Færsluflokkur: Ferðalög
4.9.2014 | 22:17
Tóarstígur
Í Afstapahrauni upp af Kúagerði eru sjö gróðurvinjar sem kallaðar eru Tóur á milli þeirra liggur göngustígur sem heitir Tóarstígur. Stígurinn liggur áfram inn að Höskuldarvöllum en endað var við svokallaða Seltó.
Flestir fara sömu leið til baka en á GPS mæli var slóði út í viðkvæmt hraunið. Eflaust í einhverja tilraunarborholu fyrir tíma umhverfismats. Við leituðum slóðann uppi og komum inn á veginn að Höskuldarvöllum.
Tóurnar sem eru sjö. Þar var haglendi sæmilegt og er talið að þarna hafi vermenn eða útróðramenn haldið hestum sínum á vertíðum.
Stefna Tóarstígs er að Keili og sást hann oftast og bar af í hrauninu. Mikið sjónarspil i birtunni. Skúraský börðust við sólarljósið og myndaði dulúðlega birtu. Mikið gengið í hrauni og mosa. Skúr helltist yfir okkur í nestispásunni og myndaði glæsilegan regnboga.
Hraunið gleypir alla úrkomu og því er vatn vandfundið á svæðinu, því hefur vistin verið erfið í selinu ef menn og skepnur hafa búið þar um tíma.
Tó þrjú er talsvert minni en þar er mikið jarðfall eða ker, Tóarker, er þar gott skjól.
Dagsetning: 3. september 2014
Hæð stígs: Lægst: 24,3 m og hæst: 91,4 m.
GPS hnit gryfjur: (N:64.00.305 - W:22.10.274)
Heildargöngutími: 150 mínútur (19:10 - 21:40)
Erfiðleikastig: 1 skór
Vegalengd: 8.8 km
Skref: 11.116
Orka: 611 kkal eða 5 bananar.
Veður kl. 21 Keflavík: Skýjað, N 1 m/s, 9,8 °C. Raki 93%. Skyggni 30 km. Gambur.
Þátttakendur: Útivistarræktin, 26 manns.
GSM samband: Gott 4G samband.
Gönguleiðalýsing: Mosavaxið hraun, stígur ógreinilegur á köflum.
GPS-kort sem sýnir leiðina og neðra sýnir hæð og gönguhraða. Nestisstopp um miðja ferð. Gefið í í myrkrinu á veginum að Höskuldarvöllum.
Heimild:
Ferlir.is: Kúagerði - Afstapahraun
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.8.2014 | 16:48
Á Fjórðungsöldu
Það eru miklir atburðir að gerast í Bárðarbungu, Dyngjujökli og Öskju um þessar mundir. Ferlið hófst 16. ágúst og hefur heimurinn fylgst með óvæntri framvindu og ýmsum uppákomum. Berggangurinn eða kvikugangurinn er að nálgast Öskju á sínum 4 km hraða og vatnsstaða Grímsvatna hækkar.
Jarðskjálftar verða öflugri og það sér á Holuhrauni og sigkatlar hafa myndast suðaustan við Bárðarbungu. Stórbrotið lærdómsferli fyrir jarðfræðinga.
Ég fór norður Kjöl og suður Sprengisand fyrir átta árum og þar var stórbrotin sýn alla leið. Veður var dásamlegt á Sprengisandi. Á Fjórðungsöldu sá maður umtöluðustu staði á Íslandi í dag, Bárðarbungu og Dyngjujökul. Ekki grunaði mig að rúmum átta árum síðar myndi Bárðarbunga láta í sér heyra. Kannski verður svæðið á myndunum umflotið jökulvatni? Kannski verður komið nýtt fell? Kannski gýs sprengigosi í Öskju og Víti hverfur? Kannski gerist ekkert, myndast aðeins nýr berggangur neðanjarðar?
Það var lítil umferð yfir hálendið, ég grét það ekki en fannst að fleiri hefðu mátt njóta stundarinnar. Skráði þetta á blað um ferðina:
23. júlí 2006
Frábært ferðaveður, heiðskírt og 15 gráðu hiti.
Keyrðum 50 km frá Kiðagili í Bárðardal að Kiðagili á Sprengisandi, þá hófst Sprengisandur. Komum við hjá Aldeyjarfossi.
Á Fjórðungsöldu var magnað útsýni. Hofsjökull, Tungnafellsjökull, Bárðarbunga og Trölladyngja.
Fórum yfir tvö vöð hjá Tungnafellsjökli og eitt við Höttóttardyngju.
Keyrðum 204 km á möl og 160 km á malbiki í bæinn og enduðum ferðina á Sprengisandi við Reykjanesbraut.
Mættum 19 bílum á norðurleið og 2 hjólreiðamönnum. Aðeins fleiri á suðurleið þar af einn hjólreiðamaður.
#Hagakvísl, #Nýjadalsá, #Skrokkalda og #Svartá.
Hef trú á að það eigi fleiri eftir að ferðast yfir Sprengisand á komandi árum eftir þetta ævintýr.
Tungnafellsjökull og Bárðarbunga frá Fjórðungsöldu. Kistufell og Dyngjujökull handan.
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
23.7.2014 | 12:31
Esjan (780 m) #14 ferð
Esjan í #14 árið í röð. Eitt af markmiðum mínum er að ganga amk einu sinni á ári á Esjuna.
Loks kom sólardagur í sumarfríinu og tilvalið að fylla Esjukvótann.
Róleg umferð rúmlega tíu en umferð gangandi jókst um hádegið og mikið var af útlendingum. Það heyrðist sænska, finnska, spænska og enska hljóma í fjallakyrrðinni.
Engin gestabók var við Stein en þangað stefndu flestir.
Síðan var lagt á topp Þverfellshorns. Klettaborg 90 metrar birtist úr þokunni. Þeir voru ekki lengur klettar. Þeir voru risavaxið listasafn. Keðjur voru göngumönnum til aðstoðar.
Ekki sást í toppinn en veðurspáin lofaði sól og þegar við kjöguðum að vörðunni opnaðist þokuhaftið. Það náðust nokkrar myndir, selfie og allur facebook pakkinn. Síðan lagðist þoka yfir, þá var kvittað fyrir afrekinu í nýlega gestabók sem geymd er í kassa við hringsjánna. Nokkrum sekúndum síðar fór þokan. Vindurinn blés henni í burtu. Maður þurfti ekki að bíða lengi eftir nýju veðri.
14.200 skref, 11.8 km og 950 kkal brenndar.
En er bæjarfjallið Esjan tignarlegt fjall?
Meistari Þórbergur Þórðarson hefur ákveðnar skoðanir á fjallinu:
"Esjan hefur aldrei haft sérlega góð áhrif á mig. Hún hefur aldrei verkað lyftandi á mig. Hún hefur verkað svipað á mig og heljarmikill hesthúshaugur sem er farinn að verða uppgróinn að neðan. Hún er alltof ruglingslega samin fyrir minn stílsmekk. Mér brá þegar ég kom fyrst til Reykjavíkur að sjá hvað fjöllin hérna voru lágkúruleg í samanburði við fjöllin í Suðursveit. Þau höfðu tinda sem bentu til himins." (Kompaníið bls. 127)
Hringsjá FÍ á Þverfellshorni og varða. Kollafjörður og Geldinganes sjást vel og höfuðborgin hulin þoku að hluta.
Dagsetning: 22. júlí 2014
Hæð Þverfellshorns: 780 m
Erfiðleikastig: 1 skór að Steini, 3 skór eftir Stein
Veður kl. 12 Reykjavík: Skýjað, SSA 3 m/s, 15,4 °C. Raki 73%. Skyggni 40 km. Gambur.
Gönguleiðalýsing: Vinsæl gönguleið, ágætlega uppbyggð með upplýsingum á íslensku. Hlíðin er aflíðandi neðst en með hömrum efst.
Heimildir
Bæjarfjallið Esja
Hvað vildi Þórbergur - Guðmundur Andri Thorsson
Sitthvað um Esjuna - Emil Hannes Valgeirsson
Gengið á Esjuna - Kjartan Pétur Sigurðsson
Tengd Esjublogg
Esjan á páskadag
Kerhólakambur (851 m)
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.5.2014 | 14:42
Fiskidalsfjall (214 m) og Festarfjall (201 m)
Ekið til Grindavíkur og beygt inn á Suðurstrandarveg að námum við Fiskidalsfjall. Þaðan gengið upp suðurhlíðar fjallsins og til norðausturs eftir fjallsbrúninni. Stefnan var síðan tekin að Skökugili og rótum Festarfjall. Eftir nestisstopp var fjallið klifið og útsýnisins yfir Atlantshafið notið.
Þorbjörn er mest áberandi af Fiskidalsfjalli sem og nágranninn Húsafjall en fell í örnefnum eru ekki vel séð þarna. Sjómannabærinn snyrtilegi, Grindavík með allan kvótann sést vel.
Þegar gengið er upp Fiskidalsfjall sést malarnám vel og einnig að þarna hefur verið hluti var varnarsvæðinu í Kalda stríðinu. En rústir eftir möstur og hlustunarstöð sjást berlega milli Húsafjalls og Fiskidalsfjalls. Einnig eru margar fornleifar.
Festarfjall horfði glaðlega mót göngufólkinu. Það var eins og það væri að segja: Nú er gaman! Nú er gaman! . En Fiskidalsfjall var þungbúið, eins og það væri að hugsa: Gamanið er stutt.
Festarfjall er hálft fjall, minnir á Hestfjall. Rúst eldfjalls sem Ægir er sem óðast að brjóta niður. Báðum megin þess eru þykk lög úr svartri ösku sem orðin er að föstu bergi.
Berggangur liggur í gegnum Festarfjall og er Festi (Tröllkonu-festi) sú er fjallið tekur nafn af.
Fjöllin tvö að mestu úr bólstrabergi. Einnig er í því móberg, brotaberg og grágrýtisberggangar. Tveir slíkir mynda festina.
Ljómandi útsýni er af Festarfjalli en víðsýni ekki mikið. Eldey sem minnir á Ellý Vilhjálms ber af í hafinu vestri. Sýrfell í gufustrókum á Reykjanesinu. Fagradalsfjall og Stóri-Hrútur sem minnir á Keili í norðaustur. Langihryggur densilegur og ber nafn með rentu. Kistufell og Geitahlíð árennileg og risarnir, Mýrdalsjökull og Eyjafjallajökull í austur með Tindfjöll sér til halds og trausts.
Húsafjall og Hrólfsvík ásamt Þórkötlustöðum og sægreifaþorpið Grindavík séð frá Festarfjalli. Ganga þurfti yfir malbikaðan Suðurstrandarveg milli fjalla.
Dagsetning: 28. maí 2014
Hæð Fiskidalsfjalls: 214 m
Hæð Festarfjalls: 201 m
GPS hnit varða á Fiskidalsfjalli: (N:63.51.562 - W:22.21.961)
GPS hnit varða á Festarfjalli: (N:63.51.434 W:22.20.246)
Hæð í göngubyrjun: 22 metrar (N:63.51.138- W:22.21.804) hjá malarnámu.
Hækkun: 250 metrar (192 + 58 metrar)
Uppgöngutími Fiskidalsfjall: 35 mín (19:30 - 20:05) 860 m ganga.
Heildargöngutími: 150 mínútur (19:30 - 22:00)
Erfiðleikastig: 1 skór
Vegalengd: 6 km
Skref: 7.517
Veður kl. 21 Grindavík: Alskýjað, SV 6 m/s (7-9 m/s), 9,1 °C. Raki 84%. Gambur.
Þátttakendur: Útivistarræktin, 41 manns með fararstjórum.
GSM samband: Nei, ekki hægt að ná 4G í byrjun, í suðurhlíðum Fiskidalsfjalls en gott eftir það.
Gönguleiðalýsing: Brött byrjun í malarnámu við rætur Fiskidalsfjalls. Síðan melar og mosi, yfir malbikaðan Suðurstrandarveg að Siglubergshálsi og þaðan á Festarfjall. Þéttbýli, þjóðvegur og haf, með útsýni um eldbrunnið land.
Húsafjall og Fiskidalsfjall séð frá Festarfjalli.
Heimildir:
Íslensk fjöll, gönguleiðir á 151 tind, Ari Trausti Guðmundsson og Pétur Þorleifsson. M&M 2010.
Ferlir.is: http://www.ferlir.is/?id=4127
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 14:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.5.2014 | 13:24
Arsenal : Hull City - Enska bikarkeppnin á Wembley
Hull og Grimsby voru þekkt nöfn á Íslandi á Þorskastríðsárunum. Þaðan voru gerðir út togararnir sem veiddu fiskinn okkar. Við unnum stríðið um þorskinn og seldum Englendingum fisk í staðinn. Hnignun blasti við í gömlu útgerðarbæjunum.
Nú eru þeir að rétta úr kútnum. Ég fór í mína einu siglingu með togaranum Þórhalli Daníelssyni í nóvember 1985 og seldum við í Hull.
Hull var drungaleg borg og sóðaleg með sína 266 þúsund íbúa. Við höfnina voru byggingar sem mosi eða sjávargróður var farinn að nema land á. Veðrið var drungalegt og fegraði ekki borgina á Humbersvæðinu. Við sigldum inn River Hull og opna þurfti dokkir til að halda réttri vatnsstöðu í ánni. Þegar við lögðum festar við bryggju þá voru margir voldugir togarar bundnir við landfestar. Þeir máttu muna fífil sinn fegurri.
En um kvöldið fórum við á þekkta krá, "Camio" hét hún og eru menn enn að segja sögur af þeirri merku krá. Svo subbuleg var hún. Bjórinn var ekki leyfður á Íslandi og því varð að kíkja á pöbb. Ég missti af kráarferðinni en trúi öllum sögunum, svo vel voru þær sagðar.
En ég rifja þetta upp út af því að í dag er úrslitaleikur í Enska bikarnum. Þar leiða saman hesta sína mínir menn, Arsenal frá London og Hull City í fyrsta skipti.
Það hefur því margt breyst í Hull, borgin rétt úr kútnum og endurspeglast það í gengi knattspyrnuliðsins, fyrsta skipti í úrslitum elstu og virtustu knattspyrnukeppni heims. Spurningin er hvernig lítur Camio út í dag?
Hull er á Humberside í norðausturhluta Englands og rakt sjávarloftið frá Ermasundi blæs í austanáttum. Vígi rugbý íþróttarinnar er á svæðinu og á sama tíma og úrslitaleikurinn á Wembley fer fram þá verður úrslitaleikur milli Hull KR og Hull FC í Super League.
Ég er bjartsýnn fyrir hönd míns liðs, Arsenal og spái öruggum 2-0 sigri. Ramsey og Podolsky gera mörkin og enda bikarleysið. Þetta verður góður dagur.
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.4.2014 | 13:20
Breiðdalshnúkur - Í fótspor Russel Crowe
Breiðdalshnúkur klifinn á annan í páskum. Russel Crowe sem leikur Nóa gekk hann í lok júlí 2012 en tökur á kvikmyndinni Noah voru teknar norðan við Kleifarvatn. Nóa páskaegg klárað og farið á myndina, Noah um Nóa gamla eftir göngu. Nóa nammi keypt á nammibarnum. Nói kemur víða við sögu.....
Það fer lítið fyrir Breiðdalshnúk á leitarvélum. Helst að heimsókn Russel Crowe hafi bætt við nokkrum leitarmöguleikum en tindurinn ber nafn sitt af Breiðdal sem er inn af honum og hnúkurinn er fastur við Lönguhlíð sem er í miklum fjallabálki.
Gengið upp snjólausan hrygg að snælínu en stoppað þar og ráðum háfjallagöngumannsins Ed Viesturs fylgt, að snúa við áður en það er orðið og seint. Því ísöxi og mannbroddar voru ekki með í för og snjórinn þéttur og varasamur.
Markmiðinu var náð, sama sjónarhorn og óskarsverðlaunaleikarinn náði og rómaði á Twitter-síðu sinni, aðdáendum til mikillar ánægju.
Til eru nokkur fjallanöfn kennd við erlenda afreksmenn. Wattsfell eða Vatnsfell, Lockstindur eða Lokatindur á Norðurlandi. Nú er spurning um hvort Breiðdalshnúkur fái nafnið Crowhnúkur!
Good view from the top of Breiðdalshnúkur - Stórleikarinn Russel Crowe með húfu í fánalitunum á Breiðdalshnúk og horfir yfir kvikmyndatökustaðinn í hléi. Myndin tekin 30. júlí 2012 af Chris Feather.
Dagsetning göngu: 21. apíl 2014, annar í páskum
Mesta hæð: 323 m, við snælínu
GPS hnit upphaf: 165 m (N:63.57.570 W:21.56.707)
GPS hnit snælínu: 323 m (N:63.57.301 - W:21.56.536)
Heildarhækkun: 158 metrar
Heildargöngutími: 90 mínútur (12:30 - 14:00)
Erfiðleikastig: 2 skór
Veður kl. 12 Selvogur: Skýjað, ASA 7 m/s, 5,0 °C. Raki 93%
Þátttakendur: Fjölskyldan á hreyfingu, 3 meðlimir
GSM og 3G samband: Já, enda mikið ferðasvæði. Stöðugt 3G-samband.
Gönguleiðalýsing: Gengið frá þjóðvegi, upp snjólausan móbergshrygg að snælínu.
Ari Sigurpálsson stoltur með húfu í fánalitum í 323 m hæð og horfir yfir leiksvið Hollywood-kvikmyndarinnar Noah. Kleifarvatn og Sveifluháls í baksýn.
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 13:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
20.3.2014 | 23:24
Um fjöll og hveri í Krýsuvík
Gangan hófst við Grænavatn sem er vatnsfylltur sprengigígur, friðað náttúruvætti rétt við veginn. Þar hófst saga náttúruverndar á Íslandi. Þaðan var gengið upp að Austurengjahver sem er með stærstu hverum á suðvesturlandi. Síðsumars 1924 lifnaði Austurengjahver (Stórahver) við jarðskjálfta, var áður lítilfjörlegur.
Frá hverasvæðinu var gegnið á Stóra-Lambafell til þess að njóta útsýnis yfir hið dularfulla Kleifarvatn bústað skrímsla og heimkynni hvera. Á bakaleiðinni var komið við á Litla-Lambafelli sem er litlu lægra en minna um sig. Á meðan gengið var upp Litla Lambafell, þá var Gísli Marteinn að þjarma að Sigmundi forsætisráðherra í þættinum sínum, Sunnudagsmorgunn. Frægt viðtal.
Síðan var haldið niður að Grænavatni á ný og nú arkað til suðurs að Bæjarfelli og gengið á það. Undir fellinu eru rústir hins forna kirkjustaðar í Krýsuvík og þar settust göngumenn niður og fengu sér nesti og rifjuðu upp merka sögu staðarins.
Listmálarinn Sveinn Björnsson bjó lengi þarna og hvílir hann þar.
Frá Bæjarfelli er steinsnar yfir að Arnarfelli og var þessum netta hring lokað með því að ganga á það áður en haldið var að Grænavatni á ný. Arnarfell er formfegurst fellana enda leikmynd í stórmyndinni Flags of Our Fathers and Letters from Iwo Jima frá 2006. Arnarfell er eitt þeirra örnefna sem ber dýraheiti, s.s. Geitafell, Grísafell, Hafursfell, Hestfjall, Hrútafjöll, Rjúpnafell og Sauðafell.
Þegar komið er á topp Arnarfells er lítil varða, og þar er hægt að sjá hlaðna garða mjög forna en mikil eldvirkni var á Reykjanesi um 1100 og gæti nýtt tímabil verið að hefjast. Gestabók er á Arnarfelli og hvernig væri að reisa fána þar? Hvað um skjöld um Hollywood kvikmyndirnar?
Alls er þetta 13 km löng ganga með viðkomu á fjórum lágum fellum og en samanlögð hækkun um 350 metrar.
Vagga ferðaþjónustu hófst á svæðinu á 19. öld en ferðamenn fóru dagleið frá Reykjavik að hverunum í Seltúni og Hveradölum í Krýsuvík.
Göngufólk á Bæjarfelli. Arnarfell, Krýsuvíkurhraun, Eldborg og Geitahlíða sjást.
Dagsetning: 16. febrúar 2014
Mesta hæð: 239 m, Stóra-Lambafell
GPS hnit Grænavatn: 166 m (N:63.53.155 W:22.03.441)
GPS hnit Stóra-Lambafell: 239 m (N:63.53.923 - W:22.01.848)
GPS hnit Litla-Lambafell: 237 m (N:63.53.481 W:22.02.095)
GPS hnit Bæjarfell: 221 m (N:63.52.226 W:22.04.170)
GPS hnit Arnarfell: 205 m (N:63.51.857 W:22.03.126)
Heildarlækkun: 350 metrar
Heildargöngutími: 5,5 klst, 330 mínútur (10:00 - 15:30)
Erfiðleikastig: 2 skór
Vegalengd: 13,0 km
Skref: 18,631 og 1.087 kkal
Veður kl. 12 Bláfjallaskáli: Heiðskýrt, A 13 m/s, -7.5 °C. Raki 64%
Veður kl. 12 Selvogur: Heiðskýrt, NA 9 m/s, -2,8 °C. Raki 51%
Þátttakendur: Ferðafélag Íslands, gengið á góða spá, 66 félagar
GSM og 3G samband: Já, enda mikið ferðasvæði. Stöðugt 3G-samband.
Gönguleiðalýsing: Gengið að hluta eftir merktum stíg, Dalaleið að hverum og Lambafellum. Síðan eftir þýfði Krýsuvíkurmýri að Bæjarfelli og Arnarfelli. Fallegur fjögra fella hringur.
Heimildir:
Ferlir.is - Grænavatn-Austurengjahver-Krýsuvíkurbjarg-Arnarfell-Augun
Ferlir.is - Örnefnið Krýsuvík
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.3.2014 | 16:43
Fellaþrenna: Helgafell (340 m) Valahnúkar (205 m) Húsfell (295 m)
Rétt innan við Hafnarfjörð standa nokkur fell úti í hrauni. Lagt var frá Kaldárseli og gengið sem leið lá upp á Helgafellið. Þaðan var haldið niður á við og gengið á Valahnjúka. Komum við í Valabóli og Músahelli áður en Húsfell var gengið.
Þegar gengið var upp Helgafell um gilið í miðju fellinu, þá heyrðist í þyrlu frá Norðurflugi. Þegar á toppinn var komið, þá var þyrlan lent á sléttum toppnum og mynduðu ferðamenn sig í bak og fyrir. Vakti hún verðskuldaða athygli en það blés vel um toppinn.
Mjög eftirminnilegt atvik í fjallgöngusögu minni en maður veltir fyrir sér reglum um lendingar hjá þyrlu í fólkvangi og kyrrð og ró fjallgöngumannsins. Það geta skapast hættur á fjöllum.
Eftir uppákomuna á Helgafelli var lagt á Valahnúka en þeir eru í beinni línu milli Helgafells og Húsfells.
Toppurinn á Valahnúkum er klettur og vaggaði hann en Valahnúkar eru taldir hafa myndast í gosi fyrir um 120 þúsund árum.
Frá vaggandi Valahnúk var haldið að Valabóli og orku safnað fyrir síðasta fellið, Húsfell.
Margt sér á miðju Húsfelli, Búrfellsgjá blá. Húsfell er umkringt hrauni sem er komið ofan úr Rjúpnadyngjum og á að hafa myndast á tímabilinu 900 - 1500.
Á toppi Helgafells í Hafnarfirði. Þyrla með fjallgöngufólk!
Dagsetning: 1. febrúar 2014
Kaldársel upphaf: 84 m (N:64.01.374 W:21.52.066)
Helgafell: 340 m - hækkun: 200 m
Húsfell: 306 m (N:64.01.591 W:21.47.947)
Valahnúkar: 205 m (N:64.01.192 W:21.50.118)
Heildarlækkun: Um 400 metrar
Heildargöngutími: 2,5 klst, 263 mínútur (10:07 - 14:30)
Erfiðleikastig: 2 skór
Vegalengd: 14,1 km
Skref: 18,874 og 1,257 kkal
Veður kl. 12 Bláfjallaskáli: Skýjað, austan 10 m/s. 4,5 °C hiti og 64% raki. Skyggni 50 km.
Þátttakendur: Ferðafélag Árnesinga, 32 félagar
GSM samband: Já, enda í útjaðri Hafnarfjarðar. Stöðugt 3G-samband.
Gönguleiðalýsing: Gengið eftir vel gengnu hrauni milli fella. Flott fellaþrenna.
Séð frá Helgafelli, yfir Valahnúka og yfir á Helgafell.
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
27.10.2013 | 14:27
Hringsjá
Landslag yrði lítið virði ef það héti ekki neitt.
Eitt athyglisvert snjallforrit (app) Heitir Hringsjá og er kjörið fyrir göngumanninn. Fyrirtækið Seiður ehf er framleiðandi. Í þessari fyrstu útgáfu er hægt að skoða nöfn 4000 fjalla, jökla, hóla og hæða um allt land.
Ef opið er fyrir GPS-staðsetningu göngumanns, þá er hægt að sjá í snjallsímanum fjöllin í næsta nágrenni og fjarlægð að fjallinu. Hér opnast mikill möguleiki fyrir göngumann að læra ný örnefni og uppfræða aðra göngumenn og auka virði landslagsins.
Í síðustu gönguferð minni prófaði ég snjallforritið. Ekki viðraði vel á hæsta punkti og því nýtti ég mér tæknina ekki en tími Hringsjárinnar mun koma.
Mæli með þessu snjallforriti. Snjöll hugmynd. En verst hversu oft það varð óvirkt og lengi að ræsast.
Svona lítur sjóndeildarhringurinn út frá Hellisheiði séð í norður. Ofan á það bætast svo örnefni fjallanna, hæð og fjarlægð. Loksins er hægt að finna út hvað tindurinn þarna heitir!
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.10.2013 | 22:15
Fræðst um Hengilssvæðið
Það er ekki oft sem fjallganga hefst í hæsta punkti. Það blés köldum norðan vindi þegar komið var að bílastæði við Himnaríki á Skarðsmýrarfjalli en göngumenn vissu að ástandi ætti bara eftir að batna.
Einar Gunnlaugsson leiðsögumaður með 30 ára reynslu af svæðinu og Rannveig Magnúsdóttir farastjóri frá Landvernd stýrðu hópnum. Einar gjörþekkti svæðið og var gaman að heyra um sögu hraunanna sem runnu fyrir 1000, 2000 og 5000 árum er við fórum framhjá þeim. Einnig var hann á heimavelli er steina með útfellingar bar fyrir augu.
Í ferðinni sáum við að það var búið að fjarlægja nokkra gíga úr gosröðinni fyrir 2000 árum og er efnið í þeim í veginum yfir Hellisheiði. Okkur var hugsað til Hraunavina í Gálgahrauni.
Í Miðdal sást jarðhiti vel. Hann hafði brætt snjóinn og grænn mosinn skar sig úr. Einnig eru nokkrir hverir og litlir heitir lækir sem renna í Hengladalsá. Líffræðingar eru að rannsaka þá en hitakærar örverur lifa þar.
Í lokin kíktu við á eina af 25 virkum borholum á Hengilssvæðinu sem Hellisheiðarvirkjun nýtir og gefa af sér um 300 MW af orku. Holurnar eru að jafnaði að jafnaði 2000 metra djúpar. Við höfðum gengið yfir svæðið sem gaf af sér nokkrar af bestu borholunum. Hitinn í borholuskýlinu var þægilegur er úr kuldanum var komið en sum rörin eru 200 gráðu heit.
Líffræðingar að rannsaka hitakærar örverur í Miðdal.
Dagsetning: 26. október 2013
Mesta hæð: 566 m, bílastæði v/Himnaríki
GPS hnit Himnaríki: 566 m (N:64.02.997 - W:21.21.009)
GPS hnit borholur: 386 m (N:64.02.402 W:21.19.999)
Heildarlækkun: 377 metrar
Heildargöngutími: 2,5 klst, 149 mínútur (10:59 - 13:28)
Erfiðleikastig: 2 skór
Vegalengd: 5,6 km
Skref: 7,912 og 565 kkal
Veður kl. 12 Skarðsmýrarfjall: Skýjað, ANA 17 m/s, -2.5 °C. Raki 79%
Þátttakendur: Ferðafélag Íslands og Landvernd, 18 félagar
GSM samband: Já, enda háhitasvæði með dýrmætum borholum. Stöðugt 3G-samband.
Gönguleiðalýsing: Gengið eftir vegarslóða niður Skarðsmýrarfjall eftir misgengi í Þrengsli norðan við fjallið og niður Miðdal. Þar er jarðhiti og mosagróinn dalur. Ganga þarf tvisvar yfir meinlitla Hengladalsá á leið meðfram fjallinu. Létt ganga í snjóföl, mest niðurávið um stórmerkilegt háhitasvæði.
Þetta var ekki mikil útsýnisferð. Kalt og hvasst á hæsta punkti, þar sem útsýni átti að vera mest. Hér getur að líta algengustu sýn okkar í suðurátt en þetta er skjamynd úr hinu skemmtilega appi frá Seiði, Hringsjá nefnist það.
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Sigurpáll Ingibergsson
Færsluflokkar
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Enski boltinn
- Evrópumál
- Ferðalög
- Fjármál
- Fjölmiðlar
- Heilbrigðismál
- Heimspeki
- Íþróttir
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Lífstíll
- Ljóð
- Löggæsla
- Mannréttindi
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Pepsi-deildin
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Sveitarstjórnarkosningar
- Tónlist
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 5
- Sl. sólarhring: 8
- Sl. viku: 58
- Frá upphafi: 233604
Annað
- Innlit í dag: 4
- Innlit sl. viku: 50
- Gestir í dag: 4
- IP-tölur í dag: 4
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar