28.2.2009 | 17:47
Saklausar raddir
Í Sjónvarpinu í gærkveldi var sýnd mexíkósk kvikmynd, Saklausar raddir (Voces inocentes). Myndir frá Mexíkó eru ekki algengar á Fróni og var þessi mynd góð sending. Hún greinir frá ungum dreng, Chava í El Salvador á 9. áratug síðustu aldar sem reynir að lifa eðlilegu lífi þótt alls staðar í kringum hann geisi borgarastríð. Drengurinn býr í fátækrahverfi en það er stutt í gleðina. Á kaldastríðsárunum 1980 til 1992 geysaði borgarastrið í El Salvador og létu 75.000 manns lífið. Skæruliðar FMLN sem voru kommúnistar og undir kúbönskum áhrifum börðust við stjórnarherinn sem studdur var af Reagan stjórninni.
Það er athyglisvert að sjá sjónarhorn drengsins og einhvernvegin finnst manni Guantanamo fangabúðirnar vera léttvægar þegar mannréttindabrot í borgarastríði eru sagðar. Í samantekarlista í lokin er sagt frá áhrifum borgarastríðsins. En börn frá El Salvador voru send til 40 landa. Borgarastríð eru ömurleg stríð.
Ein bandarísk mynd sem kemur upp í hugann þegar þessi mynd er skoðuð er Salvador, frumburður Oliver Stone. James Woods leikur þar vel ljósmyndara. Það var eftirminnileg mynd.
Skora á Sjónvarpið að skoða heiminn og sýna kvikmyndir frá fleiri menningarsvæðum. Það gera fleiri góðar kvikmyndir en Íslendingar og Hollywood.
Sjónvarp | Breytt s.d. kl. 17:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.2.2009 | 18:08
Stiki, eina íslenska fyrirtækið á CeBit?
Í frétt í Viðskiptablaðinu og vb.is verður aðeins eitt íslenskt upplýsingafyrirtæki á stærstu tölvusýningu Evrópu, CeBit. Það er Stiki ehf sem selur m.a. búnað á sviði upplýsingaöryggis.
Í fréttinni á vb.is kemur fram: "Að sögn Svönu Helenu Björnsdóttur, framkvæmdastjóra Stika, eru þau þegar búin að bóka fjöldann allan af fundum við samstarfsaðila, viðskiptavini og fleiri sem áhuga hafa á hugbúnaði Stika RM Studio."
RM Studio áhættumatshugbúnaðurinn er ætlað fyrirtækjum, stofnunum og sveitarfélögum sem vilja tryggja öryggi í vinnslu upplýsinga. Byggt er á aðferðafræði öryggisstaðlanna ISO/IEC 27001:2005, ISO/IEC 27002:2005 og ISO/IEC 27005:2008.
Það eru slæm tíðindi að áhugi eða bolmagn íslenskra upplýsingafyrirtækja sé ekki meira. En þarna er klárlega tækifæri fyrir Nýja Ísland.
![]() |
Færri á CeBIT |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Tölvur og tækni | Breytt s.d. kl. 18:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.2.2009 | 23:02
Íslandsmót í Hornafjarðarmanna
Um síðustu helgi var Íslandsmótið í Hornafjarðarmanna haldið. Undankeppni fór fram í Skaftfellingabúð og tóku 54 slungnir spilarar þátt. Helmingur keppenda komst áfram í fyrstu hindrun og þrír síðustu spiluðu til úrslita á Þorrablóti Hornfirðinga.
Sigurvegari var Kjartan Kjartansson, úr Mýrdal. Rúnar Þór Gunnarsson hafnaði í öðru sæti og Brynjar Eymundsson í því þriðja.
Það var fín stemming í Skaftfellingabúð, en Svavar M. Sigurjónsson náði að fanga stemminguna skemmtilega á mynd.
16.2.2009 | 20:57
Góður og slæmur dagur
Frábær stund fyrir Eduardo. Eftir að vera frá keppni í 51 viku, þá þurfti kappinn ekki nema 20 mínútur til að skora fyrsta mark bikarleiksins á móti Cardiff. Tvö óvenjuleg mörk, skallamörk, hjá Arsenal. Trúi því að tvö mörk komi í síðari hálfleik og miði í 16 liða úrslit á móti Burnley.
Slæmu fréttirnar eru að Rússinn Alisher Usmanov sem á fjárfestingafélagið Red & White Holdings Limited á nú 15.555 af 62.219 hlutum í Arsenal Holding plc eða slétt 25%. Vafasamur viðskiptajöfur með blóðuga fortíð að verja hlut sinn í valdabaráttu um félagið. Skyldi þetta fjárfestingafélag vera skráð á eyjunni Tortola?
![]() |
Eduardo með tvö í 4:0 sigri Arsenal |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Enski boltinn | Breytt s.d. kl. 21:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.2.2009 | 10:34
Mungát Þorrabjór

Hið árlega Þorrablót Hornfirðinga verður haldið í kvöld í félagsheimilinu Seltjarnarnesi. Vel yfir 208 Hornfirðingar er skráðir til blóts og stefnir í góða skemmtun. Hin kunna Ólafía Hrönn Jónsdóttir verður veislustjóri og hinir hressu spámenn, Ingó og Veðurguðirnir sjá um dansleikinn.
Þegar svona stórviðburður á Þorra rekur á fjörur manns verður maður að gera úttekt á þorrabjór landans. Það eru fjórar tegundir boðnar til sölu í vínbúðum landsins. Egils Þorrabjór, Jökull Þorrabjór, Kaldi Þorrabjór og ósíaður Mungát Þorrabjór.
Ég var spenntastur fyrir að hefja smakkið á Mungát Þorrabjórnum frá Ölvisholt Brugghús. Þeir eru svo þjóðlegir á Suðurlandinu. Á flöskumiðanum stendur:
Mungát er forna íslenska alþýðuheitið á öli og var drykkur almúgans við veislur meðan höfðingjar sátu við háborðið og kneifuðu mjöð. Ölvisholt Mungát var bruggaður í mars 2008. Nú er bjórinn loks fullþroska, rétt í tæka tíð fyrir þorrann. Ríkuleg kryddun með hvönn og mjaðurt, sem voru notaðar á Íslandi fyrr á öldum við ölgerð, gerir Mungát að einstökum íslenskum bjór sem passar sérstaklega vel með þorramatnum.
Þegar gullinn almúgabjórinn Mungát fyllti bjórglasið sér glöggt að hann er ósíaður og því skýjaður. Það myndast mótmælastemming í manni við sjónina. Nokkur beiskja finnst við fyrsta sopa en þegar líður á glasið jafnast hún út. Bruggararnir eru að leika sér að bragðlaukum almúgans og með smá einbeitningu má finna blómið í drykknum. Lýsing á bjór: Gullinn, skýjaður, meðalfylling, þurr, mildur, miðlungs beiskja. Maltbrauð, karamella, blóm, lifrarpylsa.
Þjóðlegur og spennandi drykkur sem minnir mig á La Trappe. Litlu íslensku brugghúsin eru að standa sig feikna vel í framleiðslunni og ætla ég að einbeita mér að drykk frá þeim Kreppuárið 2009 og örugglega lengur meðan þau uppfylla væntingar mínar. Ég fór að loknu bjórglasinu í leit að frekari upplýsingum um Mungát.
Kvæðið Mungát eftir Einar Benediktsson birtist í Hvömmum, sem kom út árið 1930.
Svo há og við er hjartans auða borg,
að hvergi kennir rjáfurs eða veggjar.
En leiti ég manns, ég lít um múgans torg;
þar lifir kraftur, sem minn vilja eggjar.
Hvað vita þessir menn um sælu og sorg,
er supu aldrei lífsins veig í dreggjar.
Ég þrái dýrra vín og nýja vini,
og vel mér sessunaut af Háva kyni.
Í Egilssögu má finna orðið mungát og hér er ein stórbrotin setning:
Þótt Ármóður hafi varla meint það, sem hann sagði við Egil forðum, at honum þætti þat illa, er hann hafði eigi mungát at gefa þeim, þá liggur í orðalaginu, að hér væri um góðgæti að ræða.
13.2.2009 | 18:43
Valentínusardagurinn - Dagur amapósta
Valentínusardagurinn er dagur elskenda. Sendendur amapósts elska þennan dag. Þarna er viðskiptatækifæri fyrir þá. Fjöldi amapóstsendinga hefur aukist um 9% frá byrjun mánaðarins skv. mælingum MessageLabs. Innihald póstsins eru bréf tileinkuð Valentínusardeginum, gjafir og tilboð. Inni í þessum girnilegum tilboðum eru yfirleitt spilliforrit.
Amapóstvarnir Símans halda vel en í dag slapp inn einn amapóstur með uppskriftum. Voru þistilhjörtu þar í aðalhlutverki. Eitt víntilboð barst í tilefni dagsins en kom það í gengum póstlista sem ég er á.
Flestir amapóstar koma frá Cutwail laumunetinu. Xarvester kemur nokkuð á eftir en Mega-D hið virka laumunet er ekki með í slagnum í ár.
Nálgun Cutwail er einföld. Í efni póstanna stendur: "St. Valentine's Bonus" eða "Make this Valentine's Day the most memorable ever".
13.2.2009 | 00:09
Tapslagatalningin (TST)
Ég ákvað að taka með mér nýtt vopn í brids í kvöld. Inn á borð hjá mér rakst nýverið bridsbókin Tapslagatalningin (TST) í þýðingu Ísaks Arnar Sigurðssonar sem byggir á riti Ástralans Ron Klinger, The modern losing trick count. Fjallar hún um þá matsaðferð að áætla tökuslagi út frá tapslögum. Í hverjum lit geta mest verið þrír tapslagir og þar með alls tólf á einni hendi. Mesti fjöldi tapslaga á tveimur höndum er þar með 24 (12+12). Aðferðin snýst um það að telja tapslagi beggja handa og draga frá 24, en þá kemur út áætlaður fjöldi tökuslaga.
Með þessa nýju visku fór ég til spila en einn kostur TST aðferðarinnar er að hægt er að hafa nota af henni án þess að samherji hafi kynnt sér hana. Einnig er hún óháð sagnkerfi. Ég taldi því punkta og tapslagi í allt kvöld og beið eftir góðu tækifæri í Butlertvímenning. Loks kom spil þar sem reglan gæti nýst. Í sextánda spili tók ég upp í norður:
S: J963 H:K92 T:K9543 L:7 alls 8 tapslagir og 7 punktar.
Makker í suður opnaði á einu hjarta eftir þrjú pöss. Ég hækkaði í 2 hjörtu. Makker kom með boð, 3 hjörtu og ég lyfti í geim. Ég ályktaði að hann ætti etv. 7 tapslagi eftir opnun og nú væru þeir komnir niður í 6. Samkvæmt formúlunni, þá væru tapslagir 8+6=14 og 24-14=10 því lyfti ég yfirvegað í geim. Makker átti:
S:KD10 H:108765 T:A76 L:AK alls 6 tapslagir og 16 punktar.
Það töpuðust tveir slagir á tromp og spaðás. Tíu slagir í húsi og 420 í okkar dálk.
Reglan svínvirkaði eins og svíningin í hjarta. Hluti af salnum náði ekki geiminu. Í nokkrum af næstu spilum sem á eftir komu var hægt að nýta regluna. Ég hef nú grun um að við hefðum náð geiminu með 23 punkta á milli handanna án TST en maður var öruggari og hafði betri forsendur fyrir hækkuninni. Þetta er því góð viðbót við sagnvenjur í brids. Bætist ofan á "Law of Total tricks", sem Larry Cohen hefur boðað.
Í lokaorðum bókarinnar stendur: Ef þú telur að TST sé gagnleg viðbót við venjulegar sagnir þínar, mun það sannarlega verða gott hjálpartæki. Ef þú lítur á það sem töfralausn á öllum sagnvandamálum, muntu verða fyrir bitrum vonbrigðum og gætir hafnað TST, en myndir þá tapa öllum kostum sem það bíður. TST er takmörkuð viðbót, en kemur að góðum notum ef trompsamlega finnst eða ef annar hvor er með sjálfspilandi lit. Í því samhengi er TST frábær matstækni. Það er ekki óbrigðult, en þú átt eftir að sjá að það er nákvæmara en nokkrar punktatalningaraðferðir.
Það má taka undir þetta.
Spil og leikir | Breytt s.d. kl. 00:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
10.2.2009 | 13:00
Stóri bróðir facebook
Hér er nokkuð merkilegt myndband, sérstaklega parturinn þar sem talað er um hvað fólk samþykkir að samfélagsvefurinn facebook geri við upplýsingarnar sem það setur inn. Og sér í lagi eftir frétt af því að stór meirihluti þjóðarinnar sé á facebook.
http://www.wimp.com/badinfo/En ef þú ert á fésbókinni, gefðu sem minnstar upplýsingar um þig.
8.2.2009 | 12:06
Keane vs. Adebayor
Það verður stríð í köldum Norðurhluta Lundúna í dag á White Hart Lane. Leikurinn á líklega eftir að snúast um nýja liðsmann Spurs, Robbie Keane og manninn sem elskar að skora gegn Spurs, Emmanuel Adebayor. En hann hefur skorað átta mörk í sjö nágrannaleikjum.
Í nýjustu Heimsmetabók Guinnes kemur Nicklas Bentner við sögu. Þar er stór mynd af kappanum, þó ekki í þrívídd. Hann setti ekki beinlínis heimsmet en hann á metið í Ensku úrvalsdeildinni með því að vera fljótastur að skora mark eftir að hafa komið inná á móti Tottenham um jólin 2007. Dananum sterka var skipt inná á 74. mínútu er Arsenal átti horn. Boltinn stefndi beint á koll Bentner og stangaði hann boltann af miklum krafti í markið. Met. Reyndist það sigurmarkið í 2-1 leik.
Leikurinn í dag getur orðið sögulegur fyrir Arsenal. Endi leikurinn með sigri eða jafntefli verður það 19. leikurinn í röð án taps gegn erkifendunum í Úrvalsdeildinni. Svo getur annað annað sögulegt atvik gerst. Uppáhaldsleikmaður Pútin, forseta Rússlands, Andrei Arshavin gæti leikið sínar fyrstu mínútur fyrir Arsenal.
Eftir að hafa rifjað þetta allt upp, þá hallast ég að 2-1 sigri Arsenal, Keane, Adebayor og Bentner með mörkin. Klúður eins og í síðasta leik, 4-4 verður ekki leyft á Lane.
Enski boltinn | Breytt s.d. kl. 12:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.2.2009 | 23:37
Dagur stærðfræðinnar - Þríhyringur
Dagur stærðfræðinnar er í dag. Þema dagsins er þríhyrningur. Skemmtilegt fyrir Hornfirðinga. Stærðfræði er grundvöllur ýmissa annarra greina vísinda á borð við eðlis-, verk-, tölvunar- og hagfræði.
Hvet ég áhugamenn um stærðfræði til að taka þátt í stærðfræðigetraun Digranesskóla, Perunni. Það eru oft mjög skemmtilegar þrautir þar. Ég tel mig vera búinn að leysa þraut 117 rétt en vill ekki gefa upp svarið strax. Þekking á þrýhyrningum, hornafræðum og formúla Evklíðs, a2+b2=c2, kemur að notum.
Þríhyrningarnir tveir á myndinni eru einslaga (hafa sömu hlutföll), en eru misstórir.
Hve langt er frá A til O (mælt í cm)?
Vísindi og fræði | Breytt 8.2.2009 kl. 12:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Um bloggið
Sigurpáll Ingibergsson
Færsluflokkar
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Enski boltinn
- Evrópumál
- Ferðalög
- Fjármál
- Fjölmiðlar
- Heilbrigðismál
- Heimspeki
- Íþróttir
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Lífstíll
- Ljóð
- Löggæsla
- Mannréttindi
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Pepsi-deildin
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Sveitarstjórnarkosningar
- Tónlist
- Trúmál
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (13.7.): 2
- Sl. sólarhring: 16
- Sl. viku: 87
- Frá upphafi: 236870
Annað
- Innlit í dag: 2
- Innlit sl. viku: 76
- Gestir í dag: 2
- IP-tölur í dag: 2
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar