Færsluflokkur: Ferðalög

Hvalhnúkur (522 m)

Ekki grunaði mig að ég myndi hitta gamlan félaga þegar ég lagði af stað í ferð með Útivistarræktinni,  þeirri fyrstu á árinu hjá  mér. Ég hafði fyrir nokkrum árum gengið Selvogsgötu og mundi eftir fjalli og skarði kennt við hval.  Þetta var því óvænt ánægja.

Til að flækja málin, þá eru til Eystri Hvalhnúkur og Vestari Hvalhnúkur. Við gengum á þann vestari.

Hvalhnúkur er áberandi þegar að er komið, mjór og allhár (46 m). En hvað er Hvalnhúkur að gera uppi í miðju landi?

Þjóðsagan kveður á um nafngiftina að tröllkona norðan af fjalli hafi farið til fanga í Selvog og komið þar á hvalfjöru og haft þaðan með sér það, sem hún treysti sér til að komast með, en til hennar sást og hún elt. Varð henni allerfið undankoman, og náðist hún í skarði því, sem síðan er nefnt Hvalskarð og hnúkurinn þar suður af Hvalhnúkur.

Ágætis útsýni frá Heiðinni háu og Hvalhnúk yfir á Vörðufell, Brennisteinsfjöll, með Eldborg, Kistufell og Hvirfil. Fallegir Bollarnir sem geyma Grindarskörð og í bjarmanum á bak við þá sá í Snæfellsjökul og Snæfellsnesið. Þríhnúkagígar og Stóra Kóngsfell eru áberandi og Bláfjöll í norðri.

Dagsetning: 20. júní 2012 - sumarsólstöður
Hæð Hvalnhúks: 522 m  (477 m rætur hnúks, 45 m hækkun)
GPS hnit Hvalhnúks: (N:63.56.511 - W:21.42.237)
Hæsta gönguhæð: 545 m, hryggur á miðri leið (N:63.58.456 - W:21.39.552)
Hæð í göngubyrjun:  506 metrar við efsta bílastæði í Bláfjöllum, (N:63.58.810 - W:21.39.163)
Hækkun: 16 metrar         
Uppgöngutími: 120 mín (19:05 - 21:05) - 5,25 km
Heildargöngutími: 210 mínútur (19:05 - 22:35)
Erfiðleikastig: 1 skór
Vegalengd:  10,5 km
Veður kl. 21 Bláfjallaskáli: Skýjað, SSA 4 m/s, 5,8 °C. Raki 92% - Skúrir nýafstaðnar
Þátttakendur: Útivistarræktin, 40 þátttakendur
GSM samband:  Já, nokkrar hringingar

Gönguleiðalýsing: Létt ganga yfir mosavaxið helluhraun yfir Heiðina háu. Haldið frá bílastæði, framhjá Strompum og þaðan eftir heiðarhrygg sem hækkar og lækkar lítillega í suðurátt. Gróðursælli leið neðan hrygg um Stóra-Leirdal á bakaleið.

 Hvalhnúkur

Útivistarræktin með Hvalhnúk í sigtinu. Hann var sveipaður þoku mínútu áður en myndin var tekin. Selvogur er handan hnúksins. Hvalnhúkatagl er í nágrenni. Myndin er tekin hjá Eystri-Hvalhnúk.

Heimildir:
Ferlir - Selvogsgata - Kristjánsdalir - tóftir - Hlíðarvatn
Rammaáætlun - kort


Tékkland og gullni pilsner-bjórinn

Tékkland og Portúgal leika í 8-liða úrslitum EM 2012 í dag. Það er því góð tenging að fjalla um Tékkland og bjór í dag.

Tékkland er mesta bjórþjóð veraldar og er bjórneysla á mann 159 lítrar á ári. Slá þeir út frændur okkar Íra með 131 lítra og Þjóðverja með 110 lítra.  En þessi lið er öll í úrslitakeppni EM.

Fyrst Tékkland, land lagersins er í beinni í kvöld, þá verður maður að rifja upp og upplifa bjórsöguna og láta hugann leita til Pilsen, musteri bruggmenningarinnar.  Þar er merkilegt brugghús, musteri brugglistarinnar, Pilsner Urquell Brewery.  Þar var fyrsti gullni bjórinn með botngerjun eða kaldri gerjun bruggaður árið 1842. Tími pilsnersins  var þá runninn upp og markaði upphaf lagerbjórsins. Tærleiki hans er í glasið kom var aðlaðandi og samsetning ilms og bragðs, sem var maltkennd en með indælum humla og bitterkeim, heillaði alla er á honum smökkuðu.  Svo vel hefur gullni bjórinn frá Bæheimi (Bohemia) lagst í Íslendinga að 98% af seldum bjór í Vínbúðunum er lagerbjór.

Bjór má skipta gróft upp í tvo flokka, öl (ale) og lager.   Öl er bruggað með gertegund sem vinnur mest við yfirborðið en í lager er notaður ger sem vinnur mest við botninn við kaldara hitastig. Síðan tekur við langt geymsluferli, „lagering“.

Það er gaman að fara í skoðunarferð um bruggverksmiðjuna sem framleiðir Pilsner Urquell  og anda að sér bjórsögunni. En eikartunnur frá frystu lögn, fyrir 170 árum, eru til sýnis fyrir ferðamenn. Einnig er gengið um kaldan kjallarann og hápunkturinn er sopi af  ósíuðum og ógerilsneyddum pilsner bruggaður í eikartunnu. Þreföld humlun er lykilinn. Bjórinn er gjöf náttúrunnar til mannsins.

 Hlidid1024

Inngangurinn í elsta Pilsner-brugghúsið (Burgher's brugghúsið) minnir meira á sigurboga en hlið. Vatnsturninn, 46 metra hár sést í gegnum hliðið og minnir á mínarettu á mosku. Háir reykháfar standa upp úr brugghúsinu, musteri brugglistarinnar og smekklegar vöruskemmur sjást. Á bakvið strætóinn sem keyrir gesti um bruggþorpið er Pilsen bjórlestin sem flutti vörur á hverjum morgni til Vínar.


10. maí

Hann var sögulegur 10. maí 1940 en þá var Ísland hernumið af Bretum og nýir tímar hófust á Íslandi. 

Hernám Breta var til að koma í veg fyrir að Ísland félli undir þýsk yfirráð en Þjóðverjar höfðu sýnt landinu töluverðan áhuga á árunum fyrir styrjöldina vegna hernaðarlegs mikilvægis þess í tengslum við siglingar um Norður-Atlantshaf.

Mér var hugsað til þessa dags fyrir 72 árum er ég var í skoðunarferð á smáeyju sem hýsir virkið Oscarsborg í Oslóarfirði fyrr í vikunni. Eyjan er vel staðsett í miðjum firðinum gengt þorpi sem heitir Drøbak.

Mánuði fyrir hernám Íslands, þann 9. apríl  1940 var mikil orrusta á Drøbak-sundi, sú eina sem háð var við eyjuna meðan hún var útvörður.  Þjóðverjar höfðu áformað að hertaka Noreg með hernaðaráætluninni Operation Weserübung en hún byggðist á því að senda fimm herskipaflota til landsins. Þegar Oslóarsveitin kom nálægt Oscarsborg, gaf hershöfðinginn Birger Eriksen skipun um að skjóta á þýsku skipin. Forystuskipið Blücher var skotið niður og tafðist hernámið um sólarhring. Kóngurinn, ríkisstjórnin og þingið með gjaldeyrisforðann gat nýtt þann tíma til að flýja höfuðborgina.

Árið 2003 yfirgáfu hermenn eyjuna og nú er hún almenningi til sýnis.  Mæli ég með skoðunarferð til eyjarinnar og tilvalið að sigla aðra leiðina frá Osló.

Safnið í virkinu var mjög vel hannað og stórfróðlegt að ganga um salina sem sýndu fallbyssur frá ýmsum tímum ýmis stríðstól. Fyrir utan virkið voru svo öflugar fallbyssur sem góndu út fjörðinn. Orrustunni við Nasista voru gerð góð skil.  En hún er mjög vel þekkt í Noregi.

Mikið var manni létt að þurfa ekki að upplifa það að vera kvaddur til herþjónustu og forréttindi að búa í herlausu landi.  Stríð eru svo heimskuleg.  Mér dettur strax í hug speki Lennons - "Make Love, not War".

En hernám Þjóðverja á Noregi setti af stað atburðarás sem gerði Íslendinga ríka.

 Oscarsborg

Eyjurnar tvær með Oscarsborg virkið og fallbyssur á verði. Það sérmóta í rætur Håøya, hæstu eyjarinnar í Oslóarfirðinum.


Konéprusy hellarnir

Mér varð hugsað til Þríhnúkagígs þegar ég heimsótti óvænt Koneprusy hellana í Tékklandi, mestu hella landsins.

Koneprusy hellarnir fundust fyrir tilviljun árið 1950 er verið var að sprengja fyrir efni í "Lime-stone" námu en efnið er notað í byggingar. Árið 1959 var opnað fyrir aðgang ferðamanna.

Það var stanslaus straumur ferðamanna í hellana og ferðin tók klukkustund. Farið var um 620 skipulagða metra en hellakerfið er alls 2 km og 70 metra djúpt á þrem hæðum. Hellarnir eru frá Devon tímabilinu fyrir 400 milljón árum og gefa innsýn í sögu jarðarinnar sem á sér 1,5 milljón ára sögu.

Eitt sem er merkilegt við hellana eru bein af dýrum sem fundist hafa þar og eru 200 til 300 þúsund ára gömul. Það var áhrifaríkt að sjá afsteypur af beinunum og að sjá dropasteina sem hafa verið að myndast á sama tíma.

Búið var að lýsa upp hellana og steypa gólf og tröppur. Lýsing var góð og þegar svæði var yfirgefið slökknaði á ljósum. Á einum stað var slökkt á öllu og þá var maður í algleymi. Það var áhrifarík stund. Sjá mátti leðurblökur á veggjum og var það í fyrsta skipti sem ég hef barið batman augum.

Það eru til glæsileg áform um aðstöðu í Þríhjúkagígum og er ég á þeirri skoðun að opna eigi Þríhnúkagíga fyrir almenning. Gera þarf umhvefismat og finna þolmörk svæðisins en við verðum að passa upp á vatnið okkar sem sprettur upp skammt frá. Það er okkar dýrmætasta eign.

Tékkarnir í Bæheimi voru óhræddir að steypa í gólf og hlaða veggi nálægt stórbrotnum dropasteinum og steinamyndunum. Litadýrð var ekki mikil en formfögur voru drýlin sem myndast hafa á hundruð þúsundum árum.

Ferðafélagar mínir, miðaldra hjón frá Miami í Bandaríkjunum spurðu hvort við ættum svona flotta hella á Íslandi. Ég játti því og hvatti þá til að koma í hellaskoðunarferð til Íslands. Þeim leist mjög vel á hugmyndina. Ég náði tveim ferðamönnum til landsins en ég gat ekki lofað þeim ferð í Þríhnúkagíg en nú er það hægt.

Ferðin í Koneprusy hellana var þó mun ódýrari en upphafsferðirnar í Þríhnúkagíga, 910 krónur (130 CZK *7) en verðlag í Prag var á pari við Ísland. En svo þurfti að greiða 40 kórónur fyrir myndatöku eða 280 kall. Þeir voru mikið fyrir ljósmyndaskatt í Tékklandi.

Hér er þriggja mínútna heimildarmyndband sem sýnir innviði Koneprusy hellana. Kone þýðir hestar á tékknesku.

Koneprusy


 


Stíflisdalur

Stíflisdalur hýsir Stíflisdalsvatn og samnefndan bæ. Nokkur sumarhús útfrá bænum. Einnig er eyðibýlið Selkot innar í dalnum og var í alfaraleið fyrr á öldum. Kjölur (785 m) er í norðri en var ekki toppaður. Eitt Búrfellanna (783 m) í Bláskógabyggð er skammt hjá. Norðan við þau er Leggjabrjótur og tignarlegar Botnssúlur.

Laxá í Kjös á upptök í Stíflisdalsvatni og Skálafell er tignarlegt í vestri, Hengill í suðri. Mjóavatn er fyrir sunnan Stíflisdalsvatn.

Gekk upp Nónás að Brattafelli meðan aðrir félagar í GJÖRFÍ gengu á skíðum að Mjóavatni. Útsýni stórbrotið og telur maður ljóst af hverju vatnið og dalurinn hefur fengið nafn sitt og göngumaður heldur að hann kunni að lesa landið. Að hraun hafi runnið fyrir mynni dalsins sem er ekki dæmigerður. En hvernig er nafnið Stíflisdalur til komið? Í örnefnalýsingu yfir Selkot stendur einfaldlega að stífli merki stöðuvatn og má jafna því við Vatnsdal.   Þar fór jarðfræðispekin hjá manni.

Hægt er að sjá helstu örnefni á kortasjá Kjósarhrepps og er það til fyrirmyndar.

Dagsetning: 18. febrúar 2012
Þátttakendur: GJÖRFÍ, skíðagönguferð, 9 göngumenn

Stíflisdalsvatn

Upptök Laxár í Kjós. Skálafell (771 m) í vestri og viku síðar var opnað fyrir skíðafólk í fellinu.

Heimild:

Ferlir - Selkot - Kjálká - Selkotsvegur - Selfjall - Selgil


Grænavatnsganga - Aldarminning Sigurðar Þórarinssonar

Í dag, 8. janúar 2012 verða liðin 100 ár frá fæðingardegi Sigurðar Þórarinssonar jarðfræðings, eins ástsælasta vísindamanns þjóðarinnar á síðustu öld.

Í tiefni af deginum ætla félög og samtök sem tengjast náttúruvísindum, náttúruvernd og útiveru að efna til blysfarar kringum Grænavatn í Krýsuvík.

Ég mæti ef veður verður skaplegt. Málstaðurinn er svo góður.

Í Náttúrufræðingnum, í apríl 1950 er greinin birt sem Sigurður flutti á erindi Hins íslenska náttúrufræðifélags, 31. október 1949, er helgaður var 60 ára afmæli félagsins.

Hér er skjámynd af hluta greinarinnar sem fjallar um Grænavatn en dropinn sem fyllti mælinn var umgengi um Græanavatn sem notað væri sem ruslatunna vegna framkvæmda rétt hjá vatninu. Búið væri að fordjarfa þetta fallega og merkilega náttúrufyrirbæri.

http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=290829&pageId=4267096&lang=is&q=Sigur%F0ur%20%DE%F3rarinsson


Busavígsla í Pentlinum

Þegar siglingar með fisk voru stundaðar af kappi til Hull og Grimsby heyrði maður margar sögur af "Pentlinum" og þeim mikla straum sem liggur um hafsvæðið norðan Skotlands við Orkneyjar. 

Nokkrar sögur gengu af því er skipið, yfirleitt í vondu veðri og alveg að verða olíulaust, gekk á fullum hraða áfram, 12 mílur en færðist aftur um tvær mílur á siglingartækjunum. En alltaf enduðu þessar sögur vel.

Ein hefð er þó haldin þegar sjómenn fara í gengum hinn fræga Pentil í fyrsta skiptið. En þar eru þeir busaðir.

Ég var togarasjómaður á Þórhalli Daníelssyni, SF-71 og seldum við  í Hull í nóvember 1985. Ekki sluppum við við busun en hún var meinlaus en skemmtileg.  Ég á enn til verðlaunin sem ég fékk eftir að hafa tekið við smá sjó úr Pentilnum. Ró og skinna í benslagarni. Geymi "Pentil-orðuna" hjá hinum verðlaunapeningum mínum. 

Þessi busavígsla er ekkert á við það  sem ungi sjóveiki drengurinn sem  lenti í „svona vægri busun“ hjá skipsfélögum sínum í fyrstu veiðiferð. Manni verður óglatt við að lesa niðurstöðu dómsins og skuggi fellur á hetjur hafsins.

Gott hjá stráknum og móður hans að kæra málið. Vonandi verður það til að vekja umræðu og aga sjómenn.
mbl.is Níddust á 13 ára dreng í veiðiferð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hólárjökull 2011

Jöklarannsóknir mínar halda áfram. Ávallt þegar ég keyri framhjá Hólárjökli sem var einn af tignarlegum skriðjöklum úr Öræfajökli, þá smelli ég ljósmynd af honum. Hólárjökull er rétt austan við Hnappavelli. Hólá kemur frá honum.

Fyrri myndin var tekin þann 16. júlí 2006 og sú nýjasta þann 24. ágúst 2011.  Það sést glöggt að jökultungan hefur styst og jökullin þynnst.  Rýrnun jöklanna er ein afleiðingin af hlýnun jarðar. Ég spái því að jökultungan verði horfin innan fimm ára. Hlutirnir gerast svo hratt.

   Hólárjökull06

   Hólárjökull, 16. júlí 2006. Jökulsporðurinn þykkur og teygir sig niður í gilið.

Hólarjökull 2011

 Hólárjökull, 24. ágúst 2011. Augljós rýrnun á 5 árum. Jökulsporðurinn hefur bæði styst og þynnst.

Sjá:
Hólárjökull 2007 - http://fiskholl.blog.is/blog/fiskholl/entry/259538/
Hólárjökull 2008 - http://fiskholl.blog.is/blog/fiskholl/entry/611572/
Hólárjökull 2009 - http://fiskholl.blog.is/blog/fiskholl/entry/911196/


Síldarmannagötur

Lúxussíld frá ORA smakkast hvergi betur en í Síldarmannabrekkum. Það get ég staðfest og ekki er verra að hafa síldina á nýbökuðu rúgbrauði. Þegar síldinni er rennt niður þá er gott að hugsa aftur í tímann og minnast ferða forfeðranna og lífsbaráttu þeirra við síldveiðar í Hvalfirði.

Síldarmannagötur er þjóðleið, vestri leiðin yfir Botnsheiði sem Borgfirðingar notuðu til að komast  í Hvalfjörð til að veiða og nytja síld, þegar síldarhlaup komu í Hvalfjörð.

Lagt var í ferðina á rútu frá Sæmundi sem er frá Borgarfirði. Gönguferðin um Síldarmannagötur hófst í Botnsvogi í Hvalfirði en búið er að hlaða glæsilega vörðu við upphaf eða enda leiðarinnar og voldugur vegvísir bendir á götuna.

Fyrst er farið upp Síldarmannabrekkur og hlykkjast gatan upp vel varðaða brekkuna. Eftir um klukkutíma göngu og 3,2 km að baki er komið í Reiðskarð sem er á brún fjallsins. Þá blasir við mikil útsýn. Hvalfell og Botnssúlur fanga augað í austri. Múlafjall og Hvalfjörður í suðri og miklar örnefnaríkar víðáttur í austri og norðri.

Við fylgjum Bláskeggsá hluta leiðarinnar en hún er vatnslítil og göngum framhjá Þyrilstjörn á leiðinni um Botnsheiði. 

Hæsti hluti leiðarinnar er við Tvívörðuhæðir en þá sér í aðeins Hvalvatn hið djúpa. Göngumenn eru þá komnir í 487 metra hæð en fjallahringurinn er stórbrotinn. Tvívörðuhæðir eru vatnaskil og gönguskil. Þá tekur að halla undan fæti og ný þekkt fjöll fanga augun.

Okið, Fanntófell, Þórisjökull, Litla og Stóra Björnsfell, Skjaldbreiður og Kvígindisfell raða sér upp í norðaustri og Þverfell er áberandi.  Einnig sést yfir til Englands með Englandsháls og Kúpu í framenda Skorradals.

Rafmagnslínur tvær birtast eins og steinrunnin tröll á heiðinni, Sultartangalína kallast hún og sér bræðslunum Grundartanga fyrir orku.

Mikil berjaspretta var í  grónni hlíð´fyrir ofan bæinn Vatnshorn. Í 266 metra hæð var varla hægt að setjast niður án þess að sprengja á sitjandanum krækiber og bláber.

Hefðbundin endir er við grjótgarð beint upp af eyðibýlinu Vatnshorni og sú leið 12,6 km en við förum yfir Fitjaá og enduðum við kirkjustaðinn Fitjar en þar er glæsileg gistiaðstaða og aðstaða fyrir listamenn.

Jónas Guðmundsson tók myndir af göngugörpum.

Hér er tæplega 5 mínútna myndband um Síldarmannagöngur og er það hýst á Youtube.

Dagsetning: 4. september 2011
Hæsta gönguhæð: 487 m, nálægt Tvívörðuhæð (N:64.26.095 - W:21.20.982)
Hæð Tvívörðuhæðar: 496 metrar
Hæð í göngubyrjun:  35 metrar við vörðu og vegvísi í Botnsvog í Hvalfirði, (N:64.23.252 - W:21.21.579)
Hækkun: Um 452 metrar          
Uppgöngutími Tvívörðuhæð: 170 mín (10:40 - 13:30) - 8,2 km
Heildargöngutími: 360 mínútur (10:40 - 16:40) endað við Fitjar
Erfiðleikastig: 2 skór
Vegalengd:  16,2 km
Veður kl. 12 Botnsheiði: Léttskýjað, NV 6 m/s, 7,2 °C. Raki 90%
Veður kl. 15 Botnsheiði: Léttskýjað, N 5 m/s, 8,5 °C. Raki 82%
Þátttakendur: Útivist, 40 þátttakendur í dagsferð, Fararstjóri Ingvi Stígsson 
GSM samband:  Já, en fékk á köflum aðeins neyðarnúmer

Gönguleiðalýsing: Vel vörðuð leið frá Hvalfirði yfir í Skorradal. Gatan er brött beggja vegna en létt undir fæti þegar upp er komið.

Facebook staða: Yndislegur dagur, get hakað við Síldarmannagötur. Dásamlegur dagur með Útivistarfólki, eintóm sól og sæla. Takk fyrir mig! Er afar þakklát fyrir þennan dýrðardag.

Facebook staða
: Frábær dagsferð með Útivist í dag um Síladarmannagötur. Góð fararstjórn, skemmtilegir ferðafélagar og ekki skemmdi nú veðrið fyrir alveg geggjað og útsýni til óteljandi fallegra tinda. Get sko mælt með þessari fallegu og þægilegu gönguleið.

Vatnshorn

Vatnshorn er merkilegur bær, þar er upphaf eða endir Síldarmannagötu. Bugðótt Fitjaá rennur í Skorradalsvatn. Góð berjaspretta sem tafði göngumenn.

Þótti mér betur farið en heima setið. Lýkur þar að segja frá Síldarmannagötu.

Heimildir:
Environice - http://www.environice.is/default.asp?sid_id=33463&tId=1
Ferlir - http://www.ferlir.is/?id=4277
Skorradalshreppur - http://www.skorradalur.is/um-skorradal/sildarmannagotur/


Ingólfsfjall (551 m)

Oft hefur maður keyrt undir Ingólfsfjalli og nú var kominn tími á að koma því í fjallasafnið.

Ingólfsfjall er móbegsfjall í Ölfusi og hefur áður fyrr gengið sem múli fram í hafið, en þá hefur undirlendið allt verið undir sjó. Það er bratt á þrjá vegu, í vestur, austur og suður.  Við ákváðum að fara vinsælustu leiðina, frá suðri.

Gengið upp frá Þórustaðanámu en meðfram bratta veginum sem liggur upp á fjallið.
Þegar komið er upp á brún tekur á móti göngufólki varða með gestabók frá Ferðafélagi Árnesinga. Höfðu margir kvittað fyrir sig um daginn og er ganga að brún Ingólfsfjall eflaust vinsæl heilsurækt hjá íbúum á Suðurlandi.

Eftir skriftir var stefnan tekin norður á Stórhæð en þar eru Gráhóll (492 m) og Digrihóll. En einnig er mögulegt að taka hringleið eftir brúnum fjallsins.

Þegar upp á hæðina er komið sér yfir á Inghól, sem er gígtappi en sagan segir að fyrsti landnmámsmaðurinn, Ingólfur Arnarsson sé heygður þar og einn sumardag opnist hóllinn og sjá menn þá allt það sem honum fylgdi í andlátið.

Ekki opnaðist hóllinn þetta ágústkvöld.

Eftir nokkra göngu á mosagrónum melum komum við að rafmagnsgirðingu á fjallinu en hún tengist landamerkjum Ölfusar og Árborgar. Einnig Alviðru, bæ austan við Ingólfsfjall sem hýsir umhverfis- og fræðslusetur Landverndar.

Það var merkilegt að ganga inn um hlið á toppi Ingólfsfjalls.

Gönguferð á Ingólfsfjallið minnir á gönguferð á nokkra íslenska jökla, það er víðáttumikið og flatvaxið og tekur fjallið til sín útsýni en ef gengið er með brúnum þá er útsýni allgott. Það er mun meira landslag í Ingólfsfjalli en maður gerir sér grein fyrir þegar ferðast er í bíl undir fjallinu. 

Í austri sást móta fyrir dökkum Eyjafjallajökli og Þríhyrningi. Vestmannaeyjar eru glæsilegar í hafi í suðaustri. Hellisheiði í vestri skemmtileg í rökkrinu. Skálafellið og þorpin, Hveragerði, Þorlákshöfn, Eyrarbakki og Stokkseyri eru góðir nágrannar.

Dagsetning: 16. ágúst 2011
Hæð hæðarpunkts og vörðu: 551 metrar
Hæð í göngubyrjun:  Um 50 metrar við Þórustaðanámu
Hækkun: Um 500 metrar         
Uppgöngutími varða m/gestabók:   50 mín (19:40 - 20:30)

Uppgöngutími Inghóll: 110 mín (19.40 - 21:30) 
Heildargöngutími: 180 mínútur  (19:40 - 22:40)
Erfiðleikastig: 2 skór
Vegalengd (hringurinn):  um 8 km
Veður kl. 21 Lyngdalsheiði: Léttskýjað, NA 5 m/s, 11,0 gráður. Raki 60%, veghiti 15,3 °C
Þátttakendur: Fjölskylduferð, 4 göngumenn
Gönguleiðalýsing: Drjúglöng en létt ganga á sögufrægt fjall

Malarnám

Sárið í Þórustaðanámu í Ingólfsfjalli æpir á mann. En hann er brattur vegurinn og ekki fyrir hvern sem er að aka hann. Námumenn hljóta að hafa góðan bónus fyrir ferðirnar, sérstaklega er niðurleiðin brött og hrikaleg fyrir tæki.

Gestabók á Ingólfsfjalli

Kvittað fyrir komu á Ingólfsfjal. Það sér til Vestmanneyja í suðaustri.

Inghóll girðing

Nýleg rafmagnsgirðing er á fjallinu og er einfaldast fyrir göngumenn að fylgja henni. Við Inghól er hlið. Það er mjög merkileg upplifun að opna og loka hliði á fjallstoppi.

InghóllGígtappinn Inghóll úr grágrýti. Hann var viðmið sjófarenda. Ölfursárósar og Þorlákshöfn eru á vinstri hönd.

Heimildir:
Íslensk fjöll, Gönguleiðir á 151 tind

Ferlir.is - http://www.ferlir.is/?id=3954
 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sigurpáll Ingibergsson

Höfundur

Sigurpáll Ingibergsson
Sigurpáll Ingibergsson
Hornfirðingur búsettur í Kópavogi. Árgerð 1965.
Ágúst 2025
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • IMG 4410
  • IMG 4385
  • IMG 4421
  • Á afskekktum stað
  • Tíminn051071

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.8.): 1
  • Sl. sólarhring: 13
  • Sl. viku: 107
  • Frá upphafi: 237965

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 78
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband