26.12.2011 | 20:17
Smyrlu vantar vatn í sig
Ský, ský ekki burt með þig.
Smyrlu vantar vatn í sig.
Ský, ský rigndu á mig.
Einhvernvegin svona var textinn sem Hornfirsk ungmenni sungu um jólin 1973 og sneru úr vinsælu lagi, Sól skin á mig, sem Sólskinskórinn gerði vinsælt á því herrans ári.
En þá voru vötn Smyrlabjargaárvirkjunnar vatnslítil og rafmagnsframleiðsla í lágmarki. Því þurfi að skammta rafmagn. Þorpinu var skipt í tvö svæði og fékk hvor hluti rafmagn tvo tíma í senn yfir háannatímann.
Myrkrið var svo þétt að fólk komst tæplega milli húsa, og næturnar svo dimmar að maður týndi hendinni ef hún var rétt út.
Fyrir krakka var þessi tími skemmtilegur og ævintýraljómi yfir bænum en fullorðnir voru áhyggjufullir. Indælt var myrkrið, skjól til að hugsa í, hellir til að skríða inn í en myrkhræðslan var skammt undan. Frystihúsið gekk fyrir og helstu iðnfyrirtæki. Skólanum var stundum seinkað og man ég eftir að hafa mætt klukkan 8 einn morguninn og enginn annar. Ég hafði misst af tilkynningunni. Mér leið þá eins og nafna mínum sem var einn í heiminum. Það var eftirminnilegur morgunn.
Svarthvíta sjónvarpið var það öflugt að hægt var að tengja það við rafgeymi úr bíl. En tveir bifvélavirkjar sem bjuggu á staðnum virkjuðu þessa tækni. Því var hægt að horfa á sjónvarpið í rafmagnsleysinu og man ég sérstaklega eftir þætti úr Stundinni okkar. Bjargaði þetta sunnudeginum hjá krökkunum á Fiskhólnum. Það mátti ekki missa af Glámi og Skrámi.
En svo kom skip til rafmagnslausa þorpsins. Ljósavélarnar á rannsóknarskipinu Bjarna Sæmundssyni gátu leyst vandann tímabundið. Það var mikil og stór stund þegar skipið sigldi inn Ósinn, flestir ef ekki allir bílar bæjarins mættir til að heiðra bjargvættinn. Mig minnir að bílaröðin hafi ná frá Óslandi, óslitið að Hvammi. Stemmingin var mikil.
Frétt úr Morgunblaðinu 30. desember 1973 um orkuskort á Höfn og í nágrannasveitum.
Frétt úr Þjóðviljanum, 8. janúar 1974 en þá var lífið orðið hefðbundið. Gastúrbína komin á hafnarbakkann og Smyrla farin að rokka.
Meginflokkur: Lífstíll | Aukaflokkar: Umhverfismál, Fjölmiðlar | Facebook
Um bloggið
Sigurpáll Ingibergsson
Færsluflokkar
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Enski boltinn
- Evrópumál
- Ferðalög
- Fjármál
- Fjölmiðlar
- Heilbrigðismál
- Heimspeki
- Íþróttir
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Lífstíll
- Ljóð
- Löggæsla
- Mannréttindi
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Pepsi-deildin
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Sveitarstjórnarkosningar
- Tónlist
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 3
- Sl. sólarhring: 4
- Sl. viku: 57
- Frá upphafi: 233595
Annað
- Innlit í dag: 3
- Innlit sl. viku: 48
- Gestir í dag: 3
- IP-tölur í dag: 3
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Fann þessa frétt á hornafjordur.is
15.06.2010 Júní
Kom síðast til Hafnar fyrir 37 árum þeirra erinda að færa Hafnarbúum birtu og yl
Hafrannsóknarskipið Bjarni Sæmundsson kom til Hafnar í gærmorgun og lagðist að Álaugareyjarbryggju um kl.9.00 og var erindið að fá viðgerðarmann til að gera við ljósleiðara í dvergkafbát sem notaður er við neðansjávar myndatökur.
Síðast kom þetta skip til Hafnar fyrir 37 árum veturinn 1973 og þá þeirra erinda að færa Hafnarbúum birtu og il og kannski töluvert meira, því segja má að með komu skipsins hafi jólin fengið á sig þann blæ sem hæfir þeirri hátíð. Fyrir jól þetta ár 1973 varð Smyrla vatnslaus díselvélarnar á Höfn önnuðu ekki rafmagns þörfinni, rafmagnið var skammtað, götulýsing slökkt, skólahald fór úr skorðum, fólk flutti úr flest öllum húsum sem voru illa einangruð. Búið var um þá sem fluttu að heiman á Hótel Höfn. Síðast en ekki síðst þá fór atvinnulíf á staðnum úr skorðum. Fengin var á staðinn færanleg ljósavél sem því miður bilaði á aðfangadag jóla svo að ástandið lagaðist aðeins í stuttan tíma. Við þessar aðstæður bjó fólk á Höfn sig undir jólahaldið. En þá kom Hafrannsóknarskipið Bjarni Sæmundsson með sínar öflugu rafmagnsvélar sem tengdar voru við veitukerfi Hafnar og allt var upplýst á ný. Skipið var svo hér á Höfn þar til ástandið í raforkumálunum komst í eðlilegt horf. Segja má að Hornfirðingar hafi kvatt þetta skip með hlýjum hugsunum og góðum óskum þegar það fór frá Höfn eftir að hafa lýst upp seinni daga jóla og áramótin 1973-1974.
http://www2.hornafjordur.is/frettir/2010/06/nr/7835
Sigurpáll Ingibergsson, 26.12.2011 kl. 20:36
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.