Minn tími mun koma

Er hann loks kominn hjá Jóhönnu?


Slumdog Millionaire ****

Ég er einn af þeim mögru sem hafa gaman að spurningaþáttum. Ég fylgist með flestum spurningaþáttum sem boðið hefur verið uppá hérlendis og einn af þeim var, Villtu vinna milljón.

Nú er komin góð mynd í kvikmyndahúsin, Slumdog Millionaire eftir bókinni Viltu verða milljónamæringur? eftir indverska höfundinn Vikas Swarup. Kvikmyndin sem leikstýrð er af Bretanum Danny Boyle, fjallar um fátækan indverskan dreng, Jamal Malik, sem nær alla leið, en það virðast hafa verið örlög hans að vinna. Hann er uppruninn úr fátæktarhverfi Mumbai og því kemur það þáttargerðarmönnum á óvart að hann skuli taka allan pottinn. Hann lendir í ströngum yfirheyrslum og segir viðburðaríka sögu sína. En flest svörin hafði hann upplifað í fátækri æsku.

Myndataka er góð og mikil litadýrð. Mörg atriðin vel gerð, sérstaklega þegar löggur elta drengina inn í fátæktarhverfið. Þá er hvert skot þaulhugsað og áhorfandinn fær að kynnast lífinu í þorpinu.  Myndin minnir mig á brasilísku myndina City of Gods, en þar var sögð saga ungs drengs úr fátæktarhverfum Rio sem fann tilgang í lífinu með því að taka fréttaljósmyndir.

Myndin spyr spurninga um örlög, ráðvendni, græðgi og jafnvel þéttleika byggða. Inni í myndina fléttast ástarsaga. Leikurinn er ágætur og standa litlu krakkarnir sig frábærlega, gleðin skín úr andlitum þeirra. 

Slumdog Millionaire  er fersk og skemmtileg mynd sem sýnir okkur misskipt Indland. Hún er tilnefnd til Óskarsverðlauna og hefur þegar unnið Golden Globe verðlaunin. Hugmyndin að sögunni er frumleg. Ég prófaði mig áfram í síðasta þætti af ÚtSvari á föstudaginn.

Í stóru fimmtán stiga spurningunum í viðureign Álftanes og Ísafjarðar var spurt um hlaupara sem unnið hafði Ólympíugull í 5 km, 10 km og maraþonhlaupi á Ólympíuleikunum í Finnlandi 1952. Svarið var Emil Zátopek.  Ef ég hefði fengið þessa spurningu þá hefði ég getað svarað henni og sagan á bak við hana er:

Þegar Finninn Lasse Virén var að vinna langhlaupin á Ólympíuleikunum 1976, sagði dönskukennarinn okkar, Heimir Þór Gíslason okkur eftirminnilega sögu, á Íslensku í tímum. Hann sagði okkur frá tékkanum Emil Zátopek sem var ofurmannlegur. Hápunktur sögunnar var þegar hann ákvað á síðustu stundu að vera með í maraþonhlaupinu sem hann vann. Þetta nafn hefur síðan stimplast í hausinn á mér. Maður lærði meira en dönsku í dönskutímunum hjá Heimi. Sérstaklega eru minnisstæðar sögurnar af Molbúunum.

25092007.jpegÖnnur stór spurning var um sund eitt í Tyrklandi. Svarið var Bosporussund. Mér fannst það frekar létt fimmtán stig.  En sagan á bak við svarið er sú að ég hef nokkrum sinnum heyrt minnst á sund þetta. En síðasta upprifjun er minnisstæð. Á síðasta ári fór vinur minn sem er verkfræðingur í ferðalag, m.a. til Tyrklands og þar með komst hann til Asíu. Hann sendi mér mynd af Bosporussundi. Með henni fylgdi textinn, "Evropa og Asia Bosborus". Ég á enn þessa mynd í farsíma mínum, hinar þrjár sem eru til í Inboxinu, eru af fallegum konum!

Svona geta flestir fundið sögur á bakvið  svörin í spurningarkeppnum.  Ein spurning í lokin, milljón króna spurning. Hvað hétu skytturnar þrjár?

 


Samstöðumótmæli á Hornafirði?

Öflugustu mótmæli frá árinu 1949 hafa staðið yfir síðustu daga. Hápunkturinn náðist á þriðjudaginn.  Í kjölfarið voru haldin samstöðumótmæli á Akureyri og Egilsstöðum. Þau hafa einnig verið haldin á Ísafirði og í Mývatnssveit.   Hins vegar hefur ekkert heyrst um mótmæli frá Hornafirði. En Hornfirðingar eru nú seinir til uppistands.

En hvernig væri að blása til samstöðusóknar. Það væri gráupplagt að halda þau við gamla kaupfélagshúsið. Halldór Ásgrímsson, holdgerfingur hrunsins bjó þar fyrstu ár ævi sinnar.

Halldór er guðfaðir kvótakerfisins, ófreskjunnar sem við sitjum nú uppi með. "Kvótakerfið varðaði veginn inn í sjálftökusamfélagið".

Hann er guðfaðir Kárahnúkavirkjunar sem hratt af stað ofþenslu í hagkerfinu. Í skýrslu frá Alþjóða gjaldeyrissjóðnum má lesa eftirfarandi setningu: "Hin langvinna þensla hagkerfisins, sem fjárfestingar í áliðnaði hrutu af stað og var viðhaldið með snaraukinni einkaneyslu, og greiður aðgangur að fjármagni ýtti undir, ól af sér ójafnvægi í þjóðarbúskap og gerði fjármálakerfið berskjaldað fyrir utanaðkomandi áhrifum."   

Auk þess eru hreinar orkulindir Íslands gífurlega verðmæt eign og hún er seld lægstbjóðanda. 

Hann var annar af arkitektum stuðnings Íslands við  Íraksstríðið. Einum svartasta blett Íslandssögunnar.

Íslendingar eru að uppskera núna óríkulega eftir þessa hörmulegu sáningu.  Því eiga samstöðumótmæli á Hornafirði vel rétt á sér. Í hjarta bæjarins þar sem héraðslaukurinn ólst upp. Það væri gaman að heyra í mótmælendum frá Hornfirði.  

Hvað segir bloggvinur minn Þórbergur Torfason um það?


Yes We Can day

Hann er sögulegur dagurinn í dag.  Í Bandaríkjunum verður hans minnst sem Yes We Can day dagsins er Obama tók við lyklavöldum í Hvíta húsinu. Á Íslandi verður  hans minnst sem kröftugs mótmæladags er Alþingi var sett.

Ég held að það verði breytingar á Íslandi. Já, við getum.

 


Í stígvélin - Get On Your Boots

Heyrði í morgun hjá nafna í Popplandi nýjasta lag U2, Get On Your Boots. Það er forsmekkurinn af nýju plötunni, "No Line on the Horizon".

Þetta er kraftmikið lag sem vinnur á við hverja hlustun. Það er frábrugðið því sem sveitin hefur verið að skapa á öldinni. Bassinn hjá Clayton er þungamiðjan í laginu og aðrir meðlimir sveitarinnar koma með innslög.

Markaðsdeildin hjá U2 er öflug. Platan nýja sem kemur út 2. mars og verður í fimm útgáfum. Vinyl, hefðbundið CD með 24 blaðsíðna bæklingi, Digipak format, Magazine format og Box format. Ætli maður endi ekki á  þeirri veglegustu.

Hér er lagalistinn á Línulausa sjóndeildarhringnum:

1. No Line On The Horizon
2. Magnificent
3. Moment of Surrender
4. Unknown Caller
5. I'll Go Crazy If I Don't Go Crazy Tonight
6. Get On Your Boots
7. Stand Up Comedy
8. Fez - Being Born
9. White As Snow
10. Breathe
11. Cedars Of Lebanon


Mótmælafundur #15 á Austurvelli

Motmaeli15

Ég og Særún fórum niður í bæ í slyddunni og tókum þátt í mótmælum á Austurvelli. Það gekk illa að finna bílastæði við hafnarbakkann en eftir nokkuð hringsól fannst stæði. Það benti til þess að margir væru í miðbænum, Ríki Jakobs Frímanns.

Við misstum af upphituninni og ræðu hagfræðingsins Gylfa Magnússonar en náðum boðskap hinnar atvinnualausu Svanfríðar Önnu Lárusdóttir.  Ekki urðum við vör við hinar Nýju raddir sem voru búnar að boða fund en vinur minn sýndi mér flotta mynd af Eiríki Stefánssyni, klæddum í sjógalla og með svart límband yfir strigakjaftinum. Eiríkur er mikill kvótaandstæðingur og hefur margt gott fram að færa en meðulin sem hann notar eru frekar óhefðbundin.

Margt fólk var á Austurvelli og mikið um börn með foreldrum. Á heimleiðinni gegnum við framhjá sjónvarpsfréttamönnum frá Sviss. Þeir höfðu mikinn áhuga á að ræða við Særúnu. Vildu fá að vita hverju hún væri að berjast fyrir.  Hún er ósátt við allar skuldirnar sem skrifaðar hafa verið á hana, án hennar leyfis. Stelpunni minni gekk illa að skilja sjónvarpsfólkið og því næst svifu þau á mig. Þau spurðu mig hvort bankahrunið hefði haft áhrif á hag minn. Ég játti því og sagði að það hefði áhrif á alla. Þvínæst spurðu þau hverju við værum að berjast fyrir. Ég sagðist vona að við lifðum þetta af.  Við viljum breytingar rétt eins og Obama.  Ég var kurteis og sparaði stóru slagorðin. Á heimleiðinni sá ég eftir að hafa ekki verð herskárri. Við verðum eflaust klippt út.

Fokking15


Davíð til Vanúatú

Á Borgarafundinum í Háskólabíó sl. mánudag fór breski hagfræðingurinn Robert Wade á kostum. Hann flutti mjög áhugavert erindi, kom með óhuggulega spá um aðra kreppu í vor, og var með lausnir.  Hann skaut ýmsum fróðleik á milli skrifaðs texta í ræðunni og nefndi góð dæmi. Eitt dæmið hreif fundarmenn alla svo vel að þeir risu upp úr sætum sínum og klöppuðu af hrifningu. Þá var hann að fjalla um seðlabankastjóra núverandi og hvar hann væri best niðurkominn. Tillaga Wade var sú að gera hann að sendiherra á eyjunni Vanúatu.

En er þessi eyja til og hvar er hún?

Flag of VanatuVanúatú er 1,750 km norðaustan við Ástralínu, í suður-kyrrahafi. Vanúatú hlaut sjálfstæði og varð lýðveldi árið 1980. Það samanstendur af 80 eyjum, sem áður hétu Nýju Hebrídeyjar, og tilheyrðu áður Bretlandi og Frakklandi. Búið er á 65 þessara eyja. Íbúafjöldi er liðlega 215 þúsund. Höfuðborgin heitir Port-Vila.

Tveir þriðju íbúa Vanúatú lifa af kotbúskap en fiskveiðar, ferðaþjónusta og erlend bankaþjónusta eru vaxandi gjaldeyrislind.

Geir Haarde, í fjarverðu Davíðs utanríkisráðherra skrifaði undir yfirlýsingu um stofnun stjórnmálasambands fyrir Íslands í september 2004. Þeir félagar eiga því að þekkja vel til eyjarinnar.

Vanúatú og Ísland eiga margt sameiginlegt. Því ætti Davíð að getað fundið sig vel á kyrrahafseyjunni.

Heimildir:

http://en.wikipedia.org/wiki/Vanuatu

http://www.utanrikisraduneyti.is/frettaefni/frettatilkynningar/nr/2369


Helgafell (340 m)

Það var fallegur dagur í dag.  Fyrir nokkru var búið að ákveða gönguferð á Esju en hún var blásin af. Í staðin ákvað fjölskyldan að halda á Helgafell (340 m) við Kaldárbotna.  Eftir að pönnukökur höfðu verið bakaðar var haldið í fellagönguna. 

Það var lítilsháttar snjór í Helgafelli en hraunin í kring marauð. Ari litli var duglegur að ganga upp fellið með göngustafina og fór ótroðnar slóðir. Oftast beint af augum, erfiðustu leið.  Á leiðinni upp var falleg birta. Snjór litaði móbergið hvítt í fellinu, svört hraun og falleg birta yfir borginni en kólgubakkar nálguðust. Nágrannafellin, Húsfell og Valahnúkar skáru sig úr og fylgdust með uppgöngunni. Mægðurnar Særún og Jóhanna Marína voru aðeins á undan okkur strákunum á toppinn. Mikil umferð göngufólks var á fellið.  Skemmtileg gönguferð sem tók 2 tíma og 17 mínútur.

Þegar toppinn var komið voru nöfn skráð í nýja gestabók og nýbakaðar pönnukökur snæddar. Ari var ekki sáttur við að fá kaldar pönnukökur og mótmælti því með að fara í hungurverkfall.

Við komum að bílnum við víggirta Kaldárbotna, vatnsból Hafnfirðinga, tuttugu mínútum fyrir fimm, en skömmu síðar skoruðu Arsenal sigurmarkið gegn Bolton. Ari taldi að hann hefði sent afgangsorkuna yfir hafið. "Hjúkk, að ég komst", mælti sá stutti.

Helgafell, Særún, Hanna og Ari


Kjósum Vatnajökul

Vatnajökull er i framboði í atkvæðagreiðslu um sjö ný náttúruundur í heiminum.  Vatnajökull er eini fulltrúi Íslands.  Í boði eru 261 staður, og stórkostlegt að vera í þeim hópi. 77 efstu komast áfram i aðra umferð.  Kjörfundi lýkur 7. júlí.

Farið á www.new7wonders.com

eða styðjið hér, kjósum Vatnajökul.

Veljið heimsálfu og náttúruundur.  Hér er minn atkvæðaseðill.  Ég valdi  einn fulltrúa frá hverri heimsálfu. Það var fróðlegt að fara í gegnum listann og maður á eftir að ferðast mikið. Nóg er til af merkilegum stöðum.

 vote7vonders.jpg


Epísk Ástralía ****

Ég hef undanfarið verði nokkrum sinnum verið spurður að því hvað epísk mynd sé en kvikmyndin Ástralía, eftir Baz Luhrmann með Nicole Kidman, Hugh Jackman og Brandon Walters, hefur verið auglýst sem epísk mynd. Ég reyndi að útskýra fyrirbærið en eftir að hafa legið í kvöld yfir skilgreiningum á epík, þá sé ég að ég hef ekki verið nógu nákvæmur. 

Í Íslensku alfæðiorðabókinni er epík skilgreind eftirfarandi: "frásagnarskáldskapur: allur skáldskapur sem hefur að geyma frásögn, jafnt í bundnu máli sem óbundnu; ein af þremur höfuðgreinum bókmennta ásamt lýrik og leikritun". Með öðrum orðum: Epísk frásögn er t.d. saga sem hefur upphaf, meginmál eða söguþráð og enda. Eitthvað hefðbundið söguform. Epík er dregið af gríska orðinu epos en frummerking þess er "það sem sagt er"

Aðrar skilgreiningar á epískum myndum sem ekki eru réttar, eru að þær séu langar, yfir tveir tímar eða þær séu gamlar myndir. Það fyrsta sem kemur upp í hugann þegar minnst er á breska leikstjórann David Lean (1908-1991) er epísk stórmynd. Hann var meistari þessa mikilfenglega forms og nokkrar slíkra mynda hans eru með því besta sem gert hefur verið á þessu sviði frá upphafi. Hringadróttinssögu-þríleikurinn sannar að nútíma kvikmyndagerðarmenn geta vel gert stórmyndir af því tagi og voru algengar hér áður fyrr. 

En snúum okkur að epísku myndinni Ástralíu. Þetta er stórmynd í anda Gone With the Wind. Sögusviðið er víðátta Ástralíu. Inn í söguna fléttist uppgjör við frumbyggja Ástralíu, rekstur 1.500 nautgripa í kappi við tímann, árás frá Japönum í seinna heimsstríði og ástarsaga. Einn skúrkur er svo með til að fullkomna kokteilinn. 

Kvikmyndataka er mjög góð, hver rammi úthugsaður. Landkynningarmynd fyrir alla fjölskylduna. Stór hluti er þó tekinn í kvikmyndaveri og hafa líklega sömu aðilar verið að verki og gerðu tölvugrafíkina í Flags of our Fathes og Letters from Iwo Jima. 

Magnaðasta atriði myndarinnar var þó þegar nautin fimmtánhundruð ruddust af stað og stefndu fram af bröttum hömrunum. Ég var skyndilega kominn upp á Morinsheiði með Heiðarhorn framundan eftir göngu yfir Fimmvörðuháls. Magnað atriði og gott ef ég fann ekki fyrir lofthræðslu.

Nú er bara að sjá hvort maður nái að lifa að sjá epísku myndina Ísland sem Balti eða einhver góður íslenskur leikstjóri framleiðir.  Það kæmu saman víkingar, bankahrun, síldarævintýr og ástarævintýri í óbyggðum. 


Næsta síða »

Um bloggið

Sigurpáll Ingibergsson

Höfundur

Sigurpáll Ingibergsson
Sigurpáll Ingibergsson
Hornfirðingur búsettur í Kópavogi. Árgerð 1965.
Jan. 2009
S M Þ M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28 29 30 31

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • IMG 4410
  • IMG 4385
  • IMG 4421
  • Á afskekktum stað
  • Tíminn051071

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (13.7.): 6
  • Sl. sólarhring: 15
  • Sl. viku: 91
  • Frá upphafi: 236874

Annað

  • Innlit í dag: 6
  • Innlit sl. viku: 80
  • Gestir í dag: 6
  • IP-tölur í dag: 6

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband