Grímsvötn rjúka upp í vinsældum á Google

Það er hægt að nota Google-leitarvélina til að mæla vinsældir.  Ég hef fylgst með leitarniðurstöðum eftir að eldgos hófst í Grímsvötnum síðdegis, laugardaginn 21. maí.

         Grímsvotn        Eyjafjallajökull       Vatnajökull
22.maí137.000496.000543.000
23.maí164.0002.850.000544.000
23.maí2.140.0003.070.000562.000

 _52926594_012055667-1

Forsíður helstu vefmiðla Evrópu fjölluðu um tafir á flugi í dag og því ruku Grímsvötn upp í vinsældum, úr 164.000 leitarniðurstöðum í 2.140.000 á sólarhring sem er þrettánföldun!

Eyjafjallajökull rauk upp þegar gosið í Grímsvötnum hófst. Fólk hefur farið að rifja upp hremmingar á síðasta ári. Vatnajökull heldur sínu striki, tekur ekki á skrið.

Til leiðinda má geta þess að IceSave er með um 6.000.000 niðurstöður og eiga náttúruhamfarir lítið í þær manngerðu hamfarir.


mbl.is Um 500 flugferðir felldar niður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fyrsti garðslátturinn

Vorið er á áætlun í Álfaheiðinni í ár þrátt fyrir kaldan og leiðinlegan apríl.

Fyrsti slátturinn í Álfaheiði var í gærdag, fjórum dögum á eftir fyrsta slætti á síðasta ári. Ég reikna með að slá átta sinnum í sumar. Rifsberjarunninn er orðin vel blómgaður en limgeriðin eiga eftir að þétta sig betur.

Sprettan var mikil á austurtúnunum. Má þetta grasfræinu sem borið var á fyrir mánuði. Aspirnar fallnar fyrir nokkru og grasið nýtur sín í sólinni. Fáir túnfíflar sáust.

Grassprettan var í sögulegu hámarki í fyrra og má skrifa hluta af vextinum á gosefni úr Eyjafjallajökli. Nú er spurning um hvort aska úr Grímsvötun hafi áhrif á sprettuna.

Ég læt hér fylgja með hvenær fyrsti sláttur hefur verið á öldinni í Álfaheiði 1. Þessar tölur segja að vorið í ár var hagstætt gróðri SV-lands. En mikil breyting varð að morgni mánudgsins 9. maí en þá var sólríkt daginn áður og úrkoma um nóttina.

2010    17. maí
2009    21. maí
2008    15. maí
2007    26. maí
2006    20. maí
2005    15. maí
2004    16. maí
2003    20. maí
2002    26. maí
2001    31. maí

Miðað við þessar dagsetningar, þá hefur vorið verið svipað og síðasta ár.


Kerhólakambur (851 m)

Þær eru margar gönguleiðirnar á borgarfjallið Esjuna. Fyrir 8 árum var gefið út gönguleiðakort með 40 gönguleiðum á Esjuna.  Þekktasta  og fjölfarnasta gönguleið landsins liggur á Þverfellshorn en önnur vinsæl gönguleið er Kerhólakambur. Nú var ákveðið að kíkja á kerin.

Ekið út af Þjóðveg við veðurathugunarmastur rétt áður en komið er að Esjubergi og lagt fyrir austan túnið. Síðan liggur leiðin eftir skýrum stíg inn í gilkjaft Gljúfurár og þaðan upp úr gilinu og svo beina stefnu upp bratta hlíð all á topp Kerhólakambs. Þessa leið fórum við ekki, heldur fylgdum við öðrum slóða og lentum í miklu klettaklifri sem minnti á topp Þverfellshorns.  Lagðist hún illa í suma göngumenn.

Í 300 metra hæð gengum við inn í þokubakka og sást lítið til allara átta eftir það en göngustígur sást greinilega enda hlíðin gróðursnauð. Þegar komið var i 400 metra hæð,  þá var meiri gróður og hvarf göngustígurinn göngufólki. Nær gróðurinn allt upp fyrir Nípuhól. Hóllinn er í rúmlega 500 metra hæð og tilvalinn áningarstaður.  Laugagnípa heita klettarnir fyrir vestan Nípuhól.

En hvernig er nafnið, Kerhólakambur tilkomið?  Sigurður Sigurðsson göngugarpur og ofurbloggari skrifar:  „Fyrir ofan Nípuhól heita Urðir og þar er brattinn ekki eins mikill. Í Ársriti Útivistar fyrir árið 1984 er að finna mjög góða grein um Esjuna eftir Einar Hauk Kristjánsson. Hann segir meðal annars að í Urðum séu þessi ker sem kamburinn er kenndur við, sem eru lægðir á milli hóla."

Kerin

Kerin og hólarnir  í Urðum  (660 m) 

Við höfðum þetta í huga á leiðinni upp og í 660 metra hæð komum við að staðnum sem lýsingin hér að ofan á við.  Var snjór í flestum kerjunum. Nokkrir snjóskaflar voru á leiðinni og gengum við upp einn langan sem hófst í 740 metrum og endaði í 800 metrum. Við áttum eftir að renna okkur niður hann á bakaleiðinni. Er hann samt væskinslegur séður frá borginni. Stór skafl er í vesturhlíð Kerhólakambs og munum við góna á hann í sumar rétt eins og Páll Bergþórsson veðurfræðingur.

Fín þokuferð sem verður endurtekin síðar og þá með hringleið og komið niður Þverfellshornið.  

Dagsetning: 14. maí 2011
Hæð: 851 metrar
Hæð í göngubyrjun:  56 metrar, tún austan við Esjuberg, (N:64.12.985 - W:21.45.800)
Hækkun: Tæpir 800 metrar         
Uppgöngutími:
  142 mín (09:08 - 11:30)  2,01 km
Heildargöngutími: 252 mínútur  (09:08 - 13:20)
Erfiðleikastig: 2 skór
GPS-hnit fyrri varða:  N:64.14.210 - W:21 .45.241
Vegalengd:  4,1 km
Veður kl. 9 Reykjavík: Bjart, V 3 m/s, 5,0 gráður. Raki 84%, skyggni 70 km.
Veður kl. 12 Reykjavík: Bjart, V 2 m/s, 5,8 gráður. Raki 81%, skyggni 70 km.
Þátttakendur: Skál(m), 5 manns  
GSM samband:
  Já – sérstaklega gott á toppi

Gönguleiðalýsing: Lagt af stað hjá Esjubergi, inn Gljúfurdal. Þar er mesti brattinn tekinn, erfiðasti áfanginn, í 200 metra hæð. Nota þarf hendur til stuðnings. Eftir það er jöfn gönguhækkun og tvö gil á báðar hendur sem beina göngunni á topp Kerhólakambs.  Skriðuganga með tröðum.

Heimildir:

Sigurður Sigurðarson,  sigurdursig, Kerhólakambur
Morgunblaðið, frétt, Nýtt kort af Esju með 40 gönguleiðum


Nautagil

Geimfarar NASA sem komu til Íslands til æfinga fyrir fyrstu mönnuðu tunglferðina 1969 og Nautagil hafa verið í umræðunni síðustu daga. Sýning um heimsókn geimfarana er haldin á Húsavík og Hillary Clinton utanríkisráðherra Bandaríkjanna bað að heilsa Húsvíkingum af því tilefni eftir fund með Össuri Skarphéðinssyni kollega sínum.

Ég heimsótti Nautagil árið 2006 og varð mjög hrifinn. Læt frásögn sem ég skrifaði stuttu eftir ferðalag í Dyngjufjöll fylgja hér á efir.

Nautagil

“Þarna sjáið þið Herðubreiðartögl, Herðubreið, Kollóttadyngju, Eggert og Herðubreiðarfjöll. Fleiri örnefni eru ekki hér”. Sagði Jakob leiðsögumaður í hljóðnemann og kímdi.  Minnugur þessara orða á leiðinni í Lindir fyrr í ferðinni, búinn að skilja nytjahyggju og af hverju örnefnafátæktin stafaði. Bændur höfðu ekkert á miðhálendið að gera og slepptu því að gefa  enn einu Lambafellinu, Svínafellinu og Hrútafjallinu nafn. Þá kom upp spurningin, “Hvað voru naut að þvælast hér?”.

Svarið kom á leiðinni í Nautagil. Geimfarar NASA sem unnu að Appolo geimferðaáætluninni komu tvisvar til Íslands til æfinga fyrir fyrstu tunglferðina en þeir töldu aðstæður í Öskju líkjast mjög aðstæðum á tunglinu. Þeir komu fyrst í Öskju árið 1965 og tveim árum síðar með minni hóp.  Kíkjum á frásögn Óla Tynes í  Morgunblaðinu  4. júlí 1967.

"Frá skálanum [Þorsteinsskála] var haldið inn að Öskju og fyrst farið í eitthvert nafnlaust gil sunnan megin við Drekagilið og þar héldu þeir Sigurður Þórarinsson og Guðmundur Sigvaldson jarðfræðifyrirlestur, sem fór fyrir ofan garð og neðan hjá fréttamönnum. Geimfararnir hinsvegar voru fullir af áhuga og hjuggu steina lausa úr berginu til nánari rannsókna. "

Hér er átt við Nautagil og er nafngiftin komin frá jarðfræðihúmoristunum Sigurði og Guðmundi. Geimfari er astroNAUT á ensku og framhaldið er augljóst.

Nafngiftin er ekkert nema gargandi snilld. Eftir að hafa heyrt sögu þessa jókst virðing mín mikið fyrir Nautagili mikið en ég hef haft mikinn áhuga á geimferðakapphlaupinu á Kaldastríðsárunum. 

Nautagil átti eftir að heilla enn meira. Hvert sem litið var, mátti sjá eitthvert nýtt jarðfræðilegt fyrirbrigði. Fyrst var boðið upp á innskot, bólstraberg og sandstein, síðan móbergsveislu. Mikilfenglegur móbergsveggur sem sorfinn var í toppinn og stóðu kollar uppúr sem minnti á tanngarð eða höggmyndir í Rushmore-fjalli af forsetum Bandaríkjanna. Maður lét hugann reika, þarna er George Washington, síðan Thomas Jefferson, Theodore Roosvelt og Abraham Lincoln. Þarna er vindill, það hlýtur að vera Clinton, en hvar er Bush?  Svo kom pælingin, hvar eru styttur af forsetum Íslands? Svar: Hvergi, bara til styttur af athafnaskáldum.

Fleira bar við augu. Lítill lækur spratt undan hrauninu og dökk hraunspýja sem talið er minnsta hraun á Íslandi var næst.  Rósin í hnappagatinu var svo vel falin bergrós ofarlega í mynni gilsins.  Þetta var óvænt ánægja og Nautagil kom mér mest á óvart í meðferðinni.  Það var augljóst að fáir hafa komið í gilið í sumar en með öflugri markaðssetningu væri hægt að dæla fólki í Nautagil. Lækur rennur fyrir framan gilið vel skreyttur breiðum af eyrarrós og hægt væri að hafa speisaða brú yfir hann.  Nota geimfarana  og NASA-þema sem umgjörð og hafa eftirlíkingu af Appolo 11 í gilinu. Þá væri hægt að bjóða upp á tunglferðir til Öskju!

Næst var haldið inn í Drekagil. Það býður upp á ýmsar glæsilegar bergmyndanir en féll alveg í skuggann af Nautagili. Innst inn í Drekagili er flottur slæðufoss og fyrir ofan hann er skemmtilegar myndanir, hestur og ljón sem gæta hans. 


mbl.is Geimfarar í Þingeyjarsýslum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

St. Totteringham's day gæti runnið upp í dag

St. Totteringham's day gæti runnið upp í dag eða morgun. En það verður ljóst þegar flautað verður til leiksloka í leik Sprus og Blackpool síðdegis.

En St. Totteringham's dagurinn er  dagurinn þegar Tottenham getur ekki náð Arsenal að stigum í Úrvalsdeildinni. Munurinn á liðunum er 12 stig og sami stigafjöldi í pottinum hjá Spurs. Vinni Spurs ekki sigur eða Arsenal nái stigi þá hefst hátíðin.

Fyrir marga Arsenal menn er St. Totteringham's day stærri dagur en jóladagur. Sérstaklega fyrir þá sem búa nálægt stuðningsmönnum Spurs.

St. Totteringham's dagurinn getur því verð breytilegur og rennur hann upp frekar seint á þessu ári. Í fyrra var St. Totteringhamsdagurinn í lokaumferðinni.

Fyrir þá sem hafa áhuga á meiri tölfræði um St. Totteringham's daginn, þá er hér ágætis yfirlit frá 1971.

Einnig er hægt að njóta dagsins með félögum á Facebook.


mbl.is Jafntefli á White Hart Lane
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Búrfellsgjá (183 m)

Þau eru mörg Búrfellin hér á landi. Það er talið að það séu til amk 47 Búrfell. Þau er nokkuð há stapafjöll mörg hver með klettum ofantil. Á vefnum ferlir.is segir ennfremur um Búrfellsnafnið: "Vel má vera að nafnið hafi upphaflega verið ósamsett, Búr, en síðari liðnum -fell, bætt við til skýringar. Búr er einmitt til sem nafn á þverhníptum klettum í sjó. Líklegt er að nafnið Búrfell sé dregið af orðinu búr í merk. 'matargeymsla', og þá helst sem stokkabúr, sem voru reist á lóðréttum bjálkum upp frá jörð svo að dýr kæmust ekki í þau, öðru nafni stafbúr".

Verkefni dagsins var að heimsækja Búrfellsgjá, sem tengist Búrfelli einu og er vanmetin náttúruperla stutt frá fjölbýlinu. Búrfellsgjá er 3,5 km hrauntröð sem liggur vestur úr Búrfelli. Hrauntröðin er farvegur glóandi kvikunnar sem kom upp í gosinu og fyllti kvikan tröðina upp á barma. Í lok eldvirkninnar tæmdist hrauntröðin. Talið er að hraun þetta, Búrfellshraun hafi runnið fyrir um 7200 árum og þekur 18 km2.

Keyrt framhjá Vífilsstaðavatni, framhjá Heiðmörk og í austurátt meðfram Vífilsstaðahlíð. Síðan var lagt í hann eftir merktum göngustíg, niður að Vatnagjá í botni Búrfellsgjár. Steinsnar frá Vatnagjá er Gjárétt og hefur vatnið úr henni verið forsenda fyrir selstöð.

Gjárétt stendur á flötum hraunbotni Búrfellsgjár ekki langt frá misgengisbrúninni á mótum Selgjár og Búrfellsgjár. Réttin er hlaðin um 1840 úr hraungrýti úr nágrenninu. Innst í réttargerðinu er gjábarmurinn veggbrattur af náttúrunnar hendi og slútir fram yfir. Þar innundir berginu er hlaðið byrgi sem var notað  sem fjárbyrgi og afdrep manna til gistingar. Annað var ekki í boði fyrir einni og hálfri öld.

Garðbæingar eiga hrós skilið fyrir upplýsingaskilti og gerð göngu- og hestastíga.  Gjárétt er vel útskýrð á skiltinu og hvernig eignarhaldi var háttað.

Stutt, skemmtileg og fróðleg  ganga.

Dagsetning: 27. apríl 2011
Hæð: 183 metrar
Hæð í göngubyrjun:  113 metrar, Vífilsstaðahlíð, N:64.02.814 W:21.51.12
Hækkun: 70 metrar         
Uppgöngutími:  60 mín (19:00 - 20:00)  2,55 km
Heildargöngutími: 120 mínútur  (19:00 - 21:00)
Erfiðleikastig: 1 skór
GPS-hnit varða:  N: 64.01.990 - W: 21.49.950
Vegalengd:  5,0 km
Veður kl. 18 Reykjavík: Bjart, S 1 m/s, 8,1 gráður. Raki 67%, skyggni 25 km. Skúraský. Ekkert haglél í þetta skiptið, sól og yndislegt veður til göngu.

Þátttakendur: Útivistarræktin, 27 manns   

GSM samband:  Já - en datt niður í gjám

Gönguleiðalýsing: Lagt af stað frá Vífilsstaðahlíð um Búrfellshraun, að Vatnagjá, Gjárétt og upp Búrfellsgjá. 

IMG 4385

Tignarlegur inngangur í Gjárétt en hún var hlaðin úr hraungrýti um 1840.

IMG 4421 Hrauntröð sem var full af kviku fyrir 7000 árum en tæmdist í lok eldvirkninnar.

IMG 4410

Göngumenn ganga á börmum eldstöðvarinnar, í 160 m hæð en hæsti punktur er 183 metrar. 

Heimild:

Upplýsingaskilti, útivistarlönd Garðbæinga og Garðabær útivistarsvæði.


Á afskekktum stað

Bókin Á afskekktum stað er nýútkomin og gefur Bókaútgáfan Hólum hana út. Hún er byggð á samtölum Arnþórs Gunnarssonar sagnfræðings við sex Austur-Skaftfellinga.

Viðmælendur höfundar eru hjónin Álfheiður Magnúsdóttir og Gísli Arason, sem fædd eru og uppalin á Mýrum, Ingibjörg Zophoníasdóttir á Hala í Suðursveit, Þorvaldur Þorgeirsson, sem í áratugi gegndi verkstjórn í bandarísku ratsjárstöðinni á Stokksnesi, og feðgarnir Sigurður Bjarnason og Einar Rúnar Sigurðsson á Hofsnesi í Öræfum. Á afskekktum stað er því eins konar ferðalag í tíma og rúmi.

Arnþór nær góðu sambandi við viðmælendur og ríkir greinilega mikið traust á milli aðila. Viðmælendur eru einlægir í frásögn og óhræddir við að greina frá stjórnmálaskoðunum sínum.  

Viðtalið við Álfheiði og Gísla er fallegt og sátt fólk þar á ferð.

Ingibjörg er aðkomumanneskja og gaman að sjá hennar sjónarhorn. Einnig eru skemmtilegar sögur af Torfa Steinþórssyni eiginmanni hennar. Það er gaman að sjá mismunandi stílbrigði í bókinni en í þessum viðtalskafla er sögumaður ekki að leggja fyrir beinar spurningar.

Þorvaldur segir frá kynnum sínum af varnarliðsmönnum og sýnir okkur inn í heim sem var mörgum hulinn en samskipti Hornfirðinga og Bandaríkjamanna voru lítil. Enda sést það best á því að körfubolti var ekki spilaður á Hornafirði á þessum tímum.

Feðgarnir frá Hofsnesi eru einlægir í viðtölum sínum og skín í gegn mikil ættjarðarást hjá þeim enda búa þeir á merkilegum stað. Erfiðar samgöngur voru stór þáttur í einangrun Austur-Skaftfellinga en þær breyttust þegar leið á öldina. Hættulegar ár voru brúaðar og vegatenging kom á sem og flugvélar. Athyglisverðast fannst mér þó að lesa um nýjustu samgöngubæturnar en það er Internetið.

Á afskekktum staðEinar segir svo frá: "....Það var ekki fyrr en 1997, minnir mig, sem við fengum Internettengingu heim á Hofsnes. Þá setti ég upp eigin heimasíðu þar sem voru líka upplýsingar um ferðirnar út í Ingólfshöfða."

"Fannst þeir það breyta miklu? Opnaði það einhverja möguleika?"

"Algjörlega."

"Hvernig þá?"

"Á meðan ég notaðist eingöngu við auglýsingar sem ég hengdi upp sjálfur var mikið um að ég fengi viðskiptavini sem ákváðu að slá til með skömmum fyrirvara af því að þeir höfðu séð ferðirnar auglýstar þegar þeir voru komnir á svæðið en eftir að heimasíðan kom til sögunnar fékk ég miklu fleiri viðskiptavini sem voru búnir að kynna sér ferðirnar og ákveða sig með góðum fyrirvara. Hinir síðarnefndu komu þar af leiðandi betur undirbúnir en hinir fyrrnefndu."

Svo kom ljósleiðari í Öræfin, glæsilegt framtak hjá Öræfingum og stór stökk inn í framtíðina. Einangrunin algerlega rofin.

Það kom mér á óvart að heyra í fyrsta skiptið um fyrirtækið Jöklasól sem Guðjón Jónsson frá Fagurhólsmýri stofnaði stuttu eftir tilkomu þjóðgarðsins í Skaftafelli. Boðið var upp á skoðunarferðir um Öræfi og flutti hann ferðafólk milli flugvallarins í Fagurhólsmýri og Skaftafells.

Fróðleg, skemmtileg og er þetta að sjálfsögðu hin mesta bókarbót.


Skaftfellingur og Skaftafell

Var að horfa á heimildarmyndina Skaftfellingur eftir Helga Felixson. Var hún frekar hæg og fjallaði meira um nýjan þjóðveg til Víkur en um skipið, sem var mikil samgöngubót á sínum tíma.

Þegar ég horfði á heimildarmyndina, rifjaðist upp fyrir mér þegar frystiskipið  Skaftafell kom í fyrsta sinn til heimahafnar sinnar, Hornafjarðar. Ég mundi ekki hvaða ár en ég man vel eftir þessum degi. Þá var mikið tilstand á Hornafirði og öllum bæjarbúum boðið til veizlu. Ég mundi að það var einnig fallegt veður þennan dag. Til að rifja þessa minningu upp, þá fór ég á timarit.is og leitaði upplýsinga.

Það kom mér á óvart að þetta var árið 1971, þá var ég 6 ára og einnig árstíminn en sumarveður var dag þennan á Hornafirði.

Mogginn birti frétt daginn eftir hátíðarhöldin, í sunnudagsblaðinu en Elías, líklega Elli lögga, skrifaði hana. Hann var því á undan Tímanum sem birti miklu stærri frétt á þriðjudeginum eftir hátíðarhöldin. Enda var Tíminn málgagn Framsóknarflokksins og SÍS.

Skipadeild SÍS með m/s Skaftafell í flotanum varð síðan að Samskipum og byggði Ólafur Ólafsson í Samskipum veldi sitt á flutningum. Það hefur þurft að afskrifa milljarða út af útrásarævíntýri Óla. Maður hefði kannski ekki átt að fagna flutningaskipinu svo vel fyrir nærri 40 árum!

Morgunbladid031071 Frétt í Morgunblaðinu 3. október 1971.

Tíminn051071

 

Á forsíðu Tímans, 5. október 1971, var mynd af Skaftafelli og frétt af Ólafi Jóhannessyni að vinna pólitískt afrek. Á bls. 2 var heilmikil frétt um komu m/s Skaftafells sem kom til heimahafnar í fyrsta sinn.


El Clásico

Veisla framundan. Fjórir El Clásico, en það eru leikir Barcelona og Real Madrid. Sá fyrsti verður í kvöld í Madrid. Barcelona má tapa honum 4-0 enda staða þeirra í spænsku deildinni mjög góð. Í desember áttust þessi stórlið við og hafði Barcelona 5-0 sigur í einum besta leik sem sést hefur. Staðan í spænsku deildinni:

Barcelona    31 85:16 84 
Real Madrid 31 72:22 76

Sjö leikir eftir og Barcelona með góða forystu sem þeir munu ekki láta af hendi. Spáin er naumur sigur hjá Real Madrid.

Leikið verður í spænska bikarnum á miðvikudaginn, 20. apríl og þá á Real Madrid heimaleik sem þeir gætu álpast til að vinna.

Síðan koma tveir leikir í Meistaradeildinni. Sá fyrri verður 27. apríl í Madrid og síðari leikurinn þann 3. maí í Barcelona. Reikna ég með að Barcelona fari í úrslit Meistaradeildarinnar úr þeirri rimmu. 

Jú, maður tekur þátt í veislunni og fylgist vel með í kvöld og næstu kvöld.

Leikir Barcelona og Real Madrid er miklu meira en fótboltaleikur. Hann er um þjóðernishyggju, sjálfstæðisbaráttu, völd og frelsi. Menningarmunur á milli Katalóníu og Kastilía. (Castile). Ég var svo lánsamur að komast á leik milli liðanna 21. október árið 2000 en þess leiks verður ávallt minnst sem leiksins þegar Luis Figo fór yfir til Madrídar. Það voru landráð.

Hér fyrir neðan er miðinn sem ég náði að kaupa rétt fyrir leik, á besta stað, beint fyrir ofan harða stuðningsmenn Barcelona. Var stórmagnað að fylgjast með þeim, mun athyglisverðara en leiknum sjálfum. Einkunnarorð stuðningsmanna Barcelona eru:  "Catalonia is a nation and FC Barcelona its army".

NouCamp2000


Risa plástrar hjá Microsoft

Þeir eru stórir plástrarnir frá Microsoft um þessar mundir. Notendur þurf að taka frá drjúgan tíma þegar þeir taka niður tölvurnar og nýir plástrar hlaðast inn til að auka öryggið.

Windows7 á rafreikni mínum í vinnunni tók drjúgan tíma í gær en ég þorði ekki að taka rafmagnið af henni enda var hún í alvarlegu ástandi. Uppfærslurnar voru 20. Alls voru 8 krítískir öryggisgallar lagaðir og þrír meiriháttar. 

Windows Vista var með 23 uppfærslur, uppfærði 9 krítískar og 3 meiriháttar öryggisholur.

Stærsta öryggisuppfærslan var þó á Internet Explorer vafranum en alvarlegur öryggisveikleiki var lagaður. Náði hún yfir allar viðurkenndar útgáfur IE, þ.e. #6, #7, #8 og #9.

Microsoft gefur út plástra annan þriðjudag í mánuði hverjum. Nú er spurningin, hvernig verður næsti plásturs-þriðjudagur, 10. maí hjá Microsoft?


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sigurpáll Ingibergsson

Höfundur

Sigurpáll Ingibergsson
Sigurpáll Ingibergsson
Hornfirðingur búsettur í Kópavogi. Árgerð 1965.
Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • IMG 4410
  • IMG 4385
  • IMG 4421
  • Á afskekktum stað
  • Tíminn051071

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (10.7.): 0
  • Sl. sólarhring: 9
  • Sl. viku: 243
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 204
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband