15.8.2012 | 22:05
Klakkur í Langjökli (999 m)
Við vörum klökk yfir náttúrufegurðinni á toppi Klakks í Langjökli. Klakkur er einstakt jökulsker sem skerst inn Hagafellsjökul vestari í Langjökli. Opinber hæð Klakks er einnig áhugaverð, 999 metrar og þegar göngumaður tyllir sér á toppinn, þá gægist Klakkur yfir kílómetrann. Svona er máttur talnanna.
En til að skemma stemminguna, þá sýna GPS-tæki að Klakkur eigi nokkra metra inni. Klakkur með lágvöruhæðartöluna.
Lagt var í ferðina frá línuveginum norðan við Þórólfsfelli, stutt frá grænu sæluhúsi og tröllslegri Sultartungnalínu sem liggur fyrir norðan fellið niður í Hvalfjörð. Stefnan var tekin beint á Klakk, gengið austan við Langavatn og fylgja jökulánni og ef menn væru vel stemmdir fara hringferð og heimsækja Skersli. Af því varð ekki.
Í bókinni Íslensk fjöll, Gönguleiðir á 151 tind eftir Ara Trausta Guðmundsson og Pétur Þorleifsson er annarri leið lýst en þá er lagt í gönguna frá Tjaldafelli, meðfram Lambahlíðum og Langafelli og upp grágrýtisdyngjuna Skersli og kíkt í gíginn Fjallauga. Þessi ganga er mun lengri.
Mynd af korti við Þjónustumiðstöðina á Þingvöllum. Rauða línan sýnir göngu frá Þórólfsfeli en hin frá Tjaldafelli hjá Sköflungi en hann er líkur nafna sínum á Hengilssvæðinu.
Þó Klakkur sé kominn í bókina vinsælu, Íslensk fjöll, þá er hann fáfarinn og ef við rákumst á fótspor á fjöllum, þá voru þau gömul, sennilega frá síðasta sumri. En þrátt fyrir að gangan sé löng þá er hún þess virði. Farastjórinn Grétar W. Guðbergsson fór fyrir sex árum sömu leið og höfðu orðið nokkrar breytingar. Í minningunni var nýja jökulskerið ekki minnisstætt, meira gengið á jökli eða fönn og svo voru komin jökulker í miðlínuna sem liggur frá Klakki. Svæðið er því í sífelldri mótun.
Ferðin sóttist vel í ísnúnu hrauninu en eftir fjögurra tíma göngu var komið að rótum jökulskersins. Þá var göngulandið orðið laust undir fót. Helsta tilbreytingin á leiðinni var nýlegt nafnlaust jökulsker sem er sífellt að stækka vegna rýrnunar jökulsins. Langafell er áberandi til vesturs og eru margir áhugaverðir gígar í því. Hið tignarlega Hlöðufell og Þórólfsfell minnkuðu sífellt er lengra dró. Minnti ganga þessi mig mjög á ferð á Eiríksjökul fyrir nokkrum árum.
Hápunktur ferðarinnar var gangan á jökli. Hann var dökkur jökulsporðurinn en lýstist er ofar dró. Mikil bráðnun var á yfirborði jökulsins og vatnstaumar runnu niður jökulinn. Sandstrýtur sáust með reglulegu millibili neðarlega á jöklinum og nokkrir svelgir höfðu myndast í leysingunni en þeir geta orðið djúpir.
Þegar komið er upp á jökulinn er haldið upp á Klakk og eru göngumenn komnir í 840 metra hæð. Gangan upp fjallið er erfið, mikið laust grjót og hætta á grjóthruni. Jökullinn hefur fóðrað skerið með nýjum steinum. Þegar ofar er komið sér í móberg og er þá fast fyrir.
Komust við svo klakklaust upp á topp Klakks.
Mynd af nágrenni Klakks í Hagafellsjökli vestari í Langjökli. Tekin árið 2009.
Útsýni af Klakki er sérstakt. Langjökull með skrautlegt munstur tekur stærsta hluta sjóndeildarhringsins. Í norðvestri sér í Geitlandsjökul síðan Þórisjökull en milli þeirra liggur hið fræga huldupláss Þórisdalur og yfir honum sér í Okið. Ísalón er áberandi og Hryggjavatn í Þórisdal.
Í austri má sjá Hagafell, langan fjallsrana sem teygir sig langt upp í jökulinn frá Hagavatni. Yfir það sést aðeins á Bláfell og Jarlhettur. Tröllhetta (Stóra-Jarlhetta), ein af Jarlhettunum er glæsileg þegar hún stingur upp hausnum yfir Hagafell og Hagafellsjökul vestari, glæsileg sjón. Nokkuð mistur var og sáust sum illa og ekki minnisstæð en Kálfstindur og Högnhöfði en nær félagarnir Þórólfsfell og Hlöðufell í suðri. Langavatn og Langafell eru í ríki Skerslis og þá er komið að Skriðu, Skjaldbreið og Botnssúlur. Þar til hægri sá í Stóra-Björnsfell.
Betur af stað farið en heima setið á Frídegi verslunarmanna og fullur af endorfíni eftir kynni af jökli og jökulskerjum í ferðalok.
Dagsetning: 6. ágúst 2012 Frídagur verslunarmannaHæð Klakks: 999 m (722 m rætur jökulskers, 277 m hækkun)
GPS hnit Klakks: (N:64.34.040 - W:20.29.649)
Lægsta gönguhæð: 469 m, lægð á miðri leið
Hæð í göngubyrjun: 506 metrar við Þórólfsfell, rafmagnsstaur #163 , (N:64.27.531 - W:20.30.487)
Hækkun: 493 metrar
Uppgöngutími: 330 mín (11:10 - 16:40) 14,4 km
Heildargöngutími: 600 mínútur (11:10 - 21:10)
Erfiðleikastig: 3 skór
Vegalengd: 27 km
Veður kl. 12 Þingvellir: Skýjað, S 1 m/s, 15,8 °C. Raki 57%
Veður kl. 15 Þingvellir: Léttskýjað, NA 4 m/s, 16,0 °C. Raki 56%
Þátttakendur: Útivist, 17 þátttakendur
GSM samband: Já, á toppi en dauðir punktar á leiðinni
Klakkar: (5) Við Grundarfjörð, á Vestfjörðum, í Kerlingarfjöllum og í Hofsjökli.
Gönguleiðalýsing: Langdrægt jökulsker í einstöku umhverfi. Löng eyðimerkugarganga í ísnúnu hrauni á jafnsléttu og sérstakakt útsýni í verðlaun.
Klakkur með jökul á vinstri hönd og til hægri jökulgarð, raunar leifar af miðrönd sem lá frá Klakki meðan hann var jökulsker. Slíkir garðar eru jafnan með ískjarna og eru kallaðir "ice cored moraine" á ensku.
Heimildir:
Oddur Sigurðsson, tölvupóstur.
Íslensk fjöll, Ari Trausti Guðmundsson, Pétur Þorleifsson
Meginflokkur: Ferðalög | Aukaflokkar: Lífstíll, Umhverfismál, Vísindi og fræði | Facebook
Um bloggið
Sigurpáll Ingibergsson
Færsluflokkar
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Enski boltinn
- Evrópumál
- Ferðalög
- Fjármál
- Fjölmiðlar
- Heilbrigðismál
- Heimspeki
- Íþróttir
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Lífstíll
- Ljóð
- Löggæsla
- Mannréttindi
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Pepsi-deildin
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Sveitarstjórnarkosningar
- Tónlist
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 5
- Sl. sólarhring: 6
- Sl. viku: 59
- Frá upphafi: 233597
Annað
- Innlit í dag: 5
- Innlit sl. viku: 50
- Gestir í dag: 5
- IP-tölur í dag: 5
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.