Færsluflokkur: Sjónvarp
20.2.2016 | 17:47
#Ófærð
Á sunnudagskvöld verður uppgjörið í #Ófærð. Tveir síðustu þættirnir sýndir í beit. Þetta verður gott sjónvarpskvöld.
Ég er með kenningu um skúrkinn. Læt hana flakka svona rétt fyrir opnun. Einnig mögulegar fléttur.
Geirmundur er ekki dauður. Hann er skúrkurinn, hann kveikti elda. Líkið er af óheppnum Litháa. Niðurstöður DNA eiga eftir að leiða það í ljós. Einnig að blóðið á vélsöginni sé af hreindýri ekki líkinu sem Siggi hurðaskellir flutti á haf út.
Eiríkur sem Þorsteinn Gunnarsson leikur er arkitektinn á bakvið brunann í frystihúsinu, hann og Geirmundur tendruðu elda til að svíkja út tryggingabætur. Dóttir Eiríks var óvænt inni.
Hótelstjórinn, Guðni hefur tekjur af mannsali rétt eins og fatasaumarinn í Vík. Frystihúsastjórinn Leifur er óheppin að tengjast því sem og Dvalinn, sá færeyski sem er ekki góður pappír.
Kolbrún kona Hrafns er arkitektinn á bakvið nýhafnarspillinguna ásamt fermingarsystkinum.
Trausti SAS-rannsóknarlögreglumaður á þátt í hvarfi Önnu í málinu sem Andri átti að hafa klúðrað.
Bárður hasshaus á eftir að áreita eldri stúlkuna.
Sigvaldi nýi kærastinn og Ásgeir lögga hafa of mikla fjarvistarsönnun að mínu mati. Ásgeir á eitt lekamál á samviskunni en þarf ekki að segja af sér.
Friðrik alþingismaður, leikinn af Magga glæp, er bara spilltur alþingismaður.
Maggi litli gæti verið Hrafnsson.
Ég trúi engu vondu upp á Steinunni Ólínu (Aldís) þó hún hafi haldið aðeins tekið hliðarspor með Hjálmari og hinn meinlausa Rögnvald sjóræningja.
Gaman að erlendar stöðvar taka spennuþáttaröðinni vel. Íslenskur vetur er alveg ný upplifun fyrir þá. Merkilegt að útlendingar skuli geta munað nöfnin, ég er enn að læra nöfn sögupersóna. Kuldinn selur. Snjallt hjá Baltasar og Sigurjóni Kjartanssyni og félögum að nota íslenskan vetur í krimma í anda Agötu Christie.
Það eru svo margir boltar á lofti. En í könnun á ruv.is eru 3% með Geirmund grunaðann.
Sé þetta allt kolvitlaust, þá er hér kominn hugmynd að fléttu í næstu þáttaröð af #Ófærð II
Guð blessi Ófærð.
Sjónvarp | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.12.2013 | 14:00
The Secret Life of Walter Mitty ****

Ísland er í aðalhlutverki í stórmyndinni The Secret Life of Walter Mitty og má þakka eldgosinu Eyjafjallajökli athyglina.
Ben Stiller er leikstjóri og aðalleikari kvikmyndarinnar The Secret Life of Walter Mitty en hún er gerð eftir samnefndri smásögu sem kom út árið 1939 eftir James Thurber og kvikmynd frá 1947. Einnig hafa nýlega verið framleiddir sjónvarpsþættir.
Walter Mitty er í óöruggustu vinnu hjá LIFE tímaritinu, leggur hart að sér við framköllun á einstökum ljósmyndum, sérstaklega frá Sean O'Connell, okkar RAX, sem leikinn er af Sean Penn. Ný tækni er að taka völdin, starfræna tæknin. Netútgáfa.
Nýrri tæki fylgja breytingar. Sjá má fyrir sér í myndinni breytingarstjórann, útvarpsstjórann Páll Magnússon.
Mitty helgar starfinu lífi sínu og gerir fátt markvert. Hann bætir það upp með dagdraumum eins og við öll þekkjum. Hann tekur dagdraumana alla leið og dettur út.
Myndin er því óður til starfsmanna á plani.
Þegar umbreytingin á sér stað, þá þarf að grípa í taumana. Mitty dregur djúpt andann og heldur á vit hins ókunna. Hann ákveður að leita uppi RAXA og fer í ævintýraferð til Grænlands og þaðan til Íslands. Síðan til Afganistan. Ævintýrin gerast ekki betri nú til dags.
Loks fær Ísland að vera Ísland.
Yfirleitt er landið notað fyrir önnur lönd en hér talar landið fyrir sjálft sig. En tökur á landinu eru einnig notaðar í önnur atriði. Fyrir Hornfirðinga eru nokkur falleg og góð skot. Hornafjarðarflugvöllur tekur á móti stærstu flugvél sem lent hefur á vellinum fyrr og síðar. Einnig sést Vestrahorn með Skarðsfjörðinn í sinni fallegustu mynd.
Nokkrir íslenskir leikarar koma við sögu. Stærsta bitann fær Ólafur Darri Ólafsson, þyrluflugmaður. Ari Matthíasson er góður sjómaður og kennir framburð á tungubrjótinum Eyjafjallajökull. Þórhallur Sigurðsson (ekki Laddi) er grásprengdur skipstjóri. Einnig er mikill asi á Gunnari Helgasyni hótelhaldara.
Vel gerð gaman- og ævintýramynd með rómantískri hliðarsögu. Glæsileg umgjörð enda hafa myndatökumenn haft úr miklu og fallegu myndefni að moða. Athyglisverður kreditlisti í lokinn en þá er filman látin njóta sín með póstkortamyndum flestum frá Íslandi.
Helsti galli myndarinnar eru að samtöl eru hæg og framvinda sögunnar í byrjun.
Myndin fær fína dóma erlendis en var frumsýnd víða á jóladag. Þetta er mikil og góð kynning fyrir Ísland. Sé henni fylgt rétt eftir munu fylgja margir ferðamenn.
Nú er bara að vona að stjórnvöld setji sjálfbærni og græn viðmið á oddinn svo komandi kynslóðir geti áfram nýtt landið fyrir stórmyndir.
Tengill:
https://www.facebook.com/WalterMitty
Sjónvarp | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.3.2013 | 11:38
Ísland og The Taking of Pelham 1 2 3 (5/10)
The Taking of Pelham 1 2 3 er Hollywood kvikmynd frá 2009. Leikstjóri er Tony Scott heitinn og helstu leikarar eru John Travolta og Denzel Washington. Þessi mynd er endurgerð eftir mynd frá 1974 og var sýnd á Ríkissjónvarpinu í gærkveldi.
Ísland kemur óvænt við sögu í gíslatökumáli en þá segir aðal söguhetjan frá ferðalagi til landsins árið 1998 með litháenskri rassfyrirsætu og jöklaferð á hundasleðum.
Ekki áttaði ég mig á samhenginu.
Í mistakasögu myndarinnar er sagt frá nokkrum mistökum í kvikmyndinni.
"Character mistake: Ryder says it takes 6 hours to fly to Iceland from New York. It takes less than 4."
Svo er hægt að sjá söguna um ferðalagið til Íslands á imdb. Ekki fannst mér myndin tilkomumikil og gef fimm stjörnur af tíu mögulegum. Sagan dularfulla um Ísland gerir hana minnisstæða.
Sjónvarp | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.7.2012 | 10:20
Lífið er saltfiskur
Um síðustu helgi var ég staddur á Shellmóti í Vestmannaeyjum í einstöku veðri. Nælonblíða var í Eyjum og logn á Stórhöfða. Gerist það ekki oft.
Þegar í bæinn var komið vakti Fiskiðjan mikla athygli. Búið var að setja myndir af bónusdrottningum í gengum tíðna. Það var mjög vel viðeignadi. Forvitni ferðamannsins var vakin, mann langaði til að vita meira um þessar duglegu konur.
Eins vakti skeytingin á Strandvegi mikla athygli. Sérstaklega göngustígurinn yfir götuna en í stað breiðra hvítra lína var kominn saltfiskur. Einnig var hringtorg sem byggt var upp af fiskum. Tær snilld.
Síðar komst ég að því að skreytingar þettar tengjast þættinum Flikk flakk sem frumsýndur var í Sjónvarpinu í gær. Þetta er flott framtak hjá Sjónvarpinu og himamönnum.
Ég hlakka til að sjá þáttinn um Hornafjörð en þar var svipuðum hönnunaraðferðum beitt. Ég tel að þetta eigi bara eftir að bæta bæjarmenninguna, íbúum og ferðamönnum til upplyftingar.
Eitt geta Eyjamenn bætt en það er viðhald á einbýlishúsum. Sum hver voru sjúskuð og garðar illa hirtir. Eflaust er vindálag meira en annars staðar á Íslandi. Maður finnur samt kraftinn í Eyjamönnum og það er uppgangur í Eyjum þátt fyrir að útgerðamenn þurfi að greiða sanngjörn veiðigjöld til samfélagsins.
Lífið er saltfiskur. Frumlegur gangstígur á Strandvegi.
Vel skreytt Fiskiðjan sem tilheyrir Vinnslustöð Vestmannaeyja. Daginn sem myndin var tekin var haldinn stjórnarfundur hjá VSV. Niðurstaðan var sú að eigendur fengu milljónir eftir fjöldauppsögn á fiskverkafólki. Arður Vinnslustöðvarinnar 850 milljónir — Eykst um 75 prósent á milli ára.
Sjónvarp | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.10.2010 | 22:49
Þríhnúkagígur (545 m)
Þríhnúkar í Bláfjallafólksvangi ber daglega fyrir augu mín úr Álfaheiðinni. Ég vissi af Þríhnúkagíg í austasta hnúknum en hafði ekki kannað undrið. Fyrir átta dögum kom á forsíðu Fréttablaðsins frétt um að Kvikmyndafyrirtækið Profilm væri að taka upp efni fyrir National Geographic ofan í Þríhnúkagíg. Tilgangurinn er að taka myndir um eldsumbrot á Íslandi.
Við höfðum orðið vör við torkennileg ljós við hnúkana þrjá á kvöldin fyrri hluta vikunnar og því var farin njósnaferð til að sjá hvernig gengi.
Þegar við komum að Þríhnúkagíg eftir göngu meðfram Stóra Kóngsfelli, þá sáum við til mannaferða. Einnig tók á móti okkur ljósavél frá Ístak. Aðkoman að gígnum var góð. Búið að setja keðjur meðfram göngustígnum upp gíginn og einnig í kringum gígopið til að ferðamenn lendi ekki í tjóni. Það blés hressilega á okkur á uppleiðinni en gott skjól var við gígopið.
Gul kranabóma lá yfir gígopinu og niður úr henni hékk karfa fyrir hella- og tökumenn en dýpt gígsins er 120 metrar.
Þrír íslenskir hellamenn voru að bíða eftir þyrlu Landhelgisgæslunnar en hún átti að flytja búnað af tökustað en tafir urðu á þyrluflugi vegna bílslyss. Við rétt náðum því í skottið á velbúnum hellamönnum. Þeir nýttu tímann til að taka til í kringum gígopið.
Kvikmyndataka hefur staðið yfir síðustu tíu daga og gengið vel, þrátt fyrir rysjótt veður enda inni í töfraheimi einnar stórfenglegustu myndbirtingar íslenskrar náttúru.
Dagsetning: 2. október 2010
Hæð: 545 metrar
Hæð í göngubyrjun: 400 metrar, við Stóra Kóngsfell
Hækkun: 120 metrar
Uppgöngutími: 60 mín (14:00 - 15:00)
Heildargöngutími: 135 mínútur (14:00 - 16:15)
Erfiðleikastig: 1 skór
GPS-hnit austurgígur N: 63.59.908 - W: 21.41.944
Vegalengd: 7,2 km
Veður kl 15 Bláfjallaskáli: 8,7 gráður, 14 m/s af NA, skúrir í nánd. Raki 74%
Þátttakendur: 3 spæjarar, ég, Jón Ingi og Ari
GSM samband: Já - gott samband
Gönguleiðalýsing: Lagt af stað frá Bláfjallavegi, og gengið í mosavöxnu hrauni með vesturhlíð Stóra Kóngsfells. Þaðan gengið eftir hryggnum að Þríhnúkagíg.
Óvenjuleg staða við Þríhnúkagíg. Unnið að heimildarmynd um eldsumbrot á Ísland fyrir National Geographic.
Sjónvarp | Breytt s.d. kl. 23:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
6.9.2010 | 21:56
Last Chance to See
Hann er skemmtilegur og fræðandi heimildarþátturinn Síðustu forvöð (Last Chance to See) sem er á mánudagskvöldum. En þættir frá BBC hafa ákveðin klassa yfir sér og komast fáir framleiðendur nálægt þeim.
Þar ferðast félagarnir Stephen Fry, leikari og Mark Carwardine, dýrafræðingur, ljósmyndari og rithöfundur um heiminn og skoða dýr sem eru í útrýmingarhættu. Þeir fylgja eftir ferð og þáttum sem gerðir voru fyrir 20 árum og bera saman.
Mark Carwardine er Íslandsvinur. Ég hef orðið svo frægður að hitta hann eitt sinn á Hornafirði en þá var hann að hvetja menn til að hefja hvalaskoðunarferðir hér við land. Þetta hefur verið haustið 1993. Hann miðlaði mönnum af kunnáttu sinni. Ég man að hann var að skipuleggja ferð norður á land til Dalvíkur og Húsavíkur. Jöklaferðir voru þá nýlega um sumarið búnir að fara með farþega í skipulagðar hvalaskoðunarferðir á Sigurði Ólafssyni frá Hornafirði.
Mark var þægilegur í umgengni. Kurteis eins og allir vel uppaldir Englendingar. Sagði "thank you" reglulega. Hann var með fjölskyldumeðlimi í ferðinni á Hornafirði og þau áttu ekki orð til að lýsa náttúrufegurðinni út um hótelgluggann þegar skjannahvítan jökulinn bar við himinn.
Mark hefur ritað bækur sem gefnar hafa verið út hér á landi. Bókin Hvalir við Ísland, risar hafdjúpanna í máli og myndum ef eitt afkvæma hans. Ari Trausti Guðmundsson þýddi og Vaka-Helgafell gaf hana út árið 1998.
Á bókarkápu segir að hann líti á Ísland sem annað heimaland sitt og hefur komið hingað meira en 50 sinnum frá árinu 1981.
Bókin hefst á þessum skemmtilegu orðum: "Hvalaskoðun við Ísland hefði fyrir nokkrum árum þótt jafnfjarri lagi og froskköfun í Nepal, skíðamennska í Hollandi eða strandlíf á Svalbarða. Fyrsta almenna hvalaskoðunarferðin var farin frá Höfn í Hornafirði 1991 til að skoða hrefnur og hnúfubaka undan hinni stórbrotnu suðausturströnd Íslands. Allar götur síðan hefur þjónustugrein þessi vaxið að umfangi og telst landið nú afar eftirsóknarvert meðal hvalaskoðara um heim allan."
Nú er bara að bíða eftir næstu þáttaröð hjá þeim félögum, hann verður kanski um dýralíf á Íslandi.
Sjónvarp | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.1.2010 | 11:28
Mjög gott áramótaskaup *****
Það er hægt að gera góða hluti fyrir lítinn pening. Áramótaskaupið í ár er undir niðurskurðarhnífnum á RÚV en þar var mjög gott. Handritið vel gert, hárbeitt og góður spegill fyrir síðustu ár. Það var heilmikill boðskapur í því, ekki endalaus fíflagangur.
Hryggstykkið í Skaupinu gerist á Bessastöðum í timburmönnun útrásarinnar en farið er í litlar ferðir frá partíinu og birtast þá stuttir og hnitmiðaðir brandarar sem eru mjög góðir. T.d. var Wiki-Leak hjá Kaupþing frábært en þá sendi einn fundarmanna Alla Reynis glærurnar, á netfangið allir@kaupthing.com. Einnig voru lögin á Pottþétt kreppudisknum vel valin. Sigmundur Ernir fékk ágæta ádrepu sem hann átti skilið. Stefán Jónsson var góður sem Steingrímur Joð en leikur á Jóhönnu var ekki í sama klassa. Laddi kom óvænt í hlutverki forseta og stóð fyrir sínu. Harpa Arnardóttir var mjög góð og gaman að sjá gamlan vinnufélaga Ingvar Bjarnason í litu hlutverki.
Helsta þreytumerkið var þegar Margrét Tryggvadóttir hjá Hreyfingunni var að segja skoðun sína á fólki. Það var frekar langdregið en leikarinn var með útlit og takta þingmannsins á hreinu.
Vonandi verða handritshöfundar sannspáir og endirinn í raunveruleikanum verði eins og í skaupinu. Þeir seku settir undir lás og slá.
Sjónvarp | Breytt 7.1.2010 kl. 21:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.12.2009 | 23:10
Eldsmiður náttúrunnar *****
Í sunnudagsbíói annað kvöld verður kvikmyndin Börn náttúrunnar sýnd en sýning hennar tengist nýjustu mynd Friðriks Þórs Friðrikssonar, Mamma Gógó, sem frumsýnd verður á nýársdag. Það verður spennandi að sjá tenginguna á milli myndanna.
Fyrir sléttum tíu árum fór ég á kvikmyndahátíðina Hvítir hvalir og skrifaði eftirfarandi kvikmyndadóm í jólablað Eystrahorns 1999. Hornfirðingar ættu að hafa Sigurð Filipusson, eldsmið, í huga þegar þeir horfa á Börn náttúrunnar annað kvöld.
Nýlokið er kvikmyndahátíðinni Hvítir hvalir en þar var yfirlitssýning á verkum Friðriks Þórs Friðrikssonar kvikmyndagerðarmanns og snillings. Ég er mikill aðdáandi Friðriks og átti alltaf eftir að sjá myndina Eldsmiðinn, heimildarmynd um Sigurð Filippusson sveitunga okkar frá Hólabrekku.
Ekki spillti fyrir að fyrrverandi vinnustaður minn var Eldsmiðurinn, kenndur við myndina. Því var lagt af stað á hátíð.
Fyrst var Eldsmiðurinn sýndur en þetta er 35 mínútna mynd sem gerð var 1981 og í kjölfarið var hin magnaða mynd Börn náttúrunnar sýnd en hún var frumsýnd 10 árum síðar og markaði ákveðin tímamót í íslenskri kvikmyndasögu. Áður en ég mætti á svæðið sá ég ekkert samhengi á milli þessara tveggja mynda en það átti heldur betur eftir að breytast.
Áður en sýningin hófst hélt meistari Friðrik Þór, fyrirlestur um myndirnar og útskýrði af hverju þessar tvær myndir væru sýndar saman, hvernig þær tengdust. Ástæðan var sú að Börn náttúrunnar byggir mikið á áhrifum sem hann varð fyrir við gerð Eldsmiðsins. Söguhetjan, Þorgeir Kristmundsson, sem er snilldarlega leikinn af Gísla Halldórssyni, byggður á Sigurði Eldsmiði og látinn hafa göngulag Sigurðar auk þess voru nokkur önnur atriði sem sótt voru í smiðju Eldsmiðsins. Sigurður var mikið náttúrubarn og þekkti umhverfi sitt vel. Hann var næmur maður og sá ýmislegt sem venjulegt fólk skynjar ekki. Dulúðina í Börnum náttúrunnar má að einhverju leyti rekja til atvika sem gerðust á þeim 10 dögum sem kvikmyndunin tók. Það var gaman að heyra frásögn Friðriks og sérstaklega þegar hann glotti og pírði augunum þegar honum var skemmt.
Nú hafði dæmið snúist við, forrétturinn rann ljúft í gegn. Sigurður greindi skýrt og haganlega frá sér um leið og hann vann verk sín. Heimildarmyndin Eldsmiðurinn er um sérstakan mann í sínu náttúrulega umhverfi og góð heimildarmann um liðna tíma og verður verðmætari þegar fram líða stundir.
Nú var komið að aðalréttinum. Myndin fór rólega af stað og lítið talað en þeim mun meira myndmál í tilkomumiklu landslagi. Hún greinir frá Þorgeiri sem bregður búi og fer til Reykjavíkur og lendir á elliheimili. Þar hittir hann gamla æskuvinkonu, Stellu, og saman flýja þau til æskuslóðanna. Það er mikil dulúð á flóttanum, draugar og undarlegt fólk sem tákn um að þau séu á leiðinni úr þessum heimi í annan. Hinir látnu eru farnir að heilsa.
Eitt merkilegt atriði er þegar jeppinn hverfur á flótta undan lögreglubílnum og áhorfandinn er skilinn aleinn eftir. Þetta er sótt í smiðju Sigurðar Eldsmiðs og olli nokkrum deilum í klippiherbergi í Svíþjóð. Klipparinn neitaði að klippa atriðið og varð að lokum að yfirgefa klippiherbergið.
Svona lagað fengi Friðrik Þór ekki að leika eftir í Hollývúdd, því fjármagnseigendur taka ekki svona sjensa. Eins er lokaatriðið í svipuðum dúr.
Annað atriði sem gladdi mig var að sjá Eirík Guðmundsson, Hornfirðing, sem er af miklum leikaraættum, leika lítið hlutverk vegaverkamanns og stóð hann sig óaðfinnanlega.
Loks var komið að eftirréttinum, hvað haldið þið að hafi verið í eftirrétt? Jú viku seinna eða síðasta sunnudagskvöld var myndin sýnd í Sjónvarpinu og einn var hægt að horfa á myndina frá nýju sjónarhorni og drekka í sig fleiri smáatriði. Tónlist Hilmars Arnar Hilmarssonar skilaði sér meistaralega í eftirréttinum.
Þegar þessi smáatriði voru upplýst varð myndin hreinasta snilld, alger upplifun og hækkaði um eina stjörnu, úr fjórum í fimm. Skaði að hún skyldi ekki vinna Óskarinn, besta erlenda myndin árið 1992.
Sigurpáll Ingibergsson
Kvikmyndagagnrýnandi Eystrahorns á Hvítum hvölum
Sjónvarp | Breytt s.d. kl. 23:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.2.2009 | 17:47
Saklausar raddir
Í Sjónvarpinu í gærkveldi var sýnd mexíkósk kvikmynd, Saklausar raddir (Voces inocentes). Myndir frá Mexíkó eru ekki algengar á Fróni og var þessi mynd góð sending. Hún greinir frá ungum dreng, Chava í El Salvador á 9. áratug síðustu aldar sem reynir að lifa eðlilegu lífi þótt alls staðar í kringum hann geisi borgarastríð. Drengurinn býr í fátækrahverfi en það er stutt í gleðina. Á kaldastríðsárunum 1980 til 1992 geysaði borgarastrið í El Salvador og létu 75.000 manns lífið. Skæruliðar FMLN sem voru kommúnistar og undir kúbönskum áhrifum börðust við stjórnarherinn sem studdur var af Reagan stjórninni.
Það er athyglisvert að sjá sjónarhorn drengsins og einhvernvegin finnst manni Guantanamo fangabúðirnar vera léttvægar þegar mannréttindabrot í borgarastríði eru sagðar. Í samantekarlista í lokin er sagt frá áhrifum borgarastríðsins. En börn frá El Salvador voru send til 40 landa. Borgarastríð eru ömurleg stríð.
Ein bandarísk mynd sem kemur upp í hugann þegar þessi mynd er skoðuð er Salvador, frumburður Oliver Stone. James Woods leikur þar vel ljósmyndara. Það var eftirminnileg mynd.
Skora á Sjónvarpið að skoða heiminn og sýna kvikmyndir frá fleiri menningarsvæðum. Það gera fleiri góðar kvikmyndir en Íslendingar og Hollywood.
Sjónvarp | Breytt s.d. kl. 17:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.12.2008 | 10:45
14 tindar yfir 8000 metrar
Það var gaman að fylgjast með ÚtSvari um helgina. Mikið stóðu Fljótsdalshérað sig vel gegn skemmtilegum tónlistarmönnum frá Norðurþing. Úrslitin eins og í góðum körfuboltaleik, 114 gegn 83 fyrir Héraðsbúa. Góð skemmtun og ekki að furða að áhorf sé mikið skv. mælingum Capacent.
Ein mjög skemmtileg spurning kom upp í valflokkunum í liðnum há fjöll. Þar var spurt um hversu mörg fjöll væru yfir 8.000 metra hæð á Himalaya eða Karakoram svæðiu í Asíu. Skáldið, bridsspilarinn og bóndinn Þorsteinn Bergsson skoraði 5 stig fyrir Fljótsdalshérað með því að svara rétt: 14.
Það er búið að ganga á alla þessa fjórtán tinda. Því takmarki náði fyrstur Þjóðverjinn, Reinold Messner á árunum 1970 til 1986.
Everest 8848 m Nepal/China
K2 8611 m Pakistan/China
Kanchenjunga 8586 m Nepal/India
Lhotse 8516 m Nepal/China
Makalu 8463 m Nepal/China
Cho Oyu 8201 m Nepal/China
Dhaulagiri 8167 m Nepal
Manaslu 8163 m Nepal
Nanga Parbat 8125 m Pakistan
Annapurna 8091 m Nepal
Gasherbrum I 8068 m Pakistan/China
Broad Peak 8047 m Pakistan/China
Gasherbrum II 8035 m Pakistan/China
Shishapangma 8027 m China
Átta hæstu fjöllin eru í Himalaya en það níunda, Nanga Parbat (nakta fjallið) er í Pakistan. Það var fyrsta fjallið í glæsilegri hjáfjallaröð Messener.
Sjónvarp | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Um bloggið
Sigurpáll Ingibergsson
Færsluflokkar
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Enski boltinn
- Evrópumál
- Ferðalög
- Fjármál
- Fjölmiðlar
- Heilbrigðismál
- Heimspeki
- Íþróttir
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Lífstíll
- Ljóð
- Löggæsla
- Mannréttindi
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Pepsi-deildin
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Sveitarstjórnarkosningar
- Tónlist
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (1.4.): 0
- Sl. sólarhring: 2
- Sl. viku: 44
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 41
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar