Aldrei víti á OT

Það er alltaf gamla góða sagan, þau eru sjaldséð víti gestanna á Old Trafford.

Arshavin svarað vel fyrir sig, 24 sekúndum eftir samsærið skoraði hann gott mark!  Svona gera ekkert annað en alvöru menn.

Tölfræðin er skemmtileg. Í síðustu 68 leikjum í Úrvalsdeildinni sem Arsenal hefur leitt í hálfleik  hefur leikur ekki tapast. Vonandi fer teljarinn í 69 eftir leikinn í dag.

Gallas er út um allt. Mikið hefur Vermaelen haft góð áhrif á bardagmanninn.


mbl.is Manchester United lagði Arsenal, 2:1
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sauðadalahnúkar (583 m)

Þeir eru ekki áberandi Sauðadalahnúkar enda eru þeir vel faldir á bak við Vífilsfell og láta lítið yfir sér í ríki mótorhjólanna. Það þurfti að halda yfir til Árnessýslu.

Ekið eftir Suðurlandsvegi að Litlu-kaffistofunni og þaðan í átt að Jósefsdal. Svæðið norðaustan við mynni Jósefsdals nefnist Sauðadalir og hnúkarnir tveir sunnan þess Sauðadalahnúkar. Fyrst var gengið á nyrðri hnúkinn og í framhaldi af því á þann syðri með viðkomu í gamla skíðaskála Ármanns. Farið var fram af syðri hnúknum og komið í Ólafsskarð og gegnið eftir Jósefsdal til baka.

Af hnúkunum tveim sjáum við svo inn í Jósefsdalinn. Hann er luktur fjöllum á alla vegu. Snarbrattar, gróðurlausar skriður ganga allt upp til efstu brúna en grænar grundir hylja dalbotninn. Ekki er vitað um búsetu manna í þessum dal svo skjalfest sé, en ef marka skal þjóðsöguna um Jósef þá hefur staðið þar býli. En það fór illa fyrir Jósef. Hann var smiður góður og allt lék í höndum hans, en sá ljóður var á hans ráði að hann var hverjum manni orðljótari. Einhverju sinni stóð hann í smiðju sinni.
Eitthvað fór úrskeiðis hjá honum, því hann tvinnaði svo heiftarlega saman blóti og formælingum að bærinn sökk í jörð niður með manni og mús. Síðan hefur enginn búið í dalnum.

Þegar ekið var að Sauðadalahnúkum var keyrt framhjá mótorkrossbraut. Það var mikið fjölmenni á staðnum enda lokaumferðin í Íslandsmótinu framundan. Það var skrítin en skemmtileg tilfinning að keyra meðfram brautinni og sjá kappana skjótast upp úr gryfjunni eins og korktappar. Þeir nota stærra svæði og keyra eftir vegslóðum fyrir lengri æfingar. Það er frekar truflandi að hafa öflug mótorhjól þegar maður er að ganga úti í náttúrunni en mótormenn verða að hafa sitt svæði. Ef þeir halda sig þar og fylgja skipulaginu, þá er komin góð sátt.

Dagsetning: 19. ágúst 2009
Hæð: 583 metrar
Hæð í göngubyrjun: Við bílastæði í 280 m.
Uppgöngutími:  45 mínútur á nyrðri og 20 mínútur á syðri hnúk.
Heildargöngutími: 2 klst og 20 mín. (19:10 - 21:30) 
Erfiðleikastig: 1 skór
GPS-hnit tindur: 64.01.638 - 21.31.926
Vegalengd: 7 km
Veður: 10 gráður, hægviðri og bjart
Þátttakendur: Útivistarræktin, um 62 manns

Gönguleiðalýsing: Auðveld tveggja hnúka  ganga með sýn yfir Jósepsdal, Hellisheiði og Árnessýslu.

IMG_4103


Vegaslóði við bakka Langasjávar

Mikil umræða hefur verið um vegaslóða eftir þarfa grein frá fv. umhverfisráðherra, Kolbrúnu Halldórsdóttur.  Friðlandið í Þjórsárverum er helzt til umræðu.

Um miðjan ágúst var ég ásamt góðum gönguhóp á vegum Augnabliks að upplifa fegurðina við Langasjó.  Hægt er að fara eftir vegaslóða fyrir ofan vatnið og upp á Breiðbak (1.018 m). Þaðan er hægt að komast í Jökulheima og er sú leið oft farin af jeppamönnum. 

Einnig er slóði eftir jeppa meðfram vestari bakka Langasjávar. Leitarmenn hafa notað hann til að komast inn eftir vatninu.  Í nýjustu útgáfu GPS kortagrunns er slóði þessi merktur inn. Stundum þarf að krækja fyrir kletta og keyra út í vatnið.

Ung par fór eftir upplýsingum úr GPS tæki á jeppling sínum og fylgdi slóðanum meðfram vatninu  (sjónum) langa. Það komst alla leið, tæpa 20 km en keyrði lúshægt. Því dauðbrá, það taldi að slóðinn (vegurinn) væri betri út af því að hann væri merktur inn á kortagrunninn.
Það þarf að flokka vegslóðana á hálendinu betur.

IMG_3882

Krækja þarf fyrir móbergshrygginn sem skagar út í vatnið til að komast áfram. Vegslóðinn er um 16 km frá Sveinstind og liggur eftir bakkanum norðanverðum. Gæti verið í svokallaðri Bátavík, eigi langt frá tíu skeyta skeri.


Einhver Englendingur

Ég hef verið að fara yfir heimildir um sögusvið Langasjávar eftir áhrifamikla ferð þangað um síðustu helgi.

Tímarit.is er stórgóður vefur. Þar er hægt að fletta upp í gömlu blöðunum sem komu út á 19. öld.

Árið1878 er þess getið í fréttabréfi í blaðinu Ísafold að í Skaftárfjöllum, sem nú séu kölluð Fögrufjöll, hafi fundist tveir grösugir dalir og norður af þeim sé vatn sem haldið sé að Skaftá renni úr. Getur þar varla verið um annað en Langasjó að ræða. En hér segir, þótt óljóst sé, frá ferð Skaftfellinga upp um fjöllin og var þar helstur Bjarni Bjarnason frá Hörgslandi.

isafold-fogrufjoll.jpg

Það er margt athyglisvert við þessa stuttu frétt. Hér miðast allt við afkomu sauðfjár. Nafnið á vatninu er óljóst en Þorvaldur Thoroddsen kom í rannsóknarferðir árin 1889 og aftur 1893. Hann gaf vatninu nafnið Langisjór. Þá gekk skriðjökull niður í eftri enda vatnsins en nú er drjúgur spölur frá
jökulröndinni að vatnsendanum. Nafnið Fögrufjöll er þó komið í stað Skaftárfjalla og hefur því ekki komið  frá Þorvaldi. Endapunkturinn er svo stórmerkilegur. Af hverju þurfti einhvern Englending til að kanna fallega landið okkar?  Hvað segir þetta um sjálfsmynd okkar á þessum tíma?

Heimild:

Ísafold,  24. tölublað (30.09.1878), bls. 96

Landið þitt Ísland, Örn & Örlygur

 


Sveinstindur (1.090 m)

Langisjór er meistaraverk. Við vesturenda vatnsins í Fögrufjöllum er glæsilegt fjall sem ber densilegan Sveinstind. Ég gekk á fjallið í ógleymanlegri ferð með ferðafélögum í Augnablik á sunnudag og var það endapunkturinn á ferðalaginu, Fegurðin við Langasjó.

Lagt var frá Sveinsbúðum við enda Langasjávar í spöku veðri að uppgöngunni frá sléttu vestan megin fjallsins. Gönguleiðin  er vel stikuð og er fyrst farið eftir meinlausu gili. Þegar gilinu sleppir er komið á öxl utan í fjallinu og þá er þræddur kambur sem endar á hátindinum. 

Minnti uppgangan á Kattahryggi í Þórsmörk og göngu á Tindfjallajökul því stundum er farið niður á við. 

Þegar fjallgangan var hálfnuð réðst þoka á okkur og fylgdi henni úrkoma í fyrstu.  Þokan var á undan okkur á tindinn og tók yfir hann. Hún sigraði fegurðina.

Á stalli fyrir neðan hátindinn sést mannvirki og einnig eru þar vegamót en tvær leiðir eru á tindinn. Hin leiðin er í skála Útivistar. Hér er hægt að villast.

Í Hálendishandbók Páls Ásgeirs segir:  "Ofarlega í fjallinu þykir mögrum sérstætt að rekast á tóft eins og af litlum leitarmannakofa. Þetta munu vera rústir eftir bækistöðvar manna í einum af könnunarleiðöngrum Þorvalds Thoroddsen vísindamanns."

Þegar ég gekk framhjá tóftinni í þokusúldinni, þá var mér hugsað til Þorvaldar og félaga. Einnig til Fjalla Eyvindar og Höllu. Hvílík elja í Þorvaldi að leggja á sig tíu ára landkönnunarferðalag án flísfatnaðar og svefnpoka upp að -20. Það er þrekvirki að reisa vísindabúðir í 1000 metra hæð en á þessum árum var mjög kalt á Íslandi. Ef þið hafið fylgst með mannfjöldaþróun á Íslandi, þá eiga þessi tvö ár, 1889 og 2009 það sameiginlegt að fólki fækkaði á milli ára!
Ég skildi bakpoka minn eftir í vísindabúðunum og nýtti mér fagmannlegt handafl Þorvalds og félaga til að skýla honum.
Ég var mjög ánægður með að hafa farið alla leið á toppinn og leið mjög vel á eftir, þótt útsýnið hafi verið í einu orði lýsanlegt, þoka.  Nú hef ég ástæðu til að fara aftur. Til er annar densilegur Sveinstindur. Hann er á Öræfajökli og er næst hæsti tindur landsins, 2.044 m. Hann geldur þess svakalega að vera í nábýli við Hvannadalshnjúk. 
 
Gangan tók tæpan klukkutíma og gönguhækkun er 390 metrar. Vegalend 2 km.

Á góðum degi er útsýni stórbrotið. Hægt að sjá vel yfir Langasjó og Fögrufjöll, víðáttumikla aura og kvíslar Skaftár sunnan þeirra. Mögulegan Eldfjallaþjóðgarð á heimsvísu með Lakagíga og tignarleg fjöll í nágrenni Eldgjár í vestri. Upptök Þjórsárhruns má einnig greina í norðri. Vatnajökull rammar svo allt inn í austri með áberandi Kerlingar í forgrunni.

Á Sveinstindi var skálað í vatni úr Útfallinu hjá Langasjó í þokunni.

Langisjór var öllum ókunnur fram á miðja 19. öld.  Bjarni Bjarnson frá Hörgslandi fór í könnunarferð árið 1878 að Langasjó. Nefndu heimamenn tindinn Bjarnatind.  Dugði það ekki lengi því Þorvaldur Thoroddsen kom tvisvar í leiðangrum á svæðið, árin 1889 og 1893. Gaf hann Langasjó og Sveinstind ný nöfn sem haldist hafa síðan og munu lifa um ókomin ár.

 Sveinstindur

Guðmundur og Gaua á toppi Sveinstind að rýna í svarta þokuna.


Menn sem hata konur ****

Sænska spennumyndin Menn sem hata konur (Män som hatar kvinnor) er vel heppnuð og heldur manni vel við efnið.

Sagan er í Agötu Christie stíl. Dularfullt mannshvarf og allir fjölskyldumeðlimir hinnar efnuðu Vanger fjölskyldu liggja undir grun. Rannsóknarblaðamaðurinn Mikael Blomkvist er fenginn til að leysa þetta 40 ára gamla mál. Inn í málið kemur nútímakonan og tölvuhakkarinn Lisbeth Salander sem er vel leikin af íslenskættaðri Noomi Rapace.

Persónusköpun er góð og tekur nokkurn tíma í byrjun myndar. Inn í söguna fléttast "Byrgismál" og Nazistar eru endalaust fóður fyrir góðar fléttur.

Myndin byggir á bók eftir Stieg Larsson sem ég hef ekki lesið og hef því ekki samanburð milli miðlana. Veit ekki hvort ég leggi í bækurnar í vetur, hver veit. En mér líst vel á framhaldið.

Þetta er áhugaverð mynd fyrir tölvunörda. Þeir eiga sinn fulltrúa þó hann sé á jaðrinum og ekki skemmir fyrir að hafa konu í því hlutverki. Hún er eldklár í tölvuinnbrotum og vinnur á við eitt gengi. Það eru tvö atriði sem tölvuáhugamenn ættu að taka sérstaklega eftir.

1) Þegar Lisbeth sendir dulkóðaðan tölvupóst til félaga síns "Plague", þá kemur "decrypting" í stað "encrypting" á tölvuskjáinn.  Dulritun (dulkóðun, e. encryption) felst í stuttu máli í því að umrita tiltekin skilaboð þannig að óviðkomandi geti alls ekki komist að innihaldi þeirra.  Öfuga ferlið til að endurheimta upprunalegu skilaboðin er kallað dulráðning (afkóðun, e. decryption).

2) Myndin á að gerast árið 2005 en Michael og Lisbeth nota Apple MacBook Pros tölvu sem fyrst var seld árið 2006. Svo versnar það. Lisbeth notar Mac OS X 10.5 "Leopard" sem fyrst kom á markað í október 2007.  Þetta er smáatriði sem skiptir ekki máli en verður að vera til að gera myndina meira sannfærandi. Tæknin er færð fram í nútímann en glæpurinn stenst tímans tönn.

Góða skemmtun og reynið að finna skúrkinn á undan Mikael og Lisbeth.


Hop jökla

Þær eru áhrifamiklar myndirnar hjá Ragnari Th. Sigurðssyni af Jökulsárlóninu. Það fer ekki á milli mála að miklar breytingar eru á Lóninu og brátt verður þa' hinn dýpsti fjörður.  Einar Björn, staðarhaldari á Jökulsárlóni, nær kannski að bjóða ferðir inn að Esjufjöllum áður en hann kemst á eftirlaun.

Þær eru einnig mjög greinilegar breytingarnar á Gígjökli eða Falljökli í Eyjafjallajökli. Þær er ekki eins góðar og hjá RTH en segja sína sögu um áhrif hlýnunar á jökulinn. Fyrri myndin var tekin árið 2001 og síðari í lok júlí 2009.

 Gígjökull-Falljökull

Jökulsporðurinn teygir sig langt fram í Lónið. Mynd tekin 2. júní 2001. Þrem árum fyrr (1998) var skriðjökullin upp fyrir kambinn alla leið niður.

 Gígjökull07-2009

 Þann 28. júlí 2009 nær tungan varla niður í Lónið og það sér í nýtt berg.


mbl.is Myndröð af bráðnuninni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fiskidagurinn mikli

skutan.jpgHvaða bæjarhátíð á maður sem alinn er upp á Fiskhól og á bloggsvæðið fiskholl.blog.is að sækja reglulega. Svarið er einfalt, Fiskidaginn mikla á Dalvík.

Hátíðin hófst með stórbrotnu súpukvöldi á föstudagskveldi í fallegu veðri. Það var löng bílaröð inn í bæinn og þegar nær dró, sást nýtt úthverfi í Dalvík, þakið húsbílum og fellihýsum. Við gengum því inn í fiskibæinn og  fyrsti viðkomustaðurinn var reisulegt hús, Vegamót hét það og barst kröftug tónlist úr garðinum. Garðurinn var stór með mikið af trjám og á milli þeirra voru borð eins og á ensku sveitarsetri. Þetta var góð byrjun en upphaf Súpudagsins hófst einmitt í garði þessum fyrir sex árum. Súpan var kraftmikil og góð með rjómafyllingu.  Eftir að hafa þakkað fyrir okkur og skrifaði í gestabókina var haldið áfram.

Næsta gata var Mímisvegur.  Hún var þakin fólki og minnti mig á Lecester Square á laugardagskveldi. Mögnuð stemming. Fólk brosti og íslenska lopapeysan var vinsælasta og flottasta flíkin. Við þáðum þrjár súpur í viðbót og voru þær allar kraftmiklar og fjölbreyttar.  Ekki þunnar og bragðlausar eins og á sumum veitingastöðum. Greinilegt að metnaðurinn er mikill hjá Dalvíkingum og gestir eru sendir heim með góðar minningar.

Bærinn var vel skreyttur og vakti listaverkið, "Sökkvandi þjóðarskúta", með Ólafi Ragnari forseta mikla athygli gesta. Gátu menn túlkað verkið á ýmsan máta. Síðasti maður frá borði þjóðarskútunnar eftir 18 ára stjórn Sjálfstæðisflokksins er ekki galin túlkun.

Eftir eftirminnilegt kvöld var haldið til Akureyrar til að hlaða batteríin fyrir Fiskidaginn mikla. Við sameinuðumst rauða orminum sem náði á milli byggðalaganna tveggja í Eyjafirðinum.

Fiskidagurinn mikli var gríðarlega fjölmennur, sá fjölmennast í níu ára sögu og  á gott viðmót Dalvíkinga og falleg hugsun  sinn þátt í því. Kannski er virðing Íslendinga fyrir fiski og sjávarútveg orðin meiri eftir bankahrunið. En sjávarfangið sem í boði var stóðst allar væntingar.

 


Um bloggið

Sigurpáll Ingibergsson

Höfundur

Sigurpáll Ingibergsson
Sigurpáll Ingibergsson
Hornfirðingur búsettur í Kópavogi. Árgerð 1965.
Ágúst 2009
S M Þ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28 29
30 31          

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • IMG 4410
  • IMG 4385
  • IMG 4421
  • Á afskekktum stað
  • Tíminn051071

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (11.7.): 2
  • Sl. sólarhring: 10
  • Sl. viku: 129
  • Frá upphafi: 236838

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 99
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband