Færsluflokkur: Umhverfismál

Inn yfir fjall: Fnjóskadalur Bárðardalur

Inn yfir fjall: Fnjóskadalur - Bárðardalur, 30. júlí

Gekk inn yfir fjall í dag. Frá Sörlastöðum í Fnjóskadal að Stóruvöllum í Bárðardal. 16 km ganga, 21.072 skref og 1.240 kkal brenndar eða 10 bananar. Gangan hófst í 250 m í 600 m og endað í 214 m. Vel vörðuð leið.

Bárðardalur er einhver lengsti byggði dalur á Íslandi. Hann er fremur mjór, með allbröttum, grónum, klettalausum hlíðum

Varða í Bárðardal

Dætur Bárðardals við lykilvörðu á Vallnafjalli vestan megin í Bárðardal. Skjálfandafljót rennur eftir dalnum og Valley í Fljótinu. Hlíðskógar er bærinn.

Holuhraun

Vallnafjall

Héðan sést til Holuhrauns en það var göngumönnum algerlega óþekkt enda hálfur mánuður í að jarðskjálftar hæfust í Bárðarbungu og mánuður í eldgos í Holuhrauni.

Vallnafjall er slétt að ofan og greiðfært. Lá alfaraleið yfir það frá Stóru-Völlum í Bárðardal og að Sörlastöðum í Fnjóskadal. Var hún allmikið farin áður, hæð þar um 600 m y.s., og komið niður i Hellugnúpsskarð að norðan, allnokkru innan við Sörlastaði. Leið þessi er um 15 km milli bæja og ágætlega fær á hestum.      (bls. 22, Landið þitt Ísland, U-Ö)

 


Hrafnagjá

Hrafnagjá er ekki vel þekkt. En hún er stutt frá Vogum og minnir á Þingvelli með Almannagjá sem miðpunkt.

Hrafnagjá er tilkomumikil ofan við Voga, með háu hamrabelti sem snýr til fjalla. Hún er mjög djúp á köflum og nokkuð breið milli bakka. Besta upp- og niðurgangan í Hrafnagjá á þessum slóðum er um Kúastíg. Ofan hans á gjárbarminum eru þrjár vörður; Strákar.

Talið er að þær hafi verið nefndar svo vegna þess að þrír strákar, kúasmalar, úr Vogum hafi dundað við að hlaða upp fáeinum steinum, sem síðar voru kenndir við þrjá “Stráka”. Kúastígurinn hefur eflaust verið notaður af selfólki úr Vogunum og e.t.v. hafa verið kúahagar á grasbölunum við ofanverða gjána.

Hrafnagjá er á köflum mjög djúp, minnir á Almannagjá en er þrengri.

Síðan var stefna tekið yfir Huldur, þarna eru víða sprungur er leyna á sér. Komið að Hulugjá en þær eru tilkomuminni en Hrafnagjá.

Hrafnagjá er af mörgum talin fallegri en Almannagjá. 

 Hrafnagjá

Vörðurnar Strákar við Hrafnagjá. Gengið niðu um Kúastíg. Keilir í fjarlægð.

 

Dagsetning: 24. september 2014 
Hæð stígs: Lægst: 14,3 m og hæst: 48,6 m.
GPS hnit Vogaafleggari: (N:63.58.395 - W:22.21.462)  23 m.
Heildargöngutími: 90 mínútur (19:10 - 20:40)
Erfiðleikastig: 1 skór
Vegalengd:  4.0 km 

Skref: 6.200

Orka: 363 kkal eða 3 bananar.
Veður kl. 19 Keflavík: Skýjað, SV 10 m/s,  8,2 °C. Raki 97%. Skyggni 25 km. Skúrir.
Þátttakendur: Útivistarræktin, 7 manns.
GSM samband:  Gott 4G samband.


Gönguleiðalýsing
: Mosavaxið gróft hraun. Gengið meðfram Hrafngjá sem liggur samhliða Reykjanesbraut. Áfram er haldið að Huldum og Huldugjá.

Gönguslóð

Gönguleiðin, 4 km alls. Keyrt eftir Reykjanesbrautinni að gatnamótunum að Vogum. Lagt við hringtorgið.
Gengið um kílómeter að Hrafnagjá og meðfram henni. Síðan yfir jarðsigið Huldur að Huldugjá.

Heimild:

Ferlir.is - Kánabyrgi – Viðaukur – Heljarstígur – Huldur - Kúastígur - Hvíthólar

 


Tóarstígur

Í Afstapahrauni upp af Kúagerði eru sjö gróðurvinjar sem kallaðar eru Tóur á milli þeirra liggur göngustígur sem heitir Tóarstígur. Stígurinn liggur áfram inn að Höskuldarvöllum en endað var við svokallaða Seltó. 

Flestir fara sömu leið til baka en á GPS mæli var slóði út í viðkvæmt hraunið. Eflaust í einhverja tilraunarborholu fyrir tíma umhverfismats.  Við leituðum slóðann uppi og komum inn á veginn að Höskuldarvöllum.

Tóurnar sem eru sjö. Þar var haglendi sæmilegt og er talið að þarna hafi vermenn eða útróðramenn haldið hestum sínum á vertíðum.

Stefna Tóarstígs er að Keili og sást hann oftast og bar af í hrauninu. Mikið sjónarspil i birtunni. Skúraský börðust við sólarljósið og myndaði dulúðlega birtu. Mikið gengið í hrauni og mosa. Skúr helltist yfir okkur í nestispásunni og myndaði glæsilegan regnboga.

Hraunið gleypir alla úrkomu og því er vatn vandfundið á svæðinu, því hefur vistin verið erfið í selinu ef menn og skepnur hafa búið þar um tíma.

Tóarstígur

Tó þrjú er talsvert minni en þar er mikið jarðfall eða ker, Tóarker, er þar gott skjól.

Dagsetning: 3. september 2014 
Hæð stígs: Lægst: 24,3 m og hæst: 91,4 m.
GPS hnit gryfjur: (N:64.00.305 - W:22.10.274)
Heildargöngutími: 150 mínútur (19:10 - 21:40)
Erfiðleikastig: 1 skór
Vegalengd:  8.8 km 

Skref: 11.116

Orka: 611 kkal eða 5 bananar.
Veður kl. 21 Keflavík: Skýjað, N 1 m/s,  9,8 °C. Raki 93%. Skyggni 30 km. Gambur.
Þátttakendur: Útivistarræktin, 26 manns.
GSM samband:  Gott 4G samband.


Gönguleiðalýsing
: Mosavaxið hraun, stígur ógreinilegur á köflum.

 Gönguslóð

GPS-kort sem sýnir leiðina og neðra sýnir hæð og gönguhraða. Nestisstopp um miðja ferð. Gefið í í myrkrinu á veginum að Höskuldarvöllum.

Heimild:

Ferlir.is: Kúagerði - Afstapahraun

 


Fiskidalsfjall (214 m) og Festarfjall (201 m)

VeðurmyndEkið til Grindavíkur og beygt inn á Suðurstrandarveg að námum við Fiskidalsfjall. Þaðan gengið upp suðurhlíðar fjallsins og til norðausturs eftir fjallsbrúninni. Stefnan var síðan tekin að Skökugili og rótum Festarfjall. Eftir nestisstopp var fjallið klifið og útsýnisins yfir Atlantshafið notið.

Þorbjörn er mest áberandi af Fiskidalsfjalli sem og nágranninn Húsafjall en fell í örnefnum eru ekki vel séð þarna. Sjómannabærinn snyrtilegi, Grindavík með allan kvótann sést vel.
Þegar gengið er upp Fiskidalsfjall sést malarnám vel og einnig að þarna hefur verið hluti var varnarsvæðinu í Kalda stríðinu. En rústir eftir möstur og hlustunarstöð sjást berlega milli Húsafjalls og Fiskidalsfjalls. Einnig eru margar fornleifar.

Festarfjall horfði glaðlega mót göngufólkinu. Það var eins og það væri að segja: „Nú er gaman! Nú er gaman!“ …. En Fiskidalsfjall var þungbúið, eins og það væri að hugsa: „Gamanið er stutt.“

Festarfjall er hálft fjall, minnir á Hestfjall. Rúst eldfjalls sem Ægir er sem óðast að brjóta niður. Báðum megin þess eru þykk lög úr svartri ösku sem orðin er að föstu bergi.
Berggangur liggur í gegnum Festarfjall og er Festi (Tröllkonu-festi) sú er fjallið tekur nafn af.

Fjöllin tvö að mestu úr bólstrabergi. Einnig er í því móberg, brotaberg og grágrýtisberggangar. Tveir slíkir mynda „festina“. 


Ljómandi útsýni er af Festarfjalli en víðsýni ekki mikið. Eldey sem minnir á Ellý Vilhjálms ber af í hafinu vestri.  Sýrfell í gufustrókum á Reykjanesinu. Fagradalsfjall og Stóri-Hrútur sem minnir á Keili í norðaustur. Langihryggur densilegur og ber nafn með rentu. Kistufell og Geitahlíð árennileg og risarnir, Mýrdalsjökull og Eyjafjallajökull í austur með Tindfjöll sér til halds og trausts.

Hrólfsvík

Húsafjall og Hrólfsvík ásamt Þórkötlustöðum og sægreifaþorpið Grindavík séð frá Festarfjalli. Ganga þurfti yfir malbikaðan Suðurstrandarveg milli fjalla.

 

Dagsetning: 28. maí 2014 
Hæð Fiskidalsfjalls: 214 m 

Hæð Festarfjalls: 201 m
GPS hnit varða á Fiskidalsfjalli: (N:63.51.562 - W:22.21.961)

GPS hnit varða á Festarfjalli: (N:63.51.434 – W:22.20.246)
Hæð í göngubyrjun:  22 metrar (N:63.51.138- W:22.21.804) hjá malarnámu.
Hækkun: 250 metrar (192 + 58 metrar)          
Uppgöngutími Fiskidalsfjall: 35 mín (19:30 - 20:05) – 860 m ganga.
Heildargöngutími: 150 mínútur (19:30 - 22:00)
Erfiðleikastig: 1 skór
Vegalengd:  6 km 

Skref: 7.517
Veður kl. 21 Grindavík: Alskýjað, SV 6 m/s (7-9 m/s),  9,1 °C. Raki 84%. Gambur.
Þátttakendur: Útivistarræktin, 41 manns með fararstjórum.
GSM samband:  Nei, ekki hægt að ná 4G í byrjun, í suðurhlíðum Fiskidalsfjalls en gott eftir það.


Gönguleiðalýsing
: Brött byrjun í malarnámu við rætur Fiskidalsfjalls. Síðan melar og mosi, yfir malbikaðan Suðurstrandarveg að Siglubergshálsi og þaðan á Festarfjall. Þéttbýli, þjóðvegur og haf, með útsýni um eldbrunnið land.

Húsafjall og Fiskidalsfjall

Húsafjall og Fiskidalsfjall séð frá Festarfjalli.

 

Heimildir:

Íslensk fjöll, gönguleiðir á 151 tind, Ari Trausti Guðmundsson og Pétur Þorleifsson. M&M 2010.

Ferlir.is: http://www.ferlir.is/?id=4127

 

 


Kóngakrabbahátíð

Þær eru válegar fréttirnar um fyrsta kóngakrabbann sem veiddist á Breiðamerkurdýpi. Vonandi er krabbinn einfari en hann hefur slæm áhrif á lífríkið nái hann fótfestu.

Humarstofninn gæti tapað. Jafnvel hrunið.

Þessi heimsókn á ekki að koma á óvart. Mannfólkið mengar umhverfið. Íslendingar eiga stærsta kolefnisfótsporið. Loftslagsbreytingar, eru metnar sem ein mesta samfélagsógn 21. aldar.

Höfin eru að hitna og súrna. Heimshöfin taka við um fjórðungi allrar losunar manna á koltvísýring með þeim afleiðingum að þau súrna og áhyggjur fara vaxandi af því að hafið sé ferli sem muni leiða til alvarlegra og óafturkræfra áhrifa á vistkerfi og fæðukeðju heimshafanna, allt frá svifdýrum til fisks. 

Við skiptum ekki um kennitölu á sjónum. 

Verður  í framtíðinni haldin kóngakrabbahátíð á Hornafirði í stað humarhátíðar?

Kóngakrabbahátíð

Fyrsti kóngakrabbinn sem veiðist í íslenskri lögsögu.  Áhöfnin á Sigurði Ólafssyni veiddi krabbann og myndin er fengin af facebook-síðu sjómanna.


Breiðdalshnúkur - Í fótspor Russel Crowe

Breiðdalshnúkur

Breiðdalshnúkur klifinn á annan í páskum. Russel Crowe sem leikur Nóa gekk hann í lok júlí 2012 en tökur á kvikmyndinni Noah voru teknar norðan við Kleifarvatn. Nóa páskaegg klárað og farið á myndina, Noah um Nóa gamla eftir göngu. Nóa nammi keypt á nammibarnum. Nói kemur víða við sögu.....

Það fer lítið fyrir Breiðdalshnúk á leitarvélum. Helst að heimsókn Russel Crowe hafi bætt við nokkrum leitarmöguleikum en tindurinn ber nafn sitt af Breiðdal sem er inn af honum og hnúkurinn er fastur við Lönguhlíð sem er í miklum fjallabálki.

Gengið upp snjólausan hrygg að snælínu en stoppað þar og ráðum háfjallagöngumannsins Ed Viesturs fylgt, að snúa við áður en það er orðið og seint.  Því ísöxi og mannbroddar voru ekki með í för og snjórinn þéttur og varasamur.

Markmiðinu var náð, sama sjónarhorn og óskarsverðlaunaleikarinn náði og rómaði á Twitter-síðu sinni, aðdáendum til mikillar ánægju.

Til eru nokkur fjallanöfn kennd við erlenda afreksmenn. Wattsfell eða Vatnsfell, Lockstindur eða Lokatindur á Norðurlandi.  Nú er spurning um hvort Breiðdalshnúkur fái nafnið Crowhnúkur!

 

Stórleikarinn Russel Crowe

“Good view from the top of Breiðdalshnúkur” - Stórleikarinn Russel Crowe með húfu í fánalitunum á Breiðdalshnúk og horfir yfir kvikmyndatökustaðinn í hléi. Myndin tekin 30. júlí 2012 af Chris Feather.

Dagsetning göngu: 21. apíl 2014, annar í páskum
Mesta hæð: 323 m,  við snælínu
GPS hnit upphaf: 165 m (N:63.57.570 – W:21.56.707)
GPS hnit snælínu: 323 m (N:63.57.301 - W:21.56.536)
Heildarhækkun: 158 metrar         
Heildargöngutími: 90 mínútur (12:30 - 14:00)
Erfiðleikastig:  2 skór
Veður kl. 12 Selvogur: Skýjað, ASA 7 m/s, 5,0 °C. Raki 93%
Þátttakendur: Fjölskyldan á hreyfingu, 3 meðlimir
GSM og 3G samband:  Já, enda mikið ferðasvæði. Stöðugt 3G-samband.
 
Gönguleiðalýsing: Gengið frá þjóðvegi, upp snjólausan móbergshrygg að snælínu. 

Ari Sigurpálsson, 11 ára á Breiðdalshnúk

Ari Sigurpálsson stoltur með húfu í fánalitum í 323 m hæð og horfir yfir leiksvið Hollywood-kvikmyndarinnar Noah. Kleifarvatn og Sveifluháls í baksýn.


Um fjöll og hveri í Krýsuvík

Gangan hófst við Grænavatn sem er vatnsfylltur sprengigígur, friðað náttúruvætti rétt við veginn. Þar hófst saga náttúruverndar á Íslandi. Þaðan var gengið upp að Austurengjahver sem er með stærstu hverum á suðvesturlandi. Síðsumars 1924 lifnaði Austurengjahver (Stórahver) við jarðskjálfta, var áður lítilfjörlegur.

Frá hverasvæðinu var gegnið á Stóra-Lambafell til þess að njóta útsýnis yfir hið dularfulla Kleifarvatn bústað skrímsla og heimkynni hvera.  Á bakaleiðinni var komið við á Litla-Lambafelli sem er litlu lægra en minna um sig. Á meðan gengið var upp Litla Lambafell, þá var Gísli Marteinn að þjarma að Sigmundi forsætisráðherra í þættinum sínum, Sunnudagsmorgunn. Frægt viðtal.

Síðan var haldið niður að Grænavatni á ný og nú arkað til suðurs að Bæjarfelli og gengið á það. Undir fellinu eru rústir hins forna kirkjustaðar í Krýsuvík og þar settust göngumenn niður og fengu sér nesti og rifjuðu upp merka sögu staðarins.   

Listmálarinn Sveinn Björnsson bjó lengi þarna og hvílir hann þar.


Frá Bæjarfelli er steinsnar yfir að Arnarfelli og var þessum netta hring lokað með því að ganga á það áður en haldið var að Grænavatni á ný.  Arnarfell er formfegurst fellana enda leikmynd í stórmyndinni Flags of Our Fathers and Letters from Iwo Jima frá 2006. Arnarfell er eitt þeirra örnefna sem ber dýraheiti, s.s. Geitafell, Grísafell, Hafursfell, Hestfjall, Hrútafjöll, Rjúpnafell og Sauðafell.


Þegar komið er á topp Arnarfells er lítil varða, og þar er hægt að sjá hlaðna garða mjög forna en mikil eldvirkni var á Reykjanesi um 1100 og gæti nýtt tímabil verið að hefjast. Gestabók er á Arnarfelli og hvernig væri að reisa fána þar? Hvað um skjöld um Hollywood kvikmyndirnar?


Alls er þetta 13 km löng ganga með viðkomu á fjórum lágum fellum og en samanlögð hækkun  um 350 metrar.

Vagga ferðaþjónustu hófst á svæðinu á 19. öld en ferðamenn fóru dagleið frá Reykjavik að hverunum í Seltúni og Hveradölum í Krýsuvík.

Arnarfell séð af Bæjarfelli

 Göngufólk á Bæjarfelli. Arnarfell, Krýsuvíkurhraun, Eldborg og Geitahlíða sjást.

Dagsetning: 16. febrúar 2014
Mesta hæð: 239 m,  Stóra-Lambafell

GPS hnit Grænavatn: 166 m (N:63.53.155 – W:22.03.441)
GPS hnit Stóra-Lambafell: 239 m (N:63.53.923 - W:22.01.848)
GPS hnit Litla-Lambafell:  237 m (N:63.53.481 – W:22.02.095)

GPS hnit Bæjarfell: 221 m (N:63.52.226 – W:22.04.170)

GPS hnit Arnarfell: 205 m (N:63.51.857 – W:22.03.126)
Heildarlækkun: 350 metrar          
Heildargöngutími: 5,5 klst, 330 mínútur (10:00 - 15:30)
Erfiðleikastig:  2 skór
Vegalengd:  13,0 km
Skref: 18,631  og 1.087 kkal
Veður kl. 12 Bláfjallaskáli: Heiðskýrt, A 13 m/s,  -7.5 °C.  Raki 64%

Veður kl. 12 Selvogur: Heiðskýrt, NA 9 m/s, -2,8 °C. Raki 51%
Þátttakendur: Ferðafélag Íslands, gengið á góða spá, 66 félagar
GSM og 3G samband:  Já, enda mikið ferðasvæði. Stöðugt 3G-samband.
 
Gönguleiðalýsing: Gengið að hluta eftir merktum stíg, Dalaleið að hverum og Lambafellum. Síðan eftir þýfði Krýsuvíkurmýri að Bæjarfelli og Arnarfelli. Fallegur fjögra fella hringur.

 
Heimildir:

Ferlir.is - Grænavatn-Austurengjahver-Krýsuvíkurbjarg-Arnarfell-Augun 

Ferlir.is - Örnefnið Krýsuvík


Fellaþrenna: Helgafell (340 m) Valahnúkar (205 m) Húsfell (295 m)

Rétt innan við Hafnarfjörð standa nokkur fell úti í hrauni. Lagt var frá Kaldárseli og gengið sem leið lá upp á Helgafellið. Þaðan var haldið niður á við og gengið á Valahnjúka. Komum við í Valabóli og Músahelli áður en Húsfell var gengið.

Þegar gengið var upp Helgafell um gilið í miðju fellinu, þá heyrðist í þyrlu frá Norðurflugi.  Þegar á toppinn var komið, þá var þyrlan lent á sléttum toppnum og mynduðu ferðamenn sig í bak og fyrir. Vakti hún verðskuldaða athygli en það blés vel um toppinn. 

Mjög eftirminnilegt atvik í fjallgöngusögu minni en maður veltir fyrir sér reglum um lendingar hjá þyrlu í fólkvangi og kyrrð og ró fjallgöngumannsins. Það geta skapast hættur á fjöllum.

Eftir uppákomuna á Helgafelli var lagt á Valahnúka en þeir eru í beinni línu milli Helgafells og Húsfells.

Toppurinn á Valahnúkum er klettur og vaggaði hann en Valahnúkar eru taldir hafa myndast í gosi fyrir um 120 þúsund árum.

Frá vaggandi Valahnúk var haldið að Valabóli og orku safnað fyrir síðasta fellið, Húsfell.

Margt sér á miðju Húsfelli, Búrfellsgjá blá. Húsfell er umkringt hrauni sem er komið ofan úr Rjúpnadyngjum og á að hafa myndast á tímabilinu 900 - 1500.

Norðurflug

Á toppi Helgafells í Hafnarfirði. Þyrla með fjallgöngufólk!

Dagsetning: 1. febrúar 2014
Kaldársel upphaf: 84 m (N:64.01.374 – W:21.52.066)
Helgafell: 340 m - hækkun: 200 m
Húsfell: 306 m (N:64.01.591 – W:21.47.947)
Valahnúkar: 205 m (N:64.01.192 – W:21.50.118)
Heildarlækkun:  Um 400 metrar         
Heildargöngutími: 2,5 klst, 263 mínútur (10:07 - 14:30)
Erfiðleikastig:  2 skór
Vegalengd:  14,1 km
Skref: 18,874  og 1,257 kkal
Veður kl. 12 Bláfjallaskáli: Skýjað, austan 10 m/s.  4,5 °C hiti og 64% raki. Skyggni 50 km.
Þátttakendur: Ferðafélag Árnesinga, 32 félagar
GSM samband:  Já, enda í útjaðri Hafnarfjarðar. Stöðugt 3G-samband.

Gönguleiðalýsing: Gengið eftir vel gengnu hrauni milli fella. Flott fellaþrenna.

Fellaþrenna, Valahnúkar og Húsfell

Séð frá Helgafelli, yfir Valahnúka og yfir á Helgafell.


Sjálfbærni og heilsufarsmælingar

Lærdómur ársins var að skilja GRI sjálfbærnivísana og sjálfbærni.  Við hjá ÁTVR vorum fyrsta Ríkisstofnunin sem gerði GRI sjálfbærniskýrslu.
 
Síðustu þrjú ár hefur verið boðið upp á heilsufarsmælingar hjá ÁTVR og árangur á heilsu starfmanna góður og á rekstur fyrirtækisins.  Mikil mælingahefð er í fyrirtækinu og stöðugleiki í rekstrinum. Því hefur verið gaman að fylgjast með ákveðnum vísum og hafa þeir bent í réttar áttir.
 
Fjarvistum hefur fækkað, starfsfólk er ánægt í vinnunni, viðskiptavinir eru ánægðir, mengun hefur minnkað, kolefnisfótsporið hefur minnkað, reksturinn er góður og það sem athyglisverðast er að  55 starfsmenn hafa farið úr of háum blóðþrýstingi í eðlilegan á tímabilinu.  Þeir hafa breytt um lífsstíl.  Heilsuræktarstyrkir og samgöngusamningar eiga þar drjúgan hlut að máli. Einnig hefur fræðsla um mataræði og markmiðssetningu hjálpað til.
 
Með breyttum lífsstíl er hægt að spara mikið fjármagn í heilbrigðiskerfinu. Heilsufarsmælingar eru mjög öflug forvörn. Öll fyrirtæki á Íslandi ættu að bjóða upp á heilsufarsmælingu og sýna þannig samfélagslega ábyrgð. Ekki veitir af. 
 
Hér er áramótamyndin, stóra myndin.
Heilsufarsmæling og sjálfbærni
 
Heilsufarsmælingar hjá ÁTVR hafa staðið yfir í þrjú ár og jákvæður árangur. Myndin sýnir Stóru myndina en þá tengjast GRI sjálfbærnivísarnir inn í sjálfbæru víddirnar þrjár. Fyrst eru stefnur skilgreindar. Síðan fer GRI vinnan af stað. Rauðu kassarnir eru heilsufarsmælingar, heilsuræktarstyrkir og samgöngusamningur. Það kemur hreyfingu á fólkið, dælir blóði um fyrirtækið. Niðurstaðan er jákvæð. Neikvæðir þættir minnka. Niðursaðan: Fyrirtækið þekkt fyrir góða þjónustu og samfélagslega ábyrgð.
 
Hugtakið sjálfbær þróun er skilgreint sem: „Mannleg starfsemi sem fullnægir þörfum samtímans án þess að draga úr möguleikum framtíðarkynslóða til að fullnægja sínum þörfum.“ 

Sjálfbær þróun er hugtak sem vísar til þróunar þar sem litið er til lengri tíma og reynt að ná jafnvægi milli efnahagslegra, félagslegra og umhverfislegra þátta.
 
Gleðilegt sjálfbært nýtt ár! 
 
Tenglar:
Fyrirlestur hjá Umherfisstofnun:  Svannurinn - Reynslusaga innkaupaaðila
 
 
 

The Secret Life of Walter Mitty ****

"Life is about courage and going into the unknown"

Mitty Ísland er hið óþekkta, spennandi, ævintýri.

Ísland er í aðalhlutverki í stórmyndinni The Secret Life of Walter Mitty og má þakka eldgosinu Eyjafjallajökli athyglina.

Ben Stiller er leikstjóri og aðalleikari kvikmyndarinnar The Secret Life of Walter Mitty en hún er gerð eftir samnefndri smásögu sem kom út árið 1939 eftir James Thurber og kvikmynd frá 1947. Einnig hafa nýlega verið framleiddir sjónvarpsþættir.

Walter Mitty er í óöruggustu vinnu hjá LIFE tímaritinu, leggur hart að sér við framköllun á einstökum ljósmyndum, sérstaklega frá Sean O'Connell, okkar RAX, sem leikinn er af Sean Penn. Ný tækni er að taka völdin, starfræna tæknin. Netútgáfa.

Nýrri tæki fylgja breytingar. Sjá má fyrir sér í myndinni breytingarstjórann, útvarpsstjórann Páll Magnússon.

Mitty helgar starfinu lífi sínu og gerir fátt markvert. Hann bætir það upp með dagdraumum eins og við öll þekkjum. Hann tekur dagdraumana alla leið og dettur út.

Myndin er því óður til starfsmanna á plani.

Þegar umbreytingin á sér stað, þá þarf að grípa í taumana. Mitty dregur djúpt andann og heldur á vit hins ókunna. Hann ákveður að leita uppi RAXA og fer í ævintýraferð til Grænlands og þaðan til Íslands. Síðan til Afganistan. Ævintýrin gerast ekki betri nú til dags.

Loks fær Ísland að vera Ísland.

Yfirleitt er landið notað fyrir önnur lönd en hér talar landið fyrir sjálft sig. En tökur á landinu eru einnig notaðar í önnur atriði.   Fyrir Hornfirðinga eru nokkur falleg og góð skot. Hornafjarðarflugvöllur tekur á móti stærstu flugvél sem lent hefur á vellinum fyrr og síðar. Einnig sést Vestrahorn með Skarðsfjörðinn í sinni fallegustu mynd.

Nokkrir íslenskir leikarar koma við sögu. Stærsta bitann fær Ólafur Darri Ólafsson, þyrluflugmaður. Ari Matthíasson er góður sjómaður og kennir framburð á tungubrjótinum Eyjafjallajökull. Þórhallur Sigurðsson (ekki Laddi) er grásprengdur skipstjóri. Einnig er mikill asi á Gunnari Helgasyni hótelhaldara.

Vel gerð gaman- og ævintýramynd með rómantískri hliðarsögu. Glæsileg umgjörð enda hafa myndatökumenn haft úr miklu og fallegu myndefni að moða.  Athyglisverður kreditlisti í lokinn en þá er filman látin njóta sín með póstkortamyndum flestum frá Íslandi.

Helsti galli myndarinnar eru að samtöl eru hæg og framvinda sögunnar í byrjun.

Myndin fær fína dóma erlendis en var frumsýnd víða á jóladag. Þetta er mikil og góð kynning fyrir Ísland.  Sé henni fylgt rétt eftir munu fylgja margir ferðamenn.

Nú er bara að vona að stjórnvöld setji sjálfbærni og græn viðmið á oddinn svo komandi kynslóðir geti áfram nýtt landið fyrir stórmyndir. 

Tengill:

https://www.facebook.com/WalterMitty


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sigurpáll Ingibergsson

Höfundur

Sigurpáll Ingibergsson
Sigurpáll Ingibergsson
Hornfirðingur búsettur í Kópavogi. Árgerð 1965.
Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • IMG 4410
  • IMG 4385
  • IMG 4421
  • Á afskekktum stað
  • Tíminn051071

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 3
  • Sl. sólarhring: 19
  • Sl. viku: 73
  • Frá upphafi: 234908

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 65
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband