Færsluflokkur: Umhverfismál

Einhver Englendingur

Ég hef verið að fara yfir heimildir um sögusvið Langasjávar eftir áhrifamikla ferð þangað um síðustu helgi.

Tímarit.is er stórgóður vefur. Þar er hægt að fletta upp í gömlu blöðunum sem komu út á 19. öld.

Árið1878 er þess getið í fréttabréfi í blaðinu Ísafold að í Skaftárfjöllum, sem nú séu kölluð Fögrufjöll, hafi fundist tveir grösugir dalir og norður af þeim sé vatn sem haldið sé að Skaftá renni úr. Getur þar varla verið um annað en Langasjó að ræða. En hér segir, þótt óljóst sé, frá ferð Skaftfellinga upp um fjöllin og var þar helstur Bjarni Bjarnason frá Hörgslandi.

isafold-fogrufjoll.jpg

Það er margt athyglisvert við þessa stuttu frétt. Hér miðast allt við afkomu sauðfjár. Nafnið á vatninu er óljóst en Þorvaldur Thoroddsen kom í rannsóknarferðir árin 1889 og aftur 1893. Hann gaf vatninu nafnið Langisjór. Þá gekk skriðjökull niður í eftri enda vatnsins en nú er drjúgur spölur frá
jökulröndinni að vatnsendanum. Nafnið Fögrufjöll er þó komið í stað Skaftárfjalla og hefur því ekki komið  frá Þorvaldi. Endapunkturinn er svo stórmerkilegur. Af hverju þurfti einhvern Englending til að kanna fallega landið okkar?  Hvað segir þetta um sjálfsmynd okkar á þessum tíma?

Heimild:

Ísafold,  24. tölublað (30.09.1878), bls. 96

Landið þitt Ísland, Örn & Örlygur

 


Sveinstindur (1.090 m)

Langisjór er meistaraverk. Við vesturenda vatnsins í Fögrufjöllum er glæsilegt fjall sem ber densilegan Sveinstind. Ég gekk á fjallið í ógleymanlegri ferð með ferðafélögum í Augnablik á sunnudag og var það endapunkturinn á ferðalaginu, Fegurðin við Langasjó.

Lagt var frá Sveinsbúðum við enda Langasjávar í spöku veðri að uppgöngunni frá sléttu vestan megin fjallsins. Gönguleiðin  er vel stikuð og er fyrst farið eftir meinlausu gili. Þegar gilinu sleppir er komið á öxl utan í fjallinu og þá er þræddur kambur sem endar á hátindinum. 

Minnti uppgangan á Kattahryggi í Þórsmörk og göngu á Tindfjallajökul því stundum er farið niður á við. 

Þegar fjallgangan var hálfnuð réðst þoka á okkur og fylgdi henni úrkoma í fyrstu.  Þokan var á undan okkur á tindinn og tók yfir hann. Hún sigraði fegurðina.

Á stalli fyrir neðan hátindinn sést mannvirki og einnig eru þar vegamót en tvær leiðir eru á tindinn. Hin leiðin er í skála Útivistar. Hér er hægt að villast.

Í Hálendishandbók Páls Ásgeirs segir:  "Ofarlega í fjallinu þykir mögrum sérstætt að rekast á tóft eins og af litlum leitarmannakofa. Þetta munu vera rústir eftir bækistöðvar manna í einum af könnunarleiðöngrum Þorvalds Thoroddsen vísindamanns."

Þegar ég gekk framhjá tóftinni í þokusúldinni, þá var mér hugsað til Þorvaldar og félaga. Einnig til Fjalla Eyvindar og Höllu. Hvílík elja í Þorvaldi að leggja á sig tíu ára landkönnunarferðalag án flísfatnaðar og svefnpoka upp að -20. Það er þrekvirki að reisa vísindabúðir í 1000 metra hæð en á þessum árum var mjög kalt á Íslandi. Ef þið hafið fylgst með mannfjöldaþróun á Íslandi, þá eiga þessi tvö ár, 1889 og 2009 það sameiginlegt að fólki fækkaði á milli ára!
Ég skildi bakpoka minn eftir í vísindabúðunum og nýtti mér fagmannlegt handafl Þorvalds og félaga til að skýla honum.
Ég var mjög ánægður með að hafa farið alla leið á toppinn og leið mjög vel á eftir, þótt útsýnið hafi verið í einu orði lýsanlegt, þoka.  Nú hef ég ástæðu til að fara aftur. Til er annar densilegur Sveinstindur. Hann er á Öræfajökli og er næst hæsti tindur landsins, 2.044 m. Hann geldur þess svakalega að vera í nábýli við Hvannadalshnjúk. 
 
Gangan tók tæpan klukkutíma og gönguhækkun er 390 metrar. Vegalend 2 km.

Á góðum degi er útsýni stórbrotið. Hægt að sjá vel yfir Langasjó og Fögrufjöll, víðáttumikla aura og kvíslar Skaftár sunnan þeirra. Mögulegan Eldfjallaþjóðgarð á heimsvísu með Lakagíga og tignarleg fjöll í nágrenni Eldgjár í vestri. Upptök Þjórsárhruns má einnig greina í norðri. Vatnajökull rammar svo allt inn í austri með áberandi Kerlingar í forgrunni.

Á Sveinstindi var skálað í vatni úr Útfallinu hjá Langasjó í þokunni.

Langisjór var öllum ókunnur fram á miðja 19. öld.  Bjarni Bjarnson frá Hörgslandi fór í könnunarferð árið 1878 að Langasjó. Nefndu heimamenn tindinn Bjarnatind.  Dugði það ekki lengi því Þorvaldur Thoroddsen kom tvisvar í leiðangrum á svæðið, árin 1889 og 1893. Gaf hann Langasjó og Sveinstind ný nöfn sem haldist hafa síðan og munu lifa um ókomin ár.

 Sveinstindur

Guðmundur og Gaua á toppi Sveinstind að rýna í svarta þokuna.


Hop jökla

Þær eru áhrifamiklar myndirnar hjá Ragnari Th. Sigurðssyni af Jökulsárlóninu. Það fer ekki á milli mála að miklar breytingar eru á Lóninu og brátt verður þa' hinn dýpsti fjörður.  Einar Björn, staðarhaldari á Jökulsárlóni, nær kannski að bjóða ferðir inn að Esjufjöllum áður en hann kemst á eftirlaun.

Þær eru einnig mjög greinilegar breytingarnar á Gígjökli eða Falljökli í Eyjafjallajökli. Þær er ekki eins góðar og hjá RTH en segja sína sögu um áhrif hlýnunar á jökulinn. Fyrri myndin var tekin árið 2001 og síðari í lok júlí 2009.

 Gígjökull-Falljökull

Jökulsporðurinn teygir sig langt fram í Lónið. Mynd tekin 2. júní 2001. Þrem árum fyrr (1998) var skriðjökullin upp fyrir kambinn alla leið niður.

 Gígjökull07-2009

 Þann 28. júlí 2009 nær tungan varla niður í Lónið og það sér í nýtt berg.


mbl.is Myndröð af bráðnuninni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ár frá Náttúrutónleikunum í Laugardal

Í dag er slétt ár síðan eftirminnilegir stórtónleikar með Sigur Rós og Björk voru haldnir í Laugardalnum. Voru þeir haldnir undir heitinu Náttúra. Vefsvæði þeirra er nattura.info. Yfir 30.000 manns mættu í dalinn og milljónir fylgdust með á  Netinu. 

Ég setti saman stutt myndband við lagið Glósóli með Sigur Rós. Á einu ári höfðu 12,437 manns horft á myndbandið á Youtube. Áhorfið var mest í  kjölfar útitónleikanna. Margar athugasemdir hafa verið skráðar og nokkrir póstar komið til mín. M.a. náði ég að mæla meistaraverkinu Heima með Sigur Rós við aðdáanda í Mexíkó. Hann keypti eintak og var ánægður með mynddiskinn þó dýr væri. Það hefur margt breyst á þessu eina ári. Þarna mátti sjá Birgittu Jónsdóttur með fána Tíbets. Nú er hún komin á þing í gegnum Búsáhaldabyltinguna. Heimildarmyndin Draumalandið sýnd við góða aðsókn í kvikmyndahúsum og vakið miklar umræður. Skelfilegt bankahrun sem kallar á nýjar lausnir og vonandi verður það ekki á kostnað náttúrunnar.


Grænadyngja (402 m)

Við Hanna hættum okkur á jarðskjálftasvæðið á Reykjanesskaga með Útivistarræktinni á sólríku og fallegu miðvikudagskvöldi. Markmiðið var að kynnast Grænudyngju og umhverfi hennar. Dyngjan græna var einnig fyrsti áfangi í litafjallaröðinni sem áformuð er af sögumanni. Ekki skalf jörð undir fótum okkar, þó stór hópur þrýsti á jörðina, rúmlega 70 manns.

Reykjanes kemur manni sífellt á óvart. Kannski hef ég verið með einhverja fordóma um að það væri lítið að sjá á Reykjanesskaga. Ferðin á Grænudyngju kom mér á í opna skjöldu, þetta er klárlega einn fallegast staðurinn á höfuðborgarsvæðinu. Litadýrðin og fjölbreytni náttúrunnar er svo mikil.

Fyrst var ekin skemmtileg leið vestan Sveifluháls að Djúpavatni. Gígvatnið kom við sögu í Geirfinnsmáli 1974 og var mikið leitað þar að líki. Vatnið austan megin Sveifluháls heitir Kleifarvatn og er sögusvið samnefndrar bókar eftir Arnald Indriðason. Þau eru því dularfull vötnin á Reykjanesi. Frá Djúpavatni var lagt af stað í hringferð að Grænudyngju. Fyrst var komið við á fjallinu vestan við Djúpavatn og sá vel yfir spegilslétt vatnið. Ekkert grunsamlegt sást en sjónarhornið var stórglæsilegt. Þegar horft var í suðurátt sást í Grænavatn. Síðan var haldið í vestur, framhjá Spákonuvatni sem er í 288 m hæð og yfir í Sogasel. Það er eitt magnaðasta selstæði landsins. Selin frá Vatnsleysuströnd er staðsett í miðjum gíg, Sogaselsgíg. Gígurinn er einstaklega fallegur og vel gróinn og hefur gefið skepnum gott skjól. Áð var á rústum selsins og orku safnað fyrir síðasta áfanga ferðarinnar, sjálfrar Grænudyngju.

 Sogselsgigur

Sogaselsgígur er girtur skeifulaga hamrabelti og myndar því gott aðhald fyrir skepnur.  Op hans snýr í suður.

Ferðin upp á Grænudyngju var stórbrotin. Hækkun er 200 metrar og fylgdu Keilir og Trölladyngja okkur alla leið. Á leiðinni rákumst við á stóra svarta snigla, það var mikið af þeim. Ég vildi ekki fá þá inn í tjaldið mitt. Þegar á toppinn var komið á flatri dyngjunni var útsýni yfir allan Reykjanesskaga, höfuðborgarsvæðið og áberandi álverið. Snæfellsjökull reis densilegur í norðvestri. Fallegast er þó að horfa skammt á Grænudyngju. Í suðri eru Sog, feikna litskrúðugt hverasvæði. Grágrænn litur í hólum er áberandi og er það ekki algeng sjón. Í norðri sér í hrauntauminn kenndur við Afstapahraun sem runnið hefur úr dyngjunni.

Graenadyngja

Grænadyngja (N:63.56.263 - W:22.05.334) með Trölladyngju í bak. Sogin eru í forgrunni en þar má sjá virka hveri. Hveravirknin fer minnkandi. Sogin eru mjög litskrúðug.

Þetta var mjög gefandi gönguferð og enn kemur Ísland manni á óvart. Ég horfi daglega á fjallgarðinn sem Grænadyngja er í út um eldhúsgluggann og hefur hún ekki vakið athygli mína fyrr en nú.  Gangan á dyngjuna var vel útfærð af Ragnari Jóhannessyni hjá Útivistarræktinni. Allar áhyggjur voru skyldar eftir heima og klúður eins og IceSave komust ekkert að í hausnum á manni. Svo mikið af litum og náttúruundrum var að meðtaka. Gengnir voru rösklega 7 km og tók það þrjár klukkustundir.  Hér er myndbrot sem sýnir göngumenn á toppnum.

Varðandi litafjallaröðina, þá fékk ég þá hugmynd að ganga á fjall sem bæri nafn litar eftir að hafa séð sýningu hjá Náttúrusafni Íslands, Litir náttúrunnar, á Hlemmi um liti og örnefni. Mörg örnefni Íslands tengjast litum. T.d.  Grænadyngja, Bláfell, Rauðafell, Svartafell, Gráfell og Hvítafell. Bera síðan saman fjöllin og finna út besta litinn. Ekkert fjall ber nafnið Gulafell eða Gulafjall en þar er merkilegt því líparítfjöll eru algeng hér á landi. Við eigum ekki neitt "Yellowstone" nafn hér á landi.


Fræðsluferð á Nesjavallasvæðinu

"Var Bjarni Ármanns næstum búinn að eignast þetta," mælti einn göngumaður með vanþóknun er hann bankaði í einangrað hitaveiturörið sem flutti 200 gráðu heitt vatn í rigningarúðanum gærkveldi.  Við vorum tæplega fimmtíu sem gengum fræðslustíginn við Nesjavelli að hluta. Þægilega gönguleið þar sem fræðst var um náttúruna, söguna, jarðfræðina og hvernig orkan í Henglinum hefur verið beisluð.

Það var greinilegt á göngumanninum að honum var létt yfir því að samningur Orkuveitu Reykjavíkur og REI (sameinað félag gamla REI og Geysir Green Invest) gekk ekki í gegn.  Við þegnar þessa lands megum eiga náttúruauðlindirnar sameiginlega og nýta þær af skynsemi. Við megum ekki afhenda þær gervikapítalistum,  þar sem tapið fellur á ríkið en hagnaðurinn er einkavæddur.

Hitaveiturörið sem flytur heitt vatni til húshitunar á höfuðborgarsvæðinu er 27 km að lengd og lengdist við 24 metra þegar 83 gráðu hitinn flæddi í gegnum það til borgarinnar. Seigir íslensku verkfræðingarnir. Þessa þekkingu ætluð útrásarvíkingarnir í REI að hafa einkaleyfi á í 20 ár. 

Vegalengdin sem gengin var á fræðslustígnum endaði í 6.4 km og gengið eftir grænum stikum. Við heyrðum fróðlegar sögur af sögu byggðar á Nesjavöllum sem hófst rétt fyrir 1820 er Þorleifur Guðmundsson reisti bæ. Síðan barst sagan að Grími syni hans og endaði á forseta Íslands, Ólafi Ragnari Grímssyni, en hann er afkomandi frumbyggjanna.


Draumalandið

draumalandid.pngPáskadagurinn fór í  Draumalandið. Heimildarmynd um álvæðingu landsins og möguleika okkar í framtíðinni.  Ég tók Særúnu með en hún og bekkjarsystkini hennar munu erfa landið.

Myndin fer hægt af stað. Farið er yfir hugtök. Hagvöxtur er skilgreindur og hvað liggur á bak við hann.  Síðari hluti myndarinnar er stórgóður, mikill stígandi og stutt í tilfinningarnar. Nokkrum sinnum greip maður um hausinn yfir einfaldleika stjórnmálamanna okkar sem við völdum.

Bandaríkjamaðurinn John Perkins, fyrrverandi efnahagsböðull kemur nokkrum sinnum með fróðleg innlegg og lýsir vel hvernig hann og efnahagsböðlar sem hann vann fyrir fóru með vanþróuð ríki. Í einni innkomu segir hann frá því hvernig stórfyrirtækin ná þingmönnum og bæjarstjórnarmönnum á sitt band. Þeir lofi þeim góðum stöðum þegar stjórnmálaferlinum lýkur. Í næsta skoti kemur Guðmundur Bjarnason fv. bæjarstjóri í Fjarðarbyggð í rammann. Hann segir stoltur frá 15 ára bæjarstjórnarferli, nú sé hann verkefnastjóri hjá ALCOA. Hann fellur alveg í spillingarformúluna, verkefnastjóri þjóðarinnar.

Valgerður Sverrisdóttir, álfrú, kemur einnig illa út úr þessari mynd og brandararnir sem hún segir er henni ekki til framdráttar.

Hvet alla sanna Íslendinga til að fara á draumamyndina, Draumalandið.


Hóllinn og Paradísarhola

hafsbotninn.jpgÞetta minnir mig á fróðlegt fræðsluerindi sem ég fór á árið 2003. Það var var stórkostlegt að hlýða á Bryndísi Brandsdóttur hjá Raunvísindastofnun háskólans og Guðrúnu Helgadóttur frá Hafrannsóknastofnun, kynna niðurstöður úr rannsóknum á landgrunni Norðurlands, "Hafsbotninn á Tjörnesbeltinu".  Magnað að sjá fjöll sem minntu á Herðubreið og Keili en flestum óþekkt. Misgengi eins og á Þingvöllum, setlög og gasmyndanir, gígaraðir og landslag sem er sláandi líkt og á landi. Rákir eftir hafísinn frá Ísöld og rákir eftir botnvörpur togara. Á þessari mynd má sjá þekkt fiskimið Grímseyinga, Hólinn og Paradísarholu.

Hafið er okkur að mestu ókunnugt, fyrir utan skipstjórana sem vita hvar einstaka hólar og rennur eru en það eru þeirra fiskileyndarmál. Íslendingar eru eftirbátar annarra þjóða í hafbotnsrannsóknum þó að við byggjum allt okkar á fiskveiðum. 


mbl.is Hafsbotninn bætist við Google Earth
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kjósum Vatnajökul

Vatnajökull er i framboði í atkvæðagreiðslu um sjö ný náttúruundur í heiminum.  Vatnajökull er eini fulltrúi Íslands.  Í boði eru 261 staður, og stórkostlegt að vera í þeim hópi. 77 efstu komast áfram i aðra umferð.  Kjörfundi lýkur 7. júlí.

Farið á www.new7wonders.com

eða styðjið hér, kjósum Vatnajökul.

Veljið heimsálfu og náttúruundur.  Hér er minn atkvæðaseðill.  Ég valdi  einn fulltrúa frá hverri heimsálfu. Það var fróðlegt að fara í gegnum listann og maður á eftir að ferðast mikið. Nóg er til af merkilegum stöðum.

 vote7vonders.jpg


Upphafið að ofþennslunni

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn kvað upp þann dóm að upphafið af ofþenslunni megi rekja til Kárahnjúkavirkjunar. Loksins, loksins fékkst það staðfest. Hins vegar voru margir búnir að vara við þessari leið. Ekki var hlustað á þær raddir. Stóriðjuflokkarnir tveir réðu. Við kusum þetta yfir okkur. Það er annars merkilegt að fólk skuli ekki læra af reynslunni. Enn eru til þingmenn sem vilja planta álverum um allt land og stækka þau sem fyrir eru. Næsta kreppa sem við Íslendingar fáum í hausinn þegar við verðum búin að hrista af okkur bankakreppuna verður álkreppa. Það borgar sig ekki að hafa öll áleggin í sömu körfu.

Í Fréttablaðinu í gær stendur:  "Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (AGS) segir framkvæmdir tengdar áliðnaðinum vera upphafið að ofþenslu íslensks efnahagslífs. Þetta kemur fram í skýrslu sjóðsins um Ísland."

Þar segir: "Hin langvinna þensla hagkerfisins, sem fjárfestingar í áliðnaði hrutu af stað og var viðhaldið með snaraukinni einkaneyslu, og greiður aðgangur að fjármagni ýtti undir, ól af sér ójafnvægi í þjóðarbúskap og gerði fjármálakerfið berskjaldað fyrir utanaðkomandi áhrifum."

Við hefðu betur hlustað á náttúruna og tekið mark á boðskapnum sem var við Rauðuflúð við Jöklu í júlí 2005.  Ekki virkja, stóð þar stórum steinstöfum. Nú er þetta svæði komið undir kalt jökulvatn. 

 

Ekki virkja


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sigurpáll Ingibergsson

Höfundur

Sigurpáll Ingibergsson
Sigurpáll Ingibergsson
Hornfirðingur búsettur í Kópavogi. Árgerð 1965.
Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • IMG 4410
  • IMG 4385
  • IMG 4421
  • Á afskekktum stað
  • Tíminn051071

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 8
  • Sl. sólarhring: 9
  • Sl. viku: 78
  • Frá upphafi: 234913

Annað

  • Innlit í dag: 7
  • Innlit sl. viku: 70
  • Gestir í dag: 6
  • IP-tölur í dag: 6

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband