26.8.2013 | 17:38
Fegurðin að Fjallabaki
Skallar og hattar voru áberandi í óhefðbundinni ferð um Friðlandið með Ferðafélagi Árnesinga.
Gengið frá Landmannalaugum inn Litla Brandsgil og upp á hrygginn Milli Brandsgilja (921 m). Þaðan haldið vestan undir Skalla á sléttuna. Þaðan sá vel til Hofsjökuls og Hágögur voru glæsilegar austan við jökulinn. Þegar upp var komið opnaðist glæsileg sýn á hinn leyndardómsfulla Torfajökul. Öll þessi marglitu, einkennilegu fjöll blöstu við. Gengið niður á Suður-skalla (921 m). Þaðan haldið niður að Hattveri, framhjá tignarlegum Hatti og nesti snætt undir honum. Nokkrir klifruðu upp á Hatt og upplifðu ljóst líparítið á kollinum.
Eftir gott stopp var gengið eftir Jökulgilsbotni. Þaðan haldið í vestur upp hrygginn Milli Hamragilja og stefnan sett á Gráskalla. Á leiðinni sá ofan í Stóra Hamragil. Strýta ein nafnlaus er á fjallinu þar sem gengið var upp og minnti hún á Lóndranga á Snæfellsnesi undir ákveðnu sjónarhorni. Á leiðinni sá ofan í Stóra Hamragil. Þar sást frumgerð af Hatti en skaparinn hefur æft sig vel fyrir hinn fullkomna Hatt.
Undir Gráskalla sá til Vatnajökuls með mikið landslag og með tignarlegan Sveinstind sem bar af í forgrunni, Grímsvötn, svart Pálsfjall og Þórðarhyrnu. Farið niður af sléttunni niður í Grænagil en þar var brattasta brekkan um 100 metrar og minnti á ferð niður í Víti í Ösku. Þaðan gengið eftir kolsvörtu Laugahrauni en þar er torleiði og virtist ætla að hrynja yfir okkur en áhugaverð ganga.
Á leiðinni úr Landmannalaugum sá til Þóristinds og minnti hann á hið lögulega Matterhorn.
Syðri-skalli og hryggur að honum og leyndardómsfullur Torfajökull í fjarska.
Hattur í Hattveri er glæsileg náttúrusmíð. "Hattarhryggur" liggur að kynlega stuðlaða ríólítnúpnum Hatti.
Dagsetning: 17. ágúst 2013
Mesta hæð: 960 m, barmur undir Skalla
GPS hnit Hattver: 704 m (N:63.56.020 - W:19.03.398)
Hæð í göngubyrjun: 600 metrar (N:63.59.385 W:19.03.464) við rútuplan.
Heildarhækkun: 1.200 metrar
Heildargöngutími: 8,5 klst, 510 mínútur (11:15 - 19:45)
Erfiðleikastig: 3 skór
Vegalengd: 22,8 km
Skref: 30,034
Veður kl. 15 Laufbali: Léttskýjað, NA 3 m/s, 12,1 °C.
Þátttakendur: Ferðafélag Árnesinga, 71 félagi
GSM samband: Nei, en við skála FÍ og á nokkrum háum hæðum, 3G samband úti.
Gönguleiðalýsing: Lagt frá rútustæði við skála FÍ í Landmannalaugum. Krefjandi ganga, gengið eftir mjóum hryggjum. Ómótstæðileg litadýrð. Gengin Skallahringur. Torfajökulsaskja, stærsta líparítnáma landsins. Gimsteinasafn.
Myndir úr ferðinni
Sigurpáll Ingibergsson:
Jón Hartmannsson:
https://skydrive.live.com/?cid=4D4A7F61F1D7F547&id=4D4A7F61F1D7F547%2116639&v=3
Einar Bjarnason:
https://plus.google.com/photos/110610845439861884745/albums/5913450375417426353?banner=pwa
Daði Garðason, Ferðafélag Árnesinga:
http://www.flickr.com/photos/ferdafelag_arnesinga/sets/72157635118871371/
Roar Aagestad
https://www.facebook.com/photo.php?fbid=4627706551052&set=pcb.568001316579884&type=1&theater
Ragnar Hólm Gíslason:
https://www.facebook.com/photo.php?fbid=10201846230907534&set=oa.567910189922330&type=1&theater
Ágúst Rúnarsson
Heimildir
Friðland að Fjallabaki, Ábók Ferðafélags Íslands 2010.
Umhverfisstofnun, http://www.ust.is/library/Skrar/utgefid-efni/Baeklingar/Fjallabak_IS.pdf
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.8.2013 | 14:23
Flateyjardalur
Flateyjardalur er 33 km langur dalur sem gengur inn í landið vestan Víknafjalla og Kinnarfjalla. Sú málvenja hefur þó verið um langan aldur að kalla einungis nyrsta hlutann, byggðina með sjónum Flateyjardal en telja mestan hluta dalsins til Flateyjardalsheiðar (220 m). Fimm sjálfstæð býli voru í dalnum sem öll eru komin í eyði, hið síðasta, Brettingsstaðir árið 1953. Undirlendi er þar allmikið og grösugt og rekar voru nokkrir. Vetrarríki er í Flateyjardal enda fyrir norðan 66 gráður og stutt frá Heimskautsbaugnum. Um dalinn lykja há fjöll og hlíðar þeirra eru vaxnar lyngi og öðrum gróðri, að minnsta kosti hið neðra.
Í Flateyjardal var sögusvið Finnbogasögu ramma, þar fæddist hann, var borinn út en síðar fóstraður til fullorðinsára á Eyri eða Knarrareyri. Rústir af bænum og fjárhúsum eru austan vatnsmikillar Dalsár.
Brettingsstaðir voru mest jörð í Flateyjardal og kirkjustaður um skeið, frá 1897 til 1960. En mikill jarðskjálfti skók Flatey 1872 laskaði kirkjuna. Í kjölfarið var ákveðið að flytja hana í land var og að Brettingsstöðum.
Gaman að upplifa lífsbaráttu íbúa dalsins í gegnum einfaldar og góðar merkingar á eyðibílum og ártal fylgir með. Allt aftur til 1600. Nokkuð fór í eyði þegar Öskjugosið var 1875 og mikil atvinna á stríðsárunum hefur frelsað restina af bæjunum undan harðindum.
Margir slæðufossar sáust í fjallshlíðunum og trölla- og mannamyndir meitlaðar í stein. Mikil kyrrð og berjaland gott. Sannkallað land göngumannsins.
Virðing - Tvennir tímar. Stórkostlegt að sjá fornminjar og vel viðhöldnu húsi, líklega frá 1928 á Brettingsstöðum.
Flatey, Víkurhöfði og Flateyjarsund séð frá gróinni heimreið að Brettingsstöðum. Flateyjarsund, þar eru talin ein mestu hrognkelsamið við strendur Íslands.
Dagsetning: 6. ágúst 2013
Hæð Flateyjardalsheiðar: 220 m
Lengd Flateyjardals, F899: 33 km
GSM samband: Já, gott við ströndina.
Ökuleiðalýsing: Lagt frá hliði við Þverá í Fnjóskadal. Ágætis fjallvegur og lítið mál fyrir fjórhjóladrifsbíla með mikið af vöðum, pollum og lækjum en mikill snjór í fjallshlíðum enda heitt í veðri. Helst að passa sig á að festa bílinn ekki í sandi við ströndina. Gaman að sjá vatnaskil á heiðinni en glöggir ferðamenn geta séð þegar Dalsá fer að renna í norður eftir 6 km akstur.
Heimildir
Landið þitt Ísland, Þorsteinn Jósepsson og Steindór Steindórsson, 1987.
Íslendingasögur, Finnbogasaga ramma
Magnús Már Magnússon http://magnus.betra.is/sida.php?id=82&preview=1
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
7.8.2013 | 14:55
Steinhleðsla Þorvalds Thoroddsens
Í Hálendishandbók Páls Ásgeirs segir: "Ofarlega í fjallinu þykir mögrum sérstætt að rekast á tóft eins og af litlum leitarmannakofa. Þetta munu vera rústir eftir bækistöðvar manna í einum af könnunarleiðöngrum Þorvalds Thoroddsen vísindamanns."
Mér var hugsað til Þorvaldar og félaga. Einnig til Fjalla Eyvindar og Höllu. Hvílík elja í Þorvaldi að leggja á sig tíu ára landkönnunarferðalag án flísfatnaðar og svefnpoka upp að -20. Það er þrekvirki að reisa vísindabúðir í 1000 metra hæð en á þessum árum var mjög kalt á Íslandi.
Ég skildi bakpoka minn eftir í vísindabúðunum og nýtti mér fagmannlegt handafl Þorvalds og félaga til að skýla honum og létta á mér fyrir toppun eða tindun.
Ég tel að myndirnar hér fyrir neðan sýni steinhleðsluna sem hlaðnar voru fyrir rúmri öld en Þorvaldur Thoroddsen fór í tvo landkönnunarleiðangra um svæðið, 1889 og 1893.
GPS hnit steinhleðslu: (N:64.06.306 W:18.25.349)
Hæð steinhleðslu: 1.016 metrar
Steinhleðsla, líklega eftir Þorvald Thoroddsen og félaga. Grænifjallgarður í bakgrunn.
Snjór enn á tindinum og ferðamenn á leiðinni. Steinhleðslan sést við enda snjóskaflsins. Víkurskarð liggur frá veginum F235 vestan Hrútabjarga.
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 15:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.8.2013 | 00:07
Fagralón
Fagralón er eitt af a.m.k. níu lónum í Fögrufjöllum við Langasjó. Fagralón er við Sveinstind og hefur margoft verið myndað með tindinum.
Fögrufjöll eru tvöfaldur, örmjór fjallgarður, alsettur hnjúkum. Milli þeirra hafa lón víða orðið innlyksa. Fögrufjöll nær algróin til að sjá, klædd mosa og háplönum á stangli. Stingur það í stúf við auðnina norðvestur af Laka.
Til er skemmtileg gönguleið frá Sveinstindi umhverfis lónið eftir hryggjum og ströndinni. Einnig er hægt að ganga frá veiðihúsinu við Langasjó, meðfram ströndinni. Fara upp stíg upp einn hrygginn eftir augljósri slóð og þá blasir vestari endi lónsins við. Halda áfram í austur en á smá kafla er laus skriða. Þegar hún er yfirstigin birtist svartur lágreistur háls, Þröskuldur kallast hann. Hægt er að fara vogskorna ströndina til baka. Tekur hringferð þessi tvo og hálfan tíma til þrjá.
Eyjarnar í Langasjó njóta sín vel í þessari gönguferð. Gengið er meðfram vatnsendanum og lítur slóðin ekki vel út í fjarlægð en þegar á hólminn er komið þá er gangan einföld og hættulaus.
Sé haldið áfram yfir í næsta lón, þá er skemmtilegt örnefni á leiðinni, Tanngarður en sagan segir að leitarmaður einn hafi týnt tönnum sínum þar og ekki hefur hann enn fundist. Það eru mörg örnefni í þessum dúr þarna en landið er svo ósnortið nema af göngumönnum. Fæst af örnefnunum eru skráð og sum verða eflaust ekki samþykkt.
Rúmlega 5 km löng ganga önnur leiðin. Hringurinn er um 10 km, stikuð að hluta frá Sveinstind.
GPS: Eystri endi Fagralóns: N:64.08.067, W:18.21.210 (704 m)
Glæsilegt göngukort er á leiðinni að Sveinstindi við Langasjó. Leiðin vel merkt og vegprestar benda á helstu örnefni.
Dökkur þröskuldur í Fögrufjöllum framundan og tengist Langanesi. Eystri endi Fagralóns í fjarska og Fagralón til hægri umvafið fjallafegurð.
Göngumenn við eystri enda Fagralóns með Sveinstind í bakgrunn. Vegalengdin að tindinum er um 5 km.
Ferðalög | Breytt 7.8.2013 kl. 15:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.8.2013 | 20:22
Sveinstindur (1.090 m)
Það var ljúft að anda að sér tæru fjallaloftinu þegar maður steig út úr tjaldinu hjá veiðihúsinu við Langasjó. Umhverfi sem þetta á engan sinn líka, upphafið, eyðilegt og hljótt. Framundan var spennandi ganga á Sveinstind í Fögrufjöllum.
Ég hafði reynt göngu á Sveinstind fyrir fjórum árum í ferð með Augnablik en þá var mikil þoka á tindinum.
Langisjór var einn best varðveitti leyndardómur við jaðar Vatnajökuls. Það var fyrst árið 1878 að skaftfellskir leitarmenn fengu veður af stöðuvatni handan fjalla sem þeir gáfu nafnið Skaftárvatn og fjallgarðinum Skaftárfjallgarður, síðar kallað Fögrufjöll. Hæsta tindi í fjallgarðinum gáfu þeir nafnið Bjarnatindur eftir Bjarna [Bjarnasyni] í Hörgsdal á Síðu.
Þegar Þorvaldur Thoroddsen landkönnuður kom að Langasjó á árunum 1889 og 1893 skapaði hann örnefnin Sveinstind og Langasjó. Hvarf þá nafnið Bjarnatindur en lægri tindur í fjallinu ber nafn Bjarna.
Sveinstindur nefndur eftir Sveini Pálssyni (1762-1840) lækni og náttúrufræðingi. Hann er eitt flottasta útsýnisfjall landsins ef skyggni er gott.
Gangan er nokkuð auðveld þó að bratt sé og greinilegur slóði alla leið. Á tveim stöðum hafa verið settar stálplötur í gönguleiðina til að koma í veg fyrir smáskriður.
Útsýni af toppi Sveinstind er víðsýnt og stórbrotið. Langisjór blátær ber af með sína fallegu liti. Einstök Fögrufjöll eru tvöfaldur, örmjór fjallgarður, alsettur hnjúkum. Milli þeirra hafa lón víða orðið innlyksa. Þau eru hulin grænum mosa og háplöntum á stangli. Norðan við Langasjó eru gróðurlaus Tungnaárfjöll. Skaftá breiðir úr sér sunnan Fögrufjalla og ber mest á Stakafelli. Risinn Vatnajökull sýndi hvítar breiðurnar með Kerlingar og svart Pálsfjall og snævi þakin Þórðarhyrna ber af í austri. Landmannaafréttur, Veiðivötn og Kerlingarfjöll eru í norðri og Hekla áberandi í vestur.
Lakagígaröðin í suðri er stórfengleg og með Þjórsárhraun getur orðið glæsilegur Eldfjallagarður. Grænifjallgarður glæsilegur í auðninni.
Fyrir neðan tindinn í rúmlega þúsund metra hæð eru vegamót en hægt er að ganga niður í skála Útivistar og halda þaðan í Skælinga. Stutt þar frá er steinhleðsla. Talið er að Þorvaldur Thoroddsen hafi hlaðið hana til varnar tjaldi sínu.
Sveinstindur í vesturenda Fögrufjalla. Næst hæsti tindurinn heitir Fagra (923 m) og er í austurenda fjallgarðsins. Fögruvellir, Fagralón og Fagrifjörður með eyjunni Ást eru fögur örnefni þarna.
Gönguleið á Sveinstind. Fylgt er hryggnum til vinsti, alla leið á topp. Hækkun 413 metrar.
Á toppi Sveinstinds í 1.090 metra hæð. Göngufólk umkringt ægifegurð.
Dagsetning: 27. júlí 2013
Hæð Sveinstinds: 1.090 m
GPS hnit varða á toppi Sveinstinds: (N:64.06.346 - W:18.25.088)
Hæð í göngubyrjun: 677 metrar (N:64.06.163- W:18.26.672) við bílaplan.
Hækkun: 413 metrar
Uppgöngutími: 81 mín (09:36 10:57)
Heildargöngutími: 180 mínútur (09:36 - 12:30) Gott stopp á Sveinstindi
Erfiðleikastig: 2 skór
Vegalengd: 5 km
Veður kl. 12 Vatnsfell: Heiðskýrt, SV 4 m/s, 16,3 °C. Raki 54%
Þátttakendur: Skál(m), 7 manns.
GSM samband: Já, á köflum.
Sveinstindar: (2) Sveinstindur í Öræfajökli (2.044 m)
Gönguleiðalýsing: Lagt frá bílastæði undir Sveinstind. Gengið eftir stikaðri leið yfir gróðurlítið svæði en klædd mosa og háplöntum á stangli. Traust undirlag eftir hálsum og hryggjum að vörðu á toppi og við blasir ægifegurð.
Heimildir
Leyndardómur Vatnajökuls, Hjörleifur Guttormsson og Oddur Sigurðsson, 1997.
Ísafold, 1878 bls. 69 - http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=273166&pageId=3939780&lang=is&q=Vatnaj%F6kli
Náttúrufræðingurinn, 1958. http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=4269151&issId=291007&lang=da
Ferðalög | Breytt 6.8.2013 kl. 12:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Um bloggið
Sigurpáll Ingibergsson
Færsluflokkar
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Enski boltinn
- Evrópumál
- Ferðalög
- Fjármál
- Fjölmiðlar
- Heilbrigðismál
- Heimspeki
- Íþróttir
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Lífstíll
- Ljóð
- Löggæsla
- Mannréttindi
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Pepsi-deildin
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Sveitarstjórnarkosningar
- Tónlist
- Trúmál
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (16.7.): 4
- Sl. sólarhring: 20
- Sl. viku: 103
- Frá upphafi: 236931
Annað
- Innlit í dag: 3
- Innlit sl. viku: 87
- Gestir í dag: 3
- IP-tölur í dag: 3
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar