mælifellshnjúkur (1.147 m)
Hvítan hest í Hnjúkinn ber,
Hálsinn reyrir klakaband.
Þegar bógur þíður er,
Þá er fært um Stórasand.
(Gamall húsgangur úr Skagafirði, höfundur ókunnur)
Þegar komið er í Skagafjörð og ekið frá Varmahlíð í suðurátt sker eitt fjall sig vel frá öðrum fjöllum og gnæfir yfir, það er Mælifellshnjúkur. Einskonar konungur Skagafjarðafjalla. Því var því auðvelt að velja Mælifellshnúk hjá Villiöndunum, göngu og sælkeraklúbb en hann dvaldi í fimm daga gönguferðalagi í Skagafirði. Nafn fjallsins vísar til þess að í öllu norðurhéraði Skagafjarðar er Mælifellshnjúkur ríkjandi kennileiti í suðri og frá mörgum bæjum markaði hann hádegi hinna gömlu eykta.
Mælifellshnjúkur breytir mjög um svip eftir því hvaðan á hann er horft, minnir á píramída úr norðri séð og ekki síður sunnan af öræfum en aflangur. Minnir mig á Súlur við Akureyri í byggingu og er einstakt útsýnisfjalla af því að það stendur stakt, stutt frá hálendinu, svipað og Bláfell á Kili.
Á hnjúkinn má ganga eftir fleiri en einni leið, t.d. upp eftir röðlinum að norðan og eins með að fara upp í Tröllaskarðið milli hnjúksins og Járnhryggjar og þaðan á hnjúkinn. Villiendurnar ákváðu að fara öruggustu leiðina, ofurstikuð gönguleið en gengið er frá bílastæði við Moshól í Mælifellsdal. Sama leið var farin til baka. Skagfirðingar hafa sett upplýsingaskilti við helstu göngufjöll í sýslunni og er það þeim til mikils sóma.
Á uppgöngunni var boðið upp á ýmsa afþreyingu, m.a. var þagnarbindindi yfir 20 stikur og átti menn að hugsa til þess hvernig þeir ætluðu að fagna á toppnum. Þegar á toppinn var komið tóku göngumenn út fögn sín í gjólu. Útsýni var frábært, þó var skýjabakki í austri og ekki sá í Kerlingu í Eyjafirði og Vatnajökul en farinn var örnefnahringur og komu flest upp og útsýni yfir tíu sýslur stórbrotið. Á niðurleiðinni var hraða farið en gert stopp fyrir jógaæfingar og hnjúkurinn tekinn inn í nokkrum æfingum.
Mælifellsdalur fylgdi okkur alla leið og liggur Skagfirðingaleið um hann um Stórasand. Þar riðu hetjur um héruð áður fyrr.
Á toppi hnjúksins er stæðilega landmælingavarða og VHF-endurvarpi björgunarsveitanna. Einu vonbrigðin voru þau að engin gestabók var í kassa við vörðuna en alltaf er gaman að kvitta fyrir að toppa.
Það er gaman að þessu viðmiði með sýslunar tíu en núna eru sýslumenn aðeins níu talsins. Áður fyrr voru sýslur og sýslumenn upphaf og endir alls en þegar mest lét voru sýslur 24. Tímarnir eru breyttir.
Jarðskjálftahringa hafði staðið yfir og höfðu ekki hróflað við hnjúknum en berggrunnur Mælifells er 8 til 9 milljón ára gamall og hnjúkurinn sjálfur um milljón ára gamall en efri hlutinn er úr Móbergi. Fjallið hefur staðist jarðskjálfta lengi og í góðu jafnvægi en í lok síðustu ísaldar hefur orðið berghlaup úr fjallinu og gengum við upp úr því í Mælifellsdal.
Í norðri sá Hnúkstagl röðullinn sem gengur norður af hnjúknum og út fjörðinn en þar fanga Drangey, Málmey og Þórðarhöfði augað. Austan héraðs rísa Blönduhlíðarfjöllin með Glóðafeyki stakan. Ágætlega sást inn Norðurárdal, Austurdal og hrikaleg gljúfrin. Hofsjökull og Kerlingarfjöll komu næst en nær og vestar fjöll á Kili, Kjalfell, Rjúpnafell og Hrútfell sem rís austan Langjökuls. Eiríksjökull var áberandi og nær Blöndulón og er þar að líta sem haf. Lengra í burtu sást til Baulu, Snjófjalla og Tröllakirkju en við keyrðum framhjá þeim og heilsuðum daginn áður.
Í næsta nágrenni sást í Nónfjall, Reykjafjall og Kirkjuburst en norðar Hellufell, Grísafell og Kaldbakur og Molduxi. Yst við fjarðaminnið að vestan sást svo efnismesta fjall sýslunnar Tindastóll en við áttum eftir að heilsa upp á hann síðar í ferðinni. Við heilsuðum honum.
Konungur Skagafjarðar, Mælifellshnjúkur með Járnhrygg, Tröllaskarð og Hnúkstagl, röðullinn sem gengur norður af hnjúknum.
Dagsetning: 23. júní 2020
Göngubyrjun: Bílastæði við Moshól í Mælifellsdal, 500 m (N: 65.23.193 W:19.24.063)
Mælifellshnjúkur - varða: 1.147 m (N: 65.23.325 W: 19.21.094)
Hækkun göngufólks: 640 metrar
Uppgöngutími: 230 mínútur (10:10 14:00)
Heildargöngutími: 350 mínútur (10:10 16:00)
Erfiðleikastig: 2 skór
Vegalengd: 12,6 km
Veður Stafá kl. 13.00: Léttskýjað, NA 4 m/s, 10,7 °C, rakastig 73%.
Þátttakendur: Villiendur. 16 göngumenn.
GSM samband: Já, 4G
Gestabók: Nei, tómur kassi.
Gönguleiðalýsing: Greiðfær og gróin í fyrstu, síðan traustur melur. Skemmtileg og drjúg fjallganga á frábæran útsýnisstað.
Eldra eða annað nafn: Mælifell.
Facebook-status: Þriðjudagur til þrautar og sælu. Löguðum í hann snemma að Mælifellshnjúk. Gengum hann á frábæru tempói. Magnað útsýni, frábær félagsskapur sem við hjónin erum svo heppin að vera með í.
Heimildir
Ferðafélag Íslands árbók 2012, Skagafjörður vestan vatna.
Íslensk fjöll - Gönguleiðir á 151 tind
Meginflokkur: Ferðalög | Aukaflokkar: Lífstíll, Samgöngur | Breytt 23.7.2020 kl. 08:45 | Facebook
Um bloggið
Sigurpáll Ingibergsson
Færsluflokkar
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Enski boltinn
- Evrópumál
- Ferðalög
- Fjármál
- Fjölmiðlar
- Heilbrigðismál
- Heimspeki
- Íþróttir
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Lífstíll
- Ljóð
- Löggæsla
- Mannréttindi
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Pepsi-deildin
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Sveitarstjórnarkosningar
- Tónlist
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 3
- Sl. sólarhring: 4
- Sl. viku: 57
- Frá upphafi: 233595
Annað
- Innlit í dag: 3
- Innlit sl. viku: 48
- Gestir í dag: 3
- IP-tölur í dag: 3
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Í áhugaverðri grein í Náttúrufræðingnum frá 1940 eftir Jakob Líndal, þá þakkar hann Járnhrygg að hann beri hátt við himinn. Járnhryggur og önnur máttarvöld hafi verndað svo hið lausbundna efni Mælifellshnjúks. Móberg og bólstraberg en hann kallar það bögglaberg.
https://timarit.is/page/4264670?iabr=on#page/n65/mode/2up/search/+M%C3%A6lifellshnj%C3%BAkur%20+ganga
Sigurpáll Ingibergsson, 24.7.2020 kl. 11:29
Átta önnur Mælifell eru í Kortabók.
Mælifell á Reykjanesi
Mælifell við Þingvallavatn
Mælifell á Snæfellsnesi
Mælifell í Eyjafirði
Mælifell í Vopnafirði
Mælifell á Suð-Austurlandi
Mælifell við SA-Mýrdalsjökul
Mælifell við NA-Mýrdalsjökul
Sigurpáll Ingibergsson, 27.7.2020 kl. 11:01
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.