28.4.2011 | 21:47
Búrfellsgjá (183 m)
Þau eru mörg Búrfellin hér á landi. Það er talið að það séu til amk 47 Búrfell. Þau er nokkuð há stapafjöll mörg hver með klettum ofantil. Á vefnum ferlir.is segir ennfremur um Búrfellsnafnið: "Vel má vera að nafnið hafi upphaflega verið ósamsett, Búr, en síðari liðnum -fell, bætt við til skýringar. Búr er einmitt til sem nafn á þverhníptum klettum í sjó. Líklegt er að nafnið Búrfell sé dregið af orðinu búr í merk. 'matargeymsla', og þá helst sem stokkabúr, sem voru reist á lóðréttum bjálkum upp frá jörð svo að dýr kæmust ekki í þau, öðru nafni stafbúr".
Verkefni dagsins var að heimsækja Búrfellsgjá, sem tengist Búrfelli einu og er vanmetin náttúruperla stutt frá fjölbýlinu. Búrfellsgjá er 3,5 km hrauntröð sem liggur vestur úr Búrfelli. Hrauntröðin er farvegur glóandi kvikunnar sem kom upp í gosinu og fyllti kvikan tröðina upp á barma. Í lok eldvirkninnar tæmdist hrauntröðin. Talið er að hraun þetta, Búrfellshraun hafi runnið fyrir um 7200 árum og þekur 18 km2.
Keyrt framhjá Vífilsstaðavatni, framhjá Heiðmörk og í austurátt meðfram Vífilsstaðahlíð. Síðan var lagt í hann eftir merktum göngustíg, niður að Vatnagjá í botni Búrfellsgjár. Steinsnar frá Vatnagjá er Gjárétt og hefur vatnið úr henni verið forsenda fyrir selstöð.
Gjárétt stendur á flötum hraunbotni Búrfellsgjár ekki langt frá misgengisbrúninni á mótum Selgjár og Búrfellsgjár. Réttin er hlaðin um 1840 úr hraungrýti úr nágrenninu. Innst í réttargerðinu er gjábarmurinn veggbrattur af náttúrunnar hendi og slútir fram yfir. Þar innundir berginu er hlaðið byrgi sem var notað sem fjárbyrgi og afdrep manna til gistingar. Annað var ekki í boði fyrir einni og hálfri öld.
Garðbæingar eiga hrós skilið fyrir upplýsingaskilti og gerð göngu- og hestastíga. Gjárétt er vel útskýrð á skiltinu og hvernig eignarhaldi var háttað.
Stutt, skemmtileg og fróðleg ganga.
Dagsetning: 27. apríl 2011
Hæð: 183 metrar
Hæð í göngubyrjun: 113 metrar, Vífilsstaðahlíð, N:64.02.814 W:21.51.12
Hækkun: 70 metrar
Uppgöngutími: 60 mín (19:00 - 20:00) 2,55 km
Heildargöngutími: 120 mínútur (19:00 - 21:00)
Erfiðleikastig: 1 skór
GPS-hnit varða: N: 64.01.990 - W: 21.49.950
Vegalengd: 5,0 km
Veður kl. 18 Reykjavík: Bjart, S 1 m/s, 8,1 gráður. Raki 67%, skyggni 25 km. Skúraský. Ekkert haglél í þetta skiptið, sól og yndislegt veður til göngu.
Þátttakendur: Útivistarræktin, 27 manns
GSM samband: Já - en datt niður í gjám
Gönguleiðalýsing: Lagt af stað frá Vífilsstaðahlíð um Búrfellshraun, að Vatnagjá, Gjárétt og upp Búrfellsgjá.
Tignarlegur inngangur í Gjárétt en hún var hlaðin úr hraungrýti um 1840.
Hrauntröð sem var full af kviku fyrir 7000 árum en tæmdist í lok eldvirkninnar.
Göngumenn ganga á börmum eldstöðvarinnar, í 160 m hæð en hæsti punktur er 183 metrar.
Heimild:
Upplýsingaskilti, útivistarlönd Garðbæinga og Garðabær útivistarsvæði.
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 22:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.4.2011 | 12:51
Á afskekktum stað
Bókin Á afskekktum stað er nýútkomin og gefur Bókaútgáfan Hólum hana út. Hún er byggð á samtölum Arnþórs Gunnarssonar sagnfræðings við sex Austur-Skaftfellinga.
Viðmælendur höfundar eru hjónin Álfheiður Magnúsdóttir og Gísli Arason, sem fædd eru og uppalin á Mýrum, Ingibjörg Zophoníasdóttir á Hala í Suðursveit, Þorvaldur Þorgeirsson, sem í áratugi gegndi verkstjórn í bandarísku ratsjárstöðinni á Stokksnesi, og feðgarnir Sigurður Bjarnason og Einar Rúnar Sigurðsson á Hofsnesi í Öræfum. Á afskekktum stað er því eins konar ferðalag í tíma og rúmi.
Arnþór nær góðu sambandi við viðmælendur og ríkir greinilega mikið traust á milli aðila. Viðmælendur eru einlægir í frásögn og óhræddir við að greina frá stjórnmálaskoðunum sínum.
Viðtalið við Álfheiði og Gísla er fallegt og sátt fólk þar á ferð.
Ingibjörg er aðkomumanneskja og gaman að sjá hennar sjónarhorn. Einnig eru skemmtilegar sögur af Torfa Steinþórssyni eiginmanni hennar. Það er gaman að sjá mismunandi stílbrigði í bókinni en í þessum viðtalskafla er sögumaður ekki að leggja fyrir beinar spurningar.
Þorvaldur segir frá kynnum sínum af varnarliðsmönnum og sýnir okkur inn í heim sem var mörgum hulinn en samskipti Hornfirðinga og Bandaríkjamanna voru lítil. Enda sést það best á því að körfubolti var ekki spilaður á Hornafirði á þessum tímum.
Feðgarnir frá Hofsnesi eru einlægir í viðtölum sínum og skín í gegn mikil ættjarðarást hjá þeim enda búa þeir á merkilegum stað. Erfiðar samgöngur voru stór þáttur í einangrun Austur-Skaftfellinga en þær breyttust þegar leið á öldina. Hættulegar ár voru brúaðar og vegatenging kom á sem og flugvélar. Athyglisverðast fannst mér þó að lesa um nýjustu samgöngubæturnar en það er Internetið.
Einar segir svo frá: "....Það var ekki fyrr en 1997, minnir mig, sem við fengum Internettengingu heim á Hofsnes. Þá setti ég upp eigin heimasíðu þar sem voru líka upplýsingar um ferðirnar út í Ingólfshöfða."
"Fannst þeir það breyta miklu? Opnaði það einhverja möguleika?"
"Algjörlega."
"Hvernig þá?"
"Á meðan ég notaðist eingöngu við auglýsingar sem ég hengdi upp sjálfur var mikið um að ég fengi viðskiptavini sem ákváðu að slá til með skömmum fyrirvara af því að þeir höfðu séð ferðirnar auglýstar þegar þeir voru komnir á svæðið en eftir að heimasíðan kom til sögunnar fékk ég miklu fleiri viðskiptavini sem voru búnir að kynna sér ferðirnar og ákveða sig með góðum fyrirvara. Hinir síðarnefndu komu þar af leiðandi betur undirbúnir en hinir fyrrnefndu."
Svo kom ljósleiðari í Öræfin, glæsilegt framtak hjá Öræfingum og stór stökk inn í framtíðina. Einangrunin algerlega rofin.
Það kom mér á óvart að heyra í fyrsta skiptið um fyrirtækið Jöklasól sem Guðjón Jónsson frá Fagurhólsmýri stofnaði stuttu eftir tilkomu þjóðgarðsins í Skaftafelli. Boðið var upp á skoðunarferðir um Öræfi og flutti hann ferðafólk milli flugvallarins í Fagurhólsmýri og Skaftafells.
Fróðleg, skemmtileg og er þetta að sjálfsögðu hin mesta bókarbót.
Bækur | Breytt s.d. kl. 17:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.4.2011 | 21:17
Skaftfellingur og Skaftafell
Þegar ég horfði á heimildarmyndina, rifjaðist upp fyrir mér þegar frystiskipið Skaftafell kom í fyrsta sinn til heimahafnar sinnar, Hornafjarðar. Ég mundi ekki hvaða ár en ég man vel eftir þessum degi. Þá var mikið tilstand á Hornafirði og öllum bæjarbúum boðið til veizlu. Ég mundi að það var einnig fallegt veður þennan dag. Til að rifja þessa minningu upp, þá fór ég á timarit.is og leitaði upplýsinga.
Það kom mér á óvart að þetta var árið 1971, þá var ég 6 ára og einnig árstíminn en sumarveður var dag þennan á Hornafirði.
Mogginn birti frétt daginn eftir hátíðarhöldin, í sunnudagsblaðinu en Elías, líklega Elli lögga, skrifaði hana. Hann var því á undan Tímanum sem birti miklu stærri frétt á þriðjudeginum eftir hátíðarhöldin. Enda var Tíminn málgagn Framsóknarflokksins og SÍS.
Skipadeild SÍS með m/s Skaftafell í flotanum varð síðan að Samskipum og byggði Ólafur Ólafsson í Samskipum veldi sitt á flutningum. Það hefur þurft að afskrifa milljarða út af útrásarævíntýri Óla. Maður hefði kannski ekki átt að fagna flutningaskipinu svo vel fyrir nærri 40 árum!
Frétt í Morgunblaðinu 3. október 1971.
Á forsíðu Tímans, 5. október 1971, var mynd af Skaftafelli og frétt af Ólafi Jóhannessyni að vinna pólitískt afrek. Á bls. 2 var heilmikil frétt um komu m/s Skaftafells sem kom til heimahafnar í fyrsta sinn.
Fjölmiðlar | Breytt s.d. kl. 21:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.4.2011 | 13:36
El Clásico
Veisla framundan. Fjórir El Clásico, en það eru leikir Barcelona og Real Madrid. Sá fyrsti verður í kvöld í Madrid. Barcelona má tapa honum 4-0 enda staða þeirra í spænsku deildinni mjög góð. Í desember áttust þessi stórlið við og hafði Barcelona 5-0 sigur í einum besta leik sem sést hefur. Staðan í spænsku deildinni:
Barcelona 31 85:16 84
Real Madrid 31 72:22 76
Sjö leikir eftir og Barcelona með góða forystu sem þeir munu ekki láta af hendi. Spáin er naumur sigur hjá Real Madrid.
Leikið verður í spænska bikarnum á miðvikudaginn, 20. apríl og þá á Real Madrid heimaleik sem þeir gætu álpast til að vinna.
Síðan koma tveir leikir í Meistaradeildinni. Sá fyrri verður 27. apríl í Madrid og síðari leikurinn þann 3. maí í Barcelona. Reikna ég með að Barcelona fari í úrslit Meistaradeildarinnar úr þeirri rimmu.
Jú, maður tekur þátt í veislunni og fylgist vel með í kvöld og næstu kvöld.
Leikir Barcelona og Real Madrid er miklu meira en fótboltaleikur. Hann er um þjóðernishyggju, sjálfstæðisbaráttu, völd og frelsi. Menningarmunur á milli Katalóníu og Kastilía. (Castile). Ég var svo lánsamur að komast á leik milli liðanna 21. október árið 2000 en þess leiks verður ávallt minnst sem leiksins þegar Luis Figo fór yfir til Madrídar. Það voru landráð.
Hér fyrir neðan er miðinn sem ég náði að kaupa rétt fyrir leik, á besta stað, beint fyrir ofan harða stuðningsmenn Barcelona. Var stórmagnað að fylgjast með þeim, mun athyglisverðara en leiknum sjálfum. Einkunnarorð stuðningsmanna Barcelona eru: "Catalonia is a nation and FC Barcelona its army".
Íþróttir | Breytt s.d. kl. 13:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.4.2011 | 17:43
Risa plástrar hjá Microsoft
Þeir eru stórir plástrarnir frá Microsoft um þessar mundir. Notendur þurf að taka frá drjúgan tíma þegar þeir taka niður tölvurnar og nýir plástrar hlaðast inn til að auka öryggið.
Windows7 á rafreikni mínum í vinnunni tók drjúgan tíma í gær en ég þorði ekki að taka rafmagnið af henni enda var hún í alvarlegu ástandi. Uppfærslurnar voru 20. Alls voru 8 krítískir öryggisgallar lagaðir og þrír meiriháttar.
Windows Vista var með 23 uppfærslur, uppfærði 9 krítískar og 3 meiriháttar öryggisholur.
Stærsta öryggisuppfærslan var þó á Internet Explorer vafranum en alvarlegur öryggisveikleiki var lagaður. Náði hún yfir allar viðurkenndar útgáfur IE, þ.e. #6, #7, #8 og #9.
Microsoft gefur út plástra annan þriðjudag í mánuði hverjum. Nú er spurningin, hvernig verður næsti plásturs-þriðjudagur, 10. maí hjá Microsoft?
Tölvur og tækni | Breytt s.d. kl. 18:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Sigurpáll Ingibergsson
Færsluflokkar
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Enski boltinn
- Evrópumál
- Ferðalög
- Fjármál
- Fjölmiðlar
- Heilbrigðismál
- Heimspeki
- Íþróttir
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Lífstíll
- Ljóð
- Löggæsla
- Mannréttindi
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Pepsi-deildin
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Sveitarstjórnarkosningar
- Tónlist
- Trúmál
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (9.7.): 4
- Sl. sólarhring: 12
- Sl. viku: 295
- Frá upphafi: 236821
Annað
- Innlit í dag: 4
- Innlit sl. viku: 242
- Gestir í dag: 4
- IP-tölur í dag: 4
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar