Tindastóll (995 m)

Hvar skal byrja? Hvar skal standa?
Hátt til fjalla? Lágt til stranda?
Bragi leysir brátt úr vanda,
bendir mér á Tindastól! (Matthías Jochumsson)

Ég skildi aldrei af hverju helsta kennileiti Skagafjarðar, fjallið Tindastóll héti Tindastóll því það hafði ekki tignarlegan skaftfellskan tind. En þegar siglt er undir Stólnum, þá sjást tindaraðir á fjallinu, m.a. I Tröllagreiðu. Þá skilur maður nafnið og mér finnst það mjög fallegt og viðeigandi. Hins vegar er Tindastóll skrítið nafn á íþróttafélagi.

Tindastóll er 995 metra þar sem hann er hæstur og 18 kílómetra langt og 8 km á breidd, efnismesta fjall Skagafjarðar.

Fjallið er hömrótt mjög að austan og þar víða torsótt uppgöngu, en að sunnan og vestan er lítið um kletta og víða ágætar uppgönguleiðir.

Hægt er að ganga á Tindastól frá nokkrum stöðum. Algengast er að ganga stikuðu leiðina frá upplýsingaskilti norðan við malarnámur norðaustan við Hraksíðuá og stefna á fjallsbrún við Einhyrning syðri. Önnur leið er að ganga frá eyðibýlinu Skíðastöðum og stefna á hinn Einhyrninginn.  Einnig er hægt að fara frá skíðasvæðinu og ganga þaðan upp á topp eða niður á Reykjaströnd austan við Stólinn og jafnvel baða sig í Grettislaug. 

Villiendurnar völdu öruggustu leiðina, þá stikuðu. Við stefndum á Einhyrning sem sést allan tímann.  Til að byrja með er gengið upp með Hraksíðuá að norðanverðu, upp aflíðandi brekkur. Liggur leiðin fjarri hættulegum brúnum og giljum og ætti því að vera öllum fær mestan hluta ársins. Þegar ofar kemur er hæstu ásum fylgt þar til upp á brúnina er komið.

Þegar upp er komið er varða með gestabók, glæsilegu útsýni yfir stóran hluta Skagafjarðar og einnig er myndarleg endurvarpsstöð.

Þjóðsaga er um óskastein á Tindastól en vorum ekki hjá Óskatjörn og misstum af öllum óskum þrátt fyrir að vera daginn eftir Jónsmessunótt.

Tindastóll er rofleif í jaðri fornrar megineldstöðvar sem var virk fyrir 8-9 milljón ára. Ísaldarjöklar grófu svo skörð og dali í berggrunninn í 3 ármilljónir en oft hefur fjallið staðið uppúr þeim jöklum. Því nokkuð traust til uppgöngu þegar jarðskjálftahrina er í gangi.

Útsýni var ágætt til suðurs en veðurguðir buðu upp á skýjað veður. Þar er næstur Molduxi, annað einkennisfjall Sauðkrækinga og í fjarska er  konungur Skagafjarðarfjalla, Mælifellshnjúkur, hæsta fjall Skagafjarðar utan jökla en fyrr í vikunni höfðum við gengið á hann og rifjuðum upp ferðina.  Einnig yfir Gönguskörð og Sauðárkrók.  Í austri blasa við fjöllin á Tröllaskaga ásamt eyjunum í Skagafirði í norðaustri. Til vestur sást til fjalla á Skaga.

Einhyrningur

Göngufólk við vörðu á Einhyrning syðri í 795 m hæð. Sauðarárkrókur fyrir neðan.

Dagsetning: 25. júní 2020
Göngubyrjun: Malarnámur norðaustan við Hraksíðuá, 175 m (N: 65.45.453 – W:19.42.138)
Fjallsbrún við Einhyrning - varða: 795 m  (N: 65.46.894 – W: 19.42.820)
Hækkun göngufólks: 620 metrar
Uppgöngutími: 165 mínútur (10:00 – 12:45)
Heildargöngutími: 255 mínútur (10:00 – 14:15)
Erfiðleikastig: 2 skór
Vegalengd: 12,8 km
Veður - Sauðárkrókur kl. 12.00: Skýjað, S 5 m/s, 16,2 °C, rakastig 57%.
Þátttakendur: Villiendur. 10 göngumenn.
GSM samband: Já, 4G
Gestabók: Já
Gönguleiðalýsing: Fjallið er auðgengt við flestar aðstæður árið um kring eftir þessari leið. Vel stikuð leik upp gróna mela.

Eldra nafn: Eilífsfjall eða Eilífsfell, kennt við landnámsmanninn Eilíf örn Atlason.

Facebook-status: Takk!    Enn einn dýrðardagurinn TAKK

Heimildir
Ferðafélag Íslands árbók 2012, Skagafjörður vestan vatna.
Íslensk fjöll - Gönguleiðir á 151 tind

 


Drangey (180 m)

Tíbrá frá Tindastóli

titrar um rastir þrjár.

Margt sér á miðjum firði

Mælifellshnjúkur blár.

 

Þar rís Drangey úr djúpi,

dunar af fuglasöng

bjargið, og báðumegin

beljandi hvalaþröng.

 

Einn gengur hrútur í eynni.

Illugi Bjargi frá

dapur situr daga langa

dauðvona bróður hjá.        

   (Jónas Hallgrímsson)

Þetta kvæði eftir ljóðskáldið Jónas smellpassar við ferðalag Villiandanna  til Skagafjarðar um sumarsólstöður. Fyrst var Mælifellshnjúkur genginn, síðan Drangey heimsótt og að lokum Tindastóll. Stemmingin í Drangey rímar vel við ljóðið. Drangey rís eins og rammbyggður kastali úr hafinu með þverhnípta hamraveggi á alla kanta og grasi vaxinn koll. Fjörugt fuglalíf með dunandi hávaða og á heimleiðinni skoðuðum við hnúfubaka.  Sagan af Gretti sterka fléttaðist skemmtilega inn í ferðina og gaf öllu nýja dýpt.

Drangey og Kerling

Drangey og Kerling

Að sigla upp að Drangey í Skagafirði var eins og að koma inn í ævintýraheim. Svartfuglinn, ritan og fýllinn tóku  vel á móti okkur og það var mikið líf við klettadranginn Kerlingu. Hvítur á köflum eftir fugladrit og minnti á klettinn Hvítserk. Í gamalli þjóðsögu segir að tvö nátttröll hafi verið á ferð með kú sína yfir fjörðinn þegar lýsti af degi. Urðu þau og kýrin þá að steini. Er Drangey kýrin og stendur Kerling sunnan hennar. Karl var fyrir norðan eyna en féll í jarðskjálfta 11. september 1755.

Að sigla meðfram eyjunni með allt þetta fuglalíf, garg og lykt var stórbrotið og minnti á siglingu inn Vestmanneyjahöfn.

Suðurhluti eyjarinnar blasti við eins og hamraveggur og vöktu Svörtuloft athygli en fyrir neðan þau er Fjaran en hún hefur minnkað. Þar var mikil útgerð áður fyrr og allt að 200 manns höfðu aðsetur. Þeir stunduðu umdeildar flekaveiðar sem voru bannaðar 1966. Eyjan var mikil matarkista og ótrúlegar tölur heyrðust um fugl sem veiddur var, allt að 200 þúsund fuglar á einu sumri og 20 þúsund egg tekin, stútfull af orku. Þessar tölur vekja spurningu um hvort veiðin hafi verið sjálfbær hjá forfeðrum okkar?

Búið er að útbúa litla höfn inni í Uppgönguvík og lentum við þar innan um forvitna sjófugla.  Síðan var farið upp göngu upp að hafti einu, Lambhöfðaskarð og stoppað þar. Bergið slútir yfir manni, maður verður lítill og ægifegurð blasir við. Á vinstri hönd blasir Heiðnaberg, eitt þekktasta örnefnið en sagan af Guðmundi góða segir að einhvers staðar verða vondir að vera!  Ekki óttuðumst við neitt. En keðjustigi  sem lá niður úr Lambhöfða vakti athygli, ég óttaðist hann, hefði aldrei þorað að nota hann fyrir mitt litla líf og um leið spurði maður sjálfan sig, úr hverju eru félagar í Drangeyjarfélaginu búnir til?

Traustur stígur með  tröppum og kaðal er alla leið upp á topp. Þar var hægt að sjá hvar Karlinn stóð en hann orðin að skeri og það brotnaði sjór á honum. Rétt eins og fór fyrir Karlinum, þá eyðilagðist Drangeyjarbryggja í óveðrinu fyrr í mánuðinum er því aðkoma að uppgöngu erfið núna. Náttúröflin eru óblíð.

Síðan var farið upp á efstu hæð og endað á því að ganga upp traustan járnstiga. Á leiðinni er gengið fyrir Altarið og  þar er faðirvorið greypt í járn.  Uppi í eyjunni er Drangeyjarskáli sem reistur var 1984. Eftir kaffistopp var gengið að Grettisbæli sem er sunnarlega á eyjunni og sagði farastjórinn Helgi Rafn Viggósson hjá Drangey Tours okkur sögur af eyjalífi, frá Gretti og frá lífsferli lundans. Náttúra og saga.

Grettissaga er ein af þekktustu og vinsælustu Íslendingasögunum og kemur Drangey mikið við sögu en  Grettir Ásmundarson bjó í eyjunni frá 1028 til 1031 ásamt Illuga bróður sínum og þrælnum Glaumi.

Við sáum yfir spegilsléttan Skagafjörðinn yfir á  Reykjanes á Reykjaströnd undir Tindastóli en þar er Grettislaug. En árið 1030 misstu þeir útlagar eldinn og þurfti Grettir að synda í land. Kallast það Grettissund þegar synt er frá Uppgönguvík og í land en Drangeyjarsund þegar synt er sunnar frá eyjunni.

Uppgönguvík

Á göngu sáum við sáum nokkra dauða svartfugla en fálkar eiga einnig lögheimili í eyjunni  og höfðu þeir lagt þá sér til munns. Vitað er um eitt fálkahreiður í Drangey.

Drangey er um 700 þúsund ára gömul og úr linu móbergi og hæsti punktur Mávanef í 180 metra hæð.  Hún er um kílómeter að lengd og meðaltalsbreidd um 300 m.  Bergið er mjúkt og er stanslaus barátt við hafið en það heggur í bergið. Á leiðinni á hápunktinn kíktum við á vatnsból Grettis, Grettisbrunn. en það er undir klettum sem lekur í gegnum og frekar erfið aðkoma að því.

Sigling tekur um hálftíma og þegar komið var að höfninni við Sauðárkrók tóki tveir hnúfubakar á móti okkur. Þeir voru í miklu æti og að safna fituforða fyrir veturinn. Það var mjög áhugavert að sjá þegar hvalirnir smöluðu smásíldinni saman upp að yfirborði sjávar og þá steyptu fuglarnir sér niður til að ná í æti. Síðan kom gin hvalsins úr djúpinu og gleypti torfuna en fuglarnir hörfuðu furðu lostnir. Mögnuð samvinna.

Mæli með ævintýraferð í Drangey en þeir sem eru mjög lofthræddir ættu að hugsa sig vel um en uppgangan og niðurferðin er krefjandi. En lykillinn er að horfa fyrir neðan tærnar á sér allan tímann, halda í kaðalinn sem fylgir alla leið og hugsa jákvætt.

Næst var haldið í sundlaugina verðlaunuðu á Hofsósi og horft til Drangeyjar frá sundlaugarbakkanum. Hugurinn var hjá fuglunum og Gretti sterka.

Fullkominn dagur.

 

Heimildir
Ferðafélag Íslands árbók 2016, Skagafjörður austan vatna
Drangey – Lesbók Morgunblaðsins, 1934
Drangey.net – Drangey Tours

Hnúfubakur


Mælifellshnjúkur (1.147 m)

Hvítan hest í Hnjúkinn ber,
Hálsinn reyrir klakaband.
Þegar bógur þíður er,
Þá er fært um Stórasand.

(Gamall húsgangur úr Skagafirði, höfundur ókunnur)

Þegar komið er í Skagafjörð og ekið frá Varmahlíð í suðurátt sker eitt fjall sig vel frá öðrum fjöllum og gnæfir yfir, það er Mælifellshnjúkur. Einskonar konungur Skagafjarðafjalla. Því var því auðvelt að velja Mælifellshnúk hjá Villiöndunum, göngu og sælkeraklúbb en hann dvaldi í fimm daga gönguferðalagi í Skagafirði. Nafn fjallsins vísar til þess að í öllu norðurhéraði Skagafjarðar er Mælifellshnjúkur ríkjandi kennileiti í suðri og frá mörgum bæjum markaði hann hádegi hinna gömlu eykta.

Mælifellshnjúkur breytir mjög um svip eftir því hvaðan á hann er horft, minnir á píramída úr norðri séð og ekki síður  sunnan af öræfum en aflangur. Minnir mig á Súlur við Akureyri í byggingu og er einstakt útsýnisfjalla af því að það stendur stakt, stutt frá hálendinu, svipað og Bláfell á Kili.

Á hnjúkinn má ganga eftir fleiri en einni leið, t.d.  upp eftir röðlinum að norðan og eins með að fara upp í Tröllaskarðið milli hnjúksins og Járnhryggjar og þaðan á hnjúkinn. Villiendurnar ákváðu að fara öruggustu leiðina, ofurstikuð gönguleið en gengið er frá bílastæði við Moshól í Mælifellsdal. Sama leið var farin til baka. Skagfirðingar hafa sett upplýsingaskilti við helstu göngufjöll í sýslunni og er það þeim til mikils sóma.  

Á uppgöngunni var boðið upp á ýmsa afþreyingu, m.a. var þagnarbindindi yfir 20 stikur og átti menn að hugsa til þess hvernig þeir ætluðu að fagna á toppnum. Þegar á toppinn var komið tóku göngumenn út fögn sín í gjólu. Útsýni var frábært, þó var skýjabakki í austri og ekki sá í Kerlingu í Eyjafirði og Vatnajökul en farinn var örnefnahringur og komu flest upp og útsýni yfir tíu sýslur stórbrotið.   Á niðurleiðinni var hraða farið en gert stopp fyrir jógaæfingar og hnjúkurinn tekinn inn í nokkrum æfingum.

Mælifellsdalur fylgdi okkur alla leið og liggur Skagfirðingaleið um hann um Stórasand. Þar riðu hetjur um héruð áður fyrr.

Á toppi hnjúksins er stæðilega landmælingavarða og VHF-endurvarpi björgunarsveitanna. Einu vonbrigðin voru þau að engin gestabók var í kassa við vörðuna en alltaf er gaman að kvitta fyrir að toppa.

Það er gaman að þessu viðmiði með sýslunar tíu en núna eru sýslumenn aðeins níu talsins. Áður fyrr voru sýslur og sýslumenn upphaf og endir alls en þegar mest lét voru  sýslur 24. Tímarnir eru breyttir.

Jarðskjálftahringa hafði staðið yfir og höfðu ekki hróflað við hnjúknum en berggrunnur Mælifells er 8 til 9 milljón ára gamall og hnjúkurinn sjálfur um milljón ára gamall en efri hlutinn er úr Móbergi. Fjallið hefur staðist jarðskjálfta lengi og í góðu jafnvægi en í lok síðustu ísaldar hefur orðið berghlaup úr fjallinu og gengum við upp úr því í Mælifellsdal.

Í norðri sá Hnúkstagl röðullinn sem gengur norður af hnjúknum og út fjörðinn en þar fanga Drangey, Málmey og Þórðarhöfði augað. Austan héraðs rísa Blönduhlíðarfjöllin með Glóðafeyki stakan. Ágætlega sást inn Norðurárdal, Austurdal og hrikaleg gljúfrin. Hofsjökull og Kerlingarfjöll komu næst en nær og vestar fjöll á Kili, Kjalfell, Rjúpnafell og Hrútfell sem rís austan Langjökuls.  Eiríksjökull var áberandi og nær Blöndulón og er þar að líta sem haf. Lengra í burtu sást til Baulu, Snjófjalla og Tröllakirkju en við keyrðum framhjá þeim og heilsuðum daginn áður.

Í næsta nágrenni sást í Nónfjall, Reykjafjall og Kirkjuburst en norðar Hellufell, Grísafell og Kaldbakur og Molduxi.  Yst við fjarðaminnið að vestan sást svo efnismesta fjall sýslunnar Tindastóll en við áttum eftir að heilsa upp á hann síðar í ferðinni. Við heilsuðum honum.

Mælifellshnjúkur

Konungur Skagafjarðar, Mælifellshnjúkur með Járnhrygg, Tröllaskarð og Hnúkstagl, röðullinn sem gengur norður af hnjúknum. 

Dagsetning: 23. júní 2020
Göngubyrjun: Bílastæði við Moshól í Mælifellsdal,  500 m   (N: 65.23.193 – W:19.24.063)
Mælifellshnjúkur - varða: 1.147 m  (N: 65.23.325 – W: 19.21.094)
Hækkun göngufólks: 640 metrar
Uppgöngutími: 230 mínútur (10:10 – 14:00)
Heildargöngutími: 350 mínútur (10:10 – 16:00)
Erfiðleikastig: 2 skór
Vegalengd: 12,6 km
Veður – Stafá kl. 13.00: Léttskýjað, NA 4 m/s, 10,7 °C, rakastig 73%.
Þátttakendur: Villiendur. 16 göngumenn.
GSM samband: Já, 4G
Gestabók: Nei, tómur kassi.
Gönguleiðalýsing: Greiðfær og gróin í fyrstu, síðan traustur melur. Skemmtileg og drjúg fjallganga á frábæran útsýnisstað.

Eldra eða annað nafn: Mælifell.

Facebook-status: Þriðjudagur til þrautar og sælu. Löguðum í hann snemma að Mælifellshnjúk. Gengum hann á frábæru tempói. Magnað útsýni, frábær félagsskapur sem við hjónin erum svo heppin að vera með í. 

 

Heimildir
Ferðafélag Íslands árbók 2012, Skagafjörður vestan vatna.
Íslensk fjöll - Gönguleiðir á 151 tind


Um bloggið

Sigurpáll Ingibergsson

Höfundur

Sigurpáll Ingibergsson
Sigurpáll Ingibergsson
Hornfirðingur búsettur í Kópavogi. Árgerð 1965.
Júlí 2020
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • IMG 4410
  • IMG 4385
  • IMG 4421
  • Á afskekktum stað
  • Tíminn051071

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.7.): 4
  • Sl. sólarhring: 11
  • Sl. viku: 103
  • Frá upphafi: 236956

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 91
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband