Færsluflokkur: Lífstíll
27.4.2008 | 10:49
Mögnuð útsending
Stórskemmtilegt að fylgjast með ykkur á þaki Íslands, Hvannadalshnjúk. Gaman að vera með ykkur í beinni á toppnum. Smá hnökrar í streymi eftir að mbl.is sendi þjóðina til ykkar. Góða niðurferð.
Pétur, Síminn og félar, til hamingju með tækniafrekið.
![]() |
Bein útsending frá Hnjúknum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.3.2008 | 18:50
Akrafjall
Akrafjall og Skarðsheiðin eins og fjólubláir draumar......... Það var loks tími kominn hjá mér að ganga á Akrafjall, annan fjólublá drauminn.
Það blés köldu af norðaustri á göngumenn á Akrafjalli í morgun. Ég slóst í hóp með 50 Símamönnum sem eru að æfa sig fyrir ferð á Hvannadalshnjúk. Þjálfarar teymisins eru ekki af verri endanum. Haraldur Örn Ólafsson hátindahöfðingi og Pétur Ásbjörnsson kerfisstjóri hjá Símanum.
Akrafjall er sporöskjulöguð og formfögur fjallabunga sem stendur á nesinu á milli Hvalfjarðar og Leirárvogs. Talið er að fjallið sé gömul eldstöð, en jökull hafi gengið yfir það og sorfið af því allar hvassar brúnir landmegin, en síðan steypst fram dal sem klýfur það vestanmegin og nefnist Berjadalur. Bungan sunnan í hlíðum dalsins heitir Jókubunga. Eftir dalnum rennur Berjadalsá. Norðan árinnar kallast fjallið Norðurfjall og sunnan hennar Suðurfjall. Sitt hvoru megin dalsins rísa tveir tindar. Heitir sá nyrðri og hærri Geirmundartindur (643m) en hinn syðri Háihnúkur (555m). Guðfinnuþúfa er drangur neðan Geirmundartinds. Meginefnið í fjallinu er basalt, en víða eru rauðleit móbergslög milli blágrýtislaga. Greinilegar sjávarmyndanir finnast umhverfis fjallið og í því, þær hæstu ofan við bæinn Kúludalsá í 70 m hæð. Hvalbein hafa fundist í 80 m hæð við bæinn Fellsenda.
Geirmundartindur í 643 m hæð (N 64.20.612 W 21.56.643). Gestabók frá árinu 1999. Skarðsheiðin er í bakgrunni. Fjólublár draumur.
Gönguferðin hófst árla morguns, kl. 9 og hófst hjá vatnsbóli Skagamanna. Margir bílar voru á bílastæðinu og haldið var upp Selbrekkuna með kaldan vindinn í andlitið. Síðan var farið eftir brúnunum en tekinn krókur inn fyrir Guðfinnuþúfu þar var töluvert grýtt. Síðan haldið farið áfram meðfram brúnunum og upp á Geirmundartind. Heldur brösuglega gekk að skrifa nöfnin í gestabókina og þurfti að halda vel í hana svo hún fyki ekki niður á Skaga.
Eftir að búið var að kvitta var haldið eftir spröskjulöguðu fjallinu og stefnt á Jókubungu. Síðan var stefnan tekin á Háhnjúk. Slóðir voru eftir fjórhjól eða jeppa á fjallinu í rúmlega 500 metra hæð og fylgdum við þeim.
Það blés vel á syðri Háahnjúk en þar var gestabók.Vindurinn var þó í bakið. Leiðin niður af hnúknum var frekar brött og svell á köflum. Ég var mjög feginn þegar náð var fyrir krók sem var framundan en það var bratt niður.
Vegalengdin sem við gengum á fjórum tímum og 25 mínútum var frá 11.7 km til 12.7. Hærri tölur heyrðust en það er fínn tími fyrir hringinn miðað við aðstæður.
Eitt sem ferðamálayfirvöld á Akranesi mega gera er að merkja leiðina að upphafspunkti betur, við þurftum að hafa nokkuð fyrir að finna vegaslóðann. Verð var að laga veginn á ákveðnum stöðum og sá ég eitt nýtt orð, moldartipur.
Heimildir:
http://www.akranes.is/mannlifid/utivist/gonguleidir-um-akrafjall/
Lífstíll | Breytt 31.3.2008 kl. 17:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
17.3.2008 | 13:31
Esjuganga
Fór í Esjugöngu með félaga Sigurði Baldurssyni í fallega veðrinu í gær. Ég á það takmark að fara að minnsta kosti einu sinni ári á Esjuna. Náði því snemma á þessu ári. Einnig var ég að safna mínútum í Lífshlaupið.
Það var mikill fjöldi fólks á Esjunni og heilsaðist fólk ávallt með orðunum, "Góðann daginn". Færið var þungt undir fót í snjónum. Eftir einn fótboltaleik vorum við komnir upp að Steini. Þar hittum við fjóra hressa Litháa. Þeir stungu í stúf við Íslendingana sem flestir voru með göngustafi og bakpoka. Þeir reyktu mikið, voru klæddir í íþróttaskó og spiluðu hátt baltneskt rokk. En það er óþarfi að fjárfesta í dýrum búnaði fyrir eina fjallgöngu. Við vorum samferða þeim upp á Þverfellshorn og þræddum gömul fótspor upp klettana. Á leiðinni heyrðum við ráðleggingar á erlendu tungumáli til fólks á niðurleið í klettunum. Það var fjölþjóðlegt lið þarna í 700 metra hæð. Mér leið eins og ég væri að klífa Everest. Etv. þverskurður af Nýja Íslandi.
Á Horninu voru tvær Evrópskar skvísur sem báðu mig um að mynda sig á Canon Ixus vélina þeirra. Það er mjög algengt að lenda ljósmyndaverkefnum þarna. Litháarnir kvikmynduðu mikið. Gaman að nýju Íslendingarnir hafi áhuga á náttúrunni í kringum sig. Þeir kvörtuðu undan lágvöxnum fjöllum í Litháen. Hæsta fjall landsins er Juozapines Kalnas, 293.6 m. Þrátt fyrir litla háfjallareynslu, þá voru Litháarnir snöggir niður og hurfu fljótt sjónum okkar í snævi þökktum klettunum. Enda mun yngri.
Ég bauð Ara litla sem verður fimm ára í dag með í ferð á toppinn. Hann var harðákveðinn í byrjun en svo rifjaðist upp fyrir honum að Grýla og Leppalúði búa efst í Esjunni og því afpantaði hann gönguferð.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 16:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
5.3.2008 | 10:10
Lífshlaupið
Þetta er glæsileg áskorun hjá ÍSÍ. Ég ætla að taka þátt. Er þegar búinn að skrá mig og stigasöfnun er hafin.
Allir geta tekið þátt í Lífshlaupinu. Þú getur skráð þig inn á www.lifshlaupid.is og tekið þátt í vinnustaðakeppni eða einstaklingskeppni þar sem þú getur skráð niður alla þína hreyfingu, allt árið.
Ég skráði fyrirtæki mitt, Stika til leiks en það eru margir garpar að vinna með mér.
Sé að Sveitarfélagið Hornafjörður stendur vel að vígi í sínum flokki. Eru á toppnum.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 10:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.1.2008 | 23:54
Vogun vinnur
Það voru sorglegar fréttir sem bárust um heimsbyggðina í morgun. Fjallamaðurinn Sir Edmund Percival Hillary, látinn, 88 ára að aldri.
Er ég hlustaði á kvöldfréttirnar í sjónvarpinu rifjaðist upp fyrir mér að hafa lesið bók eftir hetjuna er ungur ég var. Vogun vinnur heitir bókin og greinir frá uppruna Hillary og helstu ævintýrum hans. Toppnum í ævintýramennskunni var náð 29. maí árið 1953 er Mt. Everest var sigrað af Edmund Hillary og Tenzing Norgay. Afrek þeirra félaga hefur verið talið eitt hið mesta á síðustu öld.
Ég fór í bókaskápinn í kvöld og fann bókina, Vogun vinnur. Ég ætla að lesa hana á næstu dögum til að rifja upp afrekið og minnast fallinnar hetju.
Hér er lýsing Hillary af toppadeginum en þar kemur ekki fram hvor var fyrstur. En eflaust skiptir það ekki máli.
"Ég hélt göngunni áfram, hjó þrep án afláts og komst yfir hverja klettabrúnina af annarri jafnframt því sem ég skimaði ákaft eftir hátindinum. Það virtist þó ógerningur að koma auga á hann, og tíminn leið óðum. Loks hjó ég okkur leið fram hjá mjög stórri bungu og kleif síðan upp á hana eftir brekku, sem var ekki mjög brött. Þá lá strax í augum uppi, að við höfðum náð settu marki. Klukkan var 11.30 fyrir hádegi, og við vorum á hátindi Everest!"
Einstakur maður er genginn fyrir ætternisstapa. Afreksmaður jafnt í fjallamennsku sem og í góðgerðarmálum.
Lífstíll | Breytt 12.1.2008 kl. 00:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.1.2008 | 22:46
Stofuborð úr Jarrah rauðvið
Fyrir mánuði var ég í heimsókn hjá kunningjahjónum. Í íbúð þeirra var densilegur arinn sem kveikt var upp í. Þegar snarka fór í eldinum snerist umræðan allt í einu um viðinn sem var að brenna. Því harðari því meiri smellir. Þá mundi ég eftir að til var húsgagnaverslun, Gallerí Tútú hér á landi sem seldi innanstokksmuni úr jarraviði sem ekki á hverju strái og verða vísast ekki í náinni framtíð. Húsgagnaverslunin var hætt starfsemi en ég hafði upp á eftirstöðvum af versluninni og keypti þungt stofuborð úr rauðum jarrviði. Mubla, þung sem járn. Sem ekki brennur í eldi og stenst endurtekin áhlaup trémaura og aðrar plágur.
Hið furðulega hráefni sem fyrrgreindir munir eru smíðaðir úr nefnist jarraviður, eucalyptus marginata, og á rætur að rekja til strandlengju suðvesturhluta Ástralíu, þar sem slík tré fengu að vaxa í friði í 300-500 ár, og allt að því fimmtíu metra upp í himininn.
Þannig er mál með vexti að Bretar notuðu jarraviðarboli í undirstöður járnbrautarteina, sem þeir lögðu vítt og breitt um Suður-Afríku á nýlendutímanum, og sóttu hráefnið þessa löngu leið til Ástralíu vegna nánast lygilegra eiginleika þess.
Bretarnir gengu jafnframt svo nærri jarraskógum þessum, að þeir nánast þurrkuðust út á sínum tíma. Þótt ný tré séu að vísu felld í dag er efniviðurinn aldagamli af skornum skammti og talið hann muni þrjóta innan fárra ára. Hver smíðagripur er tölusettur líkt og um antík-mun sé að ræða, því búist er við að ekki líði á löngu þar til jarrahúsgögn teljist til safngripa.
Spjallrásir úr tré
Hver hlutur úr jarravið er sérstæður og engir tveir eins, þótt þeir virðist ef til vill samskonar við fyrstu sýn. Í viðnum eru mismunandi sprungur og hlykkir, hann er ýmist með rauðleitum eða gulum blæ og stundum með grænni slikju, jafnvel farið alveg út í himinblátt. Það er alveg ótrúlega fallegt á að líta.
Ástæðan er aldarlangt samspil rigningarvatns við stálboltana, sem reknir voru í gegnum viðinn undir brautarteinunum. Sjást holurnar eftir þá glögglega í smíðagripunum og gefa þeim sérstakan svip.
Forsaga húsgagnasmíði úr þessum tiltekna efniviði er sú, að um miðja 20. öld var trénu undir járnbrautunum skipt út fyrir steinsteypu og jafnvel hent, oft í vötn eða næstu ár, þar sem það óðar sökk til botns. Sagan segir síðan að líkkistusmiður nokkur hafi tekið upp á því að nýta hinn þarflausa jarravið til iðju sinnar, það er að segja þar til líkmenn tóku að kvarta sáran undan þyngslum. Hóf hann þá hina tímafreku iðju að smíða húsgögn úr viðnum og selja á markaði.
Jarraviður er svo þéttur að hann er einungis hægt að saga með sérstökum búnaði og þarf fjöldi manna koma við sögu þegar húsgögnin eru smíðuð, þar sem hver hópur hafi sitt verksvið. Rykið sem þyrlast upp við vinnsluna er svo fíngert að nota þarf tilteknar grímur og fjölda vinnustunda tekur að pússa yfirborðið með sandpappír. Stundum þarf líka allt að því hálft ár til þess að þurrka viðinn. Áferðin er mismunandi eftir því úr hvaða hluta bolsins er smíðað, yfirborðsviðurinn er til dæmis mun grófari en sá sem fenginn er innan úr og útkoman misjöfn eftir því. Viðurinn er ekki lakkaður heldur borinn með olíu og skýrist hinn flauelsmjúki blær af því. Notuð er sérstök olía til þess að bera á viðinn en hann lætur sjálfur vita hvenær það er tímabært.
Húsgögnin eru hörð og sterk sem steinn, en líka einstaklega mjúk viðkomu og þau má skoða og strjúka endalaust. Yfir sumum hvílir einhver miðaldablær, kannski vegna grófleikans og hinna einföldu forma, en þegar nær dregur taka þau á sig allt aðra og fágaðri mynd. Verður manni nánast starsýnt á hlutina, eiginlega alveg óvart. Hin forvitnilega saga nær líka ósjálfrátt tökum á manni og hugurinn leitar á framandi slóðir.
Fimm fræknu
Jarraviðurinn er notaður í innanstokksmuni af öllum gerðum; borð við sófa, í horn eða borðstofu, hillur, bekki, skápa, rúm og jafnvel hurðir, fyrir þá sem eru rammir að afli. Virðulegur höfðingjastóll vegur til dæmis 50 kíló. Langborð nokkuð, mikið að vöxtum, reynist búið til úr 20-30 trjábolum, vegur um hálft tonn. Reyndar er borðið í tvennu lagi, þar sem hægt er að taka plötuna af og þurfti fimm frækna menn til þess að koma því fyrir. Húsgögn þessi eru því fyrir máttarstólpa sem flytja sjaldan.
Húsgögnin úr jarraviðnum sögulega eru kennd við Þyrnirós, sem líka svaf í eina öld áður en hún vaknaði til lífsins. Allar líkur eru á því að þau geti lifað aldir til viðbótar og geti hæglega gengið mann fram af manni. Það er að segja ef kostnaðurinn gengur ekki fram af manni eða frá manni. En fyrir þá sem eru smærri í sniðum og vilja hugsa vel um umhverfi sitt má klykkja út með því að Þyrnirós úr jarraviði er endurvinnsla í sinni ómenguðustu mynd.
Ég er mjög ánægður með nýja sögufræga sófaborðið mitt sem etv. hefur verið járbrautarteinn í fyrndinni.
Heimild: Viðtal í Morgunblaðinu, Þyrnirós af sögulegum meiði.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 22:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.10.2007 | 14:25
Esjan
Í gær var fyrsti vetrardagur og veðurguðirnir voru svo listrænir að þeir sendu smá snjóföl niður í byggð síðla gærdags.
Klukkan tíu í morgun var haldið í létta gönguferð upp á Esjuna. Tók Frímann vinnufélaga minn með en hann er mikill garpur. Veðrið var fallegt og skyggni gott. Margt fólk var í fjallinu og gaman að sjá það og landið í snjónum..
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.4.2007 | 22:31
Hægara er að tala tólf jökla en ganga einn
Hægara er að tala tólf jökla en ganga einn. Þetta er uppáhalds málsháttur minn. Ég ætla þó að gera einum betur.
Ég er að safna jöklum. Jöklsaafn byggir á því að heimsækja og ganga á 13 stærstu jökla landsins á næstu árum. Vatnajökull, Drangajökull, Langjökull, Þórisjökull, Eyjafjallajökull, Snæfellsjökull og Eiríksjökull eru komnir í safnið en 6 jöklar sem eru stærri en 10 km2 eru eftir. Ef þetta tekst, verð ég orðin sannur Íslendingur.
Í ár er stefnan tekin á T-jöklana. Torfajökull, Tindfjallajökull og Tungnafellsjökull. Þetta verður 3-T jöklaárið mitt. Þá eru aðeins eftir, Þrándarjökull, Mýrdalsjökull og Hofsjökull.
Ég er einn af mjög fáum Íslendingum sem eru að safna helstu jöklum landsins og ég var mjög stoltur á síðasta ári þegar íslensku jöklarnir voru kosnir eitt af sjö undrum veraldar. Íslendingar eiga nefnilega eftir að uppgötva jöklana, meistaraverk sem verður horfið eftir 200 ár gangi spár eftir.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 23:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.4.2007 | 18:00
Njóttu Kvöldsólar
Hélt upp á Pálmasunnudag með því að njóta Kvöldsólar með fjallalambi úr Bárðardal.
Kvöldsól, árgerð 2003, er merkilegt íslenskt berjavín sem framleitt er á Húsavík af ábúendum Sólbrekku. Vínið er flokkað sem ávaxtavín.
Á miða með Kvöldsólarflöskunni stendur:
Kvöldsól er einstakt íslenskt vín sem unnið er úr ferskum afurðum hreinnar íslenskrar náttúru. Kvöldsól er kraftmikið en jafnframt mjúkt vín sem bragðast framúrskarnadi með hverskyns villibráð, ostum eða bara eitt og sér. Njóttu þess sem óspillt náttúra Íslands gefur af sér - njóttu einstakrar Kvöldsólar!
Liturinn var frekar daufur og minnti á rósavín. Lyktin endaði í einhverskonar lakki. Kröftugt berjabrað en rabbabarinn hefur vinning þegar líður á.
Vínið er gert úr berjum sem vaxa villt, krækiberjum, 80% og bláberjum. 19% er rabarbari og íslenskar kryddjurtir. Berin eru tínd víða á landinu, m.a. á Vestfjörðum.
Þetta er meinhollur drykkur. Ég sá frétt um daginn að efni í bláberjum komi í veg fyrir ristilkrabba. Maður á eftir að úða Kvöldsól í sig sem forvörn.
Frábært framtak Húsvíkingnum Ómari Gunnarssyni og fjölskyldu en þróun á miðinum hófst árið 1991.
Hef ekki séð Kvöldsól í Ríkinu en keypti flöskuna í Fríhöfninni á 1.350 krónur.
Næsti leikur að kaupa Haustsól frá sama aðila og bera saman sólirnar.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 18:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
19.2.2007 | 21:32
12% ganga í vinnuna - ég er einn af þeim
Sá í laugardagsmogga frétt um ferðahegðun borgarbúa til vinnu. Ég geng oftast í vinnuna og lendi því með öðlingunum sem fylla 12% flokkinn. Aðeins 2% borgarbúa fóru á reiðhjóli til vinnu, 7% með stærtó og 3% á annan máta. 73% fóru á eigin bíl og 4% sem farþegar. Þetta eru sláandi niðurstöður. Bílisminn er dýrkaður í borginni.
Ég bý í austurhluta Kópavogs og vinnustaðurinn er í Síðumúla. Það eru fáir á ferli á morgnanna og síðdegis. Ég læt það ekki á mig fá og tek minn bezta ferðafélaga iPod með, þá líður tíminn hratt.
Fólk er hissa á þessum lífsstíl mínum en hrósar mér um leið. Það verður hissa á þessu uppátæki hjá mér en gangan tekur 35 mínútur.
Ég eignaðist GPS tæki - Garmin Geko 201, í mánuðinum og til að geta svarað fólki nákvæmt hve vegalengdin vær löng þá teiknaði ég upp leiðina. Niðurstaðan var 3.2 kílómetrar. Meðalhraðinn á mér er 5,5 km/klst og væri aðeins hærri ef rauðu ljósin væru færri.
Leiðin að heiman liggur niður Þverbrekku, niður í Fossvogsdalinn. Framhjá HK-húsinu og upp Réttarholtsveg. Beygi þaðan inn á Sogaveg, fer yfir göngubrú yfir stórfljótið Miklubraut og kem niður í Faxafeni stutt frá Myllunni og finn dásamlega baksturlykt. Þaðan er leiðin greið upp í Stika.
Ég ætla að gefa upp punkta af leiðinni:
Eldhúsið: 64.06.634 - 021.51.981 í 128 metra hæð.
HK-húsið: 64.06.975 - 021.52.508 í 22 metra hæð.
Réttó: 64.06.612 - 021.51.914 í 109 metra hæð.
Stiki ehf: 64.07.405 021.52.023 í 61 metra hæð
Eins og sést þá bý ég hátt. Þarf að búa hátt enda alinn upp á Fiskhól. Íbúðin mín verður með þeim síðustu sem fer í kaf vegna hlýnandi loftslags. Gallinn er sá að það er lýjandi að ganga upp eða hjóla Þverbrekku.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Um bloggið
Sigurpáll Ingibergsson
Færsluflokkar
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Enski boltinn
- Evrópumál
- Ferðalög
- Fjármál
- Fjölmiðlar
- Heilbrigðismál
- Heimspeki
- Íþróttir
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Lífstíll
- Ljóð
- Löggæsla
- Mannréttindi
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Pepsi-deildin
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Sveitarstjórnarkosningar
- Tónlist
- Trúmál
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (7.7.): 3
- Sl. sólarhring: 19
- Sl. viku: 306
- Frá upphafi: 236786
Annað
- Innlit í dag: 2
- Innlit sl. viku: 241
- Gestir í dag: 2
- IP-tölur í dag: 2
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar