75% leikurinn

Það gengur vel í mikilvægasta leik Íslands frá Olympíuleikunum í Barcelona 1992. Vinnist leikurinn eru 75% líkur á að verðlaun komi í hús.

Bakarinn er seigur í markinu og mikill hugur í leikmönnum. Staðan er núna 11-8 fyrir Ísland á þessum fallega ágústmorgni. Lífið gerist ekki betra.


mbl.is Ísland í undanúrslit á ÓL
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skrapp út ***

Skrapp á kvikmyndina Skrapp út eftir Sólveigu Anspach um helgina.

SkrappUtEftir helling af auglýsingum og stiklum birtist íslenska myndin. Hún var borin upp af háægða atvinnuleikurum og ýmsum skrautlegum karakterum, flestum úr listageiranum. Í stuttu máli segir frá dópsalanum Önnu sem hefur mikil sambönd í undirheimum Reykjavíkur. Flóran endurspeglar allan þjóðfélagsstigann. Anna er orðin leið á bransanum og stefnir á ferðalag af skerinu. Hún ákveður því að selja farsímann sinn en þar eru númer allra 300 viðskiptavina hennar. Upplýsingar eru dýrmæt eign.   Er hún er að ganga frá viðskiptunum endar hún óvænt upp á Snæfellsnesi og lendir í  æsilegri leit að farsímanum.  Á sama tíma safnast kúnnahópur hennar saman á litlu heimili hennar og er það spaugilegur hópur.

Það má segja að þetta sé vega- og farsímamynd en farsímar eru farnir að verða gríðarlega mikilvægir í söguþræði kvikmynda. Það er húmor í myndinni og  ágætis afþreying.  Nokkur stílbrot eru í frásögninni og finnst mér athyglisverðast þegar gítar kemur óvænt inn í söguna á Kvíarbryggju. Snilldar atriði og minnir á atriði í myndinni Börn náttúrunnar eftir Friðrik Þór er jeppi hverfur skyndilega í eltingaleik við lögregluna.

Einnig eru nokkrar sögur sem styðja aðalfrásögnina, þeir þræðir eru ekki gerðir upp í lokin. Ég spyr mig, hvort það sé ekki útpælt, á áhorfandinn ekki að klára þær pælingar?  Lífskúnsterinn Didda er aðal persóna myndarinnar og ef til vill er handritið skrifað með hana í huga. Hún leikur sjálfa sig og finnst mér ekki ná að slá í gegn.

Tónlistin góð í myndinni, skemmtilegur bassi og stórsveitin Hjálmar með skemmtilegt gleðilag í lok myndar sem hélt áhorfendum í sætum meðan kreditlistinn rann í gegn.

Mikið eru auglýsingar og hlé farið að fara úr böndunum í íslenskum kvikmyndahúsum. Nú fer ég að stunda sýningar hjá Græna ljósinu, þar er maður laus við þennan ófögnuð.


Enn einn Arsenalmaðurinn hjá Pompey

Portsmouth er orðið samansafn af fyrrum leikmönnum Arsenal.

Nú er Jerome Thomas (2001-04) kominn til liðs við bikarmeistara Portsmouth.  Fyrir voru Lauren (2000-07), Sol Campbell (2001-06), Kanu (1999-04) , Lassana Diarra (2007-08) og Richard Hughes (1997-98).

Jerome Thomas var á mála hjá Arsenal frá 2001 til 2004 og tók þátt í þrem Carling leikjum. Hann er fjölhæfur vængmaður, getur verið á báðum köntum. Skátar Arsenal leita að ungum leikmönnum með þá hæfileika. Því miður komst Thomas ekki áfram í samkeppni við Pennant, Pires, Edu, Reyes, Ljungberg og fleiri.

 Tony Adams er svo aðstoðarþjálfari.


mbl.is Thomas til Portsmouth
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Framtíðin er rauð og hvít

Það kemur unglingur í unglings stað hjá Arsenal. Hver snillingurinn birtist á fætur öðrum. Enginn er ómissandi.  Ekki einu sinni Evrópumeistarinn Cecs Fabregas. Stefnan er á hreinu. "Við kaupum ekki stjörnur, við búum þær til!"

Íþróttafréttamenn höfðu áhyggjur af liði Arsenal fyrir leikinn við FC Twente - Krísa hjá Arsenal, voru fyrirsagnir í morgun. Fabregas og Toure úr leik. Í staðinn fyrir Toure kom Svisslendingurinn Jóhann Djourou. Fyrir Cecs kom svo Veilsverjinn, Aaron Ramsey. Arsene Wenger mælti:

"Ég fer ekki á taugum, vegna þess að við höfum unnið hörðum höndum með ungviðið til að byggja þá upp. Til dæmis mun Djorou spila.  Ef hann getur ekki spilað í mikilvægum leikjum eins og þessum, þá erum við að eyða tíma okkar í vitleysu."

Byrjunarliðið: Almunia (31), Sagna (25), Clichy (23), Djourou (21), Gallas (31), Eboue (25), Denilson (20), Ramsey (17), Walcott (19), Adebayor (24), Van Persie (28).

Verðmætur sigur í Enschede og enginn slasaðist. Jafnteflin gætu orðið nokkur í vetur, ég hef áhyggjur af því. Ég verð að segja það.


mbl.is Arsenal stendur vel að vígi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Herðubreið sigruð

Þann 10. júlí árið 1907 varð dularfullt slys í Öskjuvatni. Þá fórust tveir Þjóðverjar með segldúksbát sínum. Þeir voru jarðfræðingurinn Walter von Knebel og Max Rudloff listmálari. Ári síðar kom heitkona Knebel, Ina von Grumbkow ásamt jarðfræðingnum dr. Hans Reck til að leita skýringa á slysinu. Með í ferðinni var bóndinn Sigurður Sumarliðason. Eftir ferðina gaf Ina út bókina, "ÍSAFOLD - Ferðamyndir frá Íslandi".

Á leiðinni í Öskju gengu Reck og Sigurður á Kollóttudyngju. Dagurinn á eftir var hvíldardagur, fyrir hestana en leyndardómar hinnar 1660 m háu Herðubreiðar freistuð þrautseigra ungra krafta jarðfræðingsins Hans Reck.

Í bókinni Ísafold segir þetta um gönguna á Herðubreið, 13. ágúst 1908.  

"Enn hafði enginn klifið risahá móbergsveggina í hlíðum hennar. Enginn mannlegur fótur hafði stigið á koll hennar. Fjallið var fram að þessu talið ógengt og enginn hafði reynt að glíma við það."

Þegar göngunni á Herðubreið er lokið skrifar Ina:

"Þeir höfðu hlaðið vörðu hæst á fjallinu, og sáum við hana öll greinilega í sjónauka. Þessi fyrsta ganga á fjallið hafði ekki aðeins mikið vísindagildi, heldur kom hún okkur einnig að góðum notum á framhaldi ferðarinnar til Öskju. Úr þessari hæð gafst þeim góð yfirsýn um víðlendið í kring. Þeir sáu að á milli Herðubreiðar og Dyngjufjalla hafði vikurinn sléttað að mestu ójöfnur hraunanna og að leiðin myndi vera tiltölulega auðveld.

Auðvitað voru þeir orðnir uppgefnir eftir þessa erfiðu og hættulegu fjallgöngu, en glaðir að hafa lokið djarfmannlegu verki. Hvíldin og maturinn hressti þá, svo að þeir gátu sagt okkur frá mörgu, sem fyrir þá bar í þessari ævintýralegu fjallgöngu. Athyglisverðastar voru eftirfarandi upplýsingar: Þegar komið var langleiðina á brún fjallsins, varð á kafla fyrir þeim svart hraun undir lóðréttum hamraveggnum í upsum fjallsins, rétt áður en þeir komust upp. Til öryggis höfðu þeir sett upp sólgleraugu, svo að þeir blinduðust ekki á sólglitrandi jöklinum, sem samkvæmt landabréfinu átti að þekja alla hásléttuna þar uppi. Hvílík undrun! Við augu blasti aðeins svart hraun og óhreinar fannir á stangli, þar sem þeir væntu ósnortins hreinleika jökulfannanna."

Fyrsta ganga á fjalladrottninguna Herðubreið var því fyrir tilviljun. Eiginlega má segja að hún hafi verið fyrir slys. Dr. Hans Reck varð síðar háskólakennari í Berlín. Næstu árin hélt hann áfram rannsóknum íslenskra eldfjalla og ritaði töluvert um það efni.

 Norðurland290808-Reck

Hér er frétt sem birtist í Norðurlandi 29. ágúst 1908.


100 ára afmælisganga á Herðubreið

Á morgun, miðvikudaginn 13. ágúst, eru slétt hundrað ár síðan fyrst var gengið á þjóðarfjallið Herðubreið. Það afrek unnu þýski jarðvísindamaðurinn Hans Reck og Sigurður Sumarliðason, bóndi frá Bitrugerði í Kræklingahlíð.  Ferðafélag Akureyrar efnir til sérstakrar afmælisferðar á fjallið í tilefni af tímamótunum og leiðir Ingvar Teitsson hópinn.  Ég hafði stefnt að þátttöku í þessa einstöku afmælisferð en komst ekki.

Ég hef komið að uppgönguleiðinni að Herðubreið og þegar horft er upp, þá finnst manni það ótrúlegt að þykkur ís hafi verið þar á ísöld. Fjallið er kennslubókardæmi um móbergsstapa sem taldir eru myndaðir í einu mjög öflugu gosi undir þykkum jökli.

Í Lesbók Morgunblaðsins 20. nóvember 1927 er góð grein "Gengið á Herðubreið". Þar segir Jóhannes Áskelsson, jarðfræðingur frá ferð sem hann fór ásamt þýskum vísindamanni dr. Sorge, þann 22. júlí, til að sanna að hægt væri að ganga á Herðubreið og staðfesti þar með að ferðin 1908 var farin. 

"Eins og kunnugt er hefir Herðubreið lengstum verið talin ógeng. Að vísu gekk dr. Reck upp á hana sumarið 1908, en nágrannar Herðubreiðar, Mývetningar, drógu orð hans mjög í efa, mest vegna þess þeim þótti hann vera fljótur í ferðum. Síðan hefur engin tilraun verð gerð til að ganga á fjallið fyrr en okkar."

Þetta er einnig merkileg ferð og gaman að lesa ferðasöguna. Þeir fóru aðra leið upp, gengu suðaustan á fjallið en dr. Reck frá hinni hliðinni, eða frá norðvestri en það er leiðin sem jafnan er farin nú á dögum.

Fyrir 80 árum hefur þekking á gosi undir jökli ekki verið þekkt, en ég man að þetta var 10% spurning í jarðfræði hjá Einar Óskarssyni í Menntaskólanum að Laugarvatni.  Jóhannes og félagar höfðu þessar hugmyndir um mótun Herðubreiðar.

"Þar sem Herðubreið er svo erfið uppgöngu, hefur reynst örðugt að ákveða um myndun hennar. - Nokkrir hafa með tilliti til útlits hennar í fjarlægð, álitið hana bergstabba, sem staðið hafi eftir, er landið á milli Bárðardals og Jökulsár seig. Aðrir hugðu Herðubreið vera eldfjall, sem hlaðist hafi upp af gosum."

Veðurspáin er góð og allt bendir til að skafheiðríkt verði á fjöllum. Ég óska göngugörpum í 100 ára afmælisferðinni á Herðubreið góðrar skemmtunar og geng með þeim í huganum.

HerdubreidOfl

Herðubreiðarfjöll, Eggert, Kollóttadyngja, Herðubreið  og Herðubreiðartögl. Bræðrafell ber í Herðubreið.


Hólárjökull hopar einnig

Það hopa fleiri jöklar en Snæfellsjökull.  Ég tók myndir með árs millibili af Hólárjökli, rétt austan við Hnappavelli. Hann er einn af tignarlegum skriðjöklum úr Öræfjajökli.

Fyrri myndin var tekin þann 16. júlí 2006. Önnur myndin 1. júlí 2007 og sú nýjasta þann 3. júlí 2008.  Það sést glöggt að jökultungan hefur styst og jökullin þynnst. Þett er ein afleiðingin af hlýnun jarðar. Hólárjökull hefur eflaust látið meira undan síðustu vikur.

160707 010707


mbl.is Snæfellsjökull hopar hratt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fangar frelsisins

FangarFrelsisinsÍ dag eru rétt tíu ár síðan minnismerkið um Fjalla-Eyvind og Höllu, Fangar frelsisins,  var afhjúpað á Hveravöllum.

Í fjallaferðum um óbyggðir Ísland er mér ávallt hugsað til þessara útileguhetja. Saga þeirra hefur gefið manni kraft.

Ég var staddur á Hveravöllum á heitasta degi ársins, miðvikudaginn 30. ágúst þegar hitamet féllu. Þau skötuhjú hafa örugglega ekki  upplifað annan eins hita á allri sinni æfi á Hálendi Íslands.

Listaverkið er eftir Magnús Tómasson, myndlistarmann á Ökrum á Mýrum. Fjalla-Eyvinarfélagið stóð á bakvið hugmyndina.

Listaverkið samanstendur af rimlum og steinum. Innan rimlanna eru tvö steinhjörtu, annað er sótt til Súðavíkur í fæðingarsveit Höllu, hitt að Hlíð í Hrunamannahreppi á fæðingarstað Eyvindar.

Á Kiðagili í Bárðardal er sýningin útilegumenn í Ódáðahrauni - goðsögn eða veruleiki og koma þau Eyvindur og Halla við sögu þar einnig Grettir og fleiri góðir menn. 

Útlagar neyddust til að draga fram lífið í útjaðri samfélagsins. Sögur af útlögum í fornsögum minna oft á útlagana í villta vestrinu, en margir hafa bent á líkindi með þeim sagnaheimum.

Nú fer eflaust að styttast í að stórmynd um útilegumenn verði framleidd á Íslandi en á fyrri hluta síðustu aldar voru leikrit og kvikmyndir byggðar á sögu Fjalla-Eyvindar vinsælt efni.


08.08.08

Þessi fallegi dagur með þessa fallegu númeraröð.   Margir framkvæma einhvern gjörning í lífi sínu á svona tímamótum. Sumir gifta sig. Aðrir skilja.  Kínverjar hefja Olympíuleika á þessum tímamótum. Ég ætla að horfa á setninguna í nótt.

Ekki fann ég neitt tilefni enda ekki hjátrúafullur maður. Þessi dagur markar hins vegar endalok sumarfrísins hjá mér. Það er einskær tilviljun.

Flott dagnúmer sem komið hafa upp á öldinni eru: 01.01.01, 02.02.02, 03.03.03, 04.04.04, 05.05.05, 06.06.06, 07.07.07.

Ég man eftir að Þorrablót Hornfirðinga á höfuðborgarsvæðinu var 2. febrúar, 2002 og hófst það klukkan 20.02.  Mikil holskefla brúðkaupa var í fyrra enda sjö mikil happatala.

Þær sem eftir eru: 09.09.09, 10.10.10, 11.11.11 og 12.12.12.


Þýli

Á Hafíssetrinu í Hillebrandtshúsi, elsta timburhúsi landsins á Blönduósi er þessari köldu spurningu kastað fram.

Talið er að Ísland hafi heitað Þýli í a.m.k. 1200 ár. Ættum við að skipta og taka upp gamla nafnið? Hugsið málið!

Hvað ætli markaðsmenn segi um nafnabítti. Eftir tvöhundruð ár verður Ísland íslaust og ber þá ekki nafn með rentu.

Mér fannst þetta athyglisverð vitneskja um gamla nafnið á landinu okkar sem ég fékk á Hafíssetrinu í gær. Hins vegar finnst mér nafnið Þýli vera frekar óþjált og líta illa út á prenti. En það yrði borið fram eins og Thule. En þetta er svipuð pæling og cuil.com menn eru að framkvæma, vera kúl.

Nafnið Þýli er komið af gríska orðinu þýle. Gríski sæfarinn Pyþeas ritaði um ferðir sínar á fjórðu öld fyrir Krist og minnist þar meðal annars á þessa norðlægu eyju, Þýli. Segir hann ís ekki fjarri landinu í norðri, bjart nánast allan sólarhringinn um hásumar og sé þangað sex daga sigling frá Bretlandi.

Á frólega vefnum ferlir.is er þessi frásögn af nafninu Þýli.

"En laust eftir aldamótin 700, þegar norrænir víkingar, er þá og síðar vóru yfirleitt nefndir "danir", tóku að herja og ræna vestur á bóginn frá aðalbækistöð sinni á meginlandinu er enn heitir Normandí í Frakklandi, var höfuðbækistöðin flutt norður til þess óbyggða eylands, er nú heitir Ísland, en þá hét Þúla eða Þýli = Sóley, (síðar Thule eftir að þ-ið hvarf úr engilsaxnesku stafrófi), "

Að lokum má leika sér með nokkrar línur. 
  "Ég ætla heim til Þýlis!",
  "Hæstu vextir í heimi á Þýli",
  "Þýlenska kvótakerfið.

Þýli ögrum skorið

Þýli ögrum skorið,
eg vil nefna þig
sem á brjóstum borið
og blessað hefur yfir mig
fyrir skikkun skaparans.
Vertu blessað, blessi þig
blessað nafnið hans.

    Eggert Ólafsson  1726-1768 

Borgarvirki 022


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sigurpáll Ingibergsson

Höfundur

Sigurpáll Ingibergsson
Sigurpáll Ingibergsson
Hornfirðingur búsettur í Kópavogi. Árgerð 1965.
Ágúst 2008
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • IMG 4410
  • IMG 4385
  • IMG 4421
  • Á afskekktum stað
  • Tíminn051071

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (15.7.): 12
  • Sl. sólarhring: 17
  • Sl. viku: 101
  • Frá upphafi: 236918

Annað

  • Innlit í dag: 11
  • Innlit sl. viku: 89
  • Gestir í dag: 10
  • IP-tölur í dag: 10

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband