Á sjóstöng með Húna II

Húni II er sögufrægt skip. Sérstaklega er það frægt á Hornafirði. Það bar nöfnin Haukafell SF 111 og Sigurður Lárusson SF. Skipið er 132 tonna eikarbátur, smíðaður í  skipasmíðastöð KEA á Akureyri árið 1963. Iðnaðarsafnið á Akureyri hefur bátinn til umráða og Hollvinir Húna II sjá um reksturinn. Þeir bjóða upp á siglingar á Pollinum á Akureyri í sumar. Ég fór í kvöldsiglingu með krökkunum mínum, Særúnu og Ara síðasta sunnudagskvöld og áttum saman eftirminnilegt kvöld við að kanna lífríki sjávar og upplifa land og haf.

Lagt var í kvöldsiglinguna frá Torfunefsbryggju kl. 20.00 en bryggjan er staðsett í hjarta Akureyrar. Siglt var inn fjörðinn og síðan beygt á bakborða og haldið út Eyjafjörðinn. Það var smávægileg gjóla og skýjað. Þegar komið var nálægt Svalbarðseyri var kúplað frá og fólki boðið að veiða á sjóstöng. Það var mikill spenningur, sérstaklega hjá ungu kynslóðinni og hjálplegir skipverjar aðstoðuðu fúslega landkröbbana.  Sex sjóstangir voru á síðunni bakborðsmeginn. Eftir að allar sökkur voru komnar í botn, hófst veiðin. Stangirnar voru togaðar upp og sigu niður til skiptis. Loks kom fyrsti fiskurinn, það var lítil ýsa. Fylgdi fyrsta fisknum sú kvöð að kyssa þurfti skipstjórann. Kannaðist enginn við að hafa veitt ýsuna!

Ýsan var verkuð og flökuð. Fannst ungviðinu merkilegt að sjá hjartað slá löngu eftir að það var fjarlægt úr fiskinum og lá einmanna á aðgerðarborðinu. Síðan var maginn skoðaður og kom í ljós að hann var tómur, þess vegna beit hún á hjá okkur. Loks fengu krakkarnir að henda lifrinni og innyflum í hafið og fylgdust þau með er fýllinn barðist um fenginn.

Særún var við veiðar og skyndilega flæktist færi hennar við færi næsta veiðimanns. Þau drógu bæði upp og eftir smá stund birtist vænn ufsi. Hann hafði greinilega farið í ferð með öngulinn í munninum. Særúnu leist ekkert á aflann og forðaði sér og tóku áhafnarmeðlimir við að landa aflanum og greiða úr flækjunni. Þá var komin upp skemmtileg staða um borð, það var slegið upp grillveislu.

Ufsinn var flakaður og flökin krydduð og sett á grillið. Við héldum áfram að veiða. Ég fékk eina stöng og eftir nokkur húkk, fann ég að eitthvað hafði breyst. Ég dróg inn 15 faðma línuna og á króknum var agnarsmá lýsa. Við skiluðum henni aftur í hendur Ægis. Skömmu síðar kallaði skipstjórinn að veiðum væri lokið, draga ætti inn allar línurnar. Hófst þá ufsaveislan mikla. Bragðaðist fiskrétturinn mjög vel og var ufsin mun betri en ég átti von á, einnig liturinn, en hann var ljós og leit fiskurinn vel út. 

Mikil umræða hefur verið um sjóstangarveiði á Vestfjörðum en ferðaþjónustuaðilar þar hafa funið nýja gullæð. Hins vegar er úrkynjað kvótakerfi Þrándur í götu.  En vorum við að brjóta landslög?

 Ufsagrillveisla í hvalaskoðunarskipinu Húna II. Brúin glæsileg á skipinu.

„Samkvæmt 6. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, er heimilt án sérstaks leyfis að stunda í tómstundum fiskveiðar með handfærum án sjálfvirknibúnaðar. Afla, sem fæst við slíkar veiðar, er einungis heimilt að hafa til eigin neyslu og er óheimilt að selja hann eða fénýta á annan hátt.“

Nei,við veiddum og átum! Því brutum við ekkert af okkur.

Á heimstíminu út af Oddeyrartanga sáum við tvo kayaka. Það skrítna var að aðeins einn haus sást. Er við komum nær, sáum við að maður var á floti við hlið kayaksins. Hann komst ekki um borð. Áhöfnin á Húna II sigldi að ræðurunum og setti út stiga á stjórnborðssíðuna og syndi ræðarinn að honum og komst án vandræða um borð. Við höfðum bjargað manni úr greipum Ægis. Eflaust hefði hann getað komist að landi og klifrað upp sjóvarnargarð en um hundrað metrar voru að landi. En hann var alla vegana í öruggum höndum hjá frábærum skipverjum á Húna II.

Kayak

Búið að bjarga öðrum ræðaranum í Húna II. Hann komst ekki aftur um borð eftir að hafa hvolft kayaknum vegna öldugangs. Var hann orðinn nokkuð kaldur en varð ekki meint af.

Síðar um kvöldið var farið út Vaðlaheiði og horft á flugeldasýningu er hátíðinni Ein með öllu var slitið og hlustað á Árna Johnsen og þrettán þúsund þjóðhátíðargesti í Vestmannaeyjum syngja brekkusöng í útvarpinu. Þetta var eftirminnilegt kvöld.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sigurpáll Ingibergsson

Höfundur

Sigurpáll Ingibergsson
Sigurpáll Ingibergsson
Hornfirðingur búsettur í Kópavogi. Árgerð 1965.
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • IMG 4410
  • IMG 4385
  • IMG 4421
  • Á afskekktum stað
  • Tíminn051071

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 5
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 59
  • Frá upphafi: 233597

Annað

  • Innlit í dag: 5
  • Innlit sl. viku: 50
  • Gestir í dag: 5
  • IP-tölur í dag: 5

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband