17.7.2022 | 10:42
Rósagarðurinn
Þegar ég var á skuttogaranum Þórhalli Daníelssyni SF-71 þá heimsóttum við stundum Rósagarðinn og mokuðum upp karfa. Rósagarðurinn er víðáttumikil fiskimið langt úti í hafi á milli Íslands og Færeyja. Þýskir togarasjómenn gáfu bleyðunni nafn og nefndu Rosengarten. Tvennum sögum fer af nafngiftinni. Annað hvort er hún eftir rauðum kóral sem hefur komið upp með trollinu eða rauðum karfa sem veiddist þar.
Verkefni dags tvö hjá Villiöndum var að kanna annan Rósagarð, fjallaklasa í Dólómítunum í Suður-Týrol. Í Rósagarðinum bjó Lárin dvergakonungur sem lét fjöllin leiftra, tindra og glitra og segir ekki meira af honum. Fjöllin í Ölpunum hafa tinda sem benda til himins og standast samanburðinn við fjöllin í Suðursveit!
Fjallgangan byrjaði hjá Laurins Lounge við fjallaskálann Kölner Hutter (2.337 m) og gengið var meðfram vesturhlið Rósagarðsins og austur fyrir hann að fjallaskálanum Rode di Vale. Snúið til baka og tekin skíðalyfta niður við Paoline fjallaskálann og gengið niður að Lake Carezza, stöðuvatni sem hefur alla liti regnbogans og tengist þjóðsögu.
Dólómítarnir eru hluti Ítölsku Alpanna og taka nafn sitt frá steintegundinni í þeim, dólómít. Þetta eru gömul kóralrif og marmarahvít gnæfa þau upp úr fjallgarðinum og þegar sólin sest slær á þau purpurarauðum bjarma. Hæsta fjall Dólómítanna er Marmolada sem rís hæst í 3.343m yfir sjávarmáli og þekktir fjallaklasar eru m.a. Rósagarðurinn (3.004 m) sem sést vel frá borginni Bolzano, Sella, Latemar og Langkofel-klasinn í Val Gardena. Dólómitarnir eru á Heimsminjaskrá UNESCO. Svæðið er í sama flokki og Surtsey, Þingvellir og Vatnajökulsþjóðgarður. Hefur einstakt gildi á heimsvísu.
Lagt var frá Bolzano og keyrt upp í fjöllin í gengum fjölda jarðganga. Beygjurnar á leiðinni slaga upp í fjölda eyjanna í Breiðafirði. Stórbrotið landaslag, vínviður víðast hvar og fjöllin skógi vaxin og byggð á ótrúlegustu stöðum.
Eftir rútuferð tókum kláf í 1.748 metra hæð og ferjaði hann okkur upp í 2.314 metra hæð og byrjuðum við á því að fá okkur kaffi í Laurins Lounge veitingaskálanum. Þetta eru auðveldasta 500 metra hækkun sem ég hef lent í á mínum fjallgönguferli. Frá skálanum var síðan gengið meðfram Rósagarðinum sem er glæsilegur fjallshryggur með Latemar á hægri hönd.
Á leiðinni sáum við berghlaup sem minnti á Stórurð og skömmu síðar var gil sem sendi mann til Grand Canyon í Arizona. Mikið af göngufólki kom á móti okkur og áberandi hvað það var í eldri kantinum en hvað er betra en að anda að sér fjallaloftinu á eftirlaunaaldri.
Smá hækkun var frá Paloma fjallaskálanum, 70 metrar að stórri styttu af erni og minnismerki um Theodor Christomannos (1854-1911) stjórnmálamann og frumkvöðul ferðaþjónustu í Suður Týrol. Einskonar Ari Trausti okkar Íslendinga!
Þegar við vorum komin fyrir horn Rósagarðsins sáust rigningarský á himni og í kjölfarði fylgdu eldingar og þrumur í kjölfarið. Dropar tóku að falla. Þegar styttist í fjallaskálann, þá opnuðust himnarnir er eldingar færðust nær. Fjölmenni göngufólks var í alpaskálanum og biðum við eftir að gjörningaveðrið gengi yfir. Skyndilega kom ein elding stutt frá okkur sem lýsti upp himininn og miklar drunur fylgdu í kjölfarið. Það bergmálaði í fjöllunum. Allt í einu var maður kominn til Maríupol í Úkraínu.
Fínasta gúllassúpa var í boði í skálanum en ekki var hægt að kaupa annað vegna vatnsleysi en vatnsdælan hafði bilað daginn áður. Meðan þrumuveðrið gekk yfir skoðaði maður fjallaskálann. Á veggjum héngu myndir af miklum klifurhetjum enda Suður-Týrólar aldir upp við fjallaklifur. Fann mynd af Reinhold Messner og varð starstruck, hér höfðu klifurhetjur dvalið. Messner vann það sér til afreka að fara fyrstur án aukasúrefins á Everest ásamt félaga sínum Peter Habeler og gekk á alla 14 tinda yfir 8.000 metra að hæð. Þeir innleiddu alpastílinn í háfjallamennsku. Einnig var glæsileg mynd af Gino Pisoni (1913-1995) sem var brautryðjandi í fjallaklifri í Ölpunum og lagði margar gönguleiðir. Ægifögur Dólómítafjöll voru þeirra leikvöllur. Messner sagði að hann væri búinn að ganga á 3.500 fjöll víðast hvar í heiminum en Dólómítafjöllin bæru af hvað varðar fallega byggingu.
Þolinmæði er dyggð. Tveggja tíma biðin borgaði sig, þegar við lögðum af stað til baka, þá létti þokunni að það var ævintýralegt að sjá Rósagarðinn birtast og önnur fjöll í Dólómítunum og Ölpunum. Djúpir fjalladalirnir óðu í hvítum skýjum og litir voru svo tærir.
Lake Carresa er lítið fjallavatn sem ljómar í þúsund tónum af grænu, bláu og grænbláum litum, umlukið þéttum skógi og handan glæsilegum tindum Dólómítanna og speglast þeir í vatninu.
Minnti mig á blágræna vatnið í Stórurð eða sprengigígurinn Grænavatni í Krýsuvík en það vantar tignarleg trén.
Betur af stað farið en heima setið. Ógleymanlegur dagur, ægifegurð og stórbrotin upplifun með Villiöndum og Eldhúsferðum.
Þó Alparnir með Dólómítanna hafi það orð á sér að vera eitt mesta sköpunarverk veraldar og bjóða upp á eitthvert fallegasta fjallalandslag sem til er, með lóðréttum veggjum, stórum klettum og miklum fjölda af þröngum, djúpum og löngum dölum, þá er margt líkt og á Íslandi en á stærri skala. Það má finna ljós líparítfjöll, jökla, Hraundranga, Dyrfjöll, Stórurð, Morinsheiði, Humarkló, tindótt Suðursveitafjöll og Fjaðrárgljúfur í Ölpunum en það sem okkur vantar eru tré, kláfar og þróaðri fjallaskálamenning.
Hér eru skógivaxnir dalir í þokunni og berir fjallstindar blasa við, hrjóstrug fjallaskörðin tengja dal við dal. Tindar sem benda til himins.
Dagsetning: 3. júlí 2022
Þátttakendur: Villiendur göngu og sælkeraklúbbur, 15 fjallgöngumenn og fararstjóri
Heimildir:
UNESCO heimsmynjaskrá - Dólómitarnir (2009)
Meginflokkur: Ferðalög | Aukaflokkar: Lífstíll, Umhverfismál, Vinir og fjölskylda | Facebook
Um bloggið
Sigurpáll Ingibergsson
Færsluflokkar
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Enski boltinn
- Evrópumál
- Ferðalög
- Fjármál
- Fjölmiðlar
- Heilbrigðismál
- Heimspeki
- Íþróttir
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Lífstíll
- Ljóð
- Löggæsla
- Mannréttindi
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Pepsi-deildin
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Sveitarstjórnarkosningar
- Tónlist
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 1
- Sl. sólarhring: 3
- Sl. viku: 55
- Frá upphafi: 233593
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 46
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.