Mungát Þorrabjór

Mungát

Hið árlega Þorrablót Hornfirðinga  verður haldið í kvöld í félagsheimilinu Seltjarnarnesi.  Vel yfir 208 Hornfirðingar er skráðir til blóts og stefnir í góða skemmtun. Hin kunna Ólafía Hrönn Jónsdóttir verður veislustjóri og hinir hressu spámenn, Ingó og Veðurguðirnir sjá um dansleikinn.

Þegar svona stórviðburður á Þorra rekur á fjörur manns verður maður að gera  úttekt á þorrabjór landans. Það eru fjórar tegundir boðnar til sölu í vínbúðum landsins. Egils Þorrabjór, Jökull Þorrabjór, Kaldi Þorrabjór og ósíaður Mungát Þorrabjór.

Ég var spenntastur fyrir að hefja smakkið á Mungát Þorrabjórnum frá  Ölvisholt Brugghús. Þeir eru svo þjóðlegir á Suðurlandinu. Á flöskumiðanum stendur:

Mungát er forna íslenska alþýðuheitið á öli og var drykkur almúgans við veislur meðan höfðingjar sátu við háborðið og kneifuðu mjöð. Ölvisholt Mungát var bruggaður í mars 2008. Nú er bjórinn loks fullþroska, rétt í tæka tíð fyrir þorrann. Ríkuleg kryddun með hvönn og mjaðurt, sem voru notaðar á Íslandi fyrr á öldum við ölgerð, gerir Mungát að einstökum íslenskum bjór sem passar sérstaklega vel með þorramatnum.

Þegar gullinn almúgabjórinn Mungát fyllti bjórglasið sér glöggt að hann er ósíaður og því skýjaður. Það myndast mótmælastemming í manni við sjónina. Nokkur beiskja finnst við fyrsta sopa en þegar líður á glasið jafnast hún út. Bruggararnir eru að leika sér að bragðlaukum almúgans og með smá einbeitningu má finna blómið í drykknum.    Lýsing á bjór: Gullinn, skýjaður, meðalfylling, þurr, mildur, miðlungs beiskja. Maltbrauð, karamella, blóm, lifrarpylsa.

Þjóðlegur og spennandi drykkur sem minnir mig á La Trappe.  Litlu íslensku brugghúsin eru að standa sig feikna vel í framleiðslunni og ætla ég að einbeita mér að drykk frá þeim Kreppuárið 2009 og örugglega lengur meðan þau uppfylla væntingar mínar.  Ég fór að loknu bjórglasinu í leit að frekari upplýsingum um Mungát.

Kvæðið Mungát eftir Einar Benediktsson birtist í Hvömmum, sem kom út árið 1930.

Svo há og við er hjartans auða borg,
að hvergi kennir rjáfurs eða veggjar.
En leiti ég manns, ég lít um múgans torg;
þar lifir kraftur, sem minn vilja eggjar.
Hvað vita þessir menn um sælu og sorg,
er supu aldrei lífsins veig í dreggjar.
Ég þrái dýrra vín og nýja vini,
og vel mér sessunaut af Háva kyni.

Í Egilssögu má finna orðið mungát og hér er ein stórbrotin setning:

Þótt Ármóður hafi varla meint það, sem hann sagði við Egil forðum, „at honum þætti þat illa, er hann hafði eigi mungát at gefa þeim“, þá liggur í orðalaginu, að hér væri um góðgæti að ræða.



« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þórbergur Torfason

Dýrt kveðið hjá Einari Ben.

"Mungát" er merkilegt orð í íslenskri tungu.

Þórbergur Torfason, 14.2.2009 kl. 23:02

2 Smámynd: Þórbergur Torfason

Fór annars að leika mér að gúgla orðið mungát. Það endar alltaf á einhverju fljótandi góðgæti.

Þórbergur Torfason, 14.2.2009 kl. 23:13

3 Smámynd: Jón Halldór Guðmundsson

Merkilegt orð mungát, og fallegt, finnst mér.

Jón Halldór Guðmundsson, 16.2.2009 kl. 17:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sigurpáll Ingibergsson

Höfundur

Sigurpáll Ingibergsson
Sigurpáll Ingibergsson
Hornfirðingur búsettur í Kópavogi. Árgerð 1965.
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • IMG 4410
  • IMG 4385
  • IMG 4421
  • Á afskekktum stað
  • Tíminn051071

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 5
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 59
  • Frá upphafi: 233597

Annað

  • Innlit í dag: 5
  • Innlit sl. viku: 50
  • Gestir í dag: 5
  • IP-tölur í dag: 5

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband