Færsluflokkur: Ferðalög
30.5.2011 | 23:33
Stórhöfði (121 m)
Leiðalýsing:
Ekið til Hafnarfjarðar og í átt að Kaldárseli. Stefnt að Kýrskarði og áfram að Stórhöfða. Þaðan haldið að Selhöfða þar sem er gott útsýni yfir Hvaleyrarvatn. Síðan verða höfðarnir þræddir, Miðhöfði og Fremstihöfði á leið til baka. Vegalengd 9 km.
Facebook lýsing:
Var í góðri kvöldgöngu í góða veðrinu. Við gengum á Stórhöfða, Selhöfða, Miðhöfða, Fremstahöfða og einn ónafngreindan, þetta voru tæpir 9 km. í hrauni, grjóti, mosa og visnaðri Lúpínu sem er ekki skemmtileg yfirferðar. Þetta var samt frábær ganga og ég er alveg endurnærð eftir kvöldið :)
Já, það má taka undir lýsinguna hér að ofan, það er erfitt að ganga í afgöngum af lúpínunni en síðustu höfðarnir voru umluktir henni og plantan ekki komin í skrúða. Þessi planta er landnemi á órgónum svæðum.
Ímynd mín af höfðum féll ekki alveg að nafngiftinni, ég vil hafa þá mun tignarlegri en þessa hóla en í heimildum er minnst á Húshöfða og gæti hann verið ónafngreindi höfðinn sem við gengum á, milli Selhöfða og Miðhöfða. Ofan af Selhöfða sást betur yfir Hvaleyrarvatn og vestan vatnsins sér yfir skógræktarsvæði Hákonar Bjarnasonar skógræktarstjóra ríkisins sem átti þar sumarhús.
Dagsetning: 18. maí 2011
Hæð: 121 metrar
Hæð í göngubyrjun: 91 metrar, Kaldársel, (N:64.01.375 - W:21.52.130)
Hækkun: 44 metrar
Uppgöngutími: 45 mín (19:05 - 19:50) 3,01 km
Heildargöngutími: 170 mínútur (19:05 - 21:55), 8,61 km
Erfiðleikastig: 2 skór
GPS-hnit Stórhöfði: N:64.01.210 - W:21 .45.241 (135 m)
GPS-hnit Selhöfði: N:64.01.99 W:21.55.700 (98 m)
GPS-hnit Fremstiöfði: N:64.01.596 W:21.53.741 (110 m)
Vegalengd: 8,61 km
Veður kl. 20 Reykjavík: Bjart, NA 4 m/s, 8,8 gráður. Raki 52%, skyggni >70 km.
Þátttakendur: Útivistarræktin, 44 göngumenn
GSM samband: Já
Gönguleiðalýsing: Lagt af stað frá Kaldárseli en hægt að hefja göngu á Stórhöfða nær honum. Þaðan eftir Stórhöfðahrauni að Stórhöfða. Þá sjást hinir höfðarnir, Selhöfði, Miðhöfði og Fremstihöfði. Skemmtileg hringleið.
Stoppað á nafnlaustum höfða. Lúpínustönglar umluktu gönguleið. Til hægri sér í Selhöfða.
Heimildir:
Toppatrítl, Stórhöfði
Ferlir, Hvaleyrarvatn - Kaldársel - Kershellir
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 23:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.5.2011 | 22:26
Grímsvötn rjúka upp í vinsældum á Google
Það er hægt að nota Google-leitarvélina til að mæla vinsældir. Ég hef fylgst með leitarniðurstöðum eftir að eldgos hófst í Grímsvötnum síðdegis, laugardaginn 21. maí.
Grímsvotn | Eyjafjallajökull | Vatnajökull | |
22.maí | 137.000 | 496.000 | 543.000 |
23.maí | 164.000 | 2.850.000 | 544.000 |
23.maí | 2.140.000 | 3.070.000 | 562.000 |
Forsíður helstu vefmiðla Evrópu fjölluðu um tafir á flugi í dag og því ruku Grímsvötn upp í vinsældum, úr 164.000 leitarniðurstöðum í 2.140.000 á sólarhring sem er þrettánföldun!
Eyjafjallajökull rauk upp þegar gosið í Grímsvötnum hófst. Fólk hefur farið að rifja upp hremmingar á síðasta ári. Vatnajökull heldur sínu striki, tekur ekki á skrið.
Til leiðinda má geta þess að IceSave er með um 6.000.000 niðurstöður og eiga náttúruhamfarir lítið í þær manngerðu hamfarir.
![]() |
Um 500 flugferðir felldar niður |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
21.5.2011 | 11:05
Kerhólakambur (851 m)
Þær eru margar gönguleiðirnar á borgarfjallið Esjuna. Fyrir 8 árum var gefið út gönguleiðakort með 40 gönguleiðum á Esjuna. Þekktasta og fjölfarnasta gönguleið landsins liggur á Þverfellshorn en önnur vinsæl gönguleið er Kerhólakambur. Nú var ákveðið að kíkja á kerin.
Ekið út af Þjóðveg við veðurathugunarmastur rétt áður en komið er að Esjubergi og lagt fyrir austan túnið. Síðan liggur leiðin eftir skýrum stíg inn í gilkjaft Gljúfurár og þaðan upp úr gilinu og svo beina stefnu upp bratta hlíð all á topp Kerhólakambs. Þessa leið fórum við ekki, heldur fylgdum við öðrum slóða og lentum í miklu klettaklifri sem minnti á topp Þverfellshorns. Lagðist hún illa í suma göngumenn.
Í 300 metra hæð gengum við inn í þokubakka og sást lítið til allara átta eftir það en göngustígur sást greinilega enda hlíðin gróðursnauð. Þegar komið var i 400 metra hæð, þá var meiri gróður og hvarf göngustígurinn göngufólki. Nær gróðurinn allt upp fyrir Nípuhól. Hóllinn er í rúmlega 500 metra hæð og tilvalinn áningarstaður. Laugagnípa heita klettarnir fyrir vestan Nípuhól.
En hvernig er nafnið, Kerhólakambur tilkomið? Sigurður Sigurðsson göngugarpur og ofurbloggari skrifar: Fyrir ofan Nípuhól heita Urðir og þar er brattinn ekki eins mikill. Í Ársriti Útivistar fyrir árið 1984 er að finna mjög góða grein um Esjuna eftir Einar Hauk Kristjánsson. Hann segir meðal annars að í Urðum séu þessi ker sem kamburinn er kenndur við, sem eru lægðir á milli hóla."
Kerin og hólarnir í Urðum (660 m)
Við höfðum þetta í huga á leiðinni upp og í 660 metra hæð komum við að staðnum sem lýsingin hér að ofan á við. Var snjór í flestum kerjunum. Nokkrir snjóskaflar voru á leiðinni og gengum við upp einn langan sem hófst í 740 metrum og endaði í 800 metrum. Við áttum eftir að renna okkur niður hann á bakaleiðinni. Er hann samt væskinslegur séður frá borginni. Stór skafl er í vesturhlíð Kerhólakambs og munum við góna á hann í sumar rétt eins og Páll Bergþórsson veðurfræðingur.
Fín þokuferð sem verður endurtekin síðar og þá með hringleið og komið niður Þverfellshornið.
Dagsetning: 14. maí 2011
Hæð: 851 metrar
Hæð í göngubyrjun: 56 metrar, tún austan við Esjuberg, (N:64.12.985 - W:21.45.800)
Hækkun: Tæpir 800 metrar
Uppgöngutími: 142 mín (09:08 - 11:30) 2,01 km
Heildargöngutími: 252 mínútur (09:08 - 13:20)
Erfiðleikastig: 2 skór
GPS-hnit fyrri varða: N:64.14.210 - W:21 .45.241
Vegalengd: 4,1 km
Veður kl. 9 Reykjavík: Bjart, V 3 m/s, 5,0 gráður. Raki 84%, skyggni 70 km.
Veður kl. 12 Reykjavík: Bjart, V 2 m/s, 5,8 gráður. Raki 81%, skyggni 70 km.
Þátttakendur: Skál(m), 5 manns
GSM samband: Já sérstaklega gott á toppi
Gönguleiðalýsing: Lagt af stað hjá Esjubergi, inn Gljúfurdal. Þar er mesti brattinn tekinn, erfiðasti áfanginn, í 200 metra hæð. Nota þarf hendur til stuðnings. Eftir það er jöfn gönguhækkun og tvö gil á báðar hendur sem beina göngunni á topp Kerhólakambs. Skriðuganga með tröðum.
Heimildir:
Sigurður Sigurðarson, sigurdursig, Kerhólakambur
Morgunblaðið, frétt, Nýtt kort af Esju með 40 gönguleiðum
Ferðalög | Breytt 30.5.2011 kl. 21:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.5.2011 | 09:08
Nautagil
Geimfarar NASA sem komu til Íslands til æfinga fyrir fyrstu mönnuðu tunglferðina 1969 og Nautagil hafa verið í umræðunni síðustu daga. Sýning um heimsókn geimfarana er haldin á Húsavík og Hillary Clinton utanríkisráðherra Bandaríkjanna bað að heilsa Húsvíkingum af því tilefni eftir fund með Össuri Skarphéðinssyni kollega sínum.
Ég heimsótti Nautagil árið 2006 og varð mjög hrifinn. Læt frásögn sem ég skrifaði stuttu eftir ferðalag í Dyngjufjöll fylgja hér á efir.
Nautagil
Þarna sjáið þið Herðubreiðartögl, Herðubreið, Kollóttadyngju, Eggert og Herðubreiðarfjöll. Fleiri örnefni eru ekki hér. Sagði Jakob leiðsögumaður í hljóðnemann og kímdi. Minnugur þessara orða á leiðinni í Lindir fyrr í ferðinni, búinn að skilja nytjahyggju og af hverju örnefnafátæktin stafaði. Bændur höfðu ekkert á miðhálendið að gera og slepptu því að gefa enn einu Lambafellinu, Svínafellinu og Hrútafjallinu nafn. Þá kom upp spurningin, Hvað voru naut að þvælast hér?.
Svarið kom á leiðinni í Nautagil. Geimfarar NASA sem unnu að Appolo geimferðaáætluninni komu tvisvar til Íslands til æfinga fyrir fyrstu tunglferðina en þeir töldu aðstæður í Öskju líkjast mjög aðstæðum á tunglinu. Þeir komu fyrst í Öskju árið 1965 og tveim árum síðar með minni hóp. Kíkjum á frásögn Óla Tynes í Morgunblaðinu 4. júlí 1967.
"Frá skálanum [Þorsteinsskála] var haldið inn að Öskju og fyrst farið í eitthvert nafnlaust gil sunnan megin við Drekagilið og þar héldu þeir Sigurður Þórarinsson og Guðmundur Sigvaldson jarðfræðifyrirlestur, sem fór fyrir ofan garð og neðan hjá fréttamönnum. Geimfararnir hinsvegar voru fullir af áhuga og hjuggu steina lausa úr berginu til nánari rannsókna. "
Hér er átt við Nautagil og er nafngiftin komin frá jarðfræðihúmoristunum Sigurði og Guðmundi. Geimfari er astroNAUT á ensku og framhaldið er augljóst.
Nafngiftin er ekkert nema gargandi snilld. Eftir að hafa heyrt sögu þessa jókst virðing mín mikið fyrir Nautagili mikið en ég hef haft mikinn áhuga á geimferðakapphlaupinu á Kaldastríðsárunum.
Nautagil átti eftir að heilla enn meira. Hvert sem litið var, mátti sjá eitthvert nýtt jarðfræðilegt fyrirbrigði. Fyrst var boðið upp á innskot, bólstraberg og sandstein, síðan móbergsveislu. Mikilfenglegur móbergsveggur sem sorfinn var í toppinn og stóðu kollar uppúr sem minnti á tanngarð eða höggmyndir í Rushmore-fjalli af forsetum Bandaríkjanna. Maður lét hugann reika, þarna er George Washington, síðan Thomas Jefferson, Theodore Roosvelt og Abraham Lincoln. Þarna er vindill, það hlýtur að vera Clinton, en hvar er Bush? Svo kom pælingin, hvar eru styttur af forsetum Íslands? Svar: Hvergi, bara til styttur af athafnaskáldum.
Fleira bar við augu. Lítill lækur spratt undan hrauninu og dökk hraunspýja sem talið er minnsta hraun á Íslandi var næst. Rósin í hnappagatinu var svo vel falin bergrós ofarlega í mynni gilsins. Þetta var óvænt ánægja og Nautagil kom mér mest á óvart í meðferðinni. Það var augljóst að fáir hafa komið í gilið í sumar en með öflugri markaðssetningu væri hægt að dæla fólki í Nautagil. Lækur rennur fyrir framan gilið vel skreyttur breiðum af eyrarrós og hægt væri að hafa speisaða brú yfir hann. Nota geimfarana og NASA-þema sem umgjörð og hafa eftirlíkingu af Appolo 11 í gilinu. Þá væri hægt að bjóða upp á tunglferðir til Öskju!
Næst var haldið inn í Drekagil. Það býður upp á ýmsar glæsilegar bergmyndanir en féll alveg í skuggann af Nautagili. Innst inn í Drekagili er flottur slæðufoss og fyrir ofan hann er skemmtilegar myndanir, hestur og ljón sem gæta hans.
![]() |
Geimfarar í Þingeyjarsýslum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.4.2011 | 21:47
Búrfellsgjá (183 m)
Þau eru mörg Búrfellin hér á landi. Það er talið að það séu til amk 47 Búrfell. Þau er nokkuð há stapafjöll mörg hver með klettum ofantil. Á vefnum ferlir.is segir ennfremur um Búrfellsnafnið: "Vel má vera að nafnið hafi upphaflega verið ósamsett, Búr, en síðari liðnum -fell, bætt við til skýringar. Búr er einmitt til sem nafn á þverhníptum klettum í sjó. Líklegt er að nafnið Búrfell sé dregið af orðinu búr í merk. 'matargeymsla', og þá helst sem stokkabúr, sem voru reist á lóðréttum bjálkum upp frá jörð svo að dýr kæmust ekki í þau, öðru nafni stafbúr".
Verkefni dagsins var að heimsækja Búrfellsgjá, sem tengist Búrfelli einu og er vanmetin náttúruperla stutt frá fjölbýlinu. Búrfellsgjá er 3,5 km hrauntröð sem liggur vestur úr Búrfelli. Hrauntröðin er farvegur glóandi kvikunnar sem kom upp í gosinu og fyllti kvikan tröðina upp á barma. Í lok eldvirkninnar tæmdist hrauntröðin. Talið er að hraun þetta, Búrfellshraun hafi runnið fyrir um 7200 árum og þekur 18 km2.
Keyrt framhjá Vífilsstaðavatni, framhjá Heiðmörk og í austurátt meðfram Vífilsstaðahlíð. Síðan var lagt í hann eftir merktum göngustíg, niður að Vatnagjá í botni Búrfellsgjár. Steinsnar frá Vatnagjá er Gjárétt og hefur vatnið úr henni verið forsenda fyrir selstöð.
Gjárétt stendur á flötum hraunbotni Búrfellsgjár ekki langt frá misgengisbrúninni á mótum Selgjár og Búrfellsgjár. Réttin er hlaðin um 1840 úr hraungrýti úr nágrenninu. Innst í réttargerðinu er gjábarmurinn veggbrattur af náttúrunnar hendi og slútir fram yfir. Þar innundir berginu er hlaðið byrgi sem var notað sem fjárbyrgi og afdrep manna til gistingar. Annað var ekki í boði fyrir einni og hálfri öld.
Garðbæingar eiga hrós skilið fyrir upplýsingaskilti og gerð göngu- og hestastíga. Gjárétt er vel útskýrð á skiltinu og hvernig eignarhaldi var háttað.
Stutt, skemmtileg og fróðleg ganga.
Dagsetning: 27. apríl 2011
Hæð: 183 metrar
Hæð í göngubyrjun: 113 metrar, Vífilsstaðahlíð, N:64.02.814 W:21.51.12
Hækkun: 70 metrar
Uppgöngutími: 60 mín (19:00 - 20:00) 2,55 km
Heildargöngutími: 120 mínútur (19:00 - 21:00)
Erfiðleikastig: 1 skór
GPS-hnit varða: N: 64.01.990 - W: 21.49.950
Vegalengd: 5,0 km
Veður kl. 18 Reykjavík: Bjart, S 1 m/s, 8,1 gráður. Raki 67%, skyggni 25 km. Skúraský. Ekkert haglél í þetta skiptið, sól og yndislegt veður til göngu.
Þátttakendur: Útivistarræktin, 27 manns
GSM samband: Já - en datt niður í gjám
Gönguleiðalýsing: Lagt af stað frá Vífilsstaðahlíð um Búrfellshraun, að Vatnagjá, Gjárétt og upp Búrfellsgjá.
Tignarlegur inngangur í Gjárétt en hún var hlaðin úr hraungrýti um 1840.
Hrauntröð sem var full af kviku fyrir 7000 árum en tæmdist í lok eldvirkninnar.
Göngumenn ganga á börmum eldstöðvarinnar, í 160 m hæð en hæsti punktur er 183 metrar.
Heimild:
Upplýsingaskilti, útivistarlönd Garðbæinga og Garðabær útivistarsvæði.
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 22:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.4.2011 | 12:51
Á afskekktum stað
Bókin Á afskekktum stað er nýútkomin og gefur Bókaútgáfan Hólum hana út. Hún er byggð á samtölum Arnþórs Gunnarssonar sagnfræðings við sex Austur-Skaftfellinga.
Viðmælendur höfundar eru hjónin Álfheiður Magnúsdóttir og Gísli Arason, sem fædd eru og uppalin á Mýrum, Ingibjörg Zophoníasdóttir á Hala í Suðursveit, Þorvaldur Þorgeirsson, sem í áratugi gegndi verkstjórn í bandarísku ratsjárstöðinni á Stokksnesi, og feðgarnir Sigurður Bjarnason og Einar Rúnar Sigurðsson á Hofsnesi í Öræfum. Á afskekktum stað er því eins konar ferðalag í tíma og rúmi.
Arnþór nær góðu sambandi við viðmælendur og ríkir greinilega mikið traust á milli aðila. Viðmælendur eru einlægir í frásögn og óhræddir við að greina frá stjórnmálaskoðunum sínum.
Viðtalið við Álfheiði og Gísla er fallegt og sátt fólk þar á ferð.
Ingibjörg er aðkomumanneskja og gaman að sjá hennar sjónarhorn. Einnig eru skemmtilegar sögur af Torfa Steinþórssyni eiginmanni hennar. Það er gaman að sjá mismunandi stílbrigði í bókinni en í þessum viðtalskafla er sögumaður ekki að leggja fyrir beinar spurningar.
Þorvaldur segir frá kynnum sínum af varnarliðsmönnum og sýnir okkur inn í heim sem var mörgum hulinn en samskipti Hornfirðinga og Bandaríkjamanna voru lítil. Enda sést það best á því að körfubolti var ekki spilaður á Hornafirði á þessum tímum.
Feðgarnir frá Hofsnesi eru einlægir í viðtölum sínum og skín í gegn mikil ættjarðarást hjá þeim enda búa þeir á merkilegum stað. Erfiðar samgöngur voru stór þáttur í einangrun Austur-Skaftfellinga en þær breyttust þegar leið á öldina. Hættulegar ár voru brúaðar og vegatenging kom á sem og flugvélar. Athyglisverðast fannst mér þó að lesa um nýjustu samgöngubæturnar en það er Internetið.
Einar segir svo frá: "....Það var ekki fyrr en 1997, minnir mig, sem við fengum Internettengingu heim á Hofsnes. Þá setti ég upp eigin heimasíðu þar sem voru líka upplýsingar um ferðirnar út í Ingólfshöfða."
"Fannst þeir það breyta miklu? Opnaði það einhverja möguleika?"
"Algjörlega."
"Hvernig þá?"
"Á meðan ég notaðist eingöngu við auglýsingar sem ég hengdi upp sjálfur var mikið um að ég fengi viðskiptavini sem ákváðu að slá til með skömmum fyrirvara af því að þeir höfðu séð ferðirnar auglýstar þegar þeir voru komnir á svæðið en eftir að heimasíðan kom til sögunnar fékk ég miklu fleiri viðskiptavini sem voru búnir að kynna sér ferðirnar og ákveða sig með góðum fyrirvara. Hinir síðarnefndu komu þar af leiðandi betur undirbúnir en hinir fyrrnefndu."
Svo kom ljósleiðari í Öræfin, glæsilegt framtak hjá Öræfingum og stór stökk inn í framtíðina. Einangrunin algerlega rofin.
Það kom mér á óvart að heyra í fyrsta skiptið um fyrirtækið Jöklasól sem Guðjón Jónsson frá Fagurhólsmýri stofnaði stuttu eftir tilkomu þjóðgarðsins í Skaftafelli. Boðið var upp á skoðunarferðir um Öræfi og flutti hann ferðafólk milli flugvallarins í Fagurhólsmýri og Skaftafells.
Fróðleg, skemmtileg og er þetta að sjálfsögðu hin mesta bókarbót.
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 17:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.2.2011 | 00:09
Friðlýsing Langasjós flott ákvörðun
Þetta er mjög góð ákvörðun hjá Umhverfisráðuneyti og sveitastjórn Skaftárhrepps. Þessi tota inn í Vatnajökulsþjóðgarð var mjög undarleg.
Svæðið er viðkvæmt og það þarf að skipuleggja það vel. Ég hef trú á að bátasigling og kajakaróðar á Langasjó eigi eftir að freista margra ferðamanna á komandi árum.
Gönguferð á Sveinstind verður öllum ógleymanleg sem munu þangað rata. Ég gekk á tindinn í ágúst 2009 eftir að hafa ferðast um Langasjó. Gangan tók tæpan klukkutíma og gönguhækkun er 390 metrar. Vegalend 2 km.
Á góðum degi er útsýni stórbrotið. Hægt að sjá vel yfir Langasjó og Fögrufjöll, víðáttumikla aura og kvíslar Skaftár sunnan þeirra. Mögulegan Eldfjallaþjóðgarð á heimsvísu með Lakagíga og tignarleg fjöll í nágrenni Eldgjár í vestri. Upptök Þjórsárhruns má einnig greina í norðri. Vatnajökull rammar svo allt inn í austri með áberandi Kerlingar í forgrunni.
Á Sveinstindi var skálað í vatni úr Útfallinu hjá Langasjó í þokunni.
Útfallið úr Langasjó. Lengi vel héldu menn að Langisjór væri afrennslislaust vatn en árið 1894 fannst Útfallið en það er þröngt skarð í gegnum Fögrufjöll innanverð.
![]() |
Stækka Vatnajökulsþjóðgarð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.1.2011 | 22:03
Mosfell (276 m)
Nýju gönguári var heilsað með fjölskylduferð á Mosfell í Mosfellsdal. Það var strekkingur af norðan í Mosfellsdal og mun meiri vindur en í Kópavogi. Gengið var eftir stikaðri leið á topp fellsins en það er talið vera 300-500 þúsund ára gamalt og myndaðist eftir gos undir jökli.
Það blés vel á göngumenn á toppnum og var mikil vindkæling. Litlir fætur stóðu sig mjög vel og kvörtuðu ekki.
Á bakaleiðinni var farin lengri leið og komið niður Kýrdal. Þegar inn í dalinn var komið datt á dúnalogn og hitnaði göngumönnum vel. Mikill munur á veðri á 200 metrum.
Mosfell er helst þekkt fyrir að gefa sveitinni sinni nafn og einnig fyrir að Egill Skallagrímsson bjó undir því síðustu ár æfi sinnar um árið 1000. Silfur Egils er skemmtileg ráðgáta.
Kvöldið endað með glæsilegri veislu.
Dagsetning: 8. janúar 2011
Hæð: 276 metrar
Hæð í göngubyrjun: 74 metrar, við Mosfellskirkju
Hækkun: 202 metrar
Uppgöngutími: 65 mín (14:15 - 15:20)
Heildargöngutími: 125 mínútur (14:15 - 16:20)
Erfiðleikastig: 1 skór
GPS-hnit varða: N: 64.11.694 - W: 21.38.020
Vegalengd: 4,8 km
Veður kl. 15 Skálafell: -9.8 gráður. Raki 102%
Veður kl. 15 Reykjavík: -2.8 gráður, NA 5 m/s. Raki 64% skyggni 60 km.
Þátttakendur: Fjölskylduferð, 7 manns
GSM samband: Já
Gönguleiðalýsing: Lagt af stað frá Mosfellskirkju sem reist var 1965. Þaðan gengið eftir stikaðri leið að hæsta punkti. Eftir að honum var náð var gengið að vörðu næst brúninni og horft yfir borgina. Sama leið gengin til baka en haldið lengra og komið niður í Kýrdal. Það er rúmum kílómeter lengri ganga.
Heimir Óskarsson á hæsta punkti Mosfells. Kistufellið er densilegt í bakgrunni.
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
31.12.2010 | 12:01
Svínafellsjökull minnkar
Í uppgjöri Svínafellsjökuls á því herrans ári 2010 kemur eflaust fram að hann hefur minnkað.
Í nýjasta hefti Jökuls (No 59, 2009), fjallar Oddur Sigurðsson um jöklabreytingar. Um Svínafellsjökul árin 2006-2007 segir: Neskvísl sem rann frá jöklinum i Skaftafellsá er nú hætt að renna. Allt vatn frá jöklinum fer nú um Svínafellsá.
Einnig eru mælingar á stað 2 athyglisverðar en Guðlaugur Gunnarsson hefur séð um þær. Á árunum 1930-1960 hopaði hann um 403 metra. Skriðjökullinn bætti við sig 3 metrum á tímabilinu 1960-1990. Hann hörfaði um 96 metra 2003-2004 og 2 metra 2006-2007. Hopið síðustu kreppuár er augljóst.
Á stað 3 eru meiri breytinagar á Svínafellsjökli: Hop um 2.342 metra 1930-1960; Hop um 281 metra 1960 til 1990 og 72 metrar 2003-2004.
Ég átti leið að jöklinum í vikunni og fór í gönguferð á Svínafellsjökli með fjallaleiðsögumanninum Einari Sigurðssyni hjá Öræfaferðum. Þetta er stórbrotin ferð, áhrifamikil og mjög lærdómsrík.
Það er svo margt sem jöklarnir vita og við vitum ekki um. Okkur birtast svipir góðs og ills sem mótuðust í iðrum breðans á meðan aldirnar líða.
Atriði í kvikmyndin, Batman Begins voru tekin við Svínafellsjökul í Öræfasveit árið 2004 og sést vel í einu bardagaatriðinu í jökulinn. Ég tók mynd af sama stað sex árum síðar og munurinn er gríðarmikill.
Hér er bardagaatriði úr Batman-myndinni (4:22):
Liam Neeson og Christian Bale að berjast við jaðar Svínafellsjökuls á frostlögðu vatni.
Mynd tekin í lok árs 2010 á sama stað:
Bardagahetjurnar börðust á svellinu sem er í forgrunni og yfirborð jökulsins hefur lækkað mikið og jaðarinn hörfað. Hér eru ekki nein tæknibrögð í tafli heldur er jörðin að hlýna.
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 12:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.12.2010 | 10:36
Heimsfrægt Eyjafjallagos
Í frétt á visir.is í dag kemur fram að gosið í Eyjafjallajökli síðasta vor er einn af fimm stærstu atburðum ársins á heimsvísu. Þetta kemur fram í árlegri úttekt leitarvélarinnar Google, en auk gossins voru talin til jarðskjálftinn á Haítí, Vetrarólympíuleikarnir í Vancouver, olíuslysið í Mexíkóflóa og Heimsmeistaramótið í knattspyrnu.
Ég hef fylgst með vinsældum Eyjafjallajökuls á árinu og mælt hvað mörg svör koma á Google leitarvélinni en hún er orðin ákveðin mælikvarði á vinsældir hluta.
24.04.2010 5.650.000
23.05.2010 6.970.000
30.06.2010 21.200.000
27.09.2010 1.130.000
11.12.2010 1.070.000
Eyjafjallajökull nær því rétt að merja IceSave um þessar mundir en það leiðindamál kemur 1.030.000 sinnum upp hjá Google.
Eldgosið í Eyjafjallajökli hófst 14. apríl og þann 17. apríl lá flug niðri í Evrópu og var 17.000 ferðum aflýst. Gosinu lauk 23. maí. En jarðarbúar hafa átt eftir að vinna úr lífreynslu af gosi frá E15 og einnig hefur herferðin Inspired by Iceland vakið athygli á breðanum í júní en þá þrefaldast leitarniðurstöður. Síða leita niðurstöður um Eyjafjalla skallann jafnvægis.
Leitarorðið Ísland sýnir 52.900.000 niðurstöður og Iceland rúmlega tvöfalt meira, 110.000.000 niðurstöður.
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 10:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Sigurpáll Ingibergsson
Færsluflokkar
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Enski boltinn
- Evrópumál
- Ferðalög
- Fjármál
- Fjölmiðlar
- Heilbrigðismál
- Heimspeki
- Íþróttir
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Lífstíll
- Ljóð
- Löggæsla
- Mannréttindi
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Pepsi-deildin
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Sveitarstjórnarkosningar
- Tónlist
- Trúmál
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (25.8.): 15
- Sl. sólarhring: 16
- Sl. viku: 121
- Frá upphafi: 237979
Annað
- Innlit í dag: 11
- Innlit sl. viku: 88
- Gestir í dag: 11
- IP-tölur í dag: 10
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar