25.9.2019 | 12:31
Kaldbakur í Eyjafirði (1.173 m)
ramlegt fjall með reknar herðar reisir gafl við hánorðrið," -MJ
Kaldbakur gnæfir yfir landslaginu austan Eyjafjarðar, norður af Grenivík og er hluti af fjallakeðju sem einu nafni nefnist Látrafjöll. Fjallið er 1.173 m hátt og gengur nálega í sjó fram og speglaðist í sænum, hrikalegt og tilkomumikið. Á tindi Kaldbaks er varða sem hlaðin var af landmælingamönnum danska herforingjaráðsins árið 1914.
Hefðbundin leið á Kaldbak hefst við Grenjárbrúnna við Árbakka skammt norðan Grenivíkur. Við fórum aðra leið. Keyrt var á jeppum upp fjallveg sem liggur í Grenivíkurfjalli en þar er aðstaða sem Kaldbaksferðir hafa gert fyrir vélsleðaferðir. Við keyrðum upp að þriðja palli og stoppuðum í 356 metra hæð.
Þegar lagt var af stað var þoka en spáin lofaði góðu fyrir daginn og vonuðumst við að sólin næði að eyða skýjunum.
Strax var farið niður í gil sem Grenjá hefur grafið og þegar komið var upp úr gilinu minnkaði þokan og skömmu síðar gengum við upp úr henni. Eyjafjörðurinn var þakinn skýjum og glæsilegur að sjá en vel sást í efstu fjallstinda fjarðarins. Þjóðskáldið Matthías Jochumsson orðaði þetta snilldarlega: undan sólu silfurþoka svífur létt um Eyjafjörð.
Gengið var eftir mel alla leið upp snjólausa suðuröxlina á topp en snjóskafl liggur í jökulskál vestan megin axlarinnar og mættum við honum í 650 metra hæð en snjór og er ís í skálinni allt árið um kring.
Eftir tveggja tíma göngu var tekið matarstopp í tæplega 900 metra hæð og horft yfir bómullarlagðan Eyjafjörðinn. Þar sáum við fjórar rjúpur og sauðfé. En ýmislegt sást t.d. lambagras, grasvíðir, dýragras og músaeyra. Einnig sáum við lóur og mikið var um köngulær.
Eftir rúmlega þriggja tíma göngu var toppnum náð en hann er á grýttri sléttu og er varðan glæsilega. Það var mikil stemming við vörðuna og rifjaðist upp vísa sem Látra-Björg kvað um svikul og tvíráð veðrateikn á tindi Kaldbaks:
Vestanblika
kúfnum kalda
Kaldbak hleður;
sunnan kvika,
utanalda,
austan veður.
Kaldbakur er mikið útsýnisfjall og sér langt inn á hálendið en fjöllin á Gjögraskaga vöktu mesta athygli, keilulaga og snævi þakin. Í gamalli ferðalýsingu Sig. Júl. Jóhannessonar segir um útsýni af Kaldbak: þaðan sést yfir allan Skjálfanda, og afar langt á sæ út; Herðubreið, sem er suður undir Vatnajökli, öll Mývatnsfjöll, Eyjafjörður allur, Fnjóskadalur, Bárðardalur, Hörgárdalur og Svarfaðardalur o.s.frv. þaðan sést austur á Sléttu og vestur undir Horn.
Ekki sáum við alla dýrðina og söknuðum helst Herðubreiðar en skýjabólstrar voru yfir hálendinu.
Kaldbakur hefur verið skáldum og rithöfundum hugleikinn og líkt honum við hvítabjörn og ort um fegurð og kraft fjallsins.
Árið 2002 var alþjóðlegt ár fjalla. Þá var Herðubreið kosin þjóðarfjall Íslendinga og Kaldbakur sigraði í keppninni um fjall Eyjafjarðar eftir harða samkeppni við Kerlingu og Súlur. Á landinu eru sex fjöll sem bera nafnið Kaldbakur.
Gönguhópurinn við glæsilegu landmælingavörðuna frá 1914. Útburðarskálarhnjúkur handan og hafa sést þar svipir manna.
Dagsetning: 27. júlí 2019
Hæð í göngubyrjun: 356 metrar Grenivíkurfjall 3. pallur (N: 65.58.092 W: 18.10.289)
Kaldbakur - varða: 1.173 m (N: 66.00.381 W: 18.10.842)
Hækkun göngufólks: 817 metrar
Uppgöngutími: 195 mínútur (09:15 12:30)
Heildargöngutími: 330 mínútur (09:15 14:45)
Erfiðleikastig: 2 skór
Vegalengd: 10 km
Veður Akureyri kl. 12.00: Skýjað, SA 1 m/s, 13,2 °C
Þátttakendur: Villiendurnar, 11 göngumenn.
GSM samband: Já
Gestabók: Já
Gönguleiðalýsing: Stikuð leið eftir hrygg sem er gróin neðarlega en breytist í mel er ofar dregur.
Facebook-status: Kaldbakur minnir mig frekar á mammút eða loðfíl heldur en hvítabjörn eftir þessa fræknu gönguferð.
Heimildir:
Fjöllin í Grýtubakkahreppi Hermann Gunnar Jónsson, 2016
Huldulandið Vigfús Björnsson, 1997
Kaldbaksferdir.com - Kaldbakur
Sig. Júl. Jóhannesson. (Ferðapistlar VIII. Dagskrá 26. nóv. 1898.)
Meginflokkur: Ferðalög | Aukaflokkar: Lífstíll, Ljóð, Vinir og fjölskylda | Breytt 26.9.2019 kl. 09:26 | Facebook
Um bloggið
Sigurpáll Ingibergsson
Færsluflokkar
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Enski boltinn
- Evrópumál
- Ferðalög
- Fjármál
- Fjölmiðlar
- Heilbrigðismál
- Heimspeki
- Íþróttir
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Lífstíll
- Ljóð
- Löggæsla
- Mannréttindi
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Pepsi-deildin
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Sveitarstjórnarkosningar
- Tónlist
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (3.12.): 2
- Sl. sólarhring: 4
- Sl. viku: 32
- Frá upphafi: 233668
Annað
- Innlit í dag: 2
- Innlit sl. viku: 31
- Gestir í dag: 2
- IP-tölur í dag: 2
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Útsýnið þarna er alveg magnað og myndi ég segja að þetta sé alveg stórkostlega skemmtilegt labb þarna upp :)
Halldór Björgvin Jóhannsson, 26.9.2019 kl. 08:24
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.