Færsluflokkur: Menning og listir

Kolufoss í Víðidal

Fólki liggur svo á í dag. En ef fólk slakar á leið norður eða suður, á milli Blönduós og Hvammstanga, þá er tilvalið að heimsækja Kolufoss í Víðidal. Mjög áhugavert gljúfur Kolugljúfur hýsir fossinn. Glæsilegur foss með sex fossálum sést vel af brú yfir ána. Gljúfrin eru 6 km frá þjóðveginum. Tröllskessan Kola gróf gljúfrið sem skóp fossinn í Víðidalsá.

Í gljúfrum þessum er sagt að búið hafi í fyrndinni kona ein stórvaxin er Kola hét og sem gljúfrin eru kennd við. Á vesturbakka gljúfranna er graslaut ein sem enn í dag er kölluð Kolurúm, og er sagt að Kola hafi haldið þar til á nóttunni þegar hún vildi sofa. Að framanverðu við lautina eða gljúframegin eru tveir þunnir klettastöplar sem kallaðir eru Bríkur, og skarð í milli, en niður úr skarðinu er standberg ofan í Víðidalsá sem rennur eftir gljúfrunum.
Þegar Kola vildi fá sér árbita er sagt hún hafi seilst niður úr skarðinu ofan í ána eftir laxi.

Kolufoss

Kolufoss í Víðidalsá, og fellur í nokkrum þrepum.

Heimild

Mánudagsblaðið, 3 ágúst 1981


Af stöðumælum í náttúrunni

Hann Halldór, teiknari Fréttablaðsins kann að setja fréttir í sérstakt samhengi. Góður teiknari og húmoristi.  Hér er mynd sem birtist 24. febrúar um æðið í ferðaþjónustunni.

Halldór

En hér er mynd sem ég tók á Hlöðufelli og sýnir gjörning sem tók á móti okkur þreyttum göngumönnum er toppnum var náð.

Hlöðufell

Stöðumælir í 1.186 m hæð í víðerninu og ægifegurð. Kálfatindur og Högnhöfði á bakvið.

Sami húmor!


#Ófærð

Á sunnudagskvöld verður uppgjörið í #Ófærð. Tveir síðustu þættirnir sýndir í beit. Þetta verður gott sjónvarpskvöld.

Ég er með kenningu um skúrkinn.  Læt hana flakka svona rétt fyrir opnun. Einnig mögulegar fléttur.

Geirmundur er ekki dauður. Hann er skúrkurinn, hann kveikti elda. Líkið er af óheppnum Litháa. Niðurstöður DNA eiga eftir að leiða það í ljós. Einnig að blóðið á vélsöginni sé af hreindýri ekki líkinu sem Siggi hurðaskellir flutti á haf út.

Eiríkur sem Þorsteinn Gunnarsson leikur er arkitektinn á bakvið brunann í frystihúsinu, hann og Geirmundur tendruðu elda til að svíkja út tryggingabætur. Dóttir Eiríks var óvænt inni.

Hótelstjórinn, Guðni hefur tekjur af mannsali rétt eins og fatasaumarinn í Vík. Frystihúsastjórinn Leifur er óheppin að tengjast því sem og  Dvalinn, sá færeyski sem er ekki góður pappír.

Kolbrún kona Hrafns er arkitektinn á bakvið nýhafnarspillinguna ásamt fermingarsystkinum.

Trausti SAS-rannsóknarlögreglumaður á þátt í hvarfi Önnu í málinu sem Andri átti að hafa klúðrað.

Bárður hasshaus á eftir að áreita eldri stúlkuna.

Sigvaldi nýi kærastinn og Ásgeir lögga hafa of mikla fjarvistarsönnun að mínu mati. Ásgeir á eitt lekamál á samviskunni en þarf ekki að segja af sér.

Friðrik alþingismaður, leikinn af Magga glæp, er bara spilltur alþingismaður.

Maggi litli gæti verið Hrafnsson.

Ég trúi engu vondu upp á Steinunni Ólínu (Aldís) þó hún hafi haldið aðeins tekið hliðarspor með Hjálmari og hinn meinlausa Rögnvald sjóræningja.

Gaman að erlendar stöðvar taka spennuþáttaröðinni vel. Íslenskur vetur er alveg ný upplifun fyrir þá. Merkilegt að útlendingar skuli geta munað nöfnin, ég er enn að læra nöfn sögupersóna. Kuldinn selur. Snjallt hjá Baltasar og Sigurjóni Kjartanssyni og félögum að nota íslenskan vetur í krimma í anda Agötu Christie.

Það eru svo margir boltar á lofti. En í könnun á ruv.is eru 3% með Geirmund grunaðann.

Sé þetta allt kolvitlaust, þá er hér kominn hugmynd að fléttu í næstu þáttaröð af #Ófærð II

Guð blessi Ófærð.

Könnun RUV


Dómsdagsklukkan

Í dag ber að fagna. Nýr loftslagssamningur verður undirritaður í París sem byggir á trausti.

Ólafur Elíasson og grænlenski jarðfræðingurinn Minik Rosing settu upp listaverkið Ice Watch á Place du Panthéon. 12 grænlenskum ísjökum var komið fyrir á á Place du Panthéon og mynda vísa á „Dómsdagsklukku“. 

Það var áhrifaríkt að sjá ísklukkuna. Þarna var fólk af öllum aldri og öllum kynþáttum alls staðar úr heiminum. Margir hverjir að sjá ísjaka í fyrsta skipti og gaman að upplifa viðbrögð þeirra, ungra sem aldna. Þarna fræðir listin fólk á áþreifanlegan hátt og kemur vonandi hreyfingu á hlutina. En Hólárjökull og Dómsdagsklukkan eiga margt sameiginlegt, bæði að hverfa inn í tómið.

Ólafur Elíasson vonast til að listaverkið nái að brúa bilið milli gagna, vísindamanna, stjórnmálamana og þjóðhöfðingja og venjulegs fólks.

Við skulum grípa þetta einstaka tækifærir, við – heimurinn- getum og verðum að grípa til aðgerða nú. Við verðum að umbreyta þekkingu á loftslaginu í aðgerðir í þágu loftslagsins,“ segir Ólafur Elíasson. „Listin getur breytt skynjun okkar og heildarsýn á heiminum og Ice Watch er ætlað að gera loftslagsbreytingar áþreifanlegar. Ég vona að verkið geti orðið mönnum innblástur til að takast á hendur sameiginlegar skuldbindingar og grípa til loftslagsaðgerða.“

12068673_10207010540495021_5931083496929781539_o

80 tonnum af ísjökum frá Grænlandi og mynda þeir vísana á klukku


Chauvet hellarnir á Íslandi

Sá mjög áhugaverða heimildarmynd um Chauvet hellana í Suður-Frakklandi. Myndin var gerð af Werner Herzog árði 2010.  Hellirinn fannst árið 1994 af Jean-Marie Chauvet og tveim félögum og geymir ómetanlegar dýramyndir sem gerðar voru fyrir 32.000 árum.

ChauvethorsesÞað sem mér fannst áhugavert var að sjá hversu föstum tökum frönsk stjórnvöld hafa tekið á aðgengi að kalkhellinum. En hellarnir eru lokaðir allri umferð í verndunarskyni. Rammgerð hurð er fyrir hellisopinu og mjög strangar reglur um takmarkaða umgengni vísindamanna og tímalengd og tíðni heimsókna. Skófatnaður er sótthreinsaður og búið að gera palla á viðkvæmum stöðum.

Ég fór því að velta því fyrir mér hvernig íslensk stjórnvöld myndu taka á málum ef ég fyndi sambærilegan helli.

Það fyrsta sem núverandi stjórnvöld myndu gera er að stofna nefnd og væntanlega yrði Eyþór Arnalds fengin til að skálda hana. KOM myndi sjá um almannatengsl. Á meðan nefndin væri að störfum myndi vera athugða hvort Engeyingar gætu eignast hellinn eða landið sem hann væri í. Væntanlega myndi menntamálaráðherra fá verkefnið í sínar hendur og hann myndi strax athuga hvort Orka Energy myndi hafa hag af hellinum. 

Ragnheiður Elín atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra myndi fá aðgengismál og þá yrði pælt í náttúrupassa, hvort það myndi virka eða ekki. Á meðan gætu ferða menn gengið um hann að vild.  Notað hellinn sem salerni og gert þarfir sínar þar. Ekki væri splæst í kamar fyrir utan. 

Andri Snær og Björk væru fyrir utan með vikulega blaðamannafundi og segðu þjóðinni og heiminum hversu merkilegt þetta væri og takmarka þyrfti aðgengi. Gætum hellana fyrir komandi kynslóðir.

Loksins þegar Engeyingar væru búnir að eignast hellinn og náttúrupassi kominn, þá myndi koma í ljós að mygla frá andadrætti manna hefði fært ómetanleg listaverk forfeðra okkar í kaf. Svona erum við langt á eftir.  Ósjálfbær stjórnsýsla og spillt.  32 þúsund ára saga hyrfi á altari frjálshyggjunar.

Það var heppilegt að hellarnir fundust á Frakklandi en ekki Íslandi.


Everest ****

Fyrir nokkrum árum fór ég á bókamarkað í Perlunni. Um tíuþúsund titlar voru í boð en aðeins ein bók náði að heilla mig en það var bókin Á fjalli lífs og dauða (Into Thin Air) eftir Jon Krakauer.  Kostaði hún aðeins 500 kall. Voru það góð kaup.

a_fjalli_lifs_og_daudaÉg var stórhrifinn af bókinni og vakti hún margar spurningar um háfjallamennsku. Krakauer veltir upp mörgum steinum og sér litla dýrð í háfjallaklifri nútímans. En margir fjallgöngumenn hafa ekkert þangað að gera. Það er ávísun á slys. Einnig upplifði ég bókina betur því íslensku fjallamennirnir þrír sem náðu toppi Everest í maí 1997 fléttuðu sögusvið myndarinnar inn í söguna. 

Auk þess hafa fjallamennirnir Peter Habeler, Ed Viesturs og David Breashears komið hingað til lands á vegum FÍFL og haldið góða fyrirlestra.

Því var ég spenntur fyrir stórmyndinni í þrívídd, Everest sem stjórnað er að Baltasar Kormák.

EverestMargar áhugaverðar persónur og góðar persónulýsingar í bókinni sem er vel skrifuð. Skyldi myndin ná að  skila því?

Stórmyndin er sögð frá sjónarhorni Rob Hall (Jason Clarke) en hann sýndi mikið ofdramb, hafði komið mörgum óþjálfuðum ferðamönnum á toppinn. Aðrar áhugaverðar persónur eru: Bréfberinn Doug Hansen (John Hawkes) sem var að fara í annað sinn og besti klifrarinn. Beck Weathers, (Josh Brolin) sem er óhóflega kumpánalegur meinafræðingur frá Dallas í Texas. Rússneski leiðsögumaðurinn Anatoli Boukreev, leikinn af Ingvari Sigurðssyni. Hann þurft ekkert súrefni. Scott Fisher (Jake Gyllendal) hinum leiðangursstjóranum sem er lýst sem kærulausum og veikum leiðsögumanni. Kona Halls,Jan Arnold (Keira Knightley) kemur inn á mikilvægu augnabliki en myndin er ekki bara fjallamynd, heldur um samskipti fólks. Hafa eflaust margir fellt tár þegar síðasta samtal þeirra hjóna fór fram. Sögumaðurinn í bókinni Krakauer (Michael Kelly) kemur lítið við sögu, er áhorfandi.

Mér fannst meistaralega vel gert hvernig Baltasar notar Krakauer í myndinni en hann varpar fram spurningunni: "Til hvers ertu að fara á toppinn", og leiðangursmenn svara af hreinskylni. Áhrifaríkast er svar bréfberans Doug en hann vildi vera fyrirmynd skólakrakkanna í Sunrise-grunnskólanum, dreyma stóra og litla drauma og þunglyndið hjá Beck.

Sjerparnir fá litla athygli í myndinni en vega þyngra í bókinni. Enda markaður fyrir myndina Vesturlandabúar.

Eflaust á myndin eftir að fá tilnefningar fyrir grafík og tæknibrellur en ég sat framarlega og naut myndin sín ekki á köflum í gegnum gleraugun. Mér fannst sumt mega gera betur. 

Í 8000 metra hæð hafa menn ekki efni á að sýna samúð. Það kom í ljós í myndinni. Hver þarf að sjá um sjálfan sig því fjallið, vonda aflið í sögunni á alltaf síðasta orðið.

Ekki er farið djúpt ofan í orsök slyssins en Krakauer kafaði djúpt í bókinni. Göngumenn áttu að snúa kl. 14.00 en virtu það ekki. Fyrir vikið lágu 8 manns í valnum eftir storm. Hefðu menn virt reglur, þá hefði þessi saga ekki verið sögð.

Balti þekkir storma, rétt eins og í Djúpinu þá var stúdíóið yfirgefið og haldið út í storminn. Það gefur myndinni trúverðugleika.

Hljóð og tónlist spilar vel inní en það þarf að horfa aftur á myndina til að stúdera hana. Þrívíddarbrellur koma nokkrum sinnum vel út og gera menn lofthrædda. Gott atriði þegar klaki fór út í sal í einu snjóflóðinu. Margir gestir viku sér undan klakastykkinu.

Ágætis stórslysamynd sem sendir mann um stund til Himalaya og næsta skref er að lesa bók ofurmennisins Boukreev, The Climb.

#everestmovie


Hrossaborg (441 m)

Hrossaborg (441 m)á Mývatnsöræfum er annar tveggja þekktra, samkynja gjóskugíga á Norðausturlandi. Hinn er Hverfjall (Hverfell) í Mývatnssveit. Báðir eru myndaðir í tengslum við þeytigos í vatni eða við miklar grunnvatnsbirgðir. Hrossaborg er eldri, u.þ.b. 10.000 ára, en Hverfjall 2500 ára.

Veðrun hefur sorfið úr Hrossaborg og er hún því ekki eins vel formuð og Hverfjall.

Mývetningar beittu hrossum sínum gjarnan á þessu svæði og notuðu gíginn sem aðhald fyrir þau á meðan leitum var haldið áfram. Að þeim loknum var allt stóðið rekið niður í Mývatnssveit. Vegur liggur alla leið inn í gíginn, sem lítur út eins og stórt hringleikahús, þegar inn er komið. Leiðin inn í Herðubreiðarlindir (#F88) liggur steinsnar austan Hrossaborgar.

Til eru tvær aðrar Hrossaborgir, á Skarðsströnd.

Hrossaborg

Séð niður í Hrossaborg. Rúta SBA-Norðurleið sést til hægri.Fylgt er slóða upp á gígbarminn. Þaðan er mikið útsýni yfir Mývatnsöræfi.

Dagsetning: 17. júlí 2015
Hæð vörðu: 441 m
GPS-hnit vörðu: (N:65.36.820 – W:16.15.731)
Hæð rútu: 380 m (N:65.36.924 – W:16.15.488)
Hækkun: 60 m
Erfiðleikastig: 2 skór
Þátttakendur: Ferðafélag Íslands, 20 manns

 

Heimildir
Ódáðahraun, Ólafur Jónsson
nat.is - Hrossaborgir


Maríuhöfn - Búðasandur

Þegar keyrt er inn langan Hvalfjörðinn gengur nes út í fjörðinn. Nefnist það Hálsnes í Kjósinni. Á nesinu er merkur staður Maríuhöfn á Búðasandi.  Gengin var hringur í eftir Búðasandi og fjörunni en þar eru fallegir steinar og mikið fuglalíf.

Maríuhöfn mun hafa verið mesti kaupstaður landsins á miðöldum, fram á 15. öld. Rústir staðarins eru ofan við Búðasand og er Maríuhöfn við suðausturenda sandsins. Skip sem þangað komu voru dregin inn á poll inn af sandinum. Þarna er talið að haffær skip hafi verið smíðuð á landnámsöld, enda viður tiltækur. Árið 1402 kom skip (Hvala-) Einars Herjólfssonar í Maríuhöfn og flutti með sér svartadauða.

Maríuhöfn

Staðsetning náttúrulegrar Maríuhafnar var ákjósanleg til að koma vörum beint á markað á Þingvöllum.

Við norðanverðan Búðasand sáust tóftir Hálsbúða greinilega. Þær hafa legið nokkuð þétt saman í einni samfellu. Byggður hefur verið sumarbústaður í nyrsta hluta tóftanna og trjám plantað utan og ofan í þær. Búðirnar virðast hafa verið margar, en erfitt er að greina fjölda þeirra af nákvæmni. Veggir standa víða grónir og dyr hafa gjarnan vísað að hafi. 

Hálsbúðir

Sunnarlega í röðinni hefur farið fram fornleifauppgröftur. Er hann dæmigerður fyrir slíka framkvæmd hér á landi; allt skilið eftir ófrágengið og öðrum einskis nýt. Auðvitað á ekki að leifa fornleifauppgröft nema gera ráð fyrir frágangi svæðisins að honum loknum, þ.e. með viðhlítandi minjaskiljum, merkingum og upplýsingaskiltum. Sumir segja, grafendum til vorkunnar, að uppgröfturinn hafi verið stöðvaður í miðjum klíðum af ótta við þarna kynnu að hafa verið grafin lík frá tímum svartadauða.

Stóriðjuver góndu á okkur allan tíman og það var táknrænt að sjá merki samtakanna Sólar í Hvalfirði þegar komið var upp úr fjörunni í hringferðinni.

Dagsetning: 15. apríl 2015
Hæð göngu: Lægst: 0 m, fjaran og hæst: 20 m.
GPS hnit - Google: (N:64.345221 – W:21.666158)
Heildargöngutími: 120 mínútur (18:50 - 20:50)
Erfiðleikastig: 1 skór
Vegalengd: 5.5 km
Skref: 7.250
Orka: 400 kkal.
Veður kl. 20: Skýjað, 2 m/s, 6,0 °C, suð-suð-austan, raki 75%,skyggni 50 km.
Þátttakendur: Útivistarræktin, 14 manns.
GSM samband:  Gott 4G samband.

Gönguleiðalýsing: Gengið frá Hálsabúðum eftir Búðasandi að Maríuhöfn og eftir léttri fjörunni framhjá Hlein og komið upp hjá Stömpum.

Heimildir
Ferlir: Maríuhöfn-Búðasandur-Steðji
Kjósin: Maríuhöfn
Wikipedia: Maríuhöfn


75 frá hernámi Noregs

Nú eru liðin 75 ár síðan Þjóðverjar hernámu Noreg og Danmörku í heimsstyrjöldinni síðari.

Mér var hugsað til 10. apríl fyrir 75 árum er ég var í skoðunarferð á smáeyju sem hýsir virkið Oscarsborg í Oslóarfirði fyrir þrem árum. Eyjan er vel staðsett í miðjum firðinum gengt þorpi sem heitir Drøbak.

Mánuði fyrir hernám Íslands, þann 9. apríl  1940 var mikil orrusta á Drøbak-sundi, sú eina sem háð var við eyjuna meðan hún var útvörður.  Þjóðverjar höfðu áformað að hertaka Noreg með hernaðaráætluninni Operation Weserübung en hún byggðist á því að senda flota með fimm herskipum til landsins. Þegar Oslóarsveitin kom nálægt Oscarsborg, gaf hershöfðinginn Birger Eriksen skipun um að skjóta á þýsku skipin. Forystuskipið Blücher var skotið niður og tafðist hernámið um sólarhring. Kóngurinn, ríkisstjórnin og þingið með gjaldeyrisforðann gat nýtt þann tíma til að flýja höfuðborgina.

Árið 2003 yfirgáfu hermenn eyjuna og nú er hún almenningi til sýnis.  Mæli ég með skoðunarferð til eyjarinnar og tilvalið að sigla aðra leiðina frá Osló.

Safnið í virkinu var mjög vel hannað og stórfróðlegt að ganga um salina sem sýndu fallbyssur frá ýmsum tímum ýmis stríðstól. Fyrir utan virkið voru svo öflugar fallbyssur sem góndu út fjörðinn. Orrustunni við Nasista voru gerð góð skil.  En hún er mjög vel þekkt í Noregi.

Mikið var manni létt að þurfa ekki að upplifa það að vera kvaddur til herþjónustu og forréttindi að búa í herlausu landi.  Stríð eru svo heimskuleg.  Mér dettur strax í hug speki Lennons - "Make Love, not War".

En hernám Þjóðverja á Noregi setti af stað atburðarás sem gerði Íslendinga ríka.

Oscarsborg

Eyjurnar tvær með Oscarsborg virkið og fallbyssur á verði. Það sérmóta í rætur Håøya, hæstu eyjarinnar í Oslóarfirðinum.

 


Kakóið í páskaegginu

Æ, nú skemmir maður kannski páskastemminguna. En maður kemst ekki hjá því að rifja upp hvaðan súkkulaðið kemur sem er í páskaegginu og hvernig það var framleitt.

Sá grein í The Guardian um slæmar aðstæður kakóbænda á Fílabeinsströndinni og Ghana en 60% af kakóbaunum heimsins koma þaðan. Þar er mikið byggt á vinnu barna, 1,5 milljón barna vinna við að koma vörunni á markað, annað orð yfir þessa vinnu er barnaþrælkun.

Dæmigerður kakóbóndi fær aðeins 6,6% af verði afurðarinnar í sinn hlut og vinnuaðstæður eru slæmar.

Verst er að heyra að ef aðeins 1% af 86 milljón dollara markaðskostnaði væri notað til að styrkja bændur þá myndu kjör þeirra bætast gífurlega.

Þrír risar eru á páskaeggjamarkaðnum íslenska, Nói-Síríus, Góa og Freyja. Aðeins eitt er með verkefni fyrir bændur en það er Nói-Síríus.Súkkulaði frá þeim er QPP framleitt. QPP (Quality partner program) gerir kakóræktendum kleift að rækta og framleiða kakóið á sjálfbæran og ábyrgan hátt.

Freyja og Góa gefa ekki upp neina vottun á sínum vefsíðum. Þau vinna ekki að samfélagslegri ábyrgð.

Vona að þið njótið páskanna en pælið í þessu og skrifið íslenskum páskaeggjaframleiðendum bréf og biðjið um stefnu þeirra um siðræna vottun í aðfangakeðjunni.

Ég naut betur páskaeggs #2 frá Nóa-Síríus þegar ég las um QPP verkefnið.

cocoa-beans

Kakóbaun sem súkkulaðið í páskaegginu er unnið úr.

Tenglar:

http://www.theguardian.com/business/2015/apr/04/cheap-chocolate-cocoa-farmers-africa-easter-eggs?CMP=fb_gu


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sigurpáll Ingibergsson

Höfundur

Sigurpáll Ingibergsson
Sigurpáll Ingibergsson
Hornfirðingur búsettur í Kópavogi. Árgerð 1965.
Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • IMG 4410
  • IMG 4385
  • IMG 4421
  • Á afskekktum stað
  • Tíminn051071

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (5.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 6
  • Sl. viku: 35
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 32
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband