Sköflungsvegur

Mosfellsheiði hefur gegnt merkilegu hlutverki í sögu samgangna milli Innnesja og Árnessýslu frá upphafi og lumar á ótal skemmtilegum gönguleiðum. Mosfellsheiði er víðlent heiðarflæmi sem rís hæst 410 metra yfir sjávarmál í Borgarhólum en þeir eru kulnuð eldstöð.

Sköflungsvegur er ein af gönguleiðunum og liggur frá Draugatjörn við Húsmúla norður með hlíðum Hengils og Sköflungs og endar í Vilborgarkeldu, skammt frá Þingvallavegi.

Rúta keyrði göngumenn að Draugatjörn en vegurinn er lokaður skammt frá henni. Gengið var að réttinni, hlaðna garða frá tímum búskapar á Kolviðarhóli og þaðan að rústum sæluhússins og lesnar sögur úr nýprentaðri Árbókinni. Leiðsögumenn voru höfundar Árbókar FÍ, þau Margrét Sveinbjörnsdóttir, Bjarki Bjarnason og Jón Svanþórsson. Miðluðu þau fróðleik til göngufólks af mikilli þekkingu og innlifun.

Síðan var gengið undir Húsmúla en örnefnið kemur af sæluhúsinu sem var þarna. Lítið fell er í suðvestur og heitir Lyklafell. Maður tekur varla eftir því þegar Hellisheiðin er ekin en þegar maður fer öld aftur í tímann  þá skilur maður af hverju nafnið er dregið. Það er lykill í samgöngum yfir Hellisheiði og yfir Mosfellsheiði. Í raun stór varða. Fóelluvötn eru skammt frá fellinu og skiptir vatn öllu máli í hestaferðum.

Í grænum Engidal var tekið kaffi. Skeggi í Henglinum dró að sér mikla athygli en undir honum voru kynjamyndir úr sorfnu móbergi. Má þar nefna dularfullt gil nefnt Kolsgil en vatnið hefur sorfið móbergið í tímanna rás.  Þjófahlaup en sögur voru um útilegumenn undir Henglinum.  Marardalur er stutt frá gönguleiðinni en þangað fóru ungir menn í helgarreisur. Einn af þeim var Matthías Jochumsson, og mögulega hafa þessar ferðir vakið hugmyndir að leikritinu Útilegumennirnir eða Skugga-Sveini árið 1861.

Farið vestan megin við Sköflung en horft yfir glæsilegan Grafning og Þingvallavatn frá Sköflungshálsi en Grafningsvegur liggur þar um. Gönguferðin endaði við Vilborgarkeldu en þar komust hestar og menn í vatn. Það er áhugavert að konur eru kenndar við keldur en karlar við fjöll.

Á leiðinni mættum við hestamönnum, motocross-hjólum, reiðhjólafólki og öðru göngufólki. Farastjórar hafa unnið við undirbúning bókanna í 7 ár og hafa tekið eftir að gróður hefur tekið við sér, bæði vegna minni beitar og hlýrra loftslags. Áður fyrr voru naut á beit og hreindýr á þessum slóðum. Kolviður áformar að kolefnisjafna útblástur með því að planta trjám á heiðinni. En taka verður tillit til náttúruminja.

Þjóðleiðir eru auðlind sem við verðum að varðveita. Besta leiðin er að koma þeim í notkun á ný.

Eftir að hafa gengið Sköflungsveg og skilið vegakerfið eftir frábæra leiðsögn frá Bjarka, Margréti og Jóni þá verður að koma upplýsingum á framfæri á leiðinni. En heiðin var orðin heillandi víðátta. Gera þarf góð upplýsingaspjöld á lykilstöðum og koma fyrir upplýsingum og vegprestum á leiðinni.  Mosfellingar eiga að kunna þetta en fellin sjö eru vel merkt hjá þeim. Einnig hefur Ferðamálahópur Borgarfjarðar gert góða hluti með Víknaslóðir.

Gönguleiðir yfir Mosfellsheiði er góð viðbót fyrir göngufólk við fótskör höfuðborgarsvæðisins. Nú þarf ekki að leita langt yfir skammt en merkilegast er að skilja betur lífsstíl forfeðra okkar.

Á leiðinni var lesið úr árbókinni og komu þá hlutir í samhengi. Áhugavert var að heyra ferðalýsingar en ferðamenn fyrr á tímum áttu leið yfir heiðina. Margir þeirra lýstu heiðinni sem endalausu flæmi af grjóti og þótti hún heldur tilbreytingalaus – en aðrir nutu kyrrðarinnar og þótti víðáttan heillandi.

Jón Svanþórsson farastjóri vann merkilegt verk en hann hnitsetti allar vörður á Mosfellsheiðinni og eru þær um 800 talsins og um 100 fylgja Þingvallaveginum gamla.

Í kjölfar árbókarinnar kemur síðan út göngu- og reiðleiðabókin Mosfellsheiðarleiðir eftir sömu höfunda, þar sem 23 leiðir á heiðinni eru kortlagðar og þeim lýst í máli og myndum.

Sköflungsvegur

Nú fara ekki lengur þreyttir baggahestar um Mosfellsheiði, heldur fer þar orka í raflínum austan úr sveitum. Hér er göngufólk að nálgast Vilborgarkeldu og Sköflungur er handan.

Dagsetning: 6. júlí 2019
Hæð í göngubyrjun: 271 metrar við Draugatjörn (N: 64.03.058 – W: 21.24.969)
Engidalur: 253 m (N: 64.04.821 – W: 21.22.598)
Kolsgil: 313 m (N: 64.06.419 – W:21.19.731)
Frakkastígur – varða (Jónsvarða) staur 198: 324 m (N: 64.07.711. – W: 21.20.197)
Sköflungsháls: 315 m (N: 64.09.366 – W: 21.18.271)
Hæð í göngulok: 221 metrar við Vilborgarkeldu (N: 64.11.996 – W: 21.16.415)
Lækkun göngufólks: 50 metrar
Heildargöngutími: 540 mínútur (09:15 – 18:15)
Erfiðleikastig: 2 skór
Vegalengd: 23 km
Veður: Heiðskýrt, N 4 m/s, 14,1 °C
Þátttakendur: Ferðafélag Íslands, 20 þátttakendur í einni rútu.
GSM samband: Já
Gestabók: Nei
Gönguleiðalýsing: Gengið eftir gamalli þjóðleið. Vel grafin á köflum og sýnileg.

Facebook-status: Stórfróðleg Árbókarferð um Sköflungsveg. Það er magnað hvað forfeður okkar hafa byggt öflugt vegakerfi um Mosfellsheiðina.

Heimild:
Árbók F.Í. 2019 – Mosfellsheiði - landslag, leiðir og saga

Sköflungsvegur - kort

Kort úr Árbók FÍ á bls. 103 sem sýnir Sköflungsveg og Draugatjörn sem lykilstað.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sigurpáll Ingibergsson

Höfundur

Sigurpáll Ingibergsson
Sigurpáll Ingibergsson
Hornfirðingur búsettur í Kópavogi. Árgerð 1965.
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • IMG 4410
  • IMG 4385
  • IMG 4421
  • Á afskekktum stað
  • Tíminn051071

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 3
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 57
  • Frá upphafi: 233595

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 48
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband