Geirólfsgnúpur (433 m)

Gnúpagönguferð við rætur Drangajökuls

Það hafði verið úrkoma dagana áður en spáin lofaði breytingum. Þegar kíkt var út um gluggann um morguninn þá lágu ský niður í miðjar hlíðar gnúpanna tveggja, Geirólfsgnúps og Sigluvíkurgnúps.

Eftir teygjuæfingar fyrir göngu dagsins brutust fyrstu sólargeislar í gegnum skýin og það lofaði góðu. 

Fyrst var gengið í gegnum kríuvarp og þaðan þvert yfir 600 metra flugvöll sem duglegir Reykjafjarðarbændur hafa byggt til að rjúfa einangrun. Ryðgaður valtari beið við vallarendann og blóm stungu upp kollinum á flugbrautinni. Nýtt landnám hafið.

Reykjarfjarðarós var helsta áskorun dagsins en hann er jökulá sem á upptök í Drangajökli. Reykjarfjarðarjökull, skriðjökull úr Drangajökli hefur hopað frá ósnum og jökuláin lengist en nafnið breytist ekki.

Ólína farastjóri fann bestu leiðina yfir Ósinn og allir göngumenn komust klakklaust yfir en trikkið er að horfa ekki í strauminn og taka stutt skref og þreifa fyrir sér með göngustöfum. 

Þegar komið var yfir jökulána stutt frá rústum af bænum Sæbóli þá var sagan af biskupnum Guðmundi góða sögð en hann fótbrotnaði illa og náði heilsu í bænum yfir veturinn.

Síðan var gengið meðfram Sigluvíkurnúp eftir manna og kindaslóð að Sigluvík. Á smá kafla var bratt  niður að sjó. Þá sáust vel skilin á milli jökulvatnsins og hafsins en mikil næringarefni eru í framburði jökuláa. Fjörðurinn við Ósinn var jökullitaður en liturinn þynntist út þegar lengra kom.

Rekaviður í víkum og plastrusl frá sjávarútvegnum. Gular netakúlur, netahringir og net mest áberandi.

Drangajökull rís yfir landinu í vestri með björtu hveli móti himni og með skerin sín sem sífellt eru að stækka, Hrolleifsborg (851 m), Reyðarbungu og Hljóðabungu (825 m). Jökulbunga hæst. 

Þegar ofar kom upp í hálsinn þá sá yst í fjarðaröðinni í Kálfatinda á Hornbjargi, glæsilegt horn sem við misstum af í þokunni daginn áður.

Gengið upp á milli gnúpanna upp á lágan háls sem nefnist ýmist Sigluvíkurháls (223 m) eða Skjaldarvíkurháls og þá opnaðist útsýni yfir í Skjaldabjarnarvík með glæsileg Drangaskörð sem minntu á hala á risaeðlu. Mögnuð sýn. Síðan var hægt að rekja tinda í Strandasýslu.

Geirólfsgnúpur hækkar í ávala bungu sem hæst er 433 m. er kallast Geirhólmur. Þar er varða og endaði uppgangan þar.

Sýslumörk N-Ísafjarðarsýslu og Strandarsýslu liggja um Geirólfsgnúp. Við hoppuðum á milli sýslumanna.

Þrjár kenningar um nafnið á Geirmundargnúp.  Sú fyrsta er úr Landnámu en Geirólfur braut skip sitt við Geirólfsgnúp. Önnur er náttúrunafnakenningin, að nafni tengist "geirr eða spjóti". Haft um fjöll og kletta, sem skaga fram eða eru oddhvassir en gnúpurinn gengur út í hafið. Sú þriðja er sett fram í Árbók FÍ 1994 en hún gengur út að geirfugl hafi verið í gnúpnum og hann dragi nafnið af því en Strandamenn gáfu bæjum og kennileitum nöfn eftir landnytjum.

Þetta var fullkominn dagur, þrír sjónrænir gimsteinar í náttúru Íslands negldir á einum degi. Drangajökull, Hornbjarg og Drangaskörð við ysta haf.

Heimleiðin gekk vel, gengin sama leið og það hafði minnkað í jökulánni en merkilegt hvað göngufólk var ánægt með að fá óvænt fótabað. Því leið betur á eftir.

Að endingu var hin frábæra og þrifalega sundlaug í Reykjarfirði heimsótt, stórkostlegt mannvirki í tóminu. þar var slakað á í kvöldsólinni og hlustað á gargið í kríunni.

Gnúparnir tveir voru komnir með ský niður í miðjar hlíðar. Við nýttum gluggann vel.

Hornstrandir

Næst er jökullitaður Reykjarfjörður, þá Þaralátursnes og Þaralátursfjörður handan, Furufjörður og ein af Bolungarvíkum á Vestfjörðum. Síðan sér í Straumnes og handan þeirra Barðsvík og Smiðjuvík. Látravík er fyrir framan glæsilega Kálfatinda. 

Geirhólmur: 433 m (N: 66.15.610 – W: 21.58.671)
Göngubyrjun: Reykjarfjörður 4 m (N: 66.15.473 – W: 22.05.282)
Uppsöfnuð hækkun: 627 m
Uppgöngutími: 120 mín (13:30 - 15:15)
Heildargöngutími: 540 mín (10:20 - 19:20)
Erfiðleikastig: 1 skór
Sigluvíkurháls: 223 m (N: 66.15.098 - W: 21.59.709)
Vegalengd: 16,1 km
Veður: NA og léttskýjað, hiti um 8 gráður
Þátttakendur: Ferðafélag Íslands, sumarleyfisferð – Við rætur Drangajökuls,  10 göngumenn. Fararstjórar Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir og Sigurður Pétursson, traust og fróðleg.
GSM samband: Já, á Geirhólmi

Gönguleiðalýsing: Þjóðleið yfir jökulá, Reykjafjarðaós. Gengið eftir slóða meðfram Sigluvíkurnúp og upp hálsinn. Þaðan haldið á Geirhólm og útsýni yfir ysta haf frá Hornbjargi að Drangaskörðum.


Plastrusl í hafinu

Ábyrgð á plastrusli

Sá færslu frá SÞ Ísland um plastrusl í hafinu á samfélagsmiðli. Aðeins er minnst á plastrusl frá almenning, rör, plastflöskur og matarumbúðir en í nýlegri rannsókn á hafsvæði Íslands þá er 94% af úrgangi í hafinu veiðarfæri sem með tímanum breytist í örplast.

"Alls var 94,1% af rusl­inu sem fannst veiðarfæri, megnið fiskilína eða 80,5%. Al­mennt rusl eins og til að mynda plast­pok­ar, plast­film­ur og áldós­ir var aðeins 5,9% af því sem fannst."


Hér er verið að varpa ábyrgðinni á almenning en freki karlinn, sjávarútvegurinn sleppur algerlega.


Stjórnvöld og hagsmunasamtök verða að ráðast á garðinn þar sem hann er hæstur.
Það þarf að fjarlægja plastruslið og þeir eiga að borga sem menga. 

Ég gekk um Hornstrandir í byrjun mánaðar og það var sorglegt að sjá netakúlur og fleira frá sjávarútveginum innan um náttúlegan rekaviðinn.

 

SÞ - plastrusl í hafinu


Vörðufell (391 m) á Skeiðum

Vörðufell á Skeiðum er allmikið þríhyrningslaga fjall, um sjö km á lengd en tæpir fjórir km á breidd þar sem það er breiðast, en mjókkar mikið til norðurs. Hvítá rennur vestan við fjallið. Allmörg gil ganga niður fellinu.

Fellið er úr móbergi og grágrýti og hvassasta horn þess er nyrst og var gengið þar upp og beygt hjá skilti sem á stóð Vörðufell. Bílastæði er fyrir göngufólk.

Gangan er nokkuð greið og slóða fylgt upp á fellið um misgróna mela. Sauðfé á beit og mófuglar skemmtu okkur með söng sínum og lóan söng dirrindí og fannst okkur vera þó nokkurt vit í því.

Margar vörður eru á leiðinni á fellinu og eru landamerki jarða sem eiga hlut í fellinu en líklega hefur Vörðufell sjálft verið varða í umhverfinu fyrir ferðamenn fyrr á öldum er þeir áttu leið í hið merka Skálholt og nágrenni.

Nokkrar hæðir eru á Vörðufelli og bera þau nöfn. Birnustaðaskyggnir (378 m) er einn áberandi ás en smáfell eru dreifð um sléttuna. Jarðskjálftar hafa markað fellið.

Fyrir okkur varð fallegt stöðuvatn, sem Úlfsvatn heitir, greinilega gamall eldgígur og vatnsforðabúr sveitarinnar. Úlfsvatn var ekki hringað. Rennur smálækur suður úr því niður í Úlfsgil sem er mikið hamragil. Reynt var að rækta silung í vatninu og gekk það ekki.

Rádýrt útsýni allan hringinn.  Nær var Skálholt og Laugarás með  brúna yfir Iðu, Mosfell, Hestfjall og Hestvatn. Síðan jöklarnir glæsilegu Langjökull, Hofsjökull, Tindfjallajökull Mýrdalsjökull og Eyjafjallajökull.  Vestmannaeyjar tignarlega úti í hafi. Hekla, Ingólfsfjall og Hrútfell svo einhver þekkt fjöll séu nefnd.

Áhugavert er að sjá Tungufljót og Stóru Laxá falla í Hvítá fyrir ofan Iðu og Brúará þar sem hún fellur í Hvítá örskammt vestan Vörðufells og þá átta menn sig á því að það eru árnar sem með framburði sínum hafa skapað þetta fagra gróðurlendi

Vörðufell á Skeiðum

Ágætur staður til að hefja göngu á Vörðufell. Landeigendur ekki sáttir við að gengið sé um þeirra land.

Dagsetning: 11. júlí 2023
Vörðufell: 391 m 
Göngubyrjun: Norður undir Vörðufelli
Erfiðleikastig: 1 skór
Veður: lék við okkur, bjart og hlýtt. NNA 6 m/s, 18 stiga hiti og 44% raki.
GSM samband: Já

Gönguleiðalýsing: Létt og þægileg ganga á gott útsýnisfjall með útsýni yfir Suðurland

 

Heimildir

Fjöll á Fróni, Pétur Þorleifsson, 2010

Nafnid.is - Örnefnaskrá


Um bloggið

Sigurpáll Ingibergsson

Höfundur

Sigurpáll Ingibergsson
Sigurpáll Ingibergsson
Hornfirðingur búsettur í Kópavogi. Árgerð 1965.
Júlí 2023
S M Þ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28 29
30 31          

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • IMG 4410
  • IMG 4385
  • IMG 4421
  • Á afskekktum stað
  • Tíminn051071

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (7.7.): 3
  • Sl. sólarhring: 19
  • Sl. viku: 306
  • Frá upphafi: 236786

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 241
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband