26.8.2012 | 12:10
Armstrong og Nautagil
Nú er Neil Armstrong geimfari allur. Blessuð sé minning hans.
Þegar fréttin um andlát hans barst þá reikaði hugurinn til Öskju en ég gekk Öskjuveginn árið 2006 og komu geimfarar NASA til sögunnar í þeirri ferð.
Gil eitt ber nafnið Nautagil en hvað voru naut að gera á þessum slóðum?
Svarið kom á leiðinni í Nautagil. Geimfarar NASA sem unnu að Appolo geimferðaáætluninni komu tvisvar til Íslands til æfinga fyrir fyrstu tunglferðina en þeir töldu aðstæður í Öskju líkjast mjög aðstæðum á tunglinu. Þeir komu fyrst í Öskju árið 1965 og tveim árum síðar með minni hóp.
Nafngiftin er komin frá jarðfræðingunum og húmoristunum Sigurði Þórainssyni og Guðmundi Sigvaldasyni. Geimfari er astroNAUT á ensku og framhaldið er augljóst.
Margt bar fyrir augu í Nautagili, m.a. vel falin bergrós ofarlega í mynni gilsins.
Hér er mynd af Eyvindi Barðasyni við Bergrósina í Nautagili árið 2006
Hér eru geimfararnir að skoða sömu bergrós. Mynd af goiceland.is eftir Sverrir Pálsson og NASA.
Eitt par, náttúrufræðingarnir, í hópnum ákváðu að sofa úti um eina nóttina og tengjast náttúrunni betur. Þau fetuð í spor ekki ómerkari manna en geimfarana Anders og Armstrong er lögðust í svefnpoka sína úti undir berum himni þegar þeir voru í Öskju fyrir 45 árum. Neil Armstrong átti í kjölfarið eftir að stíga fyrstur manna á tunglið og segja setninguna frægu, Þetta er lítið skref fyrir einn mann en risastökk fyrir mankynið.
Eit
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 12:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.8.2012 | 14:22
Rafbíll
Hann var rafmagnaður vinnudagurinn í dag.
Ég kom keyrandi í vinnuna í rafbíl sem Iðnaðarráðuneytið lánaði. Rafbíllinn er af gerðinni Mitsubishi MiEV, er fjögurra manna og hefur um 50-70 km drægni i einni hleðslu. Gengur bíllinn undir nafninu Jarðarberið.
Vinnufélagar voru ánægðir með bílinn og fljótir að læra á hann þótt stýrið væri öfugu megin. Hann rúmaði fólkið vel, þótt smágerður og léttur sé. Rafbíllinn er mjög hljóðlátur og kom það flestum á óvart. Ekkert hljóð þegar hann var ræstur. Einnig kom á óvart hversu fljótt tæmdist af rafgeyminum en það munaði miklu hvort bíllin var í D eða Eco drifi.
Þetta er liður í verkefninu Græn orka, orkuskipti í samgöngum sem Iðnarðarráðuneytið stendur fyrir og markmiðið með verkefninu er að kynna fyrir fyritækjum og starfsfólki nýja valkosti í orkugjöfum.
Í framtíðarsýn ríkisstjórnarinnar sem sett er fram í stefnuskjalinu, Ísland 2020, eru kynnt eftirfarandi markmið:
- Í samgöngum og sjávarútvegi verði að minnsta kosti 10% orkugjafa af endurnýjanlegum uppruna árið 2020
- Árið 2020 gangi 75% nýskráðra bifreiða, undir fimm tonnum að þyngd, fyrir endurnýjanlegum orkugjöfum.
En þess má geta að árið 2010 var Ísland með hæstu skráðu CO2 meðaltalslosun nýskráðra fólksbíla af öllum löndum á evrópska efnahagssvæðinu.
Ísland býr yfir þeirri sérstöðu að allt rafmagn í landinu er af endurnýjanlegum uppruna, úr vatnsaflsvirkjunum og jarðvarmavirkjunum, og raforka er þess vegna mjög hentugur orkugjafi fyrir samgöngur hér á landi.
Ljóst er að ríkisvaldið þarf að stíga ákveðið fram til að orkuskiptin verði að veruleika og hefur Alþingi samþykkja ný lög sem kveða á um að virðisaukaskattur af raf- og vetnisbílum sem kosta innan við sex milljónir falli niður.
Í kjölfarið má búast við því að flest bílaumboðin fari að bjóða raf- og tvinntengibíla.
Frétt: http://www.idnadarraduneyti.is/frettir/frettatilkynningar/nr/3571
17.8.2012 | 11:34
Hólárjökull 2012
Jöklarannsóknir mínar halda áfram. Ávallt þegar ég keyri framhjá Hólárjökli sem var einn af tignarlegum skriðjöklum úr Öræfajökli, þá smelli ég ljósmynd af honum. Hólárjökull er rétt austan við Hnappavelli. Hólá kemur frá honum.
Fyrri myndin var tekin þann 16. júlí 2006 og sú nýjasta þann 14. ágúst 2012. Það sést glöggt að jökultungan hefur styst og jökullin þynnst. Rýrnun jöklanna er ein afleiðingin af hlýnun jarðar. Ég spái því að jökultungan verði horfin innan fjögurra ára. Hlutirnir gerast svo hratt.
Hólárjökull, 16. júlí 2006. Jökulsporðurinn þykkur og teygir sig niður í gilið.
Hólárjökull, 14. ágúst 2012 í þokusúld. Augljós rýrnun á 6 árum. Jökulsporðurinn hefur bæði styst og þynnst.
Sjá:
Hólárjökull 2007 - http://fiskholl.blog.is/blog/fiskholl/entry/259538/
Hólárjökull 2008 - http://fiskholl.blog.is/blog/fiskholl/entry/611572/
Hólárjökull 2009 - http://fiskholl.blog.is/blog/fiskholl/entry/911196/
Hólárjökull 2011 - http://fiskholl.blog.is/blog/fiskholl/entry/1192311/
15.8.2012 | 22:05
Klakkur í Langjökli (999 m)
Við vörum klökk yfir náttúrufegurðinni á toppi Klakks í Langjökli. Klakkur er einstakt jökulsker sem skerst inn Hagafellsjökul vestari í Langjökli. Opinber hæð Klakks er einnig áhugaverð, 999 metrar og þegar göngumaður tyllir sér á toppinn, þá gægist Klakkur yfir kílómetrann. Svona er máttur talnanna.
En til að skemma stemminguna, þá sýna GPS-tæki að Klakkur eigi nokkra metra inni. Klakkur með lágvöruhæðartöluna.
Lagt var í ferðina frá línuveginum norðan við Þórólfsfelli, stutt frá grænu sæluhúsi og tröllslegri Sultartungnalínu sem liggur fyrir norðan fellið niður í Hvalfjörð. Stefnan var tekin beint á Klakk, gengið austan við Langavatn og fylgja jökulánni og ef menn væru vel stemmdir fara hringferð og heimsækja Skersli. Af því varð ekki.
Í bókinni Íslensk fjöll, Gönguleiðir á 151 tind eftir Ara Trausta Guðmundsson og Pétur Þorleifsson er annarri leið lýst en þá er lagt í gönguna frá Tjaldafelli, meðfram Lambahlíðum og Langafelli og upp grágrýtisdyngjuna Skersli og kíkt í gíginn Fjallauga. Þessi ganga er mun lengri.
Mynd af korti við Þjónustumiðstöðina á Þingvöllum. Rauða línan sýnir göngu frá Þórólfsfeli en hin frá Tjaldafelli hjá Sköflungi en hann er líkur nafna sínum á Hengilssvæðinu.
Þó Klakkur sé kominn í bókina vinsælu, Íslensk fjöll, þá er hann fáfarinn og ef við rákumst á fótspor á fjöllum, þá voru þau gömul, sennilega frá síðasta sumri. En þrátt fyrir að gangan sé löng þá er hún þess virði. Farastjórinn Grétar W. Guðbergsson fór fyrir sex árum sömu leið og höfðu orðið nokkrar breytingar. Í minningunni var nýja jökulskerið ekki minnisstætt, meira gengið á jökli eða fönn og svo voru komin jökulker í miðlínuna sem liggur frá Klakki. Svæðið er því í sífelldri mótun.
Ferðin sóttist vel í ísnúnu hrauninu en eftir fjögurra tíma göngu var komið að rótum jökulskersins. Þá var göngulandið orðið laust undir fót. Helsta tilbreytingin á leiðinni var nýlegt nafnlaust jökulsker sem er sífellt að stækka vegna rýrnunar jökulsins. Langafell er áberandi til vesturs og eru margir áhugaverðir gígar í því. Hið tignarlega Hlöðufell og Þórólfsfell minnkuðu sífellt er lengra dró. Minnti ganga þessi mig mjög á ferð á Eiríksjökul fyrir nokkrum árum.
Hápunktur ferðarinnar var gangan á jökli. Hann var dökkur jökulsporðurinn en lýstist er ofar dró. Mikil bráðnun var á yfirborði jökulsins og vatnstaumar runnu niður jökulinn. Sandstrýtur sáust með reglulegu millibili neðarlega á jöklinum og nokkrir svelgir höfðu myndast í leysingunni en þeir geta orðið djúpir.
Þegar komið er upp á jökulinn er haldið upp á Klakk og eru göngumenn komnir í 840 metra hæð. Gangan upp fjallið er erfið, mikið laust grjót og hætta á grjóthruni. Jökullinn hefur fóðrað skerið með nýjum steinum. Þegar ofar er komið sér í móberg og er þá fast fyrir.
Komust við svo klakklaust upp á topp Klakks.
Mynd af nágrenni Klakks í Hagafellsjökli vestari í Langjökli. Tekin árið 2009.
Útsýni af Klakki er sérstakt. Langjökull með skrautlegt munstur tekur stærsta hluta sjóndeildarhringsins. Í norðvestri sér í Geitlandsjökul síðan Þórisjökull en milli þeirra liggur hið fræga huldupláss Þórisdalur og yfir honum sér í Okið. Ísalón er áberandi og Hryggjavatn í Þórisdal.
Í austri má sjá Hagafell, langan fjallsrana sem teygir sig langt upp í jökulinn frá Hagavatni. Yfir það sést aðeins á Bláfell og Jarlhettur. Tröllhetta (Stóra-Jarlhetta), ein af Jarlhettunum er glæsileg þegar hún stingur upp hausnum yfir Hagafell og Hagafellsjökul vestari, glæsileg sjón. Nokkuð mistur var og sáust sum illa og ekki minnisstæð en Kálfstindur og Högnhöfði en nær félagarnir Þórólfsfell og Hlöðufell í suðri. Langavatn og Langafell eru í ríki Skerslis og þá er komið að Skriðu, Skjaldbreið og Botnssúlur. Þar til hægri sá í Stóra-Björnsfell.
Betur af stað farið en heima setið á Frídegi verslunarmanna og fullur af endorfíni eftir kynni af jökli og jökulskerjum í ferðalok.
Dagsetning: 6. ágúst 2012 Frídagur verslunarmannaHæð Klakks: 999 m (722 m rætur jökulskers, 277 m hækkun)
GPS hnit Klakks: (N:64.34.040 - W:20.29.649)
Lægsta gönguhæð: 469 m, lægð á miðri leið
Hæð í göngubyrjun: 506 metrar við Þórólfsfell, rafmagnsstaur #163 , (N:64.27.531 - W:20.30.487)
Hækkun: 493 metrar
Uppgöngutími: 330 mín (11:10 - 16:40) 14,4 km
Heildargöngutími: 600 mínútur (11:10 - 21:10)
Erfiðleikastig: 3 skór
Vegalengd: 27 km
Veður kl. 12 Þingvellir: Skýjað, S 1 m/s, 15,8 °C. Raki 57%
Veður kl. 15 Þingvellir: Léttskýjað, NA 4 m/s, 16,0 °C. Raki 56%
Þátttakendur: Útivist, 17 þátttakendur
GSM samband: Já, á toppi en dauðir punktar á leiðinni
Klakkar: (5) Við Grundarfjörð, á Vestfjörðum, í Kerlingarfjöllum og í Hofsjökli.
Gönguleiðalýsing: Langdrægt jökulsker í einstöku umhverfi. Löng eyðimerkugarganga í ísnúnu hrauni á jafnsléttu og sérstakakt útsýni í verðlaun.
Klakkur með jökul á vinstri hönd og til hægri jökulgarð, raunar leifar af miðrönd sem lá frá Klakki meðan hann var jökulsker. Slíkir garðar eru jafnan með ískjarna og eru kallaðir "ice cored moraine" á ensku.
Heimildir:
Oddur Sigurðsson, tölvupóstur.
Íslensk fjöll, Ari Trausti Guðmundsson, Pétur Þorleifsson
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Sigurpáll Ingibergsson
Færsluflokkar
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Enski boltinn
- Evrópumál
- Ferðalög
- Fjármál
- Fjölmiðlar
- Heilbrigðismál
- Heimspeki
- Íþróttir
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Lífstíll
- Ljóð
- Löggæsla
- Mannréttindi
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Pepsi-deildin
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Sveitarstjórnarkosningar
- Tónlist
- Trúmál
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (13.7.): 6
- Sl. sólarhring: 15
- Sl. viku: 91
- Frá upphafi: 236874
Annað
- Innlit í dag: 6
- Innlit sl. viku: 80
- Gestir í dag: 6
- IP-tölur í dag: 6
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar