9.9.2017 | 22:33
Lónfell (752 m)
og nefndu landið Ísland.
"Þá gekk Flóki upp á fjall eitt hátt og sá norður yfir fjöllin fjörð fullan af hafísum. Því kölluðu þeir landið Ísland, sem það hefir síðan heitið."
Fyrir fjallgöngufólk er ganga á Lónfell skylduganga á fornfrægt fell. Héðan var landinu gefið nafnið Ísland. Fjörðurinn er Arnarfjörður sem blasir við af toppnum. Göngumenn trúa því.
Fjallið er formfagurt og áberandi úr Vatnsfirðinum, ekki síst frá Grund þar sem Hrafna-Flóki byggði bæ sinn og dvaldi veturlangt við illan kost.
Lagt var á Lónfell frá Flókatóftum í Vatnsfirði, upp Penningsdal frá skilti sem á stendur Lómfell og er vel merkt leið á toppinn. Gangan hófst í 413 m hæð og hækkun um 339 metrar. Töluvert stórgrýti er þegar nær dregur fjallinu.
Ofar, í Helluskaði nær vegamótum er annað skilti og hægt að ganga hryggjaleið en mér sýndist hún ekki stikuð og aðstaða fyrir bíla léleg.
Eftir 90 mínútna göngu var komið á toppinn og tók á móti okkur traust varða og gestabók. Við heyrðum í lómi og sáum nokkur lón á heiðinni. Langur tími var tekinn við að snæða nesti og nokkrar jógaæfingar teknar til að hressa skrokkinn.
Á leiðinni rifjuðu göngumenn upp deilur á milli manna á tímum vesturferða og ortu sumir níðvísur um landi og kölluðu það hrafnfundið land en einn af þrem hröfnum Flóka fann landið. Aðrir skrifuðu og ortu um sveitarómantíkina.
Franskt par úr Alpahéruðum Frakklands fylgdi okkur og þekkti söguna um nafngiftina. Þeim fannst gangan áhrifamikil. Ekkert svona sögulegt fjall í Frakklandi.
Af Lónfelli er víðsýnt og þar sér um alla Vestfirði og Vatnsfjörðurinn, Arnarfjörðurinn og Breiðafjörðurinn með sínar óteljandi eyjar lá að fótum okkar.
Lómfell
Á skiltinu við upphaf göngu stóð Lómfell og vakti það athygli okkar. Einnig hafði vinur minn á facebook gengið á fellið daginn áður og notaði orðið Lómfell. Ég taldi að hann hefði gert prentvillu. Hann hélt nú ekki! Er hér Hverfjall/fell deila í uppsiglingu?
Ég spurði höfund göngubókar um Barðaströnd, Elvu Björg Einarsdóttur um örnefnin en hún ólst upp við að fjallið héti Lónfell og um það töluðu og tala flestir sveitungar hennar. En eftir að björgunarsveitin Lómur var stofnuð um miðjan 9. áratug síðustu aldar fór að bera á Lómfells-heitinu og þá var nafnið skírskotun í fellið - enda mynd af fellinu í merki sveitarinnar og kallmerkið "Lómur."
"Á kortum kemur alls staðar fram Lónfell, nema e.t.v. á þeim yngstu. Örnefnaskrár fyrir Barðaströnd tala einnig um Lónfell en á einum stað í örnefnaskrá fyrir bæ í Arnarfirði sá ég talað um Lómfell. Ég hef rætt málið við stofnun Árna Magnússonar (Örnefnastofnun) og þar segja þau mér að vera sæla með að svo mikill hljómgrunnur sé í heimildum fyrir "Lónfelli" en fyrst að fólk nefni fjallið einnig "Lómfell" sé ekki hægt að skera úr um hvort sé réttast - svo sé oft um örnefni og að þau breytist - það vitum við.
Margir Barðstrendingar voru hvumsa við að sjá nafnið á skiltinu og ég held að mikilvægt sé að setja upp annað skilti þar sem nafnið ,,Lónfell" kemur fram - líklega er réttast að þau standi bæði :)"
Upplifun við söguna er engu líki og vel áreynslunnar virði.
Stórgrýtt leið. Ýsufell, Breiðafell, Klakkur og Ármannsfell rísa upp. Norðan þessara fjalla lá hinn forni vegur Hornatær milli Arnarfjarðar og Vattarfjarðar.
Hér sér niður í Arnarfjörð sem er fullur af eldislaxi, hefði landið fengið nafnið Laxaland!
Dagsetning: 3. Ágúst 2017
Hæð: 752 metrar
Hæð í göngubyrjun: 413 metrar við skilti (N:65.37.431 - W:23.13.728)
Lónfell (752 m): (N:65.38.386 - W:23.11.871)
Hækkun: 339 metrar
Uppgöngutími Lónfell: 90 mín (09:40 - 11:10) 3,3 km
Heildargöngutími: 370 mínútur (09:40 - 12:50)
Erfiðleikastig: 2 skór
Vegalengd: 6,6 km
Veður kl. 12.00: Skýjað, NNA 2 m/s, 12°C
Þátttakendur: Villiendurnar 7 þátttakendur
GSM samband: Já
Gestabók: Já
Gönguleiðalýsing: Mjög vel stikuð leið með stórgrýti er á gönguna líður
Heimild:
Barðastrandarhreppur göngubók, Elva Björg Einarsdóttir, 2016
Meginflokkur: Ferðalög | Aukaflokkar: Lífstíll, Vísindi og fræði, Umhverfismál | Breytt 15.9.2017 kl. 14:06 | Facebook
Um bloggið
Sigurpáll Ingibergsson
Færsluflokkar
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Enski boltinn
- Evrópumál
- Ferðalög
- Fjármál
- Fjölmiðlar
- Heilbrigðismál
- Heimspeki
- Íþróttir
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Lífstíll
- Ljóð
- Löggæsla
- Mannréttindi
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Pepsi-deildin
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Sveitarstjórnarkosningar
- Tónlist
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 5
- Sl. sólarhring: 6
- Sl. viku: 59
- Frá upphafi: 233597
Annað
- Innlit í dag: 5
- Innlit sl. viku: 50
- Gestir í dag: 5
- IP-tölur í dag: 5
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.