Vorfundur JÖRFÍ

Þegar maður á lénið vatnajokull.com, þá getur maður ekki verið þekktur fyrir annað en að vera félagi í Jöklarannsóknafélaginu. 

Í kvöld var Vorfundur Jöklarannsóknarfélgs Íslands í Öskju og hélt Þorsteinn Þorsteinsson, jöklafræðingur fróðlegt erindi um rannsóknir í Skaftárkötlum 2006-2008. Greindi hann frá borleiðangrum til katlana í vorferðum á Vatnajökul 2006 og 2007 frá gangi borana, mælinga og sýnatökum. Síðan lýsti hann helstu niðurstöðum mælinga á vatnshita. Fróðlegt líkan af hræringum í lóninu undir kötlunum til skýringar á hinu mælda ferli var kynnt.  Kom þar í ljós að þarna voru miklir vísindamenn á ferð.

Skemmtileg saga var sögð af merkilegur símtali. En svo er mál með vexti að einn vísindamanna, Bergþór að nafni, hringir úr farsíma úr porti hjá Orkustofnun í mastur sem statt er í eystri Skaftárkatli. Mastrið gefur samband 300 metra niður í jökulinn í búnað sem er þar og tækið segir, "fjórar gráður", en það er hitinn á vatninu undir katlinum. Mjög athyglisvert samtal við mjög athyglisvert tæki á mjög athyglisverðum stað.

Að loknu erindi var myndasýning úr Kerlingarfjöllum en sumarferð félagsins verður heitið þangað í lok júní. Magnús Tumi Guðmundson sýndi myndir og útskýrði faglega tvær  öskjur  í Kerlingarfjöllum og greindi frá aldri nokkra tinda þar. Sá elsti er Höttur og er 350 þúsund ára gamall en sá yngsti er um 100 þúsund ára gamall. Einnig sýndi hann ljósmyndir sem teknar voru árið 1941 og bar saman við nýlegar myndir og eyðing jökla er augljós.


Derbyleikur

Í kvöld er leikur Derby County og Arsenal. Derby er lélegasta lið sem spilað hefur í ensku Úrvalsdeildinni og hefur aðeins unnið einn leik í 35 tilraunum.  Því ætti leikurinn í kvöld að vera formsatriði.

En það borgar sig ekki að vanmeta andstæðinginn. Ég man alltaf eftir leik Stoke City og Arsenal í lok mars 1985. Þá var Stoke lang lélegasta lið deildarinnar. Fékk aðeins 17 stig í 42 leikjum og mínir menn í heimsókn. Næsta lið var Sunderland með 40 stig. Ég var með flott kerfi í getraunum og tryggði leik Stoke City og Arsenal. Tveir var merkið. Ég var í Menntaskólanum að Laugarvatni og tölti upp í sjónvarpsherbergi á skólavistinni um miðjan laugardag til að sjá flottar tölur. Bjarni Fel hóf að þylja úrslitin og þegar komið er að leik Stoke City og Arsenal fraus ég.

Stoke hafði unnið mjög óvæntan sigur, 2-0. Ótrúleg úrslit, getraunakerfið gaf ekki krónu.  Lið Arsenal var skipað:

John Lukic; Viv Anderson, Kenny Samson, David O'Leary, Tommy Caton; Stevie Williams, Brian Talbot, Graham Rix;  Paul Mariner, Tony Woodcock og Raphael Meade.  Mig langaði að senda þeim reikninginn fyrir getraunakerfinu.  Everton var yfirburðaliðá þessum árum.

Ég á ekki von á svo óvæntum úrslitum í kvöld, stöðugleikinn er meiri og munurinn meiri á liðunum. Fabregas verður vonandi í stuði eftir útnefninguna á efnilegasta leikmanninum í gærkvöld.

 


mbl.is Arsenal á enn möguleika á titlinum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mögnuð útsending

Stórskemmtilegt að fylgjast með ykkur á þaki Íslands, Hvannadalshnjúk. Gaman að vera með ykkur í beinni á toppnum. Smá hnökrar í streymi eftir að mbl.is sendi þjóðina til ykkar.  Góða niðurferð.

Pétur, Síminn og félar, til hamingju með tækniafrekið.

Beint-Petur


mbl.is Bein útsending frá Hnjúknum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fyrsta vítið

Það er athyglisvert að þetta er fyrsta vítið sem Manchester fær dæmt á sig á keppnistímabilinu. Það eru ekk nein smá forréttindi og forgjöf sem þetta ágæta lið hefur. Oft hefur mátt dæma víti í teig United í vetur en alltaf hafa þeir sloppið.  Dómarar hræddir við Ferguson.

Svo kunna þeir enn atriðið þegar taka á vítið þó sjalda komi upp. Manchester menn tuða og tuða og gera allt til að trufla einbeitningu vítaskyttunnar.  Ballack var vandanum vaxinn og stóðst pressuna. Þýska stálið bránaði ekki.

 


mbl.is Chelsea sigraði Man Utd, 2:1, og liðin jöfn að stigum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Grænfáninn í Lífsmenntaskólanum Álfaheiði

Ari litli er í Lífsmenntaskólanum Álfaheiði.  Dagurinn í dag var stór dagur hjá þeim. Þau fengu Grænfánan afhentan.  Þetta er gott framtak hjá leikskólanum eða Lífsmenntaaskólanum.

Krakkarnir fá fræðslu um sorpið og endurnýtingu. Um daginn heimsóttu krakkarnir Sorpu og lærðu þar að plastflöskurnar eiga framhaldslíf. Þær enda í flíspeysum. Nú má ekki henda neinni gosflösku í almenna ruslið.  Sama gildir um dagblöðin, þau fara í sér gám. Einnig fara umbúðir um mjólkina sömu leið. Verkefni þetta nær ekki tilgangi sínum nema við foreldrar heima stöndum á bakvið nýju kynslóðina. 

 


Krían er komin

Sá gleðilega og árlega frétt á textavarpinu í dag, sumardaginn fyrsta.

Krían er komin                        
 Krían er komin. Kristín Benediktsdóttir
 á Hornafirði sá kríu smemma í morgun  
 við Ósland. Þá sást einnig til hennar 
 við Skerjafjörðinn í gær og maður á   
 Djúpavogi sagðist hafa séð kríu um    
 liðna helgi. Krían kemur hingað eftir 
 vetursetu á Suðurskautslandinu.       
 Vegalengdin þaðan eru rúmir 15.000    
 kílómetrar. Talið er að það taki kríuna
 um 30 daga að fljúga hingað á vorin.  
                                       
 Ferðlag hennar á haustin, þegar hún fer
 héðan, tekur lengri tíma eða um 90    
 daga. Ferðatími kríunnar milli varp- og

 vetrarstöðva er því um fimm mánuðir.  

Etv. rangt reiknað í lokin. Í fyrra kom krían á Hornafjörð 22. apríl en þá sáust tvær kríur og árið 2006 sáust fyrstu kríurnar 23. apríl. Merkilegur fugl þessi kría.

Gleðilegt sumar


Moskva

NouCamp

"Ég hefði sparkað boltanum í burtu", sagði Ari litli sem nýlega var kominn af æfingu hjá 8. flokk Breiðabliks, er hann sá jöfnunarmak Chelsea á móti Liverpool í gærkveldi. Ef Riise hefði hugsað eins og Ari litli, þá hefði Liverpool verið næstum komið með annan fótinn í úrslitaleikinn í Moskvu.

Ég fór til Barcelona aldamótaárið og hreift mjög af borginni og liðinu sem kennt er við borgina. Þegar heim var komið frétti ég af stuðningsmannaklúbbi hjá Barcelona hér á landi. Ég skráði mig í hann en það hefur farið lítið fyrir honum og ekki hafa peningaútgjöld verið mikil.

Það verður gaman að sjá leik Barcelona og Manchester United á Nou Camp. Barcelona er mikið sóknarlið og vörnin ekki nógu traust. Ég óttast ég að þeir fái á sig mark á heimavelli en það er slæmt í útsláttarkeppni.  Katalóninn og fyriliðinn Poyul er í leikbanni hjá Barca og í hjarta Manchester vantar hinn öfluga Vidic. Það er því skarð fyrir skildi í báðum vörnum.

Barcelona spilar 4-3-3 og er framlínan mögnuð. Messi, Eto'o og Deco. Var að vona að Henry myndi hefja leik en Deco kemur í staðinn.   Ég sá leik í febrúar á Nývangi. Barcelona lagði Levante 5 -1 og skoraði Eto'o þrennu. Þar  var Xavi gríðarlega skapandi á miðjunni og þegar á leikinn leið tók Toure öll völd á miðvellinum. Það verður gaman að fylgjast með þeim gegn Ronaldo og Scholes.

Spáin er 3-1 sigur hjá Barcelona.   Vonandi dugar þessi úrslit til að komast til Moskvu í maí.

Vefur Barcelona á Íslandi


mbl.is Eiður á bekknum - Vidic ekki með Man Utd
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ökumaðurinn var útlendingur

Blaðamannafélag Íslands hélt ráðstefnu í gær. "Hinn grunaði er útlendingur - umfjöllun fjölmiðla um innflytjendur og afbrot “. Þar kom fram að umræðan er skammt á veg komin hér á landi en virðist vera að þroskast.   Hátt hlutfall frétta um innflytjendur var neikvætt og sjaldan talað við innflytjendur sjálfa.   Hér er ein jákvæð saga af innfluttum ökumanni.

Var að ferðast um höfuðstaðinn síðla kvölds í vikunni. Hafði verið að spila brids og var argur út í síðasta spil kvöldsins. Klúður í sögnum hafði kostað toppsætið. Kem að gatamótum og stöðva bíllengd fyrir aftan rauðan japanskan pallbíl. Skyndilega byrjar bíllin fyrir framan mig að nálgast. Hann nálgast og nálgast. Pallbíllinn var ekki að renna fá sentímetra áður en skipt er í fyrsta gír. Hann er í bakkgír! Ég hef sekúndu og ákveð að reyna að bakka en næ ekki að framkvæma neitt. Dráttarkúlan á þeim japanska finnur leið undir stuðarann á jepplinginum mínum og þrýstir óvarlega á vatnskassann. Við vorum óslasaðir. Ég hopa út og í sömu andrá stígur ökumaður pallbílsins út og mælir:  "Ég ekki sjá þig." Hann er útlendingur.

Ég taldi þetta ekki mikinn árekstur. Bara nudd. Ég kyrrstæður og útlendingurinn á fjórum km/klst. Ég sé að dráttarkúlan er flækt í stuðara og kíki undir jeppling minn.  Þá sé ég að vatnið rennur af vatnskassanum. Það fauk í mig og ég blótaði ógurlega og stappaði niður fótunum. Fyrst spaðastubbur og ellefu slagir. Síðan ónýtur vatnskassi. Ekki pirraði það mig þó ökumaður pallbílsins væri ekki fæddur hér á landi. Ég sá ég að það bætti ekki neitt að vera eins og naut í flagi og ákvað að vera jákvæður.  Ég ræddi við innflytjandann um stöðuna sem upp var komin en hann talaði ágæta íslensku. Við reyndum að ná bílunum í sundur en það tókst ekki. Kúlan hafði húkkað sig fasta. Innflytjandinn kunni ráð. Hann tók splitti úr dráttarkúlunni og þá losnaði hún frá bíl hans. Síðan náðu við að þræða kúluna úr RAV-inum mínum. Ég fór og sótti tjónstilkynningu en fann ekki penna. Innflytjandinn átti penna og við hófum að skrifa niður nöfn og númer.

Ég vildi ekki keyra heim, ég gæti eyðilagt vélina. Ég spurði útlendinginn hvar hann byggi og hann sagði mér það. Leiðin var í sömu átt. Ég spurði hann hvort hann væri ekki til í að draga mig heim. "Ekkert mál", svaraði hann og síðan héldum við heim á leið. Útlendingnum þótti þetta atvik leitt og var hinn kurteisasti og hjálpsamasti. Hann var að byggja upp eigið fyrirtæki hér á landi.  Þegar ég kvaddi hann,  þá sé ég eftir að hafa rokið upp eins og djúp íslensk lægð.  En stormurinn lægði fljótt.

Ég hef síðan verið að velta því fyrir mér hvað ég var heppinn að það var útlendingur sem bakkaði a mig. Íslendingurinn hefði eflaust ekki haft tíma til að draga mig heim, eða hvað?


Eldrefurinn (Firefox) í sókn

Það eru sviptingar á vefvaframarkaðnum.  Í lok febrúar var Netscape Navigator lagður niður eða viðhaldi hætt á honum en hann var yfirburða vafrari frá árdögum netsins. Þá notuðu um 90%  notenda vafrarann. Nú er hlutfallið komið niður í 0.6%

Mikið vatn hefur runnið til sjávar frá ári netsins 1995. Internet Explorer tók mikið stökk en aðrir vafrar hafa styrkt stöðu sína. Mozilla Firefox hefur náð góðum árangri og nota margir hann til ferðast um víðáttur netsins.  

Nú í vikunni kom í ljós öryggisvandamál í Firefox og þarf því að sækja uppfærslu en nokkrir notendur lentu í því að JavaSkript ruslasöfnunin hrundi.  Því ættur allir notendur Firefox að sækja nýjustu uppfærslu. Vafrarinn spyr notendur um hvort þeir vilji uppfæra.  Sé svo ekki, þá er hægt að fara í Help --> Check for Updates.   Útgáfa 2.0.0.14 er sú traustasta frá þeim.

Ég mæli með því að fólk sæki Firefox og hafi uppsettan á tölvum sínum. Nota hann sem varadekk ef Internet Explorer er með stæla.

Kíkjum að lokum á nýjustu tölur um markaðsstöðu vefvafrara um áramótin síðustu.

Market07

Market07x

Heimildir:

Market share

Mozilla


21 ****

21Kvikmyndin 21 er byggð á metsölubókinni Bringing down the House eftir Ben Mezrich.

Myndin fjallar um af ofvitann í stærðfræði, Ben Campbell sem er sakleysislegur nemandi í MIT-háskólanum en vantar pening til að komast í læknisfræðinám í Harvard.  Það er dýrt nám 21 milljón á gengi dagsins í dag. Hann kemst vegna stærðfræðisnilli sinnar í leynihóp sem nýtir hæfileika sína í að reikna vinningslíkur í fjárhættuspilinu 21. Háskólaprófessorinn Micky Rosa er gamall spilarefur og þjálfar liðið. Þau halda því til Las Vegas um helgar og raka að sér seðlum. Ben fellur hratt fyrir þessum adrenalíndrífandi lífsstíl og enn hraðar fyrir liðsfélaga sínum, hinni gáfuðu og kynþokkafullu Jill Taylor (Kate Bosworth). Velgengni Ben vekur síðan áhuga öryggisvarða spilavítisins og hefst þá mikill kapall.

Ég hafði heyrt um að mynd væri í smíðum um MIT-nemendurna sem varpaði dýrðarljóma á háskólann en að sama skapi olli skjálfta í Las Vegas. Myndin hefur hlotið góða aðsókn hér á landi enda mikill áhugi á póker um þessar mundir.  Ég las gagnrýni í Fréttablaðinu og 24 stundum áður en lagt var í Smárabíó og fékk myndin slæma dóma, tvær stjörnur hjá hvorum dómara.

Helst fannst spekingunum að handrit væri klisjukennt og fært í óspennandi Hollýwúdd formúlu. Persónur líflausar og einhliða. Einnig sé góð saga skemmd og slitin frá raunveruleikanum. Aðalsöguhetjan í rauninni var af asísku bergi brotin en Jim Sturgess sem leikur aðalhlutverkið er Tom Cruise týpa.  Þrátt fyrir þessa niðurstöðu þá mætti ég Smárann og skemmti mér vel.  Get tekið undir það að nýja fléttan var frekar ótrúverðug en góður leikur Spacey og Sturgess sem og flotur stíll bætti upp.

Það kom nettur spilahrollur og minnti mann á skemmtileg Austurlandsmót í brids í  Valaskjálf og Suðurlandsmót í Tryggvaskála á menntaskólaárunum. Svo ekki sé talað um bridshátíð á Hótel Loftleiðum eða heimsmeistaramót í Hornafjarðarmanna.

Hafði óskaplega gaman að því þegar stærðfræðiprófessorinn Mickey Rosa, vel leikinn af Kevin Spacey, fór yfir reglurnar um takmarkað val.

Nú er spurning hvort áhugi á fjárhættuspilum, sérstaklega spilinu 21 aukist og áhugi unga fólksins á stærðfræði en það síðara má aukast mikið svo samkeppnishæfni landsins haldist.

Næsta verk er að kaupa bókina á amazon.com og læra að telja og setja upp minnislykla í fjárhættuspilinu 21.


Næsta síða »

Um bloggið

Sigurpáll Ingibergsson

Höfundur

Sigurpáll Ingibergsson
Sigurpáll Ingibergsson
Hornfirðingur búsettur í Kópavogi. Árgerð 1965.
Apríl 2008
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • IMG 4410
  • IMG 4385
  • IMG 4421
  • Á afskekktum stað
  • Tíminn051071

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (16.7.): 11
  • Sl. sólarhring: 15
  • Sl. viku: 110
  • Frá upphafi: 236938

Annað

  • Innlit í dag: 10
  • Innlit sl. viku: 94
  • Gestir í dag: 10
  • IP-tölur í dag: 10

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband