Minjagripir - viðurkenningar

Sinn er siðurinn í  hverju landi.
Þeir eru snillingar að plokka af ferðmönnum peninga á Tenerife. Við innganginn að afþreyingunni sem farð var í var oftast biðröð. Ástæðan var sú að allir voru myndaðir í bak og fyrir með einhverju tákni sem tilheyrði staðnum.  Í hvalaskoðunarferð með Peter Pan þá voru allir myndaðir um borð og svo var tekin kvikmynd á meðan ævintýrinu stóð.  Í páfagaukagarðinum Loro parque var fjölskyldan mynduð með tveim stórum og litskrúðugum páfagaukum. Sama var uppi á teningnum í biðröðinni við kláfinn við rætur El Teide. Meira að segja í vatnagarðinum, Aguapark  voru allir gestir myndaðir.  Þegar haldið var heim á leið, þá gekk maður framhjá myndum af sér vel röðum í rekka,  ísettar í viðeigandi myndaumgjörð úr pappa.  Verð var frá fimm evrum og upp í fimmtán.  DVD kvikmyndin kostaði 35 evrur en maður var aukaleikari og því varð maður að kaupa hann.

Ég vona að Íslendingar taki ekki upp á þessum ósið en þetta er áreiti sem fer ekki vel í ferðamenn. Ég féll oft fyrir freistingum Spánverjanna og keypti nokkrar myndir eftir heimsóknir og eru þær hangandi upp á vegg út um íbúð mína og auglýsa þær Tenerife og rifja upp upplifunina. Þegar gesti ber að garði er krydduð saga sögð um ævintýri dagsins þegar þeir sjá myndina.

Nýlega fór ég í ferð á vinsæla ferðamannastaði á suðausturlandi. Eftir ferð á Jökulsárlóni var bara kvatt, ekkert til minningar um góða ferð. Sama gilti eftir ævintýralega vélsleðaferð á Vatnajökli. Íslendingar eru hógværir. Ferðaþjónustuaðilar ættu að gefa ferðamönnum eitthvað í lok ferðar, annaðhvort vottorð, mynd eða barmeki sem fer vel upp á vegg. Það veiðir síðan fleiri ferðamenn á komandi árum. Þetta er ókeypis auglýsing sem ekki þarf að kosta mikið.

Hér fyrir neðan er mynd af barmerki sem ég fékk eftir ferð í kláfinum sem flutti okkur upp hlíðar El Teide. Nú segi ég öllum gestum frá því hve gaman var að ferðast upp rúmlega 800 metra á átta mínútum. Barmerkið fría selur!

Klafur-Ten


Vonandi finnast Þjóðverjarnir - leyfismál

Það voru óvænt tíðindi á mbl.is í þessari frétt. Hjartað tók kipp, hugurinn leitaði austur. Enn er veik von. Vonum að Þjóðverjarnir finnist og ferðalagið upplýsist.

Leyfismál 

Mikil umræða hefur verið um það hvernig standa skuli að leyfismálum í óbyggðaferðir.  Sumir vilja banna ferðir á jökla frá miðjum ágúst og fram í september. Aðrir að ferðmenn leggi inn ferðaáætlun þar sem komi fram hvert för sé heitið og hvenær komið sé til baka. Margar þjóðir hafa komið sér upp kerfi.  Ég var á Tenerife, stærstu eyju Kanaríeyja í sumar. Þar er El Teide þjóðgarðurinn og í honum er eldfjallið El Teide, 3.718 metra hátt. Til að fara á toppinn þarf leyfi frá þjóðgarðsskrifstofunni á eyjunni. Hægt er að ferðast eftir merktum stígum og byrja í öskjunni í 2.500 metra hæð. Einnig er hægt að komast með kláf upp í 3.555 metra hæð. Göngustígur liggur á toppinn og er þjóðgarðsvörður stutt frá kláfnum sem tekur við leyfisbréfum og fer yfir reglur þjóðgarðsins með ferðamönnum.

Myndin hér fyrir neðan sýnir spænskan landvörð í 3.555 metra hæð skoða vottorð frá Þjóðgarðsskrifstofunni á Tenerife en sækja þarf sérstaklega um að fá að ganga á toppinn. Þeir sem ekki eru með leyfisbréf þurfa að snúa frá og taka kláfinn niður.

Vottorðið kostar ekkert.

VottordTeide


mbl.is Leitað á ný á Svínafellsjökli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skýjum ofar á Skálafellsjökli

Meðan höfuðborgarbúar stunduðu menningu og maraþon um síðustu helgi, þá skrapp ég í átthagaferð í Hornafjörð við þriðja mann. Dagurin bauð því upp á maraþon keyrslu, 875 km og mikla upplifun. Lagt var úr bænum árla morguns og stefnt var að því að enda ferðina með flugeldasýningu.

Jokulsarlon 

Jökulsárlónið er alltaf einstakt. Birtist eins og demantur í náttúrunni. Það er aldrei eins. Alltaf ný sýning. Alltaf ný listaverk í hvert skipti sem maður kemur þangað. Þyrla var á sveimi við jökulrönd. Etv. var verið að mynda auglýsingu eða taka upp atriði í kvikmynd.  Kannski var einhver íslenski auðjöfurinn í þyrlunni með annan auðjöfur og að nota Jökulsárlónið til að liðka fyrir góðum samning. Nota Lónið sem beitu.  Nokkrir svartir jakar voru innan um hvítu og bláu jakana. Þeir hafa brotnað úr Esjufjallaröndinni. Sandflutningur sem hefur staðið í árhundruð. Þolinmæðisverk.

Esjufjallarond

Farin var ferð með Dreka einum af fjórum Larc bátum á Jökulsárlóni. Hver bátur tekur 25 manns. Leiðsögumaður er ávallt með í för og fræðir ferðamenn um aldur og undur jökullónsins. 

Síðan var keyrt upp í Jöklasel. Vegurinn upp er alltaf að batna. Það var skýjað er komið var austan við Öræfajökul. Þó var von, því það sást sól  á Breiðamerkurjökli undan þokunni.  Við keyrðum upp Borgarhafnarfjall, framhjá vötnunum þrem. Mér finnst alltaf landslagið þar minna mig á Grænland. Þokan þéttist er ofar kom. Þéttust var hún í Sultartungum. Jökulruðningurinn var flottur í þokunni en smiðurinn sást eigi. Þetta var eins og að koma í nýjan heim.

Skalafellsjokull 

Jokulstal 

Þegar skammt var í Jöklasel, á Hálsaskeri opnaðist skýjahulan og   Skálafellsjökull tók fagnandi á móti okkur. Jökulstálið með smásprungum ógnvekjandi. Bláminn í himninum var glæsilegur, þetta voru mögnuð umskipti.  

SkyjumOfar

Það myndaðist örtröð við afgreiðsluna hjá staðarhaldaranum Bjarna Skarphéðni Bjarnasyni. Um fimmtíu manns ætluðu í ævintýraferð. Eftir að hafa gert upp við Bjarna fengu ferðamenn sem voru víða að, frá Spáni, Hollandi og Suður Kóreu nauðsynleg hlífðarföt. Hjálma, vígalega heilgalla, stigvél og vettlinga. Síðan var stuttur gangur að snjósleðum. Tíu manns völdu að fara í jeppaferð og fannst mikið til koma þegar hleypt var úr dekkjunum til að stækka rúmmál dekkjanna, en nógu stór voru þau fyrir.

BjarniSkyjumOfar

Leiðsögumenn á vélsleðum voru Bjarni yngri og Hallur Sigurðsson á Stapa. Þeir kenndu ferðamönnum undirstöðuatriði vélsleðaaksturs. Bjarni hélt gott námskeið og kom skilaboðum skemmtilega til skila. Síðan var haldið út á jökulinn, 5000 metra, framhjá Miðfellsegg, Birnudalstindi og endað undir Kaldárnúp. Þaðan var gott útsýni yfir víðáttur Vatnajökuls. Ekki sást í Hornaförð, við vorum skýjum ofar.

Bombarder 

Bjarni Skarphéðinn er snjall og verst fimlega hlýnun jarðar og minnkandi jöklum. Nýlegur snjótroðari er kominn og heldur hann vel við brautunum. En færið á jökli er ekki gott. Þó er aðkoman betri núna en fyrir þrem árum. Þá var snjólaust við Jöklasel og þurfti að hefja sleðaferðina upp á bungunni fyrir ofan skálann.  Jöklaverkfræðingarnir á Skálafellsjökli ætla að nota snjótroðarann til að ýta upp snjó í vetur svo hann myndi skafla.

Á heimleiðinni var Mýrdalsjökull með Kötlu í fangi fallegur í sólsetrinu. Skógarfoss alltaf jafn vinsæll en klettur einn vinstra meginn í fossinum er að skemma sjónlínuna  og myndar eyðu vatnsfallið. Gengið var á bak við Seljalandsfoss, það var mjög hressandi og jók kraftinn.  Eftir það var hlustað á tónleika frá Miklatúni í útvarpinu og skemmtilegur dagur endaður með flugeldasýningu. Hún var tilkomulítil eftir sýningu dagsins.

Myrdalsjokull


Jökulsvelgjaserían

Mikið var ég hissa en ánægður þegar ég opnaði Lesbók Moggans í morgun. Mér svelgdist eiginlega á kaffinu. Þar var heimsfrumsýning á verki myndlistarmannsins Ólafs Elíassonar - Jökulsvelgjaserían, niður árþúsundanna. Ég var einmitt í gærkveldi að grúska í svelgjum og bloggaði lítillega um svelgi fyrir háttinn. Hef haft mikinn áhuga á jöklum, sérstaklega Vatnajökli og náttúrufyrirbrigðum hans. Því  var magnað að sjá sýn listamanns í kjölfarið.

Í Jökulsvelgjaseríunni eru um fimmtíu jökulsvegir á Vatnajökli sem myndaðir voru í síðasta mánuði. Í Lesbókinni í dag eru 36 myndir. Alveg stórmagnað.

Ólafur segir: "en verkið vinnst auðvitað með mismunandi hætti eftir því hvar það er sýnt. Það sem vekur mann fyrst til umhugsunar er þó sjónarhornið. Þetta er sjónarhorn sem maður sér aldrei - það kíkir enginn niður í slíka svelgi. Þarna er því verið að sýna óaðgengilegt sjónarhorn sem eins konar geómetrískt mynstur sem myndast fyrir tilstilli þyngdarlögmálsins."

Stórmagnað sjónarhorn hjá Ólafi.

Ólafur ferðaðist á öflugum jeppa ásamt jöklaleiðsögumönnum frá Hornafirði. Til að komast yfir þetta óaðgengilega sjónarhorn útbjuggu Ólafur og samferðamenn hans eins konar krana úr stigum sem festir voru á þak jeppa. Ólafur fikraði sig síðan út eftir stiganum með öryggislínu sér til halds og trausts.  Áhrifarík mynd fylgir með greininni. 

Ólafur hugsar djúpt. Þetta er mjög áhrifamikil og djúp pæling hjá honum, rétt eins og djúpu svelgirnir.

Verkin verða sýnd í SFMOMA ásamt frostnum BMW-bíl sem hann hefur hannað. Þessi tvö verk verða sýnd í samhengi við hvort annað, bíllinn í sérstöku herbergi þar sem verður 10 stiga frost, og Jökulsvelgjaserían í öðru herbergi.  Svona eiga listamenn að vera!

Ég ætla að fara á þessa sýningu Ólafs. 

En fyrir þá sem ekki komast á sýningu Ólafs, þá eru hér myndir úr Svelgjaseríu Palla. Gjörið svo vel.

Svelgur-2

 

Svelgur3

 

Svelgur-4


Svelgir

Leysingavatn, sem rennur eftir jöklinum, leitar í sprungur eða holur í ísnum og með tímanum myndast svelgur eins og þessi.

SvelgurSlíkir svelgir eru hættulegir þegar gengið er á jöklinum, sérstaklega þar sem þunnt snjólag hylur gatið. Séðir að neðan hljóta þeir að vera stórkostlegir. Því er ekki furða að góðir klifrarar hafi áhuga á að kíkja niður.


mbl.is Slóð fylgt frá Svínafellsjökli í átt að Hrútsfjallstindum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Seinheppnir stjórnarmenn Tottenham

Það er alveg makalaust hversu eigendur knattspyrnuliðsins Tottenham hafa getað tekið margar rangar ákvarðanir á síðustu árum. Nýjasta dæmið er að þeir ráku Hollendinginn Martin Jol og ætluðu að fá Spánverjann Juande Ramos frá Sevilla. Þegar Spánverjinn ákvað að halda áfram að vera í sólinni í Sevilla, þá sneru þeir sér aftur að Herra Jol og gáfu honum tækifæri, fjórða sætið í vor eða þú ferð!  Þetta heitir snögg U-beygja.

Fréttamenn og sparkspekingar hafa ekkert lært á Tottenham. Margir spáðu þeim í topp fjórum í vetur. Byrjunin bendir á annað. Eftir 2 umferðir voru þeir neðstir með 0 stig. Þoldu ekki álagið ekki frekar en fyrri daginn.

Förum aðeins yfir stjóra Tottenham síðasta áratuginn eða síðan Arsene Wenger tók við Arsenal í september 1996. Það segir mikið um stjórnunarstíl eiganda Spurs en stjórar hafa verið duglegir að koma og fara á White Hart Lane. Alan Sugar og fjárfestingarfyrirtækið  ENIC hafa ráðið för liðsins.

Gerry Francis var stjóri Spurs árið 1996 þegar nýja tímatalið hófst hjá Arsenal. Hann var stjóri tímabilið 1994-1997. Svisslendingurinn Christian Gross var 1997-1998, George Graham var 1998-2001, þá keypti  ENIC félagið af Alan Sugar og ráku George innan viku og réðu óskabarnið Glenn Hoddle frá Southampton en hann nýttist til ársins 2003.  David Pleat kláraði tímabilið 2003-2004. Frakkinn Jacques Santini var frá ágúst til nóvember 2004 og síðan hefur Martin Jol verið við völd. Alls eru þetta sjö stjórar á rúmum áratug ef Gerry Francis er talinn með.
 

Skrifaði í lok Hundadaga fyrir fjórðu umferð í ensku úrvalsdeildinni. En Hundadagar hafa haft spágildi varðandi veðurfar. Kannski snýst gæfan með Spurs eftir Hundadaga. Hver veit en Arsenal menn hafa ekkert á móti samkeppninni. Því voldugari nágranni, því sterkari verður Arsenal.

 


Svínafellsjökull

Fréttirnar af ungu Þjóðverjunum sem eru týndir í Vatnajökulsþjóðgarði setja að manni beyg. Ekkert hefur heyrst frá félögunum Mattthias Hinz (29) og Thomas Grundt (24) í þrjár vikur.

Síðustu fréttir eru þær að þeir hafi síðast sést við Svínafellsjökul um mánaðarmótin. Skriðjökullinn var notaður í bakgrunn í stórmyndinni Batman Begins. Atriði voru kvikmynduð í mars 2004 og voru m.a. stórleikararnir Liam Neeson og Christian Bale í þeim tökum. 

Maður vonar það besta. Mér var hugsað til frægs ferðalags tveggja félaga sem endaði í bókinni "Touching the void" er ég heyrði fréttirnar í kvöld. Björgunarsveitarmenn vinna frábært starf og þekkja svæðið afburða vel. 

Myndir sem teknar voru fyrir tæpum tveim árum við jökulsporð Svínafellsjökuls en jökullinn er magnaður að sjá ofanfrá. Þá er hann eins og fljót að sjá. Þá er augljóst að sömu frumefni eru í jökli og vatni, bara á öðru formi.

Svinafellsjokull-spordur

 

 

Sporður Svínafellsjökuls er grár. Jökullinn er að hörfa og því hefur myndast lón milli jökuls og bakka sem hann hefur myndað. Jökulruðningar í fjarska. Lómagnúpur er hnípinn í þokunni.

Svinafellsjokull-upp

 

Úfinn er hann Svínafellsjökull en sviðsmynd Batman Begins var vinstra meginn á myndinni.

 

Svinafellsjokull

 


mbl.is Enn hefur ekkert spurst til þýskra ferðalanga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Persónuvernd í 25 ár

Er með í höndunum afmælisrit Persónuverndar, Persónuvernd í 25 ár. Um síðustu áramót voru liðin 25 ár frá því að fyrsta löggjöfin um með ferð persónuupplýsinga hér á landi öðlaðist gildi.  15 persónur skrifa hugleiðingar sínar um vernd persónuupplýsinga og einkalífsvernd.  Þetta er þarfasta rit og varpar ljósi á mikilvægi laga um persónuvernd.

Ein grein eftir Svönu Helen Björnsdóttur nefnist Eftir hrun Berlínarmúrsins. Þar er borið saman Austur-Þýskaland fyrir og eftir fall Berlínarmúrsins. En íbúar landsins þurftu að lifa allt sitt líf undir smásjá valdhafa sem gátu hvenær sem er gripið til aðgerða og hengt einstaklingum fyrir óæskilega hegðun. Leyniþjónustan Stazi sá um upplýsingaöflun og hafði um hundrað þúsund almenna borgara til að njósna um nágranna sína. Þetta var kúgun sem valdhafar beittu fólk með skefjalausu eftirliti og persónunjósnum.

Í upplýsingasamfélagi nútímans er hægt að fá upplýsingar um neyslu fólks, skoðanir, hegðun, heilsu, búsetu og margt fleira. Hægt að búa til rafrænan prófíl af einstaklingum. Þeir sem eignast slíkan prófíl  fá einnig ákveðið vald yfir viðkomandi einstaklingum. 

Því er hægt að taka undir niðurstöðu Svönu að við skulum vera afar nísk á upplýsingar sem varða persónu okkar. 

Í framhaldi af þessu ætla ég að sjá kvikmyndina Sicko eftir Michael Moore en þar er bandaríska heilbrigðiskerfið tekið í gegn. Hef heyrt að tryggingarfélögin þar séu alræmd og því skil ég ótta fólk í Bandaríkjunum um að tryggingarfélög komist í rafræna prófil þeirra.


Kapteinn Gallas þrítugur

Í dag, 17. ágúst á William Gallas, nýkrýndur fyrirliði Arsenal þrítugur.  Hann fæddist í Asniéres-sur-Seine héraði í Frakklandi. Kominn af innflytjendum frá Guadeloupian sem eyjaklasi í Karabíska hafinu. Annar kappi heldur upp á þrítugs afmæli sitt í Barcelona á sama tíma, hann heitir Thierry Henry.

Það hefur ekki verið neitt smá knattspyrnugot í Frakklandi fyrir akkúrat 30 árum.

Kíkjum aðeins á feril fyrirliðans:

Kemst á samning hjá Caen 1. ágúst 1994, þá að verða 17 ára. Er þar í þrjú ár og gengur til liðs við Marseille. Njósnarar Chelsea finna hann og er hann keyptur fyrir 6,2 milljónir punda í maí 2001. Fyrir tæpu ári síðan kemur hann til Arsenal í skiptum fyrir Ashley Cole.

Gallas hefur spilað 56 landsleiki fyrir Frakkland og skorað tvö mörk.

     Ár            Félag        Leikir (mörk) 

1994-1997   Caen           34   (0) 
1997-2001   Marseille    111   (5)
2001-2006   Chelsea     179 (15)
2006-           Arsenal        22   (3)

 


Vatnajökulsþjóðgarður á heimsminjaskrá UNESCO

Það verður stór stund þegar Vatnajökulsþjóðgarður verður formlega stofnaður. Það er von mín að þegar stjórnin er búin að móta þjóðgarðinn skoði hún hvort hann hagnist ekki verulega á að fara á heimsminjaskrá UNESCO.  Sá í frétt fyrir stuttu að hinn tilvonandi þjógarður sé á umsóknarlista ásamt Surtsey. Vatnajökulsþjóðgarður hefur alla burði til að fara í efsta flokk.

Ég eyddi tveim vikum á Tenerife í sumar. Í júní sl. fengu stjórnvöld á Tenerife þau skilaboð að El Teide þjóðgarðurinn hefði verið tekinn inn á heimsminjaskrá UNESCO. Tenerife búar, sem keppa við Íslendinga um ferðamenn, voru mjög ánægðir með niðurstöðuna. Höfðu eignast tákn "emblem" um náttúru eyjunnar.  Á Tenerife er borgin La Laguna á heimsminjaskránni og þjóðgarðurinn á næstu eyju, La Gomera.


mbl.is Skipað í stjórn Vatnajökulsþjóðgarðs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Um bloggið

Sigurpáll Ingibergsson

Höfundur

Sigurpáll Ingibergsson
Sigurpáll Ingibergsson
Hornfirðingur búsettur í Kópavogi. Árgerð 1965.
Ágúst 2007
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • IMG 4410
  • IMG 4385
  • IMG 4421
  • Á afskekktum stað
  • Tíminn051071

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (30.4.): 3
  • Sl. sólarhring: 12
  • Sl. viku: 428
  • Frá upphafi: 235391

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 353
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband