NÚNA er tækifærið

Var á baráttufundi hátækni- og sprotafyrirtækja í kvöld.  Fundurinn kallaðist „Núna“ er tækifærið því að núna er einmitt tæifærið til að hefja markvissa uppbyggingu hátækni- og sprotafyrirtækja með virku samstarfi og samstöðu stjórnvalda, stjórnenda og starfsmanna um að treysta stoðir nýsköpunar og virkja mannauðinn. Tilgangur fundarins var að efla sóknarhug og sjálfstraust.

Það tókst vel til. Stemmingin var stundum eins og á rokktónleikum. Margar kraftmiklar ræður haldnar af fulltrúum fyrirtækja og stjórnvalda. Það eru mörg tækifæri núna, mátti greina í máli fundarmanna. Flest fyrirtækin gátu bætt við sig mannskap, en á móti vildu fyrirtæki fá hluta af þróunarkostnaði endurgreiddan. Svipað og í löndunum í kringum okkur. Einnig var krafa um eðlilegt rekstrarumhverfi.

Svana Helen frá Stika sagði frá nýjum mannaráðningum og að gæða- og öryggisvottanir væru öflugt vopn í útflutningi.  Hilmar Pétursson frá CCP var fullur sjálftrausts og flutti kraftmikla ræðu um sýndarveruleikann í fjármálaheiminum og leikjaheiminum. Björk Guðmundsdóttir brýndi menn áfram og sagði frá fórnum sem leggja þarf á sig til að komast á toppinn.

Að fundinum stóðu Samtök iðnaðarins, Samtök líftæknifyrirtækja, Samtök sprotafyrirtækja, Samtök upplýsingafyrirtækja og Háskólinn í Reykjavík.


Hugleiðingar Um Verðtryggingu.

Ég fékk um daginn bréf í hendurnar skammt frá Ráðherrabústaðnum. Hann var ekki lokaður vegna aðgerðaleysis.  Þar voru slagorð gegn verðtryggingu en verðtrygging á lán er tímaskekkja.

Verðtrygging = Tryggir Gjaldþrot Heimila.
Verðtrygging = Krabbamein Íslensk Fjármálakerfis.
Verðtrygging = Allir Tapa á Endanum.
Verðtrygging = Virkar Bara á Skuldara.
Verðtrygging = Stóraukna Erlendar Lántökur.
Verðtrygging = Er Hötuð.
Verðtrygging = Aukið Álag á Krónu.
Verðtrygging = Böl Lántakenda.
Verðtrygging = Er Einstakt Íslenskt Fyrirbrigði
Verðtrygging = Hverjir Græða?
Verðtrygging = Er það Það sem Við Viljum
Verðtrygging = Eykur Á Verðbólgu
Verðtrygging = Hluti Þjóðar er Skítsama Um Verðbólgu.
Verðtrygging = Tryggir Hækkanir á Vörum.
Verðtrygging = Bull og Vitleysa.
Verðtrygging = Verndum Auðvaldið.
Verðtrygging = Þjóðarskömm.
Verðtrygging = Er bara Vilji Stjórnmálamanna og Auðmanna.
Verðtrygging = Þjóðarböl.

Burt Með Þessa Verðtryggingu Hún Þjónar Ekki Þjóð Sinni.

Útgefendur: Afkvæmi Forfeðra og Formæðra.

Það er margt til í þessum slagorðum. Verðtrygging var sett á lán í apríl 1979  með svokölluðum Ólafslögum. 

Ingólfur H. Ingólfsson  sem rekur ásamt konu sinni vefinn spara.is hefur tjáð sig vel um verðbætur. Hann sendir reglulega fréttabréf og hér er upphafið af síðasta bréfi.

Afnám verðtryggingar
- rétti tíminn er núna!

Þeim fjölgar stöðugt hagfræðingunum sem telja rétt að afnema beri verðtryggingu lána - þetta séríslenska fyrirbæri. Verðtrygging er óhagstæð lántakendum og ósanngjörn þar sem þeir bera einir áhættuna af verðlagsbreytingum og verðtrygging dregur úr áhrifum peningamálastefnu Seðlabankans.

Rétti tíminn til þess að afnema verðtryggingu á lánum til almennings er einmitt núna þegar stokka þarf upp í fjármálakerfi þjóðarinnar. Það sem vekur hins vegar undrun mína er hik og vandræðagangur margra sérfræðinga og stjórnmálamann sem telja málið flókið og erfitt viðureignar. Það beri einnig að verja sparnað landsmanna og það sé best gert með verðtryggingu.

 


Jöklarannsóknafélag Íslands

Í gærkveldi var árshátíð Jöklarannsóknarfélagsins haldin. Henni var ekki frestað þó frost sé í gjaldeyrisviðskiptum og þótt sumar stofnanir fresti árshátíðum rétt eins og Kastró frestaði jólunum árið 1969. Það hefur eflaust verið gaman hjá þessum merkilega hópi rannsóknarfólks og margir kreppubrandarar flogið um salinn. Ég er einn af 500 félögum í Jöklarannsóknafélaginu en er latur að mæta á skemmtanir og var því fjarri góðu gamni. En árshátíðir eru samt sem áður nauðsynlegar til að hrista fólk saman.

Ég er hins vegar að lesa bókina Vadd' úti í, æviminningar Sigurjóns Rist vatnamælingamanns sem Hermann Sveinbjörnsson skráði. Það var skemmtileg tilviljun, að ég var kominn að kaflanum um stofnun Jöklarannsóknarfélagsins þegar árshátíðin hófst í gær. En Sigurjón var einn af stofnendum og fór í fyrstu leiðangursferðina á Vatnajökul.

Þar segir að upphafið af stofnun félagsins megi rekja til þess að Frakkar tóku að sér það mikla verkefni að mæla þykkt Grænlandsjökuls og tengdist það nýlendustefnu sem snerti bæði heimsskautasvæðin. 

Í framhaldi af þessum þykktarmælingum á Grænlandsjökli þótti mönnum nauðsynlegt að vita um jökla á Íslandi og grundvallarspurningin var sú, hvað væri Vatnajökull þykkur. 

Frakkinn Paul Emile Victor bauðst til að lána Íslendingum tvo góða menn ásamt tveimur víslum, en það voru beltabílar, í því skyni að mæla þykkt Vatnajökuls. Þá er komið að þætti Jóns Eyþórssonar, veðurfræðings er hafði aðeins unnið við rannsóknir á jöklum landsins, aðallega mælt framskrið og hop skriðjökla. Hann kallaði menn sér til fulltingis í því skyni að stofa félagsskap sem gæti sinnt þessu máli. Það endaði með því að haldinn var fundur 22. nóvember 1950 og Jöklarannsóknafélag Íslands stofnað með 41 félaga. Hófst þegar undirbúningur á móttöku Frakkana og finna menn með þeim til rannsókna. Fyrsta ferðin var í mars árið eftir.

Það er alltaf gaman að lesa um merkar leiðangursferðir á síðustu öld og sérstaklega þegar Skaftfellingar koma inn í frásögnina. Mun ég blogga um Skaftfellingana í næstu færslum.


Skaftfellingameistarinn í HornafjarðarMANNA

Skaftfellingafélagið í Reykjavík hélt í kvöld annað  átthagamótið í HornafjarðarMANNA í Skaftfellingabúð. Keppt var um nafnbótina, Skaftfellingameistarinn. Albert Eymundsson, útbreiðslustjóri, driffjöður og tákngerfingur spilsins komst ekki frá Snæfellsjökli og því fékk ég, keppnisstjórinn í brids að spreyta mig í mótsstjórn.

Spilað var á fimm borðum, 15 skemmtilegir spilarar og voru spilaðar fimm umferðir í undanúrslitum. Sigurvegarinn frá því í fyrra Sædís Vigfúsdóttir tók risaskor í undankeppninni. Eftir glæsilegt kaffihlé hófst úrslitakeppnin en níu efstur spilarar unnu sér keppnisrétt.

Úrslitakeppnin gekk vel fyrir sig og kepptu Jón Bjarnason, Leví Konráðsson og Angela Sveinbjörnsdóttir úrslitaglímuna. Það var hörku rimma sem endaði með sigri Jóns eftir bráðabana og uppskar 2 kíló af humri úr Hornafjarðardýpi. Ángela hafnaði í öðru sæti og Leví landaði bronsinu. Áhorfendur fylgdust vel með og lifðu sig vel inn í spilið og tóku andköf er menn vörðust eða sóttu vel.

Veitt voru góð verðlaun fyrir verðlaunasætin þrjú.

Eftirminnilegt og skemmtilegt kvöld í Skaftfellingabúð og vonandi verður spilaður HornafjarðarMANNI að ári. Útbreiðslan gengur vel og spilinu vex fiskur um hrygg. Það er gaman að heyra frá skólum sem taka upp spilakvöld í Manna. Þetta er einfalt spil með flott og einfalt keppniskerfi fyrir stóran hóp keppenda.  Einnig er spilið fjölskylduvænt og tengir kynslóðir auðveldlega saman.


Að deyja úr prentvillu

Þetta eru stórgóð tíðindi fyrir Suðursveitunga og nágranna þeirra í austri og vestri. Þórbergssetur á þessi verðlaun svo sannarlega skilið. Þorbjörg og Fjölnir á Hala eiga heiður skilinn fyrir að halda menningarfinum um ÞÞ á lofti.

Að endingu er bezt að enda á því að vitna í Einar Braga, rithöfund er Skaftfellingar minntust aldarafmælis meistara Þórbergs.

"Sú byggð er rík sem fóstrað hefur sinn á hvorum sveitarenda þvílíka stólpa sem Þórberg Þórðarson á Hala og Jón Eiríksson frá Skálafelli"

 


mbl.is Þórbergssetur hlaut nýsköpunarverðlaun SAF
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

WHERE IN THE WORLD IS OSAMA BIN LADEN? ***

Fór í kvöld, svona rétt fyrir forsetakosningar í Bandaríkjunum, á heimildarmyndina
"Where in the world is Osama Bin Laden?", eftir hamborgaraætuna Morgan Spurlock.

Það var áhugavert ferðalag sem okkur var boðið upp í um múslimalöndin Egyptaland, Marokkó, Jórdaníu, Palestínu, Ísrael, Saudi-Arabíu, Afganistan og Pakistan.  Fólk var tekið tali í öllum löndum og spurt um hryðjuverkastríðið hvar OBL héldi sig. Fæstir vissu svarið. Flestum var illa við hann.  Niðurstaða myndarinnar var sú að þótt hann næðist breyttist ástandið ekkert. Viðmælendur voru á því að það væri margt gott fólk í Bandaríkjunum en þeir hefðu yfir sér hræðilega ríkisstjórn með skelfilega utanríkisstefnu.  Vonandi verða breytingar á morgun.

Áhrifaríkasta  senan var þó við aðskilnaðarmúrinn í Palestínu.  Þar stóð málað með rauðum stöfum á vegginn, "I'am not a terrorist", en allt í einu áttaði ég mig á því að við Íslendingar erum skilgreindir hryðjuverkamenn.

Spurlock er hress náungi og fléttar ferðalag sitt skemmtilega saman við meðgöngu frumburðar síns og fáum en hann er að reyna að búa til betri heim fyrir hann. Niðurstaðan er sú að allir eru að berjast fyrir því sama, bjartari framtíð fyrir börnin sín. Koma þeim til mennta svo þau eigi von. Engu máli skiptir hvort foreldrar búi í Bandaríkjunum eða Afganistan.


Látið Mandela lausan!

Þessi frétt birtist árið 1980 í Johannesburg Sunday Post.  Þar var ávarp, sem fólk gat skrifað undir og beðið um að Mandela og samfangar yrðu látnir lausir.

"Hugmyndin var runnin frá Oliver Tambo og ANC í Lúsaka og áróðursherferð blaðsins var hyrningarsteinn nýrrar áætlunar um að vekja athygli á málstað okkar. ANC hafði ákveðið að persónugera baráttuna fyrir því að við yrðum látnir lausir með því að  beina áróðrinum að einum manni."

Þannig lýsir Nelson  Mandela nýrri tækni til að ná athygli heimsins í sjálfsævisögu sinni. Persónugera aðskilnaðarstefnuna í einum manni. Saga hans og þjáningar hans snertu meira við fólki heldur en saga heildarinnar.

Mér kemur þessi saga Mandela oft í huga þegar stjórnmálamenn eru að tala um að það eigi ekki að persónugera bankakreppuna sem ný geysir hér á landi.  Þeir eru eflaust hræddir við almenningsálitið.


« Fyrri síða

Um bloggið

Sigurpáll Ingibergsson

Höfundur

Sigurpáll Ingibergsson
Sigurpáll Ingibergsson
Hornfirðingur búsettur í Kópavogi. Árgerð 1965.
Nóv. 2008
S M Þ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28 29
30            

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • IMG 4410
  • IMG 4385
  • IMG 4421
  • Á afskekktum stað
  • Tíminn051071

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (15.7.): 0
  • Sl. sólarhring: 24
  • Sl. viku: 89
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 78
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband