Kerhólakambur (851 m)

Þær eru margar gönguleiðirnar á borgarfjallið Esjuna. Fyrir 8 árum var gefið út gönguleiðakort með 40 gönguleiðum á Esjuna.  Þekktasta  og fjölfarnasta gönguleið landsins liggur á Þverfellshorn en önnur vinsæl gönguleið er Kerhólakambur. Nú var ákveðið að kíkja á kerin.

Ekið út af Þjóðveg við veðurathugunarmastur rétt áður en komið er að Esjubergi og lagt fyrir austan túnið. Síðan liggur leiðin eftir skýrum stíg inn í gilkjaft Gljúfurár og þaðan upp úr gilinu og svo beina stefnu upp bratta hlíð all á topp Kerhólakambs. Þessa leið fórum við ekki, heldur fylgdum við öðrum slóða og lentum í miklu klettaklifri sem minnti á topp Þverfellshorns.  Lagðist hún illa í suma göngumenn.

Í 300 metra hæð gengum við inn í þokubakka og sást lítið til allara átta eftir það en göngustígur sást greinilega enda hlíðin gróðursnauð. Þegar komið var i 400 metra hæð,  þá var meiri gróður og hvarf göngustígurinn göngufólki. Nær gróðurinn allt upp fyrir Nípuhól. Hóllinn er í rúmlega 500 metra hæð og tilvalinn áningarstaður.  Laugagnípa heita klettarnir fyrir vestan Nípuhól.

En hvernig er nafnið, Kerhólakambur tilkomið?  Sigurður Sigurðsson göngugarpur og ofurbloggari skrifar:  „Fyrir ofan Nípuhól heita Urðir og þar er brattinn ekki eins mikill. Í Ársriti Útivistar fyrir árið 1984 er að finna mjög góða grein um Esjuna eftir Einar Hauk Kristjánsson. Hann segir meðal annars að í Urðum séu þessi ker sem kamburinn er kenndur við, sem eru lægðir á milli hóla."

Kerin

Kerin og hólarnir  í Urðum  (660 m) 

Við höfðum þetta í huga á leiðinni upp og í 660 metra hæð komum við að staðnum sem lýsingin hér að ofan á við.  Var snjór í flestum kerjunum. Nokkrir snjóskaflar voru á leiðinni og gengum við upp einn langan sem hófst í 740 metrum og endaði í 800 metrum. Við áttum eftir að renna okkur niður hann á bakaleiðinni. Er hann samt væskinslegur séður frá borginni. Stór skafl er í vesturhlíð Kerhólakambs og munum við góna á hann í sumar rétt eins og Páll Bergþórsson veðurfræðingur.

Fín þokuferð sem verður endurtekin síðar og þá með hringleið og komið niður Þverfellshornið.  

Dagsetning: 14. maí 2011
Hæð: 851 metrar
Hæð í göngubyrjun:  56 metrar, tún austan við Esjuberg, (N:64.12.985 - W:21.45.800)
Hækkun: Tæpir 800 metrar         
Uppgöngutími:
  142 mín (09:08 - 11:30)  2,01 km
Heildargöngutími: 252 mínútur  (09:08 - 13:20)
Erfiðleikastig: 2 skór
GPS-hnit fyrri varða:  N:64.14.210 - W:21 .45.241
Vegalengd:  4,1 km
Veður kl. 9 Reykjavík: Bjart, V 3 m/s, 5,0 gráður. Raki 84%, skyggni 70 km.
Veður kl. 12 Reykjavík: Bjart, V 2 m/s, 5,8 gráður. Raki 81%, skyggni 70 km.
Þátttakendur: Skál(m), 5 manns  
GSM samband:
  Já – sérstaklega gott á toppi

Gönguleiðalýsing: Lagt af stað hjá Esjubergi, inn Gljúfurdal. Þar er mesti brattinn tekinn, erfiðasti áfanginn, í 200 metra hæð. Nota þarf hendur til stuðnings. Eftir það er jöfn gönguhækkun og tvö gil á báðar hendur sem beina göngunni á topp Kerhólakambs.  Skriðuganga með tröðum.

Heimildir:

Sigurður Sigurðarson,  sigurdursig, Kerhólakambur
Morgunblaðið, frétt, Nýtt kort af Esju með 40 gönguleiðum


Nautagil

Geimfarar NASA sem komu til Íslands til æfinga fyrir fyrstu mönnuðu tunglferðina 1969 og Nautagil hafa verið í umræðunni síðustu daga. Sýning um heimsókn geimfarana er haldin á Húsavík og Hillary Clinton utanríkisráðherra Bandaríkjanna bað að heilsa Húsvíkingum af því tilefni eftir fund með Össuri Skarphéðinssyni kollega sínum.

Ég heimsótti Nautagil árið 2006 og varð mjög hrifinn. Læt frásögn sem ég skrifaði stuttu eftir ferðalag í Dyngjufjöll fylgja hér á efir.

Nautagil

“Þarna sjáið þið Herðubreiðartögl, Herðubreið, Kollóttadyngju, Eggert og Herðubreiðarfjöll. Fleiri örnefni eru ekki hér”. Sagði Jakob leiðsögumaður í hljóðnemann og kímdi.  Minnugur þessara orða á leiðinni í Lindir fyrr í ferðinni, búinn að skilja nytjahyggju og af hverju örnefnafátæktin stafaði. Bændur höfðu ekkert á miðhálendið að gera og slepptu því að gefa  enn einu Lambafellinu, Svínafellinu og Hrútafjallinu nafn. Þá kom upp spurningin, “Hvað voru naut að þvælast hér?”.

Svarið kom á leiðinni í Nautagil. Geimfarar NASA sem unnu að Appolo geimferðaáætluninni komu tvisvar til Íslands til æfinga fyrir fyrstu tunglferðina en þeir töldu aðstæður í Öskju líkjast mjög aðstæðum á tunglinu. Þeir komu fyrst í Öskju árið 1965 og tveim árum síðar með minni hóp.  Kíkjum á frásögn Óla Tynes í  Morgunblaðinu  4. júlí 1967.

"Frá skálanum [Þorsteinsskála] var haldið inn að Öskju og fyrst farið í eitthvert nafnlaust gil sunnan megin við Drekagilið og þar héldu þeir Sigurður Þórarinsson og Guðmundur Sigvaldson jarðfræðifyrirlestur, sem fór fyrir ofan garð og neðan hjá fréttamönnum. Geimfararnir hinsvegar voru fullir af áhuga og hjuggu steina lausa úr berginu til nánari rannsókna. "

Hér er átt við Nautagil og er nafngiftin komin frá jarðfræðihúmoristunum Sigurði og Guðmundi. Geimfari er astroNAUT á ensku og framhaldið er augljóst.

Nafngiftin er ekkert nema gargandi snilld. Eftir að hafa heyrt sögu þessa jókst virðing mín mikið fyrir Nautagili mikið en ég hef haft mikinn áhuga á geimferðakapphlaupinu á Kaldastríðsárunum. 

Nautagil átti eftir að heilla enn meira. Hvert sem litið var, mátti sjá eitthvert nýtt jarðfræðilegt fyrirbrigði. Fyrst var boðið upp á innskot, bólstraberg og sandstein, síðan móbergsveislu. Mikilfenglegur móbergsveggur sem sorfinn var í toppinn og stóðu kollar uppúr sem minnti á tanngarð eða höggmyndir í Rushmore-fjalli af forsetum Bandaríkjanna. Maður lét hugann reika, þarna er George Washington, síðan Thomas Jefferson, Theodore Roosvelt og Abraham Lincoln. Þarna er vindill, það hlýtur að vera Clinton, en hvar er Bush?  Svo kom pælingin, hvar eru styttur af forsetum Íslands? Svar: Hvergi, bara til styttur af athafnaskáldum.

Fleira bar við augu. Lítill lækur spratt undan hrauninu og dökk hraunspýja sem talið er minnsta hraun á Íslandi var næst.  Rósin í hnappagatinu var svo vel falin bergrós ofarlega í mynni gilsins.  Þetta var óvænt ánægja og Nautagil kom mér mest á óvart í meðferðinni.  Það var augljóst að fáir hafa komið í gilið í sumar en með öflugri markaðssetningu væri hægt að dæla fólki í Nautagil. Lækur rennur fyrir framan gilið vel skreyttur breiðum af eyrarrós og hægt væri að hafa speisaða brú yfir hann.  Nota geimfarana  og NASA-þema sem umgjörð og hafa eftirlíkingu af Appolo 11 í gilinu. Þá væri hægt að bjóða upp á tunglferðir til Öskju!

Næst var haldið inn í Drekagil. Það býður upp á ýmsar glæsilegar bergmyndanir en féll alveg í skuggann af Nautagili. Innst inn í Drekagili er flottur slæðufoss og fyrir ofan hann er skemmtilegar myndanir, hestur og ljón sem gæta hans. 


mbl.is Geimfarar í Þingeyjarsýslum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 21. maí 2011

Um bloggið

Sigurpáll Ingibergsson

Höfundur

Sigurpáll Ingibergsson
Sigurpáll Ingibergsson
Hornfirðingur búsettur í Kópavogi. Árgerð 1965.
Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • IMG 4410
  • IMG 4385
  • IMG 4421
  • Á afskekktum stað
  • Tíminn051071

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (9.7.): 10
  • Sl. sólarhring: 11
  • Sl. viku: 301
  • Frá upphafi: 236827

Annað

  • Innlit í dag: 10
  • Innlit sl. viku: 248
  • Gestir í dag: 9
  • IP-tölur í dag: 9

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband