24.7.2009 | 11:40
Beta útgáfa af Morro frá Microsoft
Í lok júní gaf hugbúnaðarrisinn Microsoft út Beta útgáfu af fríum vírusvarnarhugbúnaði. Hann gengur undir vinnuheitinu Morro. Mikill áhugi er fyrir þessu útspili Microsoft enda hafa hætturnar á Netinu aldrei verið meiri. Niðurstöður úr fyrstu prófunum af hugbúnaðinum hafa verið jákvæðar. Fyrsta sólarhringinn sóttu 75.000 manns beta-útgáfu.
Íslendingar geta ekki sótt eintak, aðeins notendur í Bandaríkjunum, Ísrael, Kína og Brasilíu fá að taka þátt í prófunum.
Skv. PandaLabs, þá voru Trójuhestar ábyrgir fyrir 70% af nýjum spilliforritum á tímabilinu apríl til júní. Það þarf öflugan hugbúnað til að taka á þessum óværum. Kannanir sýna að nær öll fyrirtæki eru með vírusvarnir í tölvukerfum sínum og viðheldur þeim. Aftur á móti er en hinn almenni notandi ekki eins vel með á nótunum. Leyfin renna út og stundum er flókið að endurnýja þau. Tölvunotendur halda Því ótrauðir áfram með óvirkar vírusvarnir.
Ógnir á Netinu halda sífellt áfram að aukast og þróast. Öflugu vírusbanarnir, AVG og AVAST eru hættir að bjóða frían hugbúnað nema til skamms tíma. Því er þetta fría útspil hjá Microsoft hagkvæmt fyrir neytendur og upplýsingaöryggismál. Microsoft tekur hagnaðinn bara inn annars staðar. T.d. í hærra verði á stýrikerfi.
Vírusvarnarforrit ein og sér eru ekki endanleg lausn á vandanum. Tölvuþrjótar eru í vaxandi mæli farnir að koma spilliforritum innan um forrit eða skrám sem hægt er að vista af Netinu. Því eru öguð vinnubrögð og öryggismeðvitund nauðsynleg samhliða vírusvörnum. Burtséð frá því hvort þær séu fríar eður ei.
20.7.2009 | 14:39
Nautagil
Sumarið 2006 kynntist ég Nautagili í Dyngjufjöllum. Rifjast þá þetta upp.
Geimfarar NASA sem unnu að Appolo geimferðaáætluninni komu tvisvar til Íslands til æfinga fyrir fyrstu tunglferðina en þeir töldu aðstæður í Öskju líkjast mjög aðstæðum á tunglinu. Þeir komu fyrst í Öskju árið 1965 og tveim árum síðar með minni hóp. Kíkjum á frásögn Óla Tynes í Morgunblaðinu 4. júlí 1967.
"Frá skálanum [Þorsteinsskála] var haldið inn að Öskju og fyrst farið í eitthvert nafnlaust gil sunnan megin við Drekagilið og þar héldu þeir Sigurður Þórarinsson og Guðmundur Sigvaldson jarðfræðifyrirlestur, sem fór fyrir ofan garð og neðan hjá fréttamönnum. Geimfararnir hinsvegar voru fullir af áhuga og hjuggu steina lausa úr berginu til nánari rannsókna. "
Hér er átt við Nautagil og er nafngiftin komin frá jarðfræðihúmoristunum Sigurði og Guðmundi. Geimfari er astroNAUT á ensku og framhaldið er augljóst.
Nafngiftin er ekkert nema gargandi snilld. Eftir að hafa heyrt sögu þessa jókst virðing mín mikið fyrir Nautagili mikið en ég hef haft mikinn áhuga á geimferðakapphlaupinu á Kaldastríðsárunum.
Nautagil átti eftir að heilla enn meira. Hvert sem litið var, mátti sjá eitthvert nýtt jarðfræðilegt fyrirbrigði. Fyrst var boðið upp á innskot, bólstraberg og sandstein, síðan móbergsveislu. Mikilfenglegur móbergsveggur sem sorfinn var í toppinn og stóðu kollar uppúr sem minnti á tanngarð eða höggmyndir í Rushmore-fjalli af forsetum Bandaríkjanna. Maður lét hugann reika, þarna er George Washington, síðan Thomas Jefferson, Theodore Roosvelt og Abraham Lincoln. Þarna er vindill, það hlýtur að vera Clinton, en hvar er Bush? Svo kom pælingin, hvar eru styttur af forsetum Íslands? Svar: Hvergi, bara til styttur af athafnaskáldum.
Fleira bar við augu. Lítill lækur spratt undan hrauninu og dökk hraunspýja sem talið er minnsta hraun á Íslandi var næst. Rósin í hnappagatinu var svo vel falin bergrós ofarlega í mynni gilsins. Þetta var óvænt ánægja og Nautagil kom mér mest á óvart í meðferðinni. Það var augljóst að fáir hafa komið í gilið í sumar en með öflugri markaðssetningu væri hægt að dæla fólki í Nautagil. Lækur rennur fyrir framan gilið vel skreyttur breiðum af eyrarrós og hægt væri að hafa speisaða brú yfir hann. Nota geimfarana og NASA-þema sem umgjörð og hafa eftirlíkingu af Appolo 11 í gilinu. Þá væri hægt að bjóða upp á tunglferðir til Öskju!
![]() |
Tunglfararnir vilja stefna á Mars |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.7.2009 | 23:05
Fyrsta skólastigið
Hann Ari litli útskrifaðist úr Leikskólanum Álfaheiði á föstudaginn síðasta. Fyrir nokkru var útskriftarhátíðin og því var hóflegur kveðjustund enda orðið fámennt. Það hefja því 22 krakkar grunnskólanám í haust. Krakkarnir dreifast á nokkra skóla í Kópavogi og ætlar Ari í Hjallaskóla í haust.
Ari lærði magt í leikskólanum. Það var mikill knattspyrnuáhugi hjá strákunum. Knattspyrnuvöllurinn er einfaldur. Fjórar aspir notaðar sem markstangir. Umgjörðin minnir mig á afríska leikvelli. Leikskólinn er örstutt frá Digranesi og því eru allir í HK. Ari hóf að vísu knattspyrnuferilinn í Breiðablik en skipti yfir í stórveldið fyrir ári síðan. Að sjálfsöguð gaf Ari skólanum bolta að skilnaði.
Fyrir utan hefðbundið nám, þá lærðu krakkarnir mannganginn í skák og svo er umhverfisvæn hugsun kennd í lífsmenntaskólanum.
Hér eru myndir sem sýna námsmanninn fyrir framan Lífsmenntaskólann Álfaheiði. Sú fyrri var tekin er fyrsti stóri dagurinn rann upp, þann 15. ágúst 2005. Neðri myndin sýnir knattspyrnumanninn á síðasta skóladegi, 17. júlí 2009.
18.7.2009 | 16:44
Barnet - Arsenal 2 : 2
Æfingatímabilið hjá Arsenal hófst í dag á Underhill leikvanginum á hefðbundnum opnunarleik við Barnet. Dökkbláu varabúningarnir voru notaðir í fyrsta sinn og boða ekki mikla heppni. Það var vorbragur á leik liðanna og lítil harka. Hjá Arsenal hófu heimsþekktir leikmenn leikinn en í síðari hálfleik tóku minna þekktir við.
Gleðilegustu tíðindin voru að sjá Tékkann Tomas Rosicky í liðinu eftir endurhæfingu í eitt og hálft keppnistímabil Hann var gerður að fyrirliða í tilefni dagsins. Nýjasti leikmaður liðsins, Belginn, Thomas Vermaelen var einnig kynntur til sögunnar og var eini maðurinn sem spilaði allan leikinn.
Rússinn knái Andrei Arshavin kom Arsenal í forystu á markamínútunni en Yakubu jafnaði fyrir Barnet eftir fast leikatriði. Það þarf að fara vel yfir þau í Austurríki.
Í síðari hálfleik kom nýtt lið inná, 10 skiptingar og var Nacer Barazite fljótur að stimpla sig inn, skoraði gott mark. Barnet gafst ekki upp og á 83. mínútu jöfnuðu þeir eftir mikinn darraðardans í teignum.
Það var létt yfir mönnum, þrátt fyrir jafnteflið. Spennandi tímar í hönd.
Byrjungarlið Arsenal: Manuel Almunia, Johan Djourou, William Gallas, Thomas Vermaelen, Mikael Silvestre, Jack Wilshere, Mark Randall, Emmanuel Frimpong, Tomas Rosicky, Andrey Arshavin, Sanchez Watt
Seinna lið Arsenal: Vito Mannone, Thomas Vermaelen, Craig Eastmond, Luke Ayling, Jay Simpson, Nacer Barazite, Thomas Cruise, Gilles Sunu, Francis Coquelin, Conor Henderson, Jay Emmanuel-Thomas
Enski boltinn | Breytt s.d. kl. 16:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.7.2009 | 23:59
Nesja-Skyggnir (767 m)
Þeir voru litlir bílarnir á Hellisheiði þegar horft var yfir heiðina af Nesja-Skyggni. Stórbrotið var útsýnið yfir Suðvesturhornið. Þorpin fyrir austan fjall sáust vel, Vestmannaeyjar, Eyjafjallajökull og Ingólfsfjall. þegar gegnið var upp á brún, sást vel yfir höfuðborgarsvæðið og Reykjanesskagann.
Nesja-Skyggnir má muna fífil sinn fegri. Áður var hann hæsti hluti Hengilsins en hann er staðsettur í stórum og miklum sigdal sem er partur af mikli eldstöðvarkerfi og hefur gefið eftir. Því er Skeggi búinn að ná að toppa hann. Nesja-Skyggnir kom mér á óvart, flatur og sker sig ekki úr umhverfinu en ber nafn með rentu.
Rúmlega 50 manna hópur Útivistarræktarinnar hóf göngu frá tönkunum í mynni Kýrdals í rúmlega 400 m. hæð. Var Kýrdalshrygg fylgt eftir í kvöldkyrrðinni og áð á Kýrdalsbrúnum. Leiðin er vel stikuð og vegvísar víða.
Á bakaleiðinni var farin sama leið sást annað sjónarhorn. Þá sást vel yfir Þingvallavatn og öll frægu fjöllin í kringum það. Fjölbreytt og skemmtileg ganga sem kom á óvart. Gaman að fara þegar snjór verður sestur á landið.
Dagsetning: 15. júlí 2009
Hæð: 767 metrar
Hæð í göngubyrjun: Við tank í 405 metrum
Uppgöngutími: 2 tímar (19.15-21:15)
Heildargöngutími: 3 tímar og 15 mínútur
Erfiðleikastig: 1 skór
GPS-hnit tindur: 64.05.075 21.18.665
Vegalengd: 7 km
Veður: N 5 m/s, 11.2 gráður, bjart - 73% raki
Þátttakendur: Útivistarræktin, 52 manns - spilastokkur
Gönguleiðalýsing: Auðveld og fjölbreytt ganga með geysimikið víðsýni.
Ferðalög | Breytt 18.7.2009 kl. 00:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.7.2009 | 00:05
Súla lika horfin
Það eru fleiri ár en Skeiðará sem hafa breytt um stefnu. Frétti frá göngumanni einum er gekk yfir Skeiðarárjökul fyrir skömmu að Gígjuhvísl hefur gleypt Súlu og því er einfalt mál að komast í Núpsstaðaskóg.
Fleiri sameiningar hafa orðið vegna breytinga á jöklum landsins. Áin Stemma á Breiðamerkursandi hvarf úr farvegi sínum á síðustu öld í Jökulsárlón. Það gerðist 1. september 1990, skömmu áður en til stóð að byggja yfir hana nýja brú.
Menn voru ekki jafn heppnir árið 1948 er Heinabergsvötn hurfu í Kolgrímu en nýbúið var að brúa vötnin við Hánípu. Síðan hefur staðið þar þurr brú.
Ég hef trú að Skeiðará skili sér til baka.
Hér fyrir neðan er mynd sem sýnir Sæluhúsakvísl á Skeiðarársandi vatnslausa árið 2006 en nú er brúin horfin og komið svert rör í staðin.
Heimild: Árbók FÍ 1993, Við rætur Vatnajökuls.
![]() |
Skeiðará horfin í Gígjukvísl |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
14.7.2009 | 18:29
Adebayor ekki sá vinsælasti á Emirates
Stuðningsmenn Arsenal hafa gert síðasta keppnistímabil upp og kusu þeir Robin van Persie leikmann tímabilsins. Hafði hann nokkra yfirburði í kosningunni og þakkaði fyrir sig með því að skrifa undir samning til langs tíma.
Fjórir efstu í kjörinu ár arsenal.com urðu:
Robin van Persie 35.3%Andrey Arshavin 19.4%
Manuel Almunia 10.4%
Samir Nasri 8.1%
Athygli vekur að hinn dýri Tógómaður, Emmanuel Adebayorsem er full oft rangstæður og snillingurinn Cesc Fabregas komust ekki á listann. Mikið hefur verið rætt um sölu á Adebayor til Manchester City. Síðustu sölutölur eru nokkuð háar. Vonandi fer Adebayor, leikmaður ársins í Afríku fyrir metfé á samdráttartímum. Það kemur maður í manns stað en ég á eftir að sakna afrísku töfranna. Eitt besta mark sem maður hefur séð kom frá Ade á móti Villareal (1-1) í Meistaradeildinni i vor. Hjólhestaspyrna neðst í markhornið.
![]() |
Manchester City á eftir Adebayor |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
13.7.2009 | 21:10
Stóra-Kóngsfell (602 m) og Drottning (516 m)
Stóra-Kóngsfell (602 m) í Bláfjallafólkvangi var gönguverkefni síðustu viku. Ég var ásamt tæplega 70 Útivistarræktendum í ferðinni í nælonblíðu. Eftir að hafa keyrt malbikaðan Bláfjallaveg var beygt til vesturs og stoppað skammt frá norðurenda fellsins í tæplega 400 metra hæð. Gengið var yfir mosavaxið úfið hraun upp með vesturhlið fellsins. Eftir tæpa klukkutíma göngu var toppnum á Stóra-Kóngsfelli náð. Þaðan er frábært útsýni yfir nágrennið og til strandarinnar við Faxaflóann. Á toppnum er merkjavarða því þar koma saman landamerki fjögurra sveitafélaga þ.e. Reykjavíkur, Kópavogs, Selvogshrepps og Grindavíkur. En eitthvað hefur landamerkjum verið breytt. Því er ekki öruggt að með hringferð í kringum vörðuna hafi náðst að heimsækja fjögur sveitarfélög á sekúndubroti.
Þegar horft er til vestur af Stóra-Kóngsfelli, blasa Þríhnjúkagígar við. Þangað er tæplega 2ja kílómetra gangur. Austasti hnjúkurinn er stórmerkilegur. Opið í toppi hnjúksins er um 4 x 4 m að stærð. Neðan þess er 120 m djúpur flöskulaga gígur.
Þegar horft var til austurs blöstu Bláfjöllin við með snjólausar skíðabrekkur en á milli þeirra var lágreist fjall sem ber stórt nafn, Drottning (516 m). Þangað var förinni heitið hjá flestum í ræktinni. Gangan eftir mosavaxinni hrauntröð varði í 300 metra og sáust margir forvitnilegir hellar. Uppgangan á Drottningu var auðveld og þurfti aðeins að hækka sig um 90 metra. Þegar á miðja Drottningu var komið sást vel yfir Eldborg. Hún er mjög glæsileg á að líta, regluleg í lögun og með skarði sem hraun hefur runnið út um. Gígurinn er um 200 m í þvermál og um 30 m djúpur. Hólmshraun sem nær niður í Heiðmörk er ættað þaðan og rann fyrir um þúsund árum.
Það náðist því þrenna þetta miðvikudagskvöld og í brids eru þetta 6 hápunktar ef Eldborg er túlkuð sem gosi.
GPS:
Stóra-Kóngsfell: N: 64.00.047 - W: 21.39.689
Drottning: N: 63.59.967 - W: 21.38.648
Gengin vegalengd rúmir 6 km í kvöldkyrrðinni og tók rúma þrjá tíma.
Hluti af Útivistarræktinni fyrir framan takmarkið, Stóra-Kóngsfell.
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.7.2009 | 00:16
Hólárjökull
Jöklarannsóknir mínar halda áfram. Ávallt þegar ég keyri framhjá Hólárjökli sem er einn af tignarlegum skriðjöklum úr Öræfajökli. Hann er rétt austan við Hnappavelli.
Fyrri myndin var tekin þann 16. júlí 2006 og sú nýjasta þann 2. júlí 2009. Það sést glöggt að jökultungan hefur styst og jökullin þynnst. Það er þó meiri snjór í fjöllum í ár. Rýrnun jöklanna er ein afleiðingin af hlýnun jarðar. G8-leiðtogarnir voru linir á Ítalíu hvað átak í hnattrænni hlýnun varðar. Spái því að jökultungan verði horfin innan áratugs.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 00:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.7.2009 | 23:57
Jón Sveinsson (1933-2009)
Í dag var til moldar borinn í Hafnarkirkju nágranni af Fiskhólnum, Jón Sveinsson. Sjómaður af guðs náð sem sótti mikinn afla í greipar Ægis. Jón var hress og skemmtilegur persónuleiki og hafði smitandi hlátur. Hann var góður spilamaður og glímdum við oft saman í brids og Hornafjarðarmanna. Það voru eftirminnilegar baráttur.
Hugur mans leitar til baka og hér eru nokkrar myndir sem ég fann í myndasafni mínu.
Sveit Hótel Hafnar með sigurlaunin í Aðalsveitakeppni Bridsfélags Hornafjarðar: Jón Sveinsson, Jón Skeggi Ragnarsson, Baldur Kristjánsson og Árni Stefánsson.
Hreindýramót Bridsfélags Nesjamanna 1992. Einar Jensson, Þorsteinn Sigurjónsson, Örn Ragnarsson, Kolbeinn Þorgeirsson, Jón Sveinsson og Árni Stefánsson.
Jón Sveinsson, Þórir Flosason og Árni Stefánsson.
Dægurmál | Breytt 8.7.2009 kl. 00:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Sigurpáll Ingibergsson
Færsluflokkar
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Enski boltinn
- Evrópumál
- Ferðalög
- Fjármál
- Fjölmiðlar
- Heilbrigðismál
- Heimspeki
- Íþróttir
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Lífstíll
- Ljóð
- Löggæsla
- Mannréttindi
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Pepsi-deildin
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Sveitarstjórnarkosningar
- Tónlist
- Trúmál
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (11.7.): 3
- Sl. sólarhring: 11
- Sl. viku: 130
- Frá upphafi: 236839
Annað
- Innlit í dag: 3
- Innlit sl. viku: 100
- Gestir í dag: 3
- IP-tölur í dag: 3
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar