Hraðsveitakeppni Súgfirðingafélagsins

Í byrjun vikunnar tók ég þátt í Hraðsveitakeppni Súgfirðingafélagsins í brids. Það er gaman að spila hraðsveitakeppni með 7 sveitum. Skemmtilegt keppnisfyrirkomulag.  Ég var ráðinn í Bridgestone sveitina. Er hægt að hafa betra nafn á bridgesveit? Yfirleitt spila ég við Arngrím Þorgrímsson framkvæmdastjóra Betra grips sem flytur inn hina þekktu og vönduðu Bridgestone hjólbarða. En vetur konungur minnti á sig og það var vertíð í dekkjasölunni og því spilaði ég við gamlan spilafélaga Guðmund Guðjónsson.

Fyrsti snjór vetrarins og fyrsta hálka vetrarins var engin fyrirstaða fyrir Bridgestone-sveitina í Hraðsveitakeppni Súgfirðingafélagsins. Bridgstone-sveitin sem skipuð var Birni Guðbjörnssyni, Gunnari Ármannssyni, Guðmundi Guðjónssyni og Sigurpáli Ingibergssyni spólaði inn 515 stigum og var nokkuð fyrir ofan skipverjana á Val ÍS frá Súgandafirði.

Sjö efstu sætin í hraðsveitakeppninni skipuðu.
Bridgestone    515 stig
Valur  ÍS          449
Malir                438
Barðagrunn     431
Efribær            406
Neðribær         402
Gölturinn         383

Nöfnin á sveitunum eru skemmtilega valin hjá spilurum. Þau tengjast flest átthögunum fyrir vestan í Súgandafirði. Það var gaman að fylgjast með baráttunni milli Efribæ og Neðribæ en að lokum stóð efri bær ofar!
Næst verður spilaður fimm kvölda tvímenningur. Keppt um Súgfirðingaskálina í sjöunda skipti og hefst spilamennska kl. 18 á mánudaginn 19. nóvember.

Bridgestone
Sigurpáll Ingibergsson, Gunnar Ármannsson, Björn Guðbjörnsson og Guðmundur Guðjónsson


Esjan

Í gær var fyrsti vetrardagur og veðurguðirnir voru svo listrænir að þeir sendu smá snjóföl niður í byggð síðla gærdags.

Klukkan tíu í morgun var haldið í létta gönguferð upp á Esjuna. Tók Frímann vinnufélaga minn með en hann er mikill garpur. Veðrið var fallegt og skyggni gott. Margt fólk var í fjallinu og gaman að sjá það og landið í snjónum..

Einkenni landsins sjást aldrei betur en þegar snjór liggur  í lautum. Þá sjást fellingar og straumar hraunanna eins og dökkir, risavaxnir ormahryggir. Þá sést fólkið eins og maurar á ferð skríðandi upp eða niður Esjuna.
 

 


This is Anfield

Spánverjarnir Torres og Benites við skiltið hræðilega

 

This is Anfield 

Þessi þrjú orð standa á frægu skilti þegar komið er inn á Anfield, heimavöll Liverpool.  Fyrir suma knattspyrnumenn á seinni hluta síðustu aldar voru þessi þrjú orð hræðileg. Þau þýddu einfaldlega tap.

Arsenal á leik á sunnudaginn á Anfield Road í Liverpool. Liðið er á fljúgandi siglingu um þessar mundir og sjálfstraustið í botni eftir ellefu sigurleiki í röð. Í vikunni gjörsigraði Arsenal  tékkneska liðið Slavia Prague 7-0 í Meistaradeildinni. Liverpool er í sárum. Leikurinn er spurning um sjálfstraust. Knattspyrna, mælti Ossie Ardiles, er 90% sjálfstraust.  Þarna hefur Arsenal vinninginn.

 

 

 

              Líklegt byrjunarlið hjá Arsenal

                               Spánn

       Frakkland Fílabeinsströnd Frakkland Frakkland

        Fílabeinsströnd Spánn Frakkland  Hvít-Rússland

                              England Togo

Bekkur:  Þýskaland, Brasilía, Króatía, Tékkland, Danmörk

Um lið Liverpool hef ég litlar njósnir. Ljóst er að fyrrum leikmaður Arsenal, Pennant verður ekki með og vonandi verður Finninn Hyypia í vörn Liverpool en hann er veikasti hlekkur liðsins. 

Ég hlakka til leiksins við Liverpool. Viðvörunin "This is Anfield" mun ekki hræða hina ungu og efnilegu leikmenn Arsenal.  Ég býst við smásigri, 0-1 og hef trú á að Adebayor skori.

 


mbl.is Wenger með óbreytt lið til Liverpool
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Smugan, miðstöð tækni- og lista fyrirtækja

Fór eftir vinnu í dag á opnunarhátíð Smugunnar á Klapparstíg 28.  Þar eru til húsa fyirirtækin Marimo ehf., Sjá ehf., Sprettur ehf., 2 Global ehf., Pooldb, Love Corporation ofl. Þetta eru hugbúnaðar og/eða lista fyrirtæki.  Það var gaman að koma inn í húsið sem er með starfsemi á þrem hæðum. Það á sér mikla sögu og það var gaman að vera innan um nörda og listamenn.  Miklar andstæður, gamalt hús með  gömlum innréttingum en nýtísku net- og vélbúnaður.

Frumherjarnir í CCP sem þróuðu tölvuleikinn Eve-oneline voru áður til húsa á Klapparstíg en með vaxandi velgengni sprengdu þeir húsið utan af sér og eru þeir komnir út á Granda.

Frumkvöðlar hverfandi stétt er frétt í 24 stundir í dag. Þorsteinn Ingi Sigfússon segir grátlegt að sjá á eftir góðum nemendum í banka. Lista og tæknifólkið í Smugunni hefur  kosið að vinna ekki fyrir áhættufjárfesta heldur skapa eitthvað nýtt. Það eru góðar fréttir. 


Hvað eiga Hornafjörður og Schwarzsee sameiginlegt?

Ég tók þykka bók að láni í Bókasafni Kópavogs um daginn. Fjallamenn heitir hún frá árinu 1946. Höfundur er Guðmundur Einarsson frá Miðdal. Ég var ekki viss um að komast í gegnum doðrantinn og ætlaði að fletta í gegnum verkið hjá listamanninum en hann teiknaði margar myndir sem birtast í bókinni.  Eftir að hafa komist í gegnum fyrsta kaflann leist mér mjög vel á verkið. Guðmundur hefur verið mikill raunvísindamaður og hefur góðan stíl. Það er alltaf gaman að lesa lýsingar ferðamanna á Hornafirði. Allir alltaf jafn jákvæðir enda Hornfirðingar höfðingjar heim að sækja.

Hann er að fara í ferð um Vatnajökul austanverðan og kemur með strandferðaskipi til Hornafjarðar.(bls. 84)
 
"Hornafjörður á engan sinn líka að margbreytilegri fegurð. Þó er til í smækkaðri mynd líking af skriðjöklunum fimm, sem steypast þar í hálfhring ofan af hájöklinum. Það er við Schwartzsee (Svartavatn) í Zillertal í austurrísku Ölpunum. Ekki skorti góðar viðtökur í gistihúsinu og hjá öðrum íbúum þorpsins. Það er alltaf gaman að koma í þorp, þar sem maður getur átt von á að mæta kúm og kindum á götunni og sér fólkið með amboð um öxl eða þá akandi með skarkola og annan fisk utan úr firðinum; fiskmeti, sem varla er metið til peninga, af því að hægt er að sækja það fyrirhafnarlítið."
 
aust_map_Zillertal_berliner

Ég fór strax á Netið og leitaði að þessari perlu í austurrísku Ölpunum. En gekk illa að finna staðinn. Stafsetningin á Svartavatni hefur líklega breyst með árunum. Þegar leitað var eftir Schwarzsee kom mikið af síðum. En staðurinn er í 2.472 m hæð í Zillertal dalnum. 

Það er rétt hjá Guðmundi, staðirnir tveir eiga margt sameiginlegt. Ég stefni til Tíról í gönguferð á næstu árum og einnig að jóðla. Verzt að kunna ekkert á skíði en ég veit aðeins um einn Hornfirðing sem kann þá íþrótt.

 

 

 

 

 

Tenglar

http://www.naturpark-zillertal.at/index.php?id=1015 

http://www.summitpost.org/image/176413/176305/berlinerspitze-from-schwarzsee.html 

1218


Orðvandir Öræfingar

Fyrst minnst var á bókina Við Þórbergur eftir Gylfa Gröndal í síðustu færslu þá er ekki úr vegi að kíkja í kaflann Rigningarsumar í Suðursveit.

Ég hef haldið mikið upp á frásögn Þórbergs á Vatnadeginum mikla en sú frásögn er einstök í sinni röð, einkum með tilliti til málfars í sambandi við veður og vötn. Kíkjum á hvernig  Margrét Jónsdóttir upplifði ferðina yfir Skeiðará. 

"Við lögðum af stað um morguninn og riðum úr hlaði undir heiðbjörtum himni, öll á þaulvönum vatnahestum, pósturinn Runólfur Jónsson í Svínafelli, Þórbergur og ég. Síðan bættist fimmti maðurinn í hópinn, Runólfur Bjarnason í Skaftafelli, sem talinn var mesti Skeiðarárfræðingur í Öræfum.

Um leið og Þórbergur hitti Runólf í Skaftafelli, spurði hann:

"Er ekki Skeiðará mikil núna, Runólfur?"

"Jú, það er ansi mikið í henni," svarar hann

Þá leist Þórbergi ekki á blikuna, því að hann þekkti vel, hve orðvandir Öræfingar voru. Ansi mikið táknaði á þeirra máli ekkert minna en andskotans ósköp - svo útlitið var ekki gott.

Á leiðinni brýndi Þórbergur fyrir mér vatnaboðorðin fjögur, svo að ég fær mér nú ekki aftur að voða, en þau hljóðu svo:

Fyrsta boðorð: Haltu ekki fast í tauminn

Annað boðorð: Stattu ekki í ístöðunum.

Þriðja boðorð: Haltu annarri hendi af öllu afli í faxið, ekki í hnakkinn.

Og fjórða boðorð: Horfðu ekki niður í vatnið, heldur skaltu einblína á Lómagnúp." 

Í þessari frásögn koma mörg sérkenni fram. Yfirburðaþekking Skaftfellinga á Skeiðará. Þekking sem hefur tapast eftir að brýr komu til sögunnar. Geðgóðir hestar, húmor og skipulag Þórbergs. Einnig hversu margbrotin íslenskan getur verið. Ansi mikið getur haft stóra merkingu. Tungumálið er ekki bara samskiptatæki, það er miklu dýpra en það. 


Er nú spyrillinn þurrausinn?

Var að horfa á bókaþáttinn Kiljuna í kvöld.  Einn gesta þáttarins var Matthías Johannessen ritstjóri. Egill og Matthías áttu skemmtilegt spjall saman. Gaman að heyra afstöðu Matthíasar á birtingu á efni eftir sig á Netinu, matthias.is.

Fyrir stuttu las ég bókina Við Þórbergur eftir Gylfa Gröndal en þar segir Margrét Jónsdóttir ekkja Þórbergs Þórðarsonar frá. Það er létt og skemmtileg bók.

Það er gaman að sjá sjónarhorn Margrétar á atburðum. Hún segir þar frá viðtali sem ungur maður, hár vexti og ljóshærður, bjartur yfirlitum og drengjalegur á við Þórberg fyrir tímaritið Helgafell í tilefni af sjötugsafmæli hans. Matthías Johannessen hét ungi maðurinn  og kemur aftur og aftur í heimsókn til þeirra hjóna. Smátt og smátt breyttist blaðaviðtalið í heila bók. Viðtalsbókin koma út á afmælisdegi Þórbergs, hinn 12. mars 1959, þegar hann varð sjötugur. Í kompaníi við allífið hét hún. Matthías skrifaði fleiri viðtalsbækur og eflaust er það rétt sem Egill sagði í þættinum í kvöld að þær séu ein mesta snilld í íslenskri blaðamennsku.

Eitt sinn var Matthías búinn að þræla sér svo út fyrir andskotans íhaldið, að hann sat kúguppgefinn í stólnum og steinþagði:

  Þá segir Þórbergur:    "Er nú spyrillinn alveg orðinn þurrausinn?"

Þarna heyrðist orðið spyrill í fyrsta skipti, því að Þórbergur bjó það til.  Þetta var ekki eina orðið sem nýyrðasmiðurinn Þórbergur bjó til á farsælli æfi.


Áfangar í vísindasögunni - Nýjunga tímalínan

Var að fletta í gegnum nettímarritið WIRED í kaffitímanum og rak augun í þessa merkilegu nýjunga tímalínu (innovation timeline) í mannkynsögunni. Menn geta svo deilt um hvort eitthvað sé of eða van. Hef mínus (-) fyrir kristburð.  Ég ætla að þýða sumt en annað er betra á ensku.

  • -400.000 Nýting eldsins
  • -35.000 Menn læra að telja
  • - 8.000  Verkfæri úr steini
  • - 3.500 Hjólið
  • -3.000  Stjörnufræði
  • -1.000  Gríska starfrófið
  • -320 Grasafræði (Botany)
  • -300 Euclidean geometry  (Evklíðsk stærðfræði)
  • -50 Lyf
  • 100 Gufa
  • 876 Núll og brot
  • 1202 Algebran
  • 1435 Perspective (í listum)
  • 1439 Prenlistin
  • 1543 Líffærafræðin (Anatomy)
  • 1600 Segulsvið (Magnetism)
  • 1673 Smásjáin
  • 1774 Brennsla? (Combustion)
  • 1796 Bólusetning (Vaccines) Edward Jenner
  • 1799 Rafhlaðan
  • 1808 Kjarnorkukenningin (Atomic theory)
  • 1820 Electromagnetism
  • 1822 Difference engine
  • 1828 Synthetic matter
  • 1859 Þróunarkenningin (Evolution theory)
  • 1860 Carbon-filament lightbulb
  • 1867 Dýnamít
  • 1869 Lotukerfið (Peridcic table)
  • 1876 Síminn
  • 1885 Gasknúinn bíll
  • 1895 Röntgen geislar (X-ray)
  • 1896 Útvarpsbylgjur (Radioactivity)
  • 1902 Biplane gilder
  • 1903 Chaos theory   
  • 1905 Special relativity
  • 1910 Antibiotics
  • 1915 General relativity
  • 1928 Penicillin
  • 1942 Nuclear fission
  • 1943 Gervigreind  (Alan Turning og John von Neumann)
  • 1946 Tölvur
  • 1947 Kjarnorka (Nuclear energy)
  • 1947 Smárinn (Transistor)
  • 1953 DNA byggingin
  • 1959 Nanotechnology  (örtækni)
  • 1969 Appolo áætlunin
  • 1973 Erfðaverkfræði (Genetic engineering)
  • 1977 Nútíma dulkóðun (Cryptography)
  • 1984 String theory
  • 1990 Veraldarvefurinn (World Wide Web - fiskholl.blog.is)
  • 1996 Mammal cloning (Dollý)
  • 2000 Human genome (Kortlagnin gengamengis mannsins)
  • 2001 iPod
  • 2005 YouTube

Arsenalklúbburinn 25 ára

Fyrir sléttum 25 árum var Arsenalklúbburinn á Íslandi stofnaður á Selfossi. Stofnendur voru Selfyssingarnir Kjartan Björnsson og Hilmar Hólmgeirsson. Kjartan var formaður klúbbsins næstu 20 árin.  Breiðhyltingurinn Jón Víkingur Hálfdánarson tók við stjórnartaumum árið 2002 og núverandi formaður, Grindvíkingurinn Sigurður Enoksson er búinn að stjórna félagsskapnum síðan í vor.

Fæðingin

15. október 1982 var föstudagur og framundan var leikur við WBA en gengi Arsenal í deildinni hafði verið slakt, eitt stig úr fyrstu fjórum leikjunum. Liðið var nýlega dottið út úr Evrópukeppi eftir að hafa tapað fyrir Spartak Moscow. Liverpool-vélin malaði vel á þessum árum og þannig má segja að ekki hafi verið kjöraðstæður til að stofna stuðningsmannaklúbb fyrir Arsenal á Íslandi. 

"Það var ákveðið með stuttum fyrirvara að hittast heima hjá Kjartani. Hann bjó í forstofuherbergi á Grashaga 17 sem var vel skreytt með Vals- og Arsenalplakötum og myndum af hljómsveitum, aðallega unglingahljómsveitum. Við sátum þarna og lögðum drög að starfsemi klúbbsins og skilgreindum markmið: Stuðla að ferðalögum á Highbury, selja Arsenalvarning og gefa út blað. Klúbburinn var því stofnaður í herberginu hjá Kjartani á 70 cm beddanum." 

Svo mælti Hilmar Hólmgeirsson stofnfélagi.  

Í dag eru um 1.500 virkir stuðningsmenn í Arsenalklúbbnum á Íslandi. 

Til hamingju með daginn Arsenalmenn á Íslandi!

arsenal

Heimild: 

Arsenal - 20 ára - Bókin um okkur stuðningsmenn Arsenal 


Heima ****

Við Særún fórum í Háskólabíó í gærkveldi og borguðum fyrir minnisstæða tónleika í Öxnadal 28. júlí 2006. Það var skemmtileg sveitastemming undir Hrauntindinum hjá bænum Hálsi hvar Jónas Hallgrímsson ólst upp stutt frá. Bílarnir keyrðu í röð  inn á nýslegið túnið og lögðu í skipulagðar raðir sem markaðar voru af hvítum heyböggum. Síðan var rölt yfir hæð og við blasti bálköstur og svið úti á miðju túni. Fólkið streymdi að, börn, mömmur og pabbar, afar og ömmur, einnig hundar. Fólk var klætt í íslenskar lopapeysur og sumir höfðu með sér teppi.  Það var glæsileg stund þegar álfarnir í Sigur Rós og álfkonurnar í Amiinu gengu að sviðinu og hófu tónleikana af miklum krafti.

SRHals

 

Myndin Heima er afurð af frumlegu tónleikaferðalagi hljómsveitarinnar sumarið 2006 og spilar landslagið stórt hlutverk. Flest lögin eru af plötunum Ágætis byrjun og Takk. Tónleikar voru haldnir á óvenjulegum og fámennu stöðum t.d. Djúpavík, Ásbyrgi og Kárahnjúkum. Einnig var komið við í Selárdal og tekið áhrifaríkt lag innan um listaverkin hans Samúels. Einnig er komið við á þéttbýlisstöðum, Ísafirði, Seyðisfirði og endað á Miklatúní í Reykjavík. Mörg skot eru af jöklunum á Skeiðarársandi og umhverfi hans. Kvikmyndatökulið tók glæsileg skot á Jökulsárlóni. En það vantaði bara að halda tónleika á svæðinu. Myndin er dulin áróðursmynd með góðan umhverfisboðskap. 

Sigur Rós flytur tónlist sína á  Íslensku en viðtöl við hljómsveitarmeðlimi eru á bjagaðri ensku. Snillingarnir í hljómsveitinni virðast vera feimnir. Viðtölin koma skringilega út og frasinn "you know" er of algengur. En að sama skapi gera viðtölin myndina persónulegri. Hljómgæðin voru mjög góð og hátalarar voru hátt stilltir í kvikmyndasalnum. Stemmingin sem skapaðist var góð.

Í myndinni er einnig farið í bakgrunn sveitarinnar og pælingar þeirra. Þeir eru óhræddir að prófa ný hljóðfæri, t.d. steinhörpu Páls í Húsafelli og notast við rímnakveðskap. Steindór Andersen kemur fram í einu rímnalagi, sem og kvæðakórinn Iðunn.  En náttúrulegasta lagið á Vatnajökull sjálfur, smellirnir í honum eru magnaðir þegar hann skríður fram á sandinn.  Það er því ekki furða að þeir hafi nýlega fengið verðlaun fyrir sérkennilegasta hljóminn á merkri tónlistaverðlaunahátíð.

Endirinn er athyglisverður, þegar efnislistinn rennur yfir, spilar sveitin tilfinningaþrungið lag. Allir gestir sátu sem fastast hugfangnir af laginu og hef ég ekki upplifað slíka setu áður meðan stafir birtast á skjá.

Við Særún segjum eftir þessa áhrifamiklu sýningu. Takk 

 


Næsta síða »

Um bloggið

Sigurpáll Ingibergsson

Höfundur

Sigurpáll Ingibergsson
Sigurpáll Ingibergsson
Hornfirðingur búsettur í Kópavogi. Árgerð 1965.
Okt. 2007
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30 31      

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • IMG 4410
  • IMG 4385
  • IMG 4421
  • Á afskekktum stað
  • Tíminn051071

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (30.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 13
  • Sl. viku: 425
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 350
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband