Eldsmiður náttúrunnar *****

Í sunnudagsbíói annað kvöld verður kvikmyndin Börn náttúrunnar sýnd en sýning hennar tengist nýjustu mynd Friðriks Þórs Friðrikssonar, Mamma Gógó, sem frumsýnd verður á nýársdag. Það verður spennandi að sjá tenginguna á milli myndanna.

Fyrir sléttum tíu árum fór ég á kvikmyndahátíðina Hvítir hvalir og skrifaði eftirfarandi kvikmyndadóm í jólablað Eystrahorns 1999. Hornfirðingar ættu að hafa Sigurð Filipusson, eldsmið, í huga þegar þeir horfa á Börn náttúrunnar annað kvöld.

Nýlokið er kvikmyndahátíðinni Hvítir hvalir en þar var yfirlitssýning á verkum Friðriks Þórs Friðrikssonar kvikmyndagerðarmanns og snillings. Ég er mikill aðdáandi Friðriks og átti alltaf eftir að sjá myndina Eldsmiðinn, heimildarmynd um Sigurð Filippusson sveitunga okkar frá Hólabrekku.

EldsmiðurinnEkki spillti fyrir að fyrrverandi vinnustaður minn var Eldsmiðurinn, kenndur við myndina. Því var lagt af stað á hátíð.

Fyrst var Eldsmiðurinn sýndur en þetta er 35 mínútna mynd sem gerð var 1981 og í kjölfarið var hin magnaða mynd Börn náttúrunnar sýnd  en hún var frumsýnd 10 árum síðar og markaði ákveðin tímamót í íslenskri kvikmyndasögu. Áður en ég mætti á svæðið sá ég ekkert samhengi á milli þessara tveggja mynda en það átti heldur betur eftir að breytast.

Áður en sýningin hófst hélt meistari Friðrik Þór, fyrirlestur um myndirnar og útskýrði af hverju þessar tvær myndir væru sýndar saman, hvernig þær tengdust.  Ástæðan var sú að Börn náttúrunnar byggir mikið á áhrifum sem hann varð fyrir við gerð Eldsmiðsins. Söguhetjan, Þorgeir Kristmundsson, sem er snilldarlega leikinn af Gísla Halldórssyni, byggður á Sigurði Eldsmiði og látinn hafa göngulag Sigurðar auk þess voru nokkur önnur atriði sem sótt voru í smiðju Eldsmiðsins. Sigurður var mikið náttúrubarn  og þekkti umhverfi sitt vel. Hann var næmur maður og sá ýmislegt sem venjulegt fólk skynjar ekki. Dulúðina í Börnum náttúrunnar má að einhverju leyti rekja til atvika sem gerðust á þeim 10 dögum sem kvikmyndunin tók. Það var gaman að heyra frásögn Friðriks og sérstaklega þegar hann glotti og pírði augunum þegar honum var skemmt.

Nú hafði dæmið snúist við, forrétturinn rann ljúft í gegn. Sigurður  greindi skýrt og haganlega frá sér um leið og hann vann verk sín. Heimildarmyndin Eldsmiðurinn er um sérstakan mann í sínu náttúrulega umhverfi og góð heimildarmann um liðna tíma og verður verðmætari þegar fram líða stundir.

Börn náttúrunnarNú var komið að aðalréttinum. Myndin fór rólega af stað og lítið talað en þeim mun meira myndmál í tilkomumiklu landslagi. Hún greinir frá Þorgeiri sem bregður búi og fer til Reykjavíkur og lendir á elliheimili. Þar hittir hann gamla æskuvinkonu, Stellu, og saman flýja þau til æskuslóðanna. Það er mikil dulúð á flóttanum, draugar og undarlegt fólk sem tákn um að þau séu á leiðinni úr þessum heimi í annan. Hinir látnu eru farnir að heilsa.

Eitt merkilegt atriði er þegar jeppinn hverfur á flótta undan lögreglubílnum og áhorfandinn er skilinn aleinn eftir. Þetta er sótt í smiðju Sigurðar Eldsmiðs og olli nokkrum deilum í klippiherbergi í Svíþjóð. Klipparinn neitaði að klippa atriðið og varð að lokum að yfirgefa klippiherbergið.

Svona lagað fengi Friðrik Þór ekki að leika eftir í Hollývúdd, því fjármagnseigendur taka ekki svona sjensa. Eins er lokaatriðið í svipuðum dúr.

Annað atriði sem gladdi mig var að sjá Eirík Guðmundsson, Hornfirðing, sem er af miklum leikaraættum, leika lítið hlutverk vegaverkamanns og stóð hann sig óaðfinnanlega.

Loks var komið að eftirréttinum, hvað haldið þið að hafi verið í eftirrétt? Jú viku seinna eða síðasta sunnudagskvöld var myndin sýnd í Sjónvarpinu og einn var hægt að horfa á myndina frá nýju sjónarhorni og drekka í sig fleiri smáatriði. Tónlist Hilmars Arnar Hilmarssonar skilaði sér meistaralega í eftirréttinum.

Þegar þessi smáatriði voru upplýst varð myndin hreinasta snilld, alger upplifun og hækkaði um eina stjörnu, úr fjórum í fimm. Skaði að hún skyldi ekki vinna Óskarinn, besta erlenda myndin árið 1992.

 

Sigurpáll Ingibergsson

Kvikmyndagagnrýnandi Eystrahorns á Hvítum hvölum


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sigurpáll Ingibergsson

Höfundur

Sigurpáll Ingibergsson
Sigurpáll Ingibergsson
Hornfirðingur búsettur í Kópavogi. Árgerð 1965.
Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • IMG 4410
  • IMG 4385
  • IMG 4421
  • Á afskekktum stað
  • Tíminn051071

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 5
  • Sl. sólarhring: 12
  • Sl. viku: 75
  • Frá upphafi: 234910

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 67
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband