13.6.2017 | 16:23
Land föður míns
Ich bin ein Berliner!
Ég heimsótti Berlín í vor yfir helgi, naut lífsins og kynntist sorglegri sögu borgarinnar. Hótelið var á Alexanderplatz stutt frá helsta stolti Austur-Þýskalands, 368 m háum sjónvarpsturni milli Maríukirkjunnar og rauða ráðhússins, en hverfið tilheyrði Austur-Berlín og því sáust styttur af Karl Marx og Friedrich Engels í almenningsgörðum. Húsin í hverfinu voru í austurblokkarstíl en þegar gengið var eftir skemmtigötunni: Unter den Linden", sem er veglegasta gatan í Berlín tók glæsileikinn við.
Þar var Humboldt háskólinn sem hefur alið 29 nóbelsverðlaunahafa, Dómkirkjan, DDR-safnið, safnaeyjan, glæsileg sendiráð, áin Speer með fljótabátinn Captain Morgan. Trabantar í öllum litum vöktu athygli og við enda götunnar er helsta kennileiti Berlínar, Brandenborgarhliðið. Skammt frá hliðinu er Þinghús Þýskalands með sína nýtísku glerkúlu.
Íslenska sendiráðið í Berlín var einnig heimsótt en það er sameiginlegt með Norðmönnum, Svíum, Finnum og Dönum. Flott hönnun, sameiginleg móttaka en sjálfstæðar sendiráðsbyggingar. Vatnið milli sendiráðanna á reitnum táknar hafið á milli landanna.
Í mat og drykk var þýskt þema. Hofbrau-Berlin var heimsótt, ekta þýskur bjórgarður og snætt svína schnitzel með Radler bjór. Síðar var Weihnstephan veitingastaðurinn heimsóttur og snætt hlaðborð frá Ölpunum sem vakti mismikla lukku.
Í borgarferðum er nauðsynlegt að fara í skipulagða skoðunarferð og þá bættist við sagan um 17. júní strætið, leifar af Berlínarmúrnum sem klauf borgina í tvennt, nýbyggingar á dauða svæðinu á Potsdamer Platz, Neukölln, Tempelhof flugvöllurinn, Bessastaði Þýskalands, Bellevue Palace eða forsetahöllina, tómt heimili kanslarans en núverandi kanslari, Angela Merkel býr í eigin íbúð, umhverfisvænt umhverfisráðuneyti, Checkpoint-charlie, Zoo Station sem minnti á Actung Baby plötu U2, heimili Bowie á Berlínarárum hans, höfuðstöðvar Borgarlínu Berlínar, HB, kebab, aspars og Berliner weissbier.
Hjá Zoo Station mættust gamli og nýi kirkjutíminn. Hálfsprengd minningarkirkja Vilhjálms keisara minnti á heimsstyrjöldina síðari en hryðjuverk voru framin þarna 19. desember 2016 þegar 11 létust er vörubifreið var ekið á fólk á jólamarkaði.
Minningarreitur um Helförina var heimsóttur. 2.711 misstórar gráar steinblokkir sem minna á líkkistur. Aldrei aftur kom í hugann. Kaldhæðnislegt að jarðhýsi Hitlers var stutt frá.
Áhrifamikill staður var minningarreitur í Treptower Park um sovéska hermenn sem féllu í orrustunni um Berlín í apríl-maí 1945. Um 80.000 féllu og eru 5.000 hermenn Rauða hersins grafnir þarna.
Á leiðinni að stærsta minnismerkinu, 12 metra styttu af hermanni með sverð og brotinn hakakross, haldandi á barni voru steinblokkir sem táknuðu eitt af ráðstjórnarríkjunum.
Land föður míns
Þegar hugurinn reikaði um orrustuna um Berlín í Treptower garðinum þá rifjaðist upp að hafa heyrt um bók, Land föður míns eftir þýsku blaða- og sjónvarpskonuna Wibke Bruhns. Ég varð ákveðinn í að kaupa þessa bók og lesa strax við heimkomu.
Bókin er stórmerkileg og mjög áhrifamikil eftir stutta Berlínarferð. Maður lifði sig betur inn í söguna og hápunkturinn er þegar Wibke lýsir gönguferð föður síns eftir götunni Unter den Linden eftir loftárás bandamanna. Flestar byggingar hrundar og eldur logaði víða. Vatnslaust og rústir þriðja ríkisins blasa við. Þetta kallaði á gæsahúð.
Lesandinn fær beint í æð í einum pakka sögu Þýskalands allt frá því það var keisaradæmi, atburðarás tveggja styrjalda og hina undarlegu sögu millistríðsáranna með uppgangi Nasista. Um leið og höfundurinn rekur sögu fjölskyldu sinnar reynir hún að greina afstöðu þeirra og þátttöku í voðaverkum stríðsins.
Wibke hefur úr miklu magni af skjölum föður síns og ættar sinnar Klamrothanna í Halberstadt sem voru efnamiklir kaupsýslumenn og iðnjöfrar. Hún nær að kynnast foreldrum sínum upp á nýtt og miðla okkur af heiðarleika, ekkert er dregið undan.
Meginflokkur: Bækur | Aukaflokkar: Ferðalög, Utanríkismál/alþjóðamál | Facebook
Um bloggið
Sigurpáll Ingibergsson
Færsluflokkar
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Enski boltinn
- Evrópumál
- Ferðalög
- Fjármál
- Fjölmiðlar
- Heilbrigðismál
- Heimspeki
- Íþróttir
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Lífstíll
- Ljóð
- Löggæsla
- Mannréttindi
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Pepsi-deildin
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Sveitarstjórnarkosningar
- Tónlist
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (3.12.): 2
- Sl. sólarhring: 4
- Sl. viku: 32
- Frá upphafi: 233668
Annað
- Innlit í dag: 2
- Innlit sl. viku: 31
- Gestir í dag: 2
- IP-tölur í dag: 2
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.