Ný gönguleið á Fimmvörðuhálsi

Í magnaðri Jónsmessuferð á Fimmvörðuháls yfir nótt með Útivist var farin ný gönguleið sem stikuð var fyrir rúmri viku. Duglegir og framtakssamir farastjórar Útivistar sáu um verkið.

Þegar komið er yfir göngubrúnna yfir Skógá  þá eru nú þrír möguleikar á að ná norður á hálsinn. Hin hefðbundna gönguleið er að fylgja stikaðri leið norður á Fimmvörðuháls. Önnur er að fylgja vegaslóða að Baldvinsskála en hún er lengri en léttari.

Nýja leiðin, Þriðja leiðin liggur í vestur, að vestari hvísl Skógár. Þaðan er Kolbeinsskarði fylgt og þegar komið er á Kolbeinshaus þá er göngumaðurinn kominn að skála Útivistar, Fimmvörðuskála á Fimmvörðuhálsi.

Sterklegur vegvísir er á vestri bakkanum og blasir við þegar komið er yfir brúnna og vísar veginn á Fimmvörðuskála, Bása og Þórsmörk.

Það sem þessi nýja leið hefur uppá að bjóða eru fleiri fossar. Á tveim stöðum sáum við fossa sem virtust koma út úr berginu og minntu á Hraunfossa í Hvíta en þeir voru ekki eins vatnsmiklir. Einnig finnur maður meira fyrir nálæg hins þekkta Eyjafjallajökuls.

Einn nafnlaus en stórglæsilegur slæðufoss er í fossaröðinni sem fylgir nýju leiðinni og  minnir hann mjög á Dynjanda eða Fjallfoss í Arnarfirði. Þetta er glæsilegur foss sem allt of fáir göngumenn hafa séð.

SlaedufossSkogaV2

Þessi glæsilegi slæðufoss er í Skóga en upptök árinnar eru við Fimmvörðháls og koma fleiri hvíslar í hana á leiðinni niður Skógaheiði. 

Myndin var tekin um eitt eftir miðnætti á Canon EOS 500D. Myndavélin var stillt á ISO 3200, 1/40 f3,5 og P(rogram).


Hátindur í Grafningi (425 m)

Lengsta degi ársins var fagnað með göngu á Hátind í Grafningi með gönguhópi JÖRFÍ í björtu og fallegu veðri.

Hátindur Dyrafjöllum er einnig notað til að bera kennsl á en þeir eru nokkrir á landinu, m.a. á Esjunni.

Hátindur og Jórutindur standa hlið við hlið við suðvestanvert Þingvallavatn. Þeir eru oft nefndir í sömu andránni. Gengið var upp á hrygginn sem gengur suður frá fjallinu en það er nokkuð þægileg leið. Af toppnum er gott útsýni yfir vatnið og fjallahringinn. Gríðarlega fallegt útsýni er yfir Hestvík og hæðótt landslagið í kringum hana. Ekki var gengin sama leið til baka, heldur skotist niður í dalinn milli Hátinds og Jórutinds. Telja sumir að svona geti landslagið í Gjálp verið eftir hundrað þúsund ár.

Ekki urðum við vör við Jóru tröllkonu en þegar keyrt var heim, mátti sjá tröllsandlit í fjallinu. Hræ af tveim dauðum kindum lá undir Jórutindi og spurning um hvernig dauða þeirra bar að garði.

Dagsetning: 21. júní 2011
Hæð: 425 metrar
Hæð í göngubyrjun:  192 metrar, Grafningsvegur 360, (N:64.08.899 - W:21.15.541)
Hækkun: Um 233 metrar         
Uppgöngutími:  60 mín (19:00 - 20:00)  1,7 km
Heildargöngutími: 105 mínútur  (19:00 - 20:45), 3,4 km
Erfiðleikastig: 2 skór
GPS-hnit vörður:  N:64.08.604 - W:21.16.428
Vegalengd:  3,4 km
Veður kl. 21 Þingvellir: Bjart, S  1 m/s, 10,6 gráður. Raki 74%  - regnbogi

Þátttakendur: GJÖRFÍ, 18 þátttakendur   

GSM samband:  Já  .

Gönguleiðalýsing: Ekki erfið ganga, fyrst er gengið eftir grýttum vegaslóða að rótum Hátinds en síðan um 100 metra hækkun yfir umhverfið upp á topp. Smá klöngur og fláar á leiðinni. Hægt að fara hringleið.

 

Hatindur

Hátindur, móbergshryggur sem rís eins og nafnið gefur til kynna til himins.

Jorutindur

Jórutindur er eins og skörðótt egg séð frá austri en lítur sakleysislega út frá Hátindi. Tindurinn er nánast allur úr veðursorfnum móbergsklettum.


Google: Vinsældir Grímsvatna minnka en Eyjafjallajökull bætir við sig.

Þegar eldgosið í Grímsvötnum hófst þann 21. maí var eldstöðin lítt þekkt á jarðkúlinni og Google. Gosið var kröftugt í byrjun og þegar flugferðum var aflýst tók heimspressan við og Grímsvötn ruku upp í vinsældum.  Einnig tók Eyjafjallajökull við sér en vefmiðlar tóku að rifja upp samgöngur á síðasta ári.

Hér er línurit sem sýnir leitarniðurstöður á Google fyrir Grímsvotn, Eyjafjallajökul og hið alræmda IceSave mál.

Grímsvatnagos 2011

Eyjafjallajökull birti tæplega 500 þúsund leitarniðurstöður þegar Grímsvatnagosið hófst en Grímsvotn 137 þúsund. Síðan tekur hinn heimsfrægi Eyjafjallajökull við þegar fréttir berast af gosinu en þegar öskuský dreifir sér yfir Evrópu, þá tekur Grímsvatnagosið við sér. Þegar krafturinn hverfur úr því, þá dettur það niður en Eyjafjallajökull heldur sínu striki.

Hæsti fjöldi Eyjafjallajökuls mældist rúm 21 milljón í lok júní 2010.

Það sem veldur niðursveiflu leitarniðurstaðna á Google er að færslur hverfa af forsíðu fréttamiðla eða samfélagsmiðla og eru geymdar djúpt í gagnagrunnum.

Manngerðu hamfarirnar, IceSave, halda sínu striki lúra í 6 milljónum leitarniðurstaðna og Eyjafjallajökull hefur ekkert í þann bankareikning að gera.

Til samanburðar þá er Ísland með 45 milljónir, Iceland með 274 milljónir og japanska kjarnorkuverið Fukushima með 77,5 milljónir leitarniðurstaðna.


Skálafell við Mosfellsheiði (774 m)

Skálafell við Mosfellsheiði er einkum þekkt fyrir tvennt, endurvarpsmöstur og skíðasvæði. Verkefni dagsins var að kanna þessi mannvirki.

Leiðalýsing:
Ekið eftir Vesturlandsvegi, beygt upp í Mosfellsdal og síðan í átt að skíðasvæðinu. Vegalengd 3 km. Hækkun 400 m.

Facebook færsla:
Fín ganga á Skálafell (790 m) ásamt 40 öðrum göngugörpum, dásamlegt veður en smá þokubólstrar skyggðu á útsýnið en rættist nú ótrúlega úr því samt...

Skálafellið var feimið og huldi sig þegar okkur bar að garði. Þegar niður var komið tók deildarmyrkvi á sólu á móti okkur. Gott GSM-samband á toppnum.

Gengið var frá skíðaskála, hægra megin við gil nokkurt og síðan stefna tekin á efstu lyftuna en KR á hana. Þegar þangað var komið sást í snjó í 670 metra hæð og náði hann að mannvirkjum á toppnum. Skálafellið gerðist feimið er okkur bar að garði og gengum við í þokuna þar sem við mættum snjónum. Á uppleiðinni voru helstu kennileiti í suðri, Hengillinn, Búrfell í Grímsnesi, Leirvogsvatn og Þingvallavatn.

Þegar upp var komið tók á móti okkur veðurbarið hús en vindasamt er þarn. Veðurstöð er í byggingunni en hún bilaði fyrr um daginn.

Nafnið, Skálafell er pælingarinnar virði. Ein kenning er að skáli hafi verið við fjallið við landnám en útsýni frá því yfir helstu þjóðleiðir gott. Amk. 6 Skálafell og ein Skálafellshnúta eru til á landinu og ef fólki vantar gönguþema, þá má safna Skálafellum.

Skalafell-lyftur

 

Dagsetning: 1. júní 2011
Hæð: 774 metrar
Hæð í göngubyrjun:  379 metrar, Skíðasvæði í Skálafelli, (N:64.13.929 - W:21.25.922)
Hækkun: Um 400 metrar         
Uppgöngutími:  70 mín (19:05 - 20:15)  2,05 km
Heildargöngutími: 115 mínútur  (19:08 - 21:00), 4,1 km
Erfiðleikastig: 2 skór
GPS-hnit möstur:  N:64.14.442 - W:21.27.782
Vegalengd:  4,1 km
Veður kl. 20 Þingvellir: Bjart, NV  7 m/s, 9,8 gráður. Raki 65%  (minni vindur á felli)

Þátttakendur: Útivistarræktin, 41 þátttakandi af ýmsum þjóðernum, 12 bílar   

GSM samband:  Já  - Dúndurgott, sérstaklega undir farsímamöstrum.

Gönguleiðalýsing: Lagt af stað frá fyrsta bílastæði við skíðalyftur og gengið hægra (austan) megin við gilið. Síðan fylgt hæstu lyftu í 670 m hæð. Þá tók snjór og þoka við. Þaðan er stuttur spölur að fjarskiptamöstrum. Gengin sama leið til baka en hægt að halda í vestur, ganga út á nef fellsins, líta til Móskarðshnúka og halda til baka. Góð gönguleið hjá ónotuðu skíðasvæði. Skál fyrir góðri ferð!

Mostur

Stundum eru mannvirki á fjöllum listræn að sjá.

Skidalyfta

 Með hækkandi hita á jörðinni hefur notkun skíðamannvirkja í Skálafelli lagst af. Stólarnir hanga og bíða örlaga sinna.


Um bloggið

Sigurpáll Ingibergsson

Höfundur

Sigurpáll Ingibergsson
Sigurpáll Ingibergsson
Hornfirðingur búsettur í Kópavogi. Árgerð 1965.
Júní 2011
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30    

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • IMG 4410
  • IMG 4385
  • IMG 4421
  • Á afskekktum stað
  • Tíminn051071

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (9.7.): 10
  • Sl. sólarhring: 11
  • Sl. viku: 301
  • Frá upphafi: 236827

Annað

  • Innlit í dag: 10
  • Innlit sl. viku: 248
  • Gestir í dag: 9
  • IP-tölur í dag: 9

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband