Færsluflokkur: Menning og listir

FÓTÓGRAFÍ

Mætti í dag á opnun ljósmyndagalerísins FÓTÓGRAFÍ, Skólavörðustíg 4a. Þetta er snilldar hugmynd hjá Ara Sigvaldasyni fv. fréttamanni, Stíg Steinþórssyni leikmyndahönnuði, Stefáni Einarssyni grafískum hönnuði og Sigvalda Arasyni. Í ljósmyndagalleríinu eru til sölu ljósmyndir eftir helztu ljósmyndara landsins og ljósmyndabækur. Einnig íhlutir sem byggja á ljósmyndum. Galleríið er vel staðsett "downtown" í hjarta borgarinnar og eiga erlendir ferðamenn eflaust eftir að fjárfesta í íslenskri ljósmyndalist. Einnig eiga margar gjafir til Íslendinga eftir að verða keyptar þar. Galleríið er með smekklega umgjörð og inn af því er lítill sýningarsalur. Þar var sýningin KULDI, einkasýning Ragnars Axelssonar, RAX. Voru fjórar myndir seldar er mig bar að. Það er góð byrjun. Enda er RAX einn bezti ljósmyndari þjóðarinnar. Mánaðarlega verða opnaðar nýjar einkasýningar.

Eins og áður sagði er Galleríið stilhreint og endurspeglast metnaður eigenda í boðskorti sem sent var út en það er negatífa  af einni mynd hjá RAX.  Brjáðsnjöll hugmynd.

Einnig vakti smekklegur klæðnaður eigenda mikla lukku svo og tónlistaratriði. 


Borgarklakinn

Fór í annað skipti á Mr. Bean á ferðalagi með Ara litla og Særúnu. Höfðum gaman af. Ara fannst fyrri myndin betri. Særúnu fannst atriðið á veitingahúsinu bezt, þegar Mr. Bean var að snæða bláhumar og skelfisk.

En eitt atriði í myndinni gerist við nýja tákn Frakka,  La Grande Arche de la Défense, sem byggður var í tilefni tvö hundruð ára afmælis frönsku byltingarinnar árið 1989. Þaðan gengur Mr. Bean að gamla Sigurboganum, beina leið.  Á meðan göngu Mr. Bean stóð, þá velti ég fyrir mér táknum Íslands. Hér í borginni er það helzt Hallgrímskirkja. 

En þá fékk ég þá hugmynd á miðri leiðg að við eigum að byggja glæsilegan ísjaka sem hægt er að keyra í gegnum  þegar keyrt er inn í borgina. Síðan er hægt að  hafa ýmis ljós yfir skammdegið. Þetta yrði eflaust eftirtektarvert. Ef borgarbúum finnst þessi hugmynd of svöl fyrir borgina, þá er hægt að setja borgarísjakahliðið upp þar sem Vatnajökulsþjóðgarður byrjar í vestri og sezt í austri.

Væri ekki svalt að aka í gengum þetta hlið! Svo væri hægt að hafa veitingasölu inni í klakanum.

Jaki800

 


Pabbinn og La Chamiza

Fór í leikhús á laugardagskvöld. Fórum á einleikinn Pabban eftir Bjarna Hauk Þórsson. Spaugilegt leikrit sem greinir frá breytingum í lífi fólks þegar nýr aðili kemur í sambandið. Bjarni náði salnum  strax á sitt band og var uppskeran mikill hlátur. Verkið greinir frá því hvernig karlmaður upplifir pressuna frá samfélaginu á því að fjölga sér,  meðgöngu konunnar, fæðinguna og fyrstu árin í uppeldinu. Félagi Guðmundur Marinó ætti að kíkja á þetta.  Gaman var að því hvernig atburðum í samfélaginu er fléttað í verkið og hvernig leikhúsgestir tóku þátt í sýningunni.  Mörg pör voru í salnum í yngri kantinum og nokkrar konur óléttar!  Fín kvöldstund.

 

Áður en farið var í leikmenninguna var hlúð að  matarmenningunni. Grillið nýkomið á svalirnar og fyrir valinu var einiberjakryddað lambalæri. Íslenska lambið klikkar aldrei.  Með lambinu var boðið upp á argentínskt rauðvín, La Chamiza Syrah 2005.  Það er feikna gott, mjúkt og eftirmynnilegt.

Steingrímur Sigurgeirsson skrifaði þetta um 2004 árganginn. 

La Chamiza Syrah "Polo Professional Reserve" 2004
Yndisleg og flókin angan, brennd og krydduð, með karamellu, vanillu og kaffi í blandi við dökkan, þroskaðan berjaávöxt. Mikið en mjúkt, með löngu og þéttu bragði, sambræðingur af nýjaheims-shiraz og frönsku Syrah-Rónar-víni í stílnum. Brandarakaup á 1.190 krónur. 88/100

Fæst í Kringlunni og örfáum öðrum vínbúðum, hef ekki fundið það í Kópavogi.


Max Schmid - myndakvöld FÍ

Átti notalega kvöldstund á myndakvöldi Ferðafélags Íslands í Mörkinni. Íslandsvinurinn Max Schmit sem búsettur er í Sviss sýndi okkur 80 glæsilegar myndir, margar þeirra komu út á síðasta ári í bókinni Íslands óbeisluð öfl.

Það gladdi Skaftfellinginn að heyra að uppáhaldssvæðið hans væri Lónsöræfi. Það væri svo mikil litadýrð þar.  En hann hefur mikla þörf fyrir að rýna í liti og form landsins. 

Max kom hingað fyrst árið 1968 og hefur komið reglulega hingað til að mynda enda Ísland hans uppáhalds land. Hann myndar mikið á nóttunni og nær sérkennilegri birtu í myndinar.

Eftirminnilegasta myndin fannst mér af Hoffelsjökli ofan af Geitafelli. Frábær birta í jöklinum sem  sem berst fyrir lífi sínu. Max sagði á kjarnyrtri íslensku að hann ætlaði að koma þarna aftur og mynda til að fá samanburð.

Ég áttaði mig á því í kvöld að hann hefur haft áhrif á nokkra íslenska ljósmyndara. Hann er hrifinn af formum og margar mjög athyglisverðar myndir teknar á hverasvæðum.

Í lokin bauð Max upp á aukaefni. Hann sýndir myndir sem hann hefur tekið víða í hinum stóra heimi. Þá áttaði ég mig á því að sumar af myndunum hefðu alveg geta verið teknar hér á landi. Það sýnir einfaldlega fjölbreytileikann sem Ísland hefur uppá að bjóða. 


Draumalandið í Hafnarfjarðarleikhúsinu

 

Hvernig heldur maður upp á afmælið sitt. Jú, ég ákvað að halda upp á daginn með stæl og skundaði í Hafnarfjarðarleikhúsið á sýninguna Draumalandið. 

Leikritið er byggt á samnefndri bók Andra Snæs Magnasonar en ég er einmitt að lesa hana. Búinn með þriðjung.

Á leiðinni í Fjörðinn, vonandi ekki Álfjörðinn, velti ég því fyrir mér hvernig væri nú hægt að búa til leikrit úr pælingarbók eða sjálfshjálparbók. Þau hljóta að hafa bókin til hliðsjónar var niðurstaða mín.

Sýningn hófst á upphafsorðum bókarinnar og fylgdi henni vel á eftir. Mörg áhrifarík atriði voru framreidd á umhverfisvænu sviðinu.

Tölur geta verið þurrar og leiðinlegar.  Leikhópurinn kom með bráðsnjalla lausn á því að sýna alla virkjanlega orku landsins. Vatni var hellt í stórt mæliglas og sást myndrænt hvernig öll virkjanleg orka í hverri sprænu á landinu var tæmd í glasið. Á meðan þessu stóð, þá hugsaði maður, þetta má EKKI gerast!

Í lokin flutti meistari Megas ættjarðarljóðið "Draumalandið", það var meiriháttar. Mér hefur  aldrei fundist Megas betri og áhrifaríkari. Þetta lag verð ég að kaupa í iPod.

Leikhópurinn samanstóð af sex leikurum, jafn skipt á milli kynja og ung stúlka kom og stal senunni í einu atriði. Tónlistin var áhrifarík var vel studd af náttúrumyndum sem varpað var á sýningartjald.

Leiksýningin Draumalandið var skemmtileg sýning. Áhrifaríkir tveir klukkutímar mjög fljótir að líða. Aldrei dauður blettur.  Bakhliðin á Esjunni skiptir máli!

Áfram sól í Hafnarfirði. 


« Fyrri síða

Um bloggið

Sigurpáll Ingibergsson

Höfundur

Sigurpáll Ingibergsson
Sigurpáll Ingibergsson
Hornfirðingur búsettur í Kópavogi. Árgerð 1965.
Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • IMG 4410
  • IMG 4385
  • IMG 4421
  • Á afskekktum stað
  • Tíminn051071

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (4.7.): 124
  • Sl. sólarhring: 124
  • Sl. viku: 295
  • Frá upphafi: 236709

Annað

  • Innlit í dag: 113
  • Innlit sl. viku: 232
  • Gestir í dag: 110
  • IP-tölur í dag: 110

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband