Borgarslagur í Carling cup

Við vitum lítið um lífið í Birminghamborg en við vitum meira um knattspyrnulið Birmingham sem leikur úrslitaleik Carling Cup á morgun við Arsenal sem staðsett er í heimsborginni, London.

Í smásögu eftir Einar Kárason, edrúmennska nefnist hún er ein sögupersónan við nám í Birmingham. Þar segir um Birmingham: "Borgin virtist mér reyndar vera furðu daufleg; þetta er þó næststærsta borg Englands og var mikil iðnaðarmiðstöð, er í hjarta bresku hliðstæðunnar við Ruhr-héraðið í Þýskalandi sem kallað er "Black country", sjálfsagt út af kolareyk og járnsvarfi."

Eflaust er borgin og nágrenni að verða grænni og fallegri en mikið átak hefur verið í Bretlandi að bæta umhverfið svo lungu borgarbúa og knattspyrnumanna fyllist ekki af ólofti. Það er því skrítið að Íslendingar vilji fylgja dæmi Birmingham búa á 19. öld og staðsetja stóriðju í túnfætinum.

En snúum okkur að leiknum á Wembley, mekka knattspyrnunnar. Hvernig verður lið Arsenal skipað? En þessi bikar hefur verið notaður af Wenger til að gefa nýliðum tækifæri. Nú hefur orðið stefnubreyting. Einnig hefur leiðin í úrslitaleikin verið erfið. Besta mögulega lið mætir á Wembley. Ég ætla að nota Excel-hagfræðina,  þó hún sé stórhættuleg, hún setti m.a. bankana á hausinn, og setja mínútur leikmanna inn í töflu.

 TotNewWigIpsIps
Djourou12090909090480
Koscielny12090909090480
Denilson12090909090480
Eboue12090909072462
Szczesny90909090360
Wilshire120736790350
Bendtner83856890326
Gibbs102189090300
Walcott9090906276
Vela72699011242
Arshavin487984211
Fabregas219090201
Rosicky7290162
van Persie7384157
Nasri120176143
Fabianski120120
Lansbury120120
Clichy1890108
Eastmond9017107
Sagna721890
Chamakh482270
Song2323
Emmanuel-Thomas7512

Líklegt byrjunarlið:  Szczesny í marki. Eboue, Koscielny, Djourou og Gibbs í vörn. Wilshire, Denilson og Diaby á miðjunni. Nasri og Arshavin á vængjum og frammi fyrirliðinn Robin van Persie.

En Birmingham mun ekkert gefa eftir. Í 136 ára sögu liðsins hefur það aðeins einu sinni lyft bikar á loft, það var einmitt deildarbikarinn árið 1963.


VíkingLeaks

Það er athyglisverð umræðan um knattspyrnufélagið Víking vegna upplýsingaleka um leikmenn en þjálfarinn hafði skjalfest mat sitt á þeim og var það sent út til allra leikmanna fyrir slysni. En eflaust framkvæma flestir þjálfarar mat á leikmönum en eflaust er það oftast í kollinum á þeim.

Meginþættir í öryggi upplýsinga

Upplýsingar eru verðmætar eignir og þurfa því viðeigandi vernd. Þær geta verið í margs konar formi, t.d. prentaðar eða ritaðar á pappír, geymdar með rafrænum hætti, birtar á filmu eða látnar í ljós í mæltu máli. Ávallt ætti að vernda upplýsingar á viðeigandi hátt óháð þeim leiðum sem farnar eru til að nýta þær eða geyma. Upplýsingaöryggi felur í sér að upplýsingar eru verndaðar fyrir margs konar ógnum í því skyni að tryggja samfelldan rekstur, lágmarka tjón og hámarka árangur. Upplýsingaöryggi má líta á sem leið til að varðveita:

  • Leynd (e. confidentiality), þ.e. tryggingu þess að upplýsingar séu aðeins aðgengilegar þeim sem hafa heimild. Vernda þarf viðkvæmar upplýsingar fyrir óleyfilegri birtingu, aðgangi eða hlerun.
  • Réttleika (e. integrity), þ.e. að viðhalda nákvæmni og heilleika upplýsinga og vinnsluaðferða. Tryggja þarf að upplýsingar séu réttar og óskemmdar og að hugbúnaður vinni rétt.
  • Tiltækileika (e. availability), þ.e. trygging þess að upplýsingar og þjónusta séu aðgengilegar fyrir notendur með aðgangsheimild, þegar þeirra er þörf.

Upplýsingaöryggi er einnig varðveisla á öðrum eiginleikum s.s. rekjanleika upplýsinga, áreiðanleika, óhrekjanleika og ábyrgð

LRTÍ dæmi Víkinga hefur leynd upplýsinga verið rofin og það hefur skapað úflúð. En þar sem knattspyrna er leikur í aðra röndina, þá hefur náðst að ræða málin og líklega bæta skaðann. En ef þetta hefðu verið viðkvæmar upplýsingar hvað persónuvernd eða trúnað þá hefði málið orðið alvarlegra.

Fyrirtæki ættu því að innleiða staðla um upplýsingaöryggi er leitast við að tryggja alla ofangreinda þætti með úttekt og endurskoðun á vinnutilhögun viðkomandi fyrirtækis eða stofnunar. ISO/IEC 27001 er eini staðallinn sem tekur á upplýsingaöryggi.


Friðlýsing Langasjós flott ákvörðun

Þetta er mjög góð ákvörðun hjá Umhverfisráðuneyti og sveitastjórn Skaftárhrepps. Þessi tota inn í Vatnajökulsþjóðgarð var mjög undarleg.

Svæðið er viðkvæmt og það þarf að skipuleggja það vel.  Ég hef trú á að bátasigling og kajakaróðar á Langasjó eigi eftir að freista margra ferðamanna á komandi árum.

Gönguferð á Sveinstind verður öllum ógleymanleg sem munu þangað rata. Ég gekk á tindinn í ágúst 2009 eftir að hafa ferðast um Langasjó. Gangan tók tæpan klukkutíma og gönguhækkun er 390 metrar. Vegalend 2 km.

Á góðum degi er útsýni stórbrotið. Hægt að sjá vel yfir Langasjó og Fögrufjöll, víðáttumikla aura og kvíslar Skaftár sunnan þeirra. Mögulegan Eldfjallaþjóðgarð á heimsvísu með Lakagíga og tignarleg fjöll í nágrenni Eldgjár í vestri. Upptök Þjórsárhruns má einnig greina í norðri. Vatnajökull rammar svo allt inn í austri með áberandi Kerlingar í forgrunni.

Á Sveinstindi var skálað í vatni úr Útfallinu hjá Langasjó í þokunni.

 

 Útfallið

Útfallið úr Langasjó. Lengi vel héldu menn að Langisjór væri afrennslislaust vatn en árið 1894 fannst Útfallið en það er þröngt skarð í gegnum Fögrufjöll innanverð. 


mbl.is Stækka Vatnajökulsþjóðgarð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Arsenal-Barcelona á Wembley 1999

Það var ekki hægt að sleppa þessum leik á Wembley leikvanginum, Arsenal-Barcelona, 19. október 1999.  Rifjast upp minningar vegna stórleiksins Arsenal-Barcelona í 16-liða úrslitum Meistaradeildarinnar í kvöld.

arsbar99 Arsenal-klúbburinn með Kjartan Björnsson í öndvegi var með hópferð og ég stökk strax á ferðin en hún hófst á föstudegi og heimkoma var á miðvikudegi. Á laugardegi var boðið upp á leik Arsenal gegn Everton sem endaði 4-1 en stórleikurinn í Meistaradeildinni á Wembley var aðal takmarkið.

Gamli Wembley var sveipaður dýrðarljóma og var stór hluti af knattspyrnusögunni. Því varð maður að fara í pílagrímsför og sjá turnana tvo. Fyrst maður var búinn að eyða svo miklum tíma í að fylgjast með knattspyrnu.

Það var mikil stemming í rútunni og gaman að ferðast um London á leikdegi. Þegar Wembley völlurinn nálgaðist sáust fánar og vel klætt fólk á leið á leikinn. Góð aðstaða var fyrir framan völlinn fyrir rútur og þurftu menn að leggja staðin vel á minnið. Í gögu stutt frá leikvanginum var mikið um búðir og sölubása. Indverskir sölumenn voru í miklum meirihluta. Það var ágætis sala í bjór hjá þeim. Þegar komið var inn á leikvanginn, og þegar maður nálgaðist klósettin tók á móti manni megn ammoníakslykt.

En þegar í stúkuna var komið blasti glæsilegur hringur við okkur. Spánverjarnir voru í hólfi á móti okkur og voru hávaðasamir en það fylgir íþróttinni. Baráttusöngvar voru sungnir og mátti heyra slagara eins og: "Vo-o-ó Vieira, vo-o-ó Vieira!" einnig langt gól til stuðnings "Kanuuuuuuuuu". Henry var ekki búin að finna fjöllina sína á þessum árum enda nýlega kominn til liðsins.

Leikurinn við Barcelona var í fjórðu umferð og í Barcelona náðust hagstæð úrslit, 1-1 en þessi eftirminnilegi leikur endaði með stórsigri Barcelona, 2-4. Hollendingurinn flughræddi, Dennis Bergkamp skoraði fyrra mark heimamanna og hollendingurinn fljúgandi, Marc Overmars hið síðara. Mörk Barcelona skoruðu: Brasilíumaðurinn Rivaldo sem var allt í öllu úr víti, Luis Enrique, Luis Figo og Philip Cocu.  Arsenal endaði í þriðja sæti í riðlinum. Barcelona og Fiorentina fóru áfram í Meistarakeppninni. Arsenal fór í úrslitaleikinni í litlu Evrópukeppninni en tapaði fyrir Galatasaray í úrslitaleik.

Scan-110215-0001

Ferðafélagi minn, Einar Jóhannes Einarsson, var vel tengdur inn í eigandahóp Arsenal og fékk hann tvo miða á hóf eftir leikinn. Við þökkuðum fyrir okkur og klæddum okkur upp snyrtilega. Partíið var í syðri turninum og þurftum við að sýna boðsmiðann 20 sinnum á leiðinni.

Það var jarðafarastemming í turninum. Fámennt en góðmenn og fólk af ýmsu þjóðerni. Boðið var upp á snittur og salurinn var vel skreyttur UEFA og Meistaradeildar-fánum. Flottur enskur bar var í enda samkomusalarins.

Englendingarnir í liði Arsenal komu og heilsuðu upp á samkomugesti en erlendu leikmennirnir fíluðu ekki þessa samkomu. Varnarmaðurinn Matthew Upson, sem kom inná í leiknum, var hinn viðkunnanlegasti og kenndi okkur hvernig áritanir eiga að líta úr. Einnig var hægri bakvörðurinn Lee Dixon viðræðugóður en hann átti ágóðaleik við Real Madrid í vændum. 

Sviðið átti David Seaman, hann mætti með nýja föngulega spúsu upp á arminn og gekk beint að barnum þegar inn í veislusalinn var komið og mælti með sinni djúpri röddu "one Bud", var ekki að svekkja sig mikið þó fjögur mörk hafi lekið inn. Lífið heldur áfram.

Martin Keown ræddi lengi við ættingja sinn en hann var slasaðist er víti var dæmt á Arsenal á 15. mínútu er Tony Adams var dæmdur brotlegur.  Verið var að hjúkra honum er miðjan var tekin og Barcelona náði boltanum og skorað, komst í 2-0 með mörkum á 20. sekúndna millibili. Já, hann hafði mikið um þetta að segja.

Tony Adams birtist seint og var hinn pirraðasti. Frammistaða hans í leiknum átti eftir vera fyrirsögn ensku dagblaðanna. "El for Adams and Gunners" var fyrirsögn The Mirror. Einnig stóð feitletrað á baksíðu blaðsins: "Arsenal's Champions League dreams was hanging by a thread last night after Tony Adams first-half horror show".

Einar Jóhannes var svo sniðugur að kaupa bókina "Addicted", og bað hann höfundinn um að árita hana. Tony gerði það en gretti sig mjög. Vildi gera allt annað en að skrifa nafn sitt á þessari stundu.  Ég ákvað að nýta tækifærið og bað fyrirliðann um áritun á leikskránna. Hann gretti sig enn meir og bað um penna. Ég var pennalaus en fékk lánaðan penna. Fyrirliðinn var snöggur að krota nafn sitt á leikskránna og afhenda mér. Já, það var ekki heppilegt að hitta fyrirliðann eftir "horror show".

Man eftir einum lávöxnum strákling sem lítið lét yfir sér. Hann var með veiðihúfu, en samkvæmt nýjustu tísku, á höfði og líktist menntaskólastrák. Skömmu síðar áttaði ég mig á að þetta var Freddi e Ljungberg en hann var að hefja ferilinn sem átti eftir að vera glæsilegur.

Patrik Vieira sást í lokin. Hann sveif í gengum veislusalinn í turninum fræga eins og draugur og mælti ekki orð við nokkur mann.

Aðrir leikmenn létu ekki sjá sig eða voru ekki minnisstæðir.

Forráðamenn Arsenal fengu þá flugu í höfuðið að spila heimaleiki sína á Wembley en Highbury tók aðeins 38.000 manns. Wembley tók 75.000 manns í sæti en liðinu gekk illa á leikvellinum og í sífelldu brasi með að komast upp úr riðlakeppninni.

Arsenal: Seaman, Dixon, Keown, Adams, Winterburn, Ljungberg, Parlour, Vieira, Overmars, Kanu, Bergkamp.

Barcelona: Arnau, Abelardo, Bogarde, Gardiola, Reiziger, Coco, Rivaldo, Figo, Sergei, Luis Enrique, Kluivert.

Það var vel skipað lið Barclelona og hver leikmaður öðrum betri.  Liðið féll að lokum út í undanúrslitum fyrir Valencia sem tapaði fyrir Real Madrid 3-0 í úrslitaleik.

Scan-110215-0002


mbl.is Messi 4 Arsenal 1 (myndband)
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lón stækka feikilega við Hoffellsjökul

Í fréttabréfi Jöklarannsóknafélagi Íslands, JÖRFÍ, er svo glæsileg mynd af Hoffellsjökli og Svínafellsjökli en Hoffellsjökull og Heinabergsjökull eru glæsilegir séðir frá Hornafirði. Ég tek mér það bessaleyfi að birta myndina hér en hún er unnin undir stjórn Tómasar Jóhannessonar á Veðurstofu Íslands. Það verður gaman að sjá alla íslensku jöklana í þessu ljósi.

Hoffelsjokull

Í fréttabréfinu segir um Hoffellsjökul: "Af nýjum kortum af Hoffellsjökli má ráða að lónið framan við jökulsporðinn hafi stækkað feikilega á síðastliðnu ári. Þar eru nú myndarlegir ísjakar á floti á stöðuvatni sem teygir sig inn með Geitafellsbjörgum (sjá mynd). Fyrir framan hvora jökultungu eru fallega bogadregnir garðar sem sýna hvert jökullinn náði um 1890. Af því sést að sá eystri (Hoffellsjökul) hefur ekki styst nema um nokkur hundruð metra en sá vestari (Svínafellsjökul) stendur nú um 3,5 km frá fremstu görðum."

Svínafellsjökull náði svo langt fram að hann klofnaði um Svínafellsfjall, og fékk vesturhlutinn nafnið Svínafellsjökull. Öldutangi norður úr Svinafellsfjalli greindi þá að, en nú er hann íslaus.

Svinafellsjokull-Hoffelsjokull

Hér er mynd af glæsilegu málverki sem sýnir jöklana tvo, Viðborðsjökul og Hoffellsjökul. Málverkið er eftir Helga Guðmundsson og líklega máluð á 7. ártugnum enda Viðborðsjökull, sem er til vinstri og Hoffellsjökull vel fóðraðir á hafísárunum. Svínafellsfjall er fyrir miðri mynd. Handan fjallsins, milli jöklana er Gæsaheiði og Viðborðshálsar.

Heimild: Fréttabréf Jöklarannsóknafélags Íslands, nr. 119.


Heinabergsjökull ólíkindatól

Jöklarannsóknafélag Íslands er merkilegt félag. Aðalfundur JÖRFÍ verður haldinn þann 22. febrúar í Öskju. Félagið gefur út fréttabréf reglulega.  Oddur Sigurðsson segir í nýjasta fréttabréfi, nr. 119, frá afkomumælingum 50 íslenskra jökulsporða á síðasta ári.

"Niðurstöður eru óvenju samhljóða þetta árið. Einn sporður gekk fram frá fyrra ári, einn stendur í stað en allir hinir styttust. Þetta er í góðu samræmi við ástandið. Sumarið var með þeim allra hlýjustu sem komið hafa í sögu veðurmælinga og ofan á það bættist öskusáldur frá Eyjafjallajökli. Það jók leysingu til muna á flestöllum jöklum en þó ekki Eyjafjallajökli og Mýrdalsjökli þar sem askan var svo þykk að hún einangraði jökulinn."

Svo segir frá Heinabergsjökli: "Heinabergsjökull einn mældist framar en í fyrra en hann er ólíkindatól þar sem hann er á floti í sporðinn og bregst því á lítt fyrirsjáanlegan hátt við loftslagi frá ári til árs."

Heinabergsjökull er þá undantekningin sem sannar regluna. En loftslag er að hlýna og höfin að súrna.

Heimild:  Fréttabréf Jöklarannsóknafélags Íslands, nr. 119


Íslenskt bygg 90% í Egils þorrabjór

Einkunnarorð Ara "Fróða" Þorgilssonar voru að hafa það heldur, er sannara reynist.  Ég ætla því að bæta við færslu um þorrabjór réttum upplýsingum um íslenskt bygg. Um leið biðst ég velvirðingar á mistökum mínum, rétt eins og Agnes Bragadóttir gerði í dag út af rangri frétt um blaðamann DV.

Egils-ThorrabjorÍ bloggi mínu um þorrabjór í byrjun þorra, þá hrósaði ég bruggmeisturum Ölgerðarinnar fyrir að nota íslenskt bygg í þorrabjór sinn. Þar sagði:  "Þeir eru stoltir af því að nota íslenskt bygg í framleiðslunni en ég hef grun um að það sé mikið blandað erlendu byggi."

Nú hef ég fregnað að hlutfall íslensks byggs er 9/10 í Egils Þorrabjór. 

Þorrabjór Ölgerðarinnar í ár er gerður að 9/10 hlutum úr íslensku byggi en það er hærra hlutfall en bjórar á Íslandi hafa nokkru sinni státað af.  Íslenska byggið í Þorrabjórnum er ræktað á bænum Belgsholti í Melasveit á Vesturlandi. Ölgerðin hefur í samstarfi við Harald Magnússon, bónda á Belgsholti, unnið að því að þróa bjóra úr íslensku byggi og stutt er í fyrsta bjórinn sem mun eingöngu innihalda íslenskt bygg.

Íslenska byggið hefur sín karaktereinkenni og má greina þau í Egils Premium en þar er það í minnihluta. Það er gaman að fregna af þessari nýsköpun en aðferðin að brugga úr ómöltuðu byggi er tilraunastarfsemi sem unnin hefur verið síðustu ár í samvinnu Ölgerðarinnar við erlenda aðila og íslenska kornbændur. 

Nú bíð ég spenntur eftir fyrsta 100% íslenska byggbjórnum. Vonandi verður hann góð útflutningsvara í framtíðinni og íslenskt bygg og íslenskt vatn á allra vörum.

Á vefnum bjorspjall.is er ágætis grein um ómaltað íslenskt bygg hjá Ölgerðinni við bjórgerð.


Chinatown ****

Rökkurmyndin Chinatown (1974) í leikstjórn Roman Polanski var fyrsta myndin á Mánudagsbíóum Háskóla Íslands og Háskólabíós. Það var góð stemming eldra fólks í Stóra sal Háskólabíós, gömul filma sem rann í gegnum sýningarvélarnar og varpaðist á 175 fermetra sýningartjaldið. Rispur og eðlilegar hljóðtruflanir mögnuðu upp fortíðarstemminguna.

ChinatownMyndin á mjög vel við í dag enda er umfjöllunarefnið spilling og siðblinda. En þegar myndin var frumsýnd hér í Háskólabíó í júní 1976 töldu landsmenn sig búa í óspilltasta landi í heimi. Vatns- og landréttindi í þurri Los Angeles eru meginþemað en þessi mál eru í hámæli hér á landi núna. Leikararnir Jack Nicholsson, Faye Dunaway og John Huston, í hlutverki siðblinda og gráðuga öldungsins sem telur að sér sé allt leyfilegt, eru stórgóð.  Leikstjórinn Roman Polanski tekur sér Alfred Hitchcock til fyrirmyndar og er stórgóður í litlu hlutverki. En það sem gerir myndina sterka er góður leikur allra aukaleikara.

Sagan er stórgóð byggir á vel meitluðu handriti. Sögusviðið er Los Angeles á fjórða áratugnum (1930's) og er mikið reykt af sígarettum í myndinni. Eflaust hafa tóbaksrisarnir styrkt hana vel.  Myndin var á sínum tíma kölluð fyrsta rökkurmyndin (film noir) í lit.  Hún var tilnefnd til 10 Óskarsverðlauna en uppskar aðeins ein, fyrir handrit.

Sagan segir að Chinatown hafi átt að vera fyrsta myndin í þríleik um auðlindaspillingu en Polanski flúði Bandaríkin vegna lögbrota og því varð ekkert úr pælingu hans. Jack Nicholson tók við hjólinu en myndin, The Two Jakes (1990), fékk slæma dóma gagnrýnenda og því dó spillingar uppfræðslan.

Á leiðinni út úr heitum sal Háskólabíós í kuldann og snjóinn komu upp í hugann leikarinn John Huston sem Noah Cross. En í stað hans setti maður orkuútrásarvíkinga, REI, bankastjóra árið 2008, FLokkinn, Magma og æðsta dómsstig landsins. Allir þessir aðilar spegluðust vel í Noah Cross.

Myndin var á sínum tíma kölluð fyrsta rökkurmyndin (film noir) í lit. En hvað eru rökkurmyndir. Ég hafði ekki hugmynd um það áður en ég fór á sýninguna en eftir að hafa leitað mér upplýsinga þá læt ég þær fylgja hér með.  

"Meginþema í öllum Film Noir myndum er spilling. Rotin og ísköld spilling og ekki síst blekkingarvefur. Fólk er gjarna ekki allt þar sem það er séð og algengt þema er að einhver ber ást til manneskju sem reynist síðan ekki vera sú manneskja sem hann varð ástfangin af.

Til útskýringar fyrir þá sem þekkja ekki til Film Noir mynda þá voru þær vinsælar á fimmta áratugnum. Þetta voru sakamálamyndir og í flestum tilfellum var aðalpersónan einkaspæjari. Sögumaður segir söguna, gjarna einkaspæjarinn sjálfur. Veröldin í þessum myndum er spillt og siðlaus, umhverfið stórborg og það hellirignir í Film Noir. Sem dæmi um þekktar Film Noir myndir má nefna "Double Indemnity" og "The Postman Always Rings Twice". Í Film Noir er heimsmyndin kolsvört, algjört svartsýni ríkir. Og ekki má gleyma kaldhæðninni. Lýsingin er það sem einkennir Film Noir hvað mest og flestir þekkja. Lýsing neðan frá, dimmar senur og miklar andstæður ljóss og skugga. Svo eru þverlínur notaðar til að koma óróleika í myndina, gjarna í formi rimlagluggatjalda.
"

Heimild:  Kvika.net

Já, hann er margbreytilegur kvikmyndaheimurinn.


4-4 gegn Newcastle

Ótrúlegur viðsnúningur varð á leik Newcastle United og Arsenal í dag. Eftir meðvitundalausa byrjun Newcastle, þá voru þeir komnir 0-4 undir eftir 26 mínútur en tókst að jafna leika. Arsenal-menn sáu leiktímabilið renna út í sandinn en svo komu óvæntar fréttir frá Wolverhampton.

Byrjunin á leiknum í dag, minnti mig á leik sem ég sá á Highbury 28. febrúar 2004. Ósnertanlega tímabilið. Þá hóf Arsenal leikinn af krafti og á annarri mínútu skorðaði Robert Pires fyrsta mark leiksins. Á fjórðu mínútu kom Thierry Henry Arsenal í 2-0 og íslenskir Arsenal menn sem voru í hópferð voru farnir að spá í hvort tveggja stafa tala gæti birst á stöðutöflunni. Leikmenn Charlton með Hermann Hreiðarsson innanborð gerðu lítið annað á fyrstu fimm mínútum annað en að taka miðju.

Arsenal slakaði á klónni og í síðari hálfleik, á 59. mínútu minnkaði Daninn Claus  Jensen muninn. Þegar uppbótartími var að renna upp, þá átti einn leikmaður Charlton hjólahestaspyrnu sem hafnaði í innanverði stönginni en sem betur fer, fyrir ferðamenn frá Íslandi, þá fór knötturinn í átt að hornfánanum. Naumur 2-1 sigur eftir frábært upphaf.

Ég hafði orð á þessum leik í dag kl. 15.05 og sagði áheyrendum frá heppni okkar. Ekki óraði mig fyrir því að hægt væri að klúðra fjögurra marka forystu en allt er víst hægt.

Keppnistímabilið 2008/2009 sáust þessar tölur tvisvar á stöðutöflunni. Fyrri leikurinn var gegn nágrönnunum, Tottenham og Liverpool á Anfield en þá skoraði Arshavin fernu. Þessir leikir þróuðust öðruvísi.


Um bloggið

Sigurpáll Ingibergsson

Höfundur

Sigurpáll Ingibergsson
Sigurpáll Ingibergsson
Hornfirðingur búsettur í Kópavogi. Árgerð 1965.
Feb. 2011
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28          

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • IMG 4410
  • IMG 4385
  • IMG 4421
  • Á afskekktum stað
  • Tíminn051071

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (9.7.): 1
  • Sl. sólarhring: 12
  • Sl. viku: 292
  • Frá upphafi: 236818

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 239
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband