Færsluflokkur: Bækur

Íslandsferð sumarið 1857

Fyrir nokkru áskotnaðist mér bók ÍSLANDSFERÐ SUMARIÐ 1857, úr minnisblöðum og bréfum frá Nils O:son Gadde (1834-1904).

Þetta var fyrsti sænski vísindaleiðangurinn til Íslands undir stjórn Otto Torell (1828-1900), en ferðafélagi hans var Nils 0:son Gadde sem skrifaði hjá sér lýsingar á ferðinni og því sem fyrir augu bar. Tveir aðrir Svíar voru með í leiðangrinum, Cato og Andres.

nilsosongadde_islandsferdsumarid1857

Leiðangurinn hófst í Þistilfirði og endaði á Akureyri með viðkomu á Mývatni. Þeir unnu að rannsóknum á jöklum í Hornafirði og mældu skriðhraða Svínafellsjökuls í Öræfum.

En Skjaldbreið er mér ofarlega í huga á Jónsmessu eftir Jónsmessugöngu með Ferðafélaginu um síðustu helgi. Þegar þeir félagar koma að Þingvöllum í lok ágúst og lýsa furðum landsvæðisins og þegar þeir sjá Skjaldbreið skrifar Gadde:

Þingvallasvæðið myndast af illræmdum hraunstraumi sem í annan endann teygir sig til upphafs síns, hinnar snævi þöktu hraundyngju Skjaldbreiðar – heiti fjallsins er samsett úr tveim orðum sem tákna skjöldur og breiður – en sökkvir hinum í Þingvallarvatn.  Á þessum hraunfláka eru hinar nafnfrægu gjár, Almannagjá og Hrafnagjá, ásamt fleiri gjám smærri.  Í nokkrum þeirra getur maður séð niður 100-200 fet: allt sem þar er að sjá er gert úr miklum hraunbjörgum.  Einnig finnast stórir hellar á jörðinni, sennilega þannig til orðnir að hraunið hefur haldið áfram að renna undir yfirborðinu eftir að  það var storknað„   

"Í hinu mikla dalflæmi blasir við jafnrunnið hraun með djúpum gjám, báðum megin þess fjallgarðarnir sem afmarka það og fyrir botninum Skjaldbreið með sinni breiðu bungu."                                    (bls. 113, Íslandsferð sumarið 1857)

Hér er Gadde eflaust undir áhrifum frá Jónasi Hallgrímssyni, náttúrufræðingi og skáldi sem ferðaðist um Ísland sumarið 1841. Á ferð sinni um Þingvallasvæðið villtist hann frá ferðafélögum sínum og orti kvæðið Fjallið Skjaldbreiður sem birtist fyrst í 8. árgangi Fjölnis árið 1845. Í ljóðinu bregður skáldið upp skemmtilegri mynd af sögu svæðisins, tilurð Skjaldbreiðar og þátt þess í myndun Þingvallavatns. Hér er fyrsta erindið:

Fanna skautar faldi háum,
fjallið, allra hæða val;
hrauna veitir bárum bláum
breiðan fram um heiðardal.
Löngu hefur Logi reiður
lokið steypu þessa við.
Ógna-skjöldur bungubreiður
ber með sóma rjettnefnið.

En Jónas vissi heldur ekki um landrekskenninguna né ísaldarkenninguna en fyrstu hugmyndir um ísöld komu fram um 1815 og urðu ekki viðurkenndar fyrr en um miðja nítjándu öldina. 

Kvæðið lifir, þótt kenningin um myndun þess sé í einhverjum atriðum fallin. En rómantíkin í kringum það hefur haldið ímynd Skjaldbreiðar og Þingvalla á lofti.

Svo heldur lífsnautnamaðurinn Gadde áfram nokkur síðar:

Almannagjá vestan hraunstraumsins úr Skjaldbreið og  Hrafnagjá austan hans urðu til við það að hraunflákinn, sem er jarðmíla á breidd, sökk. Vesturveggur Almannagjár og austurveggur Hrafnagjár mynda standberg sem gagnstæðir veggir gjánna sprungu frá við sig hraunsins á milli þeirra.“

Þarna er ekki komin þekking á landrekskenningunni en ummerki hennar eru augljós á Þingvöllum en 1915 setti þýski jarðeðlisfræðingurinn Alfred Wegener (1880-1930) kenninguna fram í bókinni Myndun meginlanda og úthafa árið 1915.   

Gadde er eins og flestir ferðamenn bergnuminn af náttúrufegurð landsins og bókstaflega á kafi í ýmsum undrum: eldfjöllum, goshverum, fossum og sólarlagi.

Það er gaman að lesa 158 ára frásögn, en þekking og skilningur á landmótun hefur aukist en upplifunin er ávallt sú sama

 


The Secret Life of Walter Mitty ****

"Life is about courage and going into the unknown"

Mitty Ísland er hið óþekkta, spennandi, ævintýri.

Ísland er í aðalhlutverki í stórmyndinni The Secret Life of Walter Mitty og má þakka eldgosinu Eyjafjallajökli athyglina.

Ben Stiller er leikstjóri og aðalleikari kvikmyndarinnar The Secret Life of Walter Mitty en hún er gerð eftir samnefndri smásögu sem kom út árið 1939 eftir James Thurber og kvikmynd frá 1947. Einnig hafa nýlega verið framleiddir sjónvarpsþættir.

Walter Mitty er í óöruggustu vinnu hjá LIFE tímaritinu, leggur hart að sér við framköllun á einstökum ljósmyndum, sérstaklega frá Sean O'Connell, okkar RAX, sem leikinn er af Sean Penn. Ný tækni er að taka völdin, starfræna tæknin. Netútgáfa.

Nýrri tæki fylgja breytingar. Sjá má fyrir sér í myndinni breytingarstjórann, útvarpsstjórann Páll Magnússon.

Mitty helgar starfinu lífi sínu og gerir fátt markvert. Hann bætir það upp með dagdraumum eins og við öll þekkjum. Hann tekur dagdraumana alla leið og dettur út.

Myndin er því óður til starfsmanna á plani.

Þegar umbreytingin á sér stað, þá þarf að grípa í taumana. Mitty dregur djúpt andann og heldur á vit hins ókunna. Hann ákveður að leita uppi RAXA og fer í ævintýraferð til Grænlands og þaðan til Íslands. Síðan til Afganistan. Ævintýrin gerast ekki betri nú til dags.

Loks fær Ísland að vera Ísland.

Yfirleitt er landið notað fyrir önnur lönd en hér talar landið fyrir sjálft sig. En tökur á landinu eru einnig notaðar í önnur atriði.   Fyrir Hornfirðinga eru nokkur falleg og góð skot. Hornafjarðarflugvöllur tekur á móti stærstu flugvél sem lent hefur á vellinum fyrr og síðar. Einnig sést Vestrahorn með Skarðsfjörðinn í sinni fallegustu mynd.

Nokkrir íslenskir leikarar koma við sögu. Stærsta bitann fær Ólafur Darri Ólafsson, þyrluflugmaður. Ari Matthíasson er góður sjómaður og kennir framburð á tungubrjótinum Eyjafjallajökull. Þórhallur Sigurðsson (ekki Laddi) er grásprengdur skipstjóri. Einnig er mikill asi á Gunnari Helgasyni hótelhaldara.

Vel gerð gaman- og ævintýramynd með rómantískri hliðarsögu. Glæsileg umgjörð enda hafa myndatökumenn haft úr miklu og fallegu myndefni að moða.  Athyglisverður kreditlisti í lokinn en þá er filman látin njóta sín með póstkortamyndum flestum frá Íslandi.

Helsti galli myndarinnar eru að samtöl eru hæg og framvinda sögunnar í byrjun.

Myndin fær fína dóma erlendis en var frumsýnd víða á jóladag. Þetta er mikil og góð kynning fyrir Ísland.  Sé henni fylgt rétt eftir munu fylgja margir ferðamenn.

Nú er bara að vona að stjórnvöld setji sjálfbærni og græn viðmið á oddinn svo komandi kynslóðir geti áfram nýtt landið fyrir stórmyndir. 

Tengill:

https://www.facebook.com/WalterMitty


Í fótspor Þórbergs

ÞórbergurVona að það sé góð þátttaka í Framhjágöngu Þórbergs en Ferðafélag Íslands stendur fyrir þessari stórmerkilegu ferð. Þá gekk skáldið fullur bjartsýni frá Norðurfirði í Ströndum til Reykjavíkur á þrettán dögum og með þrettán krónur í vasanum.  Þetta er þekktasta gönguferð íslenskra bókmennta.

Nú eru slétt 100 ár síðan þessi stórmerkilega ganga var gengin og er undirbúningur Ferðafélagsins til fyrirmyndar.  Glæsilegt skjal er því til vitnis.

Ég kemst því miður ekki en ætla að fylgjast með göngufólki.

Pétur Gunnarsson skrifaði um atburð þennan í bókinni ÞÞ í fátæktarlandi og svipti rómantíkinni af atburðinum.


Senn bryddir á Kötlu

BBC hefur áhyggjur af Kötlugosi. Fjölluðu þeir um komandi eldgos í grein í gær, "New Icelandic volcano eruption could have global impact". Eru þeir minnugir Eyjafjallagosinu í maí 2010 og áhrif þess á flugumferð.

Fjölmiðar víða um heim hafa vitnað í fréttina og endurómað áhyggjur sínar.

Jarðeðlisfræðingar eru hógværir og gefa yfirlitt loðin svör þegar þeir eru beðnir um að spá fyrir um næsta gos eða hve lengi gosið muni standa yfir sé það í gangi.  En ég man eftir einni undantekningu.

Spáir Kötlugosi innan fimm ára
Árið 2004 kom góður greinarflokkur í Morgunblaðinu um Kötlu og spáði Freysteinn Sigmundsson, jarðeðlisfræðingur og forstöðumaður á Norrænu eldfjallastöðinni, því að Katla myndi gjósa eftir 2-3 ár eða í mesta lagi eftir 5 ár. Hann segir þrjú merki benda til þess að Kötlugos verði á næstu árum.

"Viðvarandi landris, aukin jarðskjálftavirkni og aukinn jarðhiti á undanförnum árum. Þessi þrjú merki hafa verið viðvarandi frá árinu 1999 og það virðist ekki draga neitt úr atburðarásinni. Þess vegna tel ég að fjallið sé komið að þeim mörkum að það bresti á allra næstu árum," 

Nú er árið 2012 að og ekki bólar á gosi sem senn kemur en mikill órói hefur verið og í október mældust 512 skjálftar í Mýrdalsjökli.   Þrjú ár fram yfir gosspá eru heldur ekki langur tími þegar jarðsagan er undir.

Það er því gott að gefa ekki upp tíma í jarðvísindaspám. Dæmin sanna það.

Katla - Saga Kötluelda
Í bókinnk Katla - Saga Kötluelda eftir Svisslendinginn Werner Schutzbach er saga Kötluelda rakin frá landnámi. En eiga Kötlugos að koma okkur í opna skjöldu?  Um Kötlugos 12. október 1918 segir:

"Kötlugosið haustið 1918 telst til hinna meiri háttar gosa og það stóð yfir í rúmar þrjár vikur. Aska sem kom upp, dreifðist yfir stór svæði, en einkum til norðausturs."

Aðdragandi Kötluelda
"Þegar nokkru fyrir gosið veittu menn því athygli, að austurhluti Mýrdalsjökuls lyftist lítt eitt, en vesturhlutinn, sem sýr að Mýrdal, seig svo að klettar komu í ljós, sem áður voru huldir ís. Allt sumarið var Múlakvísl nær vatnslaus og af ám, sem falla til austurs, var óvenjuleg brennisteinslykt. Mönnum kom því ekki í hug, að Katla kynni að fara að gjósa.

Rúmri klukkustund eftir hádegi hinn 12. október 1918, það var laugardagur, fannst í Mýrdal stuttur og snarpur jarðskjálftakippur, svo að hrikti í húsum. Lausir smámunir duttu úr hillum og af veggjum. Voru svo í hálftíma sífelldar smáhræringar og titringur, og mönnum sýndist jörðin ganga í bylgjum. Skömmu síðar sást öskumökkur stíga upp yfir jöklinum. Hann var að sjá frá Vík rétt fyrir vestan fjallið Höttu. Hann var hvítur í fyrstu, en dökknaði fljótt. Um kvöldið var hann kolsvartur. Veður var rólegt og hægur vestanvindur, svo að öskumökkurinn hallaðist dálítið til austurs."

Um Kötluhlaup segir:
"Rétt eftir að öskustólpinn steig upp, ruddist jökulhlaup fram. Menn sem gengu á fjallið Höttu nálægt Vík, þegar gosið var nýbyrjað, sáu geysimikinn ljósbrúnan massa vella fram. Hann þyrlaði upp miklum sandi og ryki. Flóðið streymdi bæði í farveg Múlakvíslar og yfir Sandinn í átt til Sandvatns og ruddi með sér feiknum af grjóti, möl og ísblökkum. Þegar þessi flóðalda sjatnaði um fimmleytið, geystist enn meira flóð með ótrúlegum hraða yfir Mýrdalssand og kaffærði hann allan vestanverðan."

Kötlugosið 1918 koma því mönnum á óvart og flóðið æddi öflugt fram í byrjun hamfaranna. Því eru mælingar í dag nauðsynlegar og  stórfrlóðlegt lærdómsferli fyrir jarðvísindamenn okkar. Vonandi verða spárnar nákvæmari í kjölfarið.

Látum Kötlu húsráðskonu enda færsluna með sínum fleyga muldri er sýran fór að þrotna í kerinu í Þykkvabæjarklaustri: "Senn bryddir á Barða"

Laufskálavörður

Laufskálavörður á Mýrdalssandi með Kötlu í baksýn. Litlu vörðurar sem ferðamenn hafa hlaðið eiga að boða gæfu fyrir ferðalagið yfir sandinn. Í öflugu Kötluhlaupi gætu þessar vörður hofið í sandinn.


mbl.is Víða fjallað um Kötlu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Á afskekktum stað

Bókin Á afskekktum stað er nýútkomin og gefur Bókaútgáfan Hólum hana út. Hún er byggð á samtölum Arnþórs Gunnarssonar sagnfræðings við sex Austur-Skaftfellinga.

Viðmælendur höfundar eru hjónin Álfheiður Magnúsdóttir og Gísli Arason, sem fædd eru og uppalin á Mýrum, Ingibjörg Zophoníasdóttir á Hala í Suðursveit, Þorvaldur Þorgeirsson, sem í áratugi gegndi verkstjórn í bandarísku ratsjárstöðinni á Stokksnesi, og feðgarnir Sigurður Bjarnason og Einar Rúnar Sigurðsson á Hofsnesi í Öræfum. Á afskekktum stað er því eins konar ferðalag í tíma og rúmi.

Arnþór nær góðu sambandi við viðmælendur og ríkir greinilega mikið traust á milli aðila. Viðmælendur eru einlægir í frásögn og óhræddir við að greina frá stjórnmálaskoðunum sínum.  

Viðtalið við Álfheiði og Gísla er fallegt og sátt fólk þar á ferð.

Ingibjörg er aðkomumanneskja og gaman að sjá hennar sjónarhorn. Einnig eru skemmtilegar sögur af Torfa Steinþórssyni eiginmanni hennar. Það er gaman að sjá mismunandi stílbrigði í bókinni en í þessum viðtalskafla er sögumaður ekki að leggja fyrir beinar spurningar.

Þorvaldur segir frá kynnum sínum af varnarliðsmönnum og sýnir okkur inn í heim sem var mörgum hulinn en samskipti Hornfirðinga og Bandaríkjamanna voru lítil. Enda sést það best á því að körfubolti var ekki spilaður á Hornafirði á þessum tímum.

Feðgarnir frá Hofsnesi eru einlægir í viðtölum sínum og skín í gegn mikil ættjarðarást hjá þeim enda búa þeir á merkilegum stað. Erfiðar samgöngur voru stór þáttur í einangrun Austur-Skaftfellinga en þær breyttust þegar leið á öldina. Hættulegar ár voru brúaðar og vegatenging kom á sem og flugvélar. Athyglisverðast fannst mér þó að lesa um nýjustu samgöngubæturnar en það er Internetið.

Á afskekktum staðEinar segir svo frá: "....Það var ekki fyrr en 1997, minnir mig, sem við fengum Internettengingu heim á Hofsnes. Þá setti ég upp eigin heimasíðu þar sem voru líka upplýsingar um ferðirnar út í Ingólfshöfða."

"Fannst þeir það breyta miklu? Opnaði það einhverja möguleika?"

"Algjörlega."

"Hvernig þá?"

"Á meðan ég notaðist eingöngu við auglýsingar sem ég hengdi upp sjálfur var mikið um að ég fengi viðskiptavini sem ákváðu að slá til með skömmum fyrirvara af því að þeir höfðu séð ferðirnar auglýstar þegar þeir voru komnir á svæðið en eftir að heimasíðan kom til sögunnar fékk ég miklu fleiri viðskiptavini sem voru búnir að kynna sér ferðirnar og ákveða sig með góðum fyrirvara. Hinir síðarnefndu komu þar af leiðandi betur undirbúnir en hinir fyrrnefndu."

Svo kom ljósleiðari í Öræfin, glæsilegt framtak hjá Öræfingum og stór stökk inn í framtíðina. Einangrunin algerlega rofin.

Það kom mér á óvart að heyra í fyrsta skiptið um fyrirtækið Jöklasól sem Guðjón Jónsson frá Fagurhólsmýri stofnaði stuttu eftir tilkomu þjóðgarðsins í Skaftafelli. Boðið var upp á skoðunarferðir um Öræfi og flutti hann ferðafólk milli flugvallarins í Fagurhólsmýri og Skaftafells.

Fróðleg, skemmtileg og er þetta að sjálfsögðu hin mesta bókarbót.


Last Chance to See

Hann er skemmtilegur og fræðandi heimildarþátturinn Síðustu forvöð (Last Chance to See) sem er á mánudagskvöldum. En þættir frá BBC hafa ákveðin klassa yfir sér og komast fáir framleiðendur nálægt þeim.

Þar ferðast félagarnir Stephen Fry, leikari og Mark Carwardine, dýrafræðingur, ljósmyndari og rithöfundur um heiminn og skoða dýr sem eru í útrýmingarhættu. Þeir fylgja eftir ferð og þáttum sem gerðir voru fyrir 20 árum og bera saman.

hvalurMark Carwardine er Íslandsvinur. Ég hef orðið svo frægður að hitta hann eitt sinn á Hornafirði en þá var hann að hvetja menn til að hefja hvalaskoðunarferðir hér við land. Þetta hefur verið haustið 1993. Hann miðlaði mönnum af kunnáttu sinni. Ég man að hann var að skipuleggja ferð norður á land til Dalvíkur og Húsavíkur. Jöklaferðir voru þá nýlega um sumarið búnir að fara með farþega í skipulagðar hvalaskoðunarferðir á Sigurði Ólafssyni frá Hornafirði.

Mark var þægilegur í umgengni. Kurteis eins og allir vel uppaldir Englendingar. Sagði "thank you" reglulega. Hann var með fjölskyldumeðlimi í ferðinni á Hornafirði og þau áttu ekki orð til að lýsa náttúrufegurðinni út um hótelgluggann þegar skjannahvítan jökulinn bar við himinn.

Mark hefur ritað bækur sem gefnar hafa verið út hér á landi. Bókin Hvalir við Ísland, risar hafdjúpanna í máli og myndum ef eitt afkvæma hans.  Ari Trausti Guðmundsson þýddi og Vaka-Helgafell gaf hana út árið 1998.

Á bókarkápu segir að  hann líti á Ísland sem annað heimaland sitt og hefur komið hingað meira en 50 sinnum frá árinu 1981.

Bókin hefst á þessum skemmtilegu orðum: "Hvalaskoðun við Ísland hefði fyrir nokkrum árum þótt jafnfjarri lagi og froskköfun í Nepal, skíðamennska í Hollandi eða strandlíf á Svalbarða. Fyrsta almenna hvalaskoðunarferðin var farin frá Höfn í Hornafirði 1991 til að skoða hrefnur og hnúfubaka undan hinni stórbrotnu suðausturströnd Íslands. Allar götur síðan hefur þjónustugrein þessi vaxið að umfangi og telst landið nú afar eftirsóknarvert meðal hvalaskoðara um heim allan."

Nú er bara að bíða eftir næstu þáttaröð hjá þeim félögum, hann verður kanski um dýralíf á Íslandi.


Rafmagnsflokkurinn

Allir vita hver Besti flokkurinn er en enginn veit um Rafmagnsflokkinn.

Rafmagnsflokkurinn: Fjárhagsleg undirstaða flokksins væri rafvirkjun í geysistórum stíl, hagnýting stórra vatnsfalla sem síðan ætti að stjórna með landinu. Hann átti að stjórna landinu og leiða það til atorkusemi, velmegunar og andlegs þroska.

Þessi flokkur er hugsmíð meistara Þórbergs í nýútkominni bók, Meistarar og lærisveinar. Í einum kaflanum, Blessed are the meek, þá býr hann til persónu sem hann er meistari yfir. Lærisveinninn tekur  á móti lífsspeki meistarans og sýnir miklar framfarir en fer síðan síðan sínar eigin leiðir. Hann stofnar Rafmagnsflokkinn, hlutafélag sem ætlaði sér að gangast fyrir því að reist skyldi rafmagnsstöð við Sogsfossana til þess að veita Reykjavík og nágrenni raforku til ljósa og iðnaðar. Eflaust er þarna Einar Benediktsson á ferð eða andi hans.

En skyldi vera til rafmagnsflokkur í dag? 

Mér kemur strax í hug Sjálfstæðisflokkurinn en hann vill virkja helstu vatnsfjöll landsins á lægsta orkuverði í heimi til að skapa atvinnu. Ávinningurinn er nokkur störf, stórskemmd náttúra, gjaldþrota orkufyrirtæki og gjaldþrota bæjarfélög.

Einnig kemur Framsóknarflokkur Halldórs Ásgrímssonar upp í hugann en hann hefur ekki galað eins mikið um álver með nýjum foringja.

Rafmagnsflokkurinn hefur notað nýja tækni til að réttlæta framkvæmdir. Rafmagnsflokkur hefur innleitt hugtakið afleidd störf.

Rafmagnsflokkurinn minnist aldrei á umhverfisáhrif virkjanaframkvæmda.

Fyrir kosningarnar 2009  fór Rafmagnsflokkurinn hamförum í álversumræðum, formaður þeirra Bjarni Benediktsson fullyrti í kosningaþætti Ríkissjónvarpsins þann 8. apríl 2009 að þau störf sem fylgja tveimur nýjum álverum og „… afleidd áhrif, skipta þúsundum, skipta þúsundum.” Í kosningaauglýsingum Sjálfstæðisflokksins er fullyrt að um sé að ræða 6000 afleidd störf.

En hvar á að virkja og hvað sköpuðust mörg afleidd störf á Austurlandi? Alla vega eru margar tómar íbúðir þar í dag og fólki fækkar í fjórðungnum. Starfsmannavelta er einnig mikil í verksmiðjunni.


Eyðibýlaganga á Þingvöllum

Bláskógabyggð heitir sveitin sem Þingvellir eru staðsettir í. Í gærkveldi bar byggðin með réttu heitið Bláberjabyggð svo mikið var af bláberjum í Eyðibýlagöngu Útivistarræktarinnar. Bláskógar eru annað nafn yfir Þingvelli.

Lagt var af stað frá Þjónustumiðstöðinni og gengið eftir skógarrjóðri að Skógarkoti. Á leiðinni var mikið af bláberjum. Í Skógarkoti bjó maður að nafni Kristján Magnússon (f. 1776) og var hreppstjóri.  Hann kom í Þingvallasveit um árið 1800 og nær í heimasætuna í Skógarkoti 1801 og tekur við jörðinni árið 1806. Hann varð mikilhæfur bóndi og nýtti skóginn vel  ásamt því að afla sér og sínum fiskjar úr Þingvallavatni.  Hann átti í deilum við Þingvallaprest um skógarnytjar en þekktustu deilur hans voru vegna barnseigna en hann eignaðist 7 börn með eiginkonu sinni og 7 börn með hjákonum.  Kristján var dæmdur til hýðingar vegna þessara mála en sýslumaður fannst ekki tækt að refsa besta hreppstjóra sínum og var það aldrei gert.  Fróðir menn telja að um 6000 manns megi rekja til Kristjáns í dag.  Ég er þó ekkert skyldur honum því Íslendingabók segir að enginn skyldleiki sé með okkur.

Í bókinni Hraunfólkið - Saga úr Bláskógum eftir Björn Th. Björnsson er rakin saga Skógarkots og fólksins sem þar bjó á 19. öld.

Þaðan var stefnan sett á Hrauntún. Fara þarf yfir Þingvallaveg og eru þaðan 1,8 km að garðhleðslu við Hrauntún. 

Í Hrauntúni má sjá rústir af koti sem var reist um 1830. Hrauntún var í eyði um aldir og árið 1711 var það einungis þekkt sem örnefni í skóginum. Erfitt var um alla aðdrætti í Hrauntúni og þótti það afskekkt. Árið 1828 flutti Halldór Jónsson í Hrauntún og eftir það var samfelld byggð í Hrauntúni í um 100 ár. Í dag bera veggjarbrot og tún enn merki um búskaparhætti þar.

Dagsetning: 1. september 2010
Hæð: 108 metrar
Hæð í göngubyrjun:  108 metrar, við Þjónustumiðstöð.             
Heildargöngutími: 115 mínútur  (19:20 - 21:15)
Erfiðleikastig: 1 skór
GPS-hnit Skógarkot:  N: 64.15.734 - W: 21.04.230

Vegalengd:  8,1 km

Veður kl 21, Þingvellir: 12,8 gráður,  1 m/s af S, raki 85%
Þátttakendur: Útivistarræktin, 36 manns.                                                                     
GSM samband:  Já - gott samband
Gönguleiðalýsing: Létt ganga um skógarstíga í þjóðgarðinum. Lagt frá Þjónustumiðstöð að  Skógarkoti þaðan er stefnan sett á Hrauntún. Þar eru uppistandandi garðhleðslur og heimreið að bæ sem er löngu horfinn

 Skogarkot

Sögustund við Skógarkot

Heimild:

Ferlir.is og thingvellir.is


Í fótspor Þórbergs

Vegna útkomu bókarinnar Meistarar og lærisveinar bauð Forlagið í gönguferð um Vesturbæinn, í fótspor Þórbergs.  Bókin eða kiljan er byggð á „stóra handritinu“ hans Þórbergs Þórðarsonar sem er að líkindum uppkast að þriðja bindi skáldævisögu hans, í kjölfar Íslensks aðals og Ofvitans.

Það var fjölmenn ganga og sá meistarinn Pétur Gunnarsson, rithöfundur um að uppfræða lærisveina Þórbergs. Fyrst var gengið að Unuhúsi, síðan norður Norðurstíg og leitað af húsi númer 7. Það fannst ekki, líklega horfið eða búið að breyta skipulagi. Þetta kallar þörfina fyrir því að merkja hús em hafa menningarsöguleg verðmæti.  Þaðan var haldið að Vesturgötu 35 og endað við Stýrimannastíg 9 en þar var bókin Bréf til Láru skrifuð.

Pétur greindi okkur frá ástandi í Reykjavík og aðstæðum hjá Þórbergi og las úr kaflanum í bókinni.  Ég tek hér beint bút úr bókinni en hann á vel við, það eru að koma mánaðarmót.

Norðurstígur 7

"Í þessari vistarveru var ég í tvö ár. Húsaleigan var aðeins 5 krónur á mánuði. Ég gat allt af staðið í skilum með hana. En stundum var ég algerlega frá verki tvo til þrjá daga fyrir mánaðarmótin af áhyggjum út af því, hvar ég gæti náð í 5 krónur í húsaleiguna. Þá rölti ég æfinlega aftur og fram um göturnar allan daginn frá morgni til kvölds. Skyldi þessi vilja lána, eða þessi eða þessi? Ekki strax. Seinna í dag. Ekki í dag heldur á morgun, í fyrramálið. Þá verð ég kjarkbetri, þegar ég er nývaknaður. Og í fyrramálið sagði ég: Ekki strax. Ekki fyrr en ég er búinn að éta miðdegismatinn. Þá líður mér betur, ég verð áræðnari. Eftir miðdegismatinn: Það liggur ekkert á fyrr í í kvöld. Það er eiginlega betra að slá á kvöldin. Þá er dimmara og sést ekki eins framan í mann, og þá eru menn í betra skapi etir að vera búnir að lúka þessu leiðinlega striti dagsins. Þannig leysti ég flest húsaleiguvandræði mín á árunum 1913 til 1917."

Eftir þessa hressandi göngu í Vesturbænum var keypt eintak af bókinni Meistarar og lærisveinar. Það er miklu skemmtilegra að lesa bókina eftir gönguna. Maður fær miklu betri tilfinningu fyrir húsunum og aðstöðunni sem í boði var á þessum erfiðu tímum.

Norðurstígur 5 

Göngumenn í fótsporum Þórbergs í húsasundi fyrir utan Norðurstíg 5. Þórbergur leigði herbergi á Norðurstíg 7. Þar varð fyrsta endurfæðingin en þá losnaði hann undan áhrifum frá Einar Benediktssyni í skáldskap.

Nordurstigur

Hér er kort af ja.is sem sýnir núverandi skipulag við Norðurstíg.


Eyjafjalla skallinn

Meðan bólgan líður úr hægri ökkla mínum ligg ég við lestur til að drepa tímann. Það er gaman að lesa ferðasögur Jóns Trausta (Guðmundar Magnússonar) fyrir einni öld. Hann gekk á fjöll og firindi og var frumherji í fjallamennsku. Hann skrifaði um ferðir sínar og gaman að bera saman við nútímann.  Ein grein sem birtist í Fanney árið 1919 er um Eyjafjallajökul. Þar kemur eldgosið 1821 til 1823 fyrir.  Læt ágæta vísu og fréttaskýringu fylgja með.

 

Eyjafjallajökull hefir líka gosið eldi; síðast 1822. Þá kvað Bjarni Thorarensen:

   Tindafjöll skjálfa, en titrar jörð,
   tindrar um fagrahvels boga,
   snjósteinninn bráðnar, en björg klofna hörð,
   brýst þá fyrst mökkur um hárlausna svörð
   og lýstur upp gullrauðum loga.
   Hver þar svo brenni, ef þú spyr að,
   Eyjafjalla skallinn gamli er það.

Eldgjáin var þá sunnan og vestan í hábungu jökulsins, og rann vatnsflóð ofan á sandana við Markarfljót. Vatnið gat ekki safnast fyrir vegna brattans, svo að það gerði lítinn usla, en öskufall varð mikið. Við það tækifæri fengu Reykjavíkurbúar dálítið af ösku í nefið með sunnanvindinum.

Heimild:
Jón Trausti, ritsafn, 8. bindi, bls. 245.
Úr greininni Eyjafjallajökull sem birtist í Fanney 1919, 5. hefti.

 


mbl.is Eitt öflugasta hverasvæðið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sigurpáll Ingibergsson

Höfundur

Sigurpáll Ingibergsson
Sigurpáll Ingibergsson
Hornfirðingur búsettur í Kópavogi. Árgerð 1965.
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • IMG 4410
  • IMG 4385
  • IMG 4421
  • Á afskekktum stað
  • Tíminn051071

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 1
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 55
  • Frá upphafi: 233593

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 46
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband