Grímannsfell (484 m)

“Átakalítil fjallganga á bungumyndað, lúið fjall”, skrifar Ari Trausti í bókinni  Íslensk fjöll, gönguleiðir á 151 tind.  Ísaldarjöklar hafa barið á fjallinu en það var ofsaveður er upp á fjallið var komið og spurning um hvort fjallið eða göngumaður var lúnari.

Um tilvist Grimmansfells er um það að segja að það ásamt öðrum fellum í nágrenninu leifar af hinu forna Esjufjalllendi sem ísaldarjöklar hafa ekki alveg náð að jafna út. Er það því nokkuð komið til ára sinna.

Rétt áður en komið er að hinum sögufræga Gljúfrasteini var beygt af leið, inn Helgadal. Þar er mikil hestamenning. Einnig skógrækt, refarækt og gróðurhús. Þá blasir hið umfangsmikla Grímannsfell við. Það eru til nokkrar útgáfur af nafninu, Grímannsfell, Grímarsfell, eða Grimmannsfell.  Nafnið er fornt, eflaust hægt að færa rök fyrir því að það sé frá Landnámsöld.

Lagt var af stað úr Helgadal í Mosfellsbæ í myrkri með höfuðljós og legghlífar. Gengið upp vestan við Hádegisklett og þaðan upp brattar brekkur á Flatafell. Næst gengið í hring um Katlagil. Síðan var Hjálmur heimsóttur, en þar var rauð viðvörun og komið niður í Torfdal og endað í Helgadal. Það blés vel á toppum enda eykst vindur með hæð.

Líklegt hefur verið talið að nafnið Torfdalur sé til komið vegna torfristu og/eða mótekju fyrrum.

Þegar ofar dró í fellið, jókst vindur. Mikill vindstrengur blés frá austri og fagnaði maður hverju aukakílói. Við náðum hæðinn fljótt en hægt var að finna logn. 

Gangan á Grímmannsfelli minnti mig mjög á göngu á Akrafjall. Veður var svipað og tvær fjallbungur sem klofna í tvennt fyrir miðju þar sem á rennur um gil sem endar í fögru gljúfri.

Útsýni er ágætt yfir Þingvallahringinn en mest ber á Mosfellsheiði og  Borgarhólum sem fóðruðu heiðina af hrauni. Hengillinn er góður nágranni og Stóra Kóngsfell áberandi í Bláfjallaklasanum.

Eftir matarstopp með sýn yfir Mosfellsheiði var áhlaup gert á lágan klettabunka sem kallast Hjálmur í miklum vindi. Þegar á Hjálminn var komið blés vel á göngumenn og tók lítil varða á móti okkur. Fagnað var í stutta stund og lagt af stað eftir merktri leið niður Torfdal og gengið þaðan í Helgadal.

Grímannsfell

Fagnað Hjálmi á Grímmannsfelli í 35 m/s. Úlfarsfell og höfuðborgin í bak.

Dagsetning: 13. desember 2020
Stórhóll hæsti punktur: 484 metrar
Hæð í göngubyrjun: Við hestagerði Helgadal, 150 m (N:64.10.355- V:21.35.605)
Hækkun göngufólks: 300 metrar, uppsöfnuð hækkun: 462 m
Uppgöngutími: 140 mín (09:10 - 11:30)
Heildargöngutími: 250 mín (09:10 - 13:20)
Erfiðleikastig: 1 skór
Flatafell: 385 m (N:64.10.093 - V:21.33.260)
Hjálmur: 450 m (N:64.09.262 - V:21.33.599)
Vegalengd: 10 km
Veður-Bústaðavegur: 7 gráðu hiti, léttskýjað, kaldi 8 m/s af austan
Þátttakendur: Fjallkonur, 7 manns
GSM samband: Já

Gönguleiðalýsing: Létt og þægileg hringleið, stutt frá borginni sem minnir á Akrafjall með nokkrum möguleikum á útfærslu uppgöngu.

Facebook-staða: Dásamleg ferð í morgunmyrkrinu á Grímmannsfell. Þið eruð besta jólagjöfin.

Heimild:
Íslensk fjöll: Gönguleiðir á 151 tind eftir Ara Trausta og Pétur Þorleifsson


Ásfjall (127 m) í Hafnarfirði

Sumir kalla Ásfjall lægsta fjall landsins en útsýnið leynir á sér. Ásfjall fyrir ofan Hafnarfjörð og er í raun vel gróin grágrýtishæð. Ástjörn er fyrir neðan og kemur nafnið af bænum Ási sem stóð undir fjallinu. Efst á fjallinu er vel hlaðin varða, Dagmálavarðan og var leiðarmerki á fiskimið. Útsýnisskífa er stutt frá vörðunni. Menjar eftir hersetu eru einnig á fjallinu.

Gangan hófst hjá Íþróttamiðstöð Hauka eftir göngustíg í kringum Ástjörn. Gengið var í norður. Síðan var stefnan tekin á mitt fjallið, varðan og hringsjáin heimsótt og stefnt  suður Ásfjallsöxlina í Hádegisskarð og niður að Ástjörn. Léttari ganga er að stefna á norðuröxlina og ganga yfir fjallið lágvaxna. Nýtt hverfi er að rísa sunnan við fjallið og eina sem vantar er trjágróður.

Útsýni er gott yfir höfuðborgarsvæðið og ný hverfi sem eru að byggjast upp við fjallsræturnar, Skarðshlíð kallast það og dregur eflaust nafn af Hádegisskaði.  Helgafell er áberandi í suðri sem og Húsfell. Einnig Bláfjöll. Fjöllin á Reykjanesi sjást og Keilir tignarlegur. Akrafjall og Esjan í norðri.   Á góðum degi sést Snæfellsjökull.

Einföld og góð ganga sem býður upp á skemmtileg sjónarhorn yfir höfuðborgina.

Ásfjall

Grágrýtishæðin Ásfjall í Hafnarfirði og ósar Ástjarnar við Íþróttamiðstöðvar Hauka.

Dagsetning: 28. nóvember 2020
Göngubyrjun: Íþróttamiðstöð Hauka
Ásfjall – Hringskífa: 127 metrar (N: 64.03,1 – V: 21.56,5)
Hækkun göngumanns: 120 metrar
Heildargöngutími: 60 mínútur (13:40 – 14:40)
Erfiðleikastig: 1 skór
Vegalengd: 3,8 km
Þátttakendur: Undirritaður
GSM samband: Já, 4G
Gestabók: Nei
Gönguleiðalýsing: Gengið eftir malbikuðum göngustíg kringum Ástjörn og farið af honum og stefnt á mitt fjallið og gengi í lyngi og  mosa. Komið niður á göngustíginn á bakaleið.

 

Gönguslóðin

Gönguslóð

Gönguslóðin á Ásfjall. Dagmálavaraðan til norðurs og hverfið Skarðshlíð neðst á myndinni.


Um bloggið

Sigurpáll Ingibergsson

Höfundur

Sigurpáll Ingibergsson
Sigurpáll Ingibergsson
Hornfirðingur búsettur í Kópavogi. Árgerð 1965.
Des. 2020
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • IMG 4410
  • IMG 4385
  • IMG 4421
  • Á afskekktum stað
  • Tíminn051071

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.5.): 12
  • Sl. sólarhring: 19
  • Sl. viku: 104
  • Frá upphafi: 226727

Annað

  • Innlit í dag: 12
  • Innlit sl. viku: 92
  • Gestir í dag: 12
  • IP-tölur í dag: 12

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband