Færsluflokkur: Matur og drykkur
28.2.2017 | 14:01
Einbreiðar brýr í Ríki Vatnjaökuls - endurskoðað áhættumat
Undirritaður endurskoðaði áhættumat fyrir einbreiðar brýr í Ríki Vatnajökuls um síðustu helgi og greindi umbætur frá áhættumati sem framkvæmt var fyrir tæpu ári síðan. í ágúst 2016 var framkvæmt endurmat og hélst það óbreytt. Þingmönnum Suðurkjödæmis, Vegagerðinni og fjölmiðlum var sent áhættumaið ásamt myndum af öllum einbreiðum brúm.
1) Það eru komin blikkljós á allar 21 einbreiðu brýrnar í Ríki Vatnajökuls, blikkljós voru aðeins fjögur fyrir ári síðan.
2) Undirmerki undir viðvörun: 500 m fjarlægð að hættu. Þetta merki er komið á allar einbreiðar brýr í Ríki Vatnajökuls.
3) Lækkun á hraða á Skeiðarárbrú.
Snjór og hálkublettir voru á vegi svo ekki sá vel á málaðar aðvaranir á veg, þrengingar og vegalínur.
Það er mikil framför að hafa blikkljós, þau sjást víða mög vel að, sérstaklega þegar bein aðkoma er að vegi.
Því breyttist áhættumatið á 8 einbreiðum brúm. Sjö fóru úr áhættuflokknum "Dauðagildra" í áhættuflokkinn "Mjög mikil áhætta".
Ein einbreið brú, Fellsá fór í mikil áhætta en blikkljós sést vel.
Hins vegar þarf að huga að því að hafa tvö blikkljós eins og á Jökulsá á Sólheimasandi en öryggi eykst, t.d. ef peran springur eða verður fyrir hnjaski en fylgjast þarf með uppitíma blikkljósanna.
Því ber að fagna að þessi einfalda breyting sem kostar ekki mikið hefur skilað góðum árangri. Ekkert alvarlegt slys hefur orðið síðan blikkljósin voru sett upp en umferð ferðamanna, okkar verðmætasta auðlind, hefur stóraukist og mikið er um óreynda ferðamenn á bílaleigubílum á einum hættulegasta þjóðveg Evrópu.
T.d. var svo mikið af ferðamönnum við Jökulsárlón að bílastæði við þjónustuhús var fullt og bílum lagt alveg að veg og þurftu sumir að leggja á bakkanum vestan meginn og ganga yfir Jökulsárbrú með allri þeirri hættu sem því fylgir.
ROI eða arðsemi fjárfestingar í blikkljósum er stórgott. Merkilegt að það blikkljósin hafi ekki komið fyrr.
En til að Þjóðvegur #1 komist af válista, þá þarf að útrýma öllum einbreiðum brúm. Þær eru 21 í Ríki Vatnajökuls en 39 alls á hringveginum.
Nú þarf metnaðarfulla áætlun um að útrýma þeim, komast úr "mjög mikil áhætta" í "ásættanlega áhætta", en kostnaður er áætlaður um 13 milljarðar og hægt að setja tvo milljarða á ári í verkefnið. Þannig að einbreiðu brýrnar verða horfnar árið 2025!
Útbúin hefur verið síða á facebook með myndum og umsög um allar einbreiðu brýrnar, 21 alls í Ríki Vatnajökuls.
https://www.facebook.com/EinbreidarBryr/
Fleiri mögulegar úrbætur á meðan einbreitt ástand varir:
- Draga úr ökuhraða þegar einbreið brú er framundan í tíma
- Hraðamyndavélar.
- Útbúa umferðarmerki á ensku
- Fræðsla fyrir erlenda ferðamenn
- Virkja markaðsfólk í ferðaþjónustu, fá það til að ná athygli erlendu ferðamannana á hættunni án þess að hræða það
- Nýta SMS smáskilaboð eða samfélagsmiðla
- Betra viðhald
Akstur og áfengi
Akstur og áfengi fer ekki saman. Nú fer öll orka í svokallað áfengisfrumvarp. Í frétt frá Landlækni á ruv.is kemur í ljós að samfélagslegur kostnaður á ári getið orðið 30 milljarðar á ári sverði meingallað áfengisfrumvarp að lögum.
Hér er frétt á ruv.is: Samfélagskostnaður yfir 30 milljörðum á ári.
"Rafn [hjá Landlækni] segir að rannsóknirnar sýni að kostnaður þjóðarinnar yrði ekki eingöngu heilsufarslegur, heldur líka einfaldlega efnahagslegur. Hann gæti numið yfir þrjátíu milljörðum króna á ári."
En það kostar 13 milljarða að útrýma einbreiðum brúm á þjóðveginum. Rúmlega tvöfalt meiri kostnaður verði áfengisfrumvarp að lögum!
Upp með skóflurnar og hellum niður helv... áfengisfrumvarpinu. Annars má hrósa þingmönnum Suðurkjördæmis, sýnist hlutfallið endurspegla þjóðina en um 75% landsmanna eru á móti áfengisfrumvarpinu, svipað hlutfall og hjá þingmönnum Suðurkjördæmis.
16.11.2014 | 01:25
Tékkland - Ísland og gullni pilsner-bjórinn
Tékkland og Ísland leika forkeppni EM 2016 í dag í Pilsen. Það er því góð tenging að fjalla um Tékkland og bjór í dag þegar jólabjórinn tekur völdin.
Tékkland er mesta bjórþjóð veraldar og er bjórneysla á mann 149 lítrar á ári. Slá þeir út Austurríki með 108 og Þjóðverja með 106 lítra. Ísland er í 37. sæti með 45 lítra og lægra en á FIFA-listanum en Ísland er þar í 28. sæti.
Fyrst Tékkland,land lagersins er í beinni í kvöld, þá verður maður að rifja upp og upplifa bjórsöguna og láta hugann leita til Pilsen. Þar er merkilegt brugghús, musteri brugglistarinnar, Pilsner Urquell Brewery. Þar var fyrsti gullni bjórinn með botngerjun eða kaldri gerjun bruggaður árið 1842. Tími pilsnersins var þá runninn upp og markaði upphaf lagerbjórsins. Tærleiki hans er í glasið kom var aðlaðandi og samsetning ilms og bragðs, sem var maltkennd en með indælum humla og bitterkeim, heillaði alla er á honum smökkuðu. Svo vel hefur gullni bjórinn frá Bæheimi (Bohemia) lagst í Íslendinga að 97% af seldum bjór í Vínbúðunum er lagerbjór.
Bjór má skipta gróft upp í tvo flokka, öl (ale) og lager. Öl er bruggað með gertegund sem vinnur mest við yfirborðið en í lager er notaður ger sem vinnur mest við botninn við kaldara hitastig. Síðan tekur við langt geymsluferli, lagering.
Það er gaman að fara í skoðunarferð um bruggverksmiðjuna sem framleiðir Pilsner Urquell og anda að sér bjórsögunni. Nokkrir stuðningsmenn Íslands heimsóttu hana fyrir leikinn. En eikartunnur frá frystu lögn, fyrir 172 árum, eru til sýnis fyrir ferðamenn. Einnig er gengið um kaldan kjallarann og hápunkturinn er sopi af ósíuðum og ógerilsneyddum pilsner bruggaður í eikartunnu. Þreföld humlun er lykilinn. Bjórinn er gjöf náttúrunnar til mannsins.
En hvernig fer svo landsleikurinn: Spái Tékkum 1-0 sigri á Struncovy Sady Stadion í Pilzen. Klókt hjá Tékkum að spila leikinn í vaxandi Pilsen-borg, þaðan koma flestir landsliðsmennirnir, fimm frá Viktoria PlzeÅ og þjálfarinn. En völlurinn er lítill, tekur 11.700 manns, litlu meira enn Laugardalsvöllur.
Inngangurinn í elsta Pilsner-brugghúsið (Burgher's brugghúsið) minnir meira á sigurboga en hlið. Vatnsturninn, 46 metra hár sést í gegnum hliðið og minnir á mínarettu á mosku. Háir reykháfar standa upp úr brugghúsinu, musteri brugglistarinnar og smekklegar vöruskemmur sjást. Á bakvið strætóinn sem keyrir gesti um bruggþorpið er Pilsen bjórlestin sem flutti vörur á hverjum morgni til Vínar. Brugghúsið er mjög stutt frá leikvellinum.
Heimild:
Wikipedia: http://en.wikipedia.org/wiki/List_of_countries_by_beer_consumption_per_capita
Matur og drykkur | Breytt s.d. kl. 01:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
21.6.2012 | 13:47
Tékkland og gullni pilsner-bjórinn
Tékkland og Portúgal leika í 8-liða úrslitum EM 2012 í dag. Það er því góð tenging að fjalla um Tékkland og bjór í dag.
Tékkland er mesta bjórþjóð veraldar og er bjórneysla á mann 159 lítrar á ári. Slá þeir út frændur okkar Íra með 131 lítra og Þjóðverja með 110 lítra. En þessi lið er öll í úrslitakeppni EM.
Fyrst Tékkland, land lagersins er í beinni í kvöld, þá verður maður að rifja upp og upplifa bjórsöguna og láta hugann leita til Pilsen, musteri bruggmenningarinnar. Þar er merkilegt brugghús, musteri brugglistarinnar, Pilsner Urquell Brewery. Þar var fyrsti gullni bjórinn með botngerjun eða kaldri gerjun bruggaður árið 1842. Tími pilsnersins var þá runninn upp og markaði upphaf lagerbjórsins. Tærleiki hans er í glasið kom var aðlaðandi og samsetning ilms og bragðs, sem var maltkennd en með indælum humla og bitterkeim, heillaði alla er á honum smökkuðu. Svo vel hefur gullni bjórinn frá Bæheimi (Bohemia) lagst í Íslendinga að 98% af seldum bjór í Vínbúðunum er lagerbjór.
Bjór má skipta gróft upp í tvo flokka, öl (ale) og lager. Öl er bruggað með gertegund sem vinnur mest við yfirborðið en í lager er notaður ger sem vinnur mest við botninn við kaldara hitastig. Síðan tekur við langt geymsluferli, lagering.
Það er gaman að fara í skoðunarferð um bruggverksmiðjuna sem framleiðir Pilsner Urquell og anda að sér bjórsögunni. En eikartunnur frá frystu lögn, fyrir 170 árum, eru til sýnis fyrir ferðamenn. Einnig er gengið um kaldan kjallarann og hápunkturinn er sopi af ósíuðum og ógerilsneyddum pilsner bruggaður í eikartunnu. Þreföld humlun er lykilinn. Bjórinn er gjöf náttúrunnar til mannsins.
Inngangurinn í elsta Pilsner-brugghúsið (Burgher's brugghúsið) minnir meira á sigurboga en hlið. Vatnsturninn, 46 metra hár sést í gegnum hliðið og minnir á mínarettu á mosku. Háir reykháfar standa upp úr brugghúsinu, musteri brugglistarinnar og smekklegar vöruskemmur sjást. Á bakvið strætóinn sem keyrir gesti um bruggþorpið er Pilsen bjórlestin sem flutti vörur á hverjum morgni til Vínar.
Matur og drykkur | Breytt s.d. kl. 13:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
31.12.2011 | 00:22
Árið kvatt með Kampavíni frá Gulu ekkjunni
Það er góð hefð að skála í freyðivíni um áramótin. Áramótin eru tími freyðivínanna. Gula ekkjan verður fyrir valinu í ár.
Sagan á bakvið kampavínið hefst í héraðinu Champagne í Frakklandi árið 1772. Þá stofnaði Philippe Clicquot-Muiron, fyrirtækið sem með tímanum varð house of Veuve Clicquot. Sonur hans François Clicquot, giftist Barbe-Nicole Ponsardin árið 1798 og lést hann 1805. Því varð Madame Clicquot ekkja 27 ára gömul og stóð uppi með fyrirtæki sem var í bankastarfsemi, ullariðnaði og kampavínsframleiðslu. Hún átti eftir að hafa mikil áhrif á síðasta þáttinn.
Þegar Napóleon stríðin geysuðu náðu vínin útbreiðslu í Evrópu og sérstaklega við hirðina í Rússlandi. Aðeins 7% af framleiðslu fyrirtækisins selt í Frakklandi, annað var selt á erlenda markaði. Þegar ekkjan lést 1866 var vörumerkið orðið heimsþekkt og sérstakega guli miðinn á flöskunni. Því fékk vínið nafnið Gula ekkjan. En veuve er franska orðið yfir ekkju.
En Barbe-Nicole Ponsardin var frumherji. Ekkjan fann upp nýja aðferð við að grugghreinsa kampavín. Hún og starfsmenn hennar hófu að stilla kampavínsflöskum í rekka þannig að hálsinn snéri niður. Þá þurfti annað slagið að hrista og snúa flöskunum í rekkunum, til þess að óhreinindin söfnuðust öll að tappanum. Flaskan var opnuð og það fyrsta sem þrýstingurinn losaði úr flöskunni var gruggið. Þetta þýddi að mun minna fór til spillis en áður hafði gert. Fram að þessu hafði vínið verið geymt á flöskunum liggjandi á hliðinni og safnaðist botnfallið niður á hlið flöskunnar. Þetta hafði það í för með sér að umhella þurfti öllu víninu og alltof mikið úr hverri flösku fór til spillis. Nú var aðeins örlítið af víninu sem tapaðist og einungis þurfti að fylla smá viðbót á hverja flösku til að vera kominn með vöruna í söluhæft form. Þessi aðferð Ponsardin ekkjunnar fékk nafnið Méthode Champenoise.
Það er allt annað að drekka Kampavín í lok ársins þegar maður þekkir söguna á bakvið drykkinn. Vín með sögu og persónuleika. Viðing við drykkin eykst og þekking breyðist út. Þroskaðri vínmenning verður til. Konur ættu hiklaust að hugsa til ekkjunnar við fyrsta sopa og hafa í huga boðskapinn fyrir 200 árum.
Alvöru dömur áttu ekki að innbyrða neitt nema humarsalat og kampavín og kampavín á að vera eina áfengið sem gerir konur fallegri eftir neyslu þess.
Í Fréttatímanum segir um Veuve Clicquot Ponsardin Brut: Þurrt með mildum sítruskeimi sem sker í gegn en þó gott jafnvægi á tungunni milli beiskju og sætu. Þegar á líður kemur pera og meiri ávöxtur í gegn. Mjög gott Kampavín. Áfengisstyrkur, 12%. Fær drykkurinn 4 glös af 5 mögulegum í einkunn.
Heimildir:Bar.is Þróun víns og víngerðar til okkar daga. 12. hluti, gula ekkjan
Facebook Gula ekkjan
Fréttatíminn Matur og vín
Vinbudin.is Veuve Clicquot Ponsardin Brut
Wikipedia Veuve_Clicquot
4.8.2011 | 15:19
Gæðingur öl
Þegar ég kem í vínbúð þá leita ég eftir nýjungum í bjór. Oftast kaupi ég bjór sem ég hef aldrei smakkað. Býð samferðamönnum upp á og hefst þá oft góð bjórumræða. Ekki átti ég von á nýjum íslenskum bjór þegar ég heimsótti Vínbúðina á Sauðárkróki. Á móti mér tók stæða af nýjum bjór, framleitt af Gæðingur Öl, frá Útvík í Skagafirði (ekki Útey).
Ég valdi nokkrar flöskur af stout og jafnmikið af lager. Rétt á eftir mér kom í búðina hress Skagfirðingur og hóf hann að hrósa bjórnum frá Gæðing Öl í hástert. Sagði að Skagfirðingar drykkju ekkert annað núorðið en Gæðingsbjór. Fyrst byrjuðu þeir á dökka bjórnum og sneru sér síðan að lagernum. "Mjög vel heppnað hjá Útvíkurbændum."
Ég komst einnig að því að hægt er að sjá bæinn á leiðinni frá Króknum, rauður bær og á vef þeirra er sagt að framleiðslugetan sé 300 þúsund lítrar á ári, einn líter á Íslending.
Ég bætti nokkrum Gæðingum í körfuna.
Skagfirsku formúlunni var fylgt við smökkun og byrjað á Gæðingur Stout. Á vef framleiðanda segir: "Gæðingur Stout er kolsvart bragðmikið ósíað öl með gerfalls botni. Þroskaferill Stoutsins er öllu notalegri en Lagersins, því eftir 5-6 daga í gertankinum við stofuhita, er honum tappað á flöskur, þar sem hann verður að þroskuðum úrvals bjór á um þremur vikum. Það er ekki þar með sagt að hann sé fullþroska, en hann stendur vel fyrir sínu, þótt hann sé ekkert sumra, frekar en aðrir Stout bjórar, meðan aðrir sjá ekki einu sinni Lagerinn fyrir honum. Gæðingur Stout er 5,6% vol.
Ég get tekið undir með smakkara hjá Bjórbókinni, þetta er vel lukkaður stout sem menn ættu að ráða vel við.
Síðan var komið að Gæðingur Lager en á vef þeirra segir:
Alltaf gaman að nýjum bruggsprotum og vonandi næst markmið Gæðinga:
"Við stundum ölgerð, þar sem hugarfóstur verður að handverki. Við erum gamaldags og eitt helsta markmið okkar sem brugghús, er að bæta við fjölbreytni bjórflóru Íslands; reyna að bjóða uppá eitthvað nýtt, ekki bara öðruvísi miða á flöskurnar."
Gæðingur Stout er góð byrjun.
Heimildir:
http://gaedingur-ol.is/
http://www.vinbudin.is/DesktopDefault.aspx/tabid-54?productID=19172
http://www.vinbudin.is/DesktopDefault.aspx/tabid-54?productID=19173
http://bjorspjall.is/?page_id=3624
http://www.bjorbok.net/GaedingurStout.htm
Matur og drykkur | Breytt s.d. kl. 15:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.3.2011 | 22:11
Páskabjór - þrír á toppnum
Þegar maður sér á mynd hvað mikið vatn þarf til að framleiða eina bjórflösku þá bregður mann og maður þarf að vanda valið. En forsíðumynd Fréttablaðsins um helgina sýndi vatnsflöskustaflann.
Nú er páskabjórinn kominn á markað og eru fjórar tegundir að berjast um hylli neytenda. Víking er með tvo bjóra, Víking Páskabjór og Víking Bock. Svo er Kaldi Páskabjór og Lilja Páskabjór frá Ölvisholti. Tegundunum hefur fækkað milli ára, voru fimm í fyrra en bruggaðferðir eru fjölbreyttar og greinilegt að bruggmeistarar eru að prófa sig áfram.
Til að finna út hvaða páskabjór væri bestur var efnt til bjórsmökkunar. Fjórir sérfræðingar með stert lyktar- og bragðskyn auk skoðana var fengið í kviðdóm. Smökkunin var blindandi og gáfu menn einkunnir á bilinu 0-10.
Víking Páskabjór kom best út úr smökkuninni. Minnti hann helst á páskana. Karamella var áberandi og greina mátti súkkulaði. Í hann eru notaðar þrjár tegundir af dökku malti til að fá aukna fyllingu og keim af karamellu, súkkulaði og kaffi.
Kaldi Páskabjór nartaði í hælana á Viking. Voru menn á því að þessir tveir bjórar væru líkir. Fyrir viku var óformlegt smakk og fannst meir karamella í bjór frá Kalda. Er spurningin hvort mikill munur sé á framleiðslunni úr Sólarfjalli fyrir norðan.
Víking Bock er nýjung á markaðnum en jólabjórinn úr Bock var mjög vel heppnaður. Því var mjög spennandi að smakka hann. Lakkrísbragð töldu menn sig finna úr ristuðu maltinu.
Bock bjórstíllinn á ættir sínar að rekja til Þýskalands. Bock bjór var jafna bruggaður til hátíðarbrigða og hafður aðeins sterkari en sá sem notaður var til daglegrar neyslu. Bock þýðir geit á þýsku en margar og mismunandi þjóðsögur eru af því hvernig heiti bockbjórsins er tilkomið.
Ölvisholtsmenn hafa verið óhræddir við að fara óhefðbundnar slóðir. Nú var boðið upp á humlasprengju. Lilja er toppgerjað koparlitað öl með vænum skammti af ilmandi Amarillo humlum. Aðferðin við humlun þessa öls nefnist þurrhumlun. Humlunum er bætt í lagertank að gerjun lokinni. Þá leysast bragð og ilmolíur humlana hægt og rólega í ölið sem skilar sér í fersku og áberandi humlabragði. Minnti á Freyju, bjór sem þeir framleiða. Grösugur, appelsína og sumir fundu til hóstamixtúru. Féll hann síst í kramið hjá smökkurum þó páskar séu framundan.
Vatninu sem fer í að rækta byggið er ekki illa varið. Gæðabjór sem vex úr grasi og við mælum með honum um páskana.
Tegund | Styrkur | Flokkur | Litur | Verð | Hækkun | Lýsing | Stig |
Víking páskabjór | 4,8% | Lager | Rafbrúnn | 329(309) | 6,3% | Meðalfylling, þurr, ferskur, miðlungs beiskja. Léttristað korn, karamella, sítrus, mosi. | 28,5 |
Kaldi páskabjór | 5,2% | Lager | Rafbrúnn | 355 (329) | 7,8% | Meðalfylling, þurr, ferskur, lítil beiskja. Létt malt, karamella, léttkryddaðir humlar. | 27,5 |
Víking páska Bock | 6,7% | Lager | Rafbrúnn | 419 | Nýr | Mjúk fylling, sætuvottur, ferskur, miðlungs beiskja. Mjúkristað korn, rjómakaramella, hey | 26,5 |
Lilja páskabjór | 5,7% | Öl | Rafrauður | 367 (399) | -8,7% | Skýjaður. Meðalfylling, þurrt, fersk sýra. Karamela, malt, þurrkaðir ávextir, blóm. | 20 |
Skjámynd af forsíðu Fréttablaðsins sem sýnir allt vatnið sem þarf til í eina bjórflösku.
Matur og drykkur | Breytt 28.3.2011 kl. 12:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.2.2011 | 22:48
Íslenskt bygg 90% í Egils þorrabjór
Einkunnarorð Ara "Fróða" Þorgilssonar voru að hafa það heldur, er sannara reynist. Ég ætla því að bæta við færslu um þorrabjór réttum upplýsingum um íslenskt bygg. Um leið biðst ég velvirðingar á mistökum mínum, rétt eins og Agnes Bragadóttir gerði í dag út af rangri frétt um blaðamann DV.
Í bloggi mínu um þorrabjór í byrjun þorra, þá hrósaði ég bruggmeisturum Ölgerðarinnar fyrir að nota íslenskt bygg í þorrabjór sinn. Þar sagði: "Þeir eru stoltir af því að nota íslenskt bygg í framleiðslunni en ég hef grun um að það sé mikið blandað erlendu byggi."
Nú hef ég fregnað að hlutfall íslensks byggs er 9/10 í Egils Þorrabjór.Þorrabjór Ölgerðarinnar í ár er gerður að 9/10 hlutum úr íslensku byggi en það er hærra hlutfall en bjórar á Íslandi hafa nokkru sinni státað af. Íslenska byggið í Þorrabjórnum er ræktað á bænum Belgsholti í Melasveit á Vesturlandi. Ölgerðin hefur í samstarfi við Harald Magnússon, bónda á Belgsholti, unnið að því að þróa bjóra úr íslensku byggi og stutt er í fyrsta bjórinn sem mun eingöngu innihalda íslenskt bygg.
Íslenska byggið hefur sín karaktereinkenni og má greina þau í Egils Premium en þar er það í minnihluta. Það er gaman að fregna af þessari nýsköpun en aðferðin að brugga úr ómöltuðu byggi er tilraunastarfsemi sem unnin hefur verið síðustu ár í samvinnu Ölgerðarinnar við erlenda aðila og íslenska kornbændur.
Nú bíð ég spenntur eftir fyrsta 100% íslenska byggbjórnum. Vonandi verður hann góð útflutningsvara í framtíðinni og íslenskt bygg og íslenskt vatn á allra vörum.
Á vefnum bjorspjall.is er ágætis grein um ómaltað íslenskt bygg hjá Ölgerðinni við bjórgerð.
Matur og drykkur | Breytt 12.2.2011 kl. 12:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.1.2011 | 12:42
Þorrabjór
Ég sakna Suttungasumbls þorrabjórs frá Ölvisholti á þorranum í ár. Þeir hafa bætt bjórmenninguna hér á landi.
Í boði eru fjórar tegundir af þorrabjór á þorra. Jökull þorrabjór, Kaldi þorrabjór og Egils þorrabjór og Þorrabjór frá Víking. en það er í fyrsta skipti frá árinu 1998/1999 sem þeir bjóða upp á vöruna. Voru allir bjórarnir í 330 ml flöskum og blind smökkun.
Smökkunarmenn þorrabjórsins voru mjög ánægðir með gæði og breidd íslenska þorrabjórsins og voru stoltir yfir því að geta á góða kvöldstund með íslenskri bjórframleiðslu og þjóðlegum íslenskum mat.
Jökull þorrabjór er með mikilli karamellu og því er mikil jólastemming í bjórnum en mjöðurinn er bruggaður eftir þýskri bjórhefð. Var hann dekkstur bjóranna og greindu menn ristað maltbragðið vel. Vatnið úr Ljósufjöllum á Snæfellsnesi er vottað og innihaldið án rotvarnarefna.
Kaldi þorrabjór fer vel með ristað tékkneskt-malt, með ríkt langt og sterkt humlabragð og undir karamellu áhrifum. Hann er laus við rotvarnarefni. Fundu menn fyrir tékkneskum Saaz-humlaáhrifum. Tilvalið að taka með Stinnings-Kalda í leiðinni úr Vínbúðinni.
Víking þorrabjór er með frísklegri beiskju og ríkt humlabragð sem hentar vel með þorramat. Þeir eru með fjórar gerðir af byggi og hveitimalts ásamt blöndu af bæverskum, enskum og amerískum humlum.
Egils þorrabjór er hlutlausastur þorrabjóranna. Ölgerðarmenn taka ekki mikla áhættu. Þeir eru stoltir af því að nota íslenskt bygg í framleiðslunni en ég hef grun um að það sé mikið blandað erlendu byggi. Ágætis ímyndaruppbygging hjá Agli og styrkir sjálfsmyndina á Þorra.
Stemming fyrir árstíðabundnum nýjungum er mikil. Jólabjórinn rokseldist enda mikil gæði í íslenskum brugghúsum. Því ætti þorrabjór að ganga vel í landann á þorra. Ég mæli helzt með þorrabjórunum frá Kalda og Jökli. Víking er með athyglisverða humlasprengju en Egill tekur alltaf minnsta áhættu.
Markaðsdeildir bruggsmiðjanna mega bæta upplýsingaflæðið á heimasíðum sínum.
Allt hefur hækkað frá síðasta ári, nema launin. En hækkunin á þorrabjór er innan þolmarka.
Tegund | Styrkur | Flokkur | Verð | Hækkun | Lýsing |
Egils þorrabjór | 5,6% | Lager | 339 | 6,2% | Ljósgullinn. Létt fylling, þurr, ferskur, miðlungsbeiskja. Blóm, ljóst korn, pipar. |
Jökull þorrabjór | 5,5% | Lager | 352 | 1,4% | Rafbrúnn. Létt fylling, lítil freyðing, þurr, mildur, lítil beiskja. Rúgbrauð, karamella, baunir. |
Kaldi þorrabjór | 5,0% | Lager | 349 | 8,4% | Rafgullinn. Létt fylling, þurr, ferskur, lítil beiskja. Maltbrauð, karamella, hnetur. |
Víking þorrabjór | 5,1% | Lager | 315 | Nýr | Ljósgullinn. Meðalfylling, þurr, ferskur, miðlungsbeiskja. Malt, korn, grösugir humlar |
6.8.2010 | 12:30
Klaustur öl
Klausturöl eða munkaöl er notað yfir belgískan bjórstíl sem bruggaður var í klaustrum í gamla daga til að hjálpa munkunum í gegnum föstuna. Til að greina á milli ekta og óekta klausturöls er orðið Trappist sett á það öl sem bruggað er af munkum innan veggja klaustranna. Trappist þýðir einfaldlega að hér sé ósvikinn klausturbjór á ferð. Klausturöl er yfirleitt mjög sterkt, bragðmikið, stundum sætt og oft dálítið frúttað (þurrkaðir ávextir, bananar ofl).
Í dag eru aðeins til 7 klaustur í heiminum sem brugga hið raunverulega Trappist öl, Chimay, Orval, Rochefort, Westvleteren, Westmalle og Achel sem öll eru í Belgíu og La Trappe í Hollandi.
Þegar ég var í sumarbústað á Kirkjubæjarklaustri hafði ég með mér nokkra klausturbjóra, mér þótti það viðeigandi.
Þegar ég kneyfði munkaölið og sá alla ferðamennina, velti ég því fyrir mér hvort ekki væri grundvöllur fyrir alvöru klausturbjórhátíð á Kirkjubæjarklaustri. Betri staðsetningu á Íslandi er ekki hægt að finna. Systrakaffi væri fínn hátíðarstaður.
Einnig væri hægt að stofna brugghús á Kirkjubæjarklaustri. Brugga þar Klausturbjór, og fara leið Leffe manna, Þó afurðin sé ekki ekta munka öl (Trappist) þá hefur bruggunarferlinu verið viðhaldið frá klausturtímanum. Hægt væri að fá vatnið úr Systravatni eða Systrafossi, sögulegra gæti framleiðsluferlið ekki orðið.
Leffe bjór hefur verið bruggaður síðan 1240 samkvæmt ævagömlum uppskriftum munka Nobertine í klaustursins í Leffe í Belgíu. Þó bjórinn sé ekki lengur bruggaður innan veggja klaustursins, heldur í verksmiðjum Inbev er dýpsta virðing borin fyrir gömlum framleiðsluaðferðum og þær í heiðri hafðar.
Hægt er að fá La Trappe í Vínbúðinni og á tímabili var hægt að fá Orval annað er ekki í boði hér á landi um þessar mundir af munkaöli.
Matur og drykkur | Breytt s.d. kl. 12:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.6.2010 | 10:10
Mexíkóskur matur í sókn
Vinsældir matar frá Mexíkó eru á mikilli uppleið hér á landi sýnist mér. Maturinn hentar vel til að bjóða upp á bragðgóða rétti sem skapa skemmtilegt andrúmsloft við matarborðið. Aðferðirnar eru oftast einfaldar og hentar alla daga.
Ég náði góðri röð í síðustu viku með mexíkóskan mat. Hátíðin byrjaði á föstudaginn 31. maí og stendur yfir enn, rétt eins og gosið í Eyjafjallajökli. Ég hafði lítið um röðina að velja.
Föstudagur: Starfsmannafélagið Vektor stóð fyrir hófi í vinnunni. Einn vinnufélagi bjó til fínar Quesadilla með kjúkling og nautahakki. Pönnukökurnar fylltar ljúfmeti tókust mjög vel hjá honum.
Laugardagur: Frænka mín bauð til stúdentsveislu til að fagna áfanganum. Þar var mexíkósk kjúklingasúpa í aðalrétt. Mjög vel heppnuð. Síðar um kvöldið var Eurovision keppni og mexíkóskar Nacho cheese flögur og Burrito. Ég missti af þeirri hátíð.
Sunnudagur: Borðaði nokkrar mexíkóskar Nacho og Tortilla Chips flögur með mildri mexíkóskri Chunky Salsa sósu frá Tex Mex.
Mánudagur: Var að vinna í Borgartúni. Endaði inn á Serrano og fékk mér Burrito með kjúkling.
Þriðjudagur. Kláraði mexíkósku sósuna og flögurnar frá helginni.
Miðvikudagur: Var boðið í afmælisveislu og þar var kröftug mexíkósk kjúklingasúpa. Kjúklingabringurnar voru öflug uppistaða í súpunni.
Mér fannst þetta flott röð og velti fyrir mér hvort mexíkósk tískusprengja í matargerð væri á Ísland? Einnig velti ég fyrir mér hvort þetta væri eitthvað tákn um að maður ætti að fylgjast með Mexíkó á HM. Þeir löguð heimsmeistara Ítala en matargerð þeirra er rómuð, í æfingaleik á fimmtudag, 2-1.
Það verður mexíkóskt snakk, Nacho eða Tortilla og því dýft í salsasósu yfir leikjum Mexíkó á HM.
Matur og drykkur | Breytt s.d. kl. 10:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Sigurpáll Ingibergsson
Færsluflokkar
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Enski boltinn
- Evrópumál
- Ferðalög
- Fjármál
- Fjölmiðlar
- Heilbrigðismál
- Heimspeki
- Íþróttir
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Lífstíll
- Ljóð
- Löggæsla
- Mannréttindi
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Pepsi-deildin
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Sveitarstjórnarkosningar
- Tónlist
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 1
- Sl. sólarhring: 5
- Sl. viku: 55
- Frá upphafi: 233593
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 46
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar