Ingólfsfjall (551 m)

Oft hefur maður keyrt undir Ingólfsfjalli og nú var kominn tími á að koma því í fjallasafnið.

Ingólfsfjall er móbegsfjall í Ölfusi og hefur áður fyrr gengið sem múli fram í hafið, en þá hefur undirlendið allt verið undir sjó. Það er bratt á þrjá vegu, í vestur, austur og suður.  Við ákváðum að fara vinsælustu leiðina, frá suðri.

Gengið upp frá Þórustaðanámu en meðfram bratta veginum sem liggur upp á fjallið.
Þegar komið er upp á brún tekur á móti göngufólki varða með gestabók frá Ferðafélagi Árnesinga. Höfðu margir kvittað fyrir sig um daginn og er ganga að brún Ingólfsfjall eflaust vinsæl heilsurækt hjá íbúum á Suðurlandi.

Eftir skriftir var stefnan tekin norður á Stórhæð en þar eru Gráhóll (492 m) og Digrihóll. En einnig er mögulegt að taka hringleið eftir brúnum fjallsins.

Þegar upp á hæðina er komið sér yfir á Inghól, sem er gígtappi en sagan segir að fyrsti landnmámsmaðurinn, Ingólfur Arnarsson sé heygður þar og einn sumardag opnist hóllinn og sjá menn þá allt það sem honum fylgdi í andlátið.

Ekki opnaðist hóllinn þetta ágústkvöld.

Eftir nokkra göngu á mosagrónum melum komum við að rafmagnsgirðingu á fjallinu en hún tengist landamerkjum Ölfusar og Árborgar. Einnig Alviðru, bæ austan við Ingólfsfjall sem hýsir umhverfis- og fræðslusetur Landverndar.

Það var merkilegt að ganga inn um hlið á toppi Ingólfsfjalls.

Gönguferð á Ingólfsfjallið minnir á gönguferð á nokkra íslenska jökla, það er víðáttumikið og flatvaxið og tekur fjallið til sín útsýni en ef gengið er með brúnum þá er útsýni allgott. Það er mun meira landslag í Ingólfsfjalli en maður gerir sér grein fyrir þegar ferðast er í bíl undir fjallinu. 

Í austri sást móta fyrir dökkum Eyjafjallajökli og Þríhyrningi. Vestmannaeyjar eru glæsilegar í hafi í suðaustri. Hellisheiði í vestri skemmtileg í rökkrinu. Skálafellið og þorpin, Hveragerði, Þorlákshöfn, Eyrarbakki og Stokkseyri eru góðir nágrannar.

Dagsetning: 16. ágúst 2011
Hæð hæðarpunkts og vörðu: 551 metrar
Hæð í göngubyrjun:  Um 50 metrar við Þórustaðanámu
Hækkun: Um 500 metrar         
Uppgöngutími varða m/gestabók:   50 mín (19:40 - 20:30)

Uppgöngutími Inghóll: 110 mín (19.40 - 21:30) 
Heildargöngutími: 180 mínútur  (19:40 - 22:40)
Erfiðleikastig: 2 skór
Vegalengd (hringurinn):  um 8 km
Veður kl. 21 Lyngdalsheiði: Léttskýjað, NA 5 m/s, 11,0 gráður. Raki 60%, veghiti 15,3 °C
Þátttakendur: Fjölskylduferð, 4 göngumenn
Gönguleiðalýsing: Drjúglöng en létt ganga á sögufrægt fjall

Malarnám

Sárið í Þórustaðanámu í Ingólfsfjalli æpir á mann. En hann er brattur vegurinn og ekki fyrir hvern sem er að aka hann. Námumenn hljóta að hafa góðan bónus fyrir ferðirnar, sérstaklega er niðurleiðin brött og hrikaleg fyrir tæki.

Gestabók á Ingólfsfjalli

Kvittað fyrir komu á Ingólfsfjal. Það sér til Vestmanneyja í suðaustri.

Inghóll girðing

Nýleg rafmagnsgirðing er á fjallinu og er einfaldast fyrir göngumenn að fylgja henni. Við Inghól er hlið. Það er mjög merkileg upplifun að opna og loka hliði á fjallstoppi.

InghóllGígtappinn Inghóll úr grágrýti. Hann var viðmið sjófarenda. Ölfursárósar og Þorlákshöfn eru á vinstri hönd.

Heimildir:
Íslensk fjöll, Gönguleiðir á 151 tind

Ferlir.is - http://www.ferlir.is/?id=3954
 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sigurpáll Ingibergsson

Höfundur

Sigurpáll Ingibergsson
Sigurpáll Ingibergsson
Hornfirðingur búsettur í Kópavogi. Árgerð 1965.
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • IMG 4410
  • IMG 4385
  • IMG 4421
  • Á afskekktum stað
  • Tíminn051071

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 3
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 57
  • Frá upphafi: 233595

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 48
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband